Skip to main content
All Posts By

a8

Virðing fyrir fjalli og nýskúruðu gólfi

Eftir Prédikanir

 

Prédikun flutt í Grafarvogskirkju 14. janúar 2023

2. Mosebók 3: 1-15

Í þjóðgarði í norðurhluta Ástralíu stendur Fjallið Uluru, einnig þekkt sem Ayers Rock. Þetta er rauðleitur klettur sem myndast hefur úr sandsteini. Fjall þetta eða klettur er einn helgasti staður frumbyggjaættbálks sem trúir því að fjallið hafi verið búið til af forfeðrum þeirra, anda fólkinu, fyrir um 600 milljónum ára. Þau trúa því að þau komist í samband við forfeður sína og formæður með því að snerta fjallið og því er fjallið heilagt í augum þeirra. Uluru hefur lengi verið vinsælt meðal ferðafólks sem hefur gaman af að ganga upp á þetta merkilega fjall en í október 2019 var tekin sú ákvörðun að banna alla umferð á fjallið af virðingu við frumbyggjana. Með því lauk langri baráttu ættflokksins gegn ágangi ferðafólks á þennan helga stað.

Það sem er heilagt fyrir þeim er ekki heilagt fyrir öðrum en að lokum var ákveðið að virða það sem þeim var heilagt.

Í trúarbrögðum er ýmislegt heilagt. Það geta verið staðir fólk og dýr, mismunandi eftir trúarbrögðum. Fólk þarf þó ekki að játa ákveðna trú til þess að upplifa eða álíta eitthvað vera heilagt.

Í kristni er mikið talað um að eitthvað sé heilagt. Við tölum um heilög jól, heilaga kirkju og við tölum jafnvel um að við, mannfólkið séum heilög sköpun Guðs. Við iðkum það oftar en ekki að helga hluti, staði og fólk í þeim tilgangi að afmarka og skilgreina hlutverk þeirra eða verkefni. Kirkjur eru blessaðar áður en þær eru teknar í notkun. Orgelið hér í kirkjunni var vígt áður en það var tekið í notkun. Fólk er vígt sem djáknar, prestar og biskupar og börn eru skírð, sem einnig er ákveðin vígsla.

Áðan var lesið úr annarri Mósebók sagan um það þegar Móses sér brennandi runna í eyðimörkinni eða runninn stóð í ljósum logum en hann brann ekki. Í loganum miðjum sá hann engil. Hann varð forvitinn og gekk nær til þess að virða þetta fyrirbæri fyrir sér. Hann undraðist hvers vegna runninn brann ekki. En þegar hann kemur nær hrópar Guð nafn hans og þegar Móses svarar segir Guð að hann megi ekki koma nær og biður hann að fara úr skónum vegna þess að hann sé staddur á heilagri jörð. Síðan segir Guð Móses að hann/hún/það sé Guð. Eftir það snýst þessi frásögn um það að Móses er kallaður til ákveðins hlutverks.

Biblían er full af táknum og það er svo ótal mörg tákn í þessari frásögn. T.d. er ekki óalgengt að Guð birtist í eldi, sérstaklega í Gamlatestamentinu. Eldur getur bæði verið góður og ógnvænlegur í senn. Eldur getur lýst okkur leiðina og hlýjað okkur en eldur getur líka brennt skóginn og við getum brennt okkur á honum ef við förum of nálægt.

Annað mikilvægt tákn er er engillinn í runnanum en engill merkir boðbera Guðs, að hér séu á ferðinni skilaboð frá Guði.

Enn eitt mikilvægt tákn er heilaga jörðin og að Guð biður Móses að fara úr skónum þegar hann gengur inn á hana.

Það að eitthvað sé heilagt merkir að það sé frátekið. Heilög kirkja er frátekin til ákveðins hlutverks og manneskjan, samkvæmt kristinni trú, er frátekin til þess að tilheyra almættinu sem er upphaf allrar sköpunar. Þegar manneskja eða hlutur er helgaður breytir það ekki eðli hans heldur er það hlutverkið sem breytist. Staður getur ekki verið heilagur í sjálfu sér heldur er hann heilagur vegna hlutverksins sem hann gegnir eða hefur gegnt. Þegar manneskja er sögð heilög þýðir það einnig að hún sé frátekin til ákveðins hlutverks, ekki að hún sé betri eða merkilegri en einhver önnur.

Þegar Guð segir að jörðin sem Móses standi á sé heilög þá merkir það að Móses er þarna staddur í návist Guðs. Að Guð sé einmitt á þessum stað. Guð biður Móses að fara úr skónum áður enn hann gengur inn á heilaga jörð. Þetta þekkjum við vel. Við viljum t.d. gjarnan að fólk fari úr skónum áður en það kemur inn á heimili okkar, sér í lagi ef það er slabb úti eða þegar við höfum nýlega skúrað gólfið. Við viljum ekki að fólk skíti út það sem við höfum gert hreint alveg eins og við viljum ekki að fólk óhreinki það sem er okkur heilagt. Í Íslam er er gert ráð fyrir að fólk fari úr skónum áður en það gengur inn í helgidóminn og það á við um fleiri trúarbrögð. Það fylgir því ákveðin virðing að fara úr skónum og ganga berfætt inn í helgidóm eða jafnvel á sokkaleistunum inn á eldhúsgólf.

Þegar allt kemur til alls er það okkar, mannfólksins, að ákveða hvað er heilagt og hvaða merkingu heilagleiki hefur fyrir okkur. Hlutir geta verið heilagir í ákveðnum samfélögum en ekki í öðrum. Þannig eru nautgripir heilagir í hindúasið en ekki í kristni. Þannig er fjall heilagt hjá ákveðnum þjóðflokki í Ástralíu en ekki hjá múslímum. Það sem mér er heilagt er ekki víst að sé heilagt fyrir þér.

Það sem skiptir máli er að við getum borðið virðingu fyrir því að eitthvað sé heilagt, að eitthvað sé frátekið til ákveðins hlutverks. Í því felst virðing og skilningur á að við séum ekki æðst og merkilegust í hverju samhengi, að við þurfum að vanda okkur í umgengni okkar við fólk og staði.

Meirihluti Ástrala tilheyrir ekki ættbálkum frumbyggja. Þrátt fyrir það var að lokum tekin sú ákvörðun að virða það sem var heilagt fyrir öðrum. Það tók reyndar langan tíma og sú saga er blóði drifin og lengi framan af var ekki nokkur virðing borin fyrir þeim sem upphaflega byggðu það land. Að lokum náðist þó sá þroski í samskiptin að ákveðið var að virðingin fyrir því sem er náunganum heilagt hefði betur. Á sama hátt ber okkur að virða það sem öðru fólki er heilagt þó það sé ekki heilagt fyrir okkur. Þannig eignumst við fallegra samfélag.

Í dag langar mig að hvetja okkur öll til þess að umgangast hvert annað sem við séum heilög, enda erum við öll heilög sköpun Guðs. Ef fólk vill að við förum úr skónum vegna þess að það er nýbúið að þrífa þá gerum við það alveg eins og við göngum ekki upp á fjall sem öðrum er heilagt. Virðum það sem öðrum er heilagt og verum órædd við að láta annað fólk vita af því hvað er okkur heilagt.

Amen.

 

Að ræða trú í jólaboðum – Aftansöngur á aðfangadag

Eftir Prédikanir

Hversdagstrú

Af hverju höldum við jól? Hvers vegna heldur þú jól? Ég held jól vegna þess að ég trúi því að almættið hafi birst heiminum í litlu barni. Ég held líka jól til þess að fagna komu ljóssins og ég held jól til þess að njóta samverustunda með fólkinu mínu.

Það segir nokkuð mikið um kristið fólk að það sé tilbúið að trúa á Guð sem birtist í litlu barni sem fætt er á hálfgerðum hrakhólum en ekki sem eitthvað fínna, máttugra eða upphafnara. ja, eða í það minnsta, ef Guð þarf að fæðast sem barn, að það sé þá fætt við öruggar aðstæður, við ríkidæmi og völd. Hvernig má það vera að við trúum því að almættið, sem við köllum Guð, hafi komið inn í heiminn í sem manneskja með þessum ómerkilega hætti? Lífslíkur barna sem fæddust á þessum tíma voru ekkert í líkingu við það sem við þekkjum í dag og því ekki einu sinni öruggt að barnið myndi lifa og vaxa úr grasi. Og við erum að tala um almættið.

Þessi vilji okkar bendir til ákveðinnar dýptar í mannfólkinu, að við séum tilbúin til að sjá hlutina á dýptina, að Guð, sem er hinn æðsti kærleikur geti birst í hinu hversdagslega, hinu smáa og ófullkomna. Ef sagan af fæðingu frelsarans, sem er birtingarmynd Guðs í heiminum, hefði verið á þá leið að hann hefði komið af himnum ofan í fylgd engla eða annarra stórkostlegra vera og verið komið fyrir í höll, tilbúinn til að stjórna heiminum þá hefði það bent til þess að Guð væri fylgjandi valdi og upphafningu. Það hefði bent til þess að Guð væri svo fínt fyrirbæri að við gætum helst ekki tilbeðið Guð nema í stórum fallegum kirkjum, að fátækt og sjúkdómar væri ekki samboðið Guði.

Sagan af því þegar Guð gerist manneskja er með þeim hætti að við skiljum að við, hvert og eitt, erum verðug. Við erum öll nógu fín fyrir Guð því Guð er hluti af okkur. Jesús deildi kjörum með okkur sem þýðir að Guð deilir kjörum með okkur. Þess vegna er kristin trú ekki sunnudagstrú sem á einungis heima í kirkjum. Nei, kristin trú er hversdagsleg því Guð kemur inn í hverdagsleikann okkar sem manneskja sem fær sjálf að kynnast því að lífið getur verið býsna erfitt.

Í bókinni Deus eftir Sigríði Hagalín Björnsdóttur lýsir ein sögupersónan trú hversdagsins með eftirfarandi orðum:

„Að ganga á Guðs vegum er í senn flókið og einfalt verkefni. Flókið vegna þess að heimurinn gerir ráð fyrir öðrum og breiðari vegum og þar er ekki reiknað með Guði. Honum hafa verið settar þröngar skorður á jaðrinum, í jarðarförum og jólasálmum, annars vill fólk ekki heyra á hann minnst. Menn setja upp óræðan svip þegar Sigfús fer að tala um Guð, þeir aka sér og víkja talinu að öðru. Það er ekkert pláss fyrir Guð í siðuðu samfélagi, í vinnunni eða fjölskylduboðum, neysluverðsvísitölunni; ekki frekar en í strætó eða í hjónabandinu með Jóhönnu.“

Sigfús sem á þessi orð fékk nefnilega vitrun þegar hann var staddur í strætó í Mjóddinni. Hann átti að vera að keyra strætisvagninn en gat ekki farið af stað á réttum tíma því hann fylltist svo mikilli gleði við vitrunina, að hann varð að deila henni með öðrum. Hann missti því vinnuna. Svo missti hann hjónabandið með Jóhönnu.

Í sögunni um Sigfús er svo skýrt að trúin rúmast ekki í hversdagsleikanum. Þú ert skrítin/n ef þú trúir og hvað þá ef þú vilt ræða það. Guð á ekki heima í jólaboðunum heldur aðeins í aftansöngnum.

Það merkilega er þó að með fæðingarsögunni færist guðdómurinn nær okkur og verður beinlínis hversdagslegur. Þá á ég ekki við í merkingunni, óspennandi eða ómerkilegur, heldur verður hann eðlilegur eða normal. Hvað er eðlilegra en að barn fæðist? Hvað er meira normal en að eignast barn? Börn fæðast á hverri mínútu um allan heim. En um leið og barnsfæðingar eru alltaf að eiga sér stað þá er hver einasta fæðing stórkostlegt kraftaverk og ekkert hversdagslegt við hana. Hversdagslegir hlutir geta nefnilega verið stórkostlegir og stórkostlegir hlutir hversdagslegir. Reyndar er fæðingarsagan krydduð svolítið með englum, hirðum, vitringum og stjörnum annað hvort væri nú þegar Guð kemur í heiminn sem manneskja við svo annars hversdagslegar aðstæður.

Jesús átti foreldra sem vernduðu hann á allan hátt. Hann átti nokkuð venjulegt uppeldi út frá viðmiðum þess samfélags sem hann ólst upp í. Í það minnsta er ekkert sem bendir til annars. Hann lifði fullkomlega eðlilegu lífi alveg fram á fullorðins ár.

Jól í Betlehem

Nú hafa borist fréttir af því að jólahaldi sé aflýst í Betlehem, fæðingaborg Jesú Krists. Betlehem tilheyrir vesturbakka Palestínu og til að sýna samstöðu með íbúum Gasa svæðisins hefur þessi ákvörðun verið tekin. Í ár hefur Jesúbarninu verið komið fyrir í fæðingarkirkjunni í Betlehem inn á milli múrsteina. María og Jósef eru þarna líka í rústunum auk hirða, vitringa og dýra en þau eru öll aðeins lengra frá barninu en við eigum að venjast. Í viðtali við prest í fæðingarkirkjunni kemur fram að þetta sé gert til þess að sýna samstöðu með íbúum Gasa svæðisins sem nú búa við stöðugar árásir á saklausa borgara. Þetta er gert til að minnast allra barna sem fallið hafa í árásum Ísraels á Gasa og allra barna sem nú eru munaðarlaus vegna árásanna. Myndir af Jesúbarni í múrsteinsjötu eru afar áhrifaríkar en allt í kringum Jesúbarnið loga ljós. Ljósin tákna vonina sem þó er að finna mitt í öllum hörmungunum og því slokknar aldrei á þeim. Vonin deyr aldrei.

Myndin af Jesúbarninu í múrsteinsjötunni minnir okkur á að Jesús fæddist einmitt þarna, að Guð kom inn í þennan ófullkomna heim til þess að sýna okkur hvernig Guð er. Og það sem við fengum að sjá er að Guð er einmitt kærleikur sem kemur inn í hvaða mannlegu aðstæður sem er. Guð er með fólkinu í Gasa sem nú býr við stöðugan ótta og hörmungar.  Guð er mitt í þeim aðstæðum. Guð er með fólki sem býr við vondar aðstæður hvar sem er í veröldinni og Guð er með í hversdagsleikanum okkar hvernig sem hann er.

Guð er nefnilega ekki aðeins í kirkjunni á sunnudögum, í jarðarförum og fermingum. Guð er með í lífinu öllu. Hinu góða og hinu erfiða og á þessum venjulegu dögum þegar ekkert sérstakt gerist.

Ef til vill ættum við að gera tilraun til að ræða um trú í jólaboðum eða í strætó og sjá hvað gerist. Hver veit nema fólk sé tilbúið til að ræða trú á dýptina því fólk sem er tilbúið til að skilja að trú er ekki einfalt fyrirbæri á yfirborðinu sér að við hljótum alltaf að standa með þeim sem verða undir, þeim sem ráðist er á, að við hljótum að stilla okkur upp við hlið Jesúbarnsins í jötunni hvort sem hún er gerð úr stráum, múrsteinum eða hreinum lökum.

Dýrð sé Guði sem er hluti af lífi okkar hvernig sem það lítur út.

 

Prédikun flutt í Grafarvogskirkju í aftansöng á aðfangadag 2023

Nútíminn og hefðir

Eftir Pistlar

Það er eitthvað alveg einstakt við að koma inn í kirkjur á aðventu og jólum. Vissulega er alltaf gott andrúmsloft í kirkjunum en á þessum tíma verða ákveðnir töfrar þegar jatan með jesúbarninu og heilaga fjölskyldan er tekin fram, jólatréð skreytt og jóasálmarnir óma frá kórum við æfingar, frá ýmsum barnahópum og öðrum samverum kirkjunnar. Stór hluti prestakalla á landinu hefur á að skipa einum kór hið minnsta og fjölmennustu söfnuðirnir eru jafnvel með 3-4 kóra á sínum vegum. Því hefur tónleikahald í kirkjum aukist mikið undanfarin ár og gæðin iðulega mikil.

Á þessari aðventu er ljóst að fjölbreytni kirkjustarfs á aðventu er ákaflega mikil, eitthvað í boði fyrir alla og nánast allt ókeypis. Fyrir utan jólatónleika og helgileiki og söngleiki hef ég, á þessari aðventu, rekist á auglýsingar um: „Sing along“, helgistund í sundlaug, kertaljósastund, samverustund í fjárhúsi, kyrrðarbæn, aðventuhátíð, óskasálma jólanna, bænastund fyrir friði, aðventuspjall, kyrrð og jólasálma, bjór og jólasálma, jólin sungin inn, jóladagatal, ljósa- og aðventuhátíð, djúpslökun, skólaheimsóknir, myndlistarsýningu, og alþjóðlega fjölskyldustund. Þá er ýmislegt fleira í boði sem ekki verður talið upp hér. Ekki skortir hugmyndaflugið og viljann til að bjóða upp á innihaldsríkar stundir á vegum kirkna á aðventunni og þetta mikla starf er sannarlega ekki eingöngu í boði á höfuðborgarsvæðinu heldur um land allt. Og ljóst er að þetta virkar því allt þetta starf er ákaflega vel sótt og fjöldi kirkna eru meira og minna fullar á þessum tíma árs og enn bætir í þegar jólin ganga í garð.

Já, aðventa og jól er sá tími þegar mestur fjöldi sækir kirkjur þessa lands og undanfarin ár hefur kirkjan í auknum mæli tekið mið af samtíma sínum og aukið fjölbreytni starfsins. Það sem kirkjan hefur er bæði sveigjanleiki til að bjóða upp á fjölbreytt starf og traustar hefðir sem ekki haggast hvað sem nútímanum líður. Við þörfnumst hvors tveggja, nútímalegrar þjónustu og starfs í kirkjum og þjónustu sem byggir á hefðum sem margar má rekja hundruð ára aftur í tímann.

Sama kirkjan getur boðið upp á klassíska messu og aftansöng á aðfangadag sem eiga rætur að rekja aftur til miðalda og svo helgistund í sundlaug eða djúpslökun á jógadýnu.

Kosturinn við þjóðkirkjuna er hversu fjölbreytt hún er. Hún býr yfir gríðarlegum mannauði sem leggur sig fram um að þjóna fólki í ólíkum aðstæðum. Kirkjan vinnur ötult menningarstarf, leggur sig fram um að bjóða upp á helgihald þar sem tengsl manneskjunnar við guðdóminn eru ræktuð á dýptina um leið og bænin er iðkuð í orði, með hugleiðslu eða í gegnum tónlist.  Allt þetta fjölbreytta starf sem ég nefndi hér að framan á sér nefnilega ekki einungs stað á aðventunni heldur er fjölbreytnin ríkjandi árið um kring.

Kirkjan er samfélag fólks sem speglar samtímann um leið og mörg okkar hafa þörf fyrir hefðir og djúpar rætur. Stór hluti fólks sem kemur í kirkju er að sækja í samfélag; samfélag við annað fólk, við Guð eða jafnvel við sjálft sig.

Kirkjan er ekki einangruð heldur er hún lifandi samfélag fólks sem er hluti af stærra samhengi. Því er það svo að fólkið í kirkjunni lætur sig flesta hluti varða og á þessari aðventu hefur rík áhersla verið lögð á að biðja fyrir friði, ræða stöðuna á Gaza, biðja fyrir Grindvíkingum og leggja þeim lið með öllum mögulegum hætti. Fólk sem hefur lítið á milli handanna getur sótt um aðstoð við jólahaldið í kirkjum landsins auk þess sem mikið er sótt í sálgæslu hjá prestum og djáknum.

Í kirkjunni fögnum við fæðingu frelsarans og hækkandi sól um þessi jól eins og endranær meðvituð um að þau eru ekki öllum jafn gleðileg. Kjarni kristinnar trúar er að Guð sem gerðist manneskja í litlu barni komi inn í allar aðstæður. Guð gefi þér gleðileg jól, ljóss og friðar.  

 

Pistillinn birtist í Morgunblaðinu á þorláksmessu 2023

Að lifa með reisn

Eftir Prédikanir

Þessa dagana berast reglulega fréttir af ótímabærum andlátum ungs fólks vegna ofskömmtunar. Ungt fólk eru ekki einu fórnarlömb ópíóðafaraldursins sem virðist vera að ríða yfir landið en þau eru þó allt of stór hluti þeirra sem ánetjast sterkum ávanabindandi morfínlyfjum. Við erum að missa fólkið okkar, börnin okkar.  

Um allt land eru foreldrar sem búa við stöðugar áhyggjur vegna barna sinna og koma að lokuðum dyrum hvert sem þau leita því litla sem enga hjálp er að fá. Heilu fjölskyldurnar eru í heljargreipum vegna ástvinar sem er fastur í viðjum fíknar og mér segir svo hugur að í nærumhverfi okkar flestra séu fleiri að glíma við þennan vanda en okkur grunar. Tölur sýna okkur það en á síðasta ári voru 36% þeirra sem lögðust inn á Vog vegna ópíóðafíknar 25 ára og yngri og á fyrstu þremur mánuðum þessa árs létust 35 einstaklingar vegna þessa, hið minnsta.

Í kirkjunni förum við ekki varhluta af þessu ástandi þar sem við fylgjum bæði fólki sem er í neyslu og fjölskyldum þeirra. Þá kemur það gjarnan í hlut presta að jarðsyngja þau sem láta lífið vegna þessa.. Í kirkjunni höfum við gríðarlegar áhyggjur af ástandinu og sjáum glöggt að eitthvað þarf að gera.

Á presta- og djáknastefnu sem haldin var í Grensáskirkju á síðustu dögum aprílmánaðar samþykktu prestar og djáknar eftirfarandi ályktun.

„Presta- og djáknastefna sem haldin er í Grensáskirkju dagana 26.-28. apríl árið 2023 skorar á ríksstjórn Íslands, Landlæknisembættið og öll þau sem fara með ákvörðunarvald innan heilbrigðisþjónustunnar að róa að því öllum árum að færa þjónustu við þau sem þjást af fíknisjúkdómi til betra horfs. Það verður aðeins gert með því að auka fræðslu, vinna gegn fordómum og forgangsraða fjármunum til málaflokksins.

Stöðugar fréttir berast af dauðsföllum af völdum ópíóða og svo er komið að rætt er um ópíóðafaraldur. Allt of margt fólk lætur lífið vegna fíknisjúkdóms, langt fyrir aldur fram. Prestar og djáknar hafa ekki farið varhluta af því að þjónusta þau sem sjúkdómurinn hrjáir og aðstandendur þeirra í sjúkdómsferlinu og þegar dauðinn kveður dyra.

Presta- og djáknastefnan styður því við skaðaminnkandi og lífgefandi meðferðarúrræði, sem byggjast á kristnum gildum um virði og reisn hverrar manneskju.

Þetta er mál okkar allra en stjórnvöld hafa þarna góða möguleika á að grípa inn í með forgangsröðun m.a. fjármuna og jafnvel lagabreytingum. Ég efast ekki eitt augnablik um að við viljum öll stöðva þennan faraldur strax. Þegar kórónuveiran herjaði á landið okkar og heiminn allan, snerum við bökum saman og gerðum allt sem í okkar valdi stóð til þess að útrýma veirunni, með forgangsröðun og lagabreytingum. Þessi faraldur er einnig skæður og hann mun aðeins versna ef ekkert verður að gert. Það er réttur hverrar manneskju að fá að lifa með reisn og það er hlutverk hverrar manneskju að koma náunganum til hjálpar þegar hann er í neyð. Það er því mín von að okkur takist að stöðva þennan faraldur hið fyrsta.

Guð blessi öll þau sem hafa misst ástvin vegna þessa og gefi okkur kjark, kærleika og visku til þess að koma í veg fyrir að faraldurinn haldi áfram að breiðast út.

Pistillinn birtist í Grafarvogsblaðinu í maí 2023

Helgsaga og raunsæi á jóladag

Eftir Prédikanir

Falleg mynd í jólakúlu
Sagan um fæðingu Jesú, jólaguðspjallið, sem lesið var í kirkjum landsins í gær er svolítið eins og falleg glansmynd stráð glimmeri eða falleg mynd inni í glerkúlu sem við getum hrist og snjókornin þyrlast upp. Það er svo margt í henni sem höfðar til okkar innstu tilfinninga, eittvað sem við eigum flest sameiginlegt, hvaðan sem við komum og hvort sem við erum kristin eða ekki.

Jatan og gripahúsin eru eitthvað sem við öll tengjum við hvort sem við erum úr sveit eða borg, frá Afríku eða Íslandi. Við vitum öll hvað þetta er hvort sem við höfum fundið fjárhúsilminn í eigin lífi eða ekki.

Stjarna er eitthvað sem við öll sjáum þegar við erum úti á dimmu kvöldi hvar sem við erum í heiminum, hvort sem við erum rík eða fátæk, trúuð eða vantrúuð.

Englar eru líka verur sem við höfum öll okkar hugmyndir um, hver sem við erum. Þeir eru svo krúttlegir og friðsælir að ekki er hægt annað en hrífast með í englasögum.

Ungir foreldrar að eignast sitt fyrsta barn er nokkuð sem stór hluti mannkyns getur skilið og hefur sjálft upplifað.

Og að lokum, litla barnið. Það gerist eitthvað inni í okkar innsta og viðkvæmasta rými þegar við sjáum lítið nýfætt barn. Þegar þetta litla barn fæðist á kaldri nóttu innan um dýr af barnungri móður, þá getum við ekki hert hjarta okkar eða varið tilfinningar okkar á nokkurn hátt fyrir þeim atburði.

Það er freistandi að láta söguna um fæðingu Jesú Krists vera, greina hana ekki eða skoða á raunsæjan hátt, því þetta er saga sem höfðar meira til hjartans en til skynseminnar. Það er freistandi að láta englana bara vera engla og láta hreinar meyjar fæða börn.

En nú er raunsæi og skynsemi guðsgjöf eins og hjartað og þörfin fyrir hið dularfulla.

Fæðingasögur
Jólaguðspjallið er helgisaga.

Jesús fæddist á þeim tímum þegar hreinar meyjar fæddu mikilvæga menn, valdamikla menn. Fæðingasögur mikilmenna voru prýddar ævintýraljóma. Þannig var það t.d. með fæðingasögur Alexanders mikla og Platóns en sögurnar voru sérstaklega ævintýralegar þegar um fæðingu konunga var að ræða.

Ef til vill  er skýringin sú að þegar fólk vildi sýna að fólk hefði sögulega köllun þá þyrfti að sýna að þeir hefðu haft sérstöðu frá upphafi.

Sagan af því þegar María mey fæddi son er með öðrum orðum ekki alveg einstök fyrir fæðingasögur þess tíma. Sagan um fæðingu Jesú, er saga um fæðingu konungs.

Þegar guðspjallamennirnir Markús og Lúkas skrifa guðspjöllin þá segja þeir söguna af fæðingu Jesú Krists eins og fólk sagði sögur af fæðingum konunga. Þeir voru einnig undir sterkum áhrifum hebresku spámannanna. Jesaja spámaður hafði spáð fyrir um það hvernig unga konan yrði barnshafandi og myndi fæða son sem fengi nafnið Immanúel – sem þýðir, Guð er með okkur (Jes. 7.14)

Þekkir þú Guð
En á jóladegi heyrum allt annað jólaguðspjall. Jóhannes guðspjallamaður kann engar sögur um jötur, engla og hirða. Hann á ekkert glimmer. Jóhannes er yngsti guðspjallamaðurinn og er undir ríkari áhrifum grískra heimspekinga. Hann talar um Orðið sem var til frá upphafi. Um ljósið sem myrkrið tók ekki á móti. Um hið sanna ljós sem heimurinn þekkti ekki.

Þekkir þú Guð?

Ég spyr vegna þess að höfundur jólaguðspjalls jóladags, Jóhannes þessi sem hvorki kunni að segja frá hirðum, stjörnum, englum, jötu nokkru þess háttar sem við tengjum við fallegu jólasöguna, segir okkur í dag frá því hvernig Guðs varð manneskja til þess að koma á tengslum við mannfólkið. Fólkið, við, vorum hætt að þekkja Guð og hann vildi sýna okkur hvað og hvernig Guð væri. „Í upphafi var Orðið, Orðið var hjá Guð og Orðið var Guð…  Hann var í heiminum og heimurinn var orðinn til fyrir hann en heimurinn þekkti hann ekki.“ Heimurinn þekkti hann ekki!

Þekkjum við Guð?
Hver er Guð í þínum augum?

Jesús í jólunum
Í upphafi aðventunnar var viðtal við Maríu Arnlaugsdóttur en hún mun nú halda sín 101 jól. Hún hefur því nokkra reynslu af jólahaldi. Hún sagði frá því að í æsku hafi hún lært að jólin tengdust Guði og væru haldin til að fagna Jesúbarninu, að ekki hafi verið haldið upp á neitt annað. Hún sagði að í hennar ungdæmi hafi jólin verið látlausasti en að í dag sé ofgnótt af öllu og að jólin nú snúist meira um gjafir en Guð. Hún saknar Guðs í jónum og finnst of lítið talað um Guð í aðdraganda jóla. Ég get tekið undir þetta með henni að mörgu leyti þó ekki hafi ég lifað jafn mörg jól og hún. Í fjölmenningarsamfélagi Íslands í dag má ekki mikið ræða trú, jafnvel ekki í aðdraganda jóla. Mér þykir líklegt að samfélagið, sérstaklega Reykjavík, hafi gengið heldur langt í að ýta kristninni til hliðar við innleiðingu fjölmenningar.  Ég vona að þetta muni jafna sig með tíð og tíma.

En, vitið þið, ég óttast þó ekki að jólin hætti að snúast um Jesú því að jólin hætta ekki að vera kristin þó að við segjum ekki jafn margar sögur af Jesúbarninu á opinberum vettvangi (annars staðar en í kirkjunni). Nei, við höldum Jesú í jólunum með því að gefa hungruðum mat, hugga sorgmædd, elska þau sem eru utanveltu, fyrirgefa þeim sem hafa gert eitthvað á okkar hlut og boða vonlausum von. Jesús er með í jólunum svo lengi sem við elskum náungann og komum fram við allt fólk af kærleika.

Ég hef ekki áhyggjur af því að Jesús hverfi úr jólunum þegar ég upplifi náungakærleikann blómstra allt í kringum okkur. Ég sé hann þegar fólk mótmælir því kröftuglega að Reykjavíkurborg loki Vin, sem er skjól fyrir fólk með geðsjúkdóma. Ég sé náungakærleikann þegar fólk mótmælir því að börn og fólk með fötlun sé sent úr landi þegar það þarf sannarlega á skjóli að halda. Ég sé náungakærleikann afar skýrt fyrir þessi jól þegar fjöldi félagasamtaka heldur safnanir og gefur ágóðann í líknarsjóði kirkna og hjálparsamtaka til þess að hjálpa þeim fyrir jólin sem búa við fátækt. Og þegar einstaklingar koma í kirkjuna í og gefa í líknarsjóð og deila þannig með sér. Já, svo lengi sem við höldum áfram að mótmæla óréttlæti og styðja þau sem þurfa á hjálp að halda þá er Jesús með í jólunum.

Trú snýst ekki eingöngu um það hversu oft þú ferð í kirkju, hvort skólabörn fari í heimsókn í kirkjuna eða hvort þú kunnir trúarjátninguna þó vissulega sé þetta allt gott og mörgum okkar mikilvægt. Trú snýst um að trúa því að til sé eitthvað æðra okkur sem er meiri kærleikur en við höfum nokkurn tíma kynnst og sem fær okkur til að vilja gera vilja Guðs.

Þekkir þú Guð?
Og, þá aftur að spurningunni: „Þekkir þú Guð“?

Ef þú trúir á eitthvað æðra þér sem getur birst okkur í ótrúlegustu aðstæðum og jafnvel í ótrúlegasta fólki, þá þekkir þú Guð. Ég trúi því að Guð sé hinn æðsti kærleikur sem birtist okkur þegar mest á reynir en við tökum sjaldnast eftir því vegna þess að Guð er ekki eins við höldum. Ég trúi því að Guð geti birst í þér og mér þegar við reynumst hvort öðru vel. Ég trúi því líka að Guð geti birst í litla barninu sem fæddist í dag og í heimilislausu konunni sem kom í kirkjuna að þiggja styrk fyrir jólin og þeim sem gaf nafnlaust af örlæti sínu. Ég trúi því að Guð sé mitt á meðal okkar í öllu því sem skiptir okkur máli.

Fallega jólaguðspjallið sem lesið var í kirkjum landsins í gær er afar ólíkt því sem við heyrum í dag. Í gær var það fallega fæðingasagan með englunum, stjörnunni og hirðunum sem sveif yfir öllu. Í dag er það raunsæið þar sem við veltum fyrir okkur hvort við þekkjum Guð. Bæði er mikilvægt. Við þurfum helgisögurnar því þær koma tilfinningum og hugmyndum áleiðis. Þær segja okkur annan sannleika en hinn sögulega. Um leið þurfum við raunsæið því það er hluti af trúarþroskanum.

Dýrð sé Guði sem þekkir okkur og vill að við þekkjum sig.

Amen.

Í augnhæð

Eftir Prédikanir

Prédikun fyrsta sunnudag í aöventu 2022

Í sjónvarpsþáttunum The Big Bang theory er sagt fá því í jólaþætti í fyrstu þáttaröðinni að Penny, stelpan sem býr í íbúðinni hinum megin við ganginn, tilkynnir Sheldon, aðal nördinum (sem er áreiðanlega einhverfur) að hún ætli að gefa honum jólagjöf. Sheldon lifir mjög svo skipulögðu lífi, ferköntuðu jafnvel þar sem ekkert óvænt má gerast og þegar hann heyrir þetta þá fær hann í kvíðakast. Hann er nefnilega með ákveðnar hugmyndir um jólagjafir. Hann gefur aðeins örfáum jólagjafir og vill bara fá jólagjafir frá þessu sama fólki og það er ákaflega mikilvægt að jólagjafirnar sem hann gefur og þær sem hann fær, séu í sama verðflokki. Hann er búinn að koma sér upp nokkuð góðu jólagjafakerfi en svo kemur Penny, sem hann er líklega aðeins búinn að þekkja í nokkra mánuði og segist ætla að gefa honum jólagjöf, bara eins og ekkert sé. Hann er alveg ómögulegur og honum finnst hann náttúrulega verða að gefa henni sambærilega gjöf til baka, hvorki dýrari né ódýrari. Hann ákveður því að kaupa gjafakörfur í öllum stæðum og verðflokkum til þess að vera tilbúinn með sambærilega gjöf hvað sem hann fær frá henni.

Svo kemur að því að hún afhendir honum gjöfina. Hann opnar gjöfina skjálfandi og í ljós kemur órhein servíetta árituð af átrúnaðagoðinu hans, Leonard Nimoy sem lék í Star Trek, eftir að hann hafði þurrkað sér um munninn á henni. Penny vinnur nefnilega á veitingastað og þar sem Nimoy kom og borðaði einn einn daginn.

Þetta var sem sagt óhrein servíetta með áritun Star Trekleikara, ekki gjöf sem lét mikið yfir sér. En fátt, ef nokkuð, hefði getað glatt Sheldon meira en einmitt þessi óhreina servíetta og hann sér að engin af gjafakörfunum sem hann keypti muni nokkurntíma ná sama verðmæti og þessi gjöf hefur í hans huga. Hann sækir því allar körfurnar og gefur Penny og biðst fyrirgefningar á að geta aldrei gefið henni jafn verðmæta gjöf eða ef til vill ættu betur við að segja dýrmæta gjöf. Hann tekur síðan utan um hana, varlega því Sheldon er ekki maður faðmlaga.

Segja má að Sheldon og Penny hafi haft afar ólíkar væntingar þegar kom að jólagjöfum. Sheldon spáði aðeins í virði gjafarinnar í krónum talið á meðan Penny hugsaði frekar um hvað myndi gleðja þennan nýja vin. En bæði höfðu þau væntingar.

Hverjar eru þínar væntingar á þessari aðventu eða fyrir þessi jól?

Nú þegar við hefjumst handa við að undirbúa jólin, við upphaf nýs kirkjuárs og heyrum í guðspjallinu söguna um upphafið að endinum. Sagan af því þegar Jesús kemur ríðandi inn í Jerúsalem í aðdraganda páskahátíðarinnar er sagan um það sem gerist stuttu áður en hann deyr. Aðeins nokkrum dögum eftir að fólkið fagnar Jesú, með því að hrópa „Hósíanna“ eða frelsari, breytast hrópin í „krossfestið hann“. Ástæðurnar fyrir þessu eru fyrst og fremst þær að fólkið sem þarna fagnaði hafði ákveðnar væntingar til Jesú sem ekki stóðust. Hann stóðst ekki þeirra væntingar. Hann hagaði sér einfaldlega ekki eins og frelsari og þaðan af síður eins og konungur, samkvæmt væntingum fólksins.

Svo ótal margt við Jesú Krist var fullt af mótsögnum. Frelsari heimsins fæddist sem lítið ósjálfbjarga barn við ekkert sérstakar aðstæður. Hann umgekkst fólk sem sem ekki þótti við hæfi að almennilegt fólk væri í samneyti við. Hann fylgdi ekki reglum um hvíldardaginn ef einhver þarfnaðist lækningar eða ef afla þurfti matar og svo mætti lengi telja. Já, og svo þegar hann reið inn í Jerúsalem við upphaf páskahátíðarinnar þá kom hann á asna. Asni var, og er, vinnudýr. Asnar eru litlir miðað við hesta sem þýðir að þegar manneskja situr á baki asna þá er hún í augnhæð við fókið sem gengur hjá eða stendur við veginn. Það er því varla til auðmýkri leið til þess að fara leiðar sinnar en að ríða asna, nema ef væri að ganga. Ef Jesús hefði komið á hesti hefði það táknað hernað og ef hann hefði komið í burðarstól hefði það táknað völd og ríkidæmi. Hann hafði hvorugt og hann vildi hvorugt.

Hann stóðst ekki væntingar fólksins.

Stenst hann væntingar þínar?

Stenst fólkið í kringum þig þínar væntingar?

Jesús, sem kom í heiminn til að sýna okkur hvernig Guðs er, kom með auðmjúkum hætti og mætti okkur fyrst sem lítið varnarlaust barn og síðan sem fullorðin manneskja í augnhæð.

Hvað segið það okkur um Guð?

Segir það okkur ef til vill að Guð er ekki alltaf eins og við höldum?

Segir það okkur ef til vill að Guð deilir kjörum okkar og mætir okkur í augnhæð en ekki sem upphafið afl sem uppfyllir allar okkar óskir og refsar okkur þegar við högum okkur illa.

Segir það okkur ef til vill að Guð sé stöðugt að verki og taki þátt í lífi okkar sem hinn æðsti kærleikur en að við tökum ekki alltaf eftir því vegna þess að við væntum þess að Guð sé einhvern vegin öðruvísi?

Ég held að við ættum við að opna huga okkar á þessari aðventu og reyna að koma auga á það hvernig Guð er að verki allt í kringum okkur án þess að vera með fyrirfram ákveðnar væntingar. Ef til vill gerum við það best með því að leyfa Guði að koma okkur á óvart eins og Guð gerði þegar Guð varð manneskja í litlu barni og þegar Jesús Kristur reið inn í Jerúsalem í augnhæð.

Og ef fólkð í kringum okkur stenst ekki okkar væntingar þá er einn möguleiki að endurskoða væntingarnar okkar.

Sheldon taldi sig hafa undirbúið sig fullkomlega fyrir hvaða gjöf sem Penny myndi gefa honum með því að kaupa allar stærðir af gjafakörfum en henni tókst samt sem áður að koma honum á óvart og gefa honum eitthvað miklu betra en hann hefði getað ímyndað sér.

Guð er líka miklu betra en nokkuð sem við getum ímyndað okkur. Guð er kærleikur sem er dýpri en allt sem við getum ímyndað okkur og mætir okkur þar sem við erum.

Látum Guð koma okkur á óvart. Við getum hvort eð er ekki undirbúið okkur.

Dýrð sé Guði sem elskar okkur eins og við erum og mætir okkur í augnhæð.