Skip to main content
Monthly Archives

febrúar 2021

Tillögur að föstu

Eftir Prédikanir

Að reka út illa anda
Hefur þú rekið út illa anda? Heldurðu að það sé ekki magnað að geta það?

Prestar eru reyndar stundum kallaðir á heimili til þess að blessa það (og jafnvel reka út eitthvað illt) þegar fólk upplifir eitthvað óþægilegt á heimilinu sínu. Oftast nær felst það í því að presturinn gengur um heimilið, signir yfir glugga og hurðir, blessar heimilið og íbúa þess og biður fyrir þeim.

Í guðspjalli dagsins er sagt frá því hvernig 70 manns, sem Jesús hafði sent á undan sér til þess að boða Guðs ríki, komu til baka uppnumin yfir kraftinum sem bjó í þeim. Þau gátu jafnvel rekið út illa anda!

Flest erum við ekki mikið í því, að reka út illa anda, ekki svona dags daglega í það minnsta.

Eða hvað?

Fastan
Í dag er fyrsti sunnudagur í föstu en fastan hefst á öskudaginn ár hvert. Fastan stendur rúmlega í fimm vikur frá öskudegi til páskadags. Þessi tími er hugsaður til íhugunar og iðrunar og yfirbótar. Þetta er tíminn sem leið frá því Jesús mun hafa haldið til Jerúsalem á vit örlaga sinna og fram að því er hann var handtekinn og krossfestur. Á páskadag hefst síðan tímabil upprisunnar, gleðidagarnir. Á föstunni er gott að gefa okkur tíma til þess að íhuga lífið okkar, hvað það er sem skiptir máli, samband okkar við Guð, annað fólk og okkur sjálf. Á föstunni er vel viðeigandi að gefa okkur rými til þess að skoða hvernig við getum bætt okkur og vaxið sem manneskjur og í trúnni. Góð leið er að nýta föstuna til þess að horfa inn á við, iðka bæn og jafnvel íhugun.

Löng hefð er fyrir því að fasta með því að sleppa einhverju eða neita okkur um eitthvað til þess að eignast eitthvað annað. Að sleppa einhverju sem við erum vön að gera vegna þess að það er vont fyrir okkur eða tekur frá okkur dýrmætan tíma sem við getum nýtt til annars sem skiptir meira máli. Þannig búum við til rými fyrir meiri gæði í lífi okkar. Gjarnan hefur fólk fastað á mat en það er allt eins hægt að fasta á eitthvað annað.

Hættan við föstuna er að við hættum eða sleppum einhverju aðeins til þess að refsa okkur eða til þesss að kanna hversu mikið við þolum, hversu staðföst við erum eða hversu mikið við getum þjáðst. En þá er fastan farin að snúast um eitthvað annað. Ef við föstum á eitthvað, sleppum einhverju sem við erum vön og okkur þykir ef til vill gott, þá hlýtur það að vera til þess að gefa öðru, sem er betra fyrir okkur, rými eða vegna þess að þessar venjur okkar eru niðurbrjótandi fyrir okkur eða náunga okkar á einhvern hátt.

Í dag er hugtakið fasta sannarlega ekki framandi fyrir mörg okkar. Mikið af fólki fastar á mat t.d. 12 til 16 tíma á dag og borðar svo í 8 til 12 tíma. Sum fasta tvo daga í viku og önnur nokkra daga á mánuði eða ári. Sjálfsagt liggja ólíkar hvatir að baki þessara fastna en grunnhugmyndin hlýtur þó alltaf að bæta líðan og heilsu, líkamlega og andlega.

Hvernig ætlar þú að nota föstuna? Þó nokkuð er um að fólk fasti á samfélagsmiðla til þess að búa til tíma fyrir eitthvað annað. Sum sleppa því að borða eitthvað sem það veit að er ekki gott fyrir það til þess að bæta heilsuna. Og enn önnur nýta föstuna til þess að íhuga og bæta samband sitt við Guð með því að iðka trúna reglulega og betur.

Tillögur að föstu
Ætlar þú að fasta á eitthvað?

Vilt þú að nota tímann til þess að íhuga líf þitt og samband þitt við Guð, náungann og sjálfa/n þig?

Ég er með tillögu að föstu.

Hvað segir þú um að fasta á öll meiðandi samskipti þín við sjálfa/n þig? Að losa þig við:

  • Óttann við að mistakast,
  • að gera öllum til geðs,
  • öfund,
  • sjálfselsku,
  • óþolinmæði
  • þrönga Guðsmynd,
  • samanburð við annað fólk,
  • græðgi.

Hvað segir þú um að nýta þessa föstu til þess að fasta frá því að efast stöðugt um sjálfa/m þig, að dæma þig of hart og að vera stöðugt að skamma sjálfa/n þig og refsa þrátt fyrir að þú sért alltaf að gera þitt besta?

Það er nefnilega svo að mörg okkar eru okkur sjálfum verst. Við dæmum okkur sjálf mun harðar en annað fólk og refsum okkur stöðugt fyrir að vera ekki fullkominn. Ef til vill er kominn tími til að fasta frá því og þannig gefa okkur rými til þess að láta okkur þykja vænna um okkur sjálf og sýna sjálfum okkur meiri góðvild.

Óæskilegir andar
Getur verið að þeir „ illu andar“ sem þú þarft að reka burt séu vondar og meiðandi hugsanir um sjálfa/n þig?

Það að reka út illa anda þarf ekki að snúast um eitthvað yfirnáttúrulegt. Það getur falist í að breyta hugsunarhætti okkar sem er neikvæður og niðurdrepandi fyrir anda okkar. Það getur snúist um að breyta venjum sem eru ekki góðar fyrir okkur, hætta einhverju til þess að búa til rými fyrir annað eða hætta að vera vond við okkur sjálf og láta okkur þykja vænt um okkur eins og um annað fólk. Að gefa okkur sjálfum annað tækifæri.

Þegar þessi 70 koma til baka eru þau svo ánægð með kraftinn sem í þeim býr sem jafnvel illir andar hafa hlýtt. Og þegar Jesús sér það gleðst hann með þeim en segir við þau að í stað þess að gleðjast aðeins yfir því að vera fær um að reka út hið illa og yfir mættinum sem í þeim býr ættu þau að gleðjast yfir því hvaðan krafturinn kemur, að krafturinn kemur frá Guði sem ritar nöfn okkar á himnum. Best er að gleðjast yfir því að vera í liði kærleikarns, liði Guðs.

Það sama á við um okkur, þig og mig. Við erum hluti af þessum 70 sem Jesús sendi út til þess að boða Guðs ríki og krafturinn sem bjó í þeim býr einnig í okkur. Við erum fær um að reka út illa anda, illu andana sem við þurfum að losa okkur við úr lífi okkar til þess að búa til pláss fyrir eitthvað annað og betra. Við getum rekið út vondar og meiðandi hugsanir í garð okkar sjálfra og náungans vegna þess að við erum ekki ein. Við erum hluti af þessum 70 og kraftur Guðs býr í okkur ef við leyfum okkur að finna hann.

Allt megnum við fyrir kraft Guðs.

Dýrð sé Guði sem gefur okkur máttinn til þess að bæta líf okkar sjálfra og náunga okkar og ritar nöfn okkar á himnum. Amen.