Skip to main content

Öskukross og fasta

Eftir febrúar 14, 2024Pistlar

Öskudagur markar upphaf föstunnar sem stendur í 40 daga eða jafnmarga daga og Jesús fastaði í eyðimörkinni. Fastan í kristinni trú er tími iðrunar og yfirbótar. Fastan er þó ekki ekki síður tími íhugunar og tilvalið er að nýta þennan tíma til að fara inn á við, leita að því sem gefur okkur dýpri merkingu, skoða líf okkar og finna til samkenndar með öðrum.

Í fjölmörgum kristnum kirkjum er til siðs að fá öskukross á ennið á föstunni og þá sér í lagi á öskudaginn. Orðin sem fylgja með geta verið: ”Takið við tákni föstu og yfirbótar” eða ”Minnstu þess að þú ert duft eitt og hverfur aftur til jarðarinnar” eða önnur áþekk. Askan táknar þá dauðann, forgengileikann og eyðingu líkamans, sem hverfur aftur til duftsins að loknu hlutverki sínu hér á jörðu. Öskukross á enni er hugsaður sem hvatning til okkar að íhuga hvernig við högum lífi okkar og minna okkur á forgengileikann. En um leið er krossinn teiknaður á okkur í fullvissunni um að á eftir föstunni og föstudeginum langa koma páskarnir, hátíð upprisunnar. Þá verðum við fullvissuð um að enginn dauði getur sigrað Guð lífsins og það líf er við þiggjum af Guði.

Þannig mætist í öskukrossinum hið forgengilega, allt sem tengist því að vera breyskar manneskjur hér á jörð, manneskjur sem elska, missa og deyja og sigur lífsins á dauðanum. Krossinn sjálfur er jú vonar- og sigurtákn sem við merkjum okkur með í hverri guðsþjónustu.

Fasta er eitthvað sem nútímamanneskjan þekkir vel því nokkuð algengt er að fólk iðki föstur með einum eða öðrum hætti sér til heilsubótar og til þess að hvíla meltingarkerfið. Hin kristna fasta gengur út á að íhuga líf okkar og hvernig við getum bætt það með hjálp Guðs. Fastan þarf ekki endilega að vera flókin og breyta miklu miklu í lífi okkar þó að hún geti sannarlega gert það. Mörgum þykir gott að nýta föstuna til að neita sér um eitthvað og þannig minna sig á að lífsgæðin eru ekki sjálfsögð og þannig ef til vill að einhverju leiti að taka þátt í þjáningu Krists. Oft er þetta samtengt því að bæta lífstílinn eða lifnaðarhætti að einhverju leiti og fjarlægja það sem er okkur ekki til góðs. Fastan getur þá falist í því að neita sér um ákveðna fæðutegund eða eingöngu að neita matar á ákveðnum tímum. Nokkuð er um að fólk neiti sér um notkun samfélagsmiðla. Einnig er hægt að nýta föstuna til þess að bæta líf okkar með því að bæta einhverju góðu við. Dæmi um það geta verið að verja meiri tíma fjölskyldunni, auka samskipti við fólk sem við erum ekki nógu dugleg að hitta, vera betri vinur eða standa sig betur í vinnunni.

Fasta er tími íhugunar og iðrunar. Gott er að að nota þennan tíma til að ná tengingu við almættið, okkur sjálf og náungann. Ein leið getur verið að hefja hvern dag á íhugun og bæn og setja sér ásetning fyrir daginn. Ásetningurinn getur mögulega verið fólginn í því að velja hvernig við ætlum að mæta fólki og hvernig við komum fram við okkur sjálf. Hann getur falist í því að setja sér þann ásetning að öfunda minna og elska meira, reyna að sjá það jákvæða í stað þess að einblína á hið neikvæða svo eitthvað sé nefnt.

Hvort sem þú velur að fasta eða ekki þá er helgihald safnaða á föstunni nærandi  og gagnlegt til að halda við og gefa okkur ramma utan um iðkun trúarlífsins á föstunni. Öskukrossinn sem málaður er á enni okkar á öskudaginn og jafnvel á öðrum helgidögum föstunnar táknar breyskleika og sársauka manneskjunnar sem oft er svo erfitt að koma orðum að. Um leið vísar krossinn til upprisunnar, þess er koma skal.