Skip to main content

Í augnhæð

Eftir nóvember 27, 2022Prédikanir

Prédikun fyrsta sunnudag í aöventu 2022

Í sjónvarpsþáttunum The Big Bang theory er sagt fá því í jólaþætti í fyrstu þáttaröðinni að Penny, stelpan sem býr í íbúðinni hinum megin við ganginn, tilkynnir Sheldon, aðal nördinum (sem er áreiðanlega einhverfur) að hún ætli að gefa honum jólagjöf. Sheldon lifir mjög svo skipulögðu lífi, ferköntuðu jafnvel þar sem ekkert óvænt má gerast og þegar hann heyrir þetta þá fær hann í kvíðakast. Hann er nefnilega með ákveðnar hugmyndir um jólagjafir. Hann gefur aðeins örfáum jólagjafir og vill bara fá jólagjafir frá þessu sama fólki og það er ákaflega mikilvægt að jólagjafirnar sem hann gefur og þær sem hann fær, séu í sama verðflokki. Hann er búinn að koma sér upp nokkuð góðu jólagjafakerfi en svo kemur Penny, sem hann er líklega aðeins búinn að þekkja í nokkra mánuði og segist ætla að gefa honum jólagjöf, bara eins og ekkert sé. Hann er alveg ómögulegur og honum finnst hann náttúrulega verða að gefa henni sambærilega gjöf til baka, hvorki dýrari né ódýrari. Hann ákveður því að kaupa gjafakörfur í öllum stæðum og verðflokkum til þess að vera tilbúinn með sambærilega gjöf hvað sem hann fær frá henni.

Svo kemur að því að hún afhendir honum gjöfina. Hann opnar gjöfina skjálfandi og í ljós kemur órhein servíetta árituð af átrúnaðagoðinu hans, Leonard Nimoy sem lék í Star Trek, eftir að hann hafði þurrkað sér um munninn á henni. Penny vinnur nefnilega á veitingastað og þar sem Nimoy kom og borðaði einn einn daginn.

Þetta var sem sagt óhrein servíetta með áritun Star Trekleikara, ekki gjöf sem lét mikið yfir sér. En fátt, ef nokkuð, hefði getað glatt Sheldon meira en einmitt þessi óhreina servíetta og hann sér að engin af gjafakörfunum sem hann keypti muni nokkurntíma ná sama verðmæti og þessi gjöf hefur í hans huga. Hann sækir því allar körfurnar og gefur Penny og biðst fyrirgefningar á að geta aldrei gefið henni jafn verðmæta gjöf eða ef til vill ættu betur við að segja dýrmæta gjöf. Hann tekur síðan utan um hana, varlega því Sheldon er ekki maður faðmlaga.

Segja má að Sheldon og Penny hafi haft afar ólíkar væntingar þegar kom að jólagjöfum. Sheldon spáði aðeins í virði gjafarinnar í krónum talið á meðan Penny hugsaði frekar um hvað myndi gleðja þennan nýja vin. En bæði höfðu þau væntingar.

Hverjar eru þínar væntingar á þessari aðventu eða fyrir þessi jól?

Nú þegar við hefjumst handa við að undirbúa jólin, við upphaf nýs kirkjuárs og heyrum í guðspjallinu söguna um upphafið að endinum. Sagan af því þegar Jesús kemur ríðandi inn í Jerúsalem í aðdraganda páskahátíðarinnar er sagan um það sem gerist stuttu áður en hann deyr. Aðeins nokkrum dögum eftir að fólkið fagnar Jesú, með því að hrópa „Hósíanna“ eða frelsari, breytast hrópin í „krossfestið hann“. Ástæðurnar fyrir þessu eru fyrst og fremst þær að fólkið sem þarna fagnaði hafði ákveðnar væntingar til Jesú sem ekki stóðust. Hann stóðst ekki þeirra væntingar. Hann hagaði sér einfaldlega ekki eins og frelsari og þaðan af síður eins og konungur, samkvæmt væntingum fólksins.

Svo ótal margt við Jesú Krist var fullt af mótsögnum. Frelsari heimsins fæddist sem lítið ósjálfbjarga barn við ekkert sérstakar aðstæður. Hann umgekkst fólk sem sem ekki þótti við hæfi að almennilegt fólk væri í samneyti við. Hann fylgdi ekki reglum um hvíldardaginn ef einhver þarfnaðist lækningar eða ef afla þurfti matar og svo mætti lengi telja. Já, og svo þegar hann reið inn í Jerúsalem við upphaf páskahátíðarinnar þá kom hann á asna. Asni var, og er, vinnudýr. Asnar eru litlir miðað við hesta sem þýðir að þegar manneskja situr á baki asna þá er hún í augnhæð við fókið sem gengur hjá eða stendur við veginn. Það er því varla til auðmýkri leið til þess að fara leiðar sinnar en að ríða asna, nema ef væri að ganga. Ef Jesús hefði komið á hesti hefði það táknað hernað og ef hann hefði komið í burðarstól hefði það táknað völd og ríkidæmi. Hann hafði hvorugt og hann vildi hvorugt.

Hann stóðst ekki væntingar fólksins.

Stenst hann væntingar þínar?

Stenst fólkið í kringum þig þínar væntingar?

Jesús, sem kom í heiminn til að sýna okkur hvernig Guðs er, kom með auðmjúkum hætti og mætti okkur fyrst sem lítið varnarlaust barn og síðan sem fullorðin manneskja í augnhæð.

Hvað segið það okkur um Guð?

Segir það okkur ef til vill að Guð er ekki alltaf eins og við höldum?

Segir það okkur ef til vill að Guð deilir kjörum okkar og mætir okkur í augnhæð en ekki sem upphafið afl sem uppfyllir allar okkar óskir og refsar okkur þegar við högum okkur illa.

Segir það okkur ef til vill að Guð sé stöðugt að verki og taki þátt í lífi okkar sem hinn æðsti kærleikur en að við tökum ekki alltaf eftir því vegna þess að við væntum þess að Guð sé einhvern vegin öðruvísi?

Ég held að við ættum við að opna huga okkar á þessari aðventu og reyna að koma auga á það hvernig Guð er að verki allt í kringum okkur án þess að vera með fyrirfram ákveðnar væntingar. Ef til vill gerum við það best með því að leyfa Guði að koma okkur á óvart eins og Guð gerði þegar Guð varð manneskja í litlu barni og þegar Jesús Kristur reið inn í Jerúsalem í augnhæð.

Og ef fólkð í kringum okkur stenst ekki okkar væntingar þá er einn möguleiki að endurskoða væntingarnar okkar.

Sheldon taldi sig hafa undirbúið sig fullkomlega fyrir hvaða gjöf sem Penny myndi gefa honum með því að kaupa allar stærðir af gjafakörfum en henni tókst samt sem áður að koma honum á óvart og gefa honum eitthvað miklu betra en hann hefði getað ímyndað sér.

Guð er líka miklu betra en nokkuð sem við getum ímyndað okkur. Guð er kærleikur sem er dýpri en allt sem við getum ímyndað okkur og mætir okkur þar sem við erum.

Látum Guð koma okkur á óvart. Við getum hvort eð er ekki undirbúið okkur.

Dýrð sé Guði sem elskar okkur eins og við erum og mætir okkur í augnhæð.