Skip to main content
Monthly Archives

júní 2022

Kirkjan brást – Ein saga eitt skref

Eftir Prédikanir

Heimasíða verkefnisins Ein saga – eitt skref var opnuð nú í lok júní. Tilgangur verkefnisins er að hlusta á persónulegar sögur samkynhneigðs fólks sem þjóðkirkjan og fólk innan hennar hefur brotið á í gegnum tíðina. Tilgangurinn er að læra af þessari hryllilegu sögu misréttis og ofbeldis innan kirkjunnar. Verkefnið er unnið að frumkvæði biskups Íslands, Agnesar Sigurðardóttur og í samstarfi við Samtökin 78.

Ég hef hlustað á sögurnar sem birst hafa og mig setur hljóða. Sárin eru djúp og mörg þeirra er ekki hægt að fyrirgefa og á ekkert endilega að fyrirgefa. Það að fermingarfræðsla verði til þess að ýta dreng lengra inn í skápinn og kveikja djúpa dauðahræðslu hjá honum er ekki í lagi á nokkurn hátt. Það að fólk hafi fengið smáblessun en ekki fulla blessun er ekki í lagi á nokkurn hátt. Það að samkynhneigt fólk hafi þurft að sitja á móti klerkum í prestaskyrtum með gullkrossa um hálsinn sem sögðu þeim að allt það sem þau voru og stóðu fyrir væri synd er ekki í lagi.

Ég viðurkenni að ég taldi í alvöruinni að það að meirihluti presta hafi verið hlynntur réttindum samkynhneigðra, þegar kom að einum hjúskaparlögum, væri nóg til þess að sýna að kirkjan stæði í raun með þeim. Eftir að hafa hlustað á sögurnar skil ég að það var ekki nóg. Ef höfuðið er ekki með skiptir engu máli þó einhverjir limir séu það. Það er að segja að ef kirkjan er ekki með sem ein heild, líka biskup, þá er hún ekki með á fullnægjandi hátt.

Þetta hefði aldrei átt að vefjast fyrir kirkjunni. Þetta snýst nefninlega um kærleika og mannréttindi. Allt sem kirkjan gerir á að snúast um kærleika og mannréttindi.

Allra. Ekki bara sumra.

Kirkjan hefur brugðist samkynhneigðu fólki. Kirkjan hefur brugðist konum sem hafa orðið fyrir ofbeldi í skjóli hennar. Ef kirkjan á að eiga erindi í samtímanum þá þarf hún að taka sig taki, iðrast mistaka sinna og breytast. Kirkjan er nefnilega með boðskap Jesú Krists sem sitt erindi og sá boðskapur snýst ekki um hefðir, tungumál sem útilokar og að þola að brotið sé á mannréttindum fólks sem ekki passar inn í normið. Sá boðskapur snýst um ást og að allar manneskjur séu elskaðar eins og þær eru.

Mikið af þessum brotum kirkjunnar og kirkjunnar fólks gegn samkynhneigðu fólki endurspegla tíðaranda samfélagsins á þeim tíma sem þau voru unnin. Það er þó ekki afsökun því kirkjan á ekki aðeins að vera samferða samtímanum og samfélagsbreytingum heldur á hún, á öllum tímum, að vera framsækin, ganga á undan og ryðja brautina þegar kemur að mannréttindum, alveg sama hver á í hlut.

Við lifum á tímum mikilla breytinga og frelsis í íslensku samfélagi. Hjónabönd samkynja para þykja nú sjálfsögð, við tölum um þungunarrof í stað fóstureyðingar og kynrænt sjálfræði hefur verið fest í lög. En á sama tíma sjáum við öldu fordóma og afturhalds allt í kringum okkur og sterk öfl gera allt sem í þeirra valdi stendur til þess að draga úr mannréttindum fólks, sérstaklega hinsegin fólks og kvenna. Þessi réttindi sem við teljum sjálfsögð á Íslandi eru svo brothætt og um þau verður að standa vörð. Þar gegnir kirkjan mikilvægu hlutverki. Hlutverk kirkjunnar nú er að standa vörð um mannréttindi alls hinsegin fólks, kvenna, flóttafólks, barna, fólks með fötlun, eldra fólks, já allra sem þurfa á stuðningi að halda. Þetta gerir kirkjan með því að vera framsækin í mannréttindamálum, bæði í orðum og gjörðum, og stíga sterk fram þegar brotið er á fólki. Þetta gerir kirkjan með því að tala tungumál allra kynja og bjóða allar manneskjur velkomnar í litríkar kirkjur þar sem hátt er til lofts og engir þröskuldar og helgihaldið er aðgengilegt öllu fólki. Þetta gerir kirkjan með því að láta í sér heyra en ekki þegja þegar kemur að mannréttindum og kærleika og með því að hafa hugrekki til þess að hlusta á þessar sögur og taka þær til sín.

Ég hvet þig til að hlusta á sögurnar sem birtar hafa verið á síðunni www.einsagaeittskref.is.