Skip to main content
All Posts By

gudrun

Kirkjan er engin hornkerling – Hlutverk biskups í samtímanum

Eftir Pistlar

Þessi grein birtist í Morgunblaðinu 16. mars 2024

Nýr biskup
Nú stendur fyrir dyrum að kjósa nýjan biskup í þjóðkirkjunni. Niðurstaðan í biskupskjöri verður ljós á gleðidögum kirkjunnar, á milli páska og hvítasunnu ef allt gengur eftir. Prestar og djáknar hafa valið þrjú úr hópi presta sem kosið verður á milli og ég þakka þann mikla stuðning og traust sem starfssystkini mín hafa sýnt mér. Á  komandi vikum gefst okkur rými til þess að ræða framtíð kirkjunnar og ólík áhersluatriði biskupsefna, en ég vil ekki síður nýta þennan tíma til þess að hlusta á vilja þjóðkirkjufólks.

Áður en lengra er haldið er rétt að geta þess, fyrir þau sem ekki þekkja til mín að ég hef verið farsæll prestur í Þjóðkirkjunni og Sænsku kirkjunni um tveggja áratuga skeið. Ég hef þjónað sem prestur og sóknarprestur í fjölmennasta söfnuði landsins undanfarin sextán ár og hef því víðtæka reynslu sem leiðtogi. Þá hef ég setið á kirkjuþingi tvö kjörtímabil og gegnt þar ýmsum trúnaðarstörfum, verið ritari og varaformaður Prestafélags Ísland í mörg ár auk fjölmargra annarra nefnda og stjórnarstarfa fyrir Þjóðkirkjuna og félög er henni tengjast. Ég hef lokið framhaldsnámi í prédikunarfræðum frá Svíþjóð og Bandaríkjunum. Faglega séð er ég því vel undirbúin undir hlutverk biskups Íslands.

Hlutverk biskups
Hlutverk biskups er fyrst og fremst að vera leiðtogi Þjóðkirkjunnar og sameiningartákn hennar. Biskup er hirðir hirðanna og hefur það hlutverk að styðja, efla og uppörva þjóna kirkjunnar svo að þau geti, á sem bestan hátt,  sinnt sinni þjónustu við fólkið í landinu.

Samkvæmt nýsamþykktri stjórnskipan Þjóðkirkjunnar er að finna skilgreiningu á biskupsembættinu sem sótt er í lög frá alþingi um Þjóðkirkjuna frá 2021: „Biskup fer með yfirstjórn Þjóðkirkjunnar í kenningarlegum efnum, gætir einingar í kirkjunni og hefur tilsjón með kristnihaldi, kenningu kirkjunnar og þjónustu“. Þessi ný samþykkta stjórnskipan kemur í kjölfar þeirra gríðarlegu breytinga sem hafa átt sér stað í Þjóðkirkjunni á undanförnum árum. Kirkjan hefur nú tekið við öllum sínum málum frá ríkinu og hefur því fullt umráð yfir ráðstöfun sinna fjármuna. Mér líst vel á hið nýja skipulag sem ég tel að hafi verið nauðsynlegt og treysti mér vel til þess að vinna samkvæmt því. Skipulagið er að ýmsu leyti líkt því fyrirkomulagi er ríkir í söfnuðum landsins og verkaskiptingu þeirri sem er viðhöfð á milli sóknarprests og sóknarnefndar.

Kirkjan er engin hornkerling
Eitt stærsta verkefni nýs biskups á komandi árum verður að leiða kirkjuna í breyttu samfélagi nútímans og halda áfram að búa henni góðan stað í umhverfi þar sem ekki er lengur litið á kirkjuna sem sjálfsagða. Staða kirkjunnar í samtímanum hefur breyst hratt á undanförum 15 árum af ólíkum ástæðum. Samfélagið hefur orðið ríkara og fjölbreyttara þar sem fólk frá öðrum löndum, öðrum trúarbrögðum eða kirkjudeildum hefur sest hér að. Sífellt fleiri Íslendingar velja að vera utan trúfélaga og oft á tíðum hefur sú ákvörðun ekkert með trú að gera, heldur vill fólk ekki tilheyra skipulögðum trúarbrögðum eða trúfélagi. Kristinfræði er kennd í minna mæli í grunnskólum sem leiðir til þess að ungt fólk þekkir ekki sögur Biblíunnar og veit þar af leiðandi minna um trú og menningu þjóðarinnar. Þetta er staða sem kirkjunni ber að taka alvarlega. Kirkjan hefur á ýmsan hátt færst til hliðar. Hún fær minna rými en hún gerði í samfélaginu áður fyrr. Að hluta til er það eðlilegt í samfélagi fjölbreytileikans en það kemur þó ekki veg fyrir að kirkjan geti staðið styrkum fótum og tekið sitt rými því kirkjan er engin hornkerling.

Hlutverk mitt á komandi árum, verði ég kjörin, er að leiða kirkju sem er í sókn, kirkju sem tekur sjálfsagt rými í samfélaginu okkar og er leiðandi afl þegar kemur að trúarlegum- og siðfræðilegum málefnum. Ég vil leggja áherslu á að leiða kirkju sem lætur sig mannréttindi allra varða í anda Jesú Krists og um leið lyfta upp öllu því góða starfi, sálgæslu og trúariðkun sem söfnuðir landsins bjóða upp á.

Samfélagið í kirkjunni
Annað stórt og mikilvægt verkefni á komandi árum verður að vinna að því að þétta raðir presta, djákna, starfsfólks safnaða og sóknarnefnda kirkjunnar. Breytt staða kirkjunnar hefur haft rík áhrif á starfsumhverfi presta og djákna og starfsöryggi þeirra er ekki hið sama og áður. Mögulegt er að vinna að þessu eftir ýmsum leiðum en það mikilvægasta hlýtur ávallt að vera að byggja upp góð samskipti og traust. Það verður aðeins gert með samtölum, reglulegum og uppbyggilegum samskiptum og með því að sjá til þess að allir hafi greiðan aðgang að upplýsingum um það sem er að eiga sér stað í kirkjunni.

Trúin ofar öllu
Ástæða þess að ég ákvað að gefa kost á mér til embættis biskups Íslands er fyrst og fremst sú að ég á mér einlæga trú á lifandi Guð. Ég hef trú á mátt bænarinnar og er sannfærð um að við erum öll Guði falin. Mér þykir vænt um kirkjuna mína og hef óbilandi trú á henni. Ég er sannfærð um að við getum með samstilltu átaki lyft henni hærra og gert hana sýnilegri sem sá griðastaður trúar, vonar og kærleika sem hún er.

 

Ofurkonan

Eftir Pistlar

(Úr bókinni minni, Í augnhæð, Hversdagshugleiðingar sem kom úr í nóvember 2020)

Vika 12. Ofurkonan – Alþjóðabaráttudagur kvenna

 Dugmikla konu, hver hlýtur hana?
Hún er miklu dýrmætari en perlur.

Hún sér um ull og hör
og vinnur fúslega með höndum sínum.
(Orðskviðirnir 31. 10)

Tilbrigði við Orðskviðina 31. 10-31:

Dugmikla konu, hver þekkir hana?
Hún er dýrmætari en perlur.
Maki hennar treystir henni
og það er gott að vera með henni.
Hún gerir lífsförunaut sínum gott og er
honum trú alla ævidaga sína.
Hún tekur til og setur í þvottavél,
henni fellur sjaldan verk úr hendi.
Hún er verslar í matinn þó Bónus
sé ekki í leiðinni.
Hún fer snemma á fætur,
hitar kaffi, tekur til morgunmat handa öllum
og kannar hvort allir fjölskyldumeðlimir þekki
verkefni dagsins.
Ef hana langar í nýja skó kaupir hún þá og
ef hún vill skipta um lit á veggjunum í stofunni,
málar hún þá.
Hún fer í ræktina þrisvar í viku, lyftir lóðum,
hleypur á brettinu og iðkar jóga.
Hún finnur að það sem hún gerir skiptir máli,
veit að hún er í ábyrgðarmiklu starfi
og stundum þarf hún að sitja við tölvuna
fram eftir kvöldi og ljúka við verkefni dagsins.
Hendur hennar renna yfir lyklaborðið
þegar hún skapar nýja heima í tölvunni,
þegar hún greiðir reikningana.
Hún heimsækir eldri ættingja sína þegar hún getur
og hún gefur reglulega í Hjálparstarf kirkjunnar.
Hún býr börnin sín vel fyrir veturinn svo þeim verði
ekki kalt á leikskólanum.
Hún er glæsileg til fara.
Blandar saman notuðum fötum og nýjum.
Hún flokkar ruslið og
fer með allt sem hægt er í endurvinnslu.
Hún er bjartsýn og sjálfsörugg.
Hún er sátt við sjálfa sig.
Í því felst glæsileiki hennar.
Hún bloggar af kærleika
og reynir að tala vel um fólk.
Hún er börnum sínum góð fyrirmynd og
á trúnað þeirra og makans.
Hún er dugleg en kann líka að
slappa af og horfa á góða mynd í sjónvarpinu.
Börnin hennar vilja líkjast henni og maki hennar
hrósar henni.
„Margar konur hafa verið til fyrirmyndar
en þú tekur þeim öllum fram.“
Kynþokkinn er svikull og fegurðin hverful
en trúuð kona á kreppu tímum á hrós skilið.
Hún njóti ávaxta vinnu sinnar og verk hennar
munu að lokum vekja athygli.
Þekkir þú þessa konu? Ég þekki hana.

Ég þekki líka konuna sem leyfir sér að slappa af fyrir framan sjónvarpið, tölvuna eða við handavinnu í stað þess að setja í þvottavél eða taka til.

Ég þekki líka konuna sem sér til þess að verkaskipting hennar og makans sé jöfn.

Ég þekki konuna sem veit að hún er með lægri laun en maðurinn sem var ráðinn um leið og hún og gegnir samskonar starfi. Hún getur ekki gert neitt í því þar sem launaleynd ríkir í fyrirtækinu.

Ég þekki konuna sem virkar svo sterk og sjálfsörugg út á við en verður fyrir stöðugu ofbeldi heima hjá sér.

Ég þekki konuna sem er með hærri laun en maki sinn og hann samgleðst henni.

Ég þekki konuna sem nær ekki endum saman því hún er einstæð með þrjú börn og á atvinnuleysisbótum.

Ég þekki allskonar konur.

Það gerir þú líka.

Mikið væri gaman að vera þessi ofurkona sem hér var lýst og verða aldrei þreytt. Eða að verða bara hæfilega þreytt svo nætursvefninn verði góður. En hver er þessi ofurkona? Er hún til?

Já, þessi kona er til og við þekkjum hana en mögulega er hugtakið „ofurkona“ þó ekki réttnefni því það er ólíklegt að ein manneskja haldi út allan þennan fullkomleika sem hér var lýst. Ofurkonan er hver einasta kona sem gerir sitt besta í heimi þar sem konum hefur verið gefið að sök að hafa komið með illskuna inn í heiminn, að vera orsök alls ills. Ofurkonan er sú sem lifir af í heimi þar sem konan á helst að vera bæði hrein mey og móðir samtímis og segja já við örlögum sínum hver sem þau eru.

En ofurkonan er líka konan sem segir nei við þeim örlögum sem henni eru ætluð og er móðir án þess að vera meyja og er meyja án þess að vera móðir.

Ofurkonan er líka konan sem leitar þekkingar, og horfir framan í forgengileikann og neitar að bera sökina á illskunni sem á hana er klínd.

Ofurkonan er allar konur.

Öskukross og fasta

Eftir Pistlar

Öskudagur markar upphaf föstunnar sem stendur í 40 daga eða jafnmarga daga og Jesús fastaði í eyðimörkinni. Fastan í kristinni trú er tími iðrunar og yfirbótar. Fastan er þó ekki ekki síður tími íhugunar og tilvalið er að nýta þennan tíma til að fara inn á við, leita að því sem gefur okkur dýpri merkingu, skoða líf okkar og finna til samkenndar með öðrum.

Í fjölmörgum kristnum kirkjum er til siðs að fá öskukross á ennið á föstunni og þá sér í lagi á öskudaginn. Orðin sem fylgja með geta verið: ”Takið við tákni föstu og yfirbótar” eða ”Minnstu þess að þú ert duft eitt og hverfur aftur til jarðarinnar” eða önnur áþekk. Askan táknar þá dauðann, forgengileikann og eyðingu líkamans, sem hverfur aftur til duftsins að loknu hlutverki sínu hér á jörðu. Öskukross á enni er hugsaður sem hvatning til okkar að íhuga hvernig við högum lífi okkar og minna okkur á forgengileikann. En um leið er krossinn teiknaður á okkur í fullvissunni um að á eftir föstunni og föstudeginum langa koma páskarnir, hátíð upprisunnar. Þá verðum við fullvissuð um að enginn dauði getur sigrað Guð lífsins og það líf er við þiggjum af Guði.

Þannig mætist í öskukrossinum hið forgengilega, allt sem tengist því að vera breyskar manneskjur hér á jörð, manneskjur sem elska, missa og deyja og sigur lífsins á dauðanum. Krossinn sjálfur er jú vonar- og sigurtákn sem við merkjum okkur með í hverri guðsþjónustu.

Fasta er eitthvað sem nútímamanneskjan þekkir vel því nokkuð algengt er að fólk iðki föstur með einum eða öðrum hætti sér til heilsubótar og til þess að hvíla meltingarkerfið. Hin kristna fasta gengur út á að íhuga líf okkar og hvernig við getum bætt það með hjálp Guðs. Fastan þarf ekki endilega að vera flókin og breyta miklu miklu í lífi okkar þó að hún geti sannarlega gert það. Mörgum þykir gott að nýta föstuna til að neita sér um eitthvað og þannig minna sig á að lífsgæðin eru ekki sjálfsögð og þannig ef til vill að einhverju leiti að taka þátt í þjáningu Krists. Oft er þetta samtengt því að bæta lífstílinn eða lifnaðarhætti að einhverju leiti og fjarlægja það sem er okkur ekki til góðs. Fastan getur þá falist í því að neita sér um ákveðna fæðutegund eða eingöngu að neita matar á ákveðnum tímum. Nokkuð er um að fólk neiti sér um notkun samfélagsmiðla. Einnig er hægt að nýta föstuna til þess að bæta líf okkar með því að bæta einhverju góðu við. Dæmi um það geta verið að verja meiri tíma fjölskyldunni, auka samskipti við fólk sem við erum ekki nógu dugleg að hitta, vera betri vinur eða standa sig betur í vinnunni.

Fasta er tími íhugunar og iðrunar. Gott er að að nota þennan tíma til að ná tengingu við almættið, okkur sjálf og náungann. Ein leið getur verið að hefja hvern dag á íhugun og bæn og setja sér ásetning fyrir daginn. Ásetningurinn getur mögulega verið fólginn í því að velja hvernig við ætlum að mæta fólki og hvernig við komum fram við okkur sjálf. Hann getur falist í því að setja sér þann ásetning að öfunda minna og elska meira, reyna að sjá það jákvæða í stað þess að einblína á hið neikvæða svo eitthvað sé nefnt.

Hvort sem þú velur að fasta eða ekki þá er helgihald safnaða á föstunni nærandi  og gagnlegt til að halda við og gefa okkur ramma utan um iðkun trúarlífsins á föstunni. Öskukrossinn sem málaður er á enni okkar á öskudaginn og jafnvel á öðrum helgidögum föstunnar táknar breyskleika og sársauka manneskjunnar sem oft er svo erfitt að koma orðum að. Um leið vísar krossinn til upprisunnar, þess er koma skal.

 

 

Kærleikurinn lítur ekki undan

Eftir Prédikanir

Sannur kærleikur

Þótt ég talaði tungum manna og engla, hefði góð tök á íslenskri tungu
og hefði fjölda annarra tungumála á valdi mínu
en hefði ekki kærleika,
væri ég hljómandi málmur eða hvellandi bjalla.

Og þótt ég hefði spádómsgáfu, gæti séð inn í framtíðina
og hefði margar háskólagráður
og þótt ég hefði svo takmarkalausa trú að færa mætti fjöll úr stað,
mætti í messu hvern sunnudag og læsi daglega úr Heilagri ritningu
en hefði ekki kærleika,
væri ég ekki neitt.

Og þótt ég deildi út öllum eigum mínum,
styrkti reglulega Rauðakrossinn,
Krabbameinsfélagið, Hjálparstarf kirkjunnar
og öll hin félögin
en hefði ekki kærleika,
væri engu bættari…

Þau eru mörg sem kannast við Óðinn til kærleikans úr Fyrra Korintubréfi en þessi fagri kærleiksóður er einn allra þekktasti texti Biblíunnar. Hann hefur komið fyrir í bókmenntum, ljóðlist, tónlist, myndlist og kvikmyndum svo eitthvað sé nefnt. Þá er þetta einn algengasti Biblíulesturinn í hjónavígslum bæði hér á landi og um allan hinn kristna heim. Auk þessa hafa verið samin alls kyns tilbrigði við þennan texta eins og það sem er hér á undan.

Þessi texti er svo óendanlega sterkur og þá ekki síst fyrsti hlutinn þar sem fram kemur að þú getur gert góða hluti og virkað fullkomlega fín og góð manneskja en ef þú gerir það ekki í nafni kærleikans, ef þú átt ekki kærleika í brjósti þá ertu innantóm eins og hljómandi málmur, þá ertu engu bættari. Samkvæmt þessu er ekki nóg að virðast góð manneskja ef ég er það ekki í raun og veru.

Hvaða kærleikur er þetta þá sem við eigum að finna? Skiptir einhverju máli hvaðan gott kemur? Getum við ekki alveg verið góðar manneskjur þó að við finnum ekki fyrir kærleika í brjósti okkar? Við erum jú breyskar manneskjur og sannarlega ekki alltaf góðar.

Þrjár konur – miskunnsami Samverjinn
Ég er nokkuð virkur notandi samfélagsmiðilsins Instagram. Þessi miðill getur verið virkilega öflugur þar sem hægt að koma sterkum boðskap áleiðis í formi mynda og myndbanda þegar orðin ein duga ekki til. Ég á nokkra vini á þessum miðli sem setja inn myndir á hverjum degi um ástandið á Gaza. Þau setja inn myndir af börnun sem hafa nýlega misst foreldra, af foreldrum sem hafa misst börn. Þau setja inn myndir af særðum börnum og jafnvel dánum börnum. Það er ekki þægilegt að skoða þetta og oft langar mig að fletta framhjá þessu. Ég geri það stundum en læt mig þó yfirleitt hafa það að horfa. Ég held nefnilega að þegar við veljum að horfast ekki í augu við mannvonskuna í heiminum þá veljum við að sjá ekki neyð annarrar manneskju sem er nákvæmlega jafn dýrmæt og við.

Árið 2014, fyrir tíu árum, fjallaði ég um það í prédikun þegar Ísraelsher varpaði sprengju á hóp barna sem var við leik á Gazaströndinni. Þá höfðu staðið yfir stöðugar árásir á Gaza í nokkurn tíma og um 300 manneskjur höfðu látist. Talið var að um 80% þeirra væru almennir borgarar. Fólk eins og þú og ég. Börn að leik og fólk sem tengist ekki hernaði á nokkurn hátt. Nú, tíu árum síðar hafa stöðugar árásir á Gaza átt sér stað marga mánuði og ástæðan er að verið sé að uppræta Hamas samtökin sem eru skilgreind sem hryðjuverkasamtök. Og enn og aftur er það svo að minnst 80% þeirra er verða fyrir þessum árásum eru almennir borgarar, börn, konur, karlar og kvár. Í dag er talið að nálægt 30 000 manns hafi látist í þessum árásum.

Þegar ég var að alast upp var fréttafluttningur af átökum á Gaza svæðinu daglegt brauð. Ég man að ég  spurði stundum út í þetta en yfirleitt var ég ekkert mikið að velta þessu fyrir mér. Þetta var bara hluti af lífinu. Hinu hversdagslega.

Er ekki eitthvað brenglað við heim þar sem hversdagsleiki sumra barna er að þau sjálf eða einhver sem þau þekkja og þykir vænt um geti orðið fyrir árás og dáið hvenær sem er? Og heim þar sem hversdagsleiki annarra barna er að það er svo venjulegt að heyra daglega fréttaflutning af því að stríð ríki á mörgum stöðum í heiminum að þau kippa sér ekki upp við þær fréttir lengur?

Nú hafa þrjár íslenskar konur tekið sig til og gert það sem hefur vafist fyrir stjórnvöldum og farið út til Egyptalands að landamærum Gaza til þess að reyna að sækja fólk sem þegar hefur fengið dvalarleyfi á Íslandi. Þeim hefur nú þegar tekist að ná einni konu og þremur börnum hennar yfir landamærin og eru nú að reyna að ná annarri konu og langveiku barni hennar.

Þrjár konur gáfust upp á að bíða og gerðu eitthvað. Þetta minnir svolítið á söguna um miskunnsama Samverjann þar sem sá er síst skyldi var sá sem kom manninum, sem ráðist var á, til hjálpar. Þessar konur eru Samverji nútímans.

Önnur stríð
Ég held að öllum sé ljóst að það sem er að eiga sér stað á Gaza er hápólitískt því vestræn stjórnvöld, þar á meðal Ísland, eiga í stjórnmálasambandi við Ísrael. Þegar Rússland réðst inn í Úkraínu var annað uppi á teningnum. Við tókum við 4000 manns þaðan án vandræða og lögðumst öll á eitt. Við rákum Rússa úr Eurovision og það var ekkert flókið að skrifa undir yfirlýsingar sem fordæmdu Rússa. Þegar stríðið var í Sýrlandi var einnig auðveldara að taka á móti flóttafólki og standa með þeim er urðu undir.

Samskipti ríkja skipta máli og stjórnmálasamband er eitthvað sem ríki virða sín á milli. Þá er ljóst að við viljum síður styggja sum ríki en önnur einfaldlega vegna stærðar og máttar, vegna tengsla þeirra við enn önnur ríki og vegna viðskiptasambands. En þegar þessi tengsl verða til þess að það vefst fyrir okkur að standa með fólki sem ráðist er á, að styðja fólk sem verður fyrir daglegum árásum þá er eitthvað bogið við þetta. Ég get nefnilega ekki séð hvers vegna við getum ekki fordæmt allar árásir þar sem saklaust fólk deyr, hvort sem um er að ræða árásir Ísraels á Gaza eða árásir Hamas á Ísrael. Bæði er hræðilegt.

Sannur kærleikur
Í Óðinum til kærleikans er lögð áhersla á að verk okkar séu ekki innantóm, að það sé ekki nóg að tala fallega, virka trúuð og fróm, eiga djúpa þekkingu og gefa í góðgerðamál ef við erum ekki sönn.

Ef sannur kærleikur liggur ekki að baki þá verður þetta allt saman innantómt. Röddin okkar verður hol.

Það er ekki auðvelt að elska. Það getur meira að segja verið býsna erfitt og sársaukafullt að elska. En sannur kærleikur hlýtur ávallt að leiða okkur í þá átt að vilja vel. Ein mikilvægasta mynd Biblíunnar af Guði er einmitt kærleikur, að Guð sé hinn dýpsti og tærasti kærleikur sem getur elskað út fyrir öll landamæri. Að Guð sé svo djúpur kærleikur að Guð geti elskað hverja einustu manneskju, líka þær sem virðast illvirkjar, þær sem fremja vond verk. Það er þessi kærleikur sem Guð býður okkur að finna ef við opnum hjörtu okkar fyrir Guði. Þetta er kærleikurinn sem við getum látið streyma í gegnum okkur ef við viljum þiggja hann.

Kærleikurinn er oft flókinn og við getum ekki elskað allt og alla. Kærleikurinn er ekki blindur. Hann er ekki heimskur og hann er ekki trúgjarn. Jesús lét ekki bjóða sér hvað sem var en hann stóð ávallt með þeim sem verða undir. Kærleikurinn getur jafnvel gefið okkur hugrekki til að vera óþægileg og segja sannleikann og elska einnig þau sem ekki er vinsælast að elska. Þau eru manneskjur, Guðs góða sköpun eins og við.

Manneskjurnar sem nú búa við það ástand að þær sjálfar og þeirra nánasta fólk getur orðið fyrir árás hvenær sem er án þess að hafa nokkuð til þess unnið nema helst að hafa fæðst í röngum stað í heiminum er það fólk sem við hljótum ávallt að láta okkur varða. Þá er alveg sama í hvaða löndum þetta fólk býr. Kærleikurinn getur aldrei samþykkt að saklaust fólk sé drepið.

En hvað getum við gert?

Ég held að við getum gert svo ótal margt. Við getum gætt okkar á því að láta aldrei stríð og ofbeldi verða að hversdagslegu fyrirbæri. Við getum látið okkur fólk og aðstæður þess varða jafnvel þó að þau búi langt í burtu og jafnvel þó að þau séu ekki með réttu pólitísku stöðuna gagnvart Íslandi. Við getum gefið pening í safnanir. Við getum mótmælt og við getum beðið. Svo er einstaka óvenju hugrakkt og drífandi fólk sem fer bara á staðinn og tekur málin í sínar hendur eins og konurnar þrjár sem nú eru að reyna að bjarga fólki, sem þegar er komið með dvalarleyfi, yfir landamærin

Ég ætla að reyna að loka ekki augunum fyrir myndum og myndböndum frá því sem er að eiga sér stað á Gaza eða öðrum stöðum í heiminum og birtist á Instagram þó mig langi oft til þess. Og ég veit bara að Jesús hefði aldrei staðið hjá og komið sér undan því að taka afstöðu með þeim sem verða undir vegna þess að það væri stjórnmálalega of flókið.

Kærleikurinn getur falist í því að líta ekki undan og standa með öllum sem búa við neyð, hver sem þau eru.

Dýrð sé Guði sem lætur sig allar manneskjur varða og vill að við gerum slíkt hið sama.