Skip to main content
Monthly Archives

júní 2021

Bjálki, flís og slaufun

Eftir Prédikanir

Bjálki og flísar
Jesús hafði einstaka hæfileika til að gera boðskap sinn skiljanlegan með snjöllum líkingum. Þær eru gjarnan einfaldar og snjallar en oft er líka mikill húmor í þeim. T.d. þessi með að koma kameldýri í gegnum nálarauga, að rétta fram hinn vangann og svo líking dagsins um bjálkann og flísina.

Sjáum þetta fyrir okkur. Ég geng um með bjálka, stóra spýtu eða staur út úr auganu á mér og á sama tíma er ég að bisast við að tína flísar úr augum fólksins í kringum mig.
Hvað gerist?

Jú ég hlýt að reka bjálkann utan í fólkið og svo er stór hætta á að ég roti fólk þegar ég sný mér. Á sama tíma ætla ég að ná litlum flísum úr öðrum!

Dómar
Þessi sunnudagur fjallar um dóma. Allir textar dagsins fjalla um réttláta dóma, um auðmjúka dóma og um umburðarlyndi gagnvart fólki.

Í lexíu Gamla testamentisins segir Guð við Sakaría:
„Fellið réttláta dóma
og sýnið hver öðrum miskunnsemi og samúð.
Níðist hvorki á ekkjum, munaðarleysingjum,
aðkomumönnum né fátæklingum
og hyggið ekki á ill ráð
hver gegn öðrum í hjarta yðar.“ (Sak 7:8-10)

Í pistli dagsins í Rómverjabréfinu brýnir Páll postuli, fyrir söfnuði sínum umburðarlyndi gagnvart þeim sem sem eiga aðra trú og búa við ólíka menningu og siði. Já og í guðspjallinu minnir Jesús okkur á að dæma ekki annað fólk harðar eða með öðrum hætti en við getum sjálf hugsað okkur að vera dæmd. Og svo hnykkir hann út með líkingunni um bjálkann og flísina og biður okkur um að vera ekki hræsnarar.

Bersyndugt fólk og slaufun
Þetta eru býsna ákveðin skilaboð á sumardegi í júní en eins og svo oft er Biblían með puttann á púlsinum vegna þess að umfjöllunarefnin eru sístæð. Dómharka er ekkert nýtt fyrirbæri. Slaufunarmenning (cancel culture) er ekki nýtt fyrirbæri þó búið sé að finna nýtt hugtak yfir það.

Við höfum alltaf reynt að útiloka ákveðna hópa, ákveðið fólk, og oft tekist það býsna vel. Ég held að í flestum samfélögum og á öllum tímum séu einhver álitin bersyndug. Bersyndugar konur voru grýttar til dauða, á tímum Jesú frá Nasaret því þær hegðuðu sér ósæmilega samkvæmt einhverju fyrirfram ákveðnu viðmiði en karlar sem stunduðu sambærilegt líferni voru ekki grýttir. Nornir og galdrakarlar voru brennd langt fram eftir öldum því þau þóttu ósæmileg og jafnvel hættuleg. Konur sem fóru í hið svo kallaða „ástand“ á hernámsárunum voru sannarlega álitnar bersyndugar og þeim komið fyrir á sérstökum heimilum og brennimerktar í augum almennings. Fólk sem tjáð hefur skoðanir sem ekki samræmast því sem er viðurkennt hefur oftar en ekki verið útilokað og jafnvel fangelsað og tekið af lífi í ákveðnum samfélögum og svona mætti lengi telja.

Í dag þegar þetta fyrirbæri hefur færst yfir á samfélagsmiðla er það farið að vekja athygli okkar á annan hátt. Ef til vill er það vegna þess að miðlarnir eru öflugir og hlutirnir því fljótir að gerast og þróunin hröð. Slaufunarmenningin hefur í það minnsta fengið mikla umfjöllun undanfarið í fjölmiðlum og oft á tíðum fjallað um þetta sem nýtt fyrirbæri þó því sé fjarri lagi. Ef til vill er ástæðan fyrir þessari miklu athygli og áhuga á fyrirbærinu þessa dagana sú að þetta hefur að miklu leyti beinst gegn þekktum listamönnum, fremst körlum sem hafa brotið á konum.

Dómstólar götunnar
Gatan hefur alltaf átt sinn dómstól eða öllu heldur dómstóla. Og við vitum sjaldan fyrirfram hvaða hópur verðu talinn hinn bersyndugi næst. Það er þó munur á því að verða fyrir slaufun fyrir að hafa brotið á annarri mannesku, beitt ofbeldi en að verða fyrir þessu fyrir það eitt að tilheyra t.d. ákveðnum minnihlutahópi eða fyrir að tjá óvinsælar skoðanir. Það sem hefur gerst með annarri bylgju #metoo er að nú beinist útilokunin eða slaufunin að gerendum en ekki þolendum eins og algengara hefur verið í gegnum tíðina. Þessi slaufun ber auk þess með sér að fólk sé í auknum mæli farið að taka mark á þolendum kynferðisbrota.

Ég nokkuð viss um að ástæðan fyrir því að þessi aðferð er svo áhrifarík gagnvart körlum sem beita konur ofbeldi snýst um vantraust á dómstólunum sem hafa það hlutverk að dæma í þessum málum. Hún er skiljanleg og oft á tíðum upplifir fólk hana sem eina úrræðið.

Eiga afturkvæmt
Ég er þó sannfærð um að þau sem verða fyrir slaufunaraðferðinni á samfélagsmiðlum í dag (vegna ásakana um kynferðisbrot) eigi flest eða öll afturkvæmt ef þau aðeins gangast við því sem þau hafa gert á hlut annarra og tjá það með heiðarlegum og einlægum hætti. Ef þau sýna sanna iðrun og yfirbót. Það er alls ekki víst að þau fái fyrirgefningu allra, enda er það oft á tíðum til of mikils ætlast, en þau eiga afturkvæmt í samfélg sem yfirleitt er tilbúið til að fyrirgefa þeim sem iðrast. Hér þýðir þó ekkert að koma með hálfgildings útskýringar eða afsakanir því fólk þekkir muninn á sannri iðrun og falskri. Þetta kemur aldrei í staðinn fyrir dóm þar til bærra dómstóla þegar brot hefur átt sér stað en getur þó haft töluverð áhrif á æru fólks og stöðu.

Bjálki og flísar
Áður en við tökum þátt í því að slaufa fólki er gott að skoða bálkann í augum okkar sjálfra. Ef ég er farin að taka eftir flísunum í augum fólksins í kringum mig er besta ráðið að ráðast að bjálkanum sem stendur út úr höfðinu á sjálfri mér, áður en ég fer að tína flísarnar. Mér er ómögulegt að ná flís úr augum annarra ef ég læt bjálkann vera því ég mun bara skaða annað fólk á leiðinni og jafnvel sjálfa mig líka.

Og hver veit nema ég sjái skýrar þegar bjálkinn er horfinn.

Á þessum sunnudegi dómsins erum við hvött till þess að dæma ekki eða að öðrum kosti að fella réttláta dóma. Það gerum við best ef við förum að ráði Jesú og könnum stöðuna á bjálkanum í okkar eigin auga áður en við dæmum annað fólk.

Dýrð sé Guði sem ævinlega dæmir réttlátlega, Guði sem dæmir af ást.