Skip to main content
Monthly Archives

febrúar 2019

Freki karlinn, rithöfundurinn og persónurnar fjórar

Eftir Prédikanir
Prédikun flutt í Grafarvogskirkju 10. febrúar 2019 blockquote class=“wp-block-quote“>

„Það var einu sinni rithöfundur sem skrifaði sögu:

Það var einu sinni forseti í Ameríku og hann var valdamesti maður í heimi.  Þegar hann ræskti sig þá þögnuðu allir.  Ef hann lét eitt orð falla þá hlustaði fólk.  Ef hann vildi framkvæma eitthvað þá hafði hann her fólks í kringum sig sem sá til þess að uppfylla óskir sínar.

Það var einu sinni fátækur drengur í suður Ameríku og hann var algerlega valdalaus.  Hann ræskti sig oft, já hann fékk heilu hóstaköstin.  Ef hann sagði eitthvað þá var enginn sem hlustaði.  Hann óskaði sér að hann ætti mömmu, hús með þaki og einn súpudisk en það var enginn til staðar sem gat hjálpað honum.

Það var einu sinni undur falleg og fræg leikkona.  Hún sást reglulega í sjónvarpi og á kvikmyndatjöldum.  Allir dáðu hana og vildu kyssa vanga hennar.  Hún stóð á sviðum um allan heim og fékk þunga verðlaunagripi og stóra blómvendi.

Það var einu sinni lítil stúlka sem leit vægast sagt mjög undarlega út.  Önnur kinn hennar var risa stór og á hinni kinninni var munnurinn, allur skakkur.  Allir sem sáu hana hugsuðu; aumingja stúlkan, mikið er hún ljót!  En hún var með brún, ofboðslega falleg og góðleg augu.

Það var eitt sinn rithöfundur sem sat við tölvuna sína og reyndi að hugsa um þessar fjórar persónur.  Hvað átti að gerast með þær? hugsaði hún.  Þetta má ekki halda áfram svona.  Þá datt henni í hug að láta Guð stíga niður til jarðar.

Dag einn gerðist það sem sagt, að Guð kom til jarðarinnar.

Nú, hugsaði rithöfundurinn, kemst loksins réttlæti á!  Nú missir forsetinn völdin og kvikmyndastjarnan fær engin blóm og drengurinn fær móður og einhver fer að elska stúlkuna því hún er með svo falleg brún augu!  Ha! 

Hún ætlaði að láta Guð horfa strangt í augun á forsetanum, nú þyrfti forsetinn að þegja og hlusta!  Nú myndi sá valdamikli steypast af stóli og hin smáu sem hósta verða virt að verðleikum, fá þak yfir höfuðið og meiri völd!  Og allar manneskjur yrðu jafn fallegar og sú sem hefur fengið of mikið af blómum myndi missa þau til þeirra sem flestum þykja ljót. 

Já þannig ætlaði rithöfundurinn að skrifa, en það varð ekki þannig.

Guð stóð bara þarna þegjandi og horfði á þau fjögur.

“Ég elska ykkur öll” sagði Guð.  “Ég elska ykkur svo mikið.”

Nú varð rithöfundurinn hissa. 

“Ég er svo einmanna, það er eins og ég sitji í stórri svartri holu” sagði forsetinn.  “Ég er svo þunglyndur”.

“Enginn elskar mig” sagði leikkonan.  “Fólk vill bara sjást með mér svo það geti sjálft orðið frægt”.  “Öllum er í raun sama um mig”.

“Mér er ekki sama um þig”, sagði Guð.  “Ég skil að það geti verið erfitt að vera alltaf í sviðsljósinu og að vera fallegust af öllum. Ég vorkenni þér. Ég elska ykkur öll. Ég elska þau sem allir skilja að eigi bágt.  En ég elska líka þau sem eiga bágt þrátt fyrir allt.”

Nú skildi rithöfundurinn ekki neitt í neinu.  hvað var að gerast með söguna hennar.  Hún var orðin ónýt.  Hann ætlaði að hætta að skrifa og eyða því sem hún var búin með.

“Hjálp”, hrópuðu þau öll fjögur.

Guð hristi höfuðið.

“Ég get bara elskað ykkur öll og opnað augu ykkar.

Síðan hvarf Guð jafnskjótt og Guð hafði komið.

Rithöfundurinn vissi ekki hvað hún ætti að gera við söguna.  Var hún búin?  Eða var mikið eftir?  Hún gat bara sett punkt og vonað að eitthvað myndi gerast.“

Freki karlinn og breytingarnar
Þessi flökkusaga getur gefið ágæta lýsingu á hlutverki Guðs í heiminum. Hlutverki sem felst ekki í að breyta heiminum fyrir okkur heldur að opna augu okkar og elska okkur, meira en við getum nokkurn tíma ímyndað okkur.

Ég held að við sem samfélag og allur hinn vestræni heimur standi frammi fyrir miklum breytingum einmitt nú, þó sannarlega séum við komin misjafnlega langt á veg. Það sem er að gerast er að „freki karlinn“ er að missa vald sitt á mörgum sviðum. Hann stjórnar ekki umræðunni á jafn sjálfsagðan hátt og áður.

Freki karlinn í þessu samhengi eru fyrst og fremst valdamiklir karlar (og einstaka konur) sem hafa getað farið sínu fram og komið fram við fólk (oftast konur) eins og þeim hefur sýnst. Þeir hafa gjarnan umgengist ákveðið fólk (yfirleitt konur) sem hluti eða leikföng án þess að nokkur manneskja hafi lagt í að mótmæla því.

Það er nefnilega erfitt að vera ekki í náðinni hjá „freka karlinum“.

„Freki karlinn“ er ekki endilega ákveðin manneskja eða ákveðnar persónur. Hann getur einnig verið kerfi eða óljós valdaöfl í samfélginu.

„Freki karlinn“ er að missa tökin því þolendur hans hafa tekið ráðin í sínar hendur. Þolendurnir nota aðrar aðferðir en „freki karlinn“ til að mótmæla og koma sínum boðskap á framfæri og það þolir ekki „freki karlinn“.

Þessar breytingar eru mörgum erfiðar því öll erum við hluti af þessu samfélagi sem „freki karlinn“ hefur stjórnað. Það er sársaukafullt að missa völd og það er sársaukafullt að vera allt í einu komin með völd og áhrif sem við höfum ekki haft áður. Auk þess getur verið erfitt að vera áhorfendur og vita ekki í hvorn fótinn við eigum að stíga og meðvirknin blossar upp.

Pétur og breytingarnar
Pétur og hinir lærisveinarnir sem fóru með Jesú á fjallið verða fyrir því að augu þeirra opnast. Þeim verður fyllilega ljóst að hér er eitthvað ótrúlegt að eiga sér stað. Þeir öðlast nýjan skilning á lífinu og sjá með eigin augum að Jesús er eitthvað meira en bara venjuleg manneskja. Pétur finnur að eftir þessa reynslu verður ekkert eins og það var áður. Það er óþægileg tilfinning að nokkru leyti því breytingaar, jafnvel þó þær séu jákvæðar, geta verið sársaukafullar. Hann stingur því upp á því að tjalda yfir allt liðið, alla karlana og dvelja sem lengst í stundinni áður en hversdagurinn tekur við á ný og hann neyðist til að vinna úr breytingunum.

Ég held að við sem samfélag séum í svipaðri stöðu og lærisveinarnir á fjallinu. Þessar breytingar sem eru að eiga sér stað hjá okkur eru mörgum erfiðar. Þær eru ruglandi og jafnvel ógnvænlegar. Margir karlmenn eru hræddir við að verða ásakaðir um ofbeldi ef þeir faðma börn eða koma of nálægt konum, þrátt fyrir að flestir þeirra skilji vel að það er stór munur á ofbeldi og „eðlilegum“ og jafnvel innilegum samskiptum. Mörg okkar vilja kannski bara slá upp tjaldbúðum til þess að þurfa ekki að takast á við þetta og vinna úr þessu. Það er nefnilega komið að því að við hugsum svo marga hluti upp á nýtt.

Allt í einu er t.d. bannað að tala niður til kvenna, fatlaðs fólks, samkynhneigðs fólks o.s.frv. Og þetta á jafnvel við um alþingisfólk sem er að fá sér í glas. Og jafnvel sérstaklgea það fólk. Nú má ekki lengur klípa í rassa, káfa á brjóstum eða koma fram við aðra manneskju eins og hún sé leikfang eða eign. Það er komið að því að við þurfum öll að vanda okkur í öllum samskiptum og fyrir sum okkar er það augljóslega flókið.

Já, samfélagið er að breytast. Við erum að breytast…eða það vona ég.

Og á sama tíma gerir Guð ekkert annað en að elska okkur og opna augu okkar.

En er það ekki einmitt það sem við þörfnumst? Við þurfum að opna augu okkar fyrir því sem er satt og rétt til þess að geta breyst og við þurfum ást til þess að geta tekist á við breytingarnar og unnið úr þeim. Við þurfum að finna að við  erum elskuð, hver sem erum og hvar sem við stöndum. Breytingarnar eru nefnilega undir okkur sjálfum komnar. Guð gefur okkur kraftinn til að breytast en Guð breytir ekki heiminum fyrir okkur eftir pöntunum.

Nýtum þennan kærleika Guðs til þess að reyna að breyta því sem opin augu okkar sýna að þarfnist breytinga.
Amen.

Guðspjall: Mark. 9: 2-9