Skip to main content
All Posts By

gudrun

Griðastarður í 90 ár

Eftir Fréttir, Prédikanir

Prédikun flutt í Víkurkirkju í Vík í Mýrdal í tilefni af 90 ára afmæli kirkjunnar 6. október 2024.

Stórbrotin náttúra
Kæri söfnuður, innilega til hamingju með afmælið!
90 ár, og enn stendur kirkjan hér í Vík jafn tignarleg og fögur á einum glæsilegasta kirkjustað landsins. Víkurkirkja er sannarlega eitt helsta kennileiti Víkur ja, ef frá eru taldir Reynisdrangarnir, Dyrhólaey, Víkur- og Reynisfjara, Hjörleifshöfði og Mýrdalsjökull. Einmitt, hér skortir ekki tignarlega náttúru enda er Vík og Mýrdalurinn nú einn eftirsóttasti ferðamannastaður landsins. Því fylgja bæði einstök tækifæri en ekki síður áskoranir.

Í barnæsku minni hékk málverk í borðstofunni hjá afa mínum og ömmu þar sem myndefnið voru menn á opnum árabáti á leið til sjóss hér frá Víkurfjöru. Myndin er áhrifamikil því hvítflissandi öldurnar eru allt í kringum bátinn en farmurinn var ull sem væntanlega var á leið í skip. Það er augljóst á þessari mynd að það var ekki létt verk að róa frá Vík. Þetta verk hangir nú á heimili foreldra minna en ég komst að því síðar að á þessu málverki, sem er málað eftir ljósmynd, má sjá langafa minn og félaga hans en hann var formaður á báti sem ýmist flutti varning til og frá skipi sem lagði hér fyrir utan eða stundaði fiskveiðar. Það er nóg að virða þetta málverk fyrir sér stutta stund til þess að gera sér í hugarlund hversu erfitt það hefur verið að róa út héðan frá Vík enda hefur aldrei verið hér höfn og mjög brimsamt og því var ekki óalgengt að slys yrðu þegar bátarnir komu að landi. Já, og þeir voru margir sjómennirnir sem skiluðu sér ekki heim úr róðri.

Ég kom oft til Víkur sem barn og þá oftar en ekki með afa mínum og ömmu enda afi minn fæddur og alinn upp hér í Reynishverfinu. Erindi ferðanna var að heimsækja fjölskyldu og vini auk þess sem ég tel líklegt að margar haustferðirnar hafi verið í því augnamiði að sækja fýl þ.e.a.s. eftir að afi hætti að veiða hann sjálfur. Ég er sem sagt alin upp við að borða fýl.

Ég var ekki gömul er ég heyrði fyrst sagt frá Kötluógninni og sú hugsun hefur aldrei alveg vikið úr huga mér og dáist ég að því æðruleysi sem er grundvöllur þess að lifa og búa á stöðum eins og Vík þar sem ógnir náttúrunnar minna sífellt á sig – stundum á hverjum degi.

Já, Vík og nágrenni hefur alltaf staðið fyrir nokkra dramatík í mínum huga enda náttúrufegurðin svo tilkomumikil að hún lætur enga manneskju sem hingað kemur ósnortna.

Fyrir ykkur sem hér búið er þetta sjálfsagt allt saman frekar hversdagslegt þar sem þið hafið þessar perlur fyrir augunum alla daga. En það sama má ekki segja um okkur sem hingað komum sem gestir. Enda er þetta einn áhrifamesti ferðamannastaður landsins.

Allt er breytt en fólkið er eins
Það má með sanni segja að hér hafi margt breyst frá því ráðist var í að reisa hér kirkju fyrir 90 árum. En það sem ekki hefur breyst er manneskjan. Við höfum sömu þarfir og fyrir 90 árum þó að þær taki á sig aðrar birtingamyndir. Ýmislegt er manneskjunni auðveldara í dag en þá en þrátt fyrir að tæknin hafi umbreytt öllu okkar lífi erum við í grunninn eins.

Biblían sýnir okkur þetta svo ljóslega því fólkið sem þar er sagt frá er ekkert öðruvísi en við. Vissulega var það uppi á öðrum tímum og á öðrum stað í heiminum en það hafði sömu þarfir og við. Biblían fjallar í grunninn um samband manneskjunnar við Guð á ólíkum tímum og það hefur ekki breyst. Einhver sagði að það væri aðeins ein manneskja í Biblíunni sem væri í lagi, og að það væri Jesús. Það er mikið til í því en á því er líka mjög einföld skýring. Það er vegna þess að breyskleiki okkar birtist með svo skýrum hætti í tengslum okkar við almættið. Það er þegar lífið verður flókið og erfitt sem við virkilega leitum eftir tengslum við Guð.

Í guðspjalli dagsins er sagt frá því er Jesús finnur fylgjendur sína, lærisveina. Það má orða það þannig að hann sé að ráða fólk í vinnu. Hann velur þarna menn sem koma til hans um leið og hann kallar og þeir treysta honum um samstundis. En við heyrum einnig um Natanel sem er alls ekki tilbúinn til að gleypa við því að Jesús sé eitthvað merkilegur enda telur hann ólíklegt að eitthvað gott komi frá Nasaret. Ef til vill glittir hér í klassíkan hrepparíg eða skemmtilega kaldhæðni. Í það minnsta er Natanel ekki tilbúinn til þess að trúa því að Jesús sé sá sem vinir hans segja hann vera. Jesús móðgast ekkert við þessi viðbrögð enda sjálfsagt ýmsu vanur. Og hér kemur það áhugaverða, hann horfir í augu Natanels og lætur hann vita að hann sjái hann. Hann fær Natanel til þess finna að hann skipti máli. „Ég sá þig undir fíkjutrénu“, segir Jesús og sýnir honum að hann er raunverulega vakandi fyrir umhverfinu og fólkinu sem hann mættir. Að hann horfir á fólk en ekki í gegnum það.

Þarna held ég að við séum komin með lykilatriði í þessum guðspjallstexta sem gefur okkur vísbendingu um hvað það er sem skiptir máli þá … og skiptir enn máli í dag. Að Jesús horfði ekki bara á manninn heldur sá hann, hann.

Flóknir tímar
Þessa dagana er mikið rætt um stöðu samfélagsins og líðan okkar út frá hörmulegum atburðum sem hafa átt sér stað á þessu ári. Þegar Bryndís Klara var drepin óskaði fjölskyldan hennar eftir því að eitthvað gott kæmi út frá því voðaverki svo martröð þeirra yrði aldrei að martröð annarra. Við erum mörg sem höfum brugðist við þessu enda er samfélagið sem foreldrar Bryndísar kölluðu þar eftir, eitthvað sem við viljum öll.

Eins og svo oft áður finnum við svörin í Biblíunni. Ég trúi því nefnilega að í guðspjalli dagsins sé að finna sterka vísbendingu um hvernig við getum snúið samfélaginu af braut tómlætis og firringu sem of mörg okkar  upplifa í dag. Sagan af Jesú og Natanel er saga um samskipti einstaklinga. Hún er saga af persónulegum samskiptum og snertingu einstaklinga.

Það breytti lífi Natanels að Jesús sá hann. Hann fór að trúa og eignaðist þannig tilgang og merkingu. Við erum ekkert öðruvísi en Natanel. Öll þráum við að vera séð. Að einhver sjái hver við raunverulega erum.

Við erum nefnilega svo harla fín einmitt eins og við erum og það skiptir máli að við sjáum það góða, fagra og fullkomna í hvert öðru. Að við sjáum hvert annað.

Jesús sér það. Jesús sér þig og Jesús sér mig. En sjáum við hvert annað?

Lítið í kringum ykkur. Lítið á manneskjuna sem situr við hlið ykkar nú. Hvað sjáið þið? Lítið á börnin ykkar. Lítið á maka ykkar, foreldra, vini. Lítið á fólkið á undan ykkur í röðinni í Krónunni. Hvað sjáið þið?

Um þessar mundir er mikið rætt um skaðsemi snjalltækja og samfélagsmiðla og það er án efa mikið til því að við eyðum flest of miklum tíma í þessum tækjum. Og við megum ekki festast í boðhætti og tala bara um börnin í þessu samhengi. Við getum öll gert betur hér.

En gleymum þó ekki að á öllum tímum hefur eitthvað ógnað samskiptum okkar og mennsku. Börn voru líka í hættu fyrir 50 árum og 90 árum vegna alls kyns ógna, ekki aðeins í dag. Því þarf hvert samfélag að vera meðvitað um þær ógnir er steðja að unga fólkinu og mennsku okkar allra hverju sinni og vera tilbúið til þess að takast á við þau vandamál án upphrópana og fordæminga.

Fyrir 2000 árum sá Jesú Natanel og ég er sannfærð um að það virki ekki síður í dag en þá. Lykillinn er að við leggum okkur fram um að sjá hvert annað. Ekki ritstýrða glansímynd á Instagram í símanum – heldur manneskjuna sem blasir við okkur þegar við lítum upp úr símanum.

Samfélagsmiðlar eru dásamleg tæki sem geta gert heiminn minni, geta aukið á skilning okkar á ólíkum menningarheimum, geta tengt fólk og skapað vináttu. En það má ekki vera á kostnað raunverulega tengsla. Þeir mega ekki verða til þess að við glötum hinu mannlega – að við hættum að sjá hvert annað.

Griðarstaður í 90 ár
Í kirkjunni leggjum við okkur fram um að sjá hvert annað. Hér í Vík hefur þessi kirkja verið griðarstaður þeirra sem hér búa í 90 ár. Og þessi kirkja er griðarstaður í bókstaflegri merkingu því hún mun vera ein opinberra bygginga sem stendur örugg fyrir flóði vegna Kötlugoss. Kirkjan hér í Vík er því sannur griðarstaður. Í 90 ár hefur hún fært okkur öryggi. Veitt okkur skjól fyrir veðri og vindum og gefur rými til tilbeiðslu og samfélags þar sem fólk sér hvert annað.

Söfnuðurinn hér Víkurprestakalli stendur frammi fyrir ýmsum áskorunum en mannauðurinn hér er einstakur og það hefur verið gefandi að fylgjast með hvernig samfélagið hér, og kirkjan, finnur lausnir og leitar leiða til þess að takasta á við hverja áskorunina á fætur annarri. Ég veit að það gerist ekki að sjálfu sér. Úr fjarska hef ég séð vinnusemina, eljuna og drifkraftinn sem þarf til þess að halda kirkjustarfi úti og koma þaki yfir það starf. Í dag sé ég fólkið á bakvið þá vinnu. Ykkur.

Ég bið ykkur kæri söfnuður blessunar Guðs og sem biskup stend ég á meðal ykkar og hvet ykkur áfram í ykkar mikilvægu þjónustu.

Ég veit að kirkjan hér á hæðinni mun halda áfram að reynast fólki griðarstaður um ókomna tíð og vera glæsilegt tákn Víkur.

Dýrð sé Guði sem sér þig og vill að við sjáum hvert annað.
Amen.

 

Samkennd samfélags

Eftir Pistlar

Greinin birtist á visir.is 18. september 2024

Hann var kaldranalegur, mánudagsmorguninn 16. september þegar fréttir voru sagðar af langveikum dreng í hjólastól að hann hefði verið sóttur af lögreglufólki á Landspítalann og biði brottvísunar í haldi lögreglu á Keflavíkurflugvelli. Drengurinn hafði það til saka unnið að vera í röngu landi á röngum tíma.

Sama morgun var okkur sagt að tíu ára stúlka hafi fundist látin í hrauni við Krýsuvík, ekki langt frá Keflavíkurflugvelli. Faðir stúlkunnar var handtekinn, grunaður um morð.

Þrjú börn eru látin á þessu ári. Tvö þeirra á undanförnum þremur vikum. Þrjú barnamorð á borði lögreglu. Það er ekki að undra að við spyrjum hvað sé eiginlega að gerast á okkar friðsæla landi. Fleiri eru óhæfuverkin og harmleikirnir, því fullorðnu fólki hefur einnig verið ráðinn bani. Sjálfsvígin eru of tíð og sömuleiðis banaslysin.

Þegar of margir fréttatímar bera þess vitni að samkennd sé á undanhaldi í samfélaginu. Þegar við lesum, heyrum og sjáum að 12 ára langveiku hjólastólabundnu barni hafi verið ekið af spítala og út á flugvöll að nóttu til. Þegar þriðja barnið er myrt. Er þá ekki réttlætanlegt að staldra við og spyrja; hvernig sköpum við kærleiksríkara samfélag?

Sjálfsmynd okkar Íslendinga byggir að miklu leyti á því að sama hversu háir eða lágir stýrivextir eru, sama hvað gengur á úti í hinum stóra heimi, þá fara börnin okkar af stað út í daginn og þau skila sér heim á kvöldin. En þegar við upplifum að öryggi barna okkar sé ekki lengur tryggt á Íslandi, þá er enn og aftur eðlilegt að við stöldrum við.

Þegar Pisa-kannanir sýna að íslensk börn eiga erfiðara með að sýna samkennd en börn í löndum sem við kjósum að bera okkur saman við, þá er eðlilegt að við spyrjum okkur: Hvað gerðist?

Því er reglulega slengt fram að reglur megi ekki snúast um einstaka manneskjur. Þær verði að hafa hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi. Það kann vel að vera, en reglur samfélags mega heldur ekki vera ómanneskjulegar. Með lögum skal land byggja, lesum við á skildi lögreglunnar. En gleymum ekki síðari hluta setningar Njáls á Bergþórshvoli, „en með ólögum eyða.“ Lög sem heimila aðgerðir lögreglu aðfaranótt mánudags síðastliðins, eru ólög og þau eru ómanneskjuleg.

Þegar fullorðið fólk, og börn um leið, sjá ráðafólk takast á um það hvort spænskir spítalar séu ekki alveg nógu góðir fyrir drenginn, en skauta gjörsamlega framhjá því að lögregla hafi farið inn á barnaspítala í skjóli nætur og sótt þar sjúkling til brottvísunar, er eðlilegt að staldra við.

Við erum slegin yfir fréttum undanfarna daga, vikur og mánuði. Það er heilbrigðismerki. Það eitt og sér segir okkur að við erum fær um að elska og finna til. Það segir okkur að við getum fundið til samkenndar. Það að við séum slegin leggur grunninn að því að við getum unnið úr áföllunum og styrkt okkur sem kærleiksríkt og heilbrigt samfélag.

Jesús frá Nasaret sagði okkur að elska náungann. En hann lét ekki þar við sitja heldur sýndi okkur í verki hvað það raunverulega þýðir. Hann læknaði, hann rétti fólk við og reisti það upp. Hann fyrirgaf og hann huggaði. En hann reiddist líka óréttlæti og barðist fyrir réttlæti. Kærleikur og réttlæti haldast í hendur því bæði þurfa á hinu að halda.

Þegar við verðum fyrir áfalli er ákaflega mikilvægt að ræða það sem gerðist og hvernig okkur líður, að ræða tilfinningar okkar. Því skiptir öllu máli að boðið sé upp á vettvang þar sem hægt er að ræða erfiðar tilfinningar er tengjast atburðum undanfarna daga. Það eykur líkurnar á því að við getum létt á þyngslunum og smám saman risið upp sem heilli þjóð. Það eykur líkurnar á því að eitthvað gott og fallegt vaxi úr þessum tilgangslausu voðaverkum.

Í kirkjum landsins er vettvangur til samtals um erfiðar tilfinningar og reynslu. Þar er boðið upp á bænastundir, þar er hægt að koma inn og kveikja á kerti, sitja í þögn eða ræða við prest eða djákna. Það er einnig hlutverk fjölmiðla að skapa vettvang fyrir samtal og fræðslu þegar slík áföll verða og margir fjölmiðlar standa sig vel. Sorgin verður bærilegri ef við berum hana í sameiningu og samtalið hjálpar okkur að koma heilli frá erfiðri reynslu og vaxa með henni.

Börnin horfa til okkar fullorðna fólksins. Þau meta heiminn út frá ákvörðunum okkar; Ef við sýnum samkennd, tölum við börnin um samkennd og kennum þeim að hver einasta manneskja skiptir máli þá aukum við líkurnar á því að þau rækti með sér samkennd. Ef við kennum börnum okkar, að það að verja þau okkar sem geta ekki varið sig sjálf er sjálfsagður hluti þess að vera manneskjur og að tilheyra samfélagi, þokumst við nær því samfélagi sem við viljum vera og tilheyra.

Tökum utan um hvert annað og ekki síst börnin okkar og sýnum þeim hvernig við vinnum úr áföllum. Það er hlutverk okkar og skylda að ræða við börnin okkar og við megum alls ekki færa það mikilvæga dagskrárvald til samfélagsmiðla.

Ég votta öllum þeim sem nú eiga um sárt að binda vegna atburða undanfarinna vikna og mánaða mína dýpstu samúð og bið þess að við getum sameinast um að rísa upp í kærleika í samfélagi þar sem nægt rými er fyrir alla: litla langveika drengi og börn sem eiga það skilið að fá að lif

Alþingi án meðvirkini

Eftir Prédikanir

Prédikun flutt í helgistund fyrir setningu Alþingis

Það er ekki fyrir meðvirka manneskju að sitja á Alþingi.

Eitt hefur nefnilega lengi vakið athygli mína og það er að ég sé stundum sama fólkið og tekst á í ræðustól Alþingis, jafnvel á stundum virkilega harkalega, sitja svo saman sem mestu mátar í kaffiteríunni, um borð í flugvél eða að taka á því saman í ræktinni. Því segi ég að það sé ekki fyrir meðvirka manneskju að sitja á Alþingi. Það sem við, sem fylgjumst með störfum Alþingis, sjáum er fyrst og fremst það sem fer fram í þingsalnum en þó er það svo að öll alvöru vinnan, málamiðlanirnar og sættirnar fara fram fyrir luktum dyrum svo sem á nefndarfundum og það er ekki sýnt frá þeim samtölum og þeirri vinnu í sjónvarpinu.

Það krefst ákveðins þroska að geta umgengist og þótt vænt um fólk þó að það sé okkur ósammála í mörgum málum, já og jafnvel  í grundvallarmálum. Manneskjan er nefnilega svo miklu meira en skoðanir hennar, og hvað þá þær sem birtast á samfélagsmiðlum. Auk þess er það hverju okkar hollt að raða ekki einungis í kringum okkur fólki sem er sama sinnis og við um alla hluti. Þá endum við í bergmálshelli og förum á mis við það tækifæri að kynnast því góða fólki sem hefur það eitt til saka unnið að vera ósammála okkur um pólitík, eða trúmál. Vissulega er þægilegast að umgangast fólk sem er okkur sammála en grundvallarstef lýðræðisríkis er frelsi til ólíkra skoðana.

Dansinn
Lexía síðastliðins sunnudags er lesin var í kirkjum landsins er sagan af gullkálfinum og dansinn í kringum hann. Ég býst við að þið kannist flest við þessa sögu enda er hún hluti af menningu okkar eins og svo margar sögur Biblíunnar

Dansinn í kringum gullkálfinn segir sögu af fólki sem dýrkar eitthvað innantómt. Það dansar í kringum styttu því það þarfnast áþreifanlegs Guðs. Það býr til Guð úr gullinu sem það á í fórum sínum, úr skartinu.

Fólkið sem þarna um ræðir er statt í eyðimörkinni, langt frá allri siðmenningu. Það hefur verið frelsað af Guði og leitt úr ánauð í Egyptalandi. Leiða má líkum að því að gullið, skartgripir sem fólkið tók af sér, bræddi og mótaði sem nautkálf sé tákn þess oks er fylgt hafði þrældómnum í Egyptalandi sem þau voru nú laus undan.

Fólkið var þó ekki frjálsara en svo að um leið og leiðtoginn þeirra, Móse brá sér af bæ, upp á fjall til þess að hitta Guð sinn og sækja steintöflurnar með boðorðunum 10, myndaðist svo mikið tómarúm að þau bjuggu til styttu af kálfi eða nauti sem minnti á guðina sem þau höfðu dýrkað áður sem margir voru í kálfslíki. Ef til vill fólst ákveðið öryggi í nautkálfinum. Hann var kunnuglegur og táknaði styrk, hörku og árasargirni. Hann gat ráðist á ógnina. Það var ekkert mjúkt eða kærleiksríkt við kálfinn en hann var bæði sterkur, glóandi og áþreifanlegur.

Þegar kálfurinn er tilbúinn heldur fólkið veislu. Það dansar í kringum kálfinn og færir honum fórnir. Þau  þarfnast leiðtoga. Það er nýtt fyrir þeim að fylgja Guði sem það getur ekki gert sér greinagóða mynd af, Guðs sem ekki er hægt að snerta.

Sagan af gullkálfinum og dansinum í kringum hann er saga af fólki sem villist af leið skamma stund. Það beinir bænum sínum að veraldlegum auðæfum. Það leggur traust sitt á það sem ekkert gefur af sér nema birtu í augu og góða veislu eina kvöldstund.

Dansinn í kringum gullkálfinn er tákn um græðgi og þrá okkar eftir veraldlegum gæðum. Við föllum flest, ef ekki öll, fyrir gullkálfum og hrífumst með í dansinn í kringum hann.  Hann glóir svo fagurlega og það er svo gaman í návist hans að það er auðvelt að gleyma sér. Hann er stór og sterkur. Hann er sigurviss.

Gullkálfurinn er líka dæmi um það sem getur gerst þegar við missum sjónar af því sem raunverulega skiptir máli í þessu lífi. Á fæðingardeildinni hérna í Reykjavík verða til nýir Íslendingar á hverjum degi – hver einn og einasti þeirra eignalaus. Handan Öskjuhlíðarinnar er svo stærsti kirkjugarður landsins, fullur af fólki sem eitt sinni átti pening. Peningar færa okkur öryggi. Þak yfir höfuðið og matur á borðið kostar peninga. Ég geri ekki lítið úr því. Þeir eru verkfæri sem við notum í lífinu, en þeir eru ekki lífið sjálft.

Þegar við erum farin að lifa lífinu peninganna vegna, þá er farið að glitta í kálfinn. Peningur eru góður þjónn, en vondur húsbóndi, og enn verri guð.

Hver er gullkálfur (eða gullkálfar) dagsins í dag? Erum við búin að bræða skartið og smíða gullkálf enn eina ferðina sem samfélag eða hvert og eitt fyrir sig. Gullkálfarnir eru um allt, í einkalífi, stjórnun landsins, kirkjunni. Þeir skína svo skært og því auðvelt að hrífast með í dansinum. En allur gleðskapur tekur enda og ljósin kvikna.

Reglurnar og boðorðin
Góðu fréttirnar eru þær að Móse steig að lokum niður af fjallinu með steintöflurnar með boðorðunum tíu. Hann kom með boðskapinn beint frá Guði og stöðvaði dansinn. Hann kveikti ljósin og víman rann af fólkinu. Þetta hefur einnig gerst margoft með okkar gullkálfa og okkar tryllta dans. Við getum nefnilega stöðvað dansinn og séð skýrt á ný en stundum þarf til þess einhvern eins og Móse eða barnið sem sá nekt keisarans til þess að vekja okkur af vímunni.

Það kaldhæðnislega er að fyrsta boðorðið fjallar einmitt um það sem fólkið þarna hafði fyrir stafni. Í fyrsta boðorðinu erum við vöruð við því að dýrka dauða hluti sem ekkert gefa. Því er ekki að undra að Móse hafi orðið svo mikið um að hann kastaði steinplötunum í jörðina svo að þær brotnuðu.

Nýr tónn
Með boðorðunum 10 kom alveg nýr tónn. Boðrðin eru í raun mannréttindayfirlýsing. Þar eru að finna reglur sem eru jafn gildar í dag sem á tímum Móse. Þetta eru grundvallar umgengnisreglur sem eiga að gilda um allar manneskjur óháð stétt eða stöðu.

Hér hefur Alþingi mikilvægu hlutverki að gegna. Hvert samfélag þarf siðareglur, umgengnisreglur, mannréttindasáttmála til þess að beina okkur frá gullkálfinum, hinu innantóma. Það er samfélagsins alls að setja þessar reglur en þar er gott að Alþingi gangi á undan með góðu fordæmi. Siðareglur samfélagsins okkar höfum við sótt til kristinnar trúar í þúsund ár og sumar þeirra allt frá tímum Móse og eru því ekki einungis bundnar við kristni.

Ég hef tjáð mig um það nokkrum sinnum undanfarið að ég sé sátt við þann aðskilnað sem hefur átt sér stað á milli ríkis og kirkju. Ég tel það vera kirkjunni mikilvægt að vera ekki of nátengd ríkisvaldinu og ég held að það sama eigi við um ríkið. Kirkjan verður að vera sjálfstæð í sinni boðun en það þýðir ekki að kirkja og ríki eigi að vera ótengd að öllu leyti. Ríki og kirkja gegna að mörgu leiti svipuðu hlutverki í samfélaginu því bæði ríki og kirkja eiga að þjóna fólki og  vinna að velferð samfélagsins okkar, hvort með sínum hætti þó. Ríkið setur lögin með velferð okkar allra í huga. Kirkjan gætir að andlegri heilsu með sálgæslu og iðkun trúar, býður upp á ramma um stórar stundir lífsins, boðar kærleikann sem er æðri öllu og við flest köllum Guð.

Mannhelgi
Hlutverk kirkjunnar er m.a. að styðja þau er stýra landinu okkar með því að biðja fyrir ykkur. Þið fáið bænir, hlýjar og sterkar hugsanir frá þeim er koma saman til bæna í hverri viku í kirkjum landsins.

Við þurfum ekki alltaf að vera sammála og við eigum ekki endilega að vera það en við getum gengið í takt þrátt fyrir ólíkar skoðanir því hjarta okkar allra slær fyrir velferð fólksins í landinu.

Það er með kirkjuna eins og ykkur, kæra alþingisfólk, að hún er fjöldahreyfing sem samanstendur af fólki með ólíkar skoðanir og ólíka reynsluheima, fólki sem oft er ósammála. Það er allt í lagi því okkur er öllum jafn holt að búa ekki í bergmálshellum.

Þá er ákaflega mikilvægt að við getum talað í hreinskilni og varað við þegar dansinn í kringum einhvern gullkálfinn ætlar að taka yfir.

Á þessu hausti liggja stór fyrir verkefni og nú við setningu Alþingis grúfir sorg yfir landinu okkar vegna erfiðra atburða sem hafa átt sér stað á undanförnum vikum. Fjöldi fólks hefur leitað huggunar í kirkjum landsins þar sem boðið hefur verið upp á minningarstundir, bænastundir og sálgæslu.   Nú er það verkefni okkar allra að vinna að velferð barna og ungs fólks þessa lands og leggja okkar að mörkum til að skapa börnum okkar innhaldsríkt líf sem ekki fer eingöngu fram fyrir framan skjái og á samfélagsmiðlum. Við þurfum að búa börnum okkar samfélag sem ekki stýrist af tómlæti, ótta og óöryggi heldur kærleika og umhyggju. Samfélag þar sem hver einasta manneskja er metin að verðleikum, hvaðan sem hún kemur og hvert sem hún er að fara. Og þessi mannhelgi þarf að endurspegla allar ákvarðanir Alþingis og framgöngu okkar allra sem byggjum þetta land.

Kæru vinir, Guð gefi ykkur kjark, visku og styrk en þó fyrst og fremst opið hjarta og kærleika á komandi tímabili. Guð blessi ykkur öll í ykkar mikilvægu þjónustu sem varðar líf og framtíð okkar allra.

Dýrð sé Guði sem vísar veginn og elskar allar manneskjur jafnt.

 

Tengdamóðirin

Eftir Prédikanir

Prédikun flutt við biskupsvígslu í Hallgrímskirkju 2024

 

Tengdamóðirin
„Hann tók í hönd henni og reisti hana á fætur“
Hún skildi um leið hvað hafði gerst. Hún hélt sínu striki, sinnti sínu starfi. Hún sá til þess að fólkið fengi að borða og að einhver vaskaði upp. Hún gekk í verkin, þakklát fyrir að hafa öðlast nýtt líf.

Hefur einhver reist þig upp? Hefur þú verið reist/ur upp til þess að lifa með reisn, vera sú manneskja sem þér er ætlað að vera?

Sjáum þetta fyrir okkur: Jesús er nýbúinn að velja fyrstu lærisveinana og þeir eru allir nafngreindir. Hann er búinn að kenna í samkundunni og reka út illan anda og orðspor hans er farið að berast um alla Galíleu. Honum er þá boðið í mat heim til vina sinna, sem hann hafði útvalið til að gegna stöðu lærisveina. Þetta voru bræðurnir Símon og Andrés. Þegar þangað er komið er honum tjáð að tengdamóðir Símonar sé veik. Hún er með sótthita en sótthiti á þessum tíma gat þýtt að hún væri deyjandi. Jesús gengur þá til hennar tekur í hönd henni og reisir hana á fætur. Sótthitinn fer þá úr henni og hún gengur þeim fyrir beina.

Hér langar mig að staldra við. Það kann að þykja ankannalegt, séð með augum nútímafólks, að aumingja konan hafi ekki fengið að jafna sig aðeins áður en hún gekk í húsfreyjustörfin. Hvers vegna gátu Símon og Andrés ekki sjálfir séð til þess að fólkið fengi að borða auk þess sem fleira fólk var að öllum líkindum þarna til heimilis. Jafnvel harðasta tengdamóðir í bókum Guðrúnar frá Lundi hefði þegið góðan kaffibolla og svolitla hvíld áður en hún færi að taka til hendinni. Nei, hún fer beint að þjóna fólkinu til borðs.

Ég held, að það að tengdamóðirin fari beint að sinna húsfreyjustörfunum sýni okkur tvennt; Það sýnir okkur annars vegar að hún var sannarlega orðin heil heilsu (upprisin) og gat því sinnt skyldum sínum af fullum krafti. Hins vegar sýnir það okkur að hún skildi hvað hafði gerst. Hún skildi hvað það raunverulega þýddi að fylgja Jesú Kristi.

Upprisa og kærleiksþjónusta
Þegar Jesús tekur í hönd hennar og reisir hana á fætur þá er því lýst með sama gríska hugtaki og Markús guðspjallamaður notar til þess að lýsa upprisu Krists, „egeiro“. Með því er lögð áhersla á að hún sé sannarlega upprisin. Hún er risin upp til þess að vera hún sjálf eins og henni er ætlað að vera. Hún er full af lífskrafti, getur annast sínar skyldur og lifað með reisn. Ég er alls ekki viss um að hún sé endilega laus við alla krankleika sem hafa einhverntíma tíma hrjáð hana. Ég ekki viss um að við þessa upprisu hafi sjónin á vinstra auganu lagast, giktin eða mígrenið. Nei, hún er ekki upprisin til að vera ofurmanneskja heldur til þess að vera sú sem hún er og lifa verðugu lífi.

Þegar hún finnur að hún er orðin hún sjálf á ný sýnir hún að hún skilur út á hvað þetta gengur og fer að sinna sínum skyldum, sínu hlutverki. Og hér er því lýst með sögninni, „diakoneo“. Hún fer beint að annast kærleiksþjónustu. Jesús notar sjálfur hugtakið kærleiksþjónusta til að lýsa sínu hlutverki hér á jörð. Kærleiksþjónusta er mikilvægasta hlutverk hverrar kristinnar manneskju, að þjóna náunganum (koma til móts við þarfir hans) og að þjóna Guði í kærleika.

Tengdamóðirin er konan sem gengur í það sem þarf að gera til þess að þjóna náunganum og Guði. Hún er fyrsti djákninn og hún er fyrsti sanni lærisveinninn. Hún er fyrirmynd hinnar kristnu manneskju. Hennar hlutverk var að sjá til þess að fólk fengi að borða, vera góður gestgjafi og þetta hlutverk annaðist hún af kærleika. Þessi kona hefði ekki hlaupið til Jesú í vandræðagangi þegar hann var að kenna 5000 manns á fjallinu forðum og fólkið hafði ekki nóg að borða. Nei, hún hefði gengið í málið útvegað fiska og brauð og séð til þess að fólkið fengi að borða. Þessi kona vissi það sem konur á öllum tímum hafa vitað:
Eftir allar veislur þarf einhver að vaska upp.

Nafnlaus kona með stórt hlutverk
Þrátt fyrir allt sem fram er komið þá er þessi kona ekki nafngreind í Biblíunni. Hún er aðeins hluti af sögu sem er næstum því eins og innan sviga. Þessu er öfugt farið með tengdason hennar, Símon. Hann fær ekki einungis nafnið sitt nefnt í Biblíunni heldur fær hann tvö nöfn því Jesús gefur honum síðar nafnið Pétur, sem þýðir klettur. Og Símon Pétur er langt frá því að skilja hlutverk sitt á öllum stundum. Hann veit ekkert hvað hann á að gera þegar 5000 manns eru orðin svöng. Hann gerir mistök, er óöruggur í hlutverki sínu og gagnvart hinum lærisveinunum. Þegar Jesús er handtekinn afneitar hann honum þrisvar. Hann er með öðrum orðum, ósköp venjuleg manneskja eins og hver og ein okkar og skildi alls ekki alltaf út á hvað lærisveinahlutverkið gekk og þannig fólki treystir Jesús fyrir stórum hlutverkum.

Við getum þó gert ráð fyrir því að tengdamóðirin, sem aldrei er nafngreind hafi verið í hópi fylgjenda Jesú því við vitum að læsisveinahópurinn var mun stærri en þessir tólf sem eru sérstaklega valdir og nafngreindir og við vitum einnig að meðal lærisveinanna voru konur. Við vitum líka að þegar Jesús var krossfestur þá flúðu þessir nafngreindu á meðan konur úr hópnum hans stóðu álengdar og yfirgáfu hann ekki. Möguleg skýring er þó að karlmennirnir hafi verið í meiri hættu þarna en konurnar. Konur voru jú ekki pólitísk ógn við neinn, nafnlausar og réttindalausar sem þær voru. Og við vitum einnig að það voru konur sem fyrstar komu að gröfinni tómri og það voru konur sem Jesús sendi út til þess að boða upprisu hans frá dauðum.

Við skulum því ekki láta nafnleysi konunnar blekkja okkur.

Að rísa upp
„Hann tók í hönd henni og reisti hana á fætur“
Hefur þú verið reistur/reist á fætur?

Við þörfnumst öll upprisu frá einhverju. Það geta verið veikindi, ósiðir, fíkn, áföll eða hvað eina. Við sleppum ekki við einhvers konar sótthita sem hindrar okkur frá því að vera sú manneskja sem okkur er ætlað að vera. Og þegar við erum þjökuð af sótthitanum, hvort sem það eru áföllin okkar sem hafa orsakað hann eða eitthvað annað, þá getum við ekki sinnt þeirri kærleiksþjónustu að fullu sem við erum hvert og eitt kölluð til að annast á akri Guðs.

Það er ekki einungis við mannfólkið sem reglulega þörfnumst upprisu. Hið sama á við um samfélög og kirkjuna.

Saga innan sviga
Þegar ég nefndi að þessi saga væri næstum því sögð innan sviga átti ég við það að hún gerist innan veggja heimilis. Það voru ekki mörg vitni að þessari upprisu. En þrátt fyrir það breiddist sagan út og þegar kvölda tók kom allur bærinn saman við dyrnar og fjöldi fólks vildi fá lækningu.

Jesús var enginn „pr“ maður. Hann var ekki að hugsa um markaðssetningu, samskiptastefnu eða kynningarmál. Hann boðaði fagnaðarerindið og vann sín verk, oft í kyrrþey, uppi á fjöllum, inni í bæjum, í kirkjum (samkunduhúsum) og á heimilum. Hann bað fólk stundum að tala ekki um kraftaverkin en fagnaðarerindið mátti berast. Hann vissi hvað skipti máli; það var kærleiksboðskapurinn og ekkert annað. Hann vissi væntanlega einnig að það gat verið hættulegt fyrir hann að orðspor hans færi of víða því það ógnaði mörgum.

Með sama hætti á góð kristin manneskja að vinna verk sín í auðmýkt og kyrrþey og á sannarlega ekki að auglýsa góðverkin. Þau eiga að vera sjálfsögð og í nafni Guðs en ekki okkar eigin.

Við eigum að vera auðmjúk og tala ekki of mikið um það sem gengur vel eða segja frá því sem við erum að gera því annars erum við raupsöm og hreykjum okkur upp. Ekkjan gaf eyri sinn í kyrrþey á meðan ríki maðurinn barði sér á brjóst fyrir rausnarskap sinn.

Þennan boðskap hefur Þjóðkirkjan tekið alvarlega. Við höfum lagt okkur fram um að þjóna Guði og fólki vel en ekki verið að segja svo mikið frá því. Starfið í Þjóðkirkjunni er því eitt best geymda leyndarmálið á Íslandi. Við höfum ekki viljað vera að trana okkur fram heldur vinna verkin í hljóði. Og þegar við verðum fyrir aðkasti erum við áfram prúð og stillt, vinnum okkar verk og leiðréttum ekki misskilninginn.

Það er þó svo að þegar við segjum frá mikilvægu starfi kirkjunnar, kærleiksþjónustunni, sálgæslunni, þjónustunni við syrgjendur og frá öllum þeim fjölda sem sækir kirkju á gleði og sorgarstundum. Þegar við segjum frá helgihaldinu, tónlistarstarfinu og barnastarfinu þá eru við ekki að hreykja okkur sjálfum upp. Við erum ekki að berja okkur persónulega á brjóst og gera okkur breið. Við megum vera stolt af kirkjunni okkar og við eigum að vera stolt af verki Guðs. Því þá erum við stolt af því að fá að þjóna Guði í kærleika og leggja örlítið af mörkum til þess að gera heiminn betri. Þeim mun fleiri sem þekkja til kærleiksþjónustu kirkjunnar, þeim mun fleiri fá að njóta hennar og vera hluti af henni.

Upprisa frá sótthita
„Hann tók í hönd henni og reisti hana á fætur“.
Kirkjan okkar þarfnast reglulegrar upprisu.
Samfélög heims þarfnast reglulegrar upprisu.
Við, hvert og eitt þurfum reglulega á upprisu að halda því ekkert okkar kemst undan einhvers konar sótthita.

Kirkjan þarf reglulega að taka í hönd Krists og leyfa honum að reisa sig við til þess að vera sú kirkja sem hann ætlar henni að vera.

Samfélög sem ala á ótta og ráðast á saklaust fólk þurfa á upprisu að halda. Samfélög sem markvist mismuna fólki á grundvelli kyns, kynhneigðar, kynþáttar, trúar eða nokkurs annars þurfa á upprisu að halda. Samfélög sem eru að reyna að gera sitt besta þurfa reglulega á upprisu að halda.

Kirkja og samfélög eru nefnilega byggð upp af Símonum Pétrum og tengdamæðrum, nafnlausu fólki sem kann að annast kærleiksþjónustu og fólki sem gerir mistök. Kirkja og samfélög samanstanda af allskonar fólki eins og þér og mér.

En hvernig á þessi upprisa sér stað? Hvernig tekur Kristur í höndina á þér svo að þú getir risið á fætur? Hvernig getur hann reist kirkju og samfélög upp?

Það krefst hugrekkis og trausts að þiggja upprisu. Það krefst hugrekkis og sjálfsþekkingar að viðurkenna takmarkanir okkar og breiskleika og opna okkur fyrir upprisu frá þeim.

Upprisan getur átt sér stað með ýmsum hætti því Guð, hinn æðsti og mesti kærleikur vinnur á svo margbreytilegan hátt.

Guð vinnur í gegnum fólkið kringum okkur. Þegar þú mætir manneskju sem sér þig og er tilbúin til þess að rétta þér höndina og reisa þig á fætur, þá er þar mögulega Guð á ferð.

Þegar bænum þínum er svarað, þá er þar Guð á ferð.
Þegar þú finnur að þú ert borin í gegnum sótthitann, þá er Guð þar að verki.
Þegar við leggjum okkur fram um að vinna að sannri kærleiksþjónustu og gera heiminn að friðsamari og betri stað þá erum við að leggja okkar að mörkum til að reisa fólk og samfélög upp. Þá erum við hendur Guðs í heiminum.

„Hann tók í hönd henni og reisti hana á fætur“. Það hefði ekki gerst ef hún hefði ekki rétt fram höndina og þegið upprisuna.
Hún var tilbúin.
Ert þú tilbúin/n/ð.
Hann mun taka í hönd þér og reisa þig á fætur, treystu því!

Dýrð sé Guði sem reisir okkur upp frá takmörkunum okkar og læknar okkur af sótthitanum.
Amen

Biskup í tengslum

Eftir Pistlar

Eitt af því besta við að vera í biskupskjöri er að kynnast kirkjufólki vítt og breitt um landið. Nú höfum við frambjóðendur farið á fjölmarga staði á landinu og tekið þátt í kynningarfundum auk þess sem ég hef hitt sóknarnefndarfólk á fjölmörgum stöðum. Með mér í för var eiginmaðurinn minn, Einar og var þetta alveg ný og einstök reynsla fyrir okkur hjónin sem gaf okkur mikið.

Ég vissi vel að um allt land væri að finna kirkjufólk sem þætti vænt um kirkjuna sína og væri tilbúið að leggja hjarta og sál í kirkjustarfið. Ég verð þó að viðurkenna að áhugi fólks um land allt á kirkjunni sinni er meiri en mig hafði órað fyrir. Alls staðar hef ég hitt fólk sem hefur skoðanir á öllu mögulegu er tengist kirkjunni þó að það fari svolítið eftir landshlutum og menningu á hverju svæði hversu opið og ákveðið fólk tjáir sig.

Staða kirkjunnar og menning er vissulega ólík eftir svæðum og spurningarnar og umræðuefni einnig en þrennt er það sem virðist brenna á kirkjufólki almennt: Í fyrsta lagi er það þung fjárhagsstaða safnaðanna. Í öðru lagi eru það áhyggjur af erfiðum innri málum kirkjunnar sem fjölmiðlar hafa fjallað um á umliðnum árum. Í þriðja lagi er það áhugi kirkjufólks á að auka samskipti og tengsl við biskup og biskupsstofu.

Fjárhagur safnaða
Fjárhagur safnaða er í járnum hjá stórum hluta safnaða landsins. Ein af ástæðum þess er að ríkið hefur ekki staðið skil á sóknargjöldunum að fullu frá því í kringum hrun. Kirkjan verður því að sækja það fast að ríkið skili sóknargjöldunum til safnaðanna og festi þau í sessi svo að við getum farið að þjóna Guði og fólki á landinu öllu eins og við erum kölluð til. Þetta er fyrst og fremst hlutverk kirkjuþings. Það er þó ákaflega mikilvægt að biskup setji þetta mál í forgang og leggi því lið. Þá er hægt að fara fleiri leiðir til þess að hjálpa litlum sóknum sérstaklega og þar má m.a. nefna þann möguleika að skrá söfnuðinn á almannaheillaskrá og gefa þannig fólki kost á að styrkja kirkjuna sína og fá það að hluta til baka sem lækkun á skattstofni. Sjálfsagt er að skoða hvort fólk geti valið að skrá sig sérstaklega í allra minnstu sóknirnar og þannig látið sóknargjöldin sín renna þangað, óháð búsetu. Það er ekki síður mikilvægt að reyna að fjölga meðlimum í Þjóðkirkjunni með sérstöku Þjóðkirkjuátaki sem mig langar að stofna til. Einn liður í því er að reyna að koma því í kring að skírnin verði sjálfkrafa skráning í þjóðkirkjuna. Mikilvægast af öllu er þó að kirkjan haldi áfram að gera sig gildandi sem öflug fjöldahreyfing sem býr yfir ótrúlega fjölbreyttum og hæfileikaríkum mannauði sem ber það erindi sem skiptir öllu lífsins máli, það er fagnaðarerindið sjálft.

Erfið mál
Ég tel að flest kirkjufólk deili því að finnast erfitt að sjá erfið mál er tengjast Þjóðkirkjunni ítrekað birtast í fjölmiðlum eins og gerst hefur undanfarin ár. Fyrir þessu eru nokkrar ástæður sem þó eiga sér ákveðna samnefnara. Kirkjan hefur ekki verið undanskilin því að þurfa að takast á við sársaukafull mál er tengjast kynferðislegri áreitni og ofbeldi innan kirkjunnar. Kirkjan var of lengi að taka þá ákvörðun að standa með fjölbreytileikanum og samþykkja hinseginleikann að fullu og öllu og það skaðaði orðspor hennar og trúverðugleika. Kirkjan er nú komin vel á veg með verkferla þegar kemur að því að taka á erfiðum málum og af þeirri braut má ekki hvika. Kirkjan þarf að leggja sig alla fram um að skapa áfram öruggan vettvang fyrir allar manneskjur og vera góður og eftirsóttur vinnustaður þar sem starfsfólki líður vel og er metið að verðleikum. Kirkjan mun þurfa að takast á við sársaukafull mál í framtíðinni jafnt sem hingað til og eigi henni að auðnast það vandasama verkefni að gera það vel þarf kirkjan að vera kjarkmikil og auðmjúk í senn og skorast aldrei undan því að standa með jaðarhópum og þeim sem höllum fæti standa í samfélaginu.

Tengsl
Kristin trú byggir á tengslamyndun sem er manneskjunni eðlislæg og nauðsynleg. Að vera í góðum, nærandi og uppbyggilegum tengslum við samferðafólk, Guð og alla sköpun liggur í öllu því sem Jesús kenndi bæði með lífi sínu og upprisu. Það vakti því sérstaka athygli mína, á ferðum mínum um landið, að merkja mikinn áhuga sóknarnefndarfólks á því að vera í auknum tengslum við biskup, að eiga greiðan aðgang að stuðningi og samtali við biskup og starfsfólk biskupsstofu. Verði ég kjörin biskup Íslands langar mig að koma því í kring að skrifstofa biskups verði færanleg að nokkru leyti, þ.e.a.s. að biskup verði með skrifstofu í öllum landshlutum eina viku á ári þrátt fyrir að höfuðskrifstofan sé í Reykjavík. Með þessum hætti er hægt að stytta boðleiðirnar og auka og efla tengsl á milli kirkjufólks og biskups Íslands. Það er mikilvægt að hlusta og leggja sig fram um að skilja aðstæður hvers annars. Góð tengsl við Guð og samferðafólk sem hlúð er að, skila sér í auknu trausti, gagnkvæmum skilningi og nærandi samskiptum.

Ég hef eignast dýrmætan fjársjóð á þessum ferðalögum okkar hjóna um landið og þátttöku á kynningarfundunum. Fyrir það er ég ákaflega þakklát. Verði ég kjörin biskup Íslands er þetta ferðalag þó rétt að hefjast og þá mun ég leggja mig fram um að efla tengsl og kynnast kirkjufólki betur.

 

Kirkjan er engin hornkerling – Hlutverk biskups í samtímanum

Eftir Pistlar

Þessi grein birtist í Morgunblaðinu 16. mars 2024

Nýr biskup
Nú stendur fyrir dyrum að kjósa nýjan biskup í þjóðkirkjunni. Niðurstaðan í biskupskjöri verður ljós á gleðidögum kirkjunnar, á milli páska og hvítasunnu ef allt gengur eftir. Prestar og djáknar hafa valið þrjú úr hópi presta sem kosið verður á milli og ég þakka þann mikla stuðning og traust sem starfssystkini mín hafa sýnt mér. Á  komandi vikum gefst okkur rými til þess að ræða framtíð kirkjunnar og ólík áhersluatriði biskupsefna, en ég vil ekki síður nýta þennan tíma til þess að hlusta á vilja þjóðkirkjufólks.

Áður en lengra er haldið er rétt að geta þess, fyrir þau sem ekki þekkja til mín að ég hef verið farsæll prestur í Þjóðkirkjunni og Sænsku kirkjunni um tveggja áratuga skeið. Ég hef þjónað sem prestur og sóknarprestur í fjölmennasta söfnuði landsins undanfarin sextán ár og hef því víðtæka reynslu sem leiðtogi. Þá hef ég setið á kirkjuþingi tvö kjörtímabil og gegnt þar ýmsum trúnaðarstörfum, verið ritari og varaformaður Prestafélags Ísland í mörg ár auk fjölmargra annarra nefnda og stjórnarstarfa fyrir Þjóðkirkjuna og félög er henni tengjast. Ég hef lokið framhaldsnámi í prédikunarfræðum frá Svíþjóð og Bandaríkjunum. Faglega séð er ég því vel undirbúin undir hlutverk biskups Íslands.

Hlutverk biskups
Hlutverk biskups er fyrst og fremst að vera leiðtogi Þjóðkirkjunnar og sameiningartákn hennar. Biskup er hirðir hirðanna og hefur það hlutverk að styðja, efla og uppörva þjóna kirkjunnar svo að þau geti, á sem bestan hátt,  sinnt sinni þjónustu við fólkið í landinu.

Samkvæmt nýsamþykktri stjórnskipan Þjóðkirkjunnar er að finna skilgreiningu á biskupsembættinu sem sótt er í lög frá alþingi um Þjóðkirkjuna frá 2021: „Biskup fer með yfirstjórn Þjóðkirkjunnar í kenningarlegum efnum, gætir einingar í kirkjunni og hefur tilsjón með kristnihaldi, kenningu kirkjunnar og þjónustu“. Þessi ný samþykkta stjórnskipan kemur í kjölfar þeirra gríðarlegu breytinga sem hafa átt sér stað í Þjóðkirkjunni á undanförnum árum. Kirkjan hefur nú tekið við öllum sínum málum frá ríkinu og hefur því fullt umráð yfir ráðstöfun sinna fjármuna. Mér líst vel á hið nýja skipulag sem ég tel að hafi verið nauðsynlegt og treysti mér vel til þess að vinna samkvæmt því. Skipulagið er að ýmsu leyti líkt því fyrirkomulagi er ríkir í söfnuðum landsins og verkaskiptingu þeirri sem er viðhöfð á milli sóknarprests og sóknarnefndar.

Kirkjan er engin hornkerling
Eitt stærsta verkefni nýs biskups á komandi árum verður að leiða kirkjuna í breyttu samfélagi nútímans og halda áfram að búa henni góðan stað í umhverfi þar sem ekki er lengur litið á kirkjuna sem sjálfsagða. Staða kirkjunnar í samtímanum hefur breyst hratt á undanförum 15 árum af ólíkum ástæðum. Samfélagið hefur orðið ríkara og fjölbreyttara þar sem fólk frá öðrum löndum, öðrum trúarbrögðum eða kirkjudeildum hefur sest hér að. Sífellt fleiri Íslendingar velja að vera utan trúfélaga og oft á tíðum hefur sú ákvörðun ekkert með trú að gera, heldur vill fólk ekki tilheyra skipulögðum trúarbrögðum eða trúfélagi. Kristinfræði er kennd í minna mæli í grunnskólum sem leiðir til þess að ungt fólk þekkir ekki sögur Biblíunnar og veit þar af leiðandi minna um trú og menningu þjóðarinnar. Þetta er staða sem kirkjunni ber að taka alvarlega. Kirkjan hefur á ýmsan hátt færst til hliðar. Hún fær minna rými en hún gerði í samfélaginu áður fyrr. Að hluta til er það eðlilegt í samfélagi fjölbreytileikans en það kemur þó ekki veg fyrir að kirkjan geti staðið styrkum fótum og tekið sitt rými því kirkjan er engin hornkerling.

Hlutverk mitt á komandi árum, verði ég kjörin, er að leiða kirkju sem er í sókn, kirkju sem tekur sjálfsagt rými í samfélaginu okkar og er leiðandi afl þegar kemur að trúarlegum- og siðfræðilegum málefnum. Ég vil leggja áherslu á að leiða kirkju sem lætur sig mannréttindi allra varða í anda Jesú Krists og um leið lyfta upp öllu því góða starfi, sálgæslu og trúariðkun sem söfnuðir landsins bjóða upp á.

Samfélagið í kirkjunni
Annað stórt og mikilvægt verkefni á komandi árum verður að vinna að því að þétta raðir presta, djákna, starfsfólks safnaða og sóknarnefnda kirkjunnar. Breytt staða kirkjunnar hefur haft rík áhrif á starfsumhverfi presta og djákna og starfsöryggi þeirra er ekki hið sama og áður. Mögulegt er að vinna að þessu eftir ýmsum leiðum en það mikilvægasta hlýtur ávallt að vera að byggja upp góð samskipti og traust. Það verður aðeins gert með samtölum, reglulegum og uppbyggilegum samskiptum og með því að sjá til þess að allir hafi greiðan aðgang að upplýsingum um það sem er að eiga sér stað í kirkjunni.

Trúin ofar öllu
Ástæða þess að ég ákvað að gefa kost á mér til embættis biskups Íslands er fyrst og fremst sú að ég á mér einlæga trú á lifandi Guð. Ég hef trú á mátt bænarinnar og er sannfærð um að við erum öll Guði falin. Mér þykir vænt um kirkjuna mína og hef óbilandi trú á henni. Ég er sannfærð um að við getum með samstilltu átaki lyft henni hærra og gert hana sýnilegri sem sá griðastaður trúar, vonar og kærleika sem hún er.

 

Ofurkonan

Eftir Pistlar

(Úr bókinni minni, Í augnhæð, Hversdagshugleiðingar sem kom úr í nóvember 2020)

Vika 12. Ofurkonan – Alþjóðabaráttudagur kvenna

 Dugmikla konu, hver hlýtur hana?
Hún er miklu dýrmætari en perlur.

Hún sér um ull og hör
og vinnur fúslega með höndum sínum.
(Orðskviðirnir 31. 10)

Tilbrigði við Orðskviðina 31. 10-31:

Dugmikla konu, hver þekkir hana?
Hún er dýrmætari en perlur.
Maki hennar treystir henni
og það er gott að vera með henni.
Hún gerir lífsförunaut sínum gott og er
honum trú alla ævidaga sína.
Hún tekur til og setur í þvottavél,
henni fellur sjaldan verk úr hendi.
Hún er verslar í matinn þó Bónus
sé ekki í leiðinni.
Hún fer snemma á fætur,
hitar kaffi, tekur til morgunmat handa öllum
og kannar hvort allir fjölskyldumeðlimir þekki
verkefni dagsins.
Ef hana langar í nýja skó kaupir hún þá og
ef hún vill skipta um lit á veggjunum í stofunni,
málar hún þá.
Hún fer í ræktina þrisvar í viku, lyftir lóðum,
hleypur á brettinu og iðkar jóga.
Hún finnur að það sem hún gerir skiptir máli,
veit að hún er í ábyrgðarmiklu starfi
og stundum þarf hún að sitja við tölvuna
fram eftir kvöldi og ljúka við verkefni dagsins.
Hendur hennar renna yfir lyklaborðið
þegar hún skapar nýja heima í tölvunni,
þegar hún greiðir reikningana.
Hún heimsækir eldri ættingja sína þegar hún getur
og hún gefur reglulega í Hjálparstarf kirkjunnar.
Hún býr börnin sín vel fyrir veturinn svo þeim verði
ekki kalt á leikskólanum.
Hún er glæsileg til fara.
Blandar saman notuðum fötum og nýjum.
Hún flokkar ruslið og
fer með allt sem hægt er í endurvinnslu.
Hún er bjartsýn og sjálfsörugg.
Hún er sátt við sjálfa sig.
Í því felst glæsileiki hennar.
Hún bloggar af kærleika
og reynir að tala vel um fólk.
Hún er börnum sínum góð fyrirmynd og
á trúnað þeirra og makans.
Hún er dugleg en kann líka að
slappa af og horfa á góða mynd í sjónvarpinu.
Börnin hennar vilja líkjast henni og maki hennar
hrósar henni.
„Margar konur hafa verið til fyrirmyndar
en þú tekur þeim öllum fram.“
Kynþokkinn er svikull og fegurðin hverful
en trúuð kona á kreppu tímum á hrós skilið.
Hún njóti ávaxta vinnu sinnar og verk hennar
munu að lokum vekja athygli.
Þekkir þú þessa konu? Ég þekki hana.

Ég þekki líka konuna sem leyfir sér að slappa af fyrir framan sjónvarpið, tölvuna eða við handavinnu í stað þess að setja í þvottavél eða taka til.

Ég þekki líka konuna sem sér til þess að verkaskipting hennar og makans sé jöfn.

Ég þekki konuna sem veit að hún er með lægri laun en maðurinn sem var ráðinn um leið og hún og gegnir samskonar starfi. Hún getur ekki gert neitt í því þar sem launaleynd ríkir í fyrirtækinu.

Ég þekki konuna sem virkar svo sterk og sjálfsörugg út á við en verður fyrir stöðugu ofbeldi heima hjá sér.

Ég þekki konuna sem er með hærri laun en maki sinn og hann samgleðst henni.

Ég þekki konuna sem nær ekki endum saman því hún er einstæð með þrjú börn og á atvinnuleysisbótum.

Ég þekki allskonar konur.

Það gerir þú líka.

Mikið væri gaman að vera þessi ofurkona sem hér var lýst og verða aldrei þreytt. Eða að verða bara hæfilega þreytt svo nætursvefninn verði góður. En hver er þessi ofurkona? Er hún til?

Já, þessi kona er til og við þekkjum hana en mögulega er hugtakið „ofurkona“ þó ekki réttnefni því það er ólíklegt að ein manneskja haldi út allan þennan fullkomleika sem hér var lýst. Ofurkonan er hver einasta kona sem gerir sitt besta í heimi þar sem konum hefur verið gefið að sök að hafa komið með illskuna inn í heiminn, að vera orsök alls ills. Ofurkonan er sú sem lifir af í heimi þar sem konan á helst að vera bæði hrein mey og móðir samtímis og segja já við örlögum sínum hver sem þau eru.

En ofurkonan er líka konan sem segir nei við þeim örlögum sem henni eru ætluð og er móðir án þess að vera meyja og er meyja án þess að vera móðir.

Ofurkonan er líka konan sem leitar þekkingar, og horfir framan í forgengileikann og neitar að bera sökina á illskunni sem á hana er klínd.

Ofurkonan er allar konur.

Öskukross og fasta

Eftir Pistlar

Öskudagur markar upphaf föstunnar sem stendur í 40 daga eða jafnmarga daga og Jesús fastaði í eyðimörkinni. Fastan í kristinni trú er tími iðrunar og yfirbótar. Fastan er þó ekki ekki síður tími íhugunar og tilvalið er að nýta þennan tíma til að fara inn á við, leita að því sem gefur okkur dýpri merkingu, skoða líf okkar og finna til samkenndar með öðrum.

Í fjölmörgum kristnum kirkjum er til siðs að fá öskukross á ennið á föstunni og þá sér í lagi á öskudaginn. Orðin sem fylgja með geta verið: ”Takið við tákni föstu og yfirbótar” eða ”Minnstu þess að þú ert duft eitt og hverfur aftur til jarðarinnar” eða önnur áþekk. Askan táknar þá dauðann, forgengileikann og eyðingu líkamans, sem hverfur aftur til duftsins að loknu hlutverki sínu hér á jörðu. Öskukross á enni er hugsaður sem hvatning til okkar að íhuga hvernig við högum lífi okkar og minna okkur á forgengileikann. En um leið er krossinn teiknaður á okkur í fullvissunni um að á eftir föstunni og föstudeginum langa koma páskarnir, hátíð upprisunnar. Þá verðum við fullvissuð um að enginn dauði getur sigrað Guð lífsins og það líf er við þiggjum af Guði.

Þannig mætist í öskukrossinum hið forgengilega, allt sem tengist því að vera breyskar manneskjur hér á jörð, manneskjur sem elska, missa og deyja og sigur lífsins á dauðanum. Krossinn sjálfur er jú vonar- og sigurtákn sem við merkjum okkur með í hverri guðsþjónustu.

Fasta er eitthvað sem nútímamanneskjan þekkir vel því nokkuð algengt er að fólk iðki föstur með einum eða öðrum hætti sér til heilsubótar og til þess að hvíla meltingarkerfið. Hin kristna fasta gengur út á að íhuga líf okkar og hvernig við getum bætt það með hjálp Guðs. Fastan þarf ekki endilega að vera flókin og breyta miklu miklu í lífi okkar þó að hún geti sannarlega gert það. Mörgum þykir gott að nýta föstuna til að neita sér um eitthvað og þannig minna sig á að lífsgæðin eru ekki sjálfsögð og þannig ef til vill að einhverju leiti að taka þátt í þjáningu Krists. Oft er þetta samtengt því að bæta lífstílinn eða lifnaðarhætti að einhverju leiti og fjarlægja það sem er okkur ekki til góðs. Fastan getur þá falist í því að neita sér um ákveðna fæðutegund eða eingöngu að neita matar á ákveðnum tímum. Nokkuð er um að fólk neiti sér um notkun samfélagsmiðla. Einnig er hægt að nýta föstuna til þess að bæta líf okkar með því að bæta einhverju góðu við. Dæmi um það geta verið að verja meiri tíma fjölskyldunni, auka samskipti við fólk sem við erum ekki nógu dugleg að hitta, vera betri vinur eða standa sig betur í vinnunni.

Fasta er tími íhugunar og iðrunar. Gott er að að nota þennan tíma til að ná tengingu við almættið, okkur sjálf og náungann. Ein leið getur verið að hefja hvern dag á íhugun og bæn og setja sér ásetning fyrir daginn. Ásetningurinn getur mögulega verið fólginn í því að velja hvernig við ætlum að mæta fólki og hvernig við komum fram við okkur sjálf. Hann getur falist í því að setja sér þann ásetning að öfunda minna og elska meira, reyna að sjá það jákvæða í stað þess að einblína á hið neikvæða svo eitthvað sé nefnt.

Hvort sem þú velur að fasta eða ekki þá er helgihald safnaða á föstunni nærandi  og gagnlegt til að halda við og gefa okkur ramma utan um iðkun trúarlífsins á föstunni. Öskukrossinn sem málaður er á enni okkar á öskudaginn og jafnvel á öðrum helgidögum föstunnar táknar breyskleika og sársauka manneskjunnar sem oft er svo erfitt að koma orðum að. Um leið vísar krossinn til upprisunnar, þess er koma skal.

 

 

Kærleikurinn lítur ekki undan

Eftir Prédikanir

Sannur kærleikur

Þótt ég talaði tungum manna og engla, hefði góð tök á íslenskri tungu
og hefði fjölda annarra tungumála á valdi mínu
en hefði ekki kærleika,
væri ég hljómandi málmur eða hvellandi bjalla.

Og þótt ég hefði spádómsgáfu, gæti séð inn í framtíðina
og hefði margar háskólagráður
og þótt ég hefði svo takmarkalausa trú að færa mætti fjöll úr stað,
mætti í messu hvern sunnudag og læsi daglega úr Heilagri ritningu
en hefði ekki kærleika,
væri ég ekki neitt.

Og þótt ég deildi út öllum eigum mínum,
styrkti reglulega Rauðakrossinn,
Krabbameinsfélagið, Hjálparstarf kirkjunnar
og öll hin félögin
en hefði ekki kærleika,
væri engu bættari…

Þau eru mörg sem kannast við Óðinn til kærleikans úr Fyrra Korintubréfi en þessi fagri kærleiksóður er einn allra þekktasti texti Biblíunnar. Hann hefur komið fyrir í bókmenntum, ljóðlist, tónlist, myndlist og kvikmyndum svo eitthvað sé nefnt. Þá er þetta einn algengasti Biblíulesturinn í hjónavígslum bæði hér á landi og um allan hinn kristna heim. Auk þessa hafa verið samin alls kyns tilbrigði við þennan texta eins og það sem er hér á undan.

Þessi texti er svo óendanlega sterkur og þá ekki síst fyrsti hlutinn þar sem fram kemur að þú getur gert góða hluti og virkað fullkomlega fín og góð manneskja en ef þú gerir það ekki í nafni kærleikans, ef þú átt ekki kærleika í brjósti þá ertu innantóm eins og hljómandi málmur, þá ertu engu bættari. Samkvæmt þessu er ekki nóg að virðast góð manneskja ef ég er það ekki í raun og veru.

Hvaða kærleikur er þetta þá sem við eigum að finna? Skiptir einhverju máli hvaðan gott kemur? Getum við ekki alveg verið góðar manneskjur þó að við finnum ekki fyrir kærleika í brjósti okkar? Við erum jú breyskar manneskjur og sannarlega ekki alltaf góðar.

Þrjár konur – miskunnsami Samverjinn
Ég er nokkuð virkur notandi samfélagsmiðilsins Instagram. Þessi miðill getur verið virkilega öflugur þar sem hægt að koma sterkum boðskap áleiðis í formi mynda og myndbanda þegar orðin ein duga ekki til. Ég á nokkra vini á þessum miðli sem setja inn myndir á hverjum degi um ástandið á Gaza. Þau setja inn myndir af börnun sem hafa nýlega misst foreldra, af foreldrum sem hafa misst börn. Þau setja inn myndir af særðum börnum og jafnvel dánum börnum. Það er ekki þægilegt að skoða þetta og oft langar mig að fletta framhjá þessu. Ég geri það stundum en læt mig þó yfirleitt hafa það að horfa. Ég held nefnilega að þegar við veljum að horfast ekki í augu við mannvonskuna í heiminum þá veljum við að sjá ekki neyð annarrar manneskju sem er nákvæmlega jafn dýrmæt og við.

Árið 2014, fyrir tíu árum, fjallaði ég um það í prédikun þegar Ísraelsher varpaði sprengju á hóp barna sem var við leik á Gazaströndinni. Þá höfðu staðið yfir stöðugar árásir á Gaza í nokkurn tíma og um 300 manneskjur höfðu látist. Talið var að um 80% þeirra væru almennir borgarar. Fólk eins og þú og ég. Börn að leik og fólk sem tengist ekki hernaði á nokkurn hátt. Nú, tíu árum síðar hafa stöðugar árásir á Gaza átt sér stað marga mánuði og ástæðan er að verið sé að uppræta Hamas samtökin sem eru skilgreind sem hryðjuverkasamtök. Og enn og aftur er það svo að minnst 80% þeirra er verða fyrir þessum árásum eru almennir borgarar, börn, konur, karlar og kvár. Í dag er talið að nálægt 30 000 manns hafi látist í þessum árásum.

Þegar ég var að alast upp var fréttafluttningur af átökum á Gaza svæðinu daglegt brauð. Ég man að ég  spurði stundum út í þetta en yfirleitt var ég ekkert mikið að velta þessu fyrir mér. Þetta var bara hluti af lífinu. Hinu hversdagslega.

Er ekki eitthvað brenglað við heim þar sem hversdagsleiki sumra barna er að þau sjálf eða einhver sem þau þekkja og þykir vænt um geti orðið fyrir árás og dáið hvenær sem er? Og heim þar sem hversdagsleiki annarra barna er að það er svo venjulegt að heyra daglega fréttaflutning af því að stríð ríki á mörgum stöðum í heiminum að þau kippa sér ekki upp við þær fréttir lengur?

Nú hafa þrjár íslenskar konur tekið sig til og gert það sem hefur vafist fyrir stjórnvöldum og farið út til Egyptalands að landamærum Gaza til þess að reyna að sækja fólk sem þegar hefur fengið dvalarleyfi á Íslandi. Þeim hefur nú þegar tekist að ná einni konu og þremur börnum hennar yfir landamærin og eru nú að reyna að ná annarri konu og langveiku barni hennar.

Þrjár konur gáfust upp á að bíða og gerðu eitthvað. Þetta minnir svolítið á söguna um miskunnsama Samverjann þar sem sá er síst skyldi var sá sem kom manninum, sem ráðist var á, til hjálpar. Þessar konur eru Samverji nútímans.

Önnur stríð
Ég held að öllum sé ljóst að það sem er að eiga sér stað á Gaza er hápólitískt því vestræn stjórnvöld, þar á meðal Ísland, eiga í stjórnmálasambandi við Ísrael. Þegar Rússland réðst inn í Úkraínu var annað uppi á teningnum. Við tókum við 4000 manns þaðan án vandræða og lögðumst öll á eitt. Við rákum Rússa úr Eurovision og það var ekkert flókið að skrifa undir yfirlýsingar sem fordæmdu Rússa. Þegar stríðið var í Sýrlandi var einnig auðveldara að taka á móti flóttafólki og standa með þeim er urðu undir.

Samskipti ríkja skipta máli og stjórnmálasamband er eitthvað sem ríki virða sín á milli. Þá er ljóst að við viljum síður styggja sum ríki en önnur einfaldlega vegna stærðar og máttar, vegna tengsla þeirra við enn önnur ríki og vegna viðskiptasambands. En þegar þessi tengsl verða til þess að það vefst fyrir okkur að standa með fólki sem ráðist er á, að styðja fólk sem verður fyrir daglegum árásum þá er eitthvað bogið við þetta. Ég get nefnilega ekki séð hvers vegna við getum ekki fordæmt allar árásir þar sem saklaust fólk deyr, hvort sem um er að ræða árásir Ísraels á Gaza eða árásir Hamas á Ísrael. Bæði er hræðilegt.

Sannur kærleikur
Í Óðinum til kærleikans er lögð áhersla á að verk okkar séu ekki innantóm, að það sé ekki nóg að tala fallega, virka trúuð og fróm, eiga djúpa þekkingu og gefa í góðgerðamál ef við erum ekki sönn.

Ef sannur kærleikur liggur ekki að baki þá verður þetta allt saman innantómt. Röddin okkar verður hol.

Það er ekki auðvelt að elska. Það getur meira að segja verið býsna erfitt og sársaukafullt að elska. En sannur kærleikur hlýtur ávallt að leiða okkur í þá átt að vilja vel. Ein mikilvægasta mynd Biblíunnar af Guði er einmitt kærleikur, að Guð sé hinn dýpsti og tærasti kærleikur sem getur elskað út fyrir öll landamæri. Að Guð sé svo djúpur kærleikur að Guð geti elskað hverja einustu manneskju, líka þær sem virðast illvirkjar, þær sem fremja vond verk. Það er þessi kærleikur sem Guð býður okkur að finna ef við opnum hjörtu okkar fyrir Guði. Þetta er kærleikurinn sem við getum látið streyma í gegnum okkur ef við viljum þiggja hann.

Kærleikurinn er oft flókinn og við getum ekki elskað allt og alla. Kærleikurinn er ekki blindur. Hann er ekki heimskur og hann er ekki trúgjarn. Jesús lét ekki bjóða sér hvað sem var en hann stóð ávallt með þeim sem verða undir. Kærleikurinn getur jafnvel gefið okkur hugrekki til að vera óþægileg og segja sannleikann og elska einnig þau sem ekki er vinsælast að elska. Þau eru manneskjur, Guðs góða sköpun eins og við.

Manneskjurnar sem nú búa við það ástand að þær sjálfar og þeirra nánasta fólk getur orðið fyrir árás hvenær sem er án þess að hafa nokkuð til þess unnið nema helst að hafa fæðst í röngum stað í heiminum er það fólk sem við hljótum ávallt að láta okkur varða. Þá er alveg sama í hvaða löndum þetta fólk býr. Kærleikurinn getur aldrei samþykkt að saklaust fólk sé drepið.

En hvað getum við gert?

Ég held að við getum gert svo ótal margt. Við getum gætt okkar á því að láta aldrei stríð og ofbeldi verða að hversdagslegu fyrirbæri. Við getum látið okkur fólk og aðstæður þess varða jafnvel þó að þau búi langt í burtu og jafnvel þó að þau séu ekki með réttu pólitísku stöðuna gagnvart Íslandi. Við getum gefið pening í safnanir. Við getum mótmælt og við getum beðið. Svo er einstaka óvenju hugrakkt og drífandi fólk sem fer bara á staðinn og tekur málin í sínar hendur eins og konurnar þrjár sem nú eru að reyna að bjarga fólki, sem þegar er komið með dvalarleyfi, yfir landamærin

Ég ætla að reyna að loka ekki augunum fyrir myndum og myndböndum frá því sem er að eiga sér stað á Gaza eða öðrum stöðum í heiminum og birtist á Instagram þó mig langi oft til þess. Og ég veit bara að Jesús hefði aldrei staðið hjá og komið sér undan því að taka afstöðu með þeim sem verða undir vegna þess að það væri stjórnmálalega of flókið.

Kærleikurinn getur falist í því að líta ekki undan og standa með öllum sem búa við neyð, hver sem þau eru.

Dýrð sé Guði sem lætur sig allar manneskjur varða og vill að við gerum slíkt hið sama.