Prédikun flutt í helgistund á jólanótt 2024 sem sýnd var á Rúv en tekin upp í Reynivallakirkju í Kjós.
Sami boðskapur aðrar túlkanir
Fyrir nokkrum árum var þáverandi biskup Íslands, Agnes M Sigurðardóttir, spurð að því hvort kirkjan væri ekki hreinlega gamaldags. Mér þótti vænt um svar Agnesar þegar hún sagði: “Jú, boðskapurinn er 2000 ára”.
Boðskapurinn er 2000 ára.
Og hann er enn í fullu gildi.
Jólaguðspjallið hefur ekkert breyst frá því í fyrra eða hitteðfyrra. Við segjum alltaf þessa sömu gömlu sögu á hverjum jólum og erum ekkert að poppa hana upp. Enda er engin þörf á því.
Á yfirborðinu er kannski ekki margt í mannlegu samfélagi sem getur státað sig af því sama – að hafa lifað í 2000 ár í óbreyttri mynd. Í nútíma samfélagi einblínum við einmitt á breytingarnar og segjum stolt frá því hve hraðar þær eru. Við höfum gaman af að segja frá hvernig lífið og tilveran var þegar internetið var ekki í farsímum og hlæjum að minningunni um það þegar við þurftum að hætta á internetinu því einhver þurfti að nota símann.
Já, tímarnir breytast og mannfólkið með, eða hvað?
Í kvöld borðuðum við flest hátíðarmat með ástvinum, rétt eins og forfeður og -mæður okkar á umliðnum öldum. Þó að við greiðum flest fyrir matinn með farsímanum þá er niðurstaðan sú sama: Jólamáltíð með fjölskyldunni.
Í tvö þúsund ár höfum við sagt sömu söguna af fæðingu frelsarans og við segjum nú. Í tvö þúsund ár hefur sú saga haft djúp áhrif á hinn kristna heim. Það hefur ekki breyst.
Já, Agnes biskup hitti naglann svo sannarlega á höfuðið. Boðskapurinn er tvö þúsund ára – og við erum gamaldags.
En þó sagan sé hér sögð í tvöþúsundasta skipti, er ekki þar með sagt að við heyrum það sama og þau sem á undar okkur komu.
Við túlkum boðskapinn á annan hátt nú en hin fyrstu jól, því við erum annað fólk, með aðra reynslu. Það sama á við þegar við eldumst og þroskumst því þá breytist sýn okkar á hluti sem ávallt standa stöðugir.
Á þessu aðfangadagskvöldi er því vel við hæfi að skoða hvað fæðingarsagan um komu Guðs inn í heiminn hefur að segja okkur í dag. Hvað segir hún um okkur sjálf og aðstæðurnar í heiminum um þessi jól?
Hvað heyrir þú þessi jól?
Biblían segir frá ákveðnum atburðum og upplifun fólks af þeim, um reynslu fólks og upplifun af Guði og vitnisburðum um Jesú Krist. En um leið fjallar Biblían um þig og mig. Hér og nú, á þessum stað, á þessum tíma, á þessari jörð. Hún fjallar um samband Guðs og manneskjunnar.
Getur verið að fæðingarsagan segi okkur eitthvað um það hvernig við gefum fólki rými, jafnvel þegar allt virðist fullt?
Getur verið að sagan segi okkur hvernig fréttirnar af merkilegum atburðum koma til okkar næstum eins og englar væru þar á ferð?
Getur verið að sagan segi okkur frá því sem getur gerst ef við fylgjum boðskap englanna og könnum aðstæður með eigin augum?
Getur verið að sagan segi okkur frá Guði sem kemur á óvart og er ekki eins og við höldum.
Mennskan er ekki í Excel
Í upphafi aðventunnar var söfnunarþáttur UNICEF sýndur á RÚV, Stöð 2 og Sjónvarpi Símans. Í þættinum var fólki boðið að gerast heimsforeldrar, styðja og styrkja börn víðsvegar um heiminn sem búa við óásættanlegar aðstæður. Þátturinn hét því viðeigandi nafni „Búðu til pláss“. Það verður nefnilega að vera til pláss fyrir hverja einustu manneskju sem fæðist inn í þennan heim. Þó er það svo að fimmta hvert barn í heiminum býr við stríð og enn fleiri börn búa við fátækt og ofbeldi ýmis konar.
Það má því segja að stór hluti barna í heiminum eigi sér ekki sjálfsagðan samastað.
Áhrifaríkasta leiðin til þess að ná athygli okkar og virkja hæfileika okkar til þess að setja okkur í spor annarra er að segja sögur, sannar sögur. Í þessum þætti fengum við að heyra sögur barna sem búa við stríðsástand í Úkraínu, á Gaza og í Súdan. Þetta er þó aðeins lítið brot af þeim stöðum þar sem börn búa við stríð.
Yfir 2100 nýjir heimsforeldrar bættust við þetta kvöld, í upphafi aðventunnar, fyrir utan öll þau er styrkja starfið með öðrum hætti. Þessar sögur höfðu áhrif. Þær höfðu áhrif vegna þess að þær eru raunverulegar. Þær segja frá aðstæðum raunverulegra barna sem gætu alveg eins verið þín börn eða mín.
Þarna gafst okkur tækifæri til að búa til pláss eins og gistihúseigandinn forðum í Betlehem. Hann var sá eini sem ekki sagði nei og bjó til rými handa handa ungum verðandi foreldrum þó ekki væri aðstaðan beysin. Hann hefði vel getað sagt nei eins og hinir og haldið áfram að lifa sínu þægilega lífi og ekki hugsað um þetta fólk meir. En JÁIÐ hans breytti öllu fyrir þessa litlu fjölskyldu og fyrir þig og mig.
Eitt lítið orð, Já, sem breytti öllu þá og getur breytt öllu nú!
Enn eru verðandi foreldrar sem ekkert eiga, nema möguleikann á jái frá ókunnugum gistihúsaeiganda.
Aldrei nokkurn tíma hefur jafn mikið af fólki verið á flótta í heiminum. Aldrei hafa jafn mörg börn verið á flótta í heiminu. Öll þurfa þau gistirými einhvers staðar og það er hlutverk heimsbyggðarinnar allrar að vera gistihúseigandinn og bregðast við með manneskjulegum hætti, því í þessu ástandi eru það börn sem líða. Börn sem gætu vel verið þitt barn eða mitt. Þau þurfa pláss.
En það er annars konar pláss sem við þurfum líka að búa til fyrir börnin okkar. Okkur er sagt af þeim sem vel til þekkja að of mörgum börnum líði illa, þau eiga erfiðara með að sýna samkennd og alltof mörg börn búa við fátækt og verða fyrir ofbeldi. Börn sem búa við erfið kjör, hvar sem er í heiminum þurfa á stuðningi okkar að halda. Þau þurfa pláss í gistihúsinu, þau þurfa á því að halda að við lítum upp úr símanum og raunverulega sjáum þau.
Í jólaguðspjallinu segir frá hirðum sem eru staddir úti í haga og eru fyrstir til að fá fréttirnar frá englunum. Nú höfum við fengið fréttirnar um börnin sem þurfa á okkur að halda. Hvernig ætlum við að bregðast við? Þau okkar sem eru aflögufær geta gerst heimsforeldrar en við getum líka gert eins og hirðarnir, haldið af stað og kannað málið. Ekki veit ég hvort þessir lægst settu þegnar samfélags þess tíma hafi langað til að hlusta á englanna, fara út fyrir þægindarammann, fylgja stjörnunni og kanna málið sjálfir, en þeir gerðu það.
Hvað gerist ef við hlustum á boðskap englanna og fylgjum stjörnunni? Hvaða fréttir eru það sem englarnir færa okkur í dag?
Ef til vill heyrum við boðskapinn um börnin sem þurfa á okkur að halda, beiðnina um að við búum til pláss í lífi okkar fyrir þau.
Ef til vill heyrum við boðskapinn um að öll heimsbyggðin verði að standa saman og búa til pláss fyrir þau sem ekki eiga sér samastað. Við getum, hvert og eitt, og sem samfélag lagt okkar af mörkum til þess að auka kærleikann í heiminum og rýma til fyrir öll börn, bæði úti í heimi og hér á landi.
Við getum öll, hver sem við erum, saman eða í sitt hvoru lagi lagt okkar af mörkum. Það þarf aðeins eitt lítið orð: JÁ.
Já, ég er til staðar fyrir þig.
Já, það er pláss fyrir þig.
Ef við fylgjum stjörnunni finnum við barnið sem gefur okkur meiri kærleika en við töldum mögulegt. Hjarta okkar stækkar og við verðum tilbúin til að búa til pláss.
Jólaguðspjallið er ævintýri
Jólaguðspjallið, sem aldrei breytist, er svolítið eins og ævintýri. Þar er björt stjarna sem vísar veginn, englar sem birtast með fréttir og barn sem fæðist í fjárhúsi undir þessari sömu stjörnu og lifir af.
Þetta er fögur mynd um sanna mennsku og ást. Þetta er ævintýramynd.
Hún er fögur vegna þess að hún er svolítið ævintýraleg. Hún talar til okkar innstu tilfinninga og við þekkjum hana svo vel. Hún er margræð og hún er sönn. Hún getur ekki verið annað en sönn því Guð kemur inn í líf okkar með hætti sem við síst af öllu búumst við.
Hún er sönn í merkingunni að Guð er að verki í lífi okkar og litla barnið í jötunni færir okkur nær JÁ-inu. Barnið opnar hjörtu okkar og barnið býr til pláss fyrir þau börn sem hafa enn ekki fengið sitt já.
Sagan gefur okkur fyrirheit um að lífið geti farið vel. Lífið getur farið vel fyrir fleiri en okkur sjálf, ef við heyrum boðskapinn, fylgjum stjörnunni og könnum málið.
Þá finnum við ef til vill kærleikann sem fær okkur til þess að vilja bjóða fram öll rýmin í gistihúsinu okkar. Þannig getur sagan þín, hver sem hún er og hvernig sem hún lítur út einmitt í dag, farið vel. Því ef þú fylgir stjörnunni þá finnur þú Guð sem er hinn æðsti kærleikur sem vill þér aðeins hið allra besta.
Hlýðum á englaraddirnar allt í kringum okkur og verum óhrædd við að fylgja englum og stjörnum því kannski finnum við lítið barn sem fæddist í fjárhúsi þegar engin herbergi voru laus og lifði af, fyrir þig og mig. Ef til vill fær þetta barn þig til þess að opna hjarta þitt og finna pláss þar sem þér datt ekki í hug að leita áður.
Dýrð sé Guði sem kemur til okkar í litlu barni og fær okkur til þess að opna hjörtu okkar, segja já og búa til pláss. Amen.