Skip to main content
Monthly Archives

maí 2016

Tölum um Guð

Eftir Prédikanir

Unanfarin ár hef ég verið að skoða hversu mikið söfnuðurinn heyrir af því sem prédikarinn vill koma á framfæri. Það sem hefur komið mér mest á óvart er hversu ólíkar og fjölbreyttar guðsmyndir fólksins, sem sækir guðsþjónustur, eru. Það sem einnig hefur komið í ljós, og kemur reyndar ekki á óvart, er að því skýrari sem guðsmynd prédikarans er og því sterkari sem rauði þráðurinn í prédikuninni er, þeim mun líklegra er að fólk heyri það sem prédikarinn vill segja. Þessar rannsóknir eru hluti af frammhaldsnámi mínu í prédikunarfræðum.

Eitt aðal verkefni prédikarans, fyrir utan að lesa guðfræði og vera virk(ur) í samfélagi fólks, er að skoða og þróa sína guðsmynd og íhuga og prófa sig áfram í hvaða hugtök lýsa þeirri mynd eða myndum best.

Hlutverk prédikarans í dag er í mínum huga að heimfæra Biblíutexta og þannig hjálpa fólki að halda áfram að móta sína eigin trú og guðfræði og með því dýpka samband sitt við Guð. Hlutverk prédikarans getur aldrei verið að útskýra fyrir fólki hver eða hvað Guð er því myndir okkar eru ólíkar og ekkert sem styður að mynd prédikarans sé “réttari” en myndir þeirra er hlýða á prédikunina. Það getur jafnvel verið svo að guðsmyndirnar í kirkjunni séu jafn margar og ólíkar og fólkið sem þar er.

Eru þá allar guðsmyndir jafn réttar?

Svarið er einfalt: Já. Nánar

Hann skammaðist og fór

Eftir Prédikanir

Að yfirgefa
Ég er nokkuð viss um að þú hafir einhverntíma upplifað þig yfirgefna eða yfirgefinn. Kannski var það þegar börnin fóru að heiman, eða þegar foreldrar þínir dóu. Kannski var það vegna þess að þú misstir einhvern í ótímabæru andláti eða vegna skilnaðar. Mögulega urðu vinslit, ósætti eða deilur til þess að þú upplifðir þig yfirgefna eða yfirgefinn.
Ég er líka nokkuð viss um að hvort sem þetta var af eðlilegum ástæðum sem voru hluti af gangi lífsins eða vegna vegn áfalls, þá hafi tilfinningin ekki verið góð.

Ég tel einnig líklegt að þú hafir einhverntíma þurft að yfirgefa fólk eða aðstæður og að það hafi verið erfitt. Kannski var það þegar þú fórst að heiman í fyrsta sinn eða þegar þú þurftir að koma þér út úr sambandi sem var vont fyrir þig. Kannski var það þegar þú fluttir úr sveitinni og seldir jörðina eða þegar þú skiptir um starf eða hættir að vinna sökum aldurs.

Það er erfitt að upplifa höfnun en það getur ekki síður verið erfitt að vera sá eða sú sem þarf að yfirgefa, að fara, að hætta.

Ég hef verið yfirgefin og upplifað höfnun. Ég hef líka þurft að koma mér út úr aðstæðum og sært einhvern um leið. Þessar aðstæður kalla ekki fram sömu tilfinningarnar en þær geta báðar verið sárar og erfiðar. Nánar