Skip to main content
Monthly Archives

janúar 2019

Hljóðar hetjur og stórar stundir

Eftir Prédikanir

Ein af forréttindum prestþjónustunnar er að fá að deila með fólki stórum stundum í lífi þess. Þetta eru stundir eins og skírn, þegar presturinn fær að biðja fyrir barninu, ausa það vatni lífsins um leið og nafnið er nefnt. Þetta eru stundir eins og hjónavígslur, þar sem fólk játast hvort öðru og biður Guð um hjálp við að deila ævinni saman. Við vitum nefnilega öll að lífið og samverustundirnar með fólkinu okkar eru ekki sjálfsagðar. Þær eru þakkarefni.

Þetta er eitthvað sem við mannfólkið öðlumst dýpri skilning á þegar við eldumst, þroskumst og bætum lífsreynslu í sarpinn.

Og einmitt þess vegna eru þessar athafnir svo mikilvægar. Við vitum ekki hvað bíður okkar handan við hornið og því er mikilvægt að fagna og gleðjast yfir því góða sem lífið færir okkur.

Önnur mikilvæg stund sem presturinn fær að deila með fólki er útförin og undirbúningur fyrir jarðarför og kistulagningu. Þessar kveðjustundir eru viðkvæmar og einstaklega dýrmætar þeim er kveðja. En þessar stundir eru einnig dýrmætar fyrir prestinn. Þær eru dýrmætar fyrir prestinn vegna þess að við þennan undirbúining fáum við að kynnast lífi og sögu fólks á annan og dýpri hátt en annars. Og þetta eru ástæðurnar fyrir því að presturinn ber einstaka virðingu fyrir því að fá að vera þátttakandi í þessari athöfn og lítur ekki á það sem sjálfsagðan hlut.

Nú jarðsyng ég fólk nokkuð reglulega og hver einasta athöfn er einstök og hefur djúpstæð áhrif á mig. Eitt af því sem snertir mig, og er mér oft hugleikið, er hversu mikið er til að fólki sem hefur lifað fyrirmyndarlífi, þ.e. fólki sem ætti ekki síður að vera manneskjur ársins um áramótin og að fá Fálkaorður afhentar af forseta Íslands. Staðreyndin er bara sú að það er agnarlítill toppur sem kemst í fréttir og fólk heyrir af sem fær þessar átyllur á meðan meirihluti fólks lifir í það minnsta jafnmerkilegu og jafnvel hetjulegu lífi en ósköp fáar manneskjur fá vitneskju um það. Stór hluti fólks hefur auk þess engan áhuga á að bera afrek sín á torg. Oft er það vegna þess að þeim þykir þetta ekkert merkilegt heldur líta þau á sinn hetjuskap sem hluta af því að vera manneskja og því engin verðlaun nauðsynleg.

Þessi afrek sem ég fæ að heyra um, nánast í hvert sinn sem ég kynnist ævisögu manneskju eru hlutir eins og að kona eða maður elur upp góðar, réttsýnar og duglegar manneskjur. Þetta eru sögur af hugsjónum fólks sem hafa breytt miklu fyrir þau sjálf og annað fólk. Þetta eru afrek eins og að taka þátt í stjórnmálum, búa börnum öruggt og kærleiksríkt heimili, gefa vandalausum ómældan tíma og umhyggju. Þetta eru afrek eins og að trúa, líka þegar á reynir og lífið verður erfitt, að elska, líka þegar fólk á enga ást skilið og sýna æðruleysi og skilning í erfiðum aðstæðum.

Titlar og orður, val á fólki ársins sýnir okkur aðeins örlítið brotabrot af því hversu fullkomlega dásamlegt fólk getur verið. Oft eru þau, sem eiga helst skilið að fá viðurkenningu, fólk sem hefur engan áhuga á athygli og viðurkenningu. Og oft er þetta fólk sem vinnur sín afrek í hljóði og er sátt við sitt hlutskipti.

Með þessu vil ég ekki gera lítið úr þeim sem fá athygli fyrir afrek sín. Þau eru svo sannarlega vel að þeirri athygli komin. Aftur á móti vil ég vekja athygli á því að það er til svo mikið af fólki sem eru sannar hetjur án þess að við munum nokkurntíma heyra af þeim.

Þegar prestur er viðstaddur stórar stundir í lífi fólks þá er hún/hann ávallt í aukahlutverki. Það er fólkið sem ber barnið sitt til skírnar eða ástvin sinn til grafar sem er í aðalhlutverki. Laun prestsins eru þau að henni eða honum er treyst til þess að vera með á þessari stóru stundu í lífi fólks og taka þátt í broti af lífssögu fólks. Ég ber óendanlega virðingu fyrir því.

Ekki mjög trúuð

Eftir Prédikanir

Ekki mjög trúuð
Nokkuð reglulega kemur til mín fólk, í kirkjuna, sem tjáir mér að það sé ekki mjög trúað. Yfirleitt er þetta fólk sem leitar til prests vegna andláts ástvinar eða vegna þess að það er að fara að gifta sig. Oft er hér um að ræða fólk sem kemur í sálgæslu eða tekur þátt í einhverju starfi í krikjunni. Nokkuð er einnig um að fólk sem er að láta skíra barnið sitt taki þetta fram.

Því er svo áhugavert að skoða hvað felst í þessum orðum: „Ég er ekki mjög trúuð/trúaður“ því þetta sama fólk leitar til prests og kirkjunnar vegna þess að það treystir prestinum og kirkjunni.

Þegar ég spyr fólk hvað það eigi við eða bíð eftir að það útskýri þetta nánar þá kemur oftar en ekki í ljós að fólk er kannski svolítið að afsaka sig eða í það minnsta að láta mig vita að það fari ekki oft í kirkju. Stundum er fólk að segja mér að það viti ekki mikið um trúna eða lífið í kirkjunni og oft er þetta leið fólks til þess að láta mig vita að það þýði ekkert fyrir mig að tala „himnesku“ við það því það skilji hana ekki.

Þegar við förum síðan að ræða þessi mál þá komumst við oftar en ekki að því að við trúum á ósköp svipaðan hátt. Munurinn er fyrst og fremst sá að ég lifi og hrærist í kirkjunni og því er orðfærið og trúarlífið mér tamara en það er fólkinu.

Ég held nefnilega að stundum haldi fólk að prestar líti einhvernvegin á sig sem heilagara fólk, að þeir séu með stöðug bænarorð á vörum, blessi fólk til hægri og vinstri og geti ekki sagt heila setningu á þess að nefna Guð. Sem sagt, tali himnesku.

Þau sem þekkja mig vita að þetta gæti ekki verið fjær sannleikanum. Ég gleymi oft að biðja, er yfirleitt lítið heilög í tali, þó ég reyni svona venjulega að vanda mál mitt, og kann ósköp lítið í himnesku. Og þetta á við um stóran hluta presta sem ég þekki. Þeir eru upp til hópa frekar „venjulegt“ fólk.

Trú og kirkja geta nefnilega verið ósköp hversdagsleg fyrirbæri.  

Lítil trú
Allir textar þessa sunnudags fjalla um trú á einhver hátt enda er hægt að skoða trú út frá öllum mögulegum sjónarhornum. Gamlatestamentis textinn úr Hósea fjallar um það að það er hægt að treysta Guði. Í pistlinum í Hebreabréfinu er gerð tilraun til að skilgreina hvað trú er og í guðspjallinu hjá Lúkasi fáum við að heyra um lærisveinana sem biðja Jesú að auka trú sína. Þarna eru lærisveinarnir í hlutverki fólksins sem finnst það ekki trúa nógu mikið en þá langar til að trúin þeirra verði meiri og sterkari. Ég veit ekki hvort því sé þannig varið um öll þau sem láta vita að þau séu ekki mjög trúuð.

Jesús svarar þeim hálfundarlega, eins og svo oft. Hann gerir nánast lítið úr þessum kvörtunum þeirra og segir þeim að það þurfi ekki nema ofurlitla trú þess þess að flytja fjöll, eða tré í þessu tilviki.

Hvað ætli hann eigi við?

Er hann að segja þeim að trúin þeirra sé enn ómerkilegri en þeir héldu? Eða er hann að segja þeim að hætta kvarta því trú þeirra sé alveg nógu mikil og jafnvel mun meiri en þeir halda?

Já, ég held að það sé einmitt það sem Jesús á við. Ég held að hann sé að segja lærisveinunum, og okkur, að trúin sé ekkert sem hægt er að mæla, að við þurfum ekki að bera okkur saman við annað fólk. Hann er að segja að trú sem þú upplifir jafn litla og minnsta korn sem til er, geti verið svo sterk að hún geti gert stórkostlegt kraftaverk.

Miklu meira en nóg
Getur verið að ekkert okkar upplifi sig í raun mjög trúuð eða einu sinni nógu trúuð?

Ég verð að viðurkenna að ég klappa mér aldrei á öxlina og segi: „mikið ertu, nú trúuð“. Ekki veit ég hvort þú gerir það en kannski er það sammannlegt að við upplifum okkur ekki vera nóg. Ekki nógu trúuð og ekki nógu allt mögulegt annað. En ég trúi því að Guð sjái okkur sem alveg nóg og miklu meira en það.

Ég held að Guð vilji segja við þig í dag að þú sért alveg nógu trúuð/trúaður.

Ég held að Guð vilji segja við mig í dag að ég sé alveg nógu trúuð.

Trúir þú því?

Trú getur verið svo margt. Trú getur verið traust og trú getur verið von. Hún getur verið það að gera eitthvað í góðri trú.

Trú er í eðli sínu afar hversdagsleg.

Magn trúar mælist ekki í fjölda kirkjuferða eða lengd bæna þó það sé sannarlega gott að fara í kirkju og iðka trú. Trú mælist ekki í því hversu oft við sláum um okkur með trúarlegu eða guðfræðilegu orðfæri.

Trú getur einfaldlega verið það að treysta því að til sé eitthvað æðra og meira en við sjálf. Eitthvað sem við getum leitað til og lagt traust okkar á. Þetta fyrirbæri köllum við sem kristin eru, Guð. Trú getur falist í því að gera skyldu okkar, í því að vera manneskja sem er traustsins verð án þess óska eftir athygli eða sérstökum verðlaunum fyrir það. Þannig getur trúin birst í öllum verkum okkar sem unnin eru í kærleika og af góðum hug. Og þannig getur fas okkar og framkoma í garð annars fólks verið birting trúar.

Dýrð sé Guði sem gefur okkur næga trú og veit að við erum miklu meira en nóg.

Amen.

Blessað uppgjör

Eftir Prédikanir

Blessun
Gleðilegt ár!
Þegar ég vígðist til prests kom til mín prestvígður maður í móttökunni á eftir og bað mig að blessa sig. Það kom svolítið á mig og mín fyrsta hugsun var hver er ég að blessa hann, rétt svo vígð og kann varla blessunarorðin! En ég lét á engu bera og blessaði manninn. Reyndar ákvað að ég blessa hann á íslensku (hann var sænskur) þannig að hann myndi ekki heyra ef ég ruglaðist. Og auðvitað ruglaðist ég því ég var svo stressuð.

Eftir þetta atvik hef ég veitt fjölmörgu fólki blessun og þegið enn fleiri. Blessun er nefnilega ekki eitthvað sem einungis prestar geta veitt. Þegar við kveðjum með orðunum „bless“ eða „vertu blessuð/blessaður“ þá erum við að blessa hvert annað. Við erum að biðja æðri mátt að gæta þeirra sem við blessum og við getum einnig verið að senda bæn út í alheiminn um að allt fari vel.

Í kirkjunni ljúkum við öllum guðsþjónustum og athöfnum með blessun. Þegar fólk giftir sig í kirkju, hvort sem það er við stóra athöfn í kirkjunni eða bara tvö inni á skrifstofu prestsins,  fær það blessun. Þegar börn eru skírð eru þau blessuð í bak og fyrir og það sama má segja um allar aðrar athafnir.

Blessun er ekki eitthvað sem einungis fer fram í kirkju en það má segja að ekkert fari fram í kirkju án blessunar.

Árið okkar
Áramótin eru tími uppgjörs. Kannski verða uppgjörin mikilvægari eftir því sem við eldumst og skynjum betur að við höfum ekki óendanlega tíma í þessari jarðvist. Fjölmiðlar hafa gert upp árið. Áramótaskaupið er búið og fréttaannáarnir hafa verið sýndir. Völvurnar spá fyrir um framtíðina. Hvernig var árið þitt? Var það óvenju gott, þar sem allt gekk þér í hag eða var það erfitt. Ertu kannski fegin/n að 2018 er búið? Ætli það hafi ekki verið blanda af báðu hjá okkur flestum? Hvað tökum við með okkur inn í nýtt ár?

Þrátt fyrir að við kveðjum hið gamla oft með tregablöndnum tilfinningum þá er svo gott til þess að vita að við getum alltaf byrjað upp á nýtt, það er aldrei of seint. Og nýtt ár er einmitt, á ákveðinn hátt, boð um nýtt upphaf. Nýju ári fylgja nýjar vonir, nýjir möglueikar.

Í upphafi árs getum við valið hvað við gerum við það sem stóð upp úr á árinu sem er að líða. Hvaða fréttir skiptu okkur máli, hvaða reynslu getum við lært af og hvaða minningar viljum við geyma. Auðvitað er þetta þó ekki alveg svo einfalt því erfiðu og sáru minningarnar fylgja okkur hvort sem við viljum það eða ekki, afleiðingar mistaka geta haldið áfram að hafa áhrif og afleiðingar ofbeldis og sárrar reynslu hverfa ekkert þó árinu ljúki og nýtt taki við. En við getum þó alltaf valið hvað við gerum við þessa hluti. Látum við þá halda áfram að lita líf okkar og jafnvel rífa okkur niður eða ætlum við að vinna úr þeim, læra af reynslunni og taka með okkur inn í framtíðina það sem byggir okkur upp?

Þegar við viljum hafa áhrif á líf okkar og ná árangri með eitthvað þá er góð leið að setja sér markmið. En það er afar mikilvægt við markmiðssetningu að hafa þau ekki of stór og yfirgripsmikil eða almenn. Þá er ólíklegra að við náum þeim og sitjum uppi ósátt. Þegar við setjum okkur markmið er best að hafa þau nákvæm, einföld og jafnvel mælanleg. Það sama á við um áramótaheitin enda eru þau ekkert annað en markmiðssetning. Það getur verið gott að nota tækifærið við upphaf nýs árs að setja okkur einföld markmið sem auðvelt er að ná. Ég sá um daginn að vinkona mín setti sér það markmið fyrir árið 2018 að lesa eina bók á mánuði og hún hafði haldið utan um allar bækurnar sem hún las og birti listann nú í desember. Þetta er dæmi um yfirstíganlegt og mælanlegt markmið. Annað sem ég hef lært um markmiðssetningar er að við aukum líkurnar á að ná markmiðunum ef við skrifum þau niður og segjum einhverjum frá þeim. Um leið og þú skrifar markmiðið niður verður það raunverulegra og þegar þú deilir því með annarri manneskju er komin meiri pressa á þig að standa við það.

Hvort sem við gerum upp árið ein með sjálfum okkur eða tjáum okkur opinberlega um uppgjörið þá er ég viss um að það sé gott fyrir okkur að fara yfir hvað gerst hefur á árinu. Þannig getum við dregið lærdóm af hinu liðna, hlúð að hinu góða og þakkað fyrir það og jafnvel sett okkur markmið eða áramótaheiti.

Blessað árið
Í nýarstexta gamla testamenntisins í fjórðu Mósebók talar Guð til Móse og biður hann að ávarpa bróður sinn með þeim orðum sem við köllum Drottinlega blessun. Með þessum orðum ljúkum við hverri guðsþjónustu og athöfn í  kristinni kirkjun um allan heim.

Guð vill að Móse tali til bróður síns með fallegum hætti og vilji honum vel.

Guð vill að við tölum til hvers annars með fallegum hætti og sínum hvert öðru velvilja.

Um áramót fer vel á því að biðja hvert öðru blessunar Guðs. Í þessum blessunarorðum sem við munum heyra nú í lok guðsþjónustunnar er ekki aðeins að finna bæn heldur einnig fullvissu um að Guð muni gæta þín. Að Guð verði með þér í gleði og sorg og hverju því sem bíður þín handan við hornið.

Þegar við kveðjum hvert annað með orðunum „bless“ eða „vertu blessaður/blessuð“, felst í því ósk að allt fari vel. Að viðkomandi eigi farsælt líf.

Ég hefði ekki þurft að vera óróleg þegar presturinn bað mig um að blessa sig á vígsludaginn. Í þessari bón fólst ákveðin fegurð og hann var ekki að þessu til þess að dæma um það hvort ég kynni ákveðin orð heldur aðeins til þess að þiggja. En blessun veitum við ekki okkur shjálf heldur þiggjum við hana af öðrum.

Á nýju ári biðjum við Guð að blessa okkur nýja árið, að blessa okkur sjálf og þau sem eru okkur kær.

Á nýju ári biðjum við Guð að blessa landið okkar og gefa að við, íbúar þess, getum sýnt hvert öðru kærleika, umburðarlyndi og réttlæti. Og við biðjum Guð að blessa heiminn okkar sem oft er svo brotinn og hjálpa okkur að gæta jarðarinnar sem okkur er treyst fyrir og vinna að friði.
Guð blessi þig!

Prédikun flutt í Grafarvogskirkju á nýársdag 2018