Skip to main content

Erkitýpur og ofurkonur

Eftir mars 10, 2019Prédikanir

Hér á eftir eru fjórar hugleiðingar um erkitýpur og ofurkonur. Tekist er á við erkitýpurnar Maríu og Evu, þekktustu kvenpersónur Biblíunnar. Ofurkonan er tilbrigði við texta úr Orðskviðunum og hver þekkir ekki ofurkonu samtímans? Allar mætast þessar konur í Móðurinni, verki Kristínar Gunnalugsdóttur, myndlistarkonu sem nú hangir í kapellu Grafarvogskirkju. Verkið fyllir næstum heilan vegg í kapellunni og er brúnt með gylltum þráðum er teygja sig til himins.

Höfundar eru Arna Ýrr Sigurðardóttir, Guðrún Karls Helgudóttir og Kristín Gunnlaugsdóttir.

Eva
Þetta var allt hennar sök. Það var hún sem valdi að hlusta á snákinn og láta freistast í stað þess að vera sterk. Í stað þess að vera hlýðin og góð. Hún óhlýðnaðist og þannig var það hennar verk að hið illa kom inn í heiminn sem fram að því hafði verið sannkölluð paradís.

Hann hafði ekkert með þetta að gera. Hún tældi hann. Hún fékk hann til þess að fá sér bita af hinum forboðna ávexti. Ef ekki hefði verið fyrir hana hefði hann sjálfsagt látið þetta vera og lifað glaður og góður í paradís.

Hún fékk hann til þess að kaupa vændi. Hann hefði aldrei gert það nema vegna þess að konan tældi hann. Þetta var allt henni að kenna, ekki honum.

Hún fékk hann til að lemja sig því hún ögraði honum.

Hún fékk hann til að áreita sig því hún var í svo stuttu pilsi.

Hún er konan sem allir karlar þrá en enginn vill giftast því hún er hættuleg. Hún hlustaði á snákinn, varð forvitin og lét til leiðast að bragða á hinum forboðna ávexti og því heita strippklúbbar eftir henni, Eva. Þess vegna heita verslanir með kynlífsleikföng eftir henni, Eva. Þess vegna er henni refsað af fólki með því að vera ávalt sú seka. Og henni er refsað af Guði með því að þjást þegar hún fæðir börn.

Illskan kom inn í heiminn vegna Evu sem hlustaði á snákinn og fékk sér bita af ávextinum og bauð Adam með sér. Adam fékk sér vissulega bita líka en hann hefði aldrei gert það ef Eva hefði ekki átt frumkvæðið.

Eva er upphaf illskunar í heiminum. Hún stendur fyrir allt sem er hættulegt en um leið er hún svo áhugaverð…

Eða hvað!  Getur verið að erkitýpan Eva sé eitthvað allt annað og meira en þetta?

Er hún kannski konan sem þorði að verða fullorðin og horfast í augu við dauðann og endanleika lífsins. Konan sem þorði að fá sér bita á ávextinum og þroskast og sjá lífið eins og það er.

Var Eva kannski konan sem þráði þekkingu og visku og tók því ákveðna áhættu sem varð til þess að hún varð að horfast í augu við raunveruleikann? Var Eva kannski konan sem vildi ekki lifa í blekkingu, þekkingarleysi og barnaskap?

Snákurinn sagði henni satt. Hann laug engu. Hann sagði að hún myndi læra að þekkja hið góða frá hinu illa. Er það ekki einmitt það sem við þurfum til þess að komast af í heiminum? Að losa okkur við barnaskapinn og útópíuna og eilífa paradís og öðlast kjark til þess að horfast í augu við heiminn eins og hann er?

Hluverk Evu í hinni ljóðrænu frásögn í fyrstu Mósebók var ekki að kollvarpa heiminum og gera hann að verri stað. Hið illa er ekki hennar sök. En Eva hafði kjarkinn til þess að takast á við heiminn og hætta að lifa í daumi. Hún vildi öðlast þekkingu. Hún vildi þroskast. Hún vildi verða fullorðin.

Eva er ekki ein erkitýpa. Eva er margar týpur. Hún er týpan sem þráir þekkingu og fróðleik. Sú sem sér heiminn eins og hann er og tekst á við hann eftir því. Kannski er hún vændiskonan sem tælir aumingja karlinn Kannski er hún háskólaprófessorinn eða hótelþernan sem fór í verkfall á föstudaginn var. Eva er þú og Eva er ég. Við erum Eva.

Freistingarsagan er sagan um okkur mannfólkið. Hún fjallar um sársaukann sem fylgir því að verða fullorðin. Kannski er paradís ekki góður staður fyrir okkur þegar upp er staðið því við þurfum að læra að þekkja munin á góðu og illu. Konan sem öðlast þekkingu á auðveldara með að bjarga sér og lifa af í þessum heimi. Kona sem þekkir réttindi sín getur nýtt sér þau fremur en kona sem veit ekki hvaða möguleika hún hefur. Kona sem veit að það er ekki í lagi að brjóta á henni er líklegri til þess að koma sér út úr vondum aðstæðum en sú sem er alin upp við það að þetta séu hennar einu örlög.

Þekkingin bjargar ekki öllum konum. Hún bjargar ekki öllu. En hún getur breytt miklu. Þökk sé Evu sem hafði kjarkinn til þess að sækja hana.
Höf. Guðrún Karls Helgudóttir

María
Við þekkjum öll Maríu. Guðsmóðurina. Fyrirmynd allra kvenna, annáluð fyrir auðmýkt, hógværð, mildi, kærleika, fórnfýsi, og undirgefni. María er sú sem tekur örlögum sínum með æðruleysi. María er sú sem efast ekki um orð Guðs. María er sú sem hlýðir og gerir það sem henni er sagt. María er hin fullkomna kona. Svo fullkomin að hún verður ófrísk án þess að lifa kynlífi. Svo fullkomkin að hún gengur með og fæðir son sinn, án þrautar. Án morgunógleði. Án grindargliðnunar. Án meðgöngusykursýki. Án þess að fá bjúg. Án þess að þurfa mænudeyfingu og hláturgas. María er sú sem við eigum allar að vera, sú sem allir karlmenn þrá. Ekki sem ástkonu, heldur sem hina fullkomnu eiginkonu og hina fullkomnu móður. María er sú sem stendur að baki manni sínum og styður hann í öllu því sem hann tekur sér fyrir hendur. Sú sem fyrirgefur eiginmanninum þegar honum verður laus höndin. Sú sem ver manninn sinn þegar hann verður fyrir skynsemisrofi og kaupir óvart vændi, því að hún er ekki nógu skilningsrík. Sú sem tekur ábyrgð á óviðeigandi hegðun og biðst afsökunar á því sem ekki er henni að kenna.

María nýtur náðar Guðs. Í gegnum tíðina höfum við skilið það þannig að hún sé útvalin, og hafi áunnið sér náð Guðs í gegnum móðurhlutverkið. En engillinn segir ekki við hana: Þú sem munt njóta náðar Guðs ef þú gerir það sem þér er sagt. Hann segir: Þú nýtur náðar Guðs. Og María spyr spurninga. Hvernig má þetta verða? Og engillinn virðir hana svars.  Og María samþykkir að taka að sér verkefnið sem henni er falið, hún segir já!

Hvað ef María hefði sagt nei? Hvað ef María hefði sagt: Nei, ég get ekki hugsað mér þetta hlutverk. Þetta eru þau örlög sem flestar ungar, ógiftar konur, óttast mest í lífinu. Að verða ófrískar utan hjónabands. Það er of dýrkeypt. Það mun jafnvel kosta mig lífið.

Hefði María getað sagt nei? Kannski reyndi hún það. Kannski sagði hún nei… Kannski hafði hún reynt að berjast gegn þeim sem nauðgaði henni. Manni sem neytti aflsmunar og kom vilja sínum fram við hana. Kannski hrópaði hún Nei!

Við erum allar María. Við höfum ekki alltaf val. Við reynum stundum að berjast við ofurefli. Við reynum stundum að segja Nei, og það er ekki hlustað á okkur. Og um leið eigum við að vera prúðar og stilltar. Taka því sem að höndum ber. Vera fullkomnar. En við erum það ekki. Við erum manneskjur af holdi og blóði. Eins og María. Og eins og María njótum við náðar Guðs. Við erum Guði þóknanlegar. Ekki vegna þess að við ölum börn, ekki vegna þess að við erum stilltar og prúðar, heldur einfaldlega vegna þess að við erum elskuð Guðs börn, hluti af Guðs góðu sköpun.
Höf. Arna Ýrr Sigurðardóttir

Tilbrigði við Orðskviðina 31. 10-31:

Dugmikla konu, hver þekkir hana?
Hún er dýrmætari en perlur.
Maki hennar treystir henni
og það er gott að vera með henni.
Hún gerir lífsförunauti sínum gott og er
honum trú alla ævidaga sína.
Hún tekur til og setur í þvottavél,
henni fellur sjaldan verk úr hendi.
Hún er verslar í matinn þó Bónus
sé ekki í leiðinni.
Hún fer snemma á fætur,
hitar kaffi, tekur til morgunmat handa öllum
og kannar hvort allir fjölskyldumeðlimir þekki
verkefni dagsins.
Ef hana langar í nýja skó kaupir hún þá og
ef hún vill skipta um lit á veggjunum í stofunni,
málar hún þá.
Hún fer í ræktina þrisvar í viku, lyftir lóðum,
hleypur á brettinu og æfir jóga.
Hún finnur að það sem hún gerir skiptir máli,
veit að hún er í ábyrgðarmiklu starfi
og stundum þarf hún að sitja við tölvuna
fram eftir kvöldi og ljúka við það sem hún
náði ekki að gera yfir daginn.
Hendur hennar renna eftir lyklaborðinu
þegar hún skapar nýja heima í tölvunni,
þegar hún greiðir reikningana.
Hún heimsækir eldri ættingja sína þegar hún getur
og hún gefur reglulega í Hjálparstarf kirkjunnar.
Hún býr börnin sín vel fyrir veturinn svo þeim verði
ekki kalt á leikskólanum.
Hún er glæsileg til fara.
Blandar saman notuðum fötum og nýjum.
Hún flokkar ruslið og
fer með allt sem hægt er í endurvinnslu.
Hún er bjartsýn og sjálfsörugg.
Hún er sátt við sjálfa sig.
Í því felst glæsileiki hennar.
Hún bloggar af kærleika
og reynir að tala vel um allt fólk.
Hún er börnum sínum góð fyrirmynd og
á trúnað þeirra og makans.
Hún er dugleg en kann líka að
slappa af og horfa á góða mynd í sjónvarpinu.
Börnin hennar vilja líkjast henni og maki hennar
hrósar henni.
„Margar konur hafa verið til fyrirmyndar
en þú tekur þeim öllum fram.“
Kynþokkinn er svikull og fegurðin hverful
en trúuð kona á kreppu tímum á hrós skilið.
Hún njóti ávaxta vinnu sinnar og verk hennar
munu að lokum vekja athygli.
Þekkir þú þessa konu? Ég þekki hana.

Ofurkonan
Ég þekki líka konuna sem leyfir sér að slappa af fyrir framan sjónvarpið, tölvuna eða við handavinnu í stað þess að setja í þvottavél eða taka til.

Ég þekki líka konuna sem sér til þess að verkaskipting hennar og makans sé jöfn.

Ég þekki konuna sem veit að hún er með lægri laun en maðurinn sem var ráðinn um leið og hún og gegnir samskonar starfi. Hún getur ekki gert neitt í því þar sem launaleynd ríkir í fyrirtækinu.

Ég þekki konuna sem virkar svo sterk og sjálfsörugg út á við en verður fyrir stöðugu ofbeldi og niðurbroti heima hjá sér. Frá manneskjunni sem hún deilir með borði og sæng.

Ég þekki konuna sem er með hærri laun en maki sinn og hann samgleðst henni.

Ég þekki konuna sem nær ekki endum saman því hún er einstæð með þrjú börn og á örorku.

Ég þekki konuna sem prumpar aldrei fyrir framan manninn sinn því hún er dama.

Ég þekki allskonar konur.

Mikið væri gaman að vera þessi ofurkona sem hér var lýst og verða aldrei þreytt. Eða að verða bara hæfilega þreytt svo ég sofi vel.

En hver er þessi ofurkona? Er hún til?

Já, þessi kona er til og við þekkjum hana en mögulega er hugtakið „ofurkona“ þó ekki réttnefni því það er ólíklegt að ein manneskja geti haldið út allan þennan fullkomleika sem hér var lýst.

Ofurkonan er hver einasta kona sem gerir sitt besta í heimi þar sem konum hefur verið gefið að sök að hafa komið með illskuna inn í heiminn, að vera orsök alls ills. Ofurkonan er sú sem lifir af í heimi þar sem konan á helst að vera bæði hrein mey og móðir samtímis og segja já við örlögum sínum hver sem þau eru.

En ofurkonan er líka konan sem segir nei við þeim örlögum sem henni eru ætluð og er móðir án þess að vera meyja og er meyja án þess að vera móðir.

En ofurkonan er líka konan sem leitar þekkingar, og horfir framan í forgengileikann og neitar að bera sökina á illskunni sem á hana er klínd.

Ofurkonan er þú og ég. Ofurkonan er allar konur og allar mætast þær í Móðurinni. Í verkinu þar sem hið jarðneska er orðið heilagt og þar sem hið heilaga er jarðneskt.
Höf. Guðrún Karls Helgudóttir

Móðirin.
Verkið Móðirin fjallar um þann jarðneska veruleika sem við þekkjum og æðri veruleika sem við leitumst við að finna. Jarðbrúni liturinn vísar til ilmandi moldarinnar, það er jörðin sem við komum frá og hverfum til.  Gullsaumurinn og upphafin blómsköpin eru eins og línur milli stjarna á himinfestingunni um hánótt og breiða úr sér. Þannig sameinar verkið himinn og jörð, hið andlega og hið veraldlega.

Í gegnum tíðina hefur sú hefð myndast að konan sé skilgreind útfrá aðgreindum hlutverkum.  Það er móðurhlutverkið og það að fórna sér fyrir aðra. Það er skækjan eða sú sem er sjálfstæð og í tengslum við hvatir sínar. Og nú hefur ofurkonan í samtímanum bæst við, konan sem getur allt og virðist engin takmörk sett. Ég get ekki ímyndað mér að konur hafi búið þessar skilgreiningar til um sjálfa sig – og þótt við gegnum mörgum hlutverkum í lífinu, bæði karlar sem konur, eru þau ekki aðskild. Öll höfum við marga fleti og mismunandi þarfir í okkar persónulega líf.  Ég þekki enga konu sem býr ekki yfir öllum þessum hlutverkum, sameinuðum í einum og sama líkamanum og lífinu. 

Með saumuðu veggteppi er vísað til aldagamallar hefðar kvenna og hannyrða. Konur saumuðu og sýndu þar með stétt sína og stöðu, hvort sem var að vefa veggteppi fyrir kalda hallarveggi, gullsaum fyrir kirkjuna, eða staga í sokka og sauma allt sem þurfti fyrir heimilið. Hversu margar konur hafa ekki saumað út rósir?

Við þekkjum flest klukkustrenginn, útsaumuð mynd sem féll af hógværð inn í þröngt bil einhverstaðar til hliðar á heimilinu, gjarnan milli dyra.

Myndmál klukkustrengsins Móðirin, krefst allrar þeirrar stærðar sem möguleg er og er löngu vaxin uppúr hógværðinni að sitja hljóð til hliðar. Verkið tekur sér stórt pláss því umræðan sem það skapar er mikilvæg í nútímasamfélagi.  En það býr einnig yfir mýkt andlegra sanninda, jafnvægis, sáttar og kærleika.

Kvensköp eru tabú í samtímanum.  Fátt hefur valdið jafn mikill hneykslun eða verið misnotað  gegnum tíðina, bjagað og bælt og þetta mikilvæga líffæri kvenna. Fyrir mér er þetta verk tilraun til afbælingar en vísar á sama tíma til andlegs og veraldlegs veruleika.

Í Móðurinni mætast allar konur og þegar ég lít til verksins segir það mér : Öllu er  óhætt, allt er gott, harla gott.
Höf. Kristín Gunnlaugsdóttir

Hugleiðinar þessar voru fluttar í útvarpsmessu í Grafarvogskirkju 10. mars 2019.