Skip to main content
Monthly Archives

október 2021

Einn séns enn

Eftir Prédikanir

Von í vonlausum aðstæðum
Hefur þú einhvern tíma verið í þeim aðstæðum að þú hafir haldið í von þrátt fyrir að þú hafir gert þér grein fyrir því að aðstæður væru í raun vonlausar? Ég hef verið í þeim aðstæðum og þegar ég skil að ég get ekkert gert sjálf til þess að breyta þeim þá hef ég snúið mér til Guðs í von að um kraftaverk.

Ég held að flest okkar sem erum komin með nokkra reynslu af lífinu höfum einhvern tíma fundið okkur í þeirri stöðu að vonast eftir einhverju þrátt fyrir að við vitum að það er nánast eða alveg útilokað að það muni gerast.

Mér dettur strax í hug maðurinn sem var komin með krabbamein um allan líkamann og vissi að hver dagur var dýrmætur bónus en bað þó Guð á hverjum degi um kraftaverk. Um að vakna einn daginn og krabbameinið væri horfið eða að það hefði í það minnsta minnkað mikið.

Mér dettur í hug foreldrar konunnar sem hefur verið í neyslu alveg frá unglingsárunum og er nú komið yfir fertugt. Þau vita að allar líkur eru á því að barnið þeirra deyji á undan þeim, úr sjúkdómi tengdum neyslunni eða afleiðingum hættulegs félagsskapar og aðstæðna. Þau biðja Guð á hverjum degi um að einn daginn virki meðferðin og að líf hennar breytist.

Mér dettur í hug konan sem veit að mamma hennar er í sjálfsvígshættu og að hver dagur er mögulega hennar síðasti. Hún hefur gert allt sem í hennar valdi stendur til þess að koma móður sinni til hjálpar en hún er þrátt fyrir allt barnið hennar og hún á erfitt með að ráða við sjúkdóminn sem er lífslönguninni sterkari. Hún biður alla daga um kraftaverk. Hún biður Guð að taka óttann frá henni og að móðir hennar fái lyf sem virka.

Kraftaverk eiga sér stað. Maðurinn sem er við það deyja úr krabbameini getur upplifað kraftaverk og sigrað meinið. En það getur farið á hinn veginn hjá öðrum manni eða konu. Foreldrarnir sem óttast líf barnsins síns geta vaknað upp einn daginn við að barnið er farið í meðferð, snýr lífinu við og allt verður eins og þau óskuðu sér en það getur líka farið á hinn veginn. Og það sama á við um konuna sem óttast líf móður sinnar. Sá dagur kemur ef til vill að lokum að móðirin fær lyf sem virka eða meðferð sem gefur henni lífskraft en það getur líka farið á hinn veginn.

Það sem allar þessar manneskjur eiga sameiginlegt er að engin þeirra gefur upp vonina fyrr en í fulla hnefana. Þær vona jafnvel þegar enginn von er eftir.

Ótrúlegt langlundargeð eða brjáluð ást
Í guðspjalli dagsins er sagt frá víngarðseiganada sem ræktar víngarð sinn en ræður síðan vínyrkja til að halda áfram með verkið. Þegar uppskeran er tilbúin sendir hann þjóna sína til þess að sækja uppskeruna. Vínyrkjarnir bregðast illa við og misþyrma og drepa þjónana. Víngarðseigandinn gefst þó ekki upp og sendir fleiri þjóna á staðinn en vínyrkjarnir ráðast einnig á þá og drepa. Þá sendir eigandinn son sinn og af einhverri ástæðu vonast hann til þess að vínyrkjarnir beri meiri virðingu fyrir syninum en þjónunum. En það er ekki svo og þeir drepa soninn og virðast vona að þar með hverfi vandamálið, að víngarðseigandinn deyji að lokum og að þeir muni þá erfa víngarðinn.

Þessi saga er svo ótrúleg af svo mörgum ástæðum. Þetta er saga af fólki sem allt hagar sér nokkuð sérkennilega, hvert á sinn hátt. Langlundargeð víngarðseigandans er ótrúlegt. Hver sendir þjóna sína aftur þangað sem fyrri þjónarnir voru drepnir og þeim misþyrmt? Já, og síðan son sinn að lokum, í aðstæður þar sem ljóst er að einungis dauðinn bíður hans? Og hversu vitlaust er það af vínyrkjunum að halda að þeir muni komast upp með að drepa bæði þjóna og son eigandans og erfa svo bara garðinn að lokum.

Það má vel halda því fram að flestar persónur þessarar sögu séu rauveruleikafirrtar á einhvern hátt, já, eða að þær búi yfir von um að allt fari vel að lokum þrátt fyrir líkurnar séu litlar sem engar.

Líklegt er að þessi texti eigi uppruna sinn í þeirri pólitík og valdabaráttu sem átti sér stað í kringum Jesú frá Nasaret. Að hér sé Jesús sé að sýna andstæðingum sínum, fariseunum, hvernig þeir, eða mannkynið allt, hafi farið með sendiboða Guðs og hvernig þeir muni að lokum drepa son Guðs. Og hann lýkur sögunni á að spyrja hlustendur sína hvað þeir haldi að verði um vínyrkjana að lokum. Og þeir svara að eigandinn muni vægðarlaust tortíma vínyrkjunum og ráða aðra sem eru traustsins verðir.

Brjáluð ást
Ef víngarðseigandinn er Guð er það þá ekki frekar heimskulegt að senda alltaf nýja þjóna og að lokum son sinn þegar ljóst er að þessir vínyrkjar muni aldrei sjá að sér? Eða er þetta kannski dæmi um þessa óbilandi von sem við búum yfir þegar við elskum nógu heitt.

Von manneskju sem er við dauðans dyr en vill lifa.
Von manneskju sem veit að barnið hennar mun að öllum líkindum deyja vegna neyslu en vill að barnið eignist líf.
Von manneskju sem veit að móðir hennar mun að öllum líkindum svifta sig lífi einhvern daginn en heldur þó í vonina um að hún komist úr lífshættu einn daginn.
Von Guðs um að við munum læra að meta Guð og allt það góða og fallega sem Guð vill að við eignumst með lífi í trú.

Von víngarðseigandans getur virst óskynsamleg og jafnvel hálf heimskuleg en við getum öll fundið okkur í þeim aðstæðum þar sem vonin verður allri skynsemi og visku yfirsterkari. Og í þeim aðstæðum getur vonin sigrað. Kraftaverk gerast nefnilega.

Ef við, breiskar manneskjurnar, getum fundið okkur í þeim aðstæðum að ástin og vonin verði öllu yfirsterkara hversu mun líklegra er það þá ekki að Guð gefi okkur fleiri tækifæri, fleiri sénsa? Að Guð gefi okkur alla möguleika á því að bæta okkur og verða betri manneskjur?

Jesús spyr í lok sögunnar hvað þeir haldi að verði um vínyrkjana sem drápu þjónana og soninn. Fólkið svarar að eigandinn muni tortíma þeim og ráða nýja í þeirra stað. Og takið eftir, þetta eru ekki orð Jesú heldur fólkisns. Ég er nefnilega ekki viss um að þetta svar sé rétt. Guð er eins og foreldrið sem vonar, eins og barnið sem vonar og eins og sjúklingurinn sem vonar. Guð gefur okkur nýtt tækifæri jafnvel þegar við höfum brotið allar brýr að baki okkar. Guð veit að í okkur öllum býr eitthvað gott og er tilbúið að bíða eftir því að við finnum það í okkur, bætum okkur og fylgjum Guði. Guð gefur okkur einn séns enn!

Dýrð sé Guði sem er trú von og kærleikur.