Skip to main content
Monthly Archives

janúar 2021

Manneskja ársins

Eftir Prédikanir

Loksins
Gleðilegt ár!
Loksins kom 2021. Ég held að nýtt ár hafi varla nokkurn tíma verið jafn kærkomið og nú.. Ég held að flest séum við fegin að sjá árið 2020 hverfa í móðu minninga. Í fyrstu bylgju kórónaveirunnar í mars, var fólk þegar farið að tala um að kveðja þetta ár sem fyrst því þetta væri svo vont ár og ekki bætti úr slys, vond veður og náttúruhamfarir sem höfðu verið áberandi mánuðina á undan. Þetta var á þeim tíma þegar við voru að bíða af okkur þessa óværu og gerðum ráð fyrir að lífið kæmist fljótt í samt lag á ný, jafnvel þegar í maí eða júní. Þetta var á þeim tíma þegar við frestuðum öllu því þetta var alveg að fara að ganga yfir. Við þurftum aðeins að halda út í svolitla stund til viðbótar og svo yrði allt gott á ný.

En sú varð ekki raunin. Með haustinu skyldum við smám saman að veiran væri ekki að fara og að við yrðum að bíða eftir bóluefni og því gætum við ekki frestað lífinu lengur. Þá urðum við að temja okkur langlundargeð, læra að lifa með þessu og gera það besta úr þessu öðruvísi lífi á meðan við biðum þetta af okkur. Og við fórum að ferma og skíra börnin. Fólk gekk í hjónaband en allt var þetta með öðru sniði en áður. Við lærðum að halda fjarlægð, nota grímur og daglegt líf okkar færðist að stórum hluta yfir á netið.

Blessuð manneskja ársins
Í upphafi þessa árs, sem við höfum beðið með eftirvæntingu eru skilaboð ritningarinnar að þú ert blessuð manneskja. Með blessunarorðunum sem Guð færði Móse, að hann blessaði fólkið með, er okkur fylgt inn í nýtt ár: „Drottinn blessi þig og varðveiti þig…“

Já, þú ert blessuð manneskja og ekki nóg með það heldur ert þú manneskja ársins.

Þú ert ekki manneskja ársins vegna þess að allir landsmenn hafa séð þig í sjónvarpinu eða vegna þess að þú útvegaðir okkur bóluefni eða skoraðir flest mörk á vellinum. Nei, þú ert manneskja ársins vegna þess að þú tókst á við þetta erfiða ár sem nú er liðið og þú stóðst þig vel. Sjálfsagt klikkaðir þú einhvern tíma á sóttvörnunum og gleymdir að halda bilið. Ef til vill gleymdirðu þér og knúsaðir frænku þína þegar það var orðið bannað eða kíktir á lífið í bænum í desember þegar gáfulegra hefði verið að halda þig heima. En þú stóðst þig líka vel. Öll hin skiptin. Þegar þú settir upp grímu, slepptir því að hitta fólkið þitt, hættir að að hitta vinnufélagana annars staðar en á Zoom eða Teams. Þú stóðst þig vel þegar þú skipulagðir starfið á vinnustaðnum þínum með það í huga að finna jafnvægi á milli þess félagslega og sóttvarna. Þú stóðst þig vel þegar þú varst með okkur öllum í að gæta þess að veiran dreifðist ekki enn meira en raun varð.

Reglusamfélagið
Þegar við búum í svo miklu reglusamfélagi, sem við höfum gert undanfarið, er hætta á því að við förum eingöngu að einblína á það þegar reglur eru brotnar. Við fylgjumst með náunganum og tilkynnum hann ef hann stendur sig ekki því okkur finnst að reglurnar eigi að gilda um okkur öll en ekki aðeins sum okkar. Það er gott að við hjálpumst að við að fylgja reglunum á meðan við erum að gæta þess að fleiri veikist ekki en ég held að það sé líka hollt fyrir okkur, sem manneskjur og samfélag, að muna eftir því að hrósa því sem vel er gert. Við höfum verið nokkuð dugleg að hrósa þeim sem standa í framlínunni (þó einnig sé oft stutt í gagnrýnina þegar þau standa sig ekki, sérstaklega núna undanfarið þegar við erum öll orðin svo þreytt). En við megum líka hrósa hvert öðru. Hrósa hverri einustu manneskju sem verslar í matinn með grímu, heldur jól í fámenni og hefur verið að vanda sig með náungakærleikann að leiðarljósi.

Álfheiður, 18 ára stúlka sem smitaðist af Covid-19 rétt fyrir jólin en gott dæmi um manneskju ársins en það var viðtal við hana í fréttum á Þorláksmessu. Þessi unga kona sá fram á að sitja ein á hótelherbergi yfir jólin og áramótin en það sem henni var efst í huga var að hún myndi ekki smita aðra. Ég efast ekki um að þetta verður henni og öðrum sem nú eru og hafa verið í sóttkví eða einangrun yfir jól og áramót, erfitt þrátt fyrir að hún hafi borið sig vel. En hún og öll þau sem ekki hafa fengið að vera heima hjá sér á þessum tíma eru í bænum okkar.

Manneskja ársins
Þú ert manneskja ársins. Þú hefur lært svo margt á árinu sem nú er liðið. Þú kannt kannski að taka þátt í fundum á Teams og rétta rafrænt upp hönd. Þú ert ef til vill komin með reynslu af því að taka þátt í matarboðum eða saumaklúbbum í gegnum tölvuna og þú veist að þú færð færri pestir ef þú heldur fjarlægð, gætir að handþvotti og knúsar ekki öll þau sem þú mætir.  Já og ef til vill hefur þú lært að vera sjálfri þér nóg/nógur. Þetta er allt mikilvæg reynsla og lærdómur og við þurftum á þessu að halda til þess að komast í gegnum þetta ár. Og margt af því sem við lærðum hefur bætt líf okkar og því við munu við nýta okkur það áfram.. En ég er nokkuð viss að við verðum fegin þegar við megum koma í matarboð í eigin persónu, faðmast, þó við fáum oftar kvef, og hitta vinnufélagana á ný.

Nú eru að hefjast nýjir tímar. Ár vonar er runnið upp.

Við þurfum þó að sýna þolinmæli áfram og muna eftir jafnvæginu, sköpunarkraftinum og kærleikanum sem við höfum lært að sýna og nýta síðastiðið ár. Það mun taka einhvern tíma að bólusetja okkur öll.

Þú ert manneskja ársins því þú gerðir það sem í þínu valdi stóð til þess að við kæmumst eins ólöskuð og hægt var inn í árið 2021. Þú ert blessuð manneskja því þú ert hluti af heilagri sköpun sem Guð elskar og blessar í upphafi nýs árs og alla daga.

Dýrð sé Guði sem er kærleikur, sem elskar þig og blessar. Amen.

Prédikun flutt á nýársdag 2021 í Grafarvogskirkju