Skip to main content

Róttæk ást

Eftir júlí 28, 2019Prédikanir

Fyrir um það bil ári síðan kom út bók eftir bandaríska guðfræðinginn Jacqueline Bussie rithöfund og guðfræðiprófessor. Bókin heitir „Love without limits“ eða ást án takmarkana og fjallar um róttæka sýn Jesús Krists á ástina. Markmið bókarinnar er að hvetja lesendur til að útvíkka kærleika sinn og reyna að elska eins og Guð, án takmarkana og án undantekninga. Bókin er byggð á sögum úr lífi höfundarins og fleira fólks sem varpa ljósi á það hvernig við getum elskað fólk sem er ólíkt okkur. Þessi bók er skrifuð í bandarísku samhengi og þarna eru m.a. sögur fólks sem er múslimar, hinsegin fólk, innflytjendur og  aðra hópa sem gjarnan eru á jaðrinum í því samfélagi.

Bussie var með samning við stórt kristið útgáfufyrirtæki sem hún skrifaði bókina fyrir og hún tók sér árs leyfi frá vinnu til að skrifa hana. Þegar handritið var tilbúið tilkynnti útgáfufyrirtækið henni að bókin væri of róttæk og að þau vildu ekki gefa út bókina nema að taka út ákveðna kafla. Þau vildu t.d. taka allt um múslima og hinsegin fólk úr bókinni og sögðu höfundinum að hún gæti bara birt þessa kafla á heimasíðunni sinni. Bussie kallaði þetta ritskoðun og neitaði að leyfa þeim að gefa út bókina með þessum hætti. Annaðhvort yrði bókin gefin út eins og hún væri skrifuð eða ekki. Til að gera langa sögu stutta fór þetta svo að eftir u.þ.b. mánaðar þunglyndi tók höfundurinn sjálfsmynd af sér með teip fyrir munninum sem á var ritað  orðið „RITSKOÐUN“. Myndina birti hún svo á facebooksíðunni sinni og varð hún til þess að stór útgáfufyrirtæki höfðu samband og bókin var gefin út eins og hún var skrifuð.

Bóikn varð metsölubók og hefur vakið mikla athygli.

Gæti þetta gerst í kristnu samhengi á Íslandi?

Nú búum við, við töluvert annan veruleika í okkar frjálslynda samfélagi á Íslandi. Þetta myndi ekki gerast hjá útgáfufélagi Þjóðkirkjunnar. Það er ég alveg viss um. Og þetta myndi ekki gerast hjá nokkru almennu útgáfufélagi hér á landi. En það hefur ekki alltaf verið þannig og það þýðir heldur ekki að allir Íslendingar séu á einu máli um þessi mál.

Ást og góðvild
Bókin hennar Bussie snýst um róttæka ást.

Er ekki róttækt af Jesú að segja að við eigum að elska Guð, elska náungann og elska okkar sjálf? Jesús segir ekki að við eigum bara að elska Guð þegar við erum búin að fá áþreifanlega sönnun um að Guð sé til. Hann segir ekki að við eigum bara að elska náungann þegar hann er eins og við viljum að hann sé. Og hann segir ekki að við eigum bara að elska okkur þegar okkur tekst að vera besta útgáfan af okkur sjálfum.

Kannski er einmitt þetta tilgangurinn með lífinu, með öllu saman; Að reyna alltaf að elska Guð, annað fólk og okkur sjálf, líka þegar við eigum erfitt með að trúa, líka þegar náunginn er óþolandi og jafnvel vondur og líka þegar við sjálf erum misheppnuð.

En svona í alvöru talað, er þetta hægt?

Ég verð alveg að viðurkenna að mér finnst fullt af fólki óþolandi. T.d. fólk sem mér finnst hafa vondar skoðanir, fólk sem mér virðist hreinlega vera vont. Ég er svo sannarlega ekki alltaf sátt við sjálfa mig og er áreiðanlega mun harðari við mig sjálfa en við annað fólk. Já, og ég elska Guð ekki alltaf og stöðugt jafnheitt.

En hvað á Jesú við þegar hann segir að við eigum að elska? Þegar við tölum um að elska einhverja manneskju þá held ég að við leggjum flest afar djúpa merkingu í hugtakið. Ég er nokkuð viss um að við eigum þá flest við djúpa og skilyrðislausa ást, þá tegund ástar sem við finnum til maka eða kærustu eða kærasta. Eða þá tegund ástar sem við berum til barna okkar eða  þá ást sem við berum til systkina okkar, foreldra eða vina.

En ég held að Jesús sé ekki að gera þá kröfu að við finnum til þess konar ástar til alls fólks. Ég held að það sem Jesús sé að krefja okkur um (hann er ekki bara að biðja okkur hæversklega um þetta hann krefur okkur um þetta) er að við lítum mildum augum á allt fólk. Að við temjum okkur velvild, góðmennsku og virðingu í framkomu og reynum jafnvel að finna þessar tilfinningar í garð Guðs, náunganns og ekki síst til okkar sjálfra.

Sögurnar okkar
Heimspekingur nokkur sagði að óvinurinn væri aðeins manneskja með sögu sem við hefðum ekki heyrt enn. Bókin hennar Bussie er m.a. byggð á sögum. Hún fær okkur til þess að skilja þessa róttæku kröfu Jesú á því að við elskum hvert annað með því að segja sögur. Það er nefnilega auðveldara að láta sér mislíka við fólk sem við þekkjum ekki, fólk sem hefur ekki sagt okkur sögurnar sínar.

Hver kannast ekki við að hafa fyrirvara gagnvart einhverri manneskju þar til við fáum að heyra söguna hennar eða sögurnar? Þar til við fáum að kynnast henni sjálfri eins og hún er?

Við eigum öll sögur.

Við eigum ekki eina sögu. Við eigum margar sögur.

Við þurfum að gæta okkur á því að dæma fólk út frá einni sögu, að dæma heilu hópana út frá einni sögu eða einni manneskju sem tilheyrir þeim hópi. Þannig eru ekki allir múslimar hryðjuverkafólk og raun aðeins sárafáir. Þannig er ekki allt kristið fólk fordómafullt í garð hinsegin fólks og í raun aðeins lítill hluti. Þannig er ekki allt trúlaust fólk á móti trúuðu fólki.

Með róttækri ást er Jesús ekki biðja okkur að elska allt fólk heitt og innilega. Hann er ekki einu sinni að biðja okkur um að láta okkur líka vel við allt fólk. Það er ekki hægt. Hann er ekki að biðja okkur um að vera fullkomin. Það er heldur ekki hægt. Hann er bara að biðja okkur um að skilja að öll eigum við margar sögur. Að öll erum við alls konar. Hann er að biðja okkur um að sýna Guði, náunganum og okkur sjálfum velvild, góðmennsku og virðingu.

Það er mikilvægt að deila sögum því þær hjálpa okkur að ná yfir landamæri og þær hjálpa okkur að elska á þennan róttæka hátt sem Jesús vill að vill að við elskum. Og þá verður auðveldara að sýna Guði, náunganum og okkur sjálfum velvild, góðmennsku og virðingu.

Dýrð sé Guði sem elskar á róttækan hátt, án takmarkana og án undantekninga.