Skip to main content

Regnboginn og ritningarversin

Eftir júlí 31, 2022Prédikanir

Regnbogafáninn

Í júlímánuði  var tekin sú ákvörðun í Grafarvogskirkju að mála regnbogafánann á tröppurnar fyrir framan kirkjuna. Ástæðan er fyrst og fremst að sýna með skýrum hætti að hingað eru allar manneskjur jafn velkomnar vegna þess að öll erum við jafn dýrmæt í augum Guðs. Regnboginn hér á tröppunum samanstendur af upprunalega regnbogafána hinseginfólks. Þar á eftir koma tvær rendur, ein svört og brún sem tákna fólk af ólíkum kynþáttum. Neðst er síðan transfáninn sem er bleikur, blár og hvítur. Reyndar ætti það að vera svo sjálfsagt að allar manneskjur séu jafn dýrmætar að við þyrftum ekki að minna á það með þessum hætti en það er þó ekki svo. Hinsegin fólk hefur orðið fyrir gríðarlegum fordómum í gegnum tíðina og verður enn. Í dag er það transfólk sem verður fyrir sérstaklega miklu aðkasti bæði hér á landi og um allan heim. Kirkjan okkar hér á Íslandi tók því miður, lengi vel, þátt í þessum fordómum og misrétti sem tíðkaðist í samfélaginu. Þetta breyttist ekki hjá forystu kirkjunnar fyrr en ein hjúskaparlög voru samþykkt og meira að segja þá gátu prestar fengið undanþágu frá því að gefa saman samkynja pör. Það var síðan á kirkuþingi 2015 sem samþykkt var að ekki mætti neita pörum um hjónavígslu á grundvelli kynhneigðar. Því skal þó haldið til haga að stór hluti presta studdi baráttu samkynhneigðs fólks alla leið nánast allan þennan tíma en það var ekki nóg þegar leiðtogarnir voru á móti.

Ein saga – eitt skref

Nú um stundir stendur yfir verkefnið Ein saga – Eitt skref á vegum Þjóðkirkjunnar og Samtakanna 78. Tilgangur verkefnisins er að gera upp og læra af sögu misréttis gagnvart hinsegin fólki innan kirkjunnar. Verkefnið fer þannig fram að samkynhneigt fólk sem orðið hefur fyrir misrétti af hálfu þjóðkirkjunnar og presta hennar segir sögur sínar. Sögunum er svo safnað saman og þær birtar á heimasíðu verkefnisins. Markmiðið er að kirkjan, sem braut á hinsegin fólki, hlusti á sögurnar og iðrist með einhvers konar sátt að markmiði.
 Ég er búin að hlusta á þær níu sögur sem hafa verið birtar og þar er lýst svo svakalegri framkomu á köflum að það er erfitt að setja sig í spor bæði þeirra sem urðu fyrir þessu og að skilja að svona framkoma hafi viðgengist. Kirkjan hefur mikið að skammast sín fyrir í þessum málum og því er mikilvægt að sögurnar heyrist. Ég hvet þig til að hlusta á sögurnar hér:
https://www.einsagaeittskref.is.
 Regnboginn og ritningarversin

Viðbrögðin við regnboganum hafa að mestu verið afar jákvæð en svo tæpri viku eftir að hafði verið málaður kom ég í kirkjuna og sá að einhver ósátt manneskja hafði krotað á fánann, „Antichrist!“ Það var svolítið óþægilegt að sjá að einhver hefði virkilega haft fyrir því að koma með spreybrúsa í skjóli nætur til þess að mótmæla þessu tákni kærleika og mannréttinda. Við máluðum yfir þetta og vonuðum að þar með hefði viðkomandi sagt sitt en það liðu ekki nema tveir dagar þar til næst var spreyjað á fánann og nú voru skilaboðin skýr. Viðkomandi hafði ritað þarna vísun í ákveðinn ritningarstað úr 3. Mósebók sem er nokkurskonar lögbók Gamla testamentisins. Þessi ritningarstaður er þekktur meðal þeirra sem vitna í Biblíuna til þess að styðja hatur sitt á samkynhneigð en þar kemur fram að ef karlmaður leggist með karlmanni eins og þegar lagst er með konu þá fremji þeir báðir viðurstyggilegt athæfi og skulu báðir líflátnir. Svipaðan texta er að finna í sömu bók, tveimur köflum fyrr. Einn texta til viðbótar af svipuðum toga er að finna í bréfi Páls postula til Rómverja þar sem reynir að siða fólk til og þá m.a. karla sem hann segir hafa brunnið í losta hver til annars og framið skömm með karlmönnum.

Þá hefur fólk einnig reynt að nýta seinni sköpunarsöguna og fleiri texta t.d. frá Páli postula fordómum sínum til stuðnings.

Hér langar mig að nefna tvennt. Hið fyrra er að Jesús ræðir þessi mál ekkert. Hið síðara hér er ekki verið að fjalla um samkynhneigð því samkynhneigð snýst um ást en ekki kynlíf eingöngu og alls ekki aðeins um kynlíf karla. Ólíklegt að er að hugmyndin um samkynja ást hafi verið útbreidd þegar þessir textar voru ritaðir.

Í lögbókinni í Gamla testamentinu eru þessi orð hluti af annarri langri og frekar ótrúlegri upptalningu á öllu því sem ætti að lífláta fólk fyrir s.s. að bölva föður sínum eða móður. Kristið fólk hefur yfirleitt látið þessar upptalningar sem vind um eyru þjóta enda mun þessi texti vera frá því um 250 árum fyrir Krist ef ekki enn fyrr og tímarnir breyst örlítið síðan þá. Þá bendir frummálið á textanum til þess að hér sé verið að vara við því að karlar leggist með ungum drengjum.

Páll, sem myndi vera talinn þó nokkuð stífur og jafnvel ranglátur á okkar tíma mælihvarða, lifði í ákveðnu samhengi eins og við öll. Hann var manneskja, ekki Guð. Orð hans, eins og orð alls fólks, þarf að lesa í ljósi þess samhengis er þau voru rituð í. Þannig segir hann t.a.m. að konur eigi að þegja á samkomum, hylja höfuð sitt og vera mönnum sínum undirgefnar. Við fylgjum þessu ekki í dag því viðhorf okkar eru önnur. Hið sama á við um orð hans um karla sem brenna í losta til hvers annars en þar mun hann hafa verið að fordæma þessi og fleiri athæfi nágrannaþjóða. Ekki er heldur útilokað að hann hafi þarna verið að fordæma misnotkun á ungum drengjum (gjarnan þrælum) sem var ekki óþekkt meðal forn Grikkja og Rómverja.

Jesús var ekki bókstafstrúarmaður

Þekkt er sú aðferð þeirra er vilja ná einhverju ákveðnu fram með aðstoð Biblíunnar að taka ritningarvers úr samhengi sínu, máli sínu til stuðnings. Þetta stendur jú þarna. Þetta þykir mér ekki góð aðferð og mæli frekar með því að lesa, og reyna að skilja Biblíuna í hverju því samhengi er bækur hennar voru ritaðar. Rit Biblíunnar voru skrifuð á ólíkum tímum og fyrir utan að vera vitnisburður um líf og störf Jesú Krists þá fjallar Biblían um það hvernig það er að vera manneskja í brotnum heimi og um samband mannfólksins við Guð.

Ég tel að við ættum frekar að fylgja boðskapi Jesú Krists, sem sagði okkur að elska hvert annað. Jesús var ekki bókstafstrúarmaður og fylgdi ekki lögmálinu til hlítar enda hneykslaði hann marga. Því síður ættum við að taka hina helgu og fjölbreyttu Biblíu bókstaflega.

Á þriðjudaginn kemur verða hinsegindagar settir. Þeir snúast ekki aðeins um fallega regnboga og skemmtilega gleðigöngu heldur fjalla þeir um mannréttindi hinsegin fólks. Boðskapur Jesú Krists er í fullu samræmi við mannréttindayfirlýsingar og kristið fólk hlýtur alltaf að standa með mannréttindum og berjast gegn hatri og fordómum og því er Þjóðkirkjan í dag öflug bandamanneskja hinseginfólks.

Regnbogafáninn í Grafarvogskirkju fær að standa.

Dýrð sé Guði sem elskar sérhverja manneskju í öllum regnbogans litum.