Prédikun flutt í Dómkirkjunni á nýársdag 2024
Áramót
Jón Gnarr, sagði eitt sinn frá því í uppistandi að hann ætti afmæli 2. janúar, og sem barn, hafi það ekki verið auðveldur afmælisdagur.
2.janúar var nefnilega vörutalningadagur og allar búðir lokaðar, nema einstaka bensínstöð. Ár eftir ár fékk því aumingja kallinn hann Jón eingöngu bóntvist, ilmspjöld og rúðuþurrkublöð í afmælisgjöf.
Í dag er það, að mestu leyti, liðin tíð að öllu sé skellt í lás fyrir vörutalningar í upphafi árs, en áramótin eru þó – eftir sem áður – tími uppgjörs.
Áramótin veita okkur tækifæri til þess að líta í baksýnisspegilinn, gera upp hið liðna og finna út hvað við viljum að taka með okkur. Hvað höfum við lært af atburðum liðins árs? Hvað viljum við endurtaka og hvað viljum við aldrei nokkurn tíma að gera aftur.
Við sjáum þetta skýrast í dagskrá útvarps og sjónvarps í kringum áramót þar sem allt snýst um uppgjör. Vefmiðlarnir minna okkur á mest lesnu fréttirnar. Kryddsíldin gerði pólitíska árið upp. Fréttaannálarnir hafa verið sýndir, völvurnar hafa spáð fyrir um framtíðina og skaupið gerði svo grín að þessu öllu saman. Gamlársdagur er svolítið fyndinn hvað þetta varðar. Heilt ár er brytjað niður, soðið og hrært saman í sjónvarpsdagskrá eins dags.
Nú hefur það uppgjör átt sér stað.
En hvernig var árið þitt? Hvernig lítur þitt uppgjör út?
Var það óvenju gott? Gekk þér allt í haginn? Eða var það erfitt? Ertu ef til vill fegin/n/ð að árið 2024 er búið?
Ætli það hafi ekki verið blanda af báðu hjá okkur flestum? Ætli við séum ekki flest í þeim sporum nú, að þurfa að velja hvað við tökum með okkur inn í nýtt ár – og hvað við skiljum eftir?
Þrátt fyrir að við kveðjum liðið ár oft með tregablöndnum tilfinningum þá er svo gott til þess að vita að við getum alltaf byrjað upp á nýtt. Það er aldrei of seint. Og nýtt ár er einmitt, á ákveðinn hátt, boð um nýtt upphaf. Nýju ári fylgja nýjar vonir og nýir möguleikar.
Rétt eins og fjölmiðlar gera samfélagið okkar upp í heild, getum við nú gert okkur upp sem einstaklingar. Hér og nú. Í upphafi árs getum við valið hvað við gerum við það sem stóð upp úr hjá okkur. Hvaða fréttir skiptu okkur máli, hvaða reynslu getum við lært af og hvaða minningar viljum við geyma.
Auðvitað er þetta svolítil einföldun. Þó áramót marki nýtt upphaf fylgir þeim ekki reset-takki sem við getum haldið inni í þrjár sekúndur og allt verður gott á ný.
Erfiðar og sárar minningar frá liðnu ári fylgja okkur hvort sem við viljum það eða ekki. Afleiðingar mistaka geta haldið áfram að hafa áhrif og afleiðingar ofbeldis og sárrar reynslu hverfa ekkert. En við höfum val um hvernig við vinnum úr reynslu okkar og nýtt ár er kjörið tilefni til þess.
Leyfum við særindum síðasta árs að lita líf okkar og rífa okkur niður eða ætlum við að vinna úr þeim, læra af reynslunni og taka það sem byggir okkur upp með inn í framtíðina?
Alls konar ár
Árið sem við kvöddum í gær var ár vona og nýs upphafs. Árið færði okkur sögulegan fjölda nýliða á Alþingi, nýja ríkisstjórn og nýjan forseta.
Í tvígang á, síðasta ári fóru fram lýðræðislegar kosningar þar sem pólitískir andstæðingar tókust á, en komu svo saman í sjónvarpssal og tókust í hendur. Við sáum vinaleg lyklaskipti í ráðuneytum, við sáum Guðna bjóða Höllu velkomna á Bessastaði auk þess sem biskupskosningar urðu á árinu. Í þrígang vorum við minnt á hvað við erum lánsöm að búa í landi þar sem atkvæði okkar ráða för en ekki hnefinn.
Árið var þó einnig erfitt. Áföll hér heima og ófriður úti í heimi var sár áminning um hvað lífið getur verið brothætt.
Óvenju mörg manndrápsmál komu upp á Íslandi og þar voru börn ekki undanskilin. Þeim atburðum, auk slysa, sjálfsvíga og óhugnalegra glæpa s.s. mansals fylgdi gríðarleg sorg og áföll fyrir þjóðina alla. Þá sáum við ýmislegt benda til þess að börnum þessa lands líði ekki allt of vel.
Enn erum við að glíma við eldgos og afleiðingar þess á Reykjanesi og óvissa ríkir um framtíð Grindavíkur. Það er ekki á færi þeirra sem ekki hafa upplifað það sjálf að setja sig í spor þeirra sem hafa þurft að yfirgefa bæinn sinn og hefja nýtt líf á öðrum stað með öllu sem því fylgir auk óvissunnar um hvað gerist í næsta eldgosi.
Engin breyting hefur orðið á stöðunni í Úkraínu eða á Gaza og í Súdan er fólk að deyja úr hungri sem er afleiðing stríðs og skorts á hjálpargögnum. Og þetta er aðeins brot af þeim stöðum þar sem stríð geisar í heiminum.
Ég neita því ekki að mér hefur fundist myrkrið á liðnu ári vera óvenju dimmt. Vandamálin eru stór og áföllin voru þung.
En það er einmitt þá sem tímamót koma sér vel. Hvað tökum við með okkur úr þessum áföllum? Hvaða lærdóm viljum við draga af atburðum ársins.
Upp úr áföllum síðasta árs óx nefnilega margt gott sem vekur von.
Í kjölfar erfiðra atburða í sumar kom í ljós, einu sinni sem oftar, að þegar á reynir eigum við sem þjóð auðvelt með að sýna náunganum samkennd og okkur er sannarlega ekki sama um líðan og afdrif náungans.
Þannig skapaðist til að mynda mikil umræða um liðan barna og fólks almennt hér á landi sem ég hef fulla trú á að muni leiða til góðs.
Framganga Gisele Pelicot vakti einnig von á þessu ári. Hún varð fyrir ólýsanlegu ofbeldi af hálfu maka síns sem með skipulögðum hætti byrlaði henni og bauð tugum manna að nauðga henni. Þetta voru menn sem hún þekkti og hitti jafnvel daglega.
Ekki aðeins hafði Gisele Pelicot kjark til þess að segja sögu sína opinberlega, heldur beinlínis krafðist hún þess að allur heimurinn fengi að sjá og heyra hvað eiginmaður hennar og samverkamenn hans gerðu henni og faldi sjálfa sig ekki á bakvið nafnleynd.
Öllu jafna, hefði Gisele gengið inn í hlutverk nafnlausa fórnarlambsins í enn einum lokuðu réttarhöldunum. Þessu hlutverki hafnaði hún.
Þegar ég sé andlit Gisele Pelicot í fjölmiðlum sé ég ekki andlit fórnarlambs. Ég sé andlit sterkrar konu sem var þolandi ofbeldis sem var ekki henni að kenna. Martröð Gisele færði okkur nýja sýn á veruleika þolenda kynferðisofbeldis og færði skömmina frá þolandanum og þangað sem hún á heima.
Úr illu óx eitthvað gott.
Á aðventunni vakti Frans páfi von með hugrekki sínu. Hann hefur aldrei hvikað frá því að tala fyrir friði í heiminum og þessi jól var Jesúbarnið í jötunni í Vatikaninu vafið í Keffiyeh, eða Palestínuklút. Um þessi jól sáu hundruð þúsunda ferðafólks Jesúbarnið vafið palestínuklúti og voru um leið minnt á að fæðingaborg Jesú er hernumin, að Jesúbarnið liggur enn í rústunum með saklausum börnum þar sem saklaust fólk er drepið nánast dag hvern á Gaza.
Á meðan stjórnmálamenn heimsins rífast um hvor byrjaði eða um stjórnspekilega skilgreiningu á hugtakinu ”þjóðarmorð”, eru börn myrt í Palestínu.
Þegar hús nágranna okkar stendur í ljósum logum skipta eldsupptök eða tryggingaskilmálar engu máli. Við bara slökkvum eldinn.
Í Palestínu er verið að drepa börn, og ekkert annað skiptir máli. Á þetta minnti páfinn okkur.
Hann vill ekki að við lítum undan og látum sem ekkert sé þegar börn eru drepin á hverjum degi á Gaza eða hvar sem er í heiminum. Hann vill ekki að við lítum undan þegar hjálparstofnanir fá ekki að komast til fólks með hjálpargögn. Hann vill að við stöndum með þeim sem verða undir og styðjum endanlegt vopnahlé og frið. Og það hljótum við öll að gera.
Að velja nafn
Guðspjall nýársdags er aðeins eitt vers. Þar er sagt frá því að Jesús fékk nafnið sitt um leið og hann var umskorinn.
Mér er minnistætt þegar við foreldrarnir völdum nöfn á börnin okkar. Við skrifuðum niður nöfnin sem okkur þótti fallegust og svo bárum við þau saman og völdum að lokum úr það sem okkur báðum þótti best. Það virkaði vel með annað barnið en þegar við völdum nafn á hitt barnið, áður en það fæddist, urðum við að skipta um skoðun þegar barnið kom í heiminn því nafnið sem við höfðum valið passaði alls ekki við barnið.
Það fylgir því mikil ábyrgð að velja nafn á barn, nafn sem manneskjan á, nær undantekningarlaust eftir að bera alla sína ævi. Oft er presturinn ein af fyrstu manneskjunum til að heyra nafn barnsins sem bera á til skírnar og þá eru foreldrarnir enn að æfa sig í að segja nafnið upphátt. Stundum er svo erfitt að taka endanlega ákvörðun um nafn að það er ekki gert fyrr en rétt fyrir skírnarathöfnina.
Foreldrar Jesú gáfu drengnum nafnið sitt um leið og hann var umskorinn. Hann var jú gyðingur og því fylgdu foreldrar hans þeim sið. Samkvæmt Ritningunni höfðu foreldrar hans reyndar ekkert um það segja hvaða nafn hann fékk heldur tilkynnti engill Drottins Jósef að hann skyldi láta drenginn heita Jesús. Merking nafnsins er Guð frelsar.
Nöfn skipta máli vegna þess að við, hvert og eitt skiptum máli. Nafnið er þitt helsta einkenni. Við þekkjum hvert annað með nafni og Guð þekkir okkur með nafni. Í skírninni biður presturinn Guð að rita nafn barnsins í lífsins bók.
Þú getur haft áhrif
Þegar vandamál heimsins eru jafn stór og raun ber vitni er ekki nema von að okkur fallist hendur. Hvaða máli skipti ég í þessu risastóra samhengi vandamála heimsins. Hvaða áhrif get ég haft?
Svarið hér er einfalt: Við skiptum öllu máli. Þú, sem Guð þekkir með nafni, skiptir máli.
Það er eins með stóru vandamálin og þau litlu – Við byrjum á okkur sjálfum.
Við getum nefnilega, hvert og eitt gert ýmislegt til þess að bæta líf okkar sjálfra og heiminn allan um leið. Vissulega er ekki allt í okkar eigin höndum en þó meira en við oft gerum okkur grein fyrir.
Við getum íklæðst trúnni með því að gefa gaum að okkar eigin andlegu heilsu, rækta okkar trúarlegu þarfir og rækta gildin sem sameina okkur. Þannig setjum við hlutina í samhengi eilífðarinnar og öðlumst viturt hjarta. Og þá verður auðveldara að sjá, eins og Páll postuli talar um í pistli dagsins, manneskjur með ákveðin nöfn en ekki aðeins fólk sem tilheyrir ólíkum hópum.
Við getum íklæðst kærleikanum með því að hlúa að börnum okkar og með því að opna á umræðu um geðheilsu Íslendinga. Við höfum verið dugleg að opna fyrir umræðu, vinna gegn fordómum og skömm þegar kemur að hinseginfólki, kynferðisofbeldi og kynferðisáreitni. Þessum sama árangri þurfum við nú að ná í málefnum fólks með geðsjúkdóma.
Þar er mikið verk að vinna. Geðheilbrigðiskerfið hér á landi hefur orðið útundan undanfarin ár. Við þurfum að byggja upp kerfið, þjónustuna og vinna gegn fordómum fyrir geðsjúkdómum. Það er engin skömm að vera haldin/n/ð andlegum sjúkdómi frekar en líkamlegum og fjöldi sjálfsvíga er til vitnis um að geðsjúkdómar geta verið lífshættulegir. Afleiðingar geðsjúkdóma geta verið skelfilegar fyrir svo ótal marga ef fólk fær ekki viðeigandi greiningu og hjálp.
Við getum íklæðst voninni og hugrekkinu og tekið okkur fólk eins og Frans páfa og Gisele hina frönsku til fyrirmyndar. Það gerum við með því að tala ávallt með friði. Það gerum við með því að standa með okkar minnstu systkinum þegar þau þurfa mest á því að halda og þegar pólitískt þras skyggir á það sem raunverulega skiptir máli getur kirkjan – og á kirkjan – að stíga inn. Þó ekki nema til þess að minna á að börn eiga aldrei skilið að deyja í stríði.
Ef við gerum þetta. Ef við berum höfuðið hátt eins og Gisele sama hvað á okkur dynur og látum aldrei hengja á okkur skömm sem er ekki okkar, þá getur gott vaxið úr illu, og hægt og rólega gerum við heiminn allan … að betri stað.
Nýtt upphaf
Í dag er fyrsti janúar. Tími uppgjörs. Tími vörutalninga.
Nýtt ár minnir að mörgu leyti á kristna upprisutrú. Að hægt er að rísa upp frá hverju sem er, að öll getum við byrjað upp á nýtt. Mörg okkar nota tækifærið í upphafi nýs árs og hefja nýjan lífsstíl. Líkamsræktarstöðvar fyllast og haldast þannig eitthvað fram í febrúar. Vinnustaðir glæðast lífi á ný og skólastofur fyllast.
Nýtt ár. Nýtt upphaf. En lífið heldur áfram. Spurningin er, hvað ætlum við að taka með okkur frá árinu sem var að líða?
Þetta er spurning sem við í Þjóðkirkjunni spyrjum okkur einnig; Hvað ætlum við að taka með okkur inn í nýtt ár?
Kirkjan stendur, hér eftir sem hingað til, öllum opin. Prestar og djáknar Þjóðkirkjunnar ganga með fólki og styðja á erfiðustu stundum lífsins jafnt sem gleðistundum. Þegar áföll verða getum við nánast gengið út frá því að þar séu prestar og djáknar að styðja fólk án þess að það komi nokkurs staðar fram opinberlega.
Á þessu verður engin breyting á nýju ári.
En við ætlum þó að taka ýmislegt með okkur frá liðinu ári.
Við ætlum til dæmis að hlúa að börnunum okkar og setja aukinn kraft í æskulýðsstarf kirkjunnar á árinu 2025. Við ætlum að valdefla ungt fólk innan kirkjunnar og hvetja þau til þess að taka í ríkara mæli þátt í að móta stefnu og starf Þjóðkirkjunnar.
Á komandi ári langar mig líka til þess að sjá kirkjuna leiða með góðu fordæmi og leggja sitt af mörkum til þess að vinna bug á fordómum sem fylgja geðsjúkdómum. Smán og skömm sem enn fylgir geðsjúkdómum er dulið samfélagsmein sem þarf að uppræta.
Rödd kirkjunnar er sterk rödd sem heyrist víða og hana ætlum við að nýta til góðra verka.
Á þessum fyrsta degi nýs árs leggjum við árið í Guðs hendur og biðjum fyrir því. Við biðjum fyrir friði, fyrir reisn hverrar manneskju og fyrir því að við, hvert og eitt, íklæðumst trú, kærleika, von og hugrekki og gerum það sem í okkar valdi stendur til þess að bæta heiminn sem við erum hluti af.
Göngum hugrökk inn í nýtt ár, bein í baki með kærleika Guðs og velvild sem verkfæri. Jesús, sem fékk nafnið, Guð frelsar gefi þér farsælt ár.
Dýrð sé Guði sem þekkir þig með nafni, elskar þig eins og þú ert og gefur þér trú, von, kærleika og hugrekki.
Amen.
Nýlegar athugasemdir