Skip to main content
Monthly Archives

ágúst 2019

Matur – Hin nýju trúarbrögð?

Eftir Prédikanir

Magn, bragð og fegurð
Nýlega heyrði ég einhvers staðar sagt að fólk sem hefur lítið á milli handanna spyrji matargesti sína hvort þau hafi fengið nóg að borða. Þau sem teljast til millistéttar, hafa nóg en ekki of mikið, spyrja hvernig maturinn hafi bragðast en þau sem eiga miklu meira en nóg af öllu hugsi auk þess um hvernig maturinn líti út.

Ég veit ekki hvort þú kannast við þetta. Fullyrðingin er náttúrulega fullkomlega steríotýpisk fullyrðing en þó held ég að það sé svolítið til í henni. Ég man eftir eldra fólki  í fjölskyldunni sem alltaf vildi vera að troða í gesti sína nógu miklum mat. Fólki sem galdraði fram veisluborð úr nánast engu þó gesti bæri að garði án fyrirvara. Þetta sama fólk hefði aldrei látið hvarfla að sér að henda mat. Þegar ég var rúmlega tvítug vann ég á Hrafnistu með skóla og hafði m.a. það hlutverk að færa fólki, sem komst ekki niður í matsalinn, kvöldmat upp á herbergin sín. Þegar ég skammtaði þeim á diskana var viðkvæðið iðulega að ég gæfi þeim allt of mikið. Þegar ég svaraði og sagði að þau gætu bara skilið eftir kom á þau skelfingarsvipur og ég sá að það kom ekki til greina. Ég lærði því smá saman að minnka skammtana. Þetta var áður en við uppgötvuðum að matarsóun væri bæði siðlaus og óumhverfisvæn.

Síðan kom að því að fólk fór að geta leyft sér meira í mat og fjölbreytnin varð ríkari hér á landi og þá fórum við smá saman að geta leyft okkur að leggja meiri áherslu á bragðið og minni áherslu á magnið. Mín kynslóð galdrar ekki fram dúkað veisluborð þó gesti beri að garði nema mögulega að um afmæli sé að ræða. Þegar ég hitti vinkonur mínar er yfirleitt eingöngu boðið upp á kaffi og sjaldan eitthvað með því.

Og eftir því sem velmegunin varð meiri hér á landi, í kringum 2007, gat hlutfallslega fleira fólk lagt áherslu á útlit matarins, pantað hann frá flottri veisluþjónustu í stíl við tískustraumana, húsgögnin og sumarkjólana.

Á sama tíma er það svo að stór hluti íbúa þessarar jarðar yrði þakklátur fyrir það eitt að fá reglulega magafylli.

Matarkúrar og lífsstíll
Öll eigum við í einhverju sambandi við mat, misjafnlega heilbrigðu. Við komumst jú ekki hjá því að borða. Stór hluti lífsstílssjúkdóma vestrænna velmegunarsamfélaga tengist mat. Við borðum ýmist of mikið eða of lítið. Við borðum of óhollt eða of einhæft. Stór hluti okkar þekkir og hefur prófað megrunarkúrana og tekið okkur á í mislangan tíma. Föstur, ketó, Danski kúrinn, plöntufæði, paleo, grænmetisfæði, vegan, já og það nýjasta, töfrakaffið með hinu meinta afmetamíni eru meðal hugtaka sem mörg okkar kannast við en öll tengjast þau mataræði, megrunarkúrum og lífsstíl en nú orðið er frekar lögð áhersla á að við breytum lífsstílnum okkar í tengslum við mat en að við förum í tímabundna megrunarkúra.

Ein af ástæðunum fyrir því að kúrar eru að breytast í lífsstíl er aukin meðvitund okkar um siðferði tengdu mataræði og áhrif matvælaframleiðslu á umhverfið. Reyndar er þessi meðvitund ekki ný af nálinni en hún hefur orðið útbreiddari og almennari og þá ekki síst í tengslum við hamfarahlýnun jarðar. Þannig fjölgar þeim óðum sem láta sér ekki nægja að borða einungis fæði úr jurtaríkinu heldur hafna öllum dýraafurðum, ganga ekki í leðurskóm og nota ekki snyrtivörur sem prófaðar eru á dýrum o.s.frv.

Getur verið að matur eða mataræði sé hin nýju trúarbrögð?

Hin nýju trúarbrögð
Við borðum hollt til þess að eignast betra og lengra líf. Helst eilífa æsku. Trúarbrögð hvetja fólk til þess að bæta sig á einhvern hátt og þroskast sem manneskja til þess að eignast betra líf og jafnvel eilíft líf.

Hluti fólks borðar helst aðeins mat þar sem framleiðslan hefur ekki bitnað á dýrum því það vill dýrunum og umhverfinu vel. Trúarbrögð ganga gjarnan út frá virðingu fyrir allri sköpun almættisins og í mörgum þeirra eru að finna leiðbeiningar og jafnvel kröfu um neyslu á hreinu fæði.

Í dag er nokkuð um að fólk fasti og þá ekki einungis til þess að grennast, heldur einnig til þess að hvíla meltinguna, tengjast líkama sínum betur og jafnvel til þess að finna til svengdar annað slagið þar sem sú tilfinning er framandi mörgu nútíma fólki í hinum vestrænu samfélögum. Fasta er hluti af mörgum trúarbrögðum. Ramadan múslima er líklega þekktust hér á landi þó sannarlega hafi fastan verið hluti af kristinni trú alveg frá upphafi og er það enn að vissu leyti og hjá ákveðnum hópum kristins fólks.

Jafnt í trúarbrögðum og í lífstílstengdu mataræði er hætta á öfgum og þær geta tekið á sig nokkuð áþekka mynd hjá báðum hópunum. Þegar báðir hóparnir fara út í öfgar fara þeir að gera greinarmun á sér og hinum sem ekki lifa jafn „hreint“ eða „rétt“. Þau ein frelsast sem taka lífsstílinn/trúna alla leið. Ef þú ert ekki með ert þú ekki hólpinn, þú eignast ekki hina eilífu æsku eða eilíft líf.  Þú ert ekki jafngóð og siðferðilega sterk manneskja. Þannig verða t.a.m. þau sem eru í of miklum holdum hin bersyndugu á sama hátt og þau sem ekki fylgja lögmálum trúarbragðana.

Brauð lífsins
Guðspjall dagsins fjallar um mat, trú og kröfu um kraftaverk. Fólkið sem fylgir Jesú biður hann um að gera kraftaverk og sýna sér að hann sé sannarlega eitthvað merkilegur. Hann er nýbúinn að metta vel yfir 5000 manns og nú vill fólkið meira. Fólkið er svangt og hann er lílegur til að gefa þeim að borða. Hann hefur jú gert það áður.

Kannski hungrar þau í eitthvað meira en mat. Kannski hungrar okkur öll í eitthvað meira en mat. Vissulega er það svo að þegar við erum alvarlega svöng og þjáumst af næringarskorti, þá er það hungur sem þarf að seðja áður en við getum meðtekið aðra og dýpri næringu. Við þurfum þó ekki alltaf að vera södd. Við þurfum aðeins að fá nóg. Og kannski er það einmitt það sem margir nútíma kúrar og lífsstíls mataræði gengur út á; Að við fáum nóg. Mátulega mikið. Passlegt.

Lífsstíls mataræði og trú þarf svo sannarlega ekki að vera í mótsögn og annað þarf ekki að koma í stað hins. Markmiðið er oftar en ekki hið sama.

Jesús býður okkur annars konar næringu sem fylgir lífsstílnum að trúa á Guð. Að trúa því að til sé eitthvað æðra manneskjunni, eitthvað gott sem fær okkur til að vilja verða betri manneskjur. Það er þetta andlega brauð sem Guð býður okkur upp á ef við iðkum trúna og sinnum andlega lífinu. Guð lofar okkur andlegri mettun því Guð sjálft er þetta brauð. Sú mettun endist ekki aðeins fram að næstu máltíð. Sú mettun er stöðug. Þessa mettun getum við eignast með bænalífi, íhugun, samfélagi annarra sem vilja trúa og með því að stöðugt reyna að bæta okkur og öðlast bæði innri og ytri frið.

Þessi mettun fær okkur til að vilja vaxa sem manneskjur og breyta rétt. Hún fær okkur til að vilja hlúa að allri sköpuninni, fara vel með dýr, taka hamfarahlýnuninni alvarlega og leggja okkar að mörkum þar. Þetta tekst þó sannarlega ekki alltaf en þá er bara að rísa upp og byrja upp á nýtt.

Og vonandi fær þetta sanna og eilífa brauð okkur til þess að forðast að dæma þau sem ekki lifa samkvæmt okkar lífstíl eða trú sem hin bersyndugu, hin óhreinu, hin misheppnuðu. Því öll erum við jafndýrmæt og elskuð af Guði, hvort sem við þiggjum þetta brauð eða ekki.
En það stendur okkur öllum til boða. Hér og nú.

Dýrð sé Guði sem gefur okkur brauð lífsins, næringu sem aldrei þverr.