Skip to main content
Monthly Archives

nóvember 2020

Þú ert ekki mistökin þín

Eftir Prédikanir

Prédikun flutt í Kirkjuselinu 8. nóvember 2020

Á forsendum þolenda
Þegar við tölum um fyrirgefninguna þá veltum við gjarnan fyrir okkur hversu mikið við getum fyrirgefið, hvort við getum eða eigun að fyrirgefa allt. Í dag langar mig að skoða hvað við getum fengið fyrirgefið, hvort manneskja sem brotið hefur alvarlega af sér eða gert afgerandi mistök, eigi afturkvæmt, sem fullgildur meðlimur, í sama samfélag eða í þann hóp er sá eða þau er brotið var á tilheyra?

Það er rík krafa í kristni um fyrirgefningu en hún er ekki skilyrðislaus og einföld eins og stundum mætti halda heldur er gert ráð fyrir að hún taki tíma og að ákveðið ferli eigi sér stað. Til þess að unnt sé að fyrirgefa er gert ráð fyrir að fyrst að komi beiðni um fyrirgefningu, iðrun og yfirbót. Þá er krafan sú að þegar þú hefur fyrirgefið þá er það sem gerðist búið. Því er endanlega lokið. Þú rifjar það ekki upp reglulega yfir morgunmatnum ef þú ert búin/n að fyrirgefa því það er ekki til lengur. Máltækið: „Geymt en ekki gleymt“ á því alls ekki við þegar kemur að fyrirgefningunni“.

Engin manneskja er án syndar. Öllum verða okkur á mistök og öll brjótum við einhvern tíma á öðru fólki. Þessi brot eru misalvarleg. Og það breytir engu hversu sterk siðferðiskennd okkar er, við komum öll einhvern tíma illa fram við aðra manneskju.

Í Nýja testamentinu streymir fyrirgefningin reyndar aðeins í eina átt, frá þeim valdameiri til hinna valdaminni. Það er óhugsandi þar að hún fari í hina áttina. Landeigiandi fyrirgefur leiguliða, Jesú fyrirgefur þeim sem hafa brotið af sér. Á krossinum er Jesús ekki í valdastöðu gagnvart böðlum sínum og því getur hann ekki fyrirgefið þeim heldur biður hann Guð að fyrirgefa þeim. Á sama hátt eigum við ekki undir nokkrum kringumstæðum að krefjast þess að sáttarfundur sé haldinn á milli þolanda og geranda, þar sem þolandi er beðinn um að fyrirgefa. Ef fyrirgefning mun einhvern tíma eiga sér stað þá verður hún ávallt að vera á forsendum þolandans en ekki gerandans, hversu djúp sem iðrun gerandans er.

Fimm skref
Fyrir stuttu hlustaði ég á viðtal við rabbía nokkurn frá Bandaríkjunum að nafni Danya Ruttenberg. Hún er höfundur fjölda bóka um ýmis trúarleg málefni auk þess sem hún skrifar reglulega í mörg helstu blöð Bandaríkjanna s.s. New York Times og Washington Post. Hún hefur mikið velt fyrir sér fyrirgefningunni út frá Gyðingdómnum og í tengslum við nútímann. Í þessu viðtali talaði hún um fimm skref sem sú/sá sem brýtur af sér þarf að taka til þess að eiga möguleika á að vera fyrirgefið. 

Fyrsta skrefið er að viðurkenna brotið opinberlega. Það kann að hljóma svakalega en þarna er átt við að viðurkenna brotið jafn opinberlega og það umhverfi var sem brotið var framið í. Ef það átti sér stað á samfélagsmiðlum þarf viðurkenning að eiga sér stað þar. Ef það varð á starfsmannafundi þarf viðurkenningin að vera þar. Ef það var innan fjölskyldunnar þá þarf að viðurkenna brotið þar.

Næsta skref er að breytast eða endurfæðast. Það getur falist í því að þú leitar þér hjálpar með einhverjum hætti. Þú getur t.d. farið í einhvers konar meðferð, lesið bækur og lært hvernig þú getur breyst og orðið sterkari manneskja á þessu sviði.

Skref þrjú og fjögur tengjast og eru oft unnin saman en hið fyrra gengur út á að bæta fyrir brotið og hið seinna að biðjast fyrirgefningar. Að bæta fyrir brotið getur falist í að greiða sjúkrakostnað ef þú hefur t.d. meitt eða slasað manneskju eða bætt fyrir þjáninguna sem þú hefur valdið með beinhörðum hætti ef hægt er. Þetta hlýtur þó alltaf að vera í hlutfalli við misgjörðina og gengur út á að laga eitthvað sem búið er að skemma eða laska. Þetta skref snýst eingöngu un að koma til móts við manneskjuna sem brotið var á og er unnið á forsendum hennar. Það er ekki fyrr en hér er komið við sögu sem kemur að beiðni um fyrirgefningu en sú beiðni er ekki lögð fram fyrr en bætt hefur verið fyrir brotið. Ef brotið er lítið og ómerkilegt er þolandinn hvattur til að fyrirgefa ef brotið var stórt er ekki víst að þolandinn geti nokkurn tíma fyrirgefið og er þá ekki hvattur til að gera það. Þarna þarf sá/sú sem braut á viðkomandi að gera allt til þess að bæta líðan þolanda brotsins.

Öll skrefin snúast um þolandann og því er ólíklegt að þú sért hvattur/hvött til þess að hitta viðkomandi til að biðjast fyrirgefningar eða til að bæta fyrir brotið ef ljóst er að það valdi viðkomandi vanlíðan að hitta þig.

Lokaskrefið felst í því að næst þegar þú hefur tækifæri til þess að brjóta af þér/særa/meiða aftur með sama hætti þá velur þú að gera það ekki. Þá ert þú orðin ný manneskja. Þetta ætti að gerast af sjálfu sér þar sem þú ert, þegar hér er komið, búin/n að vera að vinna úr brotinu og í þér í þó nokkurn tíma.

Þessi skref gera ekki ráð fyrir fyrirgefningarbeiðninni fyrr en seint í ferlinu eða í næst síðasta skrefinu. Þú þarft  fyrst að viðurkenna brotið, vinna í þér og bæta fyrir það áður en þú biður um fyrirgefningu. Það er síðan undir þolandanum komið hvort hún/hann getur fyrirgefið.

Að eiga afturkvæmt
Flest getum við átt afturkvæmt eftir að hafa meitt, sært, móðgað eða jafnvel brotið illilega á annarri manneskju. Það getur þó ekki gerst fyrr en við höfum sýnt að við virkilega skiljum í hverju brotið/mistökin fólust, að við skiljum að þau særðu eða meiddu.

Ég held jafnvel að hægt sé, í einhverjum tilfellum, að fyrirgefa alvarlegt ofbeldi t.d. innan fjölskyldu. Það getur þó aldrei orðið nema þolandinn finni sannarlega að sá/sú sem braut á henni/honum skilji hversu alvarlegt brotið var og sé tilbúin/n til að vinna í sér, bæta fyrir það og breyta ekki eins aftur.

Þegar Jesús segir að við eigum að fyrirgefa sjötíu sinnum sjö þá á hann ekki við að við eigum að fyrirgefa öllum allt alltaf. Hann á við að við eigum að lifa í fyrirgefningunni, við eigum að reyna af öllum mætti að vinna þannig úr allri reynslu að við séum opin fyrir því að fyrirgefa. Að þegar við brjótum á, særum eða meiðum þá getum við sjálf gert ráð fyrir fyrirgefningu þegar við skiljum í hverju brot okkar felst og iðrumst af öllu hjarta og erum tilbúin til að breyta okkur um leið og við virðum ákvörðun þolandans um það hvort hann/hún geti fyrirgefið okkur.    

Því einlægari sem iðrun okkar er og því tilbúnari sem við erum til að vinna í okkur sjálfum svo að þetta gerist ekki aftur og reynum að bæta fyrir brot okkar á forsendum þolandans því líklegra er að við eigum afturkvæmt í sama samfélagshóp á ný. Jafnvel þó að fyrirgefning geti ekki átt sér stað, þá getum við lifað hlið við hlið án þess að trufla líf hvors annars.

Til eru þau brot sem eru svo alvarleg að það er ekki möguleiki að fyrirgefa þrátt fyrir að sönn og innileg iðrun og yfirbót hafi átt sér stað. Sumir hlutir eru svo alvarlegir að aðeins Guð getur fyrirgefið þá. En ég trúi því að Guð geti fyrirgefið allt. Nákvæmlega allt, ef við iðrumst sannarlega og biðjum um það af einlægu hjarta. Því Guð veit hver þú ert. Guð veit að þú ert ekki mistökin þín, þú ert ekki brot þitt.

Dýrð sé Guði sem elskar okkur með öllum okkar breiskleikum og er tilbúið að fyrirgefa okkur öll okkar brot jafnvel þegar það er náunga okkar um megn.

Amen.