Skip to main content
Flokkur

Prédikanir

Flugfreyjan, Jesús og allt sem í okkur býr

Eftir Prédikanir

Mikilvæg saga
Það er aðeins ein kraftaverkasaga sem kemur fyrir í öllum fjórum guðspjöllum Nýja testamentisins. Og ekki nóg með það heldur kemur hún sex sinnum fyrir sem þýðir að hún birtist tvisvar sinnum í tveimur guðspjallana. Saga dagsins um brauð undrið, þegar Jesús mettaði mikinn fjölda fólks með litlu, fangaði höfunda guðspjallana svo mjög að þeir vildu allir hafa hana með og það oftar en einu sinni. Við eigum, af einhverjum ástæðum, ekki að missa af þessari sögu.

Hvers vegna ætli þessi saga sé svona mikilvæg? Við getum endalaust rökrætt um það hversu mikið af fólki þetta raunverulega var sem Jesús mettaði. Voru þessi 4000 eða 5000 eingöngu karlar eða eru konur og börn inni í þessari tölu o.s.frv. Við getum velt því fyrir okkur hvort þetta hafi verið raunverulegt kraftaverk eða hvort þetta hafi kallað fram örlæti í fólkinu sem var þarna samankomið. Við getum velt því fyrir okkur hvort þessi viðburður hafi raunverulega átt sér stað og hvort atburðarásin hafi þá verið nákvæmlega með þessum hætti.

Hvað með að skoða þriðja möguleikann, aðra vídd sem hvorki er mælikvarði á sagnfræði eða kraftaverk? Getur verið  að það sé eitthvað annað sem skipti meira máli í þessari sögu en kraftaverk eða staðreyndir? Er mögulegt að Guð eigi við okkur svo áríðandi erindi með þessari sögu að við verðum að fá að heyra hana oft? Þekkja hana vel?

Flugfreyjan
Til er saga frá rithöfundinum og kvekaranum Parker Palmer sem tengist sögu dagsins. Þessi atburður átti sér stað fyrir tíma hertra reglna á flugvöllum og gegnumlýsingar á farangri. Eða þegar enn mátti fara með hvað sem var í handfarangri í flugvél.

Palmer var staddur í flugvél á leið frá Chicago til Denver. Farþegarnir voru allir komnir út í vél. Búið var að loka og vélin að nálgast flugbrautina þegar flugvélin stöðvast og slökkt er á hreyflunum. Stuttu síðar heyrist rödd flugstjórans í hátalarakerfinu og hann segir að hann sé því miður ekki með góðar fréttir, að það sé stormur í Denver og búið að loka flugvellinum þar. Þau þurfa því að bíða um borð í vélinni í nokkra klukkutíma á meðan að stormurinn gengur yfir. Það sem verra er, er að enginn matur er um borð í vélinni. Við getum rétt ímyndað okkur viðbrögð farþegana. Margir stundu yfir þessu og sumir urðu reiðir. En þá stendur ein flugfreyjan upp og tekur hljóðnemann. „Okkur þykir þetta virkilega leitt“ segir hún. „Við gerðum ekki ráð fyrir þessu og við getum því miður ekkert gert í þessu núna. Við vitum að þetta er afar erfitt fyrir mörg ykkar. Þið eruð svöng og einhver ykkar höfðu gert ráð fyrir góðum hádegisverði á áfangastað. Og einhver ykkar þurfa jafnvel á mat að halda fljótlega, heilsu ykkar vegna. Svo ég er með hugmynd. Við erum hér með nokkrar tómar brauðkörfur sem við látum nú ganga um vélina og þið setjið öll eitthvað í körfuna. Mörg ykkar eru með eitthvað svolítið nasl með ykkur, kex, súkkulaði, snakk, brjóstsykur eða tyggjó t.d. Ef þið eruð ekki með neitt ætilegt getið þið bara látið nafnspjaldið ykkar, bókamerki, límmiða eða bara hvað sem ykkur dettur í hug í körfuna. Ég vona að öll setjið þið eitthvað í körfurnar. Síðan munum við láta körfurnar ganga aftur og þá takið þið úr þeim það sem þið þurfið.“

Það sem gerðist næst var alveg magnað. Til að byrja með hætti fólk að kvarta. Þá fór fólk að róta í vösum og töskum. Einhver fóru og náðu í töskur í farangurhólfin og tóku fram sælgæti, pylsur, skinku, ost, gosdrykki, vínflösku svo eitthvað sé nefnt. Það sem gerðist einnig var að þarna var fólk farið að spjalla saman og hlæja. Flugfreyjan hafði með þessu breytt áhyggjufullum, kvíðnum hópi sem einblíndi eingöngu á sínar eigin þarfir og skort, í vinalegt samfélag fólks sem hjálpaðist að og sá að það átti í raun meira en nóg af öllu.

Þegar vélin síðan lenti í Denver og farþegarnir gengu út sagði Palmer við flugfreyjuna: „þú veist það kannski en að það er saga í Biblíunni um það sem þú gerðir“. „Já, ég þekki söguna“ sagði hún. „Það er þess vegna sem ég gerði þetta“.

Skortur
Hversu oft hefur þú ekki sagt, „ég á bara ekkert að bjóða upp á.“ „Ég á ekkert að vera í.“ „Ég hef bara ekkert að gefa“. „Ég kann ekki, ég get ekki, ég er ekki nóg…“

Ég hef í það minnsta bæði sagt þetta og hugsað. Ég fyllist oft minnimáttarkennd þegar ég hvað fólkið í kringum mig hefur mikið að gefa, hvað það er klárt og duglegt og hæfileikaríkt. Og ég fer að velta mér upp úr öllu því sem mig skortir.

En þegar við hugsum eftir þessum brautum einblínum við á skortinn og fátæktina í okkur sjálfum og sjáum ekki allt það sem við þó eigum og getum og höfum upp á að bjóða.

Allt sem í okkur býr
Flest eyðum við miklum tíma í að hugsa um allt sem okkur skortir og okkur skortir öllum svo sannarlega eitthvað. En hvernig væri það ef við, í stað þess að einblína á það sem við höfum ekki, getum ekki og kunnum ekki, leitum að því sem við þó höfum, getum og kunnum og það sem við erum. Við eigum nefnilega alltaf meira en við höldum. Við getum svo miklu meira en við þorum að vona og við kunnum meira en við trúum.

Það er nefnilega svo að allt stórkostlegt sem Guð gerir, allt það meriklegasta sem sagt er frá í Biblíunni verður til úr litlu, úr skorti, úr veikleika. Ekki úr allsnægtum og styrkleika. Eins og guðfræðingurinn Nadia Bolz Weber sagði: „Jesús sagði aldrei að guðsríki væri eins og eitt af 500 arðbærustu fyrirtækjum veraldar með hamingjusömustu hlutabréfaeigendunum innanborðs“. Nei, guðsríki er líkt við minnsta sáðkorni á jörðu. Því er gott að þekkja það sem okkur skortir, að þekkja veikleikana okkar, ef við látum okkur ekki nægja að einblína á þá. Ef við getum horft lengra og búið til eitthvað ríkulegt úr skortinum.

Þriðja víddin í þessari sögu er ef til vill sú að Guð hefur áhuga á veikleikum okkar, á því sem við upplifum okkur skorta vegna þess að Guð vill hjálpa okkur að vaxa upp úr því og finna styrkinn okkar. En ef til vill þarf eina flugfreyju eða einn Jesú frá Nasaret til þess að hjálpa okkur að koma auga á að okkur skortir svo miklu minna en við höldum og það býr svo miklu meira í okkur en við þorum að trúa. Og þetta finnum við þegar við deilum skortinum okkar með öðru fólki og hjálpumst svo að við að safna styrkleikunum okkar saman í brauðkörfur og deilum þeim með hvert öðru.

Bjálki, flís og slaufun

Eftir Prédikanir

Bjálki og flísar
Jesús hafði einstaka hæfileika til að gera boðskap sinn skiljanlegan með snjöllum líkingum. Þær eru gjarnan einfaldar og snjallar en oft er líka mikill húmor í þeim. T.d. þessi með að koma kameldýri í gegnum nálarauga, að rétta fram hinn vangann og svo líking dagsins um bjálkann og flísina.

Sjáum þetta fyrir okkur. Ég geng um með bjálka, stóra spýtu eða staur út úr auganu á mér og á sama tíma er ég að bisast við að tína flísar úr augum fólksins í kringum mig.
Hvað gerist?

Jú ég hlýt að reka bjálkann utan í fólkið og svo er stór hætta á að ég roti fólk þegar ég sný mér. Á sama tíma ætla ég að ná litlum flísum úr öðrum!

Dómar
Þessi sunnudagur fjallar um dóma. Allir textar dagsins fjalla um réttláta dóma, um auðmjúka dóma og um umburðarlyndi gagnvart fólki.

Í lexíu Gamla testamentisins segir Guð við Sakaría:
„Fellið réttláta dóma
og sýnið hver öðrum miskunnsemi og samúð.
Níðist hvorki á ekkjum, munaðarleysingjum,
aðkomumönnum né fátæklingum
og hyggið ekki á ill ráð
hver gegn öðrum í hjarta yðar.“ (Sak 7:8-10)

Í pistli dagsins í Rómverjabréfinu brýnir Páll postuli, fyrir söfnuði sínum umburðarlyndi gagnvart þeim sem sem eiga aðra trú og búa við ólíka menningu og siði. Já og í guðspjallinu minnir Jesús okkur á að dæma ekki annað fólk harðar eða með öðrum hætti en við getum sjálf hugsað okkur að vera dæmd. Og svo hnykkir hann út með líkingunni um bjálkann og flísina og biður okkur um að vera ekki hræsnarar.

Bersyndugt fólk og slaufun
Þetta eru býsna ákveðin skilaboð á sumardegi í júní en eins og svo oft er Biblían með puttann á púlsinum vegna þess að umfjöllunarefnin eru sístæð. Dómharka er ekkert nýtt fyrirbæri. Slaufunarmenning (cancel culture) er ekki nýtt fyrirbæri þó búið sé að finna nýtt hugtak yfir það.

Við höfum alltaf reynt að útiloka ákveðna hópa, ákveðið fólk, og oft tekist það býsna vel. Ég held að í flestum samfélögum og á öllum tímum séu einhver álitin bersyndug. Bersyndugar konur voru grýttar til dauða, á tímum Jesú frá Nasaret því þær hegðuðu sér ósæmilega samkvæmt einhverju fyrirfram ákveðnu viðmiði en karlar sem stunduðu sambærilegt líferni voru ekki grýttir. Nornir og galdrakarlar voru brennd langt fram eftir öldum því þau þóttu ósæmileg og jafnvel hættuleg. Konur sem fóru í hið svo kallaða „ástand“ á hernámsárunum voru sannarlega álitnar bersyndugar og þeim komið fyrir á sérstökum heimilum og brennimerktar í augum almennings. Fólk sem tjáð hefur skoðanir sem ekki samræmast því sem er viðurkennt hefur oftar en ekki verið útilokað og jafnvel fangelsað og tekið af lífi í ákveðnum samfélögum og svona mætti lengi telja.

Í dag þegar þetta fyrirbæri hefur færst yfir á samfélagsmiðla er það farið að vekja athygli okkar á annan hátt. Ef til vill er það vegna þess að miðlarnir eru öflugir og hlutirnir því fljótir að gerast og þróunin hröð. Slaufunarmenningin hefur í það minnsta fengið mikla umfjöllun undanfarið í fjölmiðlum og oft á tíðum fjallað um þetta sem nýtt fyrirbæri þó því sé fjarri lagi. Ef til vill er ástæðan fyrir þessari miklu athygli og áhuga á fyrirbærinu þessa dagana sú að þetta hefur að miklu leyti beinst gegn þekktum listamönnum, fremst körlum sem hafa brotið á konum.

Dómstólar götunnar
Gatan hefur alltaf átt sinn dómstól eða öllu heldur dómstóla. Og við vitum sjaldan fyrirfram hvaða hópur verðu talinn hinn bersyndugi næst. Það er þó munur á því að verða fyrir slaufun fyrir að hafa brotið á annarri mannesku, beitt ofbeldi en að verða fyrir þessu fyrir það eitt að tilheyra t.d. ákveðnum minnihlutahópi eða fyrir að tjá óvinsælar skoðanir. Það sem hefur gerst með annarri bylgju #metoo er að nú beinist útilokunin eða slaufunin að gerendum en ekki þolendum eins og algengara hefur verið í gegnum tíðina. Þessi slaufun ber auk þess með sér að fólk sé í auknum mæli farið að taka mark á þolendum kynferðisbrota.

Ég nokkuð viss um að ástæðan fyrir því að þessi aðferð er svo áhrifarík gagnvart körlum sem beita konur ofbeldi snýst um vantraust á dómstólunum sem hafa það hlutverk að dæma í þessum málum. Hún er skiljanleg og oft á tíðum upplifir fólk hana sem eina úrræðið.

Eiga afturkvæmt
Ég er þó sannfærð um að þau sem verða fyrir slaufunaraðferðinni á samfélagsmiðlum í dag (vegna ásakana um kynferðisbrot) eigi flest eða öll afturkvæmt ef þau aðeins gangast við því sem þau hafa gert á hlut annarra og tjá það með heiðarlegum og einlægum hætti. Ef þau sýna sanna iðrun og yfirbót. Það er alls ekki víst að þau fái fyrirgefningu allra, enda er það oft á tíðum til of mikils ætlast, en þau eiga afturkvæmt í samfélg sem yfirleitt er tilbúið til að fyrirgefa þeim sem iðrast. Hér þýðir þó ekkert að koma með hálfgildings útskýringar eða afsakanir því fólk þekkir muninn á sannri iðrun og falskri. Þetta kemur aldrei í staðinn fyrir dóm þar til bærra dómstóla þegar brot hefur átt sér stað en getur þó haft töluverð áhrif á æru fólks og stöðu.

Bjálki og flísar
Áður en við tökum þátt í því að slaufa fólki er gott að skoða bálkann í augum okkar sjálfra. Ef ég er farin að taka eftir flísunum í augum fólksins í kringum mig er besta ráðið að ráðast að bjálkanum sem stendur út úr höfðinu á sjálfri mér, áður en ég fer að tína flísarnar. Mér er ómögulegt að ná flís úr augum annarra ef ég læt bjálkann vera því ég mun bara skaða annað fólk á leiðinni og jafnvel sjálfa mig líka.

Og hver veit nema ég sjái skýrar þegar bjálkinn er horfinn.

Á þessum sunnudegi dómsins erum við hvött till þess að dæma ekki eða að öðrum kosti að fella réttláta dóma. Það gerum við best ef við förum að ráði Jesú og könnum stöðuna á bjálkanum í okkar eigin auga áður en við dæmum annað fólk.

Dýrð sé Guði sem ævinlega dæmir réttlátlega, Guði sem dæmir af ást.

Tillögur að föstu

Eftir Prédikanir

Að reka út illa anda
Hefur þú rekið út illa anda? Heldurðu að það sé ekki magnað að geta það?

Prestar eru reyndar stundum kallaðir á heimili til þess að blessa það (og jafnvel reka út eitthvað illt) þegar fólk upplifir eitthvað óþægilegt á heimilinu sínu. Oftast nær felst það í því að presturinn gengur um heimilið, signir yfir glugga og hurðir, blessar heimilið og íbúa þess og biður fyrir þeim.

Í guðspjalli dagsins er sagt frá því hvernig 70 manns, sem Jesús hafði sent á undan sér til þess að boða Guðs ríki, komu til baka uppnumin yfir kraftinum sem bjó í þeim. Þau gátu jafnvel rekið út illa anda!

Flest erum við ekki mikið í því, að reka út illa anda, ekki svona dags daglega í það minnsta.

Eða hvað?

Fastan
Í dag er fyrsti sunnudagur í föstu en fastan hefst á öskudaginn ár hvert. Fastan stendur rúmlega í fimm vikur frá öskudegi til páskadags. Þessi tími er hugsaður til íhugunar og iðrunar og yfirbótar. Þetta er tíminn sem leið frá því Jesús mun hafa haldið til Jerúsalem á vit örlaga sinna og fram að því er hann var handtekinn og krossfestur. Á páskadag hefst síðan tímabil upprisunnar, gleðidagarnir. Á föstunni er gott að gefa okkur tíma til þess að íhuga lífið okkar, hvað það er sem skiptir máli, samband okkar við Guð, annað fólk og okkur sjálf. Á föstunni er vel viðeigandi að gefa okkur rými til þess að skoða hvernig við getum bætt okkur og vaxið sem manneskjur og í trúnni. Góð leið er að nýta föstuna til þess að horfa inn á við, iðka bæn og jafnvel íhugun.

Löng hefð er fyrir því að fasta með því að sleppa einhverju eða neita okkur um eitthvað til þess að eignast eitthvað annað. Að sleppa einhverju sem við erum vön að gera vegna þess að það er vont fyrir okkur eða tekur frá okkur dýrmætan tíma sem við getum nýtt til annars sem skiptir meira máli. Þannig búum við til rými fyrir meiri gæði í lífi okkar. Gjarnan hefur fólk fastað á mat en það er allt eins hægt að fasta á eitthvað annað.

Hættan við föstuna er að við hættum eða sleppum einhverju aðeins til þess að refsa okkur eða til þesss að kanna hversu mikið við þolum, hversu staðföst við erum eða hversu mikið við getum þjáðst. En þá er fastan farin að snúast um eitthvað annað. Ef við föstum á eitthvað, sleppum einhverju sem við erum vön og okkur þykir ef til vill gott, þá hlýtur það að vera til þess að gefa öðru, sem er betra fyrir okkur, rými eða vegna þess að þessar venjur okkar eru niðurbrjótandi fyrir okkur eða náunga okkar á einhvern hátt.

Í dag er hugtakið fasta sannarlega ekki framandi fyrir mörg okkar. Mikið af fólki fastar á mat t.d. 12 til 16 tíma á dag og borðar svo í 8 til 12 tíma. Sum fasta tvo daga í viku og önnur nokkra daga á mánuði eða ári. Sjálfsagt liggja ólíkar hvatir að baki þessara fastna en grunnhugmyndin hlýtur þó alltaf að bæta líðan og heilsu, líkamlega og andlega.

Hvernig ætlar þú að nota föstuna? Þó nokkuð er um að fólk fasti á samfélagsmiðla til þess að búa til tíma fyrir eitthvað annað. Sum sleppa því að borða eitthvað sem það veit að er ekki gott fyrir það til þess að bæta heilsuna. Og enn önnur nýta föstuna til þess að íhuga og bæta samband sitt við Guð með því að iðka trúna reglulega og betur.

Tillögur að föstu
Ætlar þú að fasta á eitthvað?

Vilt þú að nota tímann til þess að íhuga líf þitt og samband þitt við Guð, náungann og sjálfa/n þig?

Ég er með tillögu að föstu.

Hvað segir þú um að fasta á öll meiðandi samskipti þín við sjálfa/n þig? Að losa þig við:

  • Óttann við að mistakast,
  • að gera öllum til geðs,
  • öfund,
  • sjálfselsku,
  • óþolinmæði
  • þrönga Guðsmynd,
  • samanburð við annað fólk,
  • græðgi.

Hvað segir þú um að nýta þessa föstu til þess að fasta frá því að efast stöðugt um sjálfa/m þig, að dæma þig of hart og að vera stöðugt að skamma sjálfa/n þig og refsa þrátt fyrir að þú sért alltaf að gera þitt besta?

Það er nefnilega svo að mörg okkar eru okkur sjálfum verst. Við dæmum okkur sjálf mun harðar en annað fólk og refsum okkur stöðugt fyrir að vera ekki fullkominn. Ef til vill er kominn tími til að fasta frá því og þannig gefa okkur rými til þess að láta okkur þykja vænna um okkur sjálf og sýna sjálfum okkur meiri góðvild.

Óæskilegir andar
Getur verið að þeir „ illu andar“ sem þú þarft að reka burt séu vondar og meiðandi hugsanir um sjálfa/n þig?

Það að reka út illa anda þarf ekki að snúast um eitthvað yfirnáttúrulegt. Það getur falist í að breyta hugsunarhætti okkar sem er neikvæður og niðurdrepandi fyrir anda okkar. Það getur snúist um að breyta venjum sem eru ekki góðar fyrir okkur, hætta einhverju til þess að búa til rými fyrir annað eða hætta að vera vond við okkur sjálf og láta okkur þykja vænt um okkur eins og um annað fólk. Að gefa okkur sjálfum annað tækifæri.

Þegar þessi 70 koma til baka eru þau svo ánægð með kraftinn sem í þeim býr sem jafnvel illir andar hafa hlýtt. Og þegar Jesús sér það gleðst hann með þeim en segir við þau að í stað þess að gleðjast aðeins yfir því að vera fær um að reka út hið illa og yfir mættinum sem í þeim býr ættu þau að gleðjast yfir því hvaðan krafturinn kemur, að krafturinn kemur frá Guði sem ritar nöfn okkar á himnum. Best er að gleðjast yfir því að vera í liði kærleikarns, liði Guðs.

Það sama á við um okkur, þig og mig. Við erum hluti af þessum 70 sem Jesús sendi út til þess að boða Guðs ríki og krafturinn sem bjó í þeim býr einnig í okkur. Við erum fær um að reka út illa anda, illu andana sem við þurfum að losa okkur við úr lífi okkar til þess að búa til pláss fyrir eitthvað annað og betra. Við getum rekið út vondar og meiðandi hugsanir í garð okkar sjálfra og náungans vegna þess að við erum ekki ein. Við erum hluti af þessum 70 og kraftur Guðs býr í okkur ef við leyfum okkur að finna hann.

Allt megnum við fyrir kraft Guðs.

Dýrð sé Guði sem gefur okkur máttinn til þess að bæta líf okkar sjálfra og náunga okkar og ritar nöfn okkar á himnum. Amen.

Manneskja ársins

Eftir Prédikanir

Loksins
Gleðilegt ár!
Loksins kom 2021. Ég held að nýtt ár hafi varla nokkurn tíma verið jafn kærkomið og nú.. Ég held að flest séum við fegin að sjá árið 2020 hverfa í móðu minninga. Í fyrstu bylgju kórónaveirunnar í mars, var fólk þegar farið að tala um að kveðja þetta ár sem fyrst því þetta væri svo vont ár og ekki bætti úr slys, vond veður og náttúruhamfarir sem höfðu verið áberandi mánuðina á undan. Þetta var á þeim tíma þegar við voru að bíða af okkur þessa óværu og gerðum ráð fyrir að lífið kæmist fljótt í samt lag á ný, jafnvel þegar í maí eða júní. Þetta var á þeim tíma þegar við frestuðum öllu því þetta var alveg að fara að ganga yfir. Við þurftum aðeins að halda út í svolitla stund til viðbótar og svo yrði allt gott á ný.

En sú varð ekki raunin. Með haustinu skyldum við smám saman að veiran væri ekki að fara og að við yrðum að bíða eftir bóluefni og því gætum við ekki frestað lífinu lengur. Þá urðum við að temja okkur langlundargeð, læra að lifa með þessu og gera það besta úr þessu öðruvísi lífi á meðan við biðum þetta af okkur. Og við fórum að ferma og skíra börnin. Fólk gekk í hjónaband en allt var þetta með öðru sniði en áður. Við lærðum að halda fjarlægð, nota grímur og daglegt líf okkar færðist að stórum hluta yfir á netið.

Blessuð manneskja ársins
Í upphafi þessa árs, sem við höfum beðið með eftirvæntingu eru skilaboð ritningarinnar að þú ert blessuð manneskja. Með blessunarorðunum sem Guð færði Móse, að hann blessaði fólkið með, er okkur fylgt inn í nýtt ár: „Drottinn blessi þig og varðveiti þig…“

Já, þú ert blessuð manneskja og ekki nóg með það heldur ert þú manneskja ársins.

Þú ert ekki manneskja ársins vegna þess að allir landsmenn hafa séð þig í sjónvarpinu eða vegna þess að þú útvegaðir okkur bóluefni eða skoraðir flest mörk á vellinum. Nei, þú ert manneskja ársins vegna þess að þú tókst á við þetta erfiða ár sem nú er liðið og þú stóðst þig vel. Sjálfsagt klikkaðir þú einhvern tíma á sóttvörnunum og gleymdir að halda bilið. Ef til vill gleymdirðu þér og knúsaðir frænku þína þegar það var orðið bannað eða kíktir á lífið í bænum í desember þegar gáfulegra hefði verið að halda þig heima. En þú stóðst þig líka vel. Öll hin skiptin. Þegar þú settir upp grímu, slepptir því að hitta fólkið þitt, hættir að að hitta vinnufélagana annars staðar en á Zoom eða Teams. Þú stóðst þig vel þegar þú skipulagðir starfið á vinnustaðnum þínum með það í huga að finna jafnvægi á milli þess félagslega og sóttvarna. Þú stóðst þig vel þegar þú varst með okkur öllum í að gæta þess að veiran dreifðist ekki enn meira en raun varð.

Reglusamfélagið
Þegar við búum í svo miklu reglusamfélagi, sem við höfum gert undanfarið, er hætta á því að við förum eingöngu að einblína á það þegar reglur eru brotnar. Við fylgjumst með náunganum og tilkynnum hann ef hann stendur sig ekki því okkur finnst að reglurnar eigi að gilda um okkur öll en ekki aðeins sum okkar. Það er gott að við hjálpumst að við að fylgja reglunum á meðan við erum að gæta þess að fleiri veikist ekki en ég held að það sé líka hollt fyrir okkur, sem manneskjur og samfélag, að muna eftir því að hrósa því sem vel er gert. Við höfum verið nokkuð dugleg að hrósa þeim sem standa í framlínunni (þó einnig sé oft stutt í gagnrýnina þegar þau standa sig ekki, sérstaklega núna undanfarið þegar við erum öll orðin svo þreytt). En við megum líka hrósa hvert öðru. Hrósa hverri einustu manneskju sem verslar í matinn með grímu, heldur jól í fámenni og hefur verið að vanda sig með náungakærleikann að leiðarljósi.

Álfheiður, 18 ára stúlka sem smitaðist af Covid-19 rétt fyrir jólin en gott dæmi um manneskju ársins en það var viðtal við hana í fréttum á Þorláksmessu. Þessi unga kona sá fram á að sitja ein á hótelherbergi yfir jólin og áramótin en það sem henni var efst í huga var að hún myndi ekki smita aðra. Ég efast ekki um að þetta verður henni og öðrum sem nú eru og hafa verið í sóttkví eða einangrun yfir jól og áramót, erfitt þrátt fyrir að hún hafi borið sig vel. En hún og öll þau sem ekki hafa fengið að vera heima hjá sér á þessum tíma eru í bænum okkar.

Manneskja ársins
Þú ert manneskja ársins. Þú hefur lært svo margt á árinu sem nú er liðið. Þú kannt kannski að taka þátt í fundum á Teams og rétta rafrænt upp hönd. Þú ert ef til vill komin með reynslu af því að taka þátt í matarboðum eða saumaklúbbum í gegnum tölvuna og þú veist að þú færð færri pestir ef þú heldur fjarlægð, gætir að handþvotti og knúsar ekki öll þau sem þú mætir.  Já og ef til vill hefur þú lært að vera sjálfri þér nóg/nógur. Þetta er allt mikilvæg reynsla og lærdómur og við þurftum á þessu að halda til þess að komast í gegnum þetta ár. Og margt af því sem við lærðum hefur bætt líf okkar og því við munu við nýta okkur það áfram.. En ég er nokkuð viss að við verðum fegin þegar við megum koma í matarboð í eigin persónu, faðmast, þó við fáum oftar kvef, og hitta vinnufélagana á ný.

Nú eru að hefjast nýjir tímar. Ár vonar er runnið upp.

Við þurfum þó að sýna þolinmæli áfram og muna eftir jafnvæginu, sköpunarkraftinum og kærleikanum sem við höfum lært að sýna og nýta síðastiðið ár. Það mun taka einhvern tíma að bólusetja okkur öll.

Þú ert manneskja ársins því þú gerðir það sem í þínu valdi stóð til þess að við kæmumst eins ólöskuð og hægt var inn í árið 2021. Þú ert blessuð manneskja því þú ert hluti af heilagri sköpun sem Guð elskar og blessar í upphafi nýs árs og alla daga.

Dýrð sé Guði sem er kærleikur, sem elskar þig og blessar. Amen.

Prédikun flutt á nýársdag 2021 í Grafarvogskirkju

Þú ert ekki mistökin þín

Eftir Prédikanir

Prédikun flutt í Kirkjuselinu 8. nóvember 2020

Á forsendum þolenda
Þegar við tölum um fyrirgefninguna þá veltum við gjarnan fyrir okkur hversu mikið við getum fyrirgefið, hvort við getum eða eigun að fyrirgefa allt. Í dag langar mig að skoða hvað við getum fengið fyrirgefið, hvort manneskja sem brotið hefur alvarlega af sér eða gert afgerandi mistök, eigi afturkvæmt, sem fullgildur meðlimur, í sama samfélag eða í þann hóp er sá eða þau er brotið var á tilheyra?

Það er rík krafa í kristni um fyrirgefningu en hún er ekki skilyrðislaus og einföld eins og stundum mætti halda heldur er gert ráð fyrir að hún taki tíma og að ákveðið ferli eigi sér stað. Til þess að unnt sé að fyrirgefa er gert ráð fyrir að fyrst að komi beiðni um fyrirgefningu, iðrun og yfirbót. Þá er krafan sú að þegar þú hefur fyrirgefið þá er það sem gerðist búið. Því er endanlega lokið. Þú rifjar það ekki upp reglulega yfir morgunmatnum ef þú ert búin/n að fyrirgefa því það er ekki til lengur. Máltækið: „Geymt en ekki gleymt“ á því alls ekki við þegar kemur að fyrirgefningunni“.

Engin manneskja er án syndar. Öllum verða okkur á mistök og öll brjótum við einhvern tíma á öðru fólki. Þessi brot eru misalvarleg. Og það breytir engu hversu sterk siðferðiskennd okkar er, við komum öll einhvern tíma illa fram við aðra manneskju.

Í Nýja testamentinu streymir fyrirgefningin reyndar aðeins í eina átt, frá þeim valdameiri til hinna valdaminni. Það er óhugsandi þar að hún fari í hina áttina. Landeigiandi fyrirgefur leiguliða, Jesú fyrirgefur þeim sem hafa brotið af sér. Á krossinum er Jesús ekki í valdastöðu gagnvart böðlum sínum og því getur hann ekki fyrirgefið þeim heldur biður hann Guð að fyrirgefa þeim. Á sama hátt eigum við ekki undir nokkrum kringumstæðum að krefjast þess að sáttarfundur sé haldinn á milli þolanda og geranda, þar sem þolandi er beðinn um að fyrirgefa. Ef fyrirgefning mun einhvern tíma eiga sér stað þá verður hún ávallt að vera á forsendum þolandans en ekki gerandans, hversu djúp sem iðrun gerandans er.

Fimm skref
Fyrir stuttu hlustaði ég á viðtal við rabbía nokkurn frá Bandaríkjunum að nafni Danya Ruttenberg. Hún er höfundur fjölda bóka um ýmis trúarleg málefni auk þess sem hún skrifar reglulega í mörg helstu blöð Bandaríkjanna s.s. New York Times og Washington Post. Hún hefur mikið velt fyrir sér fyrirgefningunni út frá Gyðingdómnum og í tengslum við nútímann. Í þessu viðtali talaði hún um fimm skref sem sú/sá sem brýtur af sér þarf að taka til þess að eiga möguleika á að vera fyrirgefið. 

Fyrsta skrefið er að viðurkenna brotið opinberlega. Það kann að hljóma svakalega en þarna er átt við að viðurkenna brotið jafn opinberlega og það umhverfi var sem brotið var framið í. Ef það átti sér stað á samfélagsmiðlum þarf viðurkenning að eiga sér stað þar. Ef það varð á starfsmannafundi þarf viðurkenningin að vera þar. Ef það var innan fjölskyldunnar þá þarf að viðurkenna brotið þar.

Næsta skref er að breytast eða endurfæðast. Það getur falist í því að þú leitar þér hjálpar með einhverjum hætti. Þú getur t.d. farið í einhvers konar meðferð, lesið bækur og lært hvernig þú getur breyst og orðið sterkari manneskja á þessu sviði.

Skref þrjú og fjögur tengjast og eru oft unnin saman en hið fyrra gengur út á að bæta fyrir brotið og hið seinna að biðjast fyrirgefningar. Að bæta fyrir brotið getur falist í að greiða sjúkrakostnað ef þú hefur t.d. meitt eða slasað manneskju eða bætt fyrir þjáninguna sem þú hefur valdið með beinhörðum hætti ef hægt er. Þetta hlýtur þó alltaf að vera í hlutfalli við misgjörðina og gengur út á að laga eitthvað sem búið er að skemma eða laska. Þetta skref snýst eingöngu un að koma til móts við manneskjuna sem brotið var á og er unnið á forsendum hennar. Það er ekki fyrr en hér er komið við sögu sem kemur að beiðni um fyrirgefningu en sú beiðni er ekki lögð fram fyrr en bætt hefur verið fyrir brotið. Ef brotið er lítið og ómerkilegt er þolandinn hvattur til að fyrirgefa ef brotið var stórt er ekki víst að þolandinn geti nokkurn tíma fyrirgefið og er þá ekki hvattur til að gera það. Þarna þarf sá/sú sem braut á viðkomandi að gera allt til þess að bæta líðan þolanda brotsins.

Öll skrefin snúast um þolandann og því er ólíklegt að þú sért hvattur/hvött til þess að hitta viðkomandi til að biðjast fyrirgefningar eða til að bæta fyrir brotið ef ljóst er að það valdi viðkomandi vanlíðan að hitta þig.

Lokaskrefið felst í því að næst þegar þú hefur tækifæri til þess að brjóta af þér/særa/meiða aftur með sama hætti þá velur þú að gera það ekki. Þá ert þú orðin ný manneskja. Þetta ætti að gerast af sjálfu sér þar sem þú ert, þegar hér er komið, búin/n að vera að vinna úr brotinu og í þér í þó nokkurn tíma.

Þessi skref gera ekki ráð fyrir fyrirgefningarbeiðninni fyrr en seint í ferlinu eða í næst síðasta skrefinu. Þú þarft  fyrst að viðurkenna brotið, vinna í þér og bæta fyrir það áður en þú biður um fyrirgefningu. Það er síðan undir þolandanum komið hvort hún/hann getur fyrirgefið.

Að eiga afturkvæmt
Flest getum við átt afturkvæmt eftir að hafa meitt, sært, móðgað eða jafnvel brotið illilega á annarri manneskju. Það getur þó ekki gerst fyrr en við höfum sýnt að við virkilega skiljum í hverju brotið/mistökin fólust, að við skiljum að þau særðu eða meiddu.

Ég held jafnvel að hægt sé, í einhverjum tilfellum, að fyrirgefa alvarlegt ofbeldi t.d. innan fjölskyldu. Það getur þó aldrei orðið nema þolandinn finni sannarlega að sá/sú sem braut á henni/honum skilji hversu alvarlegt brotið var og sé tilbúin/n til að vinna í sér, bæta fyrir það og breyta ekki eins aftur.

Þegar Jesús segir að við eigum að fyrirgefa sjötíu sinnum sjö þá á hann ekki við að við eigum að fyrirgefa öllum allt alltaf. Hann á við að við eigum að lifa í fyrirgefningunni, við eigum að reyna af öllum mætti að vinna þannig úr allri reynslu að við séum opin fyrir því að fyrirgefa. Að þegar við brjótum á, særum eða meiðum þá getum við sjálf gert ráð fyrir fyrirgefningu þegar við skiljum í hverju brot okkar felst og iðrumst af öllu hjarta og erum tilbúin til að breyta okkur um leið og við virðum ákvörðun þolandans um það hvort hann/hún geti fyrirgefið okkur.    

Því einlægari sem iðrun okkar er og því tilbúnari sem við erum til að vinna í okkur sjálfum svo að þetta gerist ekki aftur og reynum að bæta fyrir brot okkar á forsendum þolandans því líklegra er að við eigum afturkvæmt í sama samfélagshóp á ný. Jafnvel þó að fyrirgefning geti ekki átt sér stað, þá getum við lifað hlið við hlið án þess að trufla líf hvors annars.

Til eru þau brot sem eru svo alvarleg að það er ekki möguleiki að fyrirgefa þrátt fyrir að sönn og innileg iðrun og yfirbót hafi átt sér stað. Sumir hlutir eru svo alvarlegir að aðeins Guð getur fyrirgefið þá. En ég trúi því að Guð geti fyrirgefið allt. Nákvæmlega allt, ef við iðrumst sannarlega og biðjum um það af einlægu hjarta. Því Guð veit hver þú ert. Guð veit að þú ert ekki mistökin þín, þú ert ekki brot þitt.

Dýrð sé Guði sem elskar okkur með öllum okkar breiskleikum og er tilbúið að fyrirgefa okkur öll okkar brot jafnvel þegar það er náunga okkar um megn.

Amen.

Hvar eru svanirnir?

Eftir Prédikanir

Áhyggjur

Ég er nokkuð viss um að hver einasti hjúkrunarfræðingur og hver einasti læknir gæti hugsað sé að hafa þann mátt að geta læknað alla krankleika, að geta gert kraftaverk. Að geta læknað jafnt króníska sjúkdóma sem umgangspestir, jafnt andlega sjúkdóma sem líkamlega. Og nú helst af öllu, Covid sjúkdóminn sem kórónaveiran veldur.

Vinur minn sagði við mig um daginn, þegar við vorum að ræða stöðuna í samfélaginu: „Hvar eru svanirnir í fréttunum? Þessir sem voru oft sýndir í lok fréttatíma á Rúv? Nú eru bara neikvæðar fréttir, endalaust verið að tala um Covid og sýna frá einhverju sem við þurfum að hafa áhyggjur af. Og þess á milli eru viðtöl við fólk sem hefur lent í erfiðri lífsreynslu“ sagði hann.

Vinkona mín hringdi í mig í vikunni. „Hún er nýkomin úr aðgerð og þarf því að halda sig enn meira til hlés en annars. Hún sagði: „Þetta er svo hundleiðinlegt! Ég fæ ekki að hitta börnin mín og barnabörn. Það er alltaf einhver í sóttkví eða einhver komin/n með covid. Ég fór niður í bæ um daginn til að fá svolitla tilbreytingu. Það var falllegt verður, hlýtt og ég fann ég að mig langaði í ís, en ég þorði bara ekki að fara í ísbúðina þó ég væri með grímu.“

Önnur vinkona mín sagði við mig um daginn að hún hefði engar áhyggjur og að henni liði bara ágætlega. Fjölskyldan er reyndar með minni innkomu núna en fyrir faraldurinn og það gæti verið að þau yrðu að draga saman á einhverjum sviðum en hún kveið því ekki. Hún sagðist svo oft hafa þurft að takast á við forsendubreytingar að hún gæti alveg gert það eina ferðina enn svo lengi sem fólkið hennar væri frískt.

Ég hitti kunningja minn sem er listamaður úti í búð í vikunni. Hann sagðist hafa þurft að herða sultarólina all verulega undanfarið. Hann hafði brugðið á það ráð að selja bílinn sinn og sagðist vera komin í megrun.

Það fyrsta sem ég geri á morgnanna þessa dagana er að lesa fréttirnar og ná mér í nýjustu Covid upplýsingarnar. Ég skoða allar fréttaveitur reglulega yfir daginn til að kanna hvort staðan sé eitthvað að lagast og hvað sé nú nýjast í kórónufréttum.

Ég  hef átt mörg samtöl við fólk sem hefur áhyggjur og ég veit að þú hefur átt þau líka. Við erum flest áhyggjufull að einhverju leyti þó það komi fram með ólíkum hætti, enda erum vð að lifa erfiða tíma. Og þegar áhyggjurnar verða miklar þá vilja sum okkar gera eitthvað skemmtilegt til þess að gleyma þessu stund á meðan önnur geta ekki annað en fylgst með öllum fréttum, eru alltaf með nýjustu tölur á hreinu og vita upp á hár hvað er að gerast.

Og svo eru þau sem lifa og hrærast í sjúkdómnum miðjum, þau sem sjálf veikjast eða einhver náin/n þeim og heilbrigðisstarfsfólkið okkar. Starfsfólk Landspítalans og annarra spítalal, starfsfólk á Heilsugæslustöðvum um allt land, á Hjúkrunarheimilum og fleiri stöðum þar sem veikt fólk og viðkvæmir hópar fá lækningu, umönnun og líkn. Þau fá enga pásu. Þau eru alltaf í kófinu miðju.

Ekki fyrst

Við erum ekki fyrsta fólkið í veröldinni sem upplifir erfiða tíma. Biblían er full af sögum af fólki sem upplifir erfiðleika og Jesús talar um að erfiðleikar séu hluti af lífinu hér á jörð. Og ef við höldum okkur bara við kynslóðirnar á undan okkur þá hafa þær upplifað, kreppu, smitsjúkdóma, heimsstyrjaldir og svo ótal margt fleira, svo ekki sé talað um alla persónulegu kreppurnar og áfölllin.

Í dag erum við ekki aðeins að upplifa það að veiran geti smitað okkur og jafnvel dregið einhver okkar til dauða heldur erum við að finna fyrir fleiri afleiðingum faraldursins. Fólk er að missa vinnuna. Heilu starfsstéttirnar sjá fram á algjört atvinnuleysi og tekjumissi. Það verður til þess að fátækt eykst ef ekkert er að gert. Heimilisofbeldi er að fara upp úr öllu valdi og kvíði og þunglyndi með öllum þeim alvarlegu afleiðingum sem því fylgir mun hafa áhrif á samfélagið áfram í nokkurn tíma eftir að við höfum ráðið niðurlögum veirunnar.

Að njóta líðandi stundar

Þegar kórónaveirufaraldurinn hófst var ég stödd í Ástralíu. Landinu lokaði upp úr miðjum mars eða fljótlega eftir að fyrstu smitin greindust þar. Ástralía var og er enn lokuð, landamæri milli fylkja lokuðu auk þess sem tveggja manna samkomubann ríkti í tvo mánuði eða þar til það hækkaði upp í það að 10 manns máttu koma saman. Þetta var ekki auðvelt því við þekktum lítið af fólki og máttum ekki hitta þau fáu sem við þekktum. Allt sem við gátum gert byggði á því að eitthvað væri opið. En það var allt lokað. Ég brást við þessu með þeim hætti að ég hélt í þá von að brátt myndi þetta lagast. Að gestirnir sem áttu að koma í maí myndu nú áreiðanlega komast til okkar. Þá væri þetta búið. Þegar ljóst var að það myndi ekki ganga eftir taldi ég mér trú um að þau sem áttu að koma í byrjun júní gætu þó alla vega komið. En þau fengu ekki heldur að koma. Að lokum fórum við heim. Ég er nokkuð viss um að mörg ykkar kannast við að hafa  lengi haldið í þá von að viðburðirnir sem áttu að vera eftir mánuð eða tvo yrðu að veruleika. Að hjónavígslan, afmælið, tónleikarnir eða leiksýningin sem átti að vera eftir nokkrar vikur fengi að standa. Við sem hugsuðum þannig urðum sífellt fyrir vonbrigðum.

Því er nú ráð að sækja í reynslu þeirra sem hafa lifað erfiða tíma á undan okkur. Til þeirra sem hafa reynslu af íþyngjandi og langvarandi erfiðleikum.

Það sem flestum, sem hafa lifað af virkilega erfiða tíma, ber saman um er að til þess að lifa erfiðleikana af er best að geta búið sér til veruleika sem felur í sér einhvers konar lífsgæði hér og nú. Að geta notið einmitt þessarar stundar í stað þess að bíða sífellt eftir að hlutirnir lagist. Þetta er niðurstaða margra sem hafa lifað af vist í fangabúðum Nasista, fanga sem hafa verið dæmdir þrátt fyrir sakleysi og fólks sem hefur búið við stríðsástand í lengri tíma. Þau vilja mörg meina að það að bíða alltaf eftir því að þetta lagist eftir tvær vikur eða tvo mánuði og verða svo sífellt fyrir vonbrigðum geri lífið erfiðara en ef við búum okkur til veruleika sem við getum notið á einhvern hátt einmitt hér og nú.

Það sem svo mörgum kemur saman um, er að það er hægt að búa til dásamlega góðan hversdagsleika og njóta hans einmitt í dag þrátt fyrir áhyggjur af sjúkdómum, atvinnuleysi eða jafnvel ótta um að vera tekin af lífi. Þannig er til mikið af frásögum folks sem lenti í fangabúðum Nasista í seinni heimstyrjöldinni og tókst jafnvel að njóta einhverskonar fegurðar mitt í erfiðleikunum, þó ekki væri fyrir annað en að sjá lítið blóm vaxa og blómstra í moldinni fyrir utan gluggann, að geta notið þeirrar fegurðar þrátt fyrir allt.

Lúther orðaði þetta með þeim hætti, þegar hann eitt sinn var spurður hvað hann myndi gera ef hann vissi að heimurinn myndi farast á morgun, að hann myndi gróðursetja eplatré. Er til meiri von og lífsvilji en að gróðursetja tré þegar þú veist að heimurinn mun farast á morgun?

Að rísa upp

Sagt er frá því í guðspjalli dagsins að Jesús hafi tekið einhverja byrði af lamaða manninum, þannig að hann gat staðið upp á ný. Þessi byrði er kölluð synd en hugtakið synd merkir m.a. það að missa marks eða að mistakast. Hann tók mistökin, sektarakenndina og skömmina frá manninum. Ég er alveg sannfærð um að Guð, sem er hinn æðsti og mesti kærleikur, ástin sem umlykur okkur á bak og brjóst, er tilbúið til þess að taka áhyggjurnar frá okkur. Ef við treystum Guði til þess að lyfta kvíðanum, áhyggjunum og óttanum af brjósti okkar svo að við getum staðið bein í baki og notið líðandi stundar þá held ég að margt geti breyst til batnaðar. Þá getum við átt auðveldara með að njóta líðandi stundar þrátt fyrir að lífið sé flókið um þessar mundir.

Ef til vill tekur Guð þessa byrði frá okkur þegar við ákveðum með sjálfum okkur að njóta einmitt þessa dags hvernig sem hann verður. Kannski tekur Guð byrðina frá okkur þegar við tölum við manneskju sem er tilbúin til að hlusta á áhyggjunnar okkar eða þegar hún fær okkur til að gleyma kvíðanum um stund og njóta þess að vera til einmitt nú. Því að hverjum degi nægir sín þjáning. Það er óþarfi að byrja á áhyggjum morgundagsins strax í dag.

Ég nefndi í upphafi að ég væri nokkuð viss um að heilbrigðisstarfsfólk gæti vel hugsað sér að geta gert kraftaverk og læknað alla sjúkdóma og þá ekki síst Covid-19 sjúkdóminn. Heilbrigðisstarfsfólk getur reyndar læknað stóran hluta sjúkdóma og meira að segja Covid-19 í flestum tilvikum þó þau geti ekki komið í veg fyrir að við smitumst. Heilbrigðisstarfsfólk vinnur nefnilega kraftaverk á hverjum degi. Þau vinna kraftverk með því að lækna, líkna og gefa fólki von. Þau vinna kraftaverk með því að vera til staðar fyrir þau sem eru veik, með því að hlusta. Þau gera kraftaverk með því að hjálpa fólki við að bera byrðar þeirra og með því að hafa kjark til þess að ganga inn í hvaða aðstæður sem er, líka þær allra erfiðustu. Og margt heilbrigðisstarfsfólk um allan heim hefur hætt lífi sínu fyrir þau sem eru veik, óttaslegin og hrædd.

Vinur minn saknar svananna í lok fréttatímans. Vonandi koma þeir aftur fljótlega en þangað til þurfum við að finna okkar eigin svani, okkar eigin góðu stundir í hversdagsleikanum.

Prédikun flutt í Grafarvogskirkju á degi heilbrigðisþjónustunnar 18.10.2020

Eins og við erum

Eftir Prédikanir

Prédikun í Grafarvogskirkju 26. júlí 2020. Sjöundi sunnudagur eftir þrenningarhátíð.

Matur og við
Öll eigum við í einhverjum tengslum við mat, ýmist góðum, vondum eða bara ósköp venjulegum.

Eittt af því flókna við samband okkar við mat nú til dags er að við höfum, flest sem búum í þessum hluta heimsins, nægan aðgang að honum. En þau sem eiga varla til hnífs og skeiðar eiga frekar fyrir lélegum mat en næringarríkum og hollum. Í stórum hluta okkar heims er hollur matur nefnilega dýrari en óhollur. Þannig er hægt að næra heila fjölskylu mun auðveldar á ódýrum mat frá þekktum skyndibitakeðjum en að kaupa ávexti grænmeti og annan næringaríkan og hollan mat.

Mörg okkar eiga í flóknu sambandi við mat þar sem við notum mat sem umbun eða refsingu, borðum þegar okkur líður illa eða vel eða sveltum okkur þegar okkur líður illa eða vel. Mörg okkar eru stöðugt á einhverjum kúrum, teljum hitaeiningar, sveltum okkar eða borðum alltaf of mikið. Átröskun eru geðrænir erfiðleikar sem okkur ber að taka alvarlega því þær geta orðið lífshættulegar hvort sem við borðum of lítið eða of mikið eða borðum í lotum og köstum upp.

Oft tengist samband okkar við mat hugmyndum okkar um útlit, þessum humyndum um að við eigum helst öll að vera mjó og að það sé merki um agaleysi að vera feit. Og hugmyndin um að grannt fólk sé heilbrigt og að fólk með aukakíló sé óheilbrigt lifir því miður enn góðu lífi þrátt fyrir að þetta sé fyrst og fremst byggt á fordómum og óheilbrigðum hugmyndum samfélagsins um hvað sé heilbrigt og hvað ekki.

Það er nefnilega alls ekki víst að holdafar okkar segi nokkuð til um heilsuna. Þétt fólk getur verið mjög heilbrigt, hlaupið, klifið fjöll, lyft lóðum ja og ræktað andlega lífið með bæn og íhugun svo eitthvað sé nefnt. Grannt fólk getur allt eins verið í lélegu líkamlegu formi, átt erfitt með alla hreyfingu, verið veikburða með lélegt úthald og jafnvel liðið af stöðugu hungri. Já, og svo er líka til grannt fólk sem borðar mikið og æfir líkama og anda en þyngist ekkert fyrir því og þétt fólk sem borðar hóflega, hugsar vel um bæði líkama og sál en grennist þó ekki.

Við erum nefnilega ólík og við eigum að vera það.

Kraftaverk að standa ekki á sama
Biblían er full af sögum er tengjast mat og til eru margar frásögur af Jesú að matast með fólki. Hann býður fólki í mat og fer í mat til annarra. Hann fatsar og „festar“. Já, og hann hvetur okkur til þess að koma saman og borða í sínu nafni í altarisgöngunni. Í guðspjalli dagsins vill hann sjá til þess að fólkið sem hafði komið til að hlýða á hann fari ekki svangt heim. Fólkið hafði verið þarna í þrjá daga án þess að matast og hann var hræddur um að sum þeirra myndu örmagnast á leiðinni heim ef þau fengju ekki næringu áður en þau legðu í hann. Sum þeirra höfðu komið langt að.

Þegar hér er komið sögu þarf næstum því að fara að ræða hvort þarna hafi átt sér stað kraftaverk eða ekki, þegar sjö

brauð og nokkrir fiskar dugðu fyrir fjögurþúsund karla og annan eins fjölda af konum og börnum. Þessi saga, sem er til í einhverri útgáfu í öllum guðspjöllunum fjórum, hlýtur að hafa ratað inn í Biblíuna í fjórum útgáfum vegna þess að hún skipti miklu máli. Ég er þó nokkuð viss að þessi saga er ekki hér í fjórriti vegna þess að Jesú tókst að galdra fram mat handa fjölda manns með kraftaverki. Ég held að þessi saga sé ekki aðeins mikilvæg vegna þess að þetta gerðist heldur sé ástæðan fyrir því að þetta átti sér stað aðalatriði.

Ræðumaðurinn var búinn að tala. Ráðstefnunni var lokið en fólkið var svangt. Jesús hefði vel getað valið að láta sig það engu varða og drifið sig heim. Lærisveinar Jesú hefðu getað gert slíkt hið sama. En í stað þess að láta fólkið eiga sig þá fer Jesús að standa í því að útvega þeim mat. Hann fær vini sína með sér í verkfnið og hvernig sem þeir fara að því, þá tekst þeim að útvega nægan mat og fæða allt fólkið. Jesús er sá sem hvetur lærisveinana til þess að gera eitthvað í málinu því hann lætur sig ekki eingöngu varða hinn andlega boðskap, hina andlegu líðan heldur vill hann að fólk fái næringu og að því líði vel líkamlega.

Verkin tala
Jesús gekk ekki aðeins um og prédikaði með orðum heldur lét hann ekki síður verkin tala. Hann var ekki aðeins á andlega sviðinu heldur lét hann sig varða líðan fólks og afkomu. Þessi framganga Jesú Krist sýnir okkur að Guð lætur sig varða allt er viðkemur lífi okkar og líðan. Guð er ekki aðeins að hugsa um hvort þú sért nógu trúuð eða trúaður, hvort þú farir oft í kirkju eða hvort þú munir eftir bænum þínum. Guð vill að þú sért farsæl manneskja. Guð vill að þér líði vel, líkamlega og andlega.

Ef til vill er Guð því hvatinn á bakvið þörf okkar og löngun til þess að koma náunganum til hjálpar, svona eins og þegar Jesús hvatti lærisveinana til að útvega fólkinu brauð þegar það var svangt. Í það minnsta ber okkur, hverju og einu, að útvega náunga okkar brauð, sé það nokkur möguleiki. En þetta brauð þarf ekki að vera raunverulegt brauð. Það þarf ekki einu sinni að vera matur. Það getur verið hvað eina sem náungi okkar þarfnast. Og jafnvel þegar það virðist ekki möguleiki að koma náunga okkar til hjálpar þá ættum við samt að reyna. Lærisveinarnir áttu aðeins sjö brauð og nokkra fiska en einhvern vegin dugði þetta samt. Á sama hátt er ekki ólíklegt að hjálpargögnin okkar muni margfaldast ef við höfum fyrir því að reyna að koma fólki til hjálpar.

Jesús spáði mikið í mat alveg eins og við gerum flest enda þörfnumst við öll matar til þess að lifa af. Ekki veit ég í hvers konar sambandi hann átti við mat. Ef til vill snérist það um að fá rétt svo nóg til að lifa af eða kannski elskaði hann stórar og miklar máltíðir og vissi ekkert betra en að vera boðin í mat. Eitt er víst; Alveg sama hvernig samband okkar er við mat og tengsl okkar líkama okkar þá er Guði ekki sama. Guð vill okkar besta og Guð veit hvernig það er að vera þú. Guð vill að þú sért stolt/ur af líkama þínum sem ber þig alla daga, hvernig sem hann lítur út. Það ert þú sem ákveður hvað er fallegt en ekki tískuframleiðendur. Á sama hátt og Jesús hvatti lærisveina sína til að koma fólkinu til hjálpar í stað þess að borða allt sjálfir, hvetur Guð okkur til þess að koma hvert öðru til hjálpar, að vera til staðar fyrir náungann.

Dýrð sé Guði sem mettar og vill að við eigum nóg af því sem við þörfnumst og fær okkur til að finna fyrir löngun til þess að koma náunganum til hjálpar.