Prédikun flutt á fullveldisdegi og fyrsta sunnudag í aðventu í útvarpsmessu í Hallgrímskirkju 1. desember 2024.
Góð spennusaga
Það er mikil list að skrifa góða spennusögu og sumir höfundar fara þá leið að byrja söguna á því að gefa okkur innsýn í endinn eða í það minnsta upphafið að endinum. Það má segja að aðventan sé byggð upp á svipaðan hátt í kirkjunni því að í dag, fyrsta sunnudag í aðventu, er við hefjumst handa við að undirbúa jólin, komu frelsarans og hækkandi sólar, beina textarnir okkur að upphafinu að endinum.
Sagan af því þegar Jesús kemur ríðandi inn í Jerúsalem í aðdraganda páskahátíðarinnar er sagan um það sem gerist stuttu áður en hann deyr. Aðeins örfáum dögum eftir að fólkið fagnar Jesú, með því að hrópa „hósíanna“ eða „frelsari“, breytast hrópin í „krossfestið hann“. Gleðin breyttist í reiði. Eftirvæntingin í vonbrigði. Hann hegðaði sér ekki eins og frelsari og ekki eins og alvöru konungur. Þau vildu einhvern sem tæki málin í sínar hendur og frelsaði þau hér og nú.
Þetta er saga af væntingum sem ekki stóðust.
Væntingar geta verið tvíeggjað sverð. Að vænta einhvers af einhverjum felur í sér traust. Við væntum þess af lífsförunautum okkar að þeir séu okkur trúir, og því þurfum við að treysta.
Ef við væntum einhvers af fjölskyldu, vinum eða okkur sjálfum – þá þarf traust að vera til staðar.
En væntingar verða þá að vera heilbrigðar. Þegar við berum í brjósti væntingar sem ómögulegt er að standast sáum við fræjum vonbrigða, vanþakklætis, kergju og jafnvel sorgar. Þegar væntingar okkar eru óraunhæfar og ekki í takti við raunveruleikann förum við á mis við svo margt annað gott sem lífið hefur upp á að bjóða, og hætta er á að við lokum á að lífið geti komi okkur á óvart.
En jafnvel heilbrigðar væntingar geta brugðist og valdið okkur vonbrigðum. Ekkert okkar fær allt sem við óskum okkur í þessu lífi og hluti af þroskaferli manneskjunnar er að takasta á við vonbrigði og vinna úr þeim þannig að við stöndum eftir heilli og þroskaðri manneskjur.
Við lærum að stilla væntingum okkar í hóf bæði gagnvart okkur sjálfum og öðru fólki. Enda er væntingastjórnun mun stærri hluti af samfélagi okkar en við ef til vill gerum okkur grein fyrir. Langtímaveðurspá fyrir verslunarmannahelgina, afkomuviðvaranir í kauphöllinni kjaradeilur á vinnumarkaði og skoðanakannanir í aðdraganda kosninga eru allt spár er snúa að einhverju leyti að væntingastjórnun eða nýtast í það minnsta sem slíkar?
Kosningar
Undanfarna daga hefur mikið gengið á og varla nokkur manneskja hér á landi misst af því að kosningar væru í nánd. Og nú á fullveldisdegi liggur niðurstaðan fyrir. (er enn verið að telja upp úr kjörskössunum en brátt mun niðurstaða kosninganna liggja fyrir).
Ég er stolt af því að búa í landi þar sem kosningaþátttaka hefur alla tíð verið góð. Kosningaþátttaka er nefnilega ákveðið mælitæki á heilbrigði samfélags. Samfélag þar sem stór hluti fólks vill og telur sig geta haft áhrif er heilbrigt samfélag.
Stundum er sagt að forsenda þess að fá að kvarta yfir kosningaúrslitum sé að mæta á kjörstað. En til þess að sannfæra heila þjóð um að mæta á kjörstað þarf hún fyrst að trúa því að það sé til einhvers, að hún geti raunverulega haft áhrif.
Í gær mættu yfir 2oo þúsund Íslendingar á kjörstað í þeirri trú að þeirra atkvæði skipti máli. Eftir sex vikna karp og kappræður voru yfir 200 þúsund Íslendingar í það minnsta sammála um að atkvæði þeirra skipti máli.
Án efa urðu einhver okkar fyrir vonbrigðum með úrslitin á meðan önnur eru ánægð. Og nú verðum við að takast á við það og vinna úr lýðræðislegum niðurstöðum kosninganna.
En hversu ánægð eða óánægð sem við erum með niðurstöðuna þá er alveg öruggt að við munum einhvern tíma á næstu árum verða fyrir vonbrigðum með fólkið eða flokkinn sem við kusum. Enginn flokkur og engin manneskja munu ávallt og að öllu leyti standast væntingar okkar. Þannig er að vera manneskja í breyskum heimi.
Ég fylgdist hóflega mikið með kosningabaráttunni og þá ekki síst með augun opin fyrir því hvað flokkar og fólk segði um Þjóðkirkjuna og trúfrelsi á Íslandi. Ég hafði líka áhuga á að skoða hversu vel flokkar og fólk hafði fyrir því að kynna sér málefni Þjóðkirkjunnar ofan í kjölinn.
Kosningafundir og kappræður voru eins og gengur mis skemmtilegar og áhugaverðar en eitt þótti mér stórskemmtilegt; Það voru Kappleikarnir, kappræður fyrir unga fólkið sem haldnar voru í liðinni viku. Það sem gerði þessar kappræður óvenjulegar var að fulltrúar flokkana þurftu að vinna saman við að svara spurningum og svo áttu þau að mála mynd af hvert öðru. Það sem mér þótti gott við þetta var að við fengum að sjá frambjóðendur í öðru ljósi en venjulega. Ekki aðeins sem keppinauta og fulltrúa ákveðinna málefna heldur sem samherja. Við sáum hvernig fólk vann saman þvert á flokka og skoðanir og hvernig þau urðu að gaumgæfa andlit andstæðingsins og mála af honum mynd.
Það hlýtur að opna eitthvað fallegt í hjartanu að þurfa að horfa á manneskju, þó að hún sé með andstæðar skoðanir og hugsjónir á við okkur og finna út hvað það er sem einkennir hana. Vissulega er hægt að gera þetta með húmor, en ég trúi því líka að ef fólk getur hlegið saman þá getur það unnið saman. Ef til vill stillir það neikvæðum væntingum til viðkomandi í hóf og opnar augu þess er heldur á penslinum fyrir því að í hverri manneskju býr margt fleira en eingöngu pólitískar skoðanir.
Mér fannst þetta reyndar svo góð hugmynd að mér datt í hug hvort þetta gæti verið verðugt verkefni fyrsta daginn sem fólk sest á þing.
Væntingar
Þetta atriði var fyrir mér, þörf áminning um að manneskjan er svo miklu margbreytilegri og býr yfir meiri dýpt en for-dómar okkar gefa okkur til kynna.
Það sama á við um Jesú Krist, sjálfan frelsarann. Hann var svo miklu meira og annað en fólk gerði sér væntingar um.
Svo ótal margt við Jesú Krist var fullt af mótsögnum. Frelsari heimsins fæddist sem lítið ósjálfbjarga barn við erfiðar aðstæður. Hann var á flótta ásamt fjölskyldu sinni fyrstu mánuði ævi sinnar. Hann umgekkst fólk sem ekki þótti við hæfi að umgangast. Hann fylgdi ekki reglum samfélagsins ef þær komu í veg fyrir að hann hjálpaði fólki í neyð og svo mætti lengi telja. Já, og svo þegar hann reið inn í Jerúsalem við upphaf páskahátíðarinnar þá kom hann á asna.
Asni var, og er, vinnudýr. Asnar eru lægri en hestar sem þýðir að manneskja sem situr á baki asna er í augnhæð við fólkið sem gengur hjá eða stendur við veginn. Það er því varla til auðmýkri leið til þess að fara ferða sinna en á baki asna, nema ef væri að ganga. Ef Jesús hefði komið á hesti hefði það táknað hernað og ef hann hefði komið í burðarstól hefði það táknað völd og ríkidæmi. Hann hafði hvorugt og hann vildi hvorugt.
En hann stóðst ekki væntingar fólksins.
Stenst hann væntingar þínar?
Stenst fólkið í kringum þig þínar væntingar?
Jesús, sem kom í heiminn til að sýna okkur hvernig Guð er, kom með auðmjúkum hætti og mætti okkur fyrst sem lítið varnarlaust barn og síðan sem fullorðin manneskja í augnhæð.
Hvað segir það okkur um Guð?
Segir það okkur ef til vill að Guð er ekki alltaf eins og við höldum?
Segir það okkur ef til vill að Guð deilir kjörum okkar og mætir okkur í augnhæð en ekki sem upphafið afl sem uppfyllir allar okkar óskir og refsar okkur þegar við högum okkur illa.
Segir það okkur ef til vill að Guð sé stöðugt að verki og taki þátt í lífi okkar sem hinn æðsti kærleikur en að við tökum ekki alltaf eftir því vegna þess að við væntum þess að Guð sé einhvern vegin öðruvísi?
Á þessari aðventu langar mig að hvetja þig til þess að opna hug þinn og reyna að koma auga á það hvernig Guð er að verki allt í kringum þig án þess að vera með fyrirfram ákveðnar væntingar. Ef til vill gerum við það best með því að leyfa Guði að koma okkur á óvart eins og Guð gerði þegar Guð varð manneskja í litlu barni og þegar Jesús Kristur reið inn í Jerúsalem í augnhæð.
Guð sem mætir okkur í augnhæð er fyrst og fremst að verki þar sem við mannfólkið mætumst í augnhæð. Til þess að mætast í augnhæð verðum við að stilla væntingum okkar í hóf og vera meðvituð um að bæði fólk og aðstæður munu einhvern tíma valda okkur vonbrigðum.
Hendur Guðs í heiminum
Jesús stóðst ekki væntingar fólksins í Jerúsalem því það vildi einhvern sem tæki aðstæður þeirra í sínar hendur gerði eitthvað hér og nú.
Í gær kusum við í þeirri von að heimurinn okkar yrði fyrir vikið betri. En gleymum því aldrei að við getum, hvern einasta dag sem við lifum kosið að gera heiminn okkar betri. Sá kjörstaður lokar aldrei!
Við getum kosið að gera góðverk. Við getum kosið að gefa af okkur og við getum kosið að aðstoða annað fólk við sín góðverk. Við getum kosið að vera hendur Guðs í heiminum. Það er okkar hlutverk að gera eitthvað hér og nú í nafni Jesú Krists sem gefur okkur kærleikann og mætir okkur óvænt í augnhæð.
Jólasöfnun Hjálparstarfs kirkjunnar hefst með formlegum hætti í dag. En þessi jólasöfnun er bæði fyrir starfið hér á Íslandi og erlendis.
Ég hef þær væntingar til íslensks samfélags að allar manneskjur geti um þessi jól, glaðst, gefið gjafir og átt góðar stundir með ættingjum og vinum, ekki síst börnin. Það er brýnt að þau upplifi öll gleði og frið. En til þess að það geti ræst verðum við að hjálpast að.
Fyrir síðustu jól studdi Hjálparstarf kirkjunnar 1.724 fjölskyldur (um 4.600 einstaklinga). Gert er ráð fyrir að svipaður fjöldi muni þurfa á stuðningi að halda þessi jól.
Á þessari aðventu bið ég fyrir þeim er skipuleggja jólaaðstoð Hjálparstarfs kirkjunnar, ég bið fyrir öllum þeim sem þurfa á aðstoð að halda þessi jólin, og ég vona heitt og innilega, að þörfin verði minni næstu jól.
Höfum í huga við jólaundirbúninginn í ár að Guð mætir okkur einmitt þar sem við erum stödd hér og nú, í augnhæð.
Lítum í kringum okkur og leyfum Guð koma okkur á óvart.
Dýrð sé Guði sem elskar okkur eins og við erum og mætir okkur í augnhæð.
Nýlegar athugasemdir