Meyjan Jane
Á Netflix er að finna þáttaröð sem heitir „Jane the Virgin“. Þesir þættir eru Amerískir en koma upphaflega frá Venesúela og fjalla um hina 23 ára Jane sem hefur ávalt passað vel upp á meydóminn sinn. Móðir hennar og amma hafa báðar hrætt hana á því að ef hún gengi alla leið með manni áður en hún gifti sig þá geti farið fyrir henni eins og móður hennar. En móðir hennar var afar ung þegar hún átti Jane og var aldrei í sambandi við föður hennar.
Jane tók fullt mark á móður sinni og ömmu, enda eru þær hennar helstu fyrirmyndir. Síðan gerist það, þegar Jane fer á sjúkrahúsið í reglubundna skoðun, að læknirinn ruglast á henni og annarri konu sem á að koma í tæknifrjóvgun. Hún gefur Jane sæðið sem hin konan á að fá sem leiðir til þess að Jane verður barnshafandi án þess að hafa misst meydóminn.
Um svipað leyti fer Jane að kenna í kaþólskum skóla. Smá saman breiðist fréttin um óléttu meyjuna út og ung pör fara að koma til Jane og trúa henni fyrir því að þau erfitt með að eignast barn og biðja síðan um að fá að faðma hana. Hún leyfir þeim það en er hálf undrandi á þessum beiðnum. Eftir svolítinn tíma kemst hún að því að nunnurnar sem reka skólann hafa látið búa til lítinn pening með mynd af henni óléttri og látið það berast út að hún hafi orðið barnshafandi með svipuðum hætti og María mey, með kraftaverki og að fólk sem komist í snertingu við hana geti orðið frjósamt. En til þess að fá að faðma Jane þarf að greiða nunnunum ríflega fyrir.
Þessir þættir eru gerðir af miklum húmor og er jafnflókinn og besta sápuópera en skírskotunin til kristindómsins er augljós enda á þetta sér stað í kaþólsku umhverfi þar sem María guðsmóðir á ríkan sess.
Meyfæðingin í Svíþjóð
Fyrir nokkrum árum sagði þávarandi erkibiskup Sænsku kirkjunnar að hann liti á meyfæðinguna sem ljóðræna og táknræna lýsingu á því hvernig Guð kom í heiminn sem manneskja. Hann hafði sem sagt nokkrar efasemdir um það að trúa á meyfæðinguna með bókstaflegum hætti. Þessa túlkun hefur auk þess núverandi erkibiskup tekið undir. Þessu mótmæltu nokkrir trúarhópar harðlega, auk presta og fólks innan Sænsku kirkjunnar, um leið og stór hópur fagnaði þessum ummælum og tók undir þau. Þeir sem mótmæltu einna harðast voru kaþólskur prestur og forstöðumaður hvítasunnusafnaðar í landinu. Þeir sameinuðust í greinaskrifum gegn þessum hugmyndum erkibiskupsins. Þeir, sem áður höfðu verið ósammála um all flest, sameinuðust þarna í þeirri ákveðnu skoðun að María hefði verið hrein mey og aldrei verið við karlmann kennd þegar hún varð þunguð. Kaþólski presturinn hélt þó á lofi kenningum Kaþólsku kirkjunnar sem segja að María hefði ekki verið fædd sem venjuleg manneskja heldur hefði hún fæðst án syndar og verið syndlaus alla ævi. Auk þess taldi hann Maríu hafa fætt Jesú án þjáningar og að hún hefði ekki dáið eins og annað fólk hefður hefði hún verið uppnumin til himna. Hvítasunnupresturinn tók ekki undir nokkuð af þessu þó hann héldi í þá trú að María hefði sannarlega verið hrein mey þegar hún varð þunguð.
Meyja eða móðir?
Og hvað segjum við við þessu öllu saman?
Hugmyndirnar sem koma fram í Jane the virgin lýsa
því að það sé vel hægt að verða ólétt og eignast barn í dag án þess að hafa
nokkurntíma stundað kynlíf.
Það er hægt í dag.
Það var ekki hægt fyrir meira en 2000 árum.
Gat María virkilega hafa orðið ólétt án þess að fara í tæknifrjóvgun? Var þetta kraftaverk? Eða er þetta helgisaga eins og þær sem löngum hafa verið sagðar til þess að leggja áherslu á að hér hafi verið um getnað og fæðingu stórmennis að ræða?
Í játningum kirkjunnar okkar kemur fram að Jesús sé fæddur af meyju, þ.e. konu sem varð barnshafandi án þess að hefðbundinn getnaður hafi átt sér stað. Þessi játning er sameiningartákn kristinna kirkna í heiminum. En þrátt fyrir það er fullt frelsi innan okkar kirkju að líta á meyfæðinguna með táknrænum hætti og sjá fyrir sér að Jesús hafi verið getinn með sama hætti og aðrar manneskjur og að hann hafi ekki verið neitt minni Guð fyrir því. Ef Guð getur látið konu verða barnshafandi án þess að hafa verið með karlmanni þá hlýtur Guð einn að vera fær um að láta konu sem verður barnshafandi á venjubundinn hátt, fæða frelsara heimsins.
Þú hefur frelsi til að trúa því að María hafi verið meyja eins og sagt er í Biblíunni.
Þú hefur frelsi til að trúa því að hún hafi orðið ólétt af Jesú með hefðbundnum hætti.
En þú hefur ekki frelsi til að trúa því að það hafi gerst með tæknifrjóvgun. Sú tækni var ekki til þá.
Hverju sem þú trúir um þetta þá dregur það ekkert úr áhrifum Maríu móður Guðs. Ungu konunnar sem var treyst fyrir stóru hlutverki og ætti að hafa svo miklu stærri sess í kirkjunni okkar en hún hefur í dag.
María er mikilvæg fyrirmynd í kirkju sem er að mörgu leyti karllæg. Hún er ekki fyrirmynd vegna hreinleika, flekkleysis eða fullkomnunar. Hún er fyrirmynd vegna þess að hún var hugrakkur töffari sem sagði JÁ við verkefni sem setti allt líf hennar á hvolf.
Hún er ekki fyrirmynd vegna þess að hún fæddi barn án sársauka heldur vegna þess að hún fæddi barnið með sama hætti og konur hafa gert alla tíð gert. Kannski fékk hún grindargliðnun og morgunógleði. Kannski fylltist hún af bjúg og fékk í bakið. Og það eru einmitt þessir hlutir sem gera hana að mikilvægri fyrirmynd fyrir hinn kristna heim. María er fyrirmynd vegna þess að hún var venjuleg manneskja sem var trúað fyrir stóru hlutverki.
Listaverkið Móðirin eftir Kristínu Gunnlaugsdóttur sem nú hangir í Grafarvogskirkju getur að vissu leyti verið vísun í Maríu móður Guðs. Konuna sem er heilög vegna þess að hún fæddi Jesú Krist inn í þennan heim. Konuna sem er heilög vegna þess hversu mennsk hún var. Hægt er að sjá þetta verk sem kvensköp, þetta líffæri sem svo oft hefur verið tengt skömm og ljótleika en sem um leið hefur gefið næstum öllu mannkyni líf og ætti því miklu fremur að vera heilagt og upphafið. Gullþræðirnir í verkinu sem teygja sig til himins minna okkur á þræðina milli hins jarðneska og hins himneska og minna okkur á að þetta er tengt órofa böndum. Þetta verk er tilraun til afbælingar og í þessu verki mætast allar konur.
Guð fól Maríu stærsta hlutverk sem hægt er að hugsa sér.Á boðunardegi Maríu langar mig til að þú vitir að Guð felur þér stórt hlutverk. Þín bíður stórt hlutverk og mögulega hefur þér verið falið það nú þegar. Það er þó ekkert víst að þér finnist nokkuð til þess koma því mælikvarði okkar og Guðs er ekki alltaf sá sami. Við getum ekki öll fætt frelsara heimsins en við getum öll valdið stórum hlutverkum sem Guð trúir okkur fyrir, karlar sem konur. Það getur vel verið að þú munir aldrei komast að því hvert þitt stóra hlutverk, eða verkefni, var því það gagnaðist annarri manneskju sem aldrei lét þig vita hvað þú skiptir hana miklu máli. En ég er sannfærð um að Guð treysti þér fyrir mikilvægu hlutverki.
Trúir þú því?
Ég trúi því.
Prédikun flutt í Kirkjuselinu í Grafarvogi á boðunardegi Maríu 2019
Nýlegar athugasemdir