Betri en við höldum
Hvort er heimurinn meira góður eða vondur?
Í einum af fermingartímunum eftir áramót var umræðuefnið “hið illa”. Ég spurði þá öll fermingarbörnin hvort þeim fyndist heimurinn vera meira góður eða vondur. Hjá flestum stóð ekki á svarinu og þau svöruðu mjög fljótt að heimurinn væri meira vondur. Þegar við síðan ræddum þetta betur og skoðuðum hvaðan þessar upplýsingar eða þessar hugmyndir kæmu þá kom í ljós að það var fyrst og fremst tilfinningin frá fjölmiðlum. Að það væru svo mörg hræðileg stríð, ofbeldi og hungursneyð vegna óréttlætis, að heimurinn hlyti að vera vondur. þegar við síðan ræddum þetta nánar voru þau ekki alveg jafn sannfærð um að þessi mynd af heiminum væri endilega sönn því þau upplifðu heiminn í kringum sig nokkuð góðan.
Hans Rosling, sænskur prófessor í alþjóða heilbrigðisvísindum, hefur ítrekað sýnt fram á það með tölfræði að heimurinn sé alls ekki eins slæmur og stór hluti fólks telur. Rosling hefur haldið fyrirlestra um allan heim um þess mál og hann vill meina að ástæðan fyrir því að við teljum flest að heimurinn sé mun verri en hann er, sé sú að fjölmiðlar sýni okkur fyrst og fremst þá hlið. Þrátt fyrir að margir fjölmiðlar líti á það sem hlutverk sitt að upplýsa okkur um það sem er að gerast í heiminum þá þurfa þeir alltaf að velja hvað þeir telja helst vera fréttnæmt og þá verða gjarnan neikvæðar fréttir fyrir valinu. Þær auka áhorfið.
Rosling vill meina að við getum ekki treyst á fjölmiðla eina og sér til þess að öðlast þekkingu á heiminum heldur þurfum við einnig til þess menntun og verðum síðan sjálf að sannreyna upplýsingarnar sem við öflum okkur. Hann segir að þrátt fyrir að til sé fullt af fátæku fólki þar sem stúlkur fá ekki að ganga í skóla, börn séu ekki bólusett og fólk flýji þaðan í stríðum straumum vegna styrjalda, þá eigi þetta aðeins við um lítið brot af heiminum.
Nýlegar athugasemdir