Skip to main content

Hver er Guðrún?

Ég heiti Guðrún og er sóknarprestur í Grafarvogssókn

Guðrún Karls Helgudóttir

Ég heiti Guðrún og er sóknarprestur í Grafarvogssókn.

Ég er gift Einari Sveinbjörnssyni prófessor í eðlisfræði við Háskóla Íslands og Háskólann í Linköping. Við eigum tvö börn, tengdason og tvö barnabörn.

Nám og störf

Ég útskrifaðist frá Háskóla Íslands með Cand.Theol gráðu vorið 2000 og flutti í kjölfarið til Svíþjóðar. Ég vígðist til prests í Sænsku kirkjunni, í Dómkirkjunni í Gautaborg árið 2004 af biskupnum Carl Axel Aurelius eftir nám í prestaskólanum í Lundi auk starfsþjálfunar og námi í sænskum kirkjurétti. Eftir það þjónaði ég sem prestur í tveimur söfnuðum í Gautaborg í 4,5 ár, fyrst sem prestur í eitt ár og síðan sem sóknarprestur í þrjú og hálft ár. Árið 2008 var ég valin til að þjóna sem prestur við Grafarvogssókn og átta árum síðar tók ég við embætti sóknarprests í sömu sókn.

Auk þess að þjóna í Grafarvogssókn þá kenndi ég í fjögur ár við Guðfræðideild Háskóla Íslands námskeiðið framsetning kristins boðskapar í nútíma samfélagi sem er í raun námskeið í prédikunarfræði.

Árið 2016 útskrifaðist ég með Doctor of Ministry gráðu í prédikunarfræðum frá The Lutheran School of Chicago (LSTC). Þetta er praktísk doktorsgráða sem kennd er í háskólum í Bandaríkjunum. Fyrri hluti námsins var kenndur í Uppsölum í Svíþjóð en síðari hlutinn í Chicago.

Kirkjuþing og stjórnarstörf

Ég hef átt sæti í fjölmörgum stjórnum og nefndum á vegum kirkjunnar auk stjórnar Prestafélags Íslands þar sem ég átti sæti í átta ár og gegndi þar af hlutverki varaformanns í fjögur ár. Meðal stjórna og nefnda sem ég hef átt sæti í má nefna Héraðsnefnd Reykjavíkurprófastsdæmis eystra, Félag prestvígðra kvenna ásamt því að vera formaður Æskulýðssambands Þjóðkirkjunnar um fjögurra ára skeið.

Ég var fulltrúi 1. Kjördeildar vígðra á kirkjuþingi í átta ár og átti sæti í nefndum og starfshópum á vegum þingsins. Ég var formaður allsherjarnefndar kirkjuþings í fjögur ár, formaður stýrihóps um stefnumótun og fulltrúi í framtíðarhópnum sem hafði það hlutverk að skipuleggja og fylgja úr hlaði breytingum sem fylgdu undirritun viðbótarsamning Þjóðkirkjunnar og ríkisins árið 2019 svo eitthvað sé nefnt.

Ritstörf

Árið 2020 fékk ég sex mánaða námsleyfi og dvaldi í Brisbane í Ástralíu. Maðurinn minn var í rannsóknarleyfi frá Háskóla Íslands á sama tíma og var við rannsóknir við Griffith University í sömu borg.

Í lok nóvember sama ár gaf Skálholtsútgáfa út hugleiðingabók eftir mig sem ber heitið, „Í augnhæð, hversdagshugleiðingar“. Kristín Gunnlaugsdóttir myndlistakona hannaði kápu bókarinnar og öskjunnar sem kom út samhliða bókinni.

Ég hef sótt ýmis námskeið í sálgæslu í gegnum tíðina auk þess sem reynslan hefur kennt mér mikið. Ég hef leitt sorgarhópa og boðið upp á skilnaðarhópa í fjölmörg ár. Ég hef unnið mikið með fólki í tengslum við sjálfsvíg og önnur áföll og skrifað greinar í fjölmiðla um hjónaskilnaði og áföll. Þá hef ég samið fræðsluefni fyrir ýmsa hópa s.s. fermingarfræðslu.

Nýjar leiðir í safnaðarstarfi

Sem prestur og sóknarprestur hef ég verið óhrædd við að fara nýjar leiðir í safnaðarstarfi ásamt mínu góða samstarfsfólki. Mér hefur tekist að byggja upp starf í Grafarvogssókn sem er vel sótt, boðið upp á viðburði sem tekið er eftir og hafa verið ákaflega vel sóttir auk þess að byggja upp hlýlegt og skapandi andrúmsloft í kirkjunni þar sem starfsfólki líður vel. Stór hluti af velgengni Grafarvogssafnaðar er allt það góða og hæfileikaríka fólk sem þar hefur starfað í gegnum tíðina og sóknarnefnd og söfnuður sem er opinn fyrir nýjungum.

Lykilatriði til að byggja upp kirkjuna sem vinnustað þar sem fólki líður vel er að treysta fólki fyrir verkefnum, hafa gott auga fyrir því sem býr í fólki og gefa því tækifæri til að nýta hæfileika sína og áhugamál. Þá er gríðarlega mikilvægt að taka þegar á vandamálum sem koma upp í mannlegum samskiptum og koma þannig í veg fyrir að þau vaxi.

Ég legg mikið upp úr aðgengilegu helgihaldi og prédikunum sem auðvelt er að skilja og taka til sín og lykillinn að því er að tala tungumál sem fólk skilur. Ég hef því búið til og samið ýmis form fyrir helgihald í Grafarvogskirkju ásamt mínu samstarfsfólki. Þar má að nefna Reiðimessu (í tengslum við hrunið 2009), kyrrðar og fyrirbænastund, helgistund í tengslum við skilnaðarnámskeið, Vörðumessu (þar sem fólk deilir reynslu og hleður vörður) og nú síðast nýtt messuform fyrir klassíska messu í Grafarvogskirkju.

Viðburðir og verkefni í Grafarvogssókn

Undanfarin ár hef ég lagt áherslu á að allt starfsfólk Grafarvogskirkju vinni saman að stórum viðburðum á vegum safnaðarins. Þá er mikilvægt að við séum öll með frá upphafi og eignum þannig öll hlutdeild í því sem við stöndum fyrir og bjóðum upp á. Dæmi um þetta eru:

* Drop-in brúðkaupin þar sem við gáfum saman yfir 50 brúðhjón á tveimur dögum.

* Kirkjan í Covid. Leiddi gerð tónlistarmyndbands um boðskap og hlutverk kirkjunnar á tímum heimsfaraldurs ásamt Hilmari Erni Agnarssynir organista.

*Pípur og kjólar, viðburður þar sem við söfnuðum fyrir orgeli í Grafarvogskirkju með því að bjóða upp og selja kjóla.

* Vinakvöld. Viðburður í tengslum við verkefnið, Vinir Grafarvogskirkju sem gengur út á að fá fleira fólk til að sækja kirkjustarf, verða sjálfboðaliðar í kirkjunni og eignast vini í kirkjunni. Nú eru sjö hópar starfandi við kirkjuna í tengslum við verkefnið, Vinir Grafarvogskirkju.

*Mannréttindavetur í Grafarvogskirkju. Veturinn 2022-2023 stóðum við fyrir mannréttindavetri og buðum upp á sjö fyrirlestrakvöld um ýmis mannréttindi.

Mannréttindi

Grafarvogskirkja hefur m.a. vakið athygli fyrir að láta sig mannréttindi allra varða og segja má að regnbogafáninn á kirkjutröppunum sé tákn um það. Táknmál fánans á tröppunum er fyrst og fremst að allar manneskjur eru elskaðar af Guði og velkomnar í kirkjuna. Þar skiptir kyn, kynhneigð, kynþáttur, þjóðerni, aldur eða nokkuð annað engu máli.

Árið 2016 lagði ég, ásamt sr. Vigfúsi Bjarna Albertssyni, fram á kirkjuþingi tillögu til þingsályktunar þess efnis að ekki mætti neita samkynja pari um hjónavígslu í Þjóðkirkjunni. Tillagan var samþykkt og nú má ekki neita pörum um hjónavígslu á þeim forsendum.

Trúin ofar öllu

Fyrst og fremst á ég einlæga trú á lifandi Guð. Ég hef trú á mátt bænarinnar og er sannfærð um að við erum öll Guði falin. Ég trúi á Guð sem er upphaf alls og krafturinn að baki öllu góðu, Guð sem er hinn æðsti og mesti kærleikur sem hver manneskja getur leitað til á persónulegan hátt.

Ég trúi á Guð sem skapar og elskar allar manneskjur jafnt óháð kyni, kynþætti, kynhneigð eða nokkru öðru. Ég trúi því að Jesús Kristur hafi komið í heiminn til þess sýna okkur hvernig Guð er og til hvers er ætlast af okkur.

Ég trúi á Guð sem fyrirgefur okkur af náð sinni á hverjum degi og lít á það sem hlutverk mitt að boða þennan Guð. Þá þykir mér vænt um kirkjuna mína og hef óbilandi trú á henni sem griðastað trúar, vonar og kærleika.