Skip to main content

Að ræða trú í jólaboðum – Aftansöngur á aðfangadag

Eftir janúar 10, 2024janúar 26th, 2024Prédikanir

Hversdagstrú

Af hverju höldum við jól? Hvers vegna heldur þú jól? Ég held jól vegna þess að ég trúi því að almættið hafi birst heiminum í litlu barni. Ég held líka jól til þess að fagna komu ljóssins og ég held jól til þess að njóta samverustunda með fólkinu mínu.

Það segir nokkuð mikið um kristið fólk að það sé tilbúið að trúa á Guð sem birtist í litlu barni sem fætt er á hálfgerðum hrakhólum en ekki sem eitthvað fínna, máttugra eða upphafnara. ja, eða í það minnsta, ef Guð þarf að fæðast sem barn, að það sé þá fætt við öruggar aðstæður, við ríkidæmi og völd. Hvernig má það vera að við trúum því að almættið, sem við köllum Guð, hafi komið inn í heiminn í sem manneskja með þessum ómerkilega hætti? Lífslíkur barna sem fæddust á þessum tíma voru ekkert í líkingu við það sem við þekkjum í dag og því ekki einu sinni öruggt að barnið myndi lifa og vaxa úr grasi. Og við erum að tala um almættið.

Þessi vilji okkar bendir til ákveðinnar dýptar í mannfólkinu, að við séum tilbúin til að sjá hlutina á dýptina, að Guð, sem er hinn æðsti kærleikur geti birst í hinu hversdagslega, hinu smáa og ófullkomna. Ef sagan af fæðingu frelsarans, sem er birtingarmynd Guðs í heiminum, hefði verið á þá leið að hann hefði komið af himnum ofan í fylgd engla eða annarra stórkostlegra vera og verið komið fyrir í höll, tilbúinn til að stjórna heiminum þá hefði það bent til þess að Guð væri fylgjandi valdi og upphafningu. Það hefði bent til þess að Guð væri svo fínt fyrirbæri að við gætum helst ekki tilbeðið Guð nema í stórum fallegum kirkjum, að fátækt og sjúkdómar væri ekki samboðið Guði.

Sagan af því þegar Guð gerist manneskja er með þeim hætti að við skiljum að við, hvert og eitt, erum verðug. Við erum öll nógu fín fyrir Guð því Guð er hluti af okkur. Jesús deildi kjörum með okkur sem þýðir að Guð deilir kjörum með okkur. Þess vegna er kristin trú ekki sunnudagstrú sem á einungis heima í kirkjum. Nei, kristin trú er hversdagsleg því Guð kemur inn í hverdagsleikann okkar sem manneskja sem fær sjálf að kynnast því að lífið getur verið býsna erfitt.

Í bókinni Deus eftir Sigríði Hagalín Björnsdóttur lýsir ein sögupersónan trú hversdagsins með eftirfarandi orðum:

„Að ganga á Guðs vegum er í senn flókið og einfalt verkefni. Flókið vegna þess að heimurinn gerir ráð fyrir öðrum og breiðari vegum og þar er ekki reiknað með Guði. Honum hafa verið settar þröngar skorður á jaðrinum, í jarðarförum og jólasálmum, annars vill fólk ekki heyra á hann minnst. Menn setja upp óræðan svip þegar Sigfús fer að tala um Guð, þeir aka sér og víkja talinu að öðru. Það er ekkert pláss fyrir Guð í siðuðu samfélagi, í vinnunni eða fjölskylduboðum, neysluverðsvísitölunni; ekki frekar en í strætó eða í hjónabandinu með Jóhönnu.“

Sigfús sem á þessi orð fékk nefnilega vitrun þegar hann var staddur í strætó í Mjóddinni. Hann átti að vera að keyra strætisvagninn en gat ekki farið af stað á réttum tíma því hann fylltist svo mikilli gleði við vitrunina, að hann varð að deila henni með öðrum. Hann missti því vinnuna. Svo missti hann hjónabandið með Jóhönnu.

Í sögunni um Sigfús er svo skýrt að trúin rúmast ekki í hversdagsleikanum. Þú ert skrítin/n ef þú trúir og hvað þá ef þú vilt ræða það. Guð á ekki heima í jólaboðunum heldur aðeins í aftansöngnum.

Það merkilega er þó að með fæðingarsögunni færist guðdómurinn nær okkur og verður beinlínis hversdagslegur. Þá á ég ekki við í merkingunni, óspennandi eða ómerkilegur, heldur verður hann eðlilegur eða normal. Hvað er eðlilegra en að barn fæðist? Hvað er meira normal en að eignast barn? Börn fæðast á hverri mínútu um allan heim. En um leið og barnsfæðingar eru alltaf að eiga sér stað þá er hver einasta fæðing stórkostlegt kraftaverk og ekkert hversdagslegt við hana. Hversdagslegir hlutir geta nefnilega verið stórkostlegir og stórkostlegir hlutir hversdagslegir. Reyndar er fæðingarsagan krydduð svolítið með englum, hirðum, vitringum og stjörnum annað hvort væri nú þegar Guð kemur í heiminn sem manneskja við svo annars hversdagslegar aðstæður.

Jesús átti foreldra sem vernduðu hann á allan hátt. Hann átti nokkuð venjulegt uppeldi út frá viðmiðum þess samfélags sem hann ólst upp í. Í það minnsta er ekkert sem bendir til annars. Hann lifði fullkomlega eðlilegu lífi alveg fram á fullorðins ár.

Jól í Betlehem

Nú hafa borist fréttir af því að jólahaldi sé aflýst í Betlehem, fæðingaborg Jesú Krists. Betlehem tilheyrir vesturbakka Palestínu og til að sýna samstöðu með íbúum Gasa svæðisins hefur þessi ákvörðun verið tekin. Í ár hefur Jesúbarninu verið komið fyrir í fæðingarkirkjunni í Betlehem inn á milli múrsteina. María og Jósef eru þarna líka í rústunum auk hirða, vitringa og dýra en þau eru öll aðeins lengra frá barninu en við eigum að venjast. Í viðtali við prest í fæðingarkirkjunni kemur fram að þetta sé gert til þess að sýna samstöðu með íbúum Gasa svæðisins sem nú búa við stöðugar árásir á saklausa borgara. Þetta er gert til að minnast allra barna sem fallið hafa í árásum Ísraels á Gasa og allra barna sem nú eru munaðarlaus vegna árásanna. Myndir af Jesúbarni í múrsteinsjötu eru afar áhrifaríkar en allt í kringum Jesúbarnið loga ljós. Ljósin tákna vonina sem þó er að finna mitt í öllum hörmungunum og því slokknar aldrei á þeim. Vonin deyr aldrei.

Myndin af Jesúbarninu í múrsteinsjötunni minnir okkur á að Jesús fæddist einmitt þarna, að Guð kom inn í þennan ófullkomna heim til þess að sýna okkur hvernig Guð er. Og það sem við fengum að sjá er að Guð er einmitt kærleikur sem kemur inn í hvaða mannlegu aðstæður sem er. Guð er með fólkinu í Gasa sem nú býr við stöðugan ótta og hörmungar.  Guð er mitt í þeim aðstæðum. Guð er með fólki sem býr við vondar aðstæður hvar sem er í veröldinni og Guð er með í hversdagsleikanum okkar hvernig sem hann er.

Guð er nefnilega ekki aðeins í kirkjunni á sunnudögum, í jarðarförum og fermingum. Guð er með í lífinu öllu. Hinu góða og hinu erfiða og á þessum venjulegu dögum þegar ekkert sérstakt gerist.

Ef til vill ættum við að gera tilraun til að ræða um trú í jólaboðum eða í strætó og sjá hvað gerist. Hver veit nema fólk sé tilbúið til að ræða trú á dýptina því fólk sem er tilbúið til að skilja að trú er ekki einfalt fyrirbæri á yfirborðinu sér að við hljótum alltaf að standa með þeim sem verða undir, þeim sem ráðist er á, að við hljótum að stilla okkur upp við hlið Jesúbarnsins í jötunni hvort sem hún er gerð úr stráum, múrsteinum eða hreinum lökum.

Dýrð sé Guði sem er hluti af lífi okkar hvernig sem það lítur út.

 

Prédikun flutt í Grafarvogskirkju í aftansöng á aðfangadag 2023