Ávarp biskups Íslands við setningu kirkjuþings 26. október 2023
Forseti kirkjuþings, dómsmálaráðherra, vígslubiskupar, kirkjuþingsfulltrúar og góðir gestir.
Það er bjart yfir Þjóðkirkjunni.
Og það er virkilega hvetjandi að hlýða á orð forseta kirkjuþings og dómsmálaráðherra. En þessi birta er ekki sjálfgefin. Við sem erum hér þurfum að hafa fyrir því að skapa þessa birtu og viðhalda henni. Það er þannig samstarfsverkefni okkar, sem erum samankomin hér, ásamt kirkjufólki í landinu, að skapa það umhverfi í kirkjunni sem við viljum. Við gegnum, hvert og eitt mikilvægu hlutverki í þessu samhengi og því er ákaflega brýnt að á milli okkar ríki virðing og traust.
Eins og þið heyrið er ég bjartsýn og þessi bjartsýni eykst með hverjum degi á biskupsstóli. Ég tel mig reyndar hafa góða ástæðu fyrir bjartsýni því ýmis teikn eru á lofti um bætta stöðu þjóðkirkjunnar í samfélaginu. Nýjustu tölur frá Þjóðskrá Íslands benda til viðsnúnings í skráningum í Þjóðkirkjuna en nú hafa í fyrsta sinn í mörg ár fleiri skráð sig í kirkjuna er úr. En þegar andlát eru tekin með stöndum við á sléttu. Ég er nú, ásamt framkvæmdarstjóra og samkiptastjóra með áform um að setja af stað vinnu við að rýna í skráningamál og vinna í því með kerfisbundnum hætti að fjölga í meðlimum Þjóðkirkjunnar.
Ég lít á það sem eitt af hlutverkum biskups að lyfta kirkjunni upp í samfélaginu og auka sýnileika hennar en það geri ég sannarlega ekki ein heldur með kirkjufólki um land allt, með ykkur. Til þess að sinna þessu hlutverki tel ég nauðsynlegt að biskup og starfsfólk Biskupsstofu sé í beinu og milliliðalausu sambandi við sem flest kirkjufólk vítt og breitt um landið.
Hluti af þessu er sú nýbreytni í þjónustu biskups að bjóða upp á færanlega skrifstofu með reglulegu millibili í hverjum landshluta. Fyrsta skrifstofan var á austurlandi í síðustu viku og var sú ferð ákaflega vel heppnuð. Næst á dagskrá er ferð á suðurlandið í nóvember, á norðurland í janúar og á vestfirði í maí. Það er nauðsynlegt fyrir biskup að vera í tengslum við kirkjufólk um landið og að kynnast veruleika þeirra er starfa við ólíkar aðstæður. Þá er ekki síður mikilvægt fyrir fólk um allt land að hafa eins greiðan aðgang að biskupi og mögulegt er.
Hlutverk Þjóðkirkjunnar er að biðja, boða og þjóna. Hlutverk kirkjuþings er að skapa ramma utan um þessa þjónustu og þetta hlutverk kirkjunnar. Hlutverk biskups er m.a. að skipuleggja þjónustuna, hlúa að þjónunum og gæta þess að einungis fyrirmyndarþjónusta sé veitt. Ég þarf ekki að segja ykkur hér að tímarnir breytast og fólkið með. Og þó að boðskapur Krists og kirkjunnar standist tímans tönn þá er kirkjan ekki ónæm fyrir samfélagslegum breytingum. Til þess að geta veitt fyrirmyndar þjónustu verðum við að vera vakin og sofin yfir því hvar við getum gert betur.
Biskupafundur er nú að hefja vinnu við að endurskoða og endurmeta vígða þjónustu kirkjunnar um landið allt. Það gerum við með það að leiðarljósi að veita gæðaþjónustu á sem flestum stöðum þrátt fyrir að við horfum nú fram á skort á prestum. Það er ekki til neins að loka augunum fyrir þeim vandamálum er við okkur blasa og við verðum að vera óhrædd við að horfast í augu við þau og taka á þeim. Við stöndum nú frammi fyrir prestaskorti og þeirri staðreynd að sumar stöður er erfiðara að manna en aðrar. Við verðum að sníða okkur stakk eftir vexti og nú er komið að því að huga að þjónustu kirkjunnar með skapandi hætti og jafnvel fara nýjar leiðir í þjónustunni á þeim stöðum sem erfitt hefur verið að manna. Við þurfum að öllum líkindum að grípa til aðgerða til að auka áhuga presta á embættum á vissum stöðum t.d. með hússnæðisstyrkjum og auknum stuðningi á sumarleyfistímum. Preststarfið er ekki eins um landið allt og mikilvægt er að við horfumst í augu við það og leggjum okkur fram um að hlúa að öllum þjónum kirkjunnar hvar á landi sem þeir eru. Við munum fá faglega ráðgjöf við þessa vinnu auk þess sem við vinnum þetta í góðu samtali við framkvæmdarstjóra rekstrarsviðs Biskupsstofu og fáum álit ýmissa aðila.
Í þessu ljósi tel ég einnig mikilvægt að kirkjan komi með einhverjum hætti að kynningum á námi í guðfræðideild og að við eflum kirkjuna enn frekar sem öruggan og góðan vinnustað.
Nú hefur ný starfsmannastefna Þjóðkirkjunnar verið tekin í notkun og send þeim sem eiga í ráðningasambandi við Þjóðkirkjuna. Stefnuna er hægt að nálgast á heimasíðu kirkjunnar.
Í byrjun mánaðar tókum við á leigu húsnæði við Tjarnargötu 4 þar sem móttökurými biskups verður til húsa næstu ár. Húsnæðið er ekki alveg tilbúið enn og því mun ég bjóða til móttöku í safnaðarheimili Dómkirkjunnar á mánudaginn kl. 19 og vona að þið sjáið ykkur öll fært að koma. Á næsta kirkjuþingi verður ykkur síðan öllum boðið til móttöku í þessum nýja biskupsgarði.
Í Jesaja spámanni segir:
„Minnist hvorki hins liðna
né hugleiðið það sem var.
Nú hef ég nýtt fyrir stafni,
nú þegar vottar fyrir því,
sjáið þér það ekki?Ég geri veg um eyðimörkina
og fljót í auðninni.“
(Jes. 43:18-19)
Þessi orð minna okkur á að þó að það sé ákaflega mikilvægt að líta til baka, byggja á hefðum og halda í hin góðu gildi sem komu okkur þangað sem við erum þá er ekki síður mikilvægt að vera kjörkuð og horfa til framtíðar án þess að láta fortíðina fjötra okkur. Kirkjuþingið verður að vera kjarkmikið og óhrætt þegar kemur að því að móta framtíð kirkjunnar og ekki síst treysta Guði sem gerir veg um eyðimörkina og fljót í auðninni. Kirkjufólk um land allt fylgist með kirkjuþingi því hér eru teknar ákvarðanir er varða framtíð kirkjunnar. Því er svo mikilvægt að kirkjuþing gangi á undan með góðu fordæmi er varðar samvinnu, traust og virðingu fyrir náunganum. Traust kemur ekki sjálfkrafa heldur er það er áunnið. Viðmót, ákvörðun, heiðarleiki og góð sjálfsþekking er grundvöllur góðrar samvinnu.
Ég hlakka til að taka þátt í þessu kirkjuþingi!
Að lokum við ég þakka forseta kirkjuþings, forsætisnefnd, starfsfólki kirkjuþings og Biskupsstofu fyrir undirbúning þingsins. Ég þakka ykkur kæru kirkjuþingsfulltrúar fyrir ykkar miklu vinnu við undirbúning þingmála og störf ykkar hér á þinginu. Þá vil ég þakka Kyrju fyrir dásamlegan tónlistarflutning og organistanum Erlu Rut Káradóttur.
Þá vil ég nota þetta tækifæri til þess að þakka forvera mínum frú Agnesi M Sigurðardóttur fyrir hennar dyggu og trúu þjónustu við Þjóðkirkju Íslands.
Guð blessi þetta kirkjuþing og okkur öll.
Nýlegar athugasemdir