Skip to main content
Flokkur

Pistlar

Ávarp við setningu presta- og djáknastefnu í Seltjarnarneskirkju 2025

Eftir Greinar, Pistlar


„Verið ávallt glöð í Drottni. Ég segi aftur: Verið glöð“. (Fil. 4.4)

Djáknar, prestar, biskupar, dómsmálaráðherra og aðrir góðir gestir, hjartanlega velkomin á presta- og djáknastefnu.  

Yfirskrift synodus í ár er sótt í Filipíbréfið sem er vel við hæfi á gleðidögum og ég bið þess að okkur takist, með hjálp Guðs, að láta gleðina ríkja í okkar hópi á þessari presta- og djáknastefnu. 

Þakkir
Ég vil byrja á að þakka ykkur öllum sem hafið tekið þátt í undirbúningi þessarar presta- og djáknastefnu. Ég þakka handbókarnefnd fyrir góð störf og mikilvæg og fyrir undirbúning messunnar hér í upphafi. Þá vil ég þakka þeim sem þjónuðu hér í dag sóknarnefndarfólki, prestum, djáknum, organista, fiðluleikara, kór og Seltjarnarnessöfnuði fyrir einstakar móttökur. Við höfum fundið fyrir gestrisni ykkar frá því við hófum undirbúning stefnunnar fyrir nokkrum mánuðum. Það hefur verið ljúft að skipuleggja stefnuna með sr. Bjarna Þór, sóknarnefnd og starfsfólki /safnaðarins. Ég vil þá þakka bæjarstjórn Seltjarnarnesbæjar fyrir rausnarlega móttöku sem boðið verður til hér á eftir. Hér eru engar hindranir heldur eingöngu lausnir. Það er dýmætt að sjá hversu vel metin kirkjan er hér á Nesinu, að hún eigi sér augljósan stað í hjörtum fólks og sé hluti af daglegu lífi Seltirninga.  

Síðast en ekki síst vil ég þakka ykkur kæru prestar-, djáknar, prófastar, vígslubiskupar, allt starfsfólk Biskupsstofu og kirkjufólk um allt land fyrir gefandi samstarf og hlýjar móttökur er ég tók við embætti biskups Íslands. Ég hlakka til áframhaldandi samstarfs og samvinnu og nánari kynna.
 

Efni Synodus
Nú er vinna við nýja Handbók Þjóðkirkjunnar langt komin ef allt gengur eftir og hefur sú vinna nú staðið yfir í um þrjú ár. Handbókarnefnd hefur unnið gríðarlega mikið starf og með það lýðræðislegum hætti að við sem sótt höfum presta- og djáknastefnu undanfarin ár höfum fengið tækifæri til þess að hafa áhrif á efni Handbókarinnar.  

Nú hafa fjögur messuform verið send út auk athafna og annars efnis og söfnuðir hafa verið hvattir til þess að prófa formin. Fjölmörg ykkar hafa þegar látið verða af því og ég hvet ykkur sem ekki hafið byrjað enn að láta á það reyna. Í kjölfarið gefst ykkur þá tækifæri til þess að koma áliti ykkar á framfæri með rökstuðningi. Okkur á sjálfsagt eftir að þykja ýmislegt óþjált til að byrja með en þannig er það yfirleitt þegar við skiptum út textum sem eru okkur svo handgengir að við getum nánast farið með þá í svefni.  

Að baki þessa efnis liggur mikil guðfræðileg vinna auk þess sem nefndin tekur tillit til kröfu nútíma samfélags um að talað sé mál allra kynja í Þjóðkirkjunni. Þá málnotkun styð ég heilshugar því ég tel ákaflega mikilvægt að þau sem koma til kirkju upplifi að þau séu velkomin og ávörpuð. Við munum fá gott rými til þess að vinna með handbókarnefnd og ræða handbókina á morgun.  

Á miðvikudaginn mun prestastefna leggja fram til samþykktar ályktun þess efnis að presta- og djáknastefna samþykki þá meginstefnu í messuformum Handbókar Þjóðkirkjunnar. Stefnt er að því að presta- og djáknastefna 2026 samþykki nýja Handbók sem þá verði lögð fyrir kirkjuþing til kynningar sama haust.  

Samhliða vinnu við handbókina er að hefjast endurskoðun á Innri samþykktum Þjóðkirkjunnar. Sr. Arna Grétarsdóttir og dr. Steinunn Arnþrúður Björnsdóttir hafa tekið þá vinnu að sér en þær munu vera í þéttu samtali við handbókarnefnd og leita til ýmissa ráðgjafa. Ef þið viljið koma á framfæri skoðunum á innri samþykktum er velkomið að hafa samband við þær.  

Á morgun munu fulltrúar handbókarnefndar fara í stuttu máli yfir notkun skrúðans og kirkjulitina en það gott að fá reglulega upprifjun um skrúðann þar sem mikilvægt er að við notum litúrgísk klæði með réttum hætti og vitum hvers vegna við klæðumst þeim. Þá höfum við nú tekið í notkun bláa litinn og þann rósbleika en ég vísa til greinagerðar frá handbókarnefnd þess efnis sem ég sendi prestum, djáknum og organistum 20. febrúar síðastliðinn. 

Að því loknu gefst öllum tækifæri til þess að tjá sig í stuttu máli um hempuna, um það sem mælir með notkun hennar og ef eitthvað mælir gegn henni. 

Áður en við komum saman á gleðistund í Biskupsgarði á morgun mun Heimir Hannesson samskiptastjóri kynna fyrir okkur nýja heimasíðu og nýtt útlit á öllu efni sem birtist frá Þjóðkirkjunni. Heimasíðan verður ekki opnuð fyrr en í lok sumars en prestar og djáknar fá þó aðgang að henni fyrr svo að þið getið kynnt ykkur breytingarnar til hlítar áður en síðan verður opnuð með viðhöfn. 

Á miðvikudaginn mun formaður samtakanna ´78 bjóða upp á sérsniðna kynningu fyrir presta og djákna. Þessi kynning er hluti af samtali og samvinnu biskups Íslands og Samtakanna ´78 sem er liður í því sáttarferli sem nú stendur yfir á milli Þjóðkirkjunnar og hinseginsamfélagsins. Annar liður í þessu er að boðið verður upp á námskeið á vegum Samtakanna í öllum prófastsdæmum í vetur.  

 

Samskipti og sýnileiki
Eitt af því sem ég hef lagt mikla á þessa fyrstu mánuði í embætti biskups er samskipti og sýnileiki, bæði kirkjunnar og biskups. Ég hef lagt áherslu á að eiga góð samskipti við fjölmiðla og víðar úti í samfélaginu með því að mæta í viðtöl og þætti bæði í blöðum, útvarpi og sjónvarpi og með því að auka sýnileika kirkjunnar á samfélagsmiðlum.  

Þetta verkefni hefur gengið vonum framar og nú er svo komið að óskað er eftir þátttöku biskups og presta og kirkjufólks í fjölmörgu er tengist dægurmenningu þjóðarinnar auk þess sem óskað er eftir áliti kirkjunnar á málum sem eru ofarlega á baugi í samfélaginu í síauknum mæli og svo mjög að við önnum vart eftirspurn. Stór liður í þessu var að ráða samskiptastjóra, sem er Heimir Hannesson og samfélagsmiðlastjóra, Tinnu Miljevic til starfa. Þau hafa staðið vaktina í þessum málum og staðið sig ákaflega vel. 

Ég hef einnig lagt áherslu á samskipti inn á við þ.e. við ykkur sem þjónið í kirkjunni, starfsfólk og sóknarnefndir eftir bestu getu. Það hef ég gert með því að reyna að auka upplýsingagjöf frá Biskupsstofu, heimsækja söfnuði, eiga samtöl við þau sem óska eftir því og með því að vera reglulega með skrifstofu biskups í öllum landshlutum. Þannig hef ég náð að tengjast kirkjufólki vítt og breitt um landið. Þetta mun ekki koma í stað vísitasía heldur mun ég taka hlé frá landsbyggðarskrifstofunni til þess að vísitera þegar þar að kemur.  

Ýmislegt fleira er áformað í þessum málum því að mínu mati er eitt af brýnni verkefnum kirkjunnar nú að hlúa vel að þjónum hennar. 

Erlend samskipti
Þjóðkirkjan er hluti af kirkju heimsins  og nú er mikilvægt sem aldrei fyrr að við tökum þátt í því að standa vörð um kristin gildi mannúðar og mildi og réttindi þeirra sem minnst mega sín í okkar nærsamfélagi  og í hinni alþjóðlegu  kirkju. 

Við erum aðilar að Alkirkjuráðinu, Lúterska heimssambandinu, Evrópuráði kirkna og fleiri alþjóðlegum stofnunum og samtökum sem eru málsvarar kristni í heiminum. Í því samhengi er mikilvægt að við nýtum okkar atkvæðisrétt. Rödd þeirra sem nota kristna trú til aðgreiningar og jafnvel til þess að rökstyðja mannréttindabrot er að finna út um allan heim.  

Kirkjan í heiminum tekur  sífelldum  breytingum og rödd okkar og sá mannskilningur sem við stöndum fyrir er mikilvægur og skiptir mál. Við verðum að átta okkur á því að þær breytingar sem eiga sér stað erlendis munu einnig ná til okkar hér á Íslandi.  

Prestar og djáknar
Kæru prestar og djáknar. Ykkar þjónusta er dýrmæt og hún er mikilvæg. Meiri hluti íbúa þessa lands áttar sig á því. Það sýna nýjar tölur um traust þjóðarinnar til Þjóðkirkjunnar. Traustið hefur ekki hækkað jafn mikið frá því mælingar hófust fyrir tveimur áratugum. Það er ykkur, og okkur öllum sem þjónum í kirkjunni að þakka. Það er kirkjufólki að þakka. 

Mín reynsla er sú að prestsþjónustan sé besta starf sem hægt er að hugsa sér fyrir manneskju sem hefur köllun til þeirrar þjónustu. Ég efast ekki um að hið sama eigi við um djáknaþjónustuna. En þessi störf eru einnig gríðarlega erfið og þung á köflum. Við vitum aldrei hvenær áföll ríða yfir og því verðum við að skipuleggja vinnutímann og þjónustuna vel og bera virðingu fyrir frítíma okkar og annarra. Þá er svo ótal margt annað sem getur valdið álagi og ég veit að mörg ykkar upplifið ykkur óvarin á stundum. Því er svo mikilvægt að þið finnið að þið eruð ekki ein heldur hluti af stærra samhengi. Þið eruð hluti af Þjóðkirkjunni sem er annt um þjóna sína og er til staðar þegar á móti blæs. Prófastarnir eru margir með mikla reynslu í að styðja presta og djákna sem lenda í erfiðleikum í starfi og þeirra hlutverk er að styðja ykkur og aðstoða.  

Þá stendur öllum prestum og djáknum, sem eru í ráðningarsambandi við Þjóðkirkjuna, til boða að sækja handleiðslu. Annars vegar er í boði hóphandleiðsla hjá Fjölskyldu- og sálgæsluþjónustu kirkjunnar og hins vegar er hægt að sækja um að fá allt að fimm tíma í einkahandleiðslu hjá Fjölskyldu- og sálgæsluþjónustunni eða hjá aðila sem þið sjálf kjósið. Einnig mun nú standa til boða að sækja svokallaða „andlega handleiðslu“ hjá Fjölskyldu og sálgæsluþjónustunni.  

Endurskoðun þjónustunnar
Nú stendur yfir endurskoðun vígðrar þjónustu kirkjunnar á landinu öllu. Það blasir við skortur á prestum í þjónustuna á ýmsum stöðum á landsbyggðinni og brýnt er að bregðast við því. Ein leið er að hagræða þjónustunni, auka fjölbreytni hennar og kanna um leið hvort mögulegt sé að bæta kjör og aðstæður presta á fámennum stöðum með einhverjum hætti til þess að fá frekar fólk til þjónustu þar. 

Einnig er mikilvægt að kynna vel guðfræðinámið og lyfta því upp hversu áhugavert preststarfið er. Vonir standa til þess að tillögur verði tilbúnar þegar kirkjuþing kemur saman í haust og mun biskupafundur leggja þær fram. Þessar tillögur eru unnar í breiðu samstarfi við vígða þjóna og kirkjufólk vítt og breitt um landið og ég geri ráð fyrir að mörg ykkar hafið þegar tekið þátt í þeim með einhverjum hætti. Mér þykir líklegt að lykilhugtakið í nýjum tillögum verði „sveigjanleiki“. 

Ráðningar og breytingar
Í messunni áðan voru lesin upp nöfn þeirra sem vígðust, fengu lausn frá embætti sökum aldurs eða létust á Synodusárinu. Töluverðar breytingar urðu þegar prestar færðu sig til auk þess sem fjölmargir prestar og nokkrir djáknar hafa annast afleysingaþjónustu á umliðnu Synodusári. Nú í sumar munu nokkrir guðfræðikandídatar útskrifast sem lokið hafa starfsnámi á vegum Þjóðkirkjunnar og væntanlega munu þau sækja um eitthvað að þeim stöðum sem nú hafa verið lausar í nokkurn tíma.  

Nú hefur staðið yfir vinna við endurskoðun á starfsnámi presta og djákna og er hún á lokametrunum. Ég vil þakka starfsnámsnefndinni fyrir vel unnin störf. Niðurstaða þeirrar vinnu er að starfsnámið er nú komið í traustan farveg þar sem bæði nemar og handleiðarar fá góða þjálfum. Ein nýlunda er sú að prestar og djáknar sem taka að sér starfsnema í handleiðslu skuldbinda sig einnig til handleiðslu þeirra fyrsta árið eftir vígslu. Ég er sannfærð um að þessi mikla vinna muni skila sér í enn betur þjálfuðum prestum og djáknum. Þau sem halda utan um starfsnám presta og djákna fyrir hönd biskups eru Magnea Sverrisdóttir djákni, sr. Eva Björk Valdimarsdóttir biskupsritari og Brynja Dögg Guðmundsdóttir Briem lögfræðingur á mannauðssviði Biskupsstofu.  

Fjölmennasta fjöldahreyfingin
Þjóðkirkja Íslands er fjölmennasta fjöldahreyfing landsins. Í fjölmörg ár höfum við heyrt fréttir frá Þjóðskrá um að fækkað hafi í Þjóðkirkjunni og hlutfall meðlima lækki stöðugt. Þetta er satt en þó ekki. Nú berast okkur fréttir um að undanfarna mánuði hafi fleiri skráð sig í Þjóðkirkjuna en úr henni. Þetta er þó ekki nóg til þess að raunveruleg fjölgun verði þar sem svo stór hópur félaga hverfa ár hvert vegna andláta.  

 Þjóðkirkjan er tæplega 230 000 manna trúfélag. Það er stórt, auk þess sem mun fleiri sækja þjónustu Þjóðkirkjunnar en eingöngu þau sem eru skráðir félagar. Okkur ber að þjóna öllum og það gerum við. Þegar kemur að tölum um hversu stórt hlutfall þjóðarinnar tilheyrir Þjóðkirkjunni þá er fullkomlega ómarktækt að bera þær tölur saman við fyrri ár þar sem samsetning íbúa þessa lands hefur breyst mikið. Nú eru yfir 20% íbúa landsins ekki fæddir á Íslandi og tilheyrir stærsti hlutinn öðrum kristnum kirkjum eða öðrum trúfélögum. Hlutfall Þjóðkirkjumeðlima er því nær 80 prósentum heldur en 55 prósentum ef við miðum við þau sem eru fædd á Íslandi. 

Nokkrar skýringar eru á fækkun í Þjóðkirkjunni sem við ættum að geta brugðist við.  

  1. Ein skýring er sú að þegar fólk flytur úr landi er það sjálfkrafa skráð úr Þjóðkirkjunni en það er ekki skráð inn í hana á ný þegar það flytur aftur til landsins.  
  1. Börn sem fæðast erlendis og eiga foreldra sem bæði voru í Þjóðkirkjunni áður en þau fluttu eru ekki skráð sjálfkrafa í Þjóðkirkjuna er þau flytja til Íslands.  
  1. Árið 2013 varð sú breyting á skráningu í trú- og lífsskoðunarfélög að barn fylgir skráningu foreldra eingöngu ef báðir foreldrar eru skráðir í sama trúfélag. Að öðrum kosti stendur barnið utan trúfélaga. Þetta hefur leitt til þess að fækkun meðlima í Þjóðkirkjunni er fyrst og fremst á meðal barna 0-17 ára. Ég efast stórlega um að sá aldurshópur hafi farið á skra.is og skráð sig úr kirkjunni.  

Við verðum að bregðast við þessu og erum nú þegar byrjuð á því. Þetta er verkefni við þurfum öll að sameinast um. Þjónandi prestar og djáknar geta fylgst með skráningum þeirra er sækja þjónustu kirkjunnar og boðið fólki að skrá sig í kirkjuna ef það er ekki skráð nú þegar.  Þá er hægt að fara í átak við að fjölga félögum og ræða við Þjóðskrá um skráningarmál. Fyrst og fremst er okkar verkefni þó að vera fyrirmyndarkirkja sem tekur hlutverk sitt alvarlega, að boða fagnaðarerindið og þjóna fólki þannig að fólki langi að tilheyra Þjóðkirkjunni. 

Við megum ekki við frekari fækkun í ljósi þess að ríkið hefur ekki skilað fullum sóknargjöldum undanfarin sextán ár. Það hefur leitt til þess að erfitt er að sinna viðhaldi stórs hluta þeirra 250 kirkna sem eru í eigu Þjóðkirkjusafnaða og það kemur einnig niður á þjónustu safnaðanna. Við bíðum nú niðurstöðu nefndar á vegum Dómsmálaráðuneytisins sem vinnur að endurskoðun sóknargjalda og vonandi verður sú niðurstaða jákvæð fyrir Þjóðkirkjuna. 

Framtíðin er björt
Kæru vinir. Framtíðin er björt. Það er meðbyr með Þjóðkirkjunni og starfið blómstrar. Mannauðurinn er mikill og meirihluti íbúa þessa lands telja Þjóðkirkjuna mikilvæga. Okkur ber að taka því alvarlega.  

En til þess að vera fyrirmyndarkirkja þarf okkur öllum að líða vel í þjónustunni. Við þurfum að upplifa að þjónusta okkar sé metin, ekki aðeins úti í samfélaginu heldur einnig innan Þjóðkirkjunnar. Við ættum því að vera enn duglegri að gleðjast upphátt með hvert öðru þegar vel gengur og bjóða starfssystkinum okkar stuðning þegar á móti blæs.  

Þegar vel gengur í einum söfnuði þá gengur í vel hjá okkur öllum. Við erum ekki ein að sá akurinn, hvert og eitt fyrir sig heldur erum við hluti af stærra samhengi.  Við erum hluti af Þjóðkirkjunni, við erum hluti af kristinni kirkju í heiminum og við erum hluti af Guðs ríki.  

„Verið ávallt glöð í Drottni. Ég segi aftur, verið glöð.“ 

Kæru vinir, megi gleði og vinsemd ríkja á meðal okkar á þessari Synodu og og ávalt í þjónustu okkar og lífi öllu. Guð blessi Þjóðkirkjuna, þjóna hennar og okkur öll. 

Prestastefna 2025 er sett. 

 

 

 

 

 

Jólaheimsóknir á aðventu

Eftir Pistlar

Greinin birtist á visir.is 25. nóvember 2024

Nú styttist í aðventuna, undirbúningstíma jólanna. Ég er líkast til ekki að koma neinum stórkostlega á óvart þegar ég segi að ég hlakka mikið til jólanna. Ég er jólabarn. Hefðirnar, maturinn, samveran. Jólin fyrir mér, er þegar ég geng inn í kirkjuna um fimm leitið á aðfangadag að undirbúa mig fyrir aftansönginn. Jólin fyrir mér eru biðin eftir síðust nótunni í forspili orgelleikarans svo að ég geti óskað söfnuðinum gleðilegra jóla.

Þá eru jólin komin.

Ég lærði nýverið að ár eftir ár, er vinsælasti dagskrárliður útvarpsins þögnin. Ekki hvaða þögn sem er, heldur okkar þögn. Þögnin á undan kirkjuklukkunum sem hringja inn jólin vítt og breitt um landið, og um allan heim kl. 18:00 á aðfangadagakvöldi.

Á tímum þar sem okkur er sífellt stíað í sundur, við flokkuð í hópa eftir pólitískum skoðunum, áhugamálum, aldri, kyni, kynhneigð eða búsetu þykir mér fallegt að hugsa til þess að einu sinni á ári leggja hundruð þúsunda Íslendinga, nýir og gamlir, hér heima og erlendis, jólastressið til hliðar, eitt andartak, hækka í þögninni og bíða eftir jólunum.
Gleðileg jól.

Klukkan er sex á aðfangadagskvöld, ég lít yfir söfnuðinn minn. Fólk er í sína fínusta pússi, jólastressið er runnið af fólkinu, forspilinu er lokið.
Gleðileg jól.
Hvernig eru þín jól?

Ég held jól til þess að fagna komu frelsarans í heiminn. Vissulega er ólíklegt að Jesús hafi fæðst á þessum árstíma, en í óvissunni hefur hinn kristni heimur sameinast um að fagna fæðingunni þegar sólin fer að hækka á lofti. Margar ástæður eru fyrir því að þessi tími var valinn en hann er einmitt svo viðeigandi því Jesúbarnið færir heiminum ljós og birtu og sýnir okkur hve mikið Guð elskar manneskjuna.

Hvers vegna heldur þú jól?

Við höldum ekki öll jól vegna þess að við erum kristin, þó meirihluti þjóðarinnar geri það af þeirri ástæðu. Sum okkar halda jól til þess að fagna birtunni og enn önnur taka þátt í hefðinni vegna þess að hún er falleg og góð.

Það er mikilvægt að við virðum þessar ólíku ástæður fyrir jólahaldi, en á sama tíma megum við ekki verða feimin við kristna arfleifð þjóðarinnar. Í kristnitökunni var það meðvituð ákvörðun að leyfa blót á laun. Þannig er umburðarlyndi fyrir öðrum trúarbrögðum, og jafnvel trúfrelsi, rist í sjálfar rætur kristninnar hér á landi. Engu að síður erum við, og höfum verið alla tíð síðan, kristin þjóð. Lang stærsti hluti þeirra sem hér búa tilheyra kristnum söfnuðum og sækja gildi sín til kristninnar.

Fyrir nokkrum árum fór fram mikil umræða hér á landi um heimsókn skólabarna í kirkju fyrir jólin. Kjarni þeirrar umræðu var sá að þar sem ekki öll börnin eru kristin þá væri óboðlegt að fara í kirkju og skilja hluta barnanna eftir í skólanum á meðan meirihlutinn fór með. Þá komu einnig fram áhyggjur af því að prestar safnaða Þjóðkirkjunnar boðuðu börnum trú á skólatíma.

Niðurstaða þessara umræðna, sem ég tel að hafi verið góðar og heilbrigðar í samfélagi sem var að breytast, varð sú að Reykjavíkurborg og nokkur bæjar- og sveitafélög komu sér saman um samskiptareglur á milli leik- og grunnskóla og trúfélaga.

Hvergi í þeim reglum er skólum bannað að heimsækja kirkjur, og allra síst á hátíðum, svo lengi sem þar fer fram fræðsla en ekki boðun og að heimsóknir séu unnar í samstarfi við skólastjórnendur. Þá hefur Félags- og barnamálaráðuneytið útbúið samskiptareglur skóla og trúfélaga. Þær má finna á vef ráðuneytisins.

Þessar reglur eru harla góðar og því hafa söfnuðir Þjóðkirkjunnar sem taka á móti skólabörnum á aðventunni lagt sig fram um að vera í góðu samstarfi við skólastjórnendur sem yfirleitt ráða dagskránni.

Mig langar því að hvetja skólastjórnendur og foreldra til þess að koma í kirkjuna í hverfinu/bænum/sveitinni ykkar á aðventunni þar sem það er í boði. Þá vil ég ekki síður hvetja skólastjórnendur til þess að vera opna fyrir því að heimsækja önnur trúfélög á þeirra hátíðum þar sem það er í boði. Börnin okkar hljóta að verða ríkari af því að kynnast ólíkum trúarbrögðum því þegar upp er staðið eru það foreldrarnir eða nánustu aðstandendur sem eru mikilvægustu áhrifavaldarnir í lífi barna. Ekki trúarleiðtogi í söfnuði.

Ég held að skólar ættu einnig að skoða að bjóða sem allra flestum börnum að koma með í slíkar heimsóknir, ekki aðeins þeim er tilheyra viðkomandi trúarbrögðum. Í því felst möguleiki á að auka þekkingu og um leið umburðarlyndi fyrir ólíkum trúarbrögðum og uppruna fólks.

Nú á aðventunni bjóða fjölmargir söfnuðir Þjóðkirkjunnar upp á aðventustundir fyrir skólabörn í samráði við skólastjórnendur og gjarnan er hlutverk prestsins, djáknans eða æskulýðsfulltrúans aðeins að stýra samkomunni og segja fallega jólasögu. Þá er oftar en ekki organisti með sem heldur utan um tónlistina. Í þeim söfnuðum þar sem ekki eru haldnar sérstakar stundir fyrir skólabörn er oft boðið upp á aðventustund fjölskyldunnar í kirkjunni og er hún þá alveg óháð skólunum.

Á þessum undirbúningstíma jólanna er einstakt að geta komið inn í kirkju, sungið jólalög, heyrt jólasögur, kveikt á kertum og fundið fyrir helgi og frið í hjarta auk þess sem stundum er boðið upp á góðgæti. Mögulega koma börnin heim úr þessum heimsóknum með virðingu fyrir helgi þeirra sjálfra og annarra.

Um leið og ég óska þér kyrrðar og friðar á þessari aðventu vil ég hvetja skólastjórnendur og foreldra til þess að þiggja boð safnaðanna um að koma í heimsókn í kirkjuna sína um jólin.

Bjart yfir kirkjunni

Eftir Pistlar

Ávarp biskups Íslands við setningu kirkjuþings 26. október 2023

Forseti kirkjuþings, dómsmálaráðherra, vígslubiskupar, kirkjuþingsfulltrúar og góðir gestir.

Það er bjart yfir Þjóðkirkjunni.

Og það er virkilega hvetjandi að hlýða á orð forseta kirkjuþings og dómsmálaráðherra. En þessi birta er ekki sjálfgefin. Við sem erum hér þurfum að hafa fyrir því að skapa þessa birtu og viðhalda henni. Það er þannig samstarfsverkefni okkar, sem erum samankomin hér, ásamt kirkjufólki í landinu, að skapa það umhverfi í kirkjunni sem við viljum. Við gegnum, hvert og eitt mikilvægu hlutverki í þessu samhengi og því er ákaflega brýnt að á milli okkar ríki virðing og traust.

Eins og þið heyrið er ég bjartsýn og þessi bjartsýni eykst með hverjum degi á biskupsstóli.  Ég tel mig reyndar hafa góða ástæðu fyrir bjartsýni því ýmis teikn eru á lofti um bætta stöðu þjóðkirkjunnar í samfélaginu. Nýjustu tölur frá Þjóðskrá Íslands benda til viðsnúnings í skráningum í Þjóðkirkjuna en nú hafa í fyrsta sinn í mörg ár fleiri skráð sig í kirkjuna er úr. En þegar andlát eru tekin með stöndum við á sléttu. Ég er nú, ásamt framkvæmdarstjóra og samkiptastjóra með áform um að setja af stað vinnu við að rýna í skráningamál og vinna í því með kerfisbundnum hætti að fjölga í meðlimum Þjóðkirkjunnar.

Ég lít á það sem eitt af hlutverkum biskups að lyfta kirkjunni upp í samfélaginu og auka sýnileika hennar en það geri ég sannarlega ekki ein heldur með kirkjufólki um land allt, með ykkur. Til þess að sinna þessu hlutverki tel ég nauðsynlegt að biskup og starfsfólk Biskupsstofu sé í beinu og milliliðalausu sambandi við sem flest kirkjufólk vítt og breitt um landið.

Hluti af þessu er sú nýbreytni í þjónustu biskups að bjóða upp á færanlega skrifstofu með reglulegu millibili í hverjum landshluta. Fyrsta skrifstofan var á austurlandi í síðustu viku og var sú ferð ákaflega vel heppnuð. Næst á dagskrá er ferð á suðurlandið í nóvember, á norðurland í janúar og á vestfirði í maí. Það er nauðsynlegt fyrir biskup að vera í tengslum við kirkjufólk um landið og að kynnast veruleika þeirra er starfa við ólíkar aðstæður. Þá er ekki síður mikilvægt fyrir fólk um allt land að hafa eins greiðan aðgang að biskupi og mögulegt er.

Hlutverk Þjóðkirkjunnar er að biðja, boða og þjóna. Hlutverk kirkjuþings er að skapa ramma utan um þessa þjónustu og þetta hlutverk kirkjunnar. Hlutverk biskups er m.a. að skipuleggja þjónustuna, hlúa að þjónunum og gæta þess að einungis fyrirmyndarþjónusta sé veitt. Ég þarf ekki að segja ykkur hér að tímarnir breytast og fólkið með. Og þó að boðskapur Krists og kirkjunnar standist tímans tönn þá er kirkjan ekki ónæm fyrir samfélagslegum breytingum. Til þess að geta veitt fyrirmyndar þjónustu verðum við að vera vakin og sofin yfir því hvar við getum gert betur.

Biskupafundur er nú að hefja vinnu við að endurskoða og endurmeta vígða þjónustu kirkjunnar um landið allt. Það gerum við með það að leiðarljósi að veita gæðaþjónustu á sem flestum stöðum þrátt fyrir að við horfum nú fram á skort á prestum. Það er ekki til neins að loka augunum fyrir þeim vandamálum er við okkur blasa og við verðum að vera óhrædd við að horfast í augu við þau og taka á þeim. Við stöndum nú frammi fyrir prestaskorti og þeirri staðreynd að sumar stöður er erfiðara að manna en aðrar. Við verðum að sníða okkur stakk eftir vexti og nú er komið að því að huga að þjónustu kirkjunnar með skapandi hætti og jafnvel fara nýjar leiðir í þjónustunni á þeim stöðum sem erfitt hefur verið að manna. Við þurfum að öllum líkindum að grípa til aðgerða til að auka áhuga presta á embættum á vissum stöðum t.d. með hússnæðisstyrkjum og auknum stuðningi á sumarleyfistímum. Preststarfið er ekki eins um landið allt og mikilvægt er að við horfumst í augu við það og leggjum okkur fram um að hlúa að öllum þjónum kirkjunnar hvar á landi sem þeir eru. Við munum fá faglega ráðgjöf við þessa vinnu auk þess sem við vinnum þetta í góðu samtali við framkvæmdarstjóra rekstrarsviðs Biskupsstofu og fáum álit ýmissa aðila.

Í þessu ljósi tel ég einnig mikilvægt að kirkjan komi með einhverjum hætti að kynningum á námi í guðfræðideild og að við eflum kirkjuna enn frekar sem öruggan og góðan vinnustað.

Nú hefur ný starfsmannastefna Þjóðkirkjunnar verið tekin í notkun og send þeim sem eiga í ráðningasambandi við Þjóðkirkjuna. Stefnuna er hægt að nálgast á heimasíðu kirkjunnar.

Í byrjun mánaðar tókum við á leigu húsnæði við Tjarnargötu 4 þar sem móttökurými biskups verður til húsa næstu ár. Húsnæðið er ekki alveg tilbúið enn og því mun ég bjóða til móttöku í safnaðarheimili Dómkirkjunnar á mánudaginn kl. 19 og vona að þið sjáið ykkur öll fært að koma. Á næsta kirkjuþingi verður ykkur síðan öllum boðið til móttöku í þessum nýja biskupsgarði.

Í Jesaja spámanni segir:

„Minnist hvorki hins liðna
né hugleiðið það sem var.
Nú hef ég nýtt fyrir stafni,
nú þegar vottar fyrir því,
sjáið þér það ekki?Ég geri veg um eyðimörkina
og fljót í auðninni.“

(Jes. 43:18-19)

Þessi orð minna okkur á að þó að það sé ákaflega mikilvægt að líta til baka, byggja á hefðum og halda í hin góðu gildi sem komu okkur þangað sem við erum þá er ekki síður mikilvægt að vera kjörkuð og horfa til framtíðar án þess að láta fortíðina fjötra okkur. Kirkjuþingið verður að vera kjarkmikið og óhrætt þegar kemur að því að móta framtíð kirkjunnar og ekki síst treysta Guði sem gerir veg um eyðimörkina og fljót í auðninni. Kirkjufólk um land allt fylgist með kirkjuþingi því hér eru teknar ákvarðanir er varða framtíð kirkjunnar. Því er svo mikilvægt að kirkjuþing gangi á undan með góðu fordæmi er varðar samvinnu, traust og virðingu fyrir náunganum. Traust kemur ekki sjálfkrafa heldur er það er áunnið. Viðmót, ákvörðun, heiðarleiki og góð sjálfsþekking er grundvöllur góðrar samvinnu.

Ég hlakka til að taka þátt í þessu kirkjuþingi!

Að lokum við ég þakka forseta kirkjuþings, forsætisnefnd, starfsfólki kirkjuþings og Biskupsstofu fyrir undirbúning þingsins. Ég þakka ykkur kæru kirkjuþingsfulltrúar fyrir ykkar miklu vinnu við undirbúning þingmála og störf ykkar hér á þinginu. Þá vil ég þakka Kyrju fyrir dásamlegan tónlistarflutning og organistanum Erlu Rut Káradóttur.

Þá vil ég nota þetta tækifæri til þess að þakka forvera mínum frú Agnesi M Sigurðardóttur fyrir hennar dyggu og trúu þjónustu við Þjóðkirkju Íslands.

Guð blessi þetta kirkjuþing og okkur öll.

Samkennd samfélags

Eftir Pistlar

Greinin birtist á visir.is 18. september 2024

Hann var kaldranalegur, mánudagsmorguninn 16. september þegar fréttir voru sagðar af langveikum dreng í hjólastól að hann hefði verið sóttur af lögreglufólki á Landspítalann og biði brottvísunar í haldi lögreglu á Keflavíkurflugvelli. Drengurinn hafði það til saka unnið að vera í röngu landi á röngum tíma.

Sama morgun var okkur sagt að tíu ára stúlka hafi fundist látin í hrauni við Krýsuvík, ekki langt frá Keflavíkurflugvelli. Faðir stúlkunnar var handtekinn, grunaður um morð.

Þrjú börn eru látin á þessu ári. Tvö þeirra á undanförnum þremur vikum. Þrjú barnamorð á borði lögreglu. Það er ekki að undra að við spyrjum hvað sé eiginlega að gerast á okkar friðsæla landi. Fleiri eru óhæfuverkin og harmleikirnir, því fullorðnu fólki hefur einnig verið ráðinn bani. Sjálfsvígin eru of tíð og sömuleiðis banaslysin.

Þegar of margir fréttatímar bera þess vitni að samkennd sé á undanhaldi í samfélaginu. Þegar við lesum, heyrum og sjáum að 12 ára langveiku hjólastólabundnu barni hafi verið ekið af spítala og út á flugvöll að nóttu til. Þegar þriðja barnið er myrt. Er þá ekki réttlætanlegt að staldra við og spyrja; hvernig sköpum við kærleiksríkara samfélag?

Sjálfsmynd okkar Íslendinga byggir að miklu leyti á því að sama hversu háir eða lágir stýrivextir eru, sama hvað gengur á úti í hinum stóra heimi, þá fara börnin okkar af stað út í daginn og þau skila sér heim á kvöldin. En þegar við upplifum að öryggi barna okkar sé ekki lengur tryggt á Íslandi, þá er enn og aftur eðlilegt að við stöldrum við.

Þegar Pisa-kannanir sýna að íslensk börn eiga erfiðara með að sýna samkennd en börn í löndum sem við kjósum að bera okkur saman við, þá er eðlilegt að við spyrjum okkur: Hvað gerðist?

Því er reglulega slengt fram að reglur megi ekki snúast um einstaka manneskjur. Þær verði að hafa hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi. Það kann vel að vera, en reglur samfélags mega heldur ekki vera ómanneskjulegar. Með lögum skal land byggja, lesum við á skildi lögreglunnar. En gleymum ekki síðari hluta setningar Njáls á Bergþórshvoli, „en með ólögum eyða.“ Lög sem heimila aðgerðir lögreglu aðfaranótt mánudags síðastliðins, eru ólög og þau eru ómanneskjuleg.

Þegar fullorðið fólk, og börn um leið, sjá ráðafólk takast á um það hvort spænskir spítalar séu ekki alveg nógu góðir fyrir drenginn, en skauta gjörsamlega framhjá því að lögregla hafi farið inn á barnaspítala í skjóli nætur og sótt þar sjúkling til brottvísunar, er eðlilegt að staldra við.

Við erum slegin yfir fréttum undanfarna daga, vikur og mánuði. Það er heilbrigðismerki. Það eitt og sér segir okkur að við erum fær um að elska og finna til. Það segir okkur að við getum fundið til samkenndar. Það að við séum slegin leggur grunninn að því að við getum unnið úr áföllunum og styrkt okkur sem kærleiksríkt og heilbrigt samfélag.

Jesús frá Nasaret sagði okkur að elska náungann. En hann lét ekki þar við sitja heldur sýndi okkur í verki hvað það raunverulega þýðir. Hann læknaði, hann rétti fólk við og reisti það upp. Hann fyrirgaf og hann huggaði. En hann reiddist líka óréttlæti og barðist fyrir réttlæti. Kærleikur og réttlæti haldast í hendur því bæði þurfa á hinu að halda.

Þegar við verðum fyrir áfalli er ákaflega mikilvægt að ræða það sem gerðist og hvernig okkur líður, að ræða tilfinningar okkar. Því skiptir öllu máli að boðið sé upp á vettvang þar sem hægt er að ræða erfiðar tilfinningar er tengjast atburðum undanfarna daga. Það eykur líkurnar á því að við getum létt á þyngslunum og smám saman risið upp sem heilli þjóð. Það eykur líkurnar á því að eitthvað gott og fallegt vaxi úr þessum tilgangslausu voðaverkum.

Í kirkjum landsins er vettvangur til samtals um erfiðar tilfinningar og reynslu. Þar er boðið upp á bænastundir, þar er hægt að koma inn og kveikja á kerti, sitja í þögn eða ræða við prest eða djákna. Það er einnig hlutverk fjölmiðla að skapa vettvang fyrir samtal og fræðslu þegar slík áföll verða og margir fjölmiðlar standa sig vel. Sorgin verður bærilegri ef við berum hana í sameiningu og samtalið hjálpar okkur að koma heilli frá erfiðri reynslu og vaxa með henni.

Börnin horfa til okkar fullorðna fólksins. Þau meta heiminn út frá ákvörðunum okkar; Ef við sýnum samkennd, tölum við börnin um samkennd og kennum þeim að hver einasta manneskja skiptir máli þá aukum við líkurnar á því að þau rækti með sér samkennd. Ef við kennum börnum okkar, að það að verja þau okkar sem geta ekki varið sig sjálf er sjálfsagður hluti þess að vera manneskjur og að tilheyra samfélagi, þokumst við nær því samfélagi sem við viljum vera og tilheyra.

Tökum utan um hvert annað og ekki síst börnin okkar og sýnum þeim hvernig við vinnum úr áföllum. Það er hlutverk okkar og skylda að ræða við börnin okkar og við megum alls ekki færa það mikilvæga dagskrárvald til samfélagsmiðla.

Ég votta öllum þeim sem nú eiga um sárt að binda vegna atburða undanfarinna vikna og mánaða mína dýpstu samúð og bið þess að við getum sameinast um að rísa upp í kærleika í samfélagi þar sem nægt rými er fyrir alla: litla langveika drengi og börn sem eiga það skilið að fá að lif

Biskup í tengslum

Eftir Pistlar

Eitt af því besta við að vera í biskupskjöri er að kynnast kirkjufólki vítt og breitt um landið. Nú höfum við frambjóðendur farið á fjölmarga staði á landinu og tekið þátt í kynningarfundum auk þess sem ég hef hitt sóknarnefndarfólk á fjölmörgum stöðum. Með mér í för var eiginmaðurinn minn, Einar og var þetta alveg ný og einstök reynsla fyrir okkur hjónin sem gaf okkur mikið.

Ég vissi vel að um allt land væri að finna kirkjufólk sem þætti vænt um kirkjuna sína og væri tilbúið að leggja hjarta og sál í kirkjustarfið. Ég verð þó að viðurkenna að áhugi fólks um land allt á kirkjunni sinni er meiri en mig hafði órað fyrir. Alls staðar hef ég hitt fólk sem hefur skoðanir á öllu mögulegu er tengist kirkjunni þó að það fari svolítið eftir landshlutum og menningu á hverju svæði hversu opið og ákveðið fólk tjáir sig.

Staða kirkjunnar og menning er vissulega ólík eftir svæðum og spurningarnar og umræðuefni einnig en þrennt er það sem virðist brenna á kirkjufólki almennt: Í fyrsta lagi er það þung fjárhagsstaða safnaðanna. Í öðru lagi eru það áhyggjur af erfiðum innri málum kirkjunnar sem fjölmiðlar hafa fjallað um á umliðnum árum. Í þriðja lagi er það áhugi kirkjufólks á að auka samskipti og tengsl við biskup og biskupsstofu.

Fjárhagur safnaða
Fjárhagur safnaða er í járnum hjá stórum hluta safnaða landsins. Ein af ástæðum þess er að ríkið hefur ekki staðið skil á sóknargjöldunum að fullu frá því í kringum hrun. Kirkjan verður því að sækja það fast að ríkið skili sóknargjöldunum til safnaðanna og festi þau í sessi svo að við getum farið að þjóna Guði og fólki á landinu öllu eins og við erum kölluð til. Þetta er fyrst og fremst hlutverk kirkjuþings. Það er þó ákaflega mikilvægt að biskup setji þetta mál í forgang og leggi því lið. Þá er hægt að fara fleiri leiðir til þess að hjálpa litlum sóknum sérstaklega og þar má m.a. nefna þann möguleika að skrá söfnuðinn á almannaheillaskrá og gefa þannig fólki kost á að styrkja kirkjuna sína og fá það að hluta til baka sem lækkun á skattstofni. Sjálfsagt er að skoða hvort fólk geti valið að skrá sig sérstaklega í allra minnstu sóknirnar og þannig látið sóknargjöldin sín renna þangað, óháð búsetu. Það er ekki síður mikilvægt að reyna að fjölga meðlimum í Þjóðkirkjunni með sérstöku Þjóðkirkjuátaki sem mig langar að stofna til. Einn liður í því er að reyna að koma því í kring að skírnin verði sjálfkrafa skráning í þjóðkirkjuna. Mikilvægast af öllu er þó að kirkjan haldi áfram að gera sig gildandi sem öflug fjöldahreyfing sem býr yfir ótrúlega fjölbreyttum og hæfileikaríkum mannauði sem ber það erindi sem skiptir öllu lífsins máli, það er fagnaðarerindið sjálft.

Erfið mál
Ég tel að flest kirkjufólk deili því að finnast erfitt að sjá erfið mál er tengjast Þjóðkirkjunni ítrekað birtast í fjölmiðlum eins og gerst hefur undanfarin ár. Fyrir þessu eru nokkrar ástæður sem þó eiga sér ákveðna samnefnara. Kirkjan hefur ekki verið undanskilin því að þurfa að takast á við sársaukafull mál er tengjast kynferðislegri áreitni og ofbeldi innan kirkjunnar. Kirkjan var of lengi að taka þá ákvörðun að standa með fjölbreytileikanum og samþykkja hinseginleikann að fullu og öllu og það skaðaði orðspor hennar og trúverðugleika. Kirkjan er nú komin vel á veg með verkferla þegar kemur að því að taka á erfiðum málum og af þeirri braut má ekki hvika. Kirkjan þarf að leggja sig alla fram um að skapa áfram öruggan vettvang fyrir allar manneskjur og vera góður og eftirsóttur vinnustaður þar sem starfsfólki líður vel og er metið að verðleikum. Kirkjan mun þurfa að takast á við sársaukafull mál í framtíðinni jafnt sem hingað til og eigi henni að auðnast það vandasama verkefni að gera það vel þarf kirkjan að vera kjarkmikil og auðmjúk í senn og skorast aldrei undan því að standa með jaðarhópum og þeim sem höllum fæti standa í samfélaginu.

Tengsl
Kristin trú byggir á tengslamyndun sem er manneskjunni eðlislæg og nauðsynleg. Að vera í góðum, nærandi og uppbyggilegum tengslum við samferðafólk, Guð og alla sköpun liggur í öllu því sem Jesús kenndi bæði með lífi sínu og upprisu. Það vakti því sérstaka athygli mína, á ferðum mínum um landið, að merkja mikinn áhuga sóknarnefndarfólks á því að vera í auknum tengslum við biskup, að eiga greiðan aðgang að stuðningi og samtali við biskup og starfsfólk biskupsstofu. Verði ég kjörin biskup Íslands langar mig að koma því í kring að skrifstofa biskups verði færanleg að nokkru leyti, þ.e.a.s. að biskup verði með skrifstofu í öllum landshlutum eina viku á ári þrátt fyrir að höfuðskrifstofan sé í Reykjavík. Með þessum hætti er hægt að stytta boðleiðirnar og auka og efla tengsl á milli kirkjufólks og biskups Íslands. Það er mikilvægt að hlusta og leggja sig fram um að skilja aðstæður hvers annars. Góð tengsl við Guð og samferðafólk sem hlúð er að, skila sér í auknu trausti, gagnkvæmum skilningi og nærandi samskiptum.

Ég hef eignast dýrmætan fjársjóð á þessum ferðalögum okkar hjóna um landið og þátttöku á kynningarfundunum. Fyrir það er ég ákaflega þakklát. Verði ég kjörin biskup Íslands er þetta ferðalag þó rétt að hefjast og þá mun ég leggja mig fram um að efla tengsl og kynnast kirkjufólki betur.

 

Kirkjan er engin hornkerling – Hlutverk biskups í samtímanum

Eftir Pistlar

Þessi grein birtist í Morgunblaðinu 16. mars 2024

Nýr biskup
Nú stendur fyrir dyrum að kjósa nýjan biskup í þjóðkirkjunni. Niðurstaðan í biskupskjöri verður ljós á gleðidögum kirkjunnar, á milli páska og hvítasunnu ef allt gengur eftir. Prestar og djáknar hafa valið þrjú úr hópi presta sem kosið verður á milli og ég þakka þann mikla stuðning og traust sem starfssystkini mín hafa sýnt mér. Á  komandi vikum gefst okkur rými til þess að ræða framtíð kirkjunnar og ólík áhersluatriði biskupsefna, en ég vil ekki síður nýta þennan tíma til þess að hlusta á vilja þjóðkirkjufólks.

Áður en lengra er haldið er rétt að geta þess, fyrir þau sem ekki þekkja til mín að ég hef verið farsæll prestur í Þjóðkirkjunni og Sænsku kirkjunni um tveggja áratuga skeið. Ég hef þjónað sem prestur og sóknarprestur í fjölmennasta söfnuði landsins undanfarin sextán ár og hef því víðtæka reynslu sem leiðtogi. Þá hef ég setið á kirkjuþingi tvö kjörtímabil og gegnt þar ýmsum trúnaðarstörfum, verið ritari og varaformaður Prestafélags Ísland í mörg ár auk fjölmargra annarra nefnda og stjórnarstarfa fyrir Þjóðkirkjuna og félög er henni tengjast. Ég hef lokið framhaldsnámi í prédikunarfræðum frá Svíþjóð og Bandaríkjunum. Faglega séð er ég því vel undirbúin undir hlutverk biskups Íslands.

Hlutverk biskups
Hlutverk biskups er fyrst og fremst að vera leiðtogi Þjóðkirkjunnar og sameiningartákn hennar. Biskup er hirðir hirðanna og hefur það hlutverk að styðja, efla og uppörva þjóna kirkjunnar svo að þau geti, á sem bestan hátt,  sinnt sinni þjónustu við fólkið í landinu.

Samkvæmt nýsamþykktri stjórnskipan Þjóðkirkjunnar er að finna skilgreiningu á biskupsembættinu sem sótt er í lög frá alþingi um Þjóðkirkjuna frá 2021: „Biskup fer með yfirstjórn Þjóðkirkjunnar í kenningarlegum efnum, gætir einingar í kirkjunni og hefur tilsjón með kristnihaldi, kenningu kirkjunnar og þjónustu“. Þessi ný samþykkta stjórnskipan kemur í kjölfar þeirra gríðarlegu breytinga sem hafa átt sér stað í Þjóðkirkjunni á undanförnum árum. Kirkjan hefur nú tekið við öllum sínum málum frá ríkinu og hefur því fullt umráð yfir ráðstöfun sinna fjármuna. Mér líst vel á hið nýja skipulag sem ég tel að hafi verið nauðsynlegt og treysti mér vel til þess að vinna samkvæmt því. Skipulagið er að ýmsu leyti líkt því fyrirkomulagi er ríkir í söfnuðum landsins og verkaskiptingu þeirri sem er viðhöfð á milli sóknarprests og sóknarnefndar.

Kirkjan er engin hornkerling
Eitt stærsta verkefni nýs biskups á komandi árum verður að leiða kirkjuna í breyttu samfélagi nútímans og halda áfram að búa henni góðan stað í umhverfi þar sem ekki er lengur litið á kirkjuna sem sjálfsagða. Staða kirkjunnar í samtímanum hefur breyst hratt á undanförum 15 árum af ólíkum ástæðum. Samfélagið hefur orðið ríkara og fjölbreyttara þar sem fólk frá öðrum löndum, öðrum trúarbrögðum eða kirkjudeildum hefur sest hér að. Sífellt fleiri Íslendingar velja að vera utan trúfélaga og oft á tíðum hefur sú ákvörðun ekkert með trú að gera, heldur vill fólk ekki tilheyra skipulögðum trúarbrögðum eða trúfélagi. Kristinfræði er kennd í minna mæli í grunnskólum sem leiðir til þess að ungt fólk þekkir ekki sögur Biblíunnar og veit þar af leiðandi minna um trú og menningu þjóðarinnar. Þetta er staða sem kirkjunni ber að taka alvarlega. Kirkjan hefur á ýmsan hátt færst til hliðar. Hún fær minna rými en hún gerði í samfélaginu áður fyrr. Að hluta til er það eðlilegt í samfélagi fjölbreytileikans en það kemur þó ekki veg fyrir að kirkjan geti staðið styrkum fótum og tekið sitt rými því kirkjan er engin hornkerling.

Hlutverk mitt á komandi árum, verði ég kjörin, er að leiða kirkju sem er í sókn, kirkju sem tekur sjálfsagt rými í samfélaginu okkar og er leiðandi afl þegar kemur að trúarlegum- og siðfræðilegum málefnum. Ég vil leggja áherslu á að leiða kirkju sem lætur sig mannréttindi allra varða í anda Jesú Krists og um leið lyfta upp öllu því góða starfi, sálgæslu og trúariðkun sem söfnuðir landsins bjóða upp á.

Samfélagið í kirkjunni
Annað stórt og mikilvægt verkefni á komandi árum verður að vinna að því að þétta raðir presta, djákna, starfsfólks safnaða og sóknarnefnda kirkjunnar. Breytt staða kirkjunnar hefur haft rík áhrif á starfsumhverfi presta og djákna og starfsöryggi þeirra er ekki hið sama og áður. Mögulegt er að vinna að þessu eftir ýmsum leiðum en það mikilvægasta hlýtur ávallt að vera að byggja upp góð samskipti og traust. Það verður aðeins gert með samtölum, reglulegum og uppbyggilegum samskiptum og með því að sjá til þess að allir hafi greiðan aðgang að upplýsingum um það sem er að eiga sér stað í kirkjunni.

Trúin ofar öllu
Ástæða þess að ég ákvað að gefa kost á mér til embættis biskups Íslands er fyrst og fremst sú að ég á mér einlæga trú á lifandi Guð. Ég hef trú á mátt bænarinnar og er sannfærð um að við erum öll Guði falin. Mér þykir vænt um kirkjuna mína og hef óbilandi trú á henni. Ég er sannfærð um að við getum með samstilltu átaki lyft henni hærra og gert hana sýnilegri sem sá griðastaður trúar, vonar og kærleika sem hún er.

 

Ofurkonan

Eftir Pistlar

(Úr bókinni minni, Í augnhæð, Hversdagshugleiðingar sem kom úr í nóvember 2020)

Vika 12. Ofurkonan – Alþjóðabaráttudagur kvenna

 Dugmikla konu, hver hlýtur hana?
Hún er miklu dýrmætari en perlur.

Hún sér um ull og hör
og vinnur fúslega með höndum sínum.
(Orðskviðirnir 31. 10)

Tilbrigði við Orðskviðina 31. 10-31:

Dugmikla konu, hver þekkir hana?
Hún er dýrmætari en perlur.
Maki hennar treystir henni
og það er gott að vera með henni.
Hún gerir lífsförunaut sínum gott og er
honum trú alla ævidaga sína.
Hún tekur til og setur í þvottavél,
henni fellur sjaldan verk úr hendi.
Hún er verslar í matinn þó Bónus
sé ekki í leiðinni.
Hún fer snemma á fætur,
hitar kaffi, tekur til morgunmat handa öllum
og kannar hvort allir fjölskyldumeðlimir þekki
verkefni dagsins.
Ef hana langar í nýja skó kaupir hún þá og
ef hún vill skipta um lit á veggjunum í stofunni,
málar hún þá.
Hún fer í ræktina þrisvar í viku, lyftir lóðum,
hleypur á brettinu og iðkar jóga.
Hún finnur að það sem hún gerir skiptir máli,
veit að hún er í ábyrgðarmiklu starfi
og stundum þarf hún að sitja við tölvuna
fram eftir kvöldi og ljúka við verkefni dagsins.
Hendur hennar renna yfir lyklaborðið
þegar hún skapar nýja heima í tölvunni,
þegar hún greiðir reikningana.
Hún heimsækir eldri ættingja sína þegar hún getur
og hún gefur reglulega í Hjálparstarf kirkjunnar.
Hún býr börnin sín vel fyrir veturinn svo þeim verði
ekki kalt á leikskólanum.
Hún er glæsileg til fara.
Blandar saman notuðum fötum og nýjum.
Hún flokkar ruslið og
fer með allt sem hægt er í endurvinnslu.
Hún er bjartsýn og sjálfsörugg.
Hún er sátt við sjálfa sig.
Í því felst glæsileiki hennar.
Hún bloggar af kærleika
og reynir að tala vel um fólk.
Hún er börnum sínum góð fyrirmynd og
á trúnað þeirra og makans.
Hún er dugleg en kann líka að
slappa af og horfa á góða mynd í sjónvarpinu.
Börnin hennar vilja líkjast henni og maki hennar
hrósar henni.
„Margar konur hafa verið til fyrirmyndar
en þú tekur þeim öllum fram.“
Kynþokkinn er svikull og fegurðin hverful
en trúuð kona á kreppu tímum á hrós skilið.
Hún njóti ávaxta vinnu sinnar og verk hennar
munu að lokum vekja athygli.
Þekkir þú þessa konu? Ég þekki hana.

Ég þekki líka konuna sem leyfir sér að slappa af fyrir framan sjónvarpið, tölvuna eða við handavinnu í stað þess að setja í þvottavél eða taka til.

Ég þekki líka konuna sem sér til þess að verkaskipting hennar og makans sé jöfn.

Ég þekki konuna sem veit að hún er með lægri laun en maðurinn sem var ráðinn um leið og hún og gegnir samskonar starfi. Hún getur ekki gert neitt í því þar sem launaleynd ríkir í fyrirtækinu.

Ég þekki konuna sem virkar svo sterk og sjálfsörugg út á við en verður fyrir stöðugu ofbeldi heima hjá sér.

Ég þekki konuna sem er með hærri laun en maki sinn og hann samgleðst henni.

Ég þekki konuna sem nær ekki endum saman því hún er einstæð með þrjú börn og á atvinnuleysisbótum.

Ég þekki allskonar konur.

Það gerir þú líka.

Mikið væri gaman að vera þessi ofurkona sem hér var lýst og verða aldrei þreytt. Eða að verða bara hæfilega þreytt svo nætursvefninn verði góður. En hver er þessi ofurkona? Er hún til?

Já, þessi kona er til og við þekkjum hana en mögulega er hugtakið „ofurkona“ þó ekki réttnefni því það er ólíklegt að ein manneskja haldi út allan þennan fullkomleika sem hér var lýst. Ofurkonan er hver einasta kona sem gerir sitt besta í heimi þar sem konum hefur verið gefið að sök að hafa komið með illskuna inn í heiminn, að vera orsök alls ills. Ofurkonan er sú sem lifir af í heimi þar sem konan á helst að vera bæði hrein mey og móðir samtímis og segja já við örlögum sínum hver sem þau eru.

En ofurkonan er líka konan sem segir nei við þeim örlögum sem henni eru ætluð og er móðir án þess að vera meyja og er meyja án þess að vera móðir.

Ofurkonan er líka konan sem leitar þekkingar, og horfir framan í forgengileikann og neitar að bera sökina á illskunni sem á hana er klínd.

Ofurkonan er allar konur.

Öskukross og fasta

Eftir Pistlar

Öskudagur markar upphaf föstunnar sem stendur í 40 daga eða jafnmarga daga og Jesús fastaði í eyðimörkinni. Fastan í kristinni trú er tími iðrunar og yfirbótar. Fastan er þó ekki ekki síður tími íhugunar og tilvalið er að nýta þennan tíma til að fara inn á við, leita að því sem gefur okkur dýpri merkingu, skoða líf okkar og finna til samkenndar með öðrum.

Í fjölmörgum kristnum kirkjum er til siðs að fá öskukross á ennið á föstunni og þá sér í lagi á öskudaginn. Orðin sem fylgja með geta verið: ”Takið við tákni föstu og yfirbótar” eða ”Minnstu þess að þú ert duft eitt og hverfur aftur til jarðarinnar” eða önnur áþekk. Askan táknar þá dauðann, forgengileikann og eyðingu líkamans, sem hverfur aftur til duftsins að loknu hlutverki sínu hér á jörðu. Öskukross á enni er hugsaður sem hvatning til okkar að íhuga hvernig við högum lífi okkar og minna okkur á forgengileikann. En um leið er krossinn teiknaður á okkur í fullvissunni um að á eftir föstunni og föstudeginum langa koma páskarnir, hátíð upprisunnar. Þá verðum við fullvissuð um að enginn dauði getur sigrað Guð lífsins og það líf er við þiggjum af Guði.

Þannig mætist í öskukrossinum hið forgengilega, allt sem tengist því að vera breyskar manneskjur hér á jörð, manneskjur sem elska, missa og deyja og sigur lífsins á dauðanum. Krossinn sjálfur er jú vonar- og sigurtákn sem við merkjum okkur með í hverri guðsþjónustu.

Fasta er eitthvað sem nútímamanneskjan þekkir vel því nokkuð algengt er að fólk iðki föstur með einum eða öðrum hætti sér til heilsubótar og til þess að hvíla meltingarkerfið. Hin kristna fasta gengur út á að íhuga líf okkar og hvernig við getum bætt það með hjálp Guðs. Fastan þarf ekki endilega að vera flókin og breyta miklu miklu í lífi okkar þó að hún geti sannarlega gert það. Mörgum þykir gott að nýta föstuna til að neita sér um eitthvað og þannig minna sig á að lífsgæðin eru ekki sjálfsögð og þannig ef til vill að einhverju leiti að taka þátt í þjáningu Krists. Oft er þetta samtengt því að bæta lífstílinn eða lifnaðarhætti að einhverju leiti og fjarlægja það sem er okkur ekki til góðs. Fastan getur þá falist í því að neita sér um ákveðna fæðutegund eða eingöngu að neita matar á ákveðnum tímum. Nokkuð er um að fólk neiti sér um notkun samfélagsmiðla. Einnig er hægt að nýta föstuna til þess að bæta líf okkar með því að bæta einhverju góðu við. Dæmi um það geta verið að verja meiri tíma fjölskyldunni, auka samskipti við fólk sem við erum ekki nógu dugleg að hitta, vera betri vinur eða standa sig betur í vinnunni.

Fasta er tími íhugunar og iðrunar. Gott er að að nota þennan tíma til að ná tengingu við almættið, okkur sjálf og náungann. Ein leið getur verið að hefja hvern dag á íhugun og bæn og setja sér ásetning fyrir daginn. Ásetningurinn getur mögulega verið fólginn í því að velja hvernig við ætlum að mæta fólki og hvernig við komum fram við okkur sjálf. Hann getur falist í því að setja sér þann ásetning að öfunda minna og elska meira, reyna að sjá það jákvæða í stað þess að einblína á hið neikvæða svo eitthvað sé nefnt.

Hvort sem þú velur að fasta eða ekki þá er helgihald safnaða á föstunni nærandi  og gagnlegt til að halda við og gefa okkur ramma utan um iðkun trúarlífsins á föstunni. Öskukrossinn sem málaður er á enni okkar á öskudaginn og jafnvel á öðrum helgidögum föstunnar táknar breyskleika og sársauka manneskjunnar sem oft er svo erfitt að koma orðum að. Um leið vísar krossinn til upprisunnar, þess er koma skal.

 

 

Nútíminn og hefðir

Eftir Pistlar

Það er eitthvað alveg einstakt við að koma inn í kirkjur á aðventu og jólum. Vissulega er alltaf gott andrúmsloft í kirkjunum en á þessum tíma verða ákveðnir töfrar þegar jatan með jesúbarninu og heilaga fjölskyldan er tekin fram, jólatréð skreytt og jóasálmarnir óma frá kórum við æfingar, frá ýmsum barnahópum og öðrum samverum kirkjunnar. Stór hluti prestakalla á landinu hefur á að skipa einum kór hið minnsta og fjölmennustu söfnuðirnir eru jafnvel með 3-4 kóra á sínum vegum. Því hefur tónleikahald í kirkjum aukist mikið undanfarin ár og gæðin iðulega mikil.

Á þessari aðventu er ljóst að fjölbreytni kirkjustarfs á aðventu er ákaflega mikil, eitthvað í boði fyrir alla og nánast allt ókeypis. Fyrir utan jólatónleika og helgileiki og söngleiki hef ég, á þessari aðventu, rekist á auglýsingar um: „Sing along“, helgistund í sundlaug, kertaljósastund, samverustund í fjárhúsi, kyrrðarbæn, aðventuhátíð, óskasálma jólanna, bænastund fyrir friði, aðventuspjall, kyrrð og jólasálma, bjór og jólasálma, jólin sungin inn, jóladagatal, ljósa- og aðventuhátíð, djúpslökun, skólaheimsóknir, myndlistarsýningu, og alþjóðlega fjölskyldustund. Þá er ýmislegt fleira í boði sem ekki verður talið upp hér. Ekki skortir hugmyndaflugið og viljann til að bjóða upp á innihaldsríkar stundir á vegum kirkna á aðventunni og þetta mikla starf er sannarlega ekki eingöngu í boði á höfuðborgarsvæðinu heldur um land allt. Og ljóst er að þetta virkar því allt þetta starf er ákaflega vel sótt og fjöldi kirkna eru meira og minna fullar á þessum tíma árs og enn bætir í þegar jólin ganga í garð.

Já, aðventa og jól er sá tími þegar mestur fjöldi sækir kirkjur þessa lands og undanfarin ár hefur kirkjan í auknum mæli tekið mið af samtíma sínum og aukið fjölbreytni starfsins. Það sem kirkjan hefur er bæði sveigjanleiki til að bjóða upp á fjölbreytt starf og traustar hefðir sem ekki haggast hvað sem nútímanum líður. Við þörfnumst hvors tveggja, nútímalegrar þjónustu og starfs í kirkjum og þjónustu sem byggir á hefðum sem margar má rekja hundruð ára aftur í tímann.

Sama kirkjan getur boðið upp á klassíska messu og aftansöng á aðfangadag sem eiga rætur að rekja aftur til miðalda og svo helgistund í sundlaug eða djúpslökun á jógadýnu.

Kosturinn við þjóðkirkjuna er hversu fjölbreytt hún er. Hún býr yfir gríðarlegum mannauði sem leggur sig fram um að þjóna fólki í ólíkum aðstæðum. Kirkjan vinnur ötult menningarstarf, leggur sig fram um að bjóða upp á helgihald þar sem tengsl manneskjunnar við guðdóminn eru ræktuð á dýptina um leið og bænin er iðkuð í orði, með hugleiðslu eða í gegnum tónlist.  Allt þetta fjölbreytta starf sem ég nefndi hér að framan á sér nefnilega ekki einungs stað á aðventunni heldur er fjölbreytnin ríkjandi árið um kring.

Kirkjan er samfélag fólks sem speglar samtímann um leið og mörg okkar hafa þörf fyrir hefðir og djúpar rætur. Stór hluti fólks sem kemur í kirkju er að sækja í samfélag; samfélag við annað fólk, við Guð eða jafnvel við sjálft sig.

Kirkjan er ekki einangruð heldur er hún lifandi samfélag fólks sem er hluti af stærra samhengi. Því er það svo að fólkið í kirkjunni lætur sig flesta hluti varða og á þessari aðventu hefur rík áhersla verið lögð á að biðja fyrir friði, ræða stöðuna á Gaza, biðja fyrir Grindvíkingum og leggja þeim lið með öllum mögulegum hætti. Fólk sem hefur lítið á milli handanna getur sótt um aðstoð við jólahaldið í kirkjum landsins auk þess sem mikið er sótt í sálgæslu hjá prestum og djáknum.

Í kirkjunni fögnum við fæðingu frelsarans og hækkandi sól um þessi jól eins og endranær meðvituð um að þau eru ekki öllum jafn gleðileg. Kjarni kristinnar trúar er að Guð sem gerðist manneskja í litlu barni komi inn í allar aðstæður. Guð gefi þér gleðileg jól, ljóss og friðar.  

 

Pistillinn birtist í Morgunblaðinu á þorláksmessu 2023