Þessa dagana berast reglulega fréttir af ótímabærum andlátum ungs fólks vegna ofskömmtunar. Ungt fólk eru ekki einu fórnarlömb ópíóðafaraldursins sem virðist vera að ríða yfir landið en þau eru þó allt of stór hluti þeirra sem ánetjast sterkum ávanabindandi morfínlyfjum. Við erum að missa fólkið okkar, börnin okkar.
Um allt land eru foreldrar sem búa við stöðugar áhyggjur vegna barna sinna og koma að lokuðum dyrum hvert sem þau leita því litla sem enga hjálp er að fá. Heilu fjölskyldurnar eru í heljargreipum vegna ástvinar sem er fastur í viðjum fíknar og mér segir svo hugur að í nærumhverfi okkar flestra séu fleiri að glíma við þennan vanda en okkur grunar. Tölur sýna okkur það en á síðasta ári voru 36% þeirra sem lögðust inn á Vog vegna ópíóðafíknar 25 ára og yngri og á fyrstu þremur mánuðum þessa árs létust 35 einstaklingar vegna þessa, hið minnsta.
Í kirkjunni förum við ekki varhluta af þessu ástandi þar sem við fylgjum bæði fólki sem er í neyslu og fjölskyldum þeirra. Þá kemur það gjarnan í hlut presta að jarðsyngja þau sem láta lífið vegna þessa.. Í kirkjunni höfum við gríðarlegar áhyggjur af ástandinu og sjáum glöggt að eitthvað þarf að gera.
Á presta- og djáknastefnu sem haldin var í Grensáskirkju á síðustu dögum aprílmánaðar samþykktu prestar og djáknar eftirfarandi ályktun.
„Presta- og djáknastefna sem haldin er í Grensáskirkju dagana 26.-28. apríl árið 2023 skorar á ríksstjórn Íslands, Landlæknisembættið og öll þau sem fara með ákvörðunarvald innan heilbrigðisþjónustunnar að róa að því öllum árum að færa þjónustu við þau sem þjást af fíknisjúkdómi til betra horfs. Það verður aðeins gert með því að auka fræðslu, vinna gegn fordómum og forgangsraða fjármunum til málaflokksins.
Stöðugar fréttir berast af dauðsföllum af völdum ópíóða og svo er komið að rætt er um ópíóðafaraldur. Allt of margt fólk lætur lífið vegna fíknisjúkdóms, langt fyrir aldur fram. Prestar og djáknar hafa ekki farið varhluta af því að þjónusta þau sem sjúkdómurinn hrjáir og aðstandendur þeirra í sjúkdómsferlinu og þegar dauðinn kveður dyra.
Presta- og djáknastefnan styður því við skaðaminnkandi og lífgefandi meðferðarúrræði, sem byggjast á kristnum gildum um virði og reisn hverrar manneskju.“
Þetta er mál okkar allra en stjórnvöld hafa þarna góða möguleika á að grípa inn í með forgangsröðun m.a. fjármuna og jafnvel lagabreytingum. Ég efast ekki eitt augnablik um að við viljum öll stöðva þennan faraldur strax. Þegar kórónuveiran herjaði á landið okkar og heiminn allan, snerum við bökum saman og gerðum allt sem í okkar valdi stóð til þess að útrýma veirunni, með forgangsröðun og lagabreytingum. Þessi faraldur er einnig skæður og hann mun aðeins versna ef ekkert verður að gert. Það er réttur hverrar manneskju að fá að lifa með reisn og það er hlutverk hverrar manneskju að koma náunganum til hjálpar þegar hann er í neyð. Það er því mín von að okkur takist að stöðva þennan faraldur hið fyrsta.
Guð blessi öll þau sem hafa misst ástvin vegna þessa og gefi okkur kjark, kærleika og visku til þess að koma í veg fyrir að faraldurinn haldi áfram að breiðast út.
Pistillinn birtist í Grafarvogsblaðinu í maí 2023
Nársdagsprédikun í Grafarvogskirkju 1. janúar 2022
Falleg mynd í jólakúlu
Sagan um fæðingu Jesú, jólaguðspjallið, sem lesið var í kirkjum landsins í gær er svolítið eins og falleg glansmynd stráð glimmeri eða falleg mynd inni í glerkúlu sem við getum hrist og snjókornin þyrlast upp. Það er svo margt í henni sem höfðar til okkar innstu tilfinninga, eittvað sem við eigum flest sameiginlegt, hvaðan sem við komum og hvort sem við erum kristin eða ekki.
Jatan og gripahúsin eru eitthvað sem við öll tengjum við hvort sem við erum úr sveit eða borg, frá Afríku eða Íslandi. Við vitum öll hvað þetta er hvort sem við höfum fundið fjárhúsilminn í eigin lífi eða ekki.
Stjarna er eitthvað sem við öll sjáum þegar við erum úti á dimmu kvöldi hvar sem við erum í heiminum, hvort sem við erum rík eða fátæk, trúuð eða vantrúuð.
Englar eru líka verur sem við höfum öll okkar hugmyndir um, hver sem við erum. Þeir eru svo krúttlegir og friðsælir að ekki er hægt annað en hrífast með í englasögum.
Ungir foreldrar að eignast sitt fyrsta barn er nokkuð sem stór hluti mannkyns getur skilið og hefur sjálft upplifað.
Og að lokum, litla barnið. Það gerist eitthvað inni í okkar innsta og viðkvæmasta rými þegar við sjáum lítið nýfætt barn. Þegar þetta litla barn fæðist á kaldri nóttu innan um dýr af barnungri móður, þá getum við ekki hert hjarta okkar eða varið tilfinningar okkar á nokkurn hátt fyrir þeim atburði.
Það er freistandi að láta söguna um fæðingu Jesú Krists vera, greina hana ekki eða skoða á raunsæjan hátt, því þetta er saga sem höfðar meira til hjartans en til skynseminnar. Það er freistandi að láta englana bara vera engla og láta hreinar meyjar fæða börn.
En nú er raunsæi og skynsemi guðsgjöf eins og hjartað og þörfin fyrir hið dularfulla.
Fæðingasögur
Jólaguðspjallið er helgisaga.
Jesús fæddist á þeim tímum þegar hreinar meyjar fæddu mikilvæga menn, valdamikla menn. Fæðingasögur mikilmenna voru prýddar ævintýraljóma. Þannig var það t.d. með fæðingasögur Alexanders mikla og Platóns en sögurnar voru sérstaklega ævintýralegar þegar um fæðingu konunga var að ræða.
Ef til vill er skýringin sú að þegar fólk vildi sýna að fólk hefði sögulega köllun þá þyrfti að sýna að þeir hefðu haft sérstöðu frá upphafi.
Sagan af því þegar María mey fæddi son er með öðrum orðum ekki alveg einstök fyrir fæðingasögur þess tíma. Sagan um fæðingu Jesú, er saga um fæðingu konungs.
Þegar guðspjallamennirnir Markús og Lúkas skrifa guðspjöllin þá segja þeir söguna af fæðingu Jesú Krists eins og fólk sagði sögur af fæðingum konunga. Þeir voru einnig undir sterkum áhrifum hebresku spámannanna. Jesaja spámaður hafði spáð fyrir um það hvernig unga konan yrði barnshafandi og myndi fæða son sem fengi nafnið Immanúel – sem þýðir, Guð er með okkur (Jes. 7.14)
Þekkir þú Guð
En á jóladegi heyrum allt annað jólaguðspjall. Jóhannes guðspjallamaður kann engar sögur um jötur, engla og hirða. Hann á ekkert glimmer. Jóhannes er yngsti guðspjallamaðurinn og er undir ríkari áhrifum grískra heimspekinga. Hann talar um Orðið sem var til frá upphafi. Um ljósið sem myrkrið tók ekki á móti. Um hið sanna ljós sem heimurinn þekkti ekki.
Þekkir þú Guð?
Ég spyr vegna þess að höfundur jólaguðspjalls jóladags, Jóhannes þessi sem hvorki kunni að segja frá hirðum, stjörnum, englum, jötu nokkru þess háttar sem við tengjum við fallegu jólasöguna, segir okkur í dag frá því hvernig Guðs varð manneskja til þess að koma á tengslum við mannfólkið. Fólkið, við, vorum hætt að þekkja Guð og hann vildi sýna okkur hvað og hvernig Guð væri. „Í upphafi var Orðið, Orðið var hjá Guð og Orðið var Guð… Hann var í heiminum og heimurinn var orðinn til fyrir hann en heimurinn þekkti hann ekki.“ Heimurinn þekkti hann ekki!
Þekkjum við Guð?
Hver er Guð í þínum augum?
Jesús í jólunum
Í upphafi aðventunnar var viðtal við Maríu Arnlaugsdóttur en hún mun nú halda sín 101 jól. Hún hefur því nokkra reynslu af jólahaldi. Hún sagði frá því að í æsku hafi hún lært að jólin tengdust Guði og væru haldin til að fagna Jesúbarninu, að ekki hafi verið haldið upp á neitt annað. Hún sagði að í hennar ungdæmi hafi jólin verið látlausasti en að í dag sé ofgnótt af öllu og að jólin nú snúist meira um gjafir en Guð. Hún saknar Guðs í jónum og finnst of lítið talað um Guð í aðdraganda jóla. Ég get tekið undir þetta með henni að mörgu leyti þó ekki hafi ég lifað jafn mörg jól og hún. Í fjölmenningarsamfélagi Íslands í dag má ekki mikið ræða trú, jafnvel ekki í aðdraganda jóla. Mér þykir líklegt að samfélagið, sérstaklega Reykjavík, hafi gengið heldur langt í að ýta kristninni til hliðar við innleiðingu fjölmenningar. Ég vona að þetta muni jafna sig með tíð og tíma.
En, vitið þið, ég óttast þó ekki að jólin hætti að snúast um Jesú því að jólin hætta ekki að vera kristin þó að við segjum ekki jafn margar sögur af Jesúbarninu á opinberum vettvangi (annars staðar en í kirkjunni). Nei, við höldum Jesú í jólunum með því að gefa hungruðum mat, hugga sorgmædd, elska þau sem eru utanveltu, fyrirgefa þeim sem hafa gert eitthvað á okkar hlut og boða vonlausum von. Jesús er með í jólunum svo lengi sem við elskum náungann og komum fram við allt fólk af kærleika.
Ég hef ekki áhyggjur af því að Jesús hverfi úr jólunum þegar ég upplifi náungakærleikann blómstra allt í kringum okkur. Ég sé hann þegar fólk mótmælir því kröftuglega að Reykjavíkurborg loki Vin, sem er skjól fyrir fólk með geðsjúkdóma. Ég sé náungakærleikann þegar fólk mótmælir því að börn og fólk með fötlun sé sent úr landi þegar það þarf sannarlega á skjóli að halda. Ég sé náungakærleikann afar skýrt fyrir þessi jól þegar fjöldi félagasamtaka heldur safnanir og gefur ágóðann í líknarsjóði kirkna og hjálparsamtaka til þess að hjálpa þeim fyrir jólin sem búa við fátækt. Og þegar einstaklingar koma í kirkjuna í og gefa í líknarsjóð og deila þannig með sér. Já, svo lengi sem við höldum áfram að mótmæla óréttlæti og styðja þau sem þurfa á hjálp að halda þá er Jesús með í jólunum.
Trú snýst ekki eingöngu um það hversu oft þú ferð í kirkju, hvort skólabörn fari í heimsókn í kirkjuna eða hvort þú kunnir trúarjátninguna þó vissulega sé þetta allt gott og mörgum okkar mikilvægt. Trú snýst um að trúa því að til sé eitthvað æðra okkur sem er meiri kærleikur en við höfum nokkurn tíma kynnst og sem fær okkur til að vilja gera vilja Guðs.
Þekkir þú Guð?
Og, þá aftur að spurningunni: „Þekkir þú Guð“?
Ef þú trúir á eitthvað æðra þér sem getur birst okkur í ótrúlegustu aðstæðum og jafnvel í ótrúlegasta fólki, þá þekkir þú Guð. Ég trúi því að Guð sé hinn æðsti kærleikur sem birtist okkur þegar mest á reynir en við tökum sjaldnast eftir því vegna þess að Guð er ekki eins við höldum. Ég trúi því að Guð geti birst í þér og mér þegar við reynumst hvort öðru vel. Ég trúi því líka að Guð geti birst í litla barninu sem fæddist í dag og í heimilislausu konunni sem kom í kirkjuna að þiggja styrk fyrir jólin og þeim sem gaf nafnlaust af örlæti sínu. Ég trúi því að Guð sé mitt á meðal okkar í öllu því sem skiptir okkur máli.
Fallega jólaguðspjallið sem lesið var í kirkjum landsins í gær er afar ólíkt því sem við heyrum í dag. Í gær var það fallega fæðingasagan með englunum, stjörnunni og hirðunum sem sveif yfir öllu. Í dag er það raunsæið þar sem við veltum fyrir okkur hvort við þekkjum Guð. Bæði er mikilvægt. Við þurfum helgisögurnar því þær koma tilfinningum og hugmyndum áleiðis. Þær segja okkur annan sannleika en hinn sögulega. Um leið þurfum við raunsæið því það er hluti af trúarþroskanum.
Dýrð sé Guði sem þekkir okkur og vill að við þekkjum sig.
Amen.
Prédikun fyrsta sunnudag í aöventu 2022
Í sjónvarpsþáttunum The Big Bang theory er sagt fá því í jólaþætti í fyrstu þáttaröðinni að Penny, stelpan sem býr í íbúðinni hinum megin við ganginn, tilkynnir Sheldon, aðal nördinum (sem er áreiðanlega einhverfur) að hún ætli að gefa honum jólagjöf. Sheldon lifir mjög svo skipulögðu lífi, ferköntuðu jafnvel þar sem ekkert óvænt má gerast og þegar hann heyrir þetta þá fær hann í kvíðakast. Hann er nefnilega með ákveðnar hugmyndir um jólagjafir. Hann gefur aðeins örfáum jólagjafir og vill bara fá jólagjafir frá þessu sama fólki og það er ákaflega mikilvægt að jólagjafirnar sem hann gefur og þær sem hann fær, séu í sama verðflokki. Hann er búinn að koma sér upp nokkuð góðu jólagjafakerfi en svo kemur Penny, sem hann er líklega aðeins búinn að þekkja í nokkra mánuði og segist ætla að gefa honum jólagjöf, bara eins og ekkert sé. Hann er alveg ómögulegur og honum finnst hann náttúrulega verða að gefa henni sambærilega gjöf til baka, hvorki dýrari né ódýrari. Hann ákveður því að kaupa gjafakörfur í öllum stæðum og verðflokkum til þess að vera tilbúinn með sambærilega gjöf hvað sem hann fær frá henni.
Svo kemur að því að hún afhendir honum gjöfina. Hann opnar gjöfina skjálfandi og í ljós kemur órhein servíetta árituð af átrúnaðagoðinu hans, Leonard Nimoy sem lék í Star Trek, eftir að hann hafði þurrkað sér um munninn á henni. Penny vinnur nefnilega á veitingastað og þar sem Nimoy kom og borðaði einn einn daginn.
Þetta var sem sagt óhrein servíetta með áritun Star Trekleikara, ekki gjöf sem lét mikið yfir sér. En fátt, ef nokkuð, hefði getað glatt Sheldon meira en einmitt þessi óhreina servíetta og hann sér að engin af gjafakörfunum sem hann keypti muni nokkurntíma ná sama verðmæti og þessi gjöf hefur í hans huga. Hann sækir því allar körfurnar og gefur Penny og biðst fyrirgefningar á að geta aldrei gefið henni jafn verðmæta gjöf eða ef til vill ættu betur við að segja dýrmæta gjöf. Hann tekur síðan utan um hana, varlega því Sheldon er ekki maður faðmlaga.
Segja má að Sheldon og Penny hafi haft afar ólíkar væntingar þegar kom að jólagjöfum. Sheldon spáði aðeins í virði gjafarinnar í krónum talið á meðan Penny hugsaði frekar um hvað myndi gleðja þennan nýja vin. En bæði höfðu þau væntingar.
Hverjar eru þínar væntingar á þessari aðventu eða fyrir þessi jól?
Nú þegar við hefjumst handa við að undirbúa jólin, við upphaf nýs kirkjuárs og heyrum í guðspjallinu söguna um upphafið að endinum. Sagan af því þegar Jesús kemur ríðandi inn í Jerúsalem í aðdraganda páskahátíðarinnar er sagan um það sem gerist stuttu áður en hann deyr. Aðeins nokkrum dögum eftir að fólkið fagnar Jesú, með því að hrópa „Hósíanna“ eða frelsari, breytast hrópin í „krossfestið hann“. Ástæðurnar fyrir þessu eru fyrst og fremst þær að fólkið sem þarna fagnaði hafði ákveðnar væntingar til Jesú sem ekki stóðust. Hann stóðst ekki þeirra væntingar. Hann hagaði sér einfaldlega ekki eins og frelsari og þaðan af síður eins og konungur, samkvæmt væntingum fólksins.
Svo ótal margt við Jesú Krist var fullt af mótsögnum. Frelsari heimsins fæddist sem lítið ósjálfbjarga barn við ekkert sérstakar aðstæður. Hann umgekkst fólk sem sem ekki þótti við hæfi að almennilegt fólk væri í samneyti við. Hann fylgdi ekki reglum um hvíldardaginn ef einhver þarfnaðist lækningar eða ef afla þurfti matar og svo mætti lengi telja. Já, og svo þegar hann reið inn í Jerúsalem við upphaf páskahátíðarinnar þá kom hann á asna. Asni var, og er, vinnudýr. Asnar eru litlir miðað við hesta sem þýðir að þegar manneskja situr á baki asna þá er hún í augnhæð við fókið sem gengur hjá eða stendur við veginn. Það er því varla til auðmýkri leið til þess að fara leiðar sinnar en að ríða asna, nema ef væri að ganga. Ef Jesús hefði komið á hesti hefði það táknað hernað og ef hann hefði komið í burðarstól hefði það táknað völd og ríkidæmi. Hann hafði hvorugt og hann vildi hvorugt.
Hann stóðst ekki væntingar fólksins.
Stenst hann væntingar þínar?
Stenst fólkið í kringum þig þínar væntingar?
Jesús, sem kom í heiminn til að sýna okkur hvernig Guðs er, kom með auðmjúkum hætti og mætti okkur fyrst sem lítið varnarlaust barn og síðan sem fullorðin manneskja í augnhæð.
Hvað segið það okkur um Guð?
Segir það okkur ef til vill að Guð er ekki alltaf eins og við höldum?
Segir það okkur ef til vill að Guð deilir kjörum okkar og mætir okkur í augnhæð en ekki sem upphafið afl sem uppfyllir allar okkar óskir og refsar okkur þegar við högum okkur illa.
Segir það okkur ef til vill að Guð sé stöðugt að verki og taki þátt í lífi okkar sem hinn æðsti kærleikur en að við tökum ekki alltaf eftir því vegna þess að við væntum þess að Guð sé einhvern vegin öðruvísi?
Ég held að við ættum við að opna huga okkar á þessari aðventu og reyna að koma auga á það hvernig Guð er að verki allt í kringum okkur án þess að vera með fyrirfram ákveðnar væntingar. Ef til vill gerum við það best með því að leyfa Guði að koma okkur á óvart eins og Guð gerði þegar Guð varð manneskja í litlu barni og þegar Jesús Kristur reið inn í Jerúsalem í augnhæð.
Og ef fólkð í kringum okkur stenst ekki okkar væntingar þá er einn möguleiki að endurskoða væntingarnar okkar.
Sheldon taldi sig hafa undirbúið sig fullkomlega fyrir hvaða gjöf sem Penny myndi gefa honum með því að kaupa allar stærðir af gjafakörfum en henni tókst samt sem áður að koma honum á óvart og gefa honum eitthvað miklu betra en hann hefði getað ímyndað sér.
Guð er líka miklu betra en nokkuð sem við getum ímyndað okkur. Guð er kærleikur sem er dýpri en allt sem við getum ímyndað okkur og mætir okkur þar sem við erum.
Látum Guð koma okkur á óvart. Við getum hvort eð er ekki undirbúið okkur.
Dýrð sé Guði sem elskar okkur eins og við erum og mætir okkur í augnhæð.
Boðorðin öll
Í vikunni birtust þær fréttir að kirkja hér í borg væri búin að stroka út tíunda boðorðið og því væru boðorðin nú einungis 9. Frábærar fréttir fyrir fermingarbörnin þar að þurfa aðeins að læra 9 boðorð utan að en ekki tíu. Reyndar kom í ljós við nánari skoðun að þessi síðustu tvö boðorð fjalla bæði um það sama, öfund og græðgi. Í þessum tveimur boðorðum eru talin upp dæmi um það sem náunginn þinn á og þú átt ekki að girnast. Það eina sem þessi kirkja hafði gert var að fækka upptalningunum á því sem ekki á að girnast enda er í raun alveg nóg að segja, þú skalt ekki girnast það sem náungi þinn á. Eða enn betra, þú skalt samgleðjast náunganum vegna þess sem hún/hann á.
Það sem þó er sérstaklega áhugavert við þessi tvö síðustu boðorð er að í þessum upptalningum eru bæði taldir upp þrælar, ambáttir og konur. Það var sem sagt ekki í lagi að girnast eitthvað sem önnur manneskja á en það mátti eiga bæði þræla og konur.
Þetta segir okkur nokkuð um það hversu mikið barn síns tíma orðalag boðorðana er og það á reyndar við margt fleira í Biblíunni, enda er hér um að ræða mörg hundurð ára gamla texta. Það þýðir þó ekki að andi boðorðana eigi ekki lengur við enda fjalla þau um það hvernig við eigum að umgangast hvert annað og já, alla sköpunina. Það sem þó á ekki við er að draga fram hvert einasta orðalag í þeim og umgangast sem lögmál. Því miður hefur einmitt sú umgengni við boðorðin og fleiri Biblíutexta verið uppspretta kúgunnar í gegnum tíðina.
Þegar Jesús var spurður að því hvaða boðorð væri æðst þá einfaldaði hann sannarlega ekki málið heldur flækti hlutina enn meira fyrir okkur með því að setja fram tvöfalda kærleiksboðið. Það gengur nefnilega út á að nota dómgreindina þína og kærleikann í umgengni þinni við allt sem lifir, sköpunina, fólk, Guð og þig sjálfa.
Alvöru kærleikur
Kærleikur til nánungans snýst ekki um að brosa fallega til fólksins í kringum þig og vera huggulegur þegar þú mætir því. Það er vissulega mikilvægt að sýna fólki þægilegt viðmót og jafnvel að brosa en kærleikskrafan sem Jesús gerir með tvöfalda kærleiksboðorðinu slær öllum öðrum boðorðum út og gerir miklu ríkari kröfur en svo. Þessi krafa snýst um að sýna náunganum og okkur sjálfum kærleika einnig þegar lífið verður erfitt og flókið. Hún snýst um að standa ávalt með þeim sem minna mega sín, þeim sem verða undir, þeim sem eru í minnihluta. Sannur kærleikur krefst þess vegna hugrekkis.
Í vikunni sem leið fjölluðu tveir Katljósþættir á Rúv um fordóma og áreitni í garð ungs fólks. Annar þátturinn fjallaði um aukna fordóma í garð hinsegin fólks en hinn um rasisma gagnvart ungu fólki á Íslandi.
Fyrir stuttu síðan tóku menntaskólanemar sig til og mótmæltu því hvernig tekið er á kynferðislegri áreytni og ofbeldi innan menntaskólanna en vakningin hófst í MH með hinni svokölluðu klósettuppreisn þegar nemendur neituðu því að þolendur þyrftu að mæta gerendum sínum á göngum skólans eins og ekkert hefði í skorist þrátt fyrir ofbeldi og jafnvel nauðganir.
Í Flokki fólksins misstu þrír karlar sæti sín í flokknum vegna framkomu í garð kvenna innan flokksins.
Þekktir listamenn, stjórnmálamenn, prestar, karlar í viðskiptalífinu, íþróttum og á fleiri stöðum hafa þurft að stíga til hliðar vegna ásakana um ofbeldi og kynferðislega áreitni.
Frá útlöndum er það m.a. að frétta að konur í Íran mótmæla þessa dagana harðstjórn gegn konum í landinu eftir að Mahsa Amini lést í haldi siðgæðislögreglunnar eftir að hafa verið handtekin fyrir að hafa slæðuna ekki nógu fast bundna.
Metoo bylgjan gefur náð háum hæðum í mörgum löndum, ekki síst í Bandaríkjunum.
Fólk mótmælir harðari aðgerðum gegn konum og hinseginfólki í mörgum löndum í austur evrópu.
Mótmæli gegn banni við fóstureyðingum eiga sér stað um gjörvöll Bandaríkin.
Og svona mætti lengi áfram telja.
Þegar minnihlutahópar rísa upp og mótmæla þá eru skilaboð kúgarana gjarnan í þá átt að þau sem mótmæla séu í raun ofbeldisfólkið og að þau sýni ekki nægan náungakærleika. Hin kúguðu eru látin líta út fyrir að vera kúgararnir. Þetta er sérstaklega áberandi þegar konur og hinseginfólk rís upp og gegn kúgun og ofbeldi. Hver kannast ekki við setningar eins og: „Ég er ekkert á móti hommum en þurfa þeir að vera svona áberandi“ eða „hún var nú ekkert skárri svona glennulega klædd“, „hún æsti mig bara svo mikið upp að ég varð að láta hana finna fyrir því“ eða „ég var nú bara að grínast, hefurðu engan húmor lengur“.
Virk starfsendurhæfingarsjóður spyr einmitt að því hvort ekkert megi lengur í algjörlega frábærri auglýsingu sem hefur verið sýnd á samfélagsmiðlum og í sjónvarpi undanfarið. Þar er reyndar svarið, eða mótspurningin: „Mátti þetta einhvern tíma?“
Kærleikur til kúgunar
Hinu tvöfalda kærleiksboðorði hefur í gegnum tíðina á stundum verið snúið upp í andhverfu sína og notað til þess að kúga ákveðna hópa fólks og einstaklinga. Trúarsöfnuðir hafa nýtt það til þess að fá fólk til að gefa peninga og hlýða þeim sem stjórna. Það er hægt að gera svo ótal margt í nafni „ástar“. Makar berja og jafnvel drepa maka sinn í nafni ástarinnar. „Ég elskaði hana svo mikið að ég varð að lemja hana svo að hún myndi hlýða“. Sagði einn af ótal mörgum mönnum sem hefur orðið konu sinni að bana því hann „elskaði“ hana svo mikið. Fólki hefur, á öllum tímum og á öllum stöðum verið haldið niðri og verið beitt ofbeldi í nafni kærleikans því það hefur ekki þótt kærleiksríkt að segja frá brestum annarra, jafnvel ekki brestum kúgara síns. Og sú kærleikskrafa er svo sterk og einbeitt að þrátt fyrir að þú segir frá t.d. ofbeldi eða kúgun þá er alls ekkert víst að þér verði trúað. Það er nefnilega svo ljótt að segja frá brestum annarrar manneskju ef þú hefur ekki áþreifanlegar sannanir og helst vitni.
Kærleikurinn krefst hugrekkis
Það krefst hugrekkis að sýna kærleika. Þegar þú ríst upp gegn kúgun og ofbeldi, hvort sem þú verður fyrir því sjálf eða eitthvað annað fólk þá ert þú að sýna einmitt þennan kærleika sem Jesús vill að við sýnum. Kærleikurinn er nefnilega alvörumál og meðvirkni og þöggun hefur ekkert með kærleika að gera.
En það er erfitt að standa upp og mótmæla. Þú verður ekki vinsæl ef þú gerir það. Ef þú mótmælir valdaöflunum, hver sem þau eru, þá er ekki víst að þú munir eiga sama möguleika á framgangi í starfi og ef þú þegjir. Ef þú mótmælir kúgun feðraveldisins þá verður þú ekki vinsæl/vinsæll hjá strákunum. Ef þú segir frá ofbeldi í hjónabandi eða nánu sambandi þá er líklegt að þó nokkuð af fólki muni dæma þig sem athyglisjúka því hann virðist nú vera svo næs. “Þetta hefur nú varla verið svo alvarlegt“ er oft viðkvæðið þegar kona segir frá ofbeldi í nánu sambandi. Og ef þú segir frá ofbeldi af hálfu þekktrar manneskju þá ertu líklega illgjörn/illgjarn og vilt eyðileggja starfsframa viðkomandi.
Það krefst hugrekkis og mikillar ástar að segja frá ofbeldi og kúgun. Það krefst alvöru kærleika að segja frá. En ástæðan fyrir því að fólk segir ógjarnan frá er m.a. sú að búið er að telja okkur trú um að það felist meiri kærleikur í að þegja en að segja frá auk þess sem ofbeldismanneskjan er að öllum líkindum einhver sem stendur okkur nærri. Kúgarinn eða ofbeldismanneskjan treystir því að þú segir ekki frá í nafni kærleikans.
Tvöfalda kærleiksboðið er æðra öllum öðrum boðorðum því það felur allt í sér, að elska Guð og að elska náungann eins og okkur sjálf. Þegar þú stendur með sjálfri/sjálfum þér eða með þeim sem minna mega sín þá ert þú bæði að sýna þér og náunganum kærleika. Með því að brjóta meiðandi mynstur, kúgun og ofbeldi, þá ert þú að sýna þann hugrakkasta kærleika sem mögulegt er að sýna.
Uppsprettu kærleikans er síðan að finna hjá Guði. Þaðan kemur kærleikurinn sem gefur þér kjarkinn. Þaðan kemur ástin sem fær þig til að vilja setja mörk og segja frá. Guð, sem er hinn æðsti kærleikur, er uppspretta kærleika sem hvorki er meiðandi né hamlandi heldur styðjandi og umvefjandi.
Dýrð sé Guði sem er kærleikur og gefur þér hugrekki til að elska og setja mörk í kærleika.
Þessi prédikun var flutt í Grafarvogssókn 18. sunnudag eftir þrenningarhátíð, 16. október 2022. Guðspjall dagsins var Mark. 12: 28-24, Tvöfalda kærleiksboðið. Fyrri ritningarlestur var úr 2Mósebók 20:1-17, Boðorðin 10.
Regnbogafáninn
Í júlímánuði var tekin sú ákvörðun í Grafarvogskirkju að mála regnbogafánann á tröppurnar fyrir framan kirkjuna. Ástæðan er fyrst og fremst að sýna með skýrum hætti að hingað eru allar manneskjur jafn velkomnar vegna þess að öll erum við jafn dýrmæt í augum Guðs. Regnboginn hér á tröppunum samanstendur af upprunalega regnbogafána hinseginfólks. Þar á eftir koma tvær rendur, ein svört og brún sem tákna fólk af ólíkum kynþáttum. Neðst er síðan transfáninn sem er bleikur, blár og hvítur. Reyndar ætti það að vera svo sjálfsagt að allar manneskjur séu jafn dýrmætar að við þyrftum ekki að minna á það með þessum hætti en það er þó ekki svo. Hinsegin fólk hefur orðið fyrir gríðarlegum fordómum í gegnum tíðina og verður enn. Í dag er það transfólk sem verður fyrir sérstaklega miklu aðkasti bæði hér á landi og um allan heim. Kirkjan okkar hér á Íslandi tók því miður, lengi vel, þátt í þessum fordómum og misrétti sem tíðkaðist í samfélaginu. Þetta breyttist ekki hjá forystu kirkjunnar fyrr en ein hjúskaparlög voru samþykkt og meira að segja þá gátu prestar fengið undanþágu frá því að gefa saman samkynja pör. Það var síðan á kirkuþingi 2015 sem samþykkt var að ekki mætti neita pörum um hjónavígslu á grundvelli kynhneigðar. Því skal þó haldið til haga að stór hluti presta studdi baráttu samkynhneigðs fólks alla leið nánast allan þennan tíma en það var ekki nóg þegar leiðtogarnir voru á móti.
Ein saga – eitt skref
Nú um stundir stendur yfir verkefnið Ein saga – Eitt skref á vegum Þjóðkirkjunnar og Samtakanna 78. Tilgangur verkefnisins er að gera upp og læra af sögu misréttis gagnvart hinsegin fólki innan kirkjunnar. Verkefnið fer þannig fram að samkynhneigt fólk sem orðið hefur fyrir misrétti af hálfu þjóðkirkjunnar og presta hennar segir sögur sínar. Sögunum er svo safnað saman og þær birtar á heimasíðu verkefnisins. Markmiðið er að kirkjan, sem braut á hinsegin fólki, hlusti á sögurnar og iðrist með einhvers konar sátt að markmiði.
Ég er búin að hlusta á þær níu sögur sem hafa verið birtar og þar er lýst svo svakalegri framkomu á köflum að það er erfitt að setja sig í spor bæði þeirra sem urðu fyrir þessu og að skilja að svona framkoma hafi viðgengist. Kirkjan hefur mikið að skammast sín fyrir í þessum málum og því er mikilvægt að sögurnar heyrist. Ég hvet þig til að hlusta á sögurnar hér:
https://www.einsagaeittskref.is.
Regnboginn og ritningarversin
Viðbrögðin við regnboganum hafa að mestu verið afar jákvæð en svo tæpri viku eftir að hafði verið málaður kom ég í kirkjuna og sá að einhver ósátt manneskja hafði krotað á fánann, „Antichrist!“ Það var svolítið óþægilegt að sjá að einhver hefði virkilega haft fyrir því að koma með spreybrúsa í skjóli nætur til þess að mótmæla þessu tákni kærleika og mannréttinda. Við máluðum yfir þetta og vonuðum að þar með hefði viðkomandi sagt sitt en það liðu ekki nema tveir dagar þar til næst var spreyjað á fánann og nú voru skilaboðin skýr. Viðkomandi hafði ritað þarna vísun í ákveðinn ritningarstað úr 3. Mósebók sem er nokkurskonar lögbók Gamla testamentisins. Þessi ritningarstaður er þekktur meðal þeirra sem vitna í Biblíuna til þess að styðja hatur sitt á samkynhneigð en þar kemur fram að ef karlmaður leggist með karlmanni eins og þegar lagst er með konu þá fremji þeir báðir viðurstyggilegt athæfi og skulu báðir líflátnir. Svipaðan texta er að finna í sömu bók, tveimur köflum fyrr. Einn texta til viðbótar af svipuðum toga er að finna í bréfi Páls postula til Rómverja þar sem reynir að siða fólk til og þá m.a. karla sem hann segir hafa brunnið í losta hver til annars og framið skömm með karlmönnum.
Þá hefur fólk einnig reynt að nýta seinni sköpunarsöguna og fleiri texta t.d. frá Páli postula fordómum sínum til stuðnings.
Hér langar mig að nefna tvennt. Hið fyrra er að Jesús ræðir þessi mál ekkert. Hið síðara hér er ekki verið að fjalla um samkynhneigð því samkynhneigð snýst um ást en ekki kynlíf eingöngu og alls ekki aðeins um kynlíf karla. Ólíklegt að er að hugmyndin um samkynja ást hafi verið útbreidd þegar þessir textar voru ritaðir.
Í lögbókinni í Gamla testamentinu eru þessi orð hluti af annarri langri og frekar ótrúlegri upptalningu á öllu því sem ætti að lífláta fólk fyrir s.s. að bölva föður sínum eða móður. Kristið fólk hefur yfirleitt látið þessar upptalningar sem vind um eyru þjóta enda mun þessi texti vera frá því um 250 árum fyrir Krist ef ekki enn fyrr og tímarnir breyst örlítið síðan þá. Þá bendir frummálið á textanum til þess að hér sé verið að vara við því að karlar leggist með ungum drengjum.
Páll, sem myndi vera talinn þó nokkuð stífur og jafnvel ranglátur á okkar tíma mælihvarða, lifði í ákveðnu samhengi eins og við öll. Hann var manneskja, ekki Guð. Orð hans, eins og orð alls fólks, þarf að lesa í ljósi þess samhengis er þau voru rituð í. Þannig segir hann t.a.m. að konur eigi að þegja á samkomum, hylja höfuð sitt og vera mönnum sínum undirgefnar. Við fylgjum þessu ekki í dag því viðhorf okkar eru önnur. Hið sama á við um orð hans um karla sem brenna í losta til hvers annars en þar mun hann hafa verið að fordæma þessi og fleiri athæfi nágrannaþjóða. Ekki er heldur útilokað að hann hafi þarna verið að fordæma misnotkun á ungum drengjum (gjarnan þrælum) sem var ekki óþekkt meðal forn Grikkja og Rómverja.
Jesús var ekki bókstafstrúarmaður
Þekkt er sú aðferð þeirra er vilja ná einhverju ákveðnu fram með aðstoð Biblíunnar að taka ritningarvers úr samhengi sínu, máli sínu til stuðnings. Þetta stendur jú þarna. Þetta þykir mér ekki góð aðferð og mæli frekar með því að lesa, og reyna að skilja Biblíuna í hverju því samhengi er bækur hennar voru ritaðar. Rit Biblíunnar voru skrifuð á ólíkum tímum og fyrir utan að vera vitnisburður um líf og störf Jesú Krists þá fjallar Biblían um það hvernig það er að vera manneskja í brotnum heimi og um samband mannfólksins við Guð.
Ég tel að við ættum frekar að fylgja boðskapi Jesú Krists, sem sagði okkur að elska hvert annað. Jesús var ekki bókstafstrúarmaður og fylgdi ekki lögmálinu til hlítar enda hneykslaði hann marga. Því síður ættum við að taka hina helgu og fjölbreyttu Biblíu bókstaflega.
Á þriðjudaginn kemur verða hinsegindagar settir. Þeir snúast ekki aðeins um fallega regnboga og skemmtilega gleðigöngu heldur fjalla þeir um mannréttindi hinsegin fólks. Boðskapur Jesú Krists er í fullu samræmi við mannréttindayfirlýsingar og kristið fólk hlýtur alltaf að standa með mannréttindum og berjast gegn hatri og fordómum og því er Þjóðkirkjan í dag öflug bandamanneskja hinseginfólks.
Regnbogafáninn í Grafarvogskirkju fær að standa.
Dýrð sé Guði sem elskar sérhverja manneskju í öllum regnbogans litum.
James Webb sjónaukinn
Ég er nokkuð viss um að þið hafið séð eitthvað af myndunum úr James Webb sjónauka NASA og ESA sem birtust nú í vikunni eða að þið hafið í það minnsta heyrt af þeim. Þetta er öflugasti sjónauki sem búinn hefur verið til enda tók um 20 ár að byggja hann. Myndirnar sem birtust eru teknar úr svo mikilli fjarlægð að þær eru allt að 13 billjón ljósára gamlar. Þær eru svo fagrar og ótrúlegar að það er erfitt að slíta sig frá þeim. Þessar myndir minna okkur ef til vill fyrst og fremst á hversu agnar smá við erum í þessum stóra og fjölbreytta heimi. Og það er gott að hafa í huga það sem eftir lifir þessa pistils.
Sjómenn á plánetunni jörð
Og fyrir meira en tvö þúsund árum, sem er náttúrulega enginn tími í samhengi alheimsins, gerðist það á plánetunni jörð að nokkrir þaulvanir sjómenn, sem voru að ganga frá netum sínum eftir aflalítinn dag á Genaseretvatni, voru beðnir um að fara aftur út á vatnið, enn lengra út en þeir voru vanir, á enn meira dýpi og kasta netunum á ný. Við getum rétt ímyndað okkur hversu vinsæl þessi beiðni var. Þeir hafa eflaust verið orðnir mjög þreyttir eftir langan vinnudag auk þess sem þeir höfðu hlýtt á Jesú þetta kvöld og lánað honum bát sinn til þess að hann kæmist aðeins lengra frá fólkinu sem var við það að troða hann niður. Og seint um kvöldið, þegar Jesús var búinn að fræða fólkið segir hann Símoni Pétri og hans fólki að fara út og kasta netunum á nýjan stað. Símon er tregur til en hann gerir það þó næstum möglunarlaust. Hann svarar u.þ.b. „víst þú endilega vilt“. Hvers vegna hann hlýðir orðum Jesú vitum við ekki. Ef til vill var hann í þakkarskuld við hann. Kannski var hann svona meðvirkur eða svo er svarið það einfalt að hann treysti einfaldlega Jesú og hugsaði með sér að ekki hefðu þeir fengið neitt á sínum venjubundna stað í langan tíma og því töpuðu þeir ekkert á að prófa eitthvað nýtt. Þ.e. hann var nógu opinn til þess að taka áhættu og prófa eitthvað nýtt þegar gamla aðferðin virkaði ekki.
Og viti fólk, þeir veiða svo mikið að þeir fylla bátana og vel það. Þeir þurfa hjálp við að koma fisknum í land. Þvílíkur var aflinn.
Það sem gerðist þarna var að Jesús bað þá að treysta sér. Hann bað þá að gera eitthvað alveg nýtt og eitthvað sem hljómaði jafnvel hálf galið í eyrum þeirra.
Hvað með þig?
Hefur þetta komið fyrir þig? Hefur einhver (jafnvel þín innri rödd) stungið upp á því að þú gerðir eitthvað óvenjulegt, prófaðir eitthvað nýtt þegar það sem þú ert vön/vanur að gera hefur ekki virkað? Eða bara þegar þú ert orðin fastur/föst í viðjum vanans.
Það er ekkret grín að fylgja svoleiðis uppástungum eða beiðnum. Það er svo ágætt að gera frekar hlutina eins og við erum vön.
Það er gjarnan þannig að þegar við höfum komist upp á lag með að gera hlutina með ákveðnum hætti eða lifa lífi okkar með ákveðnum hætti þá hættum við að ögra okkur viljum og helst ekki breyta mikið út af vananum. Og það er svo eðlilegt því það getur tekið á að breyta.
Jesús segir við Símon Pétur, „Legg þú á djúpið“. Hann vill að hann fari út á meira dýpi, að hann kafi dýpra eftir því sem sem hann vill. Getur verið að það sé kominn tími til að þú kafir dýpra eftir því sem þú þráir, að þannig fáir þú meira út úr lífinu?
Símon Pétur og hans fólk fengu margfaldan afla við það að fara lengra út, á dýpið. Ef til vill á það sama við um þig…
Guð á dýpinu
Í þessari sögu er svo skýrt að Guð vill að förum á dýptina í lífinu, að við séum ekki alltaf að svamla við yfirborðið þar sem við sjáum til botns. Og þetta á við um allt í lífinu.
Þetta á við um trúna/andlega lífið. Ef við höldum okkur við trúna sem okkur var kennd þegar við vorum börn og leyfum henni ekki að þroskast í takt við okkar eigin þroska þá er nokkuð öruggt að við annað hvort segjum skilið við trúna að lokum eða í mesta lagi leyfum henni að hanga þarna sem nokkurskonar haldreipi ef eitthvað slæmt skyldi gerast og til þess að halda við menningunni sem við erum alin upp í. En það er ekki gefandi trú og það er ekki þroskandi andlegt líf. Ég er hrædd um að þetta hafi að nokkru leyti gerst í okkar góðu Þjóðkirkju, að við höfum eignast trú sem börn, fengið fræðslu í sunnudagaskólanum og svo kannski aðeins meiri fræðslu og upplifum í fermingarfræðslunni en síðan þegar við förum að þroskast enn frekar sem einstaklingar þá hefur samleiðin með kirkjunni og trúnni verið svo miklu minni að trúarþroskinn hefur orðið eftir á kirkjubekknum. Og þá leitum við annað. Ég held að ein af ástæðum þess að æ fleiri telja sig ekki eiga samleið með kristinni kirkju á Íslandi sé að trúin sem við eignuðumst sem börn og mögulega unglingar, hefur ekki fengið færi á að þroskast og því hefur trúin orðið eftir hjá því sem tilheyrði æskunni. Barnatrú getur aldrei verið nóg fyrir fullorðina manneskju. Barnatrú er bara fyrir börn. Andlegt líf fullorðinnar manneskju sem skilur (upp að einhverju marki í það minnsta) að hún er bara örlítið sandkorn í alheiminum, verður að fylgja þeim þroska. Trúin þarf að halda á djúpið til þess að geta gefið okkur ríkt andlegt líf.
Þetta á við um einkalifið. Ef við höldum öllu á yfirborðinu og nærum ekki sambönd okkar við fólk og okkar andlega líf þá verður það að lokum innantómt. Það verður kannski þægilegt upp að einhverju marki, en innantómt. Kannski ættum við að reyna að kynnast fólkinu okkar betur, vinum og fjölskyldu. Gefa okkur tíma til að ræða um eitthvað sem skiptir máli og gera eitthvað með þeim sem við erum ekki vön. Halda út á djúpið með þeim. Kannski verði aflinn þá meiri en venjulega.
Þetta á við um vinnu og skóla en mörgum okkar hættir til að festast í þægilegu fari í vinnu og jafnvel að leggja ekki meira á okkur en við komumst upp með í námi. En flest getum við svo miklu meira en við trúum og til þess að komast að því sem við raunverulega getum þá verðum við að halda á djúpið.
Óttinn við hið óþekkta
Það krefst hugrekkis að halda á djúpið. Það vissi Jesús vel þegar hann bað Símon Pétur að halda þangað og það veit Guð, sem er hinn æðsti kærleikur, nú þegar það hvetur þig og mig til þess að halda þangað. Ótti snýst alltaf um hið óþekkta og þegar förum á dýptina þá vitum við ekki hvað við finnum. Það er óþægilegt en það er líka spennandi að fara nýjar leiðir og halda á ótroðnar slóðir. Það er svo þægilegt að svamla í grunna vatninu þar sem við sjáum niður á botn en í því felst heldur engin áskorun. Áskorunin felst í því að fara á dýpið, þar sem við sjáum ekki til botns.
Trúin og andlega lífið verður fyrst krassandi og gefandi þegar við förum á dýptina og skorum á barnatrúna. Þar eru fjársjóðirnir faldir. En í trúnni sem fer lengra en barnatrúin býr líka efinn og ef til vill er efinn það sem hindrar mörg okkar frá því að halda lengra. En efinn er góður. Efinn er mikilvægur og hann er hluti af trúnni. Og það er allt í lagi að efinn hafi stundum betur því það er hluti af andlegum þroska manneskjunnar, hinu andlega ferðalagi sem lýkur aldrei.
Einkalífið verður líka fyrst gefandi þegar við förum á dýptina. Það er alltaf hætta á að við finnum eitthvað sem við hefðum heldur viljað sleppa við en þegar upp er staðið er þroskinn sem því fylgir alltaf þess virði ef vel er unnið úr.
Það sama á við um vinnu og nám, ef við tökum skrefið og höldum á djúpið, tökumst á við ótta og hindranir þá fyrst komumst við að því sem við erum fær um. Þá fyrst finnum við hina földu fjársjóði í okkur sjálfum.
Hvar þarft þú að halda á djúpið? Hefur þú kjarkinn til þess að taka áskorun Jesú og reyna nýjar aðferðir þar sem hinar gömlu eru ekki að virka nógu vel?
Þegar Símon Pétur áttar sig á að það borgaði sig að halda á ótroðnar slóðir með Jesú og hann sér að lífið hans mun breytast upp frá því segir Jesús við hann að hann þurfi ekki að óttast. Þetta segir Jesús gjarnan við fólk sem stendur frammi fyrir áskorunum og þetta segir Jesús við þig og mig þegar við höldum á djúpið.
Óttast ekki! Þetta verður allt í lagi.
Prédikun flutt í Grafarvogskirkju 17. júlí 2022
Guðspjall: Luk. 5. 1-11
Heimasíða verkefnisins Ein saga – eitt skref var opnuð nú í lok júní. Tilgangur verkefnisins er að hlusta á persónulegar sögur samkynhneigðs fólks sem þjóðkirkjan og fólk innan hennar hefur brotið á í gegnum tíðina. Tilgangurinn er að læra af þessari hryllilegu sögu misréttis og ofbeldis innan kirkjunnar. Verkefnið er unnið að frumkvæði biskups Íslands, Agnesar Sigurðardóttur og í samstarfi við Samtökin 78.
Ég hef hlustað á sögurnar sem birst hafa og mig setur hljóða. Sárin eru djúp og mörg þeirra er ekki hægt að fyrirgefa og á ekkert endilega að fyrirgefa. Það að fermingarfræðsla verði til þess að ýta dreng lengra inn í skápinn og kveikja djúpa dauðahræðslu hjá honum er ekki í lagi á nokkurn hátt. Það að fólk hafi fengið smáblessun en ekki fulla blessun er ekki í lagi á nokkurn hátt. Það að samkynhneigt fólk hafi þurft að sitja á móti klerkum í prestaskyrtum með gullkrossa um hálsinn sem sögðu þeim að allt það sem þau voru og stóðu fyrir væri synd er ekki í lagi.
Ég viðurkenni að ég taldi í alvöruinni að það að meirihluti presta hafi verið hlynntur réttindum samkynhneigðra, þegar kom að einum hjúskaparlögum, væri nóg til þess að sýna að kirkjan stæði í raun með þeim. Eftir að hafa hlustað á sögurnar skil ég að það var ekki nóg. Ef höfuðið er ekki með skiptir engu máli þó einhverjir limir séu það. Það er að segja að ef kirkjan er ekki með sem ein heild, líka biskup, þá er hún ekki með á fullnægjandi hátt.
Þetta hefði aldrei átt að vefjast fyrir kirkjunni. Þetta snýst nefninlega um kærleika og mannréttindi. Allt sem kirkjan gerir á að snúast um kærleika og mannréttindi.
Allra. Ekki bara sumra.
Kirkjan hefur brugðist samkynhneigðu fólki. Kirkjan hefur brugðist konum sem hafa orðið fyrir ofbeldi í skjóli hennar. Ef kirkjan á að eiga erindi í samtímanum þá þarf hún að taka sig taki, iðrast mistaka sinna og breytast. Kirkjan er nefnilega með boðskap Jesú Krists sem sitt erindi og sá boðskapur snýst ekki um hefðir, tungumál sem útilokar og að þola að brotið sé á mannréttindum fólks sem ekki passar inn í normið. Sá boðskapur snýst um ást og að allar manneskjur séu elskaðar eins og þær eru.
Mikið af þessum brotum kirkjunnar og kirkjunnar fólks gegn samkynhneigðu fólki endurspegla tíðaranda samfélagsins á þeim tíma sem þau voru unnin. Það er þó ekki afsökun því kirkjan á ekki aðeins að vera samferða samtímanum og samfélagsbreytingum heldur á hún, á öllum tímum, að vera framsækin, ganga á undan og ryðja brautina þegar kemur að mannréttindum, alveg sama hver á í hlut.
Við lifum á tímum mikilla breytinga og frelsis í íslensku samfélagi. Hjónabönd samkynja para þykja nú sjálfsögð, við tölum um þungunarrof í stað fóstureyðingar og kynrænt sjálfræði hefur verið fest í lög. En á sama tíma sjáum við öldu fordóma og afturhalds allt í kringum okkur og sterk öfl gera allt sem í þeirra valdi stendur til þess að draga úr mannréttindum fólks, sérstaklega hinsegin fólks og kvenna. Þessi réttindi sem við teljum sjálfsögð á Íslandi eru svo brothætt og um þau verður að standa vörð. Þar gegnir kirkjan mikilvægu hlutverki. Hlutverk kirkjunnar nú er að standa vörð um mannréttindi alls hinsegin fólks, kvenna, flóttafólks, barna, fólks með fötlun, eldra fólks, já allra sem þurfa á stuðningi að halda. Þetta gerir kirkjan með því að vera framsækin í mannréttindamálum, bæði í orðum og gjörðum, og stíga sterk fram þegar brotið er á fólki. Þetta gerir kirkjan með því að tala tungumál allra kynja og bjóða allar manneskjur velkomnar í litríkar kirkjur þar sem hátt er til lofts og engir þröskuldar og helgihaldið er aðgengilegt öllu fólki. Þetta gerir kirkjan með því að láta í sér heyra en ekki þegja þegar kemur að mannréttindum og kærleika og með því að hafa hugrekki til þess að hlusta á þessar sögur og taka þær til sín.
Ég hvet þig til að hlusta á sögurnar sem birtar hafa verið á síðunni www.einsagaeittskref.is.
Von í vonlausum aðstæðum
Hefur þú einhvern tíma verið í þeim aðstæðum að þú hafir haldið í von þrátt fyrir að þú hafir gert þér grein fyrir því að aðstæður væru í raun vonlausar? Ég hef verið í þeim aðstæðum og þegar ég skil að ég get ekkert gert sjálf til þess að breyta þeim þá hef ég snúið mér til Guðs í von að um kraftaverk.
Ég held að flest okkar sem erum komin með nokkra reynslu af lífinu höfum einhvern tíma fundið okkur í þeirri stöðu að vonast eftir einhverju þrátt fyrir að við vitum að það er nánast eða alveg útilokað að það muni gerast.
Mér dettur strax í hug maðurinn sem var komin með krabbamein um allan líkamann og vissi að hver dagur var dýrmætur bónus en bað þó Guð á hverjum degi um kraftaverk. Um að vakna einn daginn og krabbameinið væri horfið eða að það hefði í það minnsta minnkað mikið.
Mér dettur í hug foreldrar konunnar sem hefur verið í neyslu alveg frá unglingsárunum og er nú komið yfir fertugt. Þau vita að allar líkur eru á því að barnið þeirra deyji á undan þeim, úr sjúkdómi tengdum neyslunni eða afleiðingum hættulegs félagsskapar og aðstæðna. Þau biðja Guð á hverjum degi um að einn daginn virki meðferðin og að líf hennar breytist.
Mér dettur í hug konan sem veit að mamma hennar er í sjálfsvígshættu og að hver dagur er mögulega hennar síðasti. Hún hefur gert allt sem í hennar valdi stendur til þess að koma móður sinni til hjálpar en hún er þrátt fyrir allt barnið hennar og hún á erfitt með að ráða við sjúkdóminn sem er lífslönguninni sterkari. Hún biður alla daga um kraftaverk. Hún biður Guð að taka óttann frá henni og að móðir hennar fái lyf sem virka.
Kraftaverk eiga sér stað. Maðurinn sem er við það deyja úr krabbameini getur upplifað kraftaverk og sigrað meinið. En það getur farið á hinn veginn hjá öðrum manni eða konu. Foreldrarnir sem óttast líf barnsins síns geta vaknað upp einn daginn við að barnið er farið í meðferð, snýr lífinu við og allt verður eins og þau óskuðu sér en það getur líka farið á hinn veginn. Og það sama á við um konuna sem óttast líf móður sinnar. Sá dagur kemur ef til vill að lokum að móðirin fær lyf sem virka eða meðferð sem gefur henni lífskraft en það getur líka farið á hinn veginn.
Það sem allar þessar manneskjur eiga sameiginlegt er að engin þeirra gefur upp vonina fyrr en í fulla hnefana. Þær vona jafnvel þegar enginn von er eftir.
Ótrúlegt langlundargeð eða brjáluð ást
Í guðspjalli dagsins er sagt frá víngarðseiganada sem ræktar víngarð sinn en ræður síðan vínyrkja til að halda áfram með verkið. Þegar uppskeran er tilbúin sendir hann þjóna sína til þess að sækja uppskeruna. Vínyrkjarnir bregðast illa við og misþyrma og drepa þjónana. Víngarðseigandinn gefst þó ekki upp og sendir fleiri þjóna á staðinn en vínyrkjarnir ráðast einnig á þá og drepa. Þá sendir eigandinn son sinn og af einhverri ástæðu vonast hann til þess að vínyrkjarnir beri meiri virðingu fyrir syninum en þjónunum. En það er ekki svo og þeir drepa soninn og virðast vona að þar með hverfi vandamálið, að víngarðseigandinn deyji að lokum og að þeir muni þá erfa víngarðinn.
Þessi saga er svo ótrúleg af svo mörgum ástæðum. Þetta er saga af fólki sem allt hagar sér nokkuð sérkennilega, hvert á sinn hátt. Langlundargeð víngarðseigandans er ótrúlegt. Hver sendir þjóna sína aftur þangað sem fyrri þjónarnir voru drepnir og þeim misþyrmt? Já, og síðan son sinn að lokum, í aðstæður þar sem ljóst er að einungis dauðinn bíður hans? Og hversu vitlaust er það af vínyrkjunum að halda að þeir muni komast upp með að drepa bæði þjóna og son eigandans og erfa svo bara garðinn að lokum.
Það má vel halda því fram að flestar persónur þessarar sögu séu rauveruleikafirrtar á einhvern hátt, já, eða að þær búi yfir von um að allt fari vel að lokum þrátt fyrir líkurnar séu litlar sem engar.
Líklegt er að þessi texti eigi uppruna sinn í þeirri pólitík og valdabaráttu sem átti sér stað í kringum Jesú frá Nasaret. Að hér sé Jesús sé að sýna andstæðingum sínum, fariseunum, hvernig þeir, eða mannkynið allt, hafi farið með sendiboða Guðs og hvernig þeir muni að lokum drepa son Guðs. Og hann lýkur sögunni á að spyrja hlustendur sína hvað þeir haldi að verði um vínyrkjana að lokum. Og þeir svara að eigandinn muni vægðarlaust tortíma vínyrkjunum og ráða aðra sem eru traustsins verðir.
Brjáluð ást
Ef víngarðseigandinn er Guð er það þá ekki frekar heimskulegt að senda alltaf nýja þjóna og að lokum son sinn þegar ljóst er að þessir vínyrkjar muni aldrei sjá að sér? Eða er þetta kannski dæmi um þessa óbilandi von sem við búum yfir þegar við elskum nógu heitt.
Von manneskju sem er við dauðans dyr en vill lifa.
Von manneskju sem veit að barnið hennar mun að öllum líkindum deyja vegna neyslu en vill að barnið eignist líf.
Von manneskju sem veit að móðir hennar mun að öllum líkindum svifta sig lífi einhvern daginn en heldur þó í vonina um að hún komist úr lífshættu einn daginn.
Von Guðs um að við munum læra að meta Guð og allt það góða og fallega sem Guð vill að við eignumst með lífi í trú.
Von víngarðseigandans getur virst óskynsamleg og jafnvel hálf heimskuleg en við getum öll fundið okkur í þeim aðstæðum þar sem vonin verður allri skynsemi og visku yfirsterkari. Og í þeim aðstæðum getur vonin sigrað. Kraftaverk gerast nefnilega.
Ef við, breiskar manneskjurnar, getum fundið okkur í þeim aðstæðum að ástin og vonin verði öllu yfirsterkara hversu mun líklegra er það þá ekki að Guð gefi okkur fleiri tækifæri, fleiri sénsa? Að Guð gefi okkur alla möguleika á því að bæta okkur og verða betri manneskjur?
Jesús spyr í lok sögunnar hvað þeir haldi að verði um vínyrkjana sem drápu þjónana og soninn. Fólkið svarar að eigandinn muni tortíma þeim og ráða nýja í þeirra stað. Og takið eftir, þetta eru ekki orð Jesú heldur fólkisns. Ég er nefnilega ekki viss um að þetta svar sé rétt. Guð er eins og foreldrið sem vonar, eins og barnið sem vonar og eins og sjúklingurinn sem vonar. Guð gefur okkur nýtt tækifæri jafnvel þegar við höfum brotið allar brýr að baki okkar. Guð veit að í okkur öllum býr eitthvað gott og er tilbúið að bíða eftir því að við finnum það í okkur, bætum okkur og fylgjum Guði. Guð gefur okkur einn séns enn!
Dýrð sé Guði sem er trú von og kærleikur.
Nýlegar athugasemdir