Skip to main content

Tuðrararnir

Eftir apríl 18, 2019Prédikanir

Bechdel-prófið
Ég veit ekki hvort einhver ykkar hafa heyrt um Bechdel-prófið. Þetta próf birtist fyrst í 1985 í sögunni „The Rule“ í teiknimyndasögunni Dykes to Watch Out for eftir Alison Bechdel. En prófið er notað sem mælikvarði á sýnileika kvenna í kvikmyndum. Til þess að kvikmynd standist þetta próf þarf þrennt að vera til staðar:

  1. Það þurfa að vera tvær konur eða fleiri í myndinni og vera nafngreindar.
  2. Þær þurfa að tala við hvor aðra.
  3. Þær þurfa að tala um eitthvað annað en karlmenn.

Þetta próf fjallar ekki um það hvort myndin sé feminísk eða hvort hún sé góð heldur aðeins um sýnileika kvenna í henni. Ég hvet þig til að nota prófið á næstu bíómynd sem þú sérð  eins sjálfsögð og þessi atriði eru þá er er ótrúlegt hversu fáar kvikmyndir standast prófið.

Hvað ætli gerist ef við notum Bechdel-prófið á Biblíuna? Ég hef svo sem ekki farið í gegnum alla Biblíuna með prófið en miðað við að hafa þó lesið hana alla og ýmislegt í henni oftar en einu sinni þá er ég nokkuð viss um að það er næstum engin frásaga sem stenst prófið þar, ef nokkur. Markúsarguðspjall í heild sinni nær ekki þessu prófi en þar er einmitt frásögu dagsins að finna. Í þessu guðspjalli er aðeins ein kona sem ávarpar Jesú en flestar eru þær hljóðar og fáar hafa nafn.

Kona dagsins
Kona dagsins er konan sem hellti dýru smyrslunum yfir höfuð Jesú við afar lítinn fögnuð viðstaddra. Kona dagsins er þögul. Hún gengur að Jesú, sem er staddur í matarboði, og hellir yfir hann sínum fínustu og bestu smyrslum.

Hún segir ekkert.

Hún kom í boðið, braut buðkinn (baukinn eða kerið) og hellti yfir Jesú. Þetta var allt sem hún gerði.

En fólkið varð reitt.

Það kemur ekki fram hvaða fólk þetta var þarna í boðinu en það er talað um það sem „nokkra“ og þá er væntanlega átt við nokkra menn og hluta af gestunum. Kannski voru þetta lærisveinar Jesú eða hluti þeirra. Þetta voru í það minnsta boðsgestir í veislunni og það má leiða líkum að því að þetta hafi að mestu- eða öllu leyti verið karlmenn.

Skiptir það þó einhverju máli að þetta hafi að mestu leyti verið karlmenn og aðeins ein kona sem hvorki hafði nafn né sagði orð? Skiptir einhverju máli að Jesús tók málstað konunnar og sagði að hennar yrði minnst um aldur og ævi og að hún hefði í raun veirið að smyrja hann hinnstu smurningu fyrir dauða hans?

Getur verið að þetta sé svo einfalt að þarna séu bara karlar í karlaheimi sem þoli ekki að einhver kona komi inn og sé að trufla samkomuna þeirra?

Já, ég held að þetta skipti allt máli. Kyn fólks í textum og myndum, sem ekki eru nálægt því að standast Bechdel-prófið, skiptir máli því hér er yfirleitt um að ræða sögur sem sagðar eru af körlum og fjalla í raun og veru um karlmenn og heim þeirra. En ég held að auk þessa segi þess saga okkur ýmislegt annað.

Tuðarar
Gestirnir láta þessa þöglu konu, sem ryðst inn í þeirra örugga heim og gefur Jesú það dýrmætasta sem hún á, fara í taugarnar á sér. Gestirnir í sögunni eru leiðinda tuðarar.

En hvenær verðum við tuðarar? Er það ekki þegar okkur er ógnað, þegar við áttum ekki hugmyndina sjálf? Er það kannski þegar einhver ómerkileg kona eða jafnvel stelpa þykist vera eitthvað merkilegri en við?

Við förum að tuða þegar einhver kemur með nýja hugmynd og framkvæmir eitthvað óvenjulegt. Við tuðum þegar einhver, sem á bara að halda sig á sínum stað úti í horni, fer að taka pláss. Við verðum tuðarar þegar einhver fær athyglina fyrir að segja þetta sem við vissum alveg og virðist vera betri eða merkilegri manneskja en við fyrir vikið.

Við getum öll verið tuðarar þó við viljum það ekki.

Ég er alls ekki viss um að allir gestirnir sem pirruðu sig á konunni hafi verið vondir menn. Það er ekki einu sinni víst að þeir hafi verið neitt sérstaklega leiðinlegir. En þeir áttu erfitt með það sem konan gerði. Hún kom þarna inn þögul, gaf Jesú það besta sem hún átti og svo varði Jesú hana. Hann sem var þeirra leiðtogi og vinur. Ekki hennar!

Það sem tuðararnir gera í þessum aðstæðum er að þeir fara að keppast við að finna góð rök gegn því sem konan gerði, rök sem halda. Og það besta sem þeir finna er að smyrslin séu svo dýr að það hefði verið miklu gáfulegra fyrir hana að selja þau og gefa fátækum andvirðið. Hún hefði verið miklu betri manneskja ef hún hefði gert það. Fjárhagsrökin eru svo sterk.

Við sjáum þetta allt í kringum okkur í dag. Þegar einhver vilja hjálpa flóttafólki og hælisleitendum þá eru gjarnan notuð þau rök, af þeim sem eru á móti, að betra sé að nota peninga og krafta í að hjálpa fyrst Íslendingum sem þurfa hjálp en svo sé hægt að nota afganginn í útlendingana. Þegar kirkjan fær sínar lögbundnu greiðslur frá ríkinu af kirkjujörðunum sem ríkið tók yfir þá heyrast alltaf raddir frá þeim sem ekki vilja þjóðkirkju að betra væri að setja peningana í Landhelgisgæsluna eða Landspítalann. Eins og að þessir peningar færu einmitt þangað ef kirkjan væri þurrkuð út. Svona mætti lengi telja. Þegar við verðum hrædd, okkur sjálfum eða hugmyndum okkar er ógnað, já eða bara þegar við áttum ekki hugmyndina sjálf eða erum á móti þá grípum við gjarnan til raka sem þessa.

Tuðararnir þurfa ekki endilega að vera einhverjir leiðinda karlar sem vilja að konur sitji úti í horni og séu ekkert að vilja upp á dekk. Tuðararnir geta verið við öll þegar við verðum óörugg og óttaslegin. Þá getum við öll orðið fúl/l á móti.

Bechdel, konan og tuðararnir
Við heyrðum í dag um konu sem sagði ekkert en gerði margt. Hennar er minnst enn í dag vegna sinna góðu verka, vegna þess að hún smurði Jesú hinstu smurningar. Hún þurfti ekki að segja orð til þess að komast á blöð sögunnar, til þess að um hana yrði prédikað. Þessi kona er hver einasta hugrakka manneskja sem stendur upp fyrir því sem hún trúir á og er henni kært. Og það þarf ekki alltaf að snúast um eitthvað stórkostlegt. En þegar þú ert þessi manneskja (hvort sem þú ert kona eða karl) þá máttu alltaf gera ráð fyrir að mæta tuðurunum. En vertu viss, þeir hafa ekki áhrif til lengdar. Ekki einu sinni þó þeir reyni að telja fólki trú um að peningarnir eigi frekar að fara í eitthvað annað og vinsælla. Eitthvað sem þeir trúa á.

Ég er nokkuð viss um að við förum öll einhvern tíma í hlutverk tuðarana því lífið er hvorki svart né hvítt. Við erum aldrei aðeins í hlutverki góðu manneskjunnar eða þeirrar vondu. Við erum þær báðar.

Guðspjall dagsins kolfellur á Bechdel-prófinu. Þarna er aðeins ein kona og hún talar ekki við neina aðra manneskju og hvað þá við aðra konu. Það segir okkur að sá sem ritaði guðspjallið hafði ekki mikinn áhuga á orðum eða nöfnum kvenna, í það minnsta ekki í þessu samhengi. Það sama á við um kvikmyndir sem falla á prófinu. Kannski er gott að heimfæra Bechdel-prófið á líf okkar og samfélag. En það er mikið að í samfélagi sem fellur á þessu einfalda prófi. Ég myndi ekki segja að við sem samfélag föllum á prófinu og við erum alltaf að reyna að bæta okkur.

Hér lifa konur og karlar sem tala við hvert annað um svo ótal margt annað en karla. Hér lifa manneskjur sem eru bæði tuðarar og sem fylgja trú sinni og hugsjón. Og mitt í þessu öllu er Jesús sem stendur með konunni sem þorir að fylgja honum þó tuðararnir fari af stað. Og mitt í þessu öllu er Jesús sem sest til borðs með tuðurnum því þeir erum við öll.
Amen.