Skip to main content
Monthly Archives

nóvember 2024

Jólaheimsóknir á aðventu

Eftir Pistlar

Greinin birtist á visir.is 25. nóvember 2024

Nú styttist í aðventuna, undirbúningstíma jólanna. Ég er líkast til ekki að koma neinum stórkostlega á óvart þegar ég segi að ég hlakka mikið til jólanna. Ég er jólabarn. Hefðirnar, maturinn, samveran. Jólin fyrir mér, er þegar ég geng inn í kirkjuna um fimm leitið á aðfangadag að undirbúa mig fyrir aftansönginn. Jólin fyrir mér eru biðin eftir síðust nótunni í forspili orgelleikarans svo að ég geti óskað söfnuðinum gleðilegra jóla.

Þá eru jólin komin.

Ég lærði nýverið að ár eftir ár, er vinsælasti dagskrárliður útvarpsins þögnin. Ekki hvaða þögn sem er, heldur okkar þögn. Þögnin á undan kirkjuklukkunum sem hringja inn jólin vítt og breitt um landið, og um allan heim kl. 18:00 á aðfangadagakvöldi.

Á tímum þar sem okkur er sífellt stíað í sundur, við flokkuð í hópa eftir pólitískum skoðunum, áhugamálum, aldri, kyni, kynhneigð eða búsetu þykir mér fallegt að hugsa til þess að einu sinni á ári leggja hundruð þúsunda Íslendinga, nýir og gamlir, hér heima og erlendis, jólastressið til hliðar, eitt andartak, hækka í þögninni og bíða eftir jólunum.
Gleðileg jól.

Klukkan er sex á aðfangadagskvöld, ég lít yfir söfnuðinn minn. Fólk er í sína fínusta pússi, jólastressið er runnið af fólkinu, forspilinu er lokið.
Gleðileg jól.
Hvernig eru þín jól?

Ég held jól til þess að fagna komu frelsarans í heiminn. Vissulega er ólíklegt að Jesús hafi fæðst á þessum árstíma, en í óvissunni hefur hinn kristni heimur sameinast um að fagna fæðingunni þegar sólin fer að hækka á lofti. Margar ástæður eru fyrir því að þessi tími var valinn en hann er einmitt svo viðeigandi því Jesúbarnið færir heiminum ljós og birtu og sýnir okkur hve mikið Guð elskar manneskjuna.

Hvers vegna heldur þú jól?

Við höldum ekki öll jól vegna þess að við erum kristin, þó meirihluti þjóðarinnar geri það af þeirri ástæðu. Sum okkar halda jól til þess að fagna birtunni og enn önnur taka þátt í hefðinni vegna þess að hún er falleg og góð.

Það er mikilvægt að við virðum þessar ólíku ástæður fyrir jólahaldi, en á sama tíma megum við ekki verða feimin við kristna arfleifð þjóðarinnar. Í kristnitökunni var það meðvituð ákvörðun að leyfa blót á laun. Þannig er umburðarlyndi fyrir öðrum trúarbrögðum, og jafnvel trúfrelsi, rist í sjálfar rætur kristninnar hér á landi. Engu að síður erum við, og höfum verið alla tíð síðan, kristin þjóð. Lang stærsti hluti þeirra sem hér búa tilheyra kristnum söfnuðum og sækja gildi sín til kristninnar.

Fyrir nokkrum árum fór fram mikil umræða hér á landi um heimsókn skólabarna í kirkju fyrir jólin. Kjarni þeirrar umræðu var sá að þar sem ekki öll börnin eru kristin þá væri óboðlegt að fara í kirkju og skilja hluta barnanna eftir í skólanum á meðan meirihlutinn fór með. Þá komu einnig fram áhyggjur af því að prestar safnaða Þjóðkirkjunnar boðuðu börnum trú á skólatíma.

Niðurstaða þessara umræðna, sem ég tel að hafi verið góðar og heilbrigðar í samfélagi sem var að breytast, varð sú að Reykjavíkurborg og nokkur bæjar- og sveitafélög komu sér saman um samskiptareglur á milli leik- og grunnskóla og trúfélaga.

Hvergi í þeim reglum er skólum bannað að heimsækja kirkjur, og allra síst á hátíðum, svo lengi sem þar fer fram fræðsla en ekki boðun og að heimsóknir séu unnar í samstarfi við skólastjórnendur. Þá hefur Félags- og barnamálaráðuneytið útbúið samskiptareglur skóla og trúfélaga. Þær má finna á vef ráðuneytisins.

Þessar reglur eru harla góðar og því hafa söfnuðir Þjóðkirkjunnar sem taka á móti skólabörnum á aðventunni lagt sig fram um að vera í góðu samstarfi við skólastjórnendur sem yfirleitt ráða dagskránni.

Mig langar því að hvetja skólastjórnendur og foreldra til þess að koma í kirkjuna í hverfinu/bænum/sveitinni ykkar á aðventunni þar sem það er í boði. Þá vil ég ekki síður hvetja skólastjórnendur til þess að vera opna fyrir því að heimsækja önnur trúfélög á þeirra hátíðum þar sem það er í boði. Börnin okkar hljóta að verða ríkari af því að kynnast ólíkum trúarbrögðum því þegar upp er staðið eru það foreldrarnir eða nánustu aðstandendur sem eru mikilvægustu áhrifavaldarnir í lífi barna. Ekki trúarleiðtogi í söfnuði.

Ég held að skólar ættu einnig að skoða að bjóða sem allra flestum börnum að koma með í slíkar heimsóknir, ekki aðeins þeim er tilheyra viðkomandi trúarbrögðum. Í því felst möguleiki á að auka þekkingu og um leið umburðarlyndi fyrir ólíkum trúarbrögðum og uppruna fólks.

Nú á aðventunni bjóða fjölmargir söfnuðir Þjóðkirkjunnar upp á aðventustundir fyrir skólabörn í samráði við skólastjórnendur og gjarnan er hlutverk prestsins, djáknans eða æskulýðsfulltrúans aðeins að stýra samkomunni og segja fallega jólasögu. Þá er oftar en ekki organisti með sem heldur utan um tónlistina. Í þeim söfnuðum þar sem ekki eru haldnar sérstakar stundir fyrir skólabörn er oft boðið upp á aðventustund fjölskyldunnar í kirkjunni og er hún þá alveg óháð skólunum.

Á þessum undirbúningstíma jólanna er einstakt að geta komið inn í kirkju, sungið jólalög, heyrt jólasögur, kveikt á kertum og fundið fyrir helgi og frið í hjarta auk þess sem stundum er boðið upp á góðgæti. Mögulega koma börnin heim úr þessum heimsóknum með virðingu fyrir helgi þeirra sjálfra og annarra.

Um leið og ég óska þér kyrrðar og friðar á þessari aðventu vil ég hvetja skólastjórnendur og foreldra til þess að þiggja boð safnaðanna um að koma í heimsókn í kirkjuna sína um jólin.

Himnaríki í gamalli kirkju

Eftir Fréttir, Prédikanir

Prédikun flutt í tilefni að aldraafmæli Oddakirkju á Rangárvöllum 24. nóvember 2024.

 

Aldarafmæli
Kæri söfnuður, innilega til hamingju með afmælið.

Það er mikilvægt að halda upp á afmæli og stóra viðburði og gleðjast yfir því sem er gott og gengur vel. Og þegar kirkja hefur staðið á sama stað í heila öld þá er ástæða til að gleðjast. Þessa kirkja er nefnilega ekki eingöngu hús heldur er hún tákn um líf, samstöðu fólks og iðkun trúar þar sem fólk kemur saman jafnt á gleði- sem sorgarstundum.

Oddakirkja er þannig hús. Og það sem meira er, er að Oddi mun vera einn elsti kirkjustaður Íslendinga því hér hefur staðið kirkja allt frá kristnitöku.
Í handriti Brynjólfs Jónssonar frá Minnahópi frá 1861 er að finna eftirfarandi vitnisburð um Odda á Rangárvöllum:

„Jólgeir landnámsmaður reið eitt sitt hart frá bæ sínum á Jólgeirsstöðum. Sá hann þar sand í sporum hestsins. Þá sagði hann: „Ekki verður þess langt að bíða, að þessi jörð, eyðileggist í sandfoki. Skal ég og hér ekki lengur vera“. Hann flutti sig þá burt frá Jólgeirsstöðum með allt sitt og hét því að hann skyldi þar sem búa sem hann yrði staddur um sólarlag um kvöldið. Var það í Odda og þar byggði hann síðan. Þau ummæli fylgja Oddastað frá fornöld að hann skal ávalt eflast með örlæti, en eyðast með nísku, og segja menn að það sé sannreynt, að örlátir menn búi það best.“

Ja, það er sannreynt að hér býr örlátt fólk best enda hefur Oddasókn verið ákaflega lánsöm hvað presta varðar auk þess sem hér hafa löngum búið miklir höfðingjar sem hafa látið til sín taka.

Eilífðarsunnudagur
Í dag er síðasti sunnudagur kirkjuársins, nokkurs konar gamlársdagur. Og hvað er meira viðeigandi á gamlársdegi en að huga að eilífðarmálunum, tilvistarspurningunum. Þessi sunnudagur fær titilinn eilífðarsunnudagur en er í fjölmörgum systurkirkjum okkar kallaður dómssunnudagur.

Efni þessa dags er eilífa lífið eða spurningin um það sem tekur við af lífinu sem við þekkjum nú, hér á þessari jörð.

Guðspjall dagsins á svolítið illa við nútímann. Engu að síður er textinn er áhugaverður og þess virði að glíma við hann.

Þar er sagt frá því að ákveðinn hópur fólks vilji ræða við Jesú um upprisuna. Þeir vitna í Móse og segja að ef maður deyji barnlaus þá skuli bróðir hans kvænast konu hans og eignast með henni börn (helst syni). Hér er um að ræða sjö bræður. Sá fyrsti kvæntist og dó án þess að eignast son. Þá gekk næsti bróðir í hjónaband með ekkjunni. Eins var um næsta og þriðja og alla sjö. Síðast dó konan. Og þá kemur spurningin, kona hvers þeirra sjö er hún í upprisunni?

Hér er sem sagt spurningin, hverjum þeirra bræðra var hún gift í himnaríki. Mér þykir mun áhugaverðari spurning, hvernig leið konunni sem þurfti að giftast sjö bræðrum til þess að eignast soninn sem aldrei kom? Hvernig var líf hennar?

Sagan er hér sögð frá sjónarhorni bræðrana en ekki konunnar en hún var þó sú sem lifði þá alla.

Hér ber að hafa í huga að ástæðan fyrir því að hún varð að eignast son var sú að án bæði sonar og eiginmanns átti hún enga möguleika á því að sjá sér farborða. Hún varð því að eignast son til þess að enda ekki hreinlega á götunni.

Í bókinni 60 kíló af sólskini eftir Hallgrím Helgason kemur einmitt þetta guðspjall fyrir á nokkuð skemmtilegan hátt. Við grípum niður í bókina í Maddömuhúsi þar sem sr. Árni bjó ásamt maddömum sínum. Einar er nýdáinn og ekkja hans og sambýlingar allir úr kotinu eru þarna staddir:

„Séra Árna þótti þá kvöldið heyra upp á sig og dró þvi fram sinn mikla svarta manúal og opnaði á þeim stað sem hann taldi baðstofu þessa nú stadda á.
„Ég gríp hér niður í Lúkasarguðspjalli: Meistari Móse segir oss í ritningunum, að deyji maður kvæntur en barnlaus, skuli bróðir hans ganga að eiga…“
Presturinn hikaði í lestrinum og bölvaði sér í hljóði, hann hafði ruglast, þvílíkur viðvaningur, þetta var alls ekki rétti kaflinn. En söfnuðurinn smái hafði hengt sín eyru á þessar línur og Steinka heimtaði meira.
„Eiga…?“
Séra Árni þorði ekki annað en að hlýða.
„…skuli bróðir hans ganga að eiga ekkjuna og vekja honum niðja. Nú voru…“
„Nú, já? Eru það kirkjulögin? Og hvað?“
„Nú voru sjö bræður. Sá fyrsti tók sér konuna og barnlaus. Gekk þá annar bróðirinn…“
„Ne-ei. Ekki Hannes. Hann tek ég ekki.“

Já, þarna var íslensk kona í Segulfirði sem tók þessum orðum alvarlega enda leit hún á þau sem kirkjulög en setti þó mörkin við annan bróðurinn. Hann vildi hún ekki ganga að eiga.

Okkur getur þótt þessi guðspjallstexti kómískur í dag en hann var þó bláköld staðreynd í miðausturlöndum á tímum Krists. Sem betur fer erum við ekki upp á þess konar biblíulög komin í dag og ekkja getur séð sér farborða hvort sem hún á son eður ei.

Upprisan og eilífa lífið
Já, það er auðvelt að láta guðspjall dagsins afvegaleiða sig í allskyns útúrdúra en efni þess er þó í raun ekki hver giftist hverjum heldur upprisa og eilíft líf. Jesús svarar spurningu fólksins um það hverjum konan er gift í upprisunni svo, að í upprisunni kvænist fólk hvorki né giftist heldur er það sem englar á himni.

Hverju trúir þú um eilífa lífið?
Um það sem tekur við af þessu lífi?

Pistill dagsins í 2. Korintubréfi tekur einnig á þessi spurningu en þar segir:

„Því að öllum ber okkur að birtast fyrir dómstóli Krists til þess að sérhver fái það endurgoldið sem hann hefur aðhafst í lifanda lífi, hvort sem það er gott eða illt.“

Með öðrum orðum. Fyrir dómstóli Krist er farið yfir gjörðir okkar og við dæmd út frá þeim.

Þegar ég hugsa um það sem tekur við af þessu lífi sé ég ekki fyrir mér Guð sem situr í hásæti og dæmir mig út frá gjörðum mínum. Ástæðan er sú að ég trúi því að Guðs sé hinn æðsti og mesti kærleikur. Ég trúi því að Guð þekki allar okkar innstu og dýpstu hugsanir og meti gjörðir okkar út frá þeim. Ef foreldri dæmir barn sitt mildilega, hversu miklu mun mildar mun hinn æðsti kærleikur þá ekki dæma okkur.

Ég trúi á eilíft líf, á líf sem heldur áfram með einhverjum hætti þegar þessu lífi líkur. Ég vona innilega að þar muni ég sameinast þeim sem eru mér kær og hafa kvatt þetta líf á undan mér. Ég veit þó ekki fyrir víst hvernig það verður. Ekkert okkar veit það.

Jesús gefur okkur vísbendingar um að lífið haldi áfram með einhverjum hætti en ekki hvernig. Samkvæmt guðspjalli dagsins eigum við í það minnsta ekkert að hafa áhyggjur af veraldlegu hjónabandi eftir þetta líf.

Ég verð að viðurkenna að mér er nokkuð sama um hvað það er nákvæmlega sem tekur við að loknu þessu lífi. Það nægir mér að vita að það sé gott. Það hafa þó komið þau tímabil þar sem ég hef velt þessu mikið fyrir mér og þegar við höfum nýlega misst einhvern sem okkur þykir vænt um þá verður vonin um endurfundi enn sterkari en annars og ég vona innilega að ég muni sjá á ný þau sem ég elska og ég hef misst.

Jesús talar ekki aðeins um himnaríki sem eitthvað sem tekur við að loknu þessu lífi því hann leggur ekki síður áherslu á himnaríki á jörðu og himnaríki innra með okkur. Að himnaríki sé eitthvað sem við getum eignast hér og nú.

Hugmyndin um himnaríki innra með okkur getur verið býsna góð lýsing á ástandi okkar og líðan þegar við erum í góðu jafnvægi, finnum til innri friðar. T.d. þegar allt gengur upp og þegar við finnum fyrir djúpstæðum kærleika. Þessar tilfinningar geta orðið sem sterkastar þegar við upplifum óeigingjarna ást til annarrar manneskju eins og við fæðingu barns. Tilfinningar ástfanginnar manneskju geta sannarlega jafnast á við himnaríki.

Himnaríki mitt á meðal okkar upplifum við mögulega þegar aðstæður okkar eru með þeim hætti að við upplifum heiminn réttlátan og góðan, þegar við fyllumst von yfir því að heimurinn sé í jafnvægi. Við finnum þetta vel þegar samfélagið sem við búum í virðist réttlátt og friðsælt og heimurinn almennt góður. Þessar upplifanir eru sjálfsagt ekki sem sterkastar hjá okkur þessa dagana en við getum einnig upplifað þetta þegar okkur nánasta umhverfi er í jafnvægi. T.d. þegar allt gengur að óskum í fjölskyldunni, á vinnustaðnum og meðal vina. Þá erum við mögulega himnaríki hvers annars.

Ég held að við getum öll verið sammála um að það sé harla gott að við konur þurfum ekki að giftast bræðrum maka okkar, hversu ágætir sem þeir eru, ef við lendum í því að verða sonarlausar ekkjur. Að sama skapi er ágætt að reyna að treysta Guði og losna okkur við að hafa áhyggjur af því sem gerist eftir þetta líf og einbeita okkur frekar að því lífi sem við eigum hér og nú.

Lífið eins og við þekkjum það nú er viðkvæmt og við vitum ekki hvenær það tekur enda. Því er svo mikilvægt að gera það allra besta úr því sem við höfum nú. Að elska fólkið okkar, að reyna að muna að njóta daganna þó að þeir geti verið hversdagslegir og stundum ósköp óspennandi. Að elska fólkið okkar og verja tíma með því á meðan það er hjá okkur.

Himnaríki í gamalli kirkju
Nú þegar við komum saman í þessari gömlu kirkju sem fagnar heilli öld og hugleiðum himnaríki er gott að hugsa til þess að við erum ekki þau fyrstu sem koma hér saman að ígrunda tilgang lífsins og eilífðina. Hér hefur fólk komið saman í Guðs nafni í hundrað ár, já og í raun allt frá upphafi kristni á Íslandi. Við þetta altari hafa margir merkir prestar og biskupar falið sig Guði og einn þeirra sr. Matthías Jochumsson samdi eftirfarandi kvæði um staðinn:

Eg geng á Gammabrekku
er glóa vallartár
og dimma Ægisdrekku
mér duna Rangársjár.

En salur Guðs sig sveigir
svo signir landsins hring,
svo hrifin sál mín segir:
Hér setur Drottinn þing.

Já, Oddi er mörgum kær og ekki er frá því að við fyllumst lotningu við að koma á stað sem á sér jafn ríka og merka sögu og Oddi sem Oddafélagið gerir góð skil ár hvert undir vernd frú Vigdísar Finnbogadóttur.

Það er ekki frá því að við færumst örlítið nær himnaríki í þessari fögru kirkju sem hefur að geyma merka og langa sögu.

Við færumst nær himnaríki á jörðu þegar við finnum hvað hér er gott að vera og vitum að hingað kemur fólk enn, heilli öld síðar í gleði og sorg, og sækir styrk til Guðs og náungans.

Við færumst nær himnaríki sem tekur við eftir þetta líf þegar við fáum tækifæri til þess að íhuga það og erum minnt á að treysta Guði fyrir því að allt fari vel.

Dýrð sé Guði sem vill að við sköpum himnaríki á jörðu og gefur okkur eilíft líf.

Ótti og hugrekki

Eftir Prédikanir

Nýr prófastur
Nú fyrir messu var mér boðið inn á heimili prófasts. Inni í eldhúsinu er að finna forláta krítartöflu og á hana hafði einhver teiknað mynd með yfirskriftinni „Krýning prófasts“. Á myndinni er manneskja í skikkju og með sverð (væntanlega biskup) og prófastur krýpur á gólfinu fyrir framan hana. Þetta var nokkuð áhrifamikil mynd og það var ágætt á mig þegar ég komst að því að höfundurinn var eitt sinn fermingarbarn hjá mér. Ég get þó fullvissað ykkur um að ég tók ekki með mér sverðið, aðeins skikkjuna.

Kæri prófastur, Óskar: Til hamingju með daginn. Já og til hamingju kæra kirkjufólk í Suðurprófastsdæmi með prófastinn ykkar!

Þú hefur nú tekið við ákaflega mikilvægu og ábyrgðarmiklu embætti, sem ég veit að þú munt annast vel. Eftir tvo áratugi í prestsþjónustu, 16 ár á Íslandi og fulltrúi í héraðsnefnd í áratug taldi ég mig vera með hlutverk og mikilvægi prófasta svona nokkurn veginn á hreinu. En til viðbótar þurfti þrjá mánuði í þjónustu biskups Íslands til þess að ég gerði mér raunverulega ljóst mikilvægi embætti prófasts.

Prófastar eru lykilfólk í langri keðju mikilvægra þjóna innan kirkjunnar. Raunar er það svo að þetta embætti hefur þróast hratt og tekið miklum breytingum á undanförnum árum, ekki síst eftir að kirkjan öðlaðist sjálfstæði sitt með nýjum Þjóðkirkjulögum og prestar hættu að vera opinberir embættismenn.

-Prófastur starfar náið með biskupi Íslands.
-Prófastur er í nánu og reglulegu sambandi við presta, djákna, sóknarnefndir og starfsfólk í prófastsdæminu.
-Prófastur þarf að vera manneskja sem á auðvelt með að hlusta, getur sett sig í spor annarra og vera tilbúin til að leita lausna þegar ágreiningsmál koma upp.

En fyrir utan góða leiðtogahæfni og áhuga á fólki þá þarf prófasturinn, eins og við öll, fyrst og fremst að koma fram grímulaust og hafa hugrekki til að viðurkenna mistök en líka að gera sem minnst af þeim.

Það er nefnilega svo góð lexía fyrir okkur öll, hvaða starfi eða þjónustu sem við gegnum að skoða hvernig Jesús valdi lærisveina sína. Hann valdi ekki fullkomnasta fólkið. Hann valdi fólk með ýmsa galla, enda eru gallalausar manneskjur víst ekki til. Jesús valdi fólk sem kom til dyranna eins og það er klætt. Fólk sem reyndi ekki að breiða yfir mistökin heldur viðurkenndi þau en reyndi samt ávallt að gera sitt besta. Hann valdi fólk sem tók ábyrgð.

Að sjálfsögðu verðum við að velja fólk út frá hæfni í öll störf og það gerum við svo sannarlega í kirkjunni. En þegar prófastur er valinn duga ekki eingöngu venjulegar hæfnikröfur. Í embætti prófasts verður að vera manneskja sem fólkið í prófastsdæminu treystir, manneskju sem er reiðubúin til þess að vera bæði lærisveinn Krists og hirðir safnaða. Hún þarf í senn að fylgja… og leiða.

Já, eins og þið heyrið er ekkert grín að vera prófastur og ekkert grín að velja prófast en ég veit að sr. Óskar mun reynast traustur og góður prófastur eins og hann hefur reynst sem prestur.

Skyldur prófasts eru margar og miklar og þú þekkir þær allar kæri Óskar en það er líka hlutverk presta, djákna, sóknarnefndarfólks og íbúa í prófastsdæminu að taka vel á móti sínum prófasti.

Þið eruð góðu vön hér í Suðurprófastsdæmi þar sem sr. Halldóra Þorvarðardóttir hefur gegnt þjónustu prófasts af einstakri alúð og ræktarsemi. Samstarfið við hana hefur verið virkilega gott. Við náðum meðal annars að fara saman í gegnum þrjú ráðningarferli á þeim stutta tíma sem við vorum samtíða.

Og það er einmitt vegna þess að þið í Suðurprófastsdæmi eruð góðu vön að ég trúi því að þið takið á móti nýjum prófasti af sömu hlýju og virðingu og Halldóra hefur fengið að njóta, og af sömu ástæðum er viðbúið að gerðar verða ríkar kröfur til nýs prófasts.

Þú ert fyrsti prófasturinn sem ég fæ að setja inn í embætti og ég hef hlakkað til þessa dags lengi. Eins og ég veit að þú hefur einnig gert. Ég hef hlakkað til að fá að setja þig inn í þetta embætti vegna þess að ég veit að þú ert svo sannarlega tilbúinn til þess að bretta upp ermarnar og taka við þjónustunni.

Ótti
Nýr prófastur tekur við embætti einmitt þegar kirkjuárið er að líða undir lok. Eitt einkenni þessara síðustu sunnudaga kirkjuársins er að textarnir verða drungalegri með hverri helginni sem líður þar til nýtt kirkjuár hefst fyrsta sunnudag í aðventu.

Í guðspjalli þessa sunnudags er varað við hræsni og feluleik því öll okkar verk eiga að þola dagsbirtu. En í dag ávarpar Jesús einnig hræðsluna, óttann og hann biður okkur að óttast ekki fólk heldur Guð.

Jú, það sem Jesús er að biðja okkur um er að setja traust okkar á það almætti sem er stærra en lífið sjálft í stað þess að vera of upptekin af því sem einungis hefur áhrif í þessum breyska heimi okkar.

Óttinn er kunnuglegt stef í Biblíunni þó algengara sé að Jesús sé að biðja okkur að vera óttalaus.

Óttinn er enda sannarlega eitthvað sem við eigum að vera á varðbergi gagnvart enda getur óttinn verið svo óskaplega eyðandi afl. Óttaslegin manneskja getur verið hættuleg manneskja. Stjórnmálaleiðtogi sem elur á ótta er hættulegur og við verðum að gæta okkar á að falla ekki fyrir slíkri stjórnun. Sagan kennir okkur að mestu myrkraverkin eru hugleidd, framkvæmd og réttlætt í skjóli óttans.

Óttinn er óvinur okkar, og fólk sem elur á ótta eru ekki með okkur í liði.

Hugrekki
Guð þekkir þig og Guð þekkir mig. Guð veit nákvæmlega hver við erum. Guð telur hvert hár á höfði okkar. Og þessi Guð vill ekki að við séum óttaslegin heldur biður okkur að vera óhrædd. Og stundum þarf hugrekki til að sigrast á óttanum. Hugrökk manneskja er ekki endilega óhrædd manneskja, en hugrökk manneskja er sú sem lætur óttann ekki stöðva sig og ekki stjórna sér.

Hugrekki stýrir okkur á rétta braut, og af blaðsíðum sögubóka lesum við að það eina sem klýfur skuggavarp myrkraverkanna eru sögur af hugrekki einstaklinga. Sögurnar af fólkinu sem þorði að standa úti í kuldanum með þeim sem ekki voru velkomin í hlýjuna. Sögurnar af fólkinu sem lagði sín lífsgæði, sín þægindi, sína velmegun undir og sýnd öllum öðrum að það væri sannarlega, ekkert að óttast.

Á þessum degi, þegar Suðurprófastsdæmi tekur formlega á móti nýjum prófasti langar mig að leggja ykkur hugrekki í brjóst.

Þegar lífið er ekki eins og við vildum helst að það væri, þegar við finnum að óttinn er farinn að stýra gjörðum okkar, reynum þá að finna hugrekkið og fara gegn óttanum.

Það krefst hugrekkis að taka að sér það viðamikla og vandasama hlutverk að vera prófastur en þú kæri Óskar, gætir ekki verið á betri stað með fólkinu í þessu góða en víðfeðma prófastsdæmi. Þú býrð að mikilli reynslu, góðu baklandi og ekki sýst auðmýkt  og hugrekki.

Verkefni okkar í kirkjunni er að boða kristna trú og leggja okkar að mörkum við að gera heiminn að betri stað. Það er ekkert smá verkefni. En það verkefni vinnum við rétt eins og öll önnur. Einn dagur í einu. Eitt góðverk í einu. Eitt skref í einu.

Og þú Óskar ert svo lánsamur að þurfa ekki að taka þau skref einn því Guð, sem veit nákvæmlega hversu mörg hárin á höfði þínu eru, gengur með þér og þangað sækir þú styrk.

Kæri prófastur, Guð blessi þig og alla þína þjónustu og Guð blessi Suðurprófastsdæmi og öll þau er hér búa og starfa.

Dýrð sé Guði sem þekkir hvert hár á höfði okkar og blæs okkur hugrekki í brjóst.

Amen.