Skip to main content

Kærleikurinn lítur ekki undan

Eftir febrúar 11, 2024Prédikanir

Sannur kærleikur

Þótt ég talaði tungum manna og engla, hefði góð tök á íslenskri tungu
og hefði fjölda annarra tungumála á valdi mínu
en hefði ekki kærleika,
væri ég hljómandi málmur eða hvellandi bjalla.

Og þótt ég hefði spádómsgáfu, gæti séð inn í framtíðina
og hefði margar háskólagráður
og þótt ég hefði svo takmarkalausa trú að færa mætti fjöll úr stað,
mætti í messu hvern sunnudag og læsi daglega úr Heilagri ritningu
en hefði ekki kærleika,
væri ég ekki neitt.

Og þótt ég deildi út öllum eigum mínum,
styrkti reglulega Rauðakrossinn,
Krabbameinsfélagið, Hjálparstarf kirkjunnar
og öll hin félögin
en hefði ekki kærleika,
væri engu bættari…

Þau eru mörg sem kannast við Óðinn til kærleikans úr Fyrra Korintubréfi en þessi fagri kærleiksóður er einn allra þekktasti texti Biblíunnar. Hann hefur komið fyrir í bókmenntum, ljóðlist, tónlist, myndlist og kvikmyndum svo eitthvað sé nefnt. Þá er þetta einn algengasti Biblíulesturinn í hjónavígslum bæði hér á landi og um allan hinn kristna heim. Auk þessa hafa verið samin alls kyns tilbrigði við þennan texta eins og það sem er hér á undan.

Þessi texti er svo óendanlega sterkur og þá ekki síst fyrsti hlutinn þar sem fram kemur að þú getur gert góða hluti og virkað fullkomlega fín og góð manneskja en ef þú gerir það ekki í nafni kærleikans, ef þú átt ekki kærleika í brjósti þá ertu innantóm eins og hljómandi málmur, þá ertu engu bættari. Samkvæmt þessu er ekki nóg að virðast góð manneskja ef ég er það ekki í raun og veru.

Hvaða kærleikur er þetta þá sem við eigum að finna? Skiptir einhverju máli hvaðan gott kemur? Getum við ekki alveg verið góðar manneskjur þó að við finnum ekki fyrir kærleika í brjósti okkar? Við erum jú breyskar manneskjur og sannarlega ekki alltaf góðar.

Þrjár konur – miskunnsami Samverjinn
Ég er nokkuð virkur notandi samfélagsmiðilsins Instagram. Þessi miðill getur verið virkilega öflugur þar sem hægt að koma sterkum boðskap áleiðis í formi mynda og myndbanda þegar orðin ein duga ekki til. Ég á nokkra vini á þessum miðli sem setja inn myndir á hverjum degi um ástandið á Gaza. Þau setja inn myndir af börnun sem hafa nýlega misst foreldra, af foreldrum sem hafa misst börn. Þau setja inn myndir af særðum börnum og jafnvel dánum börnum. Það er ekki þægilegt að skoða þetta og oft langar mig að fletta framhjá þessu. Ég geri það stundum en læt mig þó yfirleitt hafa það að horfa. Ég held nefnilega að þegar við veljum að horfast ekki í augu við mannvonskuna í heiminum þá veljum við að sjá ekki neyð annarrar manneskju sem er nákvæmlega jafn dýrmæt og við.

Árið 2014, fyrir tíu árum, fjallaði ég um það í prédikun þegar Ísraelsher varpaði sprengju á hóp barna sem var við leik á Gazaströndinni. Þá höfðu staðið yfir stöðugar árásir á Gaza í nokkurn tíma og um 300 manneskjur höfðu látist. Talið var að um 80% þeirra væru almennir borgarar. Fólk eins og þú og ég. Börn að leik og fólk sem tengist ekki hernaði á nokkurn hátt. Nú, tíu árum síðar hafa stöðugar árásir á Gaza átt sér stað marga mánuði og ástæðan er að verið sé að uppræta Hamas samtökin sem eru skilgreind sem hryðjuverkasamtök. Og enn og aftur er það svo að minnst 80% þeirra er verða fyrir þessum árásum eru almennir borgarar, börn, konur, karlar og kvár. Í dag er talið að nálægt 30 000 manns hafi látist í þessum árásum.

Þegar ég var að alast upp var fréttafluttningur af átökum á Gaza svæðinu daglegt brauð. Ég man að ég  spurði stundum út í þetta en yfirleitt var ég ekkert mikið að velta þessu fyrir mér. Þetta var bara hluti af lífinu. Hinu hversdagslega.

Er ekki eitthvað brenglað við heim þar sem hversdagsleiki sumra barna er að þau sjálf eða einhver sem þau þekkja og þykir vænt um geti orðið fyrir árás og dáið hvenær sem er? Og heim þar sem hversdagsleiki annarra barna er að það er svo venjulegt að heyra daglega fréttaflutning af því að stríð ríki á mörgum stöðum í heiminum að þau kippa sér ekki upp við þær fréttir lengur?

Nú hafa þrjár íslenskar konur tekið sig til og gert það sem hefur vafist fyrir stjórnvöldum og farið út til Egyptalands að landamærum Gaza til þess að reyna að sækja fólk sem þegar hefur fengið dvalarleyfi á Íslandi. Þeim hefur nú þegar tekist að ná einni konu og þremur börnum hennar yfir landamærin og eru nú að reyna að ná annarri konu og langveiku barni hennar.

Þrjár konur gáfust upp á að bíða og gerðu eitthvað. Þetta minnir svolítið á söguna um miskunnsama Samverjann þar sem sá er síst skyldi var sá sem kom manninum, sem ráðist var á, til hjálpar. Þessar konur eru Samverji nútímans.

Önnur stríð
Ég held að öllum sé ljóst að það sem er að eiga sér stað á Gaza er hápólitískt því vestræn stjórnvöld, þar á meðal Ísland, eiga í stjórnmálasambandi við Ísrael. Þegar Rússland réðst inn í Úkraínu var annað uppi á teningnum. Við tókum við 4000 manns þaðan án vandræða og lögðumst öll á eitt. Við rákum Rússa úr Eurovision og það var ekkert flókið að skrifa undir yfirlýsingar sem fordæmdu Rússa. Þegar stríðið var í Sýrlandi var einnig auðveldara að taka á móti flóttafólki og standa með þeim er urðu undir.

Samskipti ríkja skipta máli og stjórnmálasamband er eitthvað sem ríki virða sín á milli. Þá er ljóst að við viljum síður styggja sum ríki en önnur einfaldlega vegna stærðar og máttar, vegna tengsla þeirra við enn önnur ríki og vegna viðskiptasambands. En þegar þessi tengsl verða til þess að það vefst fyrir okkur að standa með fólki sem ráðist er á, að styðja fólk sem verður fyrir daglegum árásum þá er eitthvað bogið við þetta. Ég get nefnilega ekki séð hvers vegna við getum ekki fordæmt allar árásir þar sem saklaust fólk deyr, hvort sem um er að ræða árásir Ísraels á Gaza eða árásir Hamas á Ísrael. Bæði er hræðilegt.

Sannur kærleikur
Í Óðinum til kærleikans er lögð áhersla á að verk okkar séu ekki innantóm, að það sé ekki nóg að tala fallega, virka trúuð og fróm, eiga djúpa þekkingu og gefa í góðgerðamál ef við erum ekki sönn.

Ef sannur kærleikur liggur ekki að baki þá verður þetta allt saman innantómt. Röddin okkar verður hol.

Það er ekki auðvelt að elska. Það getur meira að segja verið býsna erfitt og sársaukafullt að elska. En sannur kærleikur hlýtur ávallt að leiða okkur í þá átt að vilja vel. Ein mikilvægasta mynd Biblíunnar af Guði er einmitt kærleikur, að Guð sé hinn dýpsti og tærasti kærleikur sem getur elskað út fyrir öll landamæri. Að Guð sé svo djúpur kærleikur að Guð geti elskað hverja einustu manneskju, líka þær sem virðast illvirkjar, þær sem fremja vond verk. Það er þessi kærleikur sem Guð býður okkur að finna ef við opnum hjörtu okkar fyrir Guði. Þetta er kærleikurinn sem við getum látið streyma í gegnum okkur ef við viljum þiggja hann.

Kærleikurinn er oft flókinn og við getum ekki elskað allt og alla. Kærleikurinn er ekki blindur. Hann er ekki heimskur og hann er ekki trúgjarn. Jesús lét ekki bjóða sér hvað sem var en hann stóð ávallt með þeim sem verða undir. Kærleikurinn getur jafnvel gefið okkur hugrekki til að vera óþægileg og segja sannleikann og elska einnig þau sem ekki er vinsælast að elska. Þau eru manneskjur, Guðs góða sköpun eins og við.

Manneskjurnar sem nú búa við það ástand að þær sjálfar og þeirra nánasta fólk getur orðið fyrir árás hvenær sem er án þess að hafa nokkuð til þess unnið nema helst að hafa fæðst í röngum stað í heiminum er það fólk sem við hljótum ávallt að láta okkur varða. Þá er alveg sama í hvaða löndum þetta fólk býr. Kærleikurinn getur aldrei samþykkt að saklaust fólk sé drepið.

En hvað getum við gert?

Ég held að við getum gert svo ótal margt. Við getum gætt okkar á því að láta aldrei stríð og ofbeldi verða að hversdagslegu fyrirbæri. Við getum látið okkur fólk og aðstæður þess varða jafnvel þó að þau búi langt í burtu og jafnvel þó að þau séu ekki með réttu pólitísku stöðuna gagnvart Íslandi. Við getum gefið pening í safnanir. Við getum mótmælt og við getum beðið. Svo er einstaka óvenju hugrakkt og drífandi fólk sem fer bara á staðinn og tekur málin í sínar hendur eins og konurnar þrjár sem nú eru að reyna að bjarga fólki, sem þegar er komið með dvalarleyfi, yfir landamærin

Ég ætla að reyna að loka ekki augunum fyrir myndum og myndböndum frá því sem er að eiga sér stað á Gaza eða öðrum stöðum í heiminum og birtist á Instagram þó mig langi oft til þess. Og ég veit bara að Jesús hefði aldrei staðið hjá og komið sér undan því að taka afstöðu með þeim sem verða undir vegna þess að það væri stjórnmálalega of flókið.

Kærleikurinn getur falist í því að líta ekki undan og standa með öllum sem búa við neyð, hver sem þau eru.

Dýrð sé Guði sem lætur sig allar manneskjur varða og vill að við gerum slíkt hið sama.