Skip to main content
Monthly Archives

janúar 2025

Þú getur haft áhrif

Eftir Prédikanir

 

Prédikun flutt í Dómkirkjunni á nýársdag 2024

Áramót
Jón Gnarr, sagði eitt sinn frá því í uppistandi að hann ætti afmæli 2. janúar, og sem barn, hafi það ekki verið auðveldur afmælisdagur.

2.janúar var nefnilega vörutalningadagur og allar búðir lokaðar, nema einstaka bensínstöð. Ár eftir ár fékk því aumingja kallinn hann Jón eingöngu bóntvist, ilmspjöld og rúðuþurrkublöð í afmælisgjöf.

Í dag er það, að mestu leyti, liðin tíð að öllu sé skellt í lás fyrir vörutalningar í upphafi árs, en áramótin eru þó – eftir sem áður – tími uppgjörs.

Áramótin veita okkur tækifæri til þess að líta í baksýnisspegilinn, gera upp hið liðna og finna út hvað við viljum að taka með okkur. Hvað höfum við lært af atburðum liðins árs? Hvað viljum við endurtaka og hvað viljum við aldrei nokkurn tíma að gera aftur.

Við sjáum þetta skýrast í dagskrá útvarps og sjónvarps í kringum áramót þar sem allt snýst um uppgjör. Vefmiðlarnir minna okkur á mest lesnu fréttirnar. Kryddsíldin gerði pólitíska árið upp. Fréttaannálarnir hafa verið sýndir, völvurnar hafa spáð fyrir um framtíðina og skaupið gerði svo grín að þessu öllu saman. Gamlársdagur er svolítið fyndinn hvað þetta varðar. Heilt ár er brytjað niður, soðið og hrært saman í sjónvarpsdagskrá eins dags.

Nú hefur það uppgjör átt sér stað.

En hvernig var árið þitt? Hvernig lítur þitt uppgjör út?

Var það óvenju gott? Gekk þér allt í haginn? Eða var það erfitt? Ertu ef til vill fegin/n/ð að árið 2024 er búið?

Ætli það hafi ekki verið blanda af báðu hjá okkur flestum? Ætli við séum ekki flest í þeim sporum nú, að þurfa að velja hvað við tökum með okkur inn í nýtt ár – og hvað við skiljum eftir?

Þrátt fyrir að við kveðjum liðið ár oft með tregablöndnum tilfinningum þá er svo gott til þess að vita að við getum alltaf byrjað upp á nýtt. Það er aldrei of seint. Og nýtt ár er einmitt, á ákveðinn hátt, boð um nýtt upphaf. Nýju ári fylgja nýjar vonir og nýir möguleikar.

Rétt eins og fjölmiðlar gera samfélagið okkar upp í heild, getum við nú gert okkur upp sem einstaklingar. Hér og nú. Í upphafi árs getum við valið hvað við gerum við það sem stóð upp úr hjá okkur. Hvaða fréttir skiptu okkur máli, hvaða reynslu getum við lært af og hvaða minningar viljum við geyma.

Auðvitað er þetta svolítil einföldun. Þó áramót marki nýtt upphaf fylgir þeim ekki reset-takki sem við getum haldið inni í þrjár sekúndur og allt verður gott á ný.

Erfiðar og sárar minningar frá liðnu ári fylgja okkur hvort sem við viljum það eða ekki. Afleiðingar mistaka geta haldið áfram að hafa áhrif og afleiðingar ofbeldis og sárrar reynslu hverfa ekkert. En við höfum val um hvernig við vinnum úr reynslu okkar og nýtt ár er kjörið tilefni til þess.

Leyfum við særindum síðasta árs að lita líf okkar og rífa okkur niður eða ætlum við að vinna úr þeim, læra af reynslunni og taka það sem byggir okkur upp með inn í framtíðina?

Alls konar ár
Árið sem við kvöddum í gær var ár vona og nýs upphafs. Árið færði okkur sögulegan fjölda nýliða á Alþingi, nýja ríkisstjórn og nýjan forseta.

Í tvígang á, síðasta ári fóru fram lýðræðislegar kosningar þar sem pólitískir andstæðingar tókust á, en komu svo saman í sjónvarpssal og tókust í hendur. Við sáum vinaleg lyklaskipti í ráðuneytum, við sáum Guðna bjóða Höllu velkomna á Bessastaði auk þess sem biskupskosningar urðu á árinu. Í þrígang vorum við minnt á hvað við erum lánsöm að búa í landi þar sem atkvæði okkar ráða för en ekki hnefinn.

Árið var þó einnig erfitt. Áföll hér heima og ófriður úti í heimi var sár áminning um hvað lífið getur verið brothætt.

Óvenju mörg manndrápsmál komu upp á Íslandi og þar voru börn ekki undanskilin. Þeim atburðum, auk slysa, sjálfsvíga og óhugnalegra glæpa s.s. mansals fylgdi gríðarleg sorg og áföll fyrir þjóðina alla. Þá sáum við ýmislegt benda til þess að börnum þessa lands líði ekki allt of vel.

Enn erum við að glíma við eldgos og afleiðingar þess á Reykjanesi og óvissa ríkir um framtíð Grindavíkur. Það er ekki á færi þeirra sem ekki hafa upplifað það sjálf að setja sig í spor þeirra sem hafa þurft að yfirgefa bæinn sinn og hefja nýtt líf á öðrum stað með öllu sem því fylgir auk óvissunnar um hvað gerist í næsta eldgosi.

Engin breyting hefur orðið á stöðunni í Úkraínu eða á Gaza og í Súdan er fólk að deyja úr hungri sem er afleiðing stríðs og skorts á hjálpargögnum. Og þetta er aðeins brot af þeim stöðum þar sem stríð geisar í heiminum.

Ég neita því ekki að mér hefur fundist myrkrið á liðnu ári vera óvenju dimmt. Vandamálin eru stór og áföllin voru þung.

En það er einmitt þá sem tímamót koma sér vel. Hvað tökum við með okkur úr þessum áföllum? Hvaða lærdóm viljum við draga af atburðum ársins.

Upp úr áföllum síðasta árs óx nefnilega margt gott sem vekur von.

Í kjölfar erfiðra atburða í sumar kom í ljós, einu sinni sem oftar, að þegar á reynir eigum við sem þjóð auðvelt með að sýna náunganum samkennd og okkur er sannarlega ekki sama um líðan og afdrif náungans.

Þannig skapaðist til að mynda mikil umræða um liðan barna og fólks almennt hér á landi sem ég hef fulla trú á að muni leiða til góðs.

Framganga Gisele Pelicot vakti einnig von á þessu ári. Hún varð fyrir ólýsanlegu ofbeldi af hálfu maka síns sem með skipulögðum hætti byrlaði henni og bauð tugum manna að nauðga henni. Þetta voru menn sem hún þekkti og hitti jafnvel daglega.

Ekki aðeins hafði Gisele Pelicot kjark til þess að segja sögu sína opinberlega, heldur beinlínis krafðist hún þess að allur heimurinn fengi að sjá og heyra hvað eiginmaður hennar og samverkamenn hans gerðu henni og faldi sjálfa sig ekki á bakvið nafnleynd.

Öllu jafna, hefði Gisele gengið inn í hlutverk nafnlausa fórnarlambsins í enn einum lokuðu réttarhöldunum. Þessu hlutverki hafnaði hún.

Þegar ég sé andlit Gisele Pelicot í fjölmiðlum sé ég ekki andlit fórnarlambs. Ég sé andlit sterkrar konu sem var þolandi ofbeldis sem var ekki henni að kenna. Martröð Gisele færði okkur nýja sýn á veruleika þolenda kynferðisofbeldis og færði skömmina frá þolandanum og þangað sem hún á heima.

Úr illu óx eitthvað gott.

Á aðventunni vakti Frans páfi von með hugrekki sínu. Hann hefur aldrei hvikað frá því að tala fyrir friði í heiminum og þessi jól var Jesúbarnið í jötunni í Vatikaninu vafið í Keffiyeh, eða Palestínuklút. Um þessi jól sáu hundruð þúsunda ferðafólks Jesúbarnið vafið palestínuklúti og voru um leið minnt á að fæðingaborg Jesú er hernumin, að Jesúbarnið liggur enn í rústunum með saklausum börnum þar sem saklaust fólk er drepið nánast dag hvern á Gaza.

Á meðan stjórnmálamenn heimsins rífast um hvor byrjaði eða um stjórnspekilega skilgreiningu á hugtakinu ”þjóðarmorð”, eru börn myrt í Palestínu.

Þegar hús nágranna okkar stendur í ljósum logum skipta eldsupptök eða tryggingaskilmálar engu máli. Við bara slökkvum eldinn.

Í Palestínu er verið að drepa börn, og ekkert annað skiptir máli. Á þetta minnti páfinn okkur.

Hann vill ekki að við lítum undan og látum sem ekkert sé þegar börn eru drepin á hverjum degi á Gaza  eða hvar sem er í heiminum. Hann vill ekki að við lítum undan þegar hjálparstofnanir fá ekki að komast til fólks með hjálpargögn. Hann vill að við stöndum með þeim sem verða undir og styðjum endanlegt vopnahlé og frið. Og það hljótum við öll að gera.

Að velja nafn
Guðspjall nýársdags er aðeins eitt vers. Þar er sagt frá því að Jesús fékk nafnið sitt um leið og hann var umskorinn.

Mér er minnistætt þegar við foreldrarnir völdum nöfn á börnin okkar. Við skrifuðum niður nöfnin sem okkur þótti fallegust og svo bárum við þau saman og völdum að lokum úr það sem okkur báðum þótti best. Það virkaði vel með annað barnið en þegar við völdum nafn á hitt barnið, áður en það fæddist, urðum við að skipta um skoðun þegar barnið kom í heiminn því nafnið sem við höfðum valið passaði alls ekki við barnið.

Það fylgir því mikil ábyrgð að velja nafn á barn, nafn sem manneskjan á, nær undantekningarlaust eftir að bera alla sína ævi. Oft er presturinn ein af fyrstu manneskjunum til  að heyra nafn barnsins sem bera á til skírnar og þá eru foreldrarnir enn að æfa sig í að segja nafnið upphátt. Stundum er svo erfitt að taka endanlega ákvörðun um nafn að það er ekki gert fyrr en rétt fyrir skírnarathöfnina.

Foreldrar Jesú gáfu drengnum nafnið sitt um leið og hann var umskorinn. Hann var jú gyðingur og því fylgdu foreldrar hans þeim sið. Samkvæmt Ritningunni höfðu foreldrar hans reyndar ekkert um það segja hvaða nafn hann fékk heldur tilkynnti engill Drottins Jósef að hann skyldi láta drenginn heita Jesús. Merking nafnsins er Guð frelsar.

Nöfn skipta máli vegna þess að við, hvert og eitt skiptum máli. Nafnið er þitt helsta einkenni. Við þekkjum hvert annað með nafni og Guð þekkir okkur með nafni. Í skírninni biður presturinn Guð að rita nafn barnsins í lífsins bók.

Þú getur haft áhrif
Þegar vandamál heimsins eru jafn stór og raun ber vitni er ekki nema von að okkur fallist hendur. Hvaða máli skipti ég í þessu risastóra samhengi vandamála heimsins. Hvaða áhrif get ég haft?

Svarið hér er einfalt: Við skiptum öllu máli. Þú, sem Guð þekkir með nafni, skiptir máli.

Það er eins með stóru vandamálin og þau litlu – Við byrjum á okkur sjálfum.

Við getum nefnilega, hvert og eitt gert ýmislegt til þess að bæta líf okkar sjálfra og heiminn allan um leið. Vissulega er ekki allt í okkar eigin höndum en þó meira en við oft gerum okkur grein fyrir.

Við getum íklæðst trúnni með því að gefa gaum að okkar eigin andlegu heilsu, rækta okkar trúarlegu þarfir og rækta gildin sem sameina okkur. Þannig setjum við hlutina í samhengi eilífðarinnar og öðlumst viturt hjarta. Og þá  verður auðveldara að sjá, eins og Páll postuli talar um í pistli dagsins, manneskjur með ákveðin nöfn en ekki aðeins fólk sem tilheyrir ólíkum hópum.

Við getum íklæðst kærleikanum með því að hlúa að börnum okkar og með því að opna á umræðu um geðheilsu Íslendinga. Við höfum verið dugleg að opna fyrir umræðu, vinna gegn fordómum og skömm þegar kemur að hinseginfólki, kynferðisofbeldi og kynferðisáreitni. Þessum sama árangri þurfum við nú að ná í málefnum fólks með geðsjúkdóma.

Þar er mikið verk að vinna. Geðheilbrigðiskerfið hér á landi hefur orðið útundan undanfarin ár. Við þurfum að byggja upp kerfið, þjónustuna og vinna gegn fordómum fyrir geðsjúkdómum. Það er engin skömm að vera haldin/n/ð andlegum sjúkdómi frekar en líkamlegum og fjöldi sjálfsvíga er til vitnis um að geðsjúkdómar geta verið lífshættulegir. Afleiðingar geðsjúkdóma geta verið skelfilegar fyrir svo ótal marga ef fólk fær ekki viðeigandi greiningu og hjálp.

Við getum íklæðst voninni og hugrekkinu og tekið okkur fólk eins og Frans páfa og Gisele hina frönsku til fyrirmyndar. Það gerum við með því að tala ávallt með friði. Það gerum við með því að standa með okkar minnstu systkinum þegar þau þurfa mest á því að halda og þegar pólitískt þras skyggir á það sem raunverulega skiptir máli getur kirkjan – og á kirkjan – að stíga inn. Þó ekki nema til þess að minna á að börn eiga aldrei skilið að deyja í stríði.

Ef við gerum þetta. Ef við berum höfuðið hátt eins og Gisele sama hvað á okkur dynur og látum aldrei hengja á okkur skömm sem er ekki okkar, þá getur gott vaxið úr illu, og hægt og rólega gerum við heiminn allan … að betri stað.

Nýtt upphaf
Í dag er fyrsti janúar. Tími uppgjörs. Tími vörutalninga.

Nýtt ár minnir að mörgu leyti á kristna upprisutrú. Að hægt er að rísa upp frá hverju sem er, að öll getum við byrjað upp á nýtt. Mörg okkar nota tækifærið í upphafi nýs árs og hefja nýjan lífsstíl. Líkamsræktarstöðvar fyllast og haldast þannig eitthvað fram í febrúar. Vinnustaðir glæðast lífi á ný og skólastofur fyllast.

Nýtt ár. Nýtt upphaf. En lífið heldur áfram. Spurningin er, hvað ætlum við að taka með okkur frá árinu sem var að líða?

Þetta er spurning sem við í Þjóðkirkjunni spyrjum okkur einnig; Hvað ætlum við að taka með okkur inn í nýtt ár?

Kirkjan stendur, hér eftir sem hingað til, öllum opin. Prestar og djáknar Þjóðkirkjunnar ganga með fólki og styðja á erfiðustu stundum lífsins jafnt sem gleðistundum. Þegar áföll verða getum við nánast gengið út frá því að þar séu prestar og djáknar að styðja fólk án þess að það komi nokkurs staðar fram opinberlega.

Á þessu verður engin breyting á nýju ári.

En við ætlum þó að taka ýmislegt með okkur frá liðinu ári.

Við ætlum til dæmis að hlúa að börnunum okkar og setja aukinn kraft í æskulýðsstarf kirkjunnar á árinu 2025. Við ætlum að valdefla ungt fólk innan kirkjunnar og hvetja þau til þess að taka í ríkara mæli þátt í að móta stefnu og starf Þjóðkirkjunnar.

Á komandi ári langar mig líka til þess að sjá kirkjuna leiða með góðu fordæmi og leggja sitt af mörkum til þess að vinna bug á fordómum sem fylgja geðsjúkdómum. Smán og skömm sem enn fylgir geðsjúkdómum er dulið samfélagsmein sem þarf að uppræta.

Rödd kirkjunnar er sterk rödd sem heyrist víða og hana ætlum við að nýta til góðra verka.

Á þessum fyrsta degi nýs árs leggjum við árið í Guðs hendur og biðjum fyrir því. Við biðjum fyrir friði, fyrir reisn hverrar manneskju og fyrir því að við, hvert og eitt, íklæðumst trú, kærleika, von og hugrekki og gerum það sem í okkar valdi stendur til þess að bæta heiminn sem við erum hluti af.

Göngum hugrökk inn í nýtt ár, bein í baki með kærleika Guðs og velvild sem verkfæri. Jesús, sem fékk nafnið, Guð frelsar gefi þér farsælt ár.

Dýrð sé Guði sem þekkir þig með nafni, elskar þig eins og þú ert og gefur þér trú, von, kærleika og hugrekki.
Amen.

Jáið sem breytti öllu

Eftir Prédikanir

Prédikun flutt í helgistund á jólanótt 2024 sem sýnd var á Rúv en tekin upp í Reynivallakirkju í Kjós.

Sami boðskapur aðrar túlkanir
Fyrir nokkrum árum var þáverandi biskup Íslands, Agnes M Sigurðardóttir, spurð að því hvort kirkjan væri ekki hreinlega gamaldags. Mér þótti vænt um svar Agnesar þegar hún sagði: “Jú, boðskapurinn er 2000 ára”.

Boðskapurinn er 2000 ára.
Og hann er enn í fullu gildi.

Jólaguðspjallið hefur ekkert breyst frá því í fyrra eða hitteðfyrra. Við segjum alltaf þessa sömu gömlu sögu á hverjum jólum og erum ekkert að poppa hana upp. Enda er engin þörf á því.

Á yfirborðinu er kannski ekki margt í mannlegu samfélagi sem getur státað sig af því sama – að hafa lifað í 2000 ár í óbreyttri mynd. Í nútíma samfélagi einblínum við einmitt á breytingarnar og segjum stolt frá því hve hraðar þær eru. Við höfum gaman af að segja frá hvernig lífið og tilveran var þegar internetið var ekki í farsímum og hlæjum að minningunni um það þegar við þurftum að hætta á internetinu því einhver þurfti að nota símann.

Já, tímarnir breytast og mannfólkið með, eða hvað?

Í kvöld borðuðum við flest hátíðarmat með ástvinum, rétt eins og forfeður og -mæður okkar á umliðnum öldum. Þó að við greiðum flest fyrir matinn með farsímanum þá er niðurstaðan sú sama: Jólamáltíð með fjölskyldunni.

Í tvö þúsund ár höfum við sagt sömu söguna af fæðingu frelsarans og við segjum nú. Í tvö þúsund ár hefur sú saga haft djúp áhrif á hinn kristna heim. Það hefur ekki breyst.

Já, Agnes biskup hitti naglann svo sannarlega á höfuðið. Boðskapurinn er tvö þúsund ára – og við erum gamaldags.

En þó sagan sé hér sögð í tvöþúsundasta skipti, er ekki þar með sagt að við heyrum það sama og þau sem á undar okkur komu.

Við túlkum boðskapinn á annan hátt nú en hin fyrstu jól, því við erum annað fólk, með aðra reynslu. Það sama á við þegar við eldumst og þroskumst því þá breytist sýn okkar á hluti sem ávallt standa stöðugir.

Á þessu aðfangadagskvöldi er því vel við hæfi að skoða hvað fæðingarsagan um komu Guðs inn í heiminn hefur að segja okkur í dag. Hvað segir hún um okkur sjálf og aðstæðurnar í heiminum um þessi jól?

Hvað heyrir þú þessi jól?

Biblían segir frá ákveðnum atburðum og upplifun fólks af þeim, um reynslu fólks og upplifun af Guði og vitnisburðum um Jesú Krist. En um leið fjallar Biblían um þig og mig. Hér og nú, á þessum stað, á þessum tíma, á þessari jörð. Hún fjallar um samband Guðs og manneskjunnar.

Getur verið að fæðingarsagan segi okkur eitthvað um það hvernig við gefum fólki rými, jafnvel þegar allt virðist fullt?

Getur verið að sagan segi okkur hvernig fréttirnar af merkilegum atburðum koma til okkar næstum eins og englar væru þar á ferð?

Getur verið að sagan segi okkur frá því sem getur gerst ef við fylgjum boðskap englanna og könnum aðstæður með eigin augum?

Getur verið að sagan segi okkur frá Guði sem kemur á óvart og er ekki eins og við höldum.

Mennskan er ekki í Excel
Í upphafi aðventunnar var söfnunarþáttur UNICEF sýndur á RÚV, Stöð 2 og Sjónvarpi Símans. Í þættinum var fólki boðið að gerast heimsforeldrar, styðja og styrkja börn víðsvegar um heiminn sem búa við óásættanlegar aðstæður. Þátturinn hét því viðeigandi nafni „Búðu til pláss“. Það verður nefnilega að vera til pláss fyrir hverja einustu manneskju sem fæðist inn í þennan heim. Þó er það svo að fimmta hvert barn í heiminum býr við stríð og enn fleiri börn búa við fátækt og ofbeldi ýmis konar.

Það má því segja að stór hluti barna í heiminum eigi sér ekki sjálfsagðan samastað.

Áhrifaríkasta leiðin til þess að ná athygli okkar og virkja hæfileika okkar til þess að setja okkur í spor annarra er að segja sögur, sannar sögur. Í þessum þætti fengum við að heyra sögur barna sem búa við stríðsástand í Úkraínu, á Gaza og í Súdan. Þetta er þó aðeins lítið brot af þeim stöðum þar sem börn búa við stríð.

Yfir 2100 nýjir heimsforeldrar bættust við þetta kvöld, í upphafi aðventunnar, fyrir utan öll þau er styrkja starfið með öðrum hætti. Þessar sögur höfðu áhrif. Þær höfðu áhrif vegna þess að þær eru raunverulegar. Þær segja frá aðstæðum raunverulegra barna sem gætu alveg eins verið þín börn eða mín.

Þarna gafst okkur tækifæri til að búa til pláss eins og gistihúseigandinn forðum í Betlehem. Hann var sá eini sem ekki sagði nei og bjó til rými handa handa ungum verðandi foreldrum þó ekki væri aðstaðan beysin. Hann hefði vel getað sagt nei eins og hinir og haldið áfram að lifa sínu þægilega lífi og ekki hugsað um þetta fólk meir. En JÁIÐ hans breytti öllu fyrir þessa litlu fjölskyldu og fyrir þig og mig.

Eitt lítið orð, Já, sem breytti öllu þá og getur breytt öllu nú!

 

Enn eru verðandi foreldrar sem ekkert eiga, nema möguleikann á jái frá ókunnugum gistihúsaeiganda.

Aldrei nokkurn tíma hefur jafn mikið af fólki verið á flótta í heiminum. Aldrei hafa jafn mörg börn verið á flótta í heiminu. Öll þurfa þau gistirými einhvers staðar og það er hlutverk heimsbyggðarinnar allrar að vera gistihúseigandinn og bregðast við með manneskjulegum hætti, því í þessu ástandi eru það börn sem líða. Börn sem gætu vel verið þitt barn eða mitt. Þau þurfa pláss.

En það er annars konar pláss sem við þurfum líka að búa til fyrir börnin okkar. Okkur er sagt af þeim sem vel til þekkja að of mörgum börnum líði illa, þau eiga erfiðara með að sýna samkennd og alltof mörg börn búa við fátækt og verða fyrir ofbeldi. Börn sem búa við erfið kjör, hvar sem er í heiminum þurfa á stuðningi okkar að halda. Þau þurfa pláss í gistihúsinu, þau þurfa á því að halda að við lítum upp úr símanum og raunverulega sjáum þau.

Í jólaguðspjallinu segir frá hirðum sem eru staddir úti í haga og eru fyrstir til að fá fréttirnar frá englunum. Nú höfum við fengið fréttirnar um börnin sem þurfa á okkur að halda. Hvernig ætlum við að bregðast við? Þau okkar sem eru aflögufær geta gerst heimsforeldrar en við getum líka gert eins og hirðarnir, haldið af stað og kannað málið. Ekki veit ég hvort þessir lægst settu þegnar samfélags þess tíma hafi langað til að hlusta á englanna, fara út fyrir þægindarammann, fylgja stjörnunni og kanna málið sjálfir, en þeir gerðu það.

Hvað gerist ef við hlustum á boðskap englanna og fylgjum stjörnunni? Hvaða fréttir eru það sem englarnir færa okkur í dag?

Ef til vill heyrum við boðskapinn um börnin sem þurfa á okkur að halda, beiðnina um að við búum til pláss í lífi okkar fyrir þau.

Ef til vill heyrum við boðskapinn um að öll heimsbyggðin verði að standa saman og búa til pláss fyrir þau sem ekki eiga sér samastað. Við getum, hvert og eitt, og sem samfélag lagt okkar af mörkum til þess að auka kærleikann í heiminum og rýma til fyrir öll börn, bæði úti í heimi og hér á landi.

Við getum öll, hver sem við erum, saman eða í sitt hvoru lagi lagt okkar af mörkum. Það þarf aðeins eitt lítið orð: JÁ.
Já, ég er til staðar fyrir þig.
Já, það er pláss fyrir þig.

Ef við fylgjum stjörnunni finnum við barnið sem gefur okkur meiri kærleika en við töldum mögulegt. Hjarta okkar stækkar og við verðum tilbúin til að búa til pláss.

 Jólaguðspjallið er ævintýri
Jólaguðspjallið, sem aldrei breytist, er svolítið eins og ævintýri. Þar er björt stjarna sem vísar veginn, englar sem birtast með fréttir og barn sem fæðist í fjárhúsi undir þessari sömu stjörnu og lifir af.

Þetta er fögur mynd um sanna mennsku og ást. Þetta er ævintýramynd.

Hún er fögur vegna þess að hún er svolítið ævintýraleg. Hún talar til okkar innstu tilfinninga og við þekkjum hana svo vel. Hún er margræð og hún er sönn. Hún getur ekki verið annað en sönn því Guð kemur inn í líf okkar með hætti sem við síst af öllu búumst við.

Hún er sönn í merkingunni að Guð er að verki í lífi okkar og litla barnið í jötunni færir okkur nær JÁ-inu. Barnið opnar hjörtu okkar og barnið býr til pláss fyrir þau börn sem hafa enn ekki fengið sitt já.

Sagan gefur okkur fyrirheit um að lífið geti farið vel. Lífið getur farið vel fyrir fleiri en okkur sjálf, ef við heyrum boðskapinn, fylgjum stjörnunni og könnum málið.

Þá finnum við ef til vill kærleikann sem fær okkur til þess að vilja bjóða fram öll rýmin í gistihúsinu okkar. Þannig getur sagan þín, hver sem hún er og hvernig sem hún lítur út einmitt í dag, farið vel. Því ef þú fylgir stjörnunni þá finnur þú Guð sem er hinn æðsti kærleikur sem vill þér aðeins hið allra besta.

Hlýðum á englaraddirnar allt í kringum okkur og verum óhrædd við að fylgja englum og stjörnum því kannski finnum við lítið barn sem fæddist í fjárhúsi þegar engin herbergi voru laus og lifði af, fyrir þig og mig. Ef til vill fær þetta barn þig til þess að opna hjarta þitt og finna pláss þar sem þér datt ekki í hug að leita áður.

Dýrð sé Guði sem kemur til okkar í litlu barni og fær okkur til þess að opna hjörtu okkar, segja já og búa til pláss. Amen.