Skip to main content
Monthly Archives

febrúar 2017

Talenturnar á Kópavogshæli

Eftir Prédikanir

Hælið
Árið sem ég varð tvítug bauðst mér sumarvinna á Kópavogshæli sem síðar varð að hlutavinnu með skóla. Ég er alin upp í Kópavogi og fjöldinn allur af Kópavogsbúum af minni kynslóð fékk vinnu á Kópavogshæli. Mér líkaði strax vel í vinnunni og þarna kynntist ég góðu fólki sem gaman var að vinna með. En þegar á fyrsta degi varð mér þó ljóst að ég var komin í ákaflega erfitt starf. Ég var á einni af erfiðustu deildunum þar sem heimilisfólk átti margt hvert við mikla hegðunarörðuleika að stríða. Ég varð strax vöruð við því að þessi einstaklingur gæti lamið mig og að annar gæti rifið í hárið á mér og að enn annar gæti bitið mig. Mér leist nú ekki meira en svo á þetta en þar sem ég læt nú ekki hræða mig auðveldlega og gefst helst ekki upp á þeim verkefnum sem ég tek að mér, þá hélt ég áfram.

Ég vandist þessu starfi þó nokkuð fljótt. Ég þurfi stundum að fara upp á slysó vegna áverka sem ég fékk eftir að heimilisfólk hafði ráðist á mig en að öðru leyti gekk vel. Mér líkaði vel við heimilisfólkið og fór smám saman að þykja undurvænt um mörg þeirra.

Ég starfaði í tæp þrjú á Kópavogshæli og var allan tímann á sömu deildinni þar sem eingöngu fullorðið fólk var vistað. Ég tók gjarnan aukavaktir því þær voru ágætlega borgaðar og svo vantaði alltaf fólk. Þessi ár, sem ég var þarna, hafði augljóslega margt batnað frá því sem áður var. Ég heyrði sögur af göllum sem voru reimaðir að aftan og saumað fyrir hendurnar. Ég heyrði sögur af spennitreyjum, fólki sem var læst inni í herbergi og bundið niður í rúmin. En ég sá líka að oft var ekki komið fram við heimilisfólkið af mikilli nærgætni eða reisn. Það var mikil mannekla þarna og nánast hver sem er gat fengið vinnu. Starfsfólk þurfti ekki að gefa leyfi fyrir því að farið væri yfir sakaskrá eða önnur öryggisatriði sem kröfur eru gerðar um í dag hjá flestum þeim er vinna með fólk og þá sérstaklega börn. Nánar