Skip to main content

Nútíminn og hefðir

Eftir janúar 10, 2024janúar 25th, 2024Pistlar

Það er eitthvað alveg einstakt við að koma inn í kirkjur á aðventu og jólum. Vissulega er alltaf gott andrúmsloft í kirkjunum en á þessum tíma verða ákveðnir töfrar þegar jatan með jesúbarninu og heilaga fjölskyldan er tekin fram, jólatréð skreytt og jóasálmarnir óma frá kórum við æfingar, frá ýmsum barnahópum og öðrum samverum kirkjunnar. Stór hluti prestakalla á landinu hefur á að skipa einum kór hið minnsta og fjölmennustu söfnuðirnir eru jafnvel með 3-4 kóra á sínum vegum. Því hefur tónleikahald í kirkjum aukist mikið undanfarin ár og gæðin iðulega mikil.

Á þessari aðventu er ljóst að fjölbreytni kirkjustarfs á aðventu er ákaflega mikil, eitthvað í boði fyrir alla og nánast allt ókeypis. Fyrir utan jólatónleika og helgileiki og söngleiki hef ég, á þessari aðventu, rekist á auglýsingar um: „Sing along“, helgistund í sundlaug, kertaljósastund, samverustund í fjárhúsi, kyrrðarbæn, aðventuhátíð, óskasálma jólanna, bænastund fyrir friði, aðventuspjall, kyrrð og jólasálma, bjór og jólasálma, jólin sungin inn, jóladagatal, ljósa- og aðventuhátíð, djúpslökun, skólaheimsóknir, myndlistarsýningu, og alþjóðlega fjölskyldustund. Þá er ýmislegt fleira í boði sem ekki verður talið upp hér. Ekki skortir hugmyndaflugið og viljann til að bjóða upp á innihaldsríkar stundir á vegum kirkna á aðventunni og þetta mikla starf er sannarlega ekki eingöngu í boði á höfuðborgarsvæðinu heldur um land allt. Og ljóst er að þetta virkar því allt þetta starf er ákaflega vel sótt og fjöldi kirkna eru meira og minna fullar á þessum tíma árs og enn bætir í þegar jólin ganga í garð.

Já, aðventa og jól er sá tími þegar mestur fjöldi sækir kirkjur þessa lands og undanfarin ár hefur kirkjan í auknum mæli tekið mið af samtíma sínum og aukið fjölbreytni starfsins. Það sem kirkjan hefur er bæði sveigjanleiki til að bjóða upp á fjölbreytt starf og traustar hefðir sem ekki haggast hvað sem nútímanum líður. Við þörfnumst hvors tveggja, nútímalegrar þjónustu og starfs í kirkjum og þjónustu sem byggir á hefðum sem margar má rekja hundruð ára aftur í tímann.

Sama kirkjan getur boðið upp á klassíska messu og aftansöng á aðfangadag sem eiga rætur að rekja aftur til miðalda og svo helgistund í sundlaug eða djúpslökun á jógadýnu.

Kosturinn við þjóðkirkjuna er hversu fjölbreytt hún er. Hún býr yfir gríðarlegum mannauði sem leggur sig fram um að þjóna fólki í ólíkum aðstæðum. Kirkjan vinnur ötult menningarstarf, leggur sig fram um að bjóða upp á helgihald þar sem tengsl manneskjunnar við guðdóminn eru ræktuð á dýptina um leið og bænin er iðkuð í orði, með hugleiðslu eða í gegnum tónlist.  Allt þetta fjölbreytta starf sem ég nefndi hér að framan á sér nefnilega ekki einungs stað á aðventunni heldur er fjölbreytnin ríkjandi árið um kring.

Kirkjan er samfélag fólks sem speglar samtímann um leið og mörg okkar hafa þörf fyrir hefðir og djúpar rætur. Stór hluti fólks sem kemur í kirkju er að sækja í samfélag; samfélag við annað fólk, við Guð eða jafnvel við sjálft sig.

Kirkjan er ekki einangruð heldur er hún lifandi samfélag fólks sem er hluti af stærra samhengi. Því er það svo að fólkið í kirkjunni lætur sig flesta hluti varða og á þessari aðventu hefur rík áhersla verið lögð á að biðja fyrir friði, ræða stöðuna á Gaza, biðja fyrir Grindvíkingum og leggja þeim lið með öllum mögulegum hætti. Fólk sem hefur lítið á milli handanna getur sótt um aðstoð við jólahaldið í kirkjum landsins auk þess sem mikið er sótt í sálgæslu hjá prestum og djáknum.

Í kirkjunni fögnum við fæðingu frelsarans og hækkandi sól um þessi jól eins og endranær meðvituð um að þau eru ekki öllum jafn gleðileg. Kjarni kristinnar trúar er að Guð sem gerðist manneskja í litlu barni komi inn í allar aðstæður. Guð gefi þér gleðileg jól, ljóss og friðar.  

 

Pistillinn birtist í Morgunblaðinu á þorláksmessu 2023