Skip to main content
All Posts By

a8

Þú ert ekki mistökin þín

Eftir Prédikanir

Prédikun flutt í Kirkjuselinu 8. nóvember 2020

Á forsendum þolenda
Þegar við tölum um fyrirgefninguna þá veltum við gjarnan fyrir okkur hversu mikið við getum fyrirgefið, hvort við getum eða eigun að fyrirgefa allt. Í dag langar mig að skoða hvað við getum fengið fyrirgefið, hvort manneskja sem brotið hefur alvarlega af sér eða gert afgerandi mistök, eigi afturkvæmt, sem fullgildur meðlimur, í sama samfélag eða í þann hóp er sá eða þau er brotið var á tilheyra?

Það er rík krafa í kristni um fyrirgefningu en hún er ekki skilyrðislaus og einföld eins og stundum mætti halda heldur er gert ráð fyrir að hún taki tíma og að ákveðið ferli eigi sér stað. Til þess að unnt sé að fyrirgefa er gert ráð fyrir að fyrst að komi beiðni um fyrirgefningu, iðrun og yfirbót. Þá er krafan sú að þegar þú hefur fyrirgefið þá er það sem gerðist búið. Því er endanlega lokið. Þú rifjar það ekki upp reglulega yfir morgunmatnum ef þú ert búin/n að fyrirgefa því það er ekki til lengur. Máltækið: „Geymt en ekki gleymt“ á því alls ekki við þegar kemur að fyrirgefningunni“.

Engin manneskja er án syndar. Öllum verða okkur á mistök og öll brjótum við einhvern tíma á öðru fólki. Þessi brot eru misalvarleg. Og það breytir engu hversu sterk siðferðiskennd okkar er, við komum öll einhvern tíma illa fram við aðra manneskju.

Í Nýja testamentinu streymir fyrirgefningin reyndar aðeins í eina átt, frá þeim valdameiri til hinna valdaminni. Það er óhugsandi þar að hún fari í hina áttina. Landeigiandi fyrirgefur leiguliða, Jesú fyrirgefur þeim sem hafa brotið af sér. Á krossinum er Jesús ekki í valdastöðu gagnvart böðlum sínum og því getur hann ekki fyrirgefið þeim heldur biður hann Guð að fyrirgefa þeim. Á sama hátt eigum við ekki undir nokkrum kringumstæðum að krefjast þess að sáttarfundur sé haldinn á milli þolanda og geranda, þar sem þolandi er beðinn um að fyrirgefa. Ef fyrirgefning mun einhvern tíma eiga sér stað þá verður hún ávallt að vera á forsendum þolandans en ekki gerandans, hversu djúp sem iðrun gerandans er.

Fimm skref
Fyrir stuttu hlustaði ég á viðtal við rabbía nokkurn frá Bandaríkjunum að nafni Danya Ruttenberg. Hún er höfundur fjölda bóka um ýmis trúarleg málefni auk þess sem hún skrifar reglulega í mörg helstu blöð Bandaríkjanna s.s. New York Times og Washington Post. Hún hefur mikið velt fyrir sér fyrirgefningunni út frá Gyðingdómnum og í tengslum við nútímann. Í þessu viðtali talaði hún um fimm skref sem sú/sá sem brýtur af sér þarf að taka til þess að eiga möguleika á að vera fyrirgefið. 

Fyrsta skrefið er að viðurkenna brotið opinberlega. Það kann að hljóma svakalega en þarna er átt við að viðurkenna brotið jafn opinberlega og það umhverfi var sem brotið var framið í. Ef það átti sér stað á samfélagsmiðlum þarf viðurkenning að eiga sér stað þar. Ef það varð á starfsmannafundi þarf viðurkenningin að vera þar. Ef það var innan fjölskyldunnar þá þarf að viðurkenna brotið þar.

Næsta skref er að breytast eða endurfæðast. Það getur falist í því að þú leitar þér hjálpar með einhverjum hætti. Þú getur t.d. farið í einhvers konar meðferð, lesið bækur og lært hvernig þú getur breyst og orðið sterkari manneskja á þessu sviði.

Skref þrjú og fjögur tengjast og eru oft unnin saman en hið fyrra gengur út á að bæta fyrir brotið og hið seinna að biðjast fyrirgefningar. Að bæta fyrir brotið getur falist í að greiða sjúkrakostnað ef þú hefur t.d. meitt eða slasað manneskju eða bætt fyrir þjáninguna sem þú hefur valdið með beinhörðum hætti ef hægt er. Þetta hlýtur þó alltaf að vera í hlutfalli við misgjörðina og gengur út á að laga eitthvað sem búið er að skemma eða laska. Þetta skref snýst eingöngu un að koma til móts við manneskjuna sem brotið var á og er unnið á forsendum hennar. Það er ekki fyrr en hér er komið við sögu sem kemur að beiðni um fyrirgefningu en sú beiðni er ekki lögð fram fyrr en bætt hefur verið fyrir brotið. Ef brotið er lítið og ómerkilegt er þolandinn hvattur til að fyrirgefa ef brotið var stórt er ekki víst að þolandinn geti nokkurn tíma fyrirgefið og er þá ekki hvattur til að gera það. Þarna þarf sá/sú sem braut á viðkomandi að gera allt til þess að bæta líðan þolanda brotsins.

Öll skrefin snúast um þolandann og því er ólíklegt að þú sért hvattur/hvött til þess að hitta viðkomandi til að biðjast fyrirgefningar eða til að bæta fyrir brotið ef ljóst er að það valdi viðkomandi vanlíðan að hitta þig.

Lokaskrefið felst í því að næst þegar þú hefur tækifæri til þess að brjóta af þér/særa/meiða aftur með sama hætti þá velur þú að gera það ekki. Þá ert þú orðin ný manneskja. Þetta ætti að gerast af sjálfu sér þar sem þú ert, þegar hér er komið, búin/n að vera að vinna úr brotinu og í þér í þó nokkurn tíma.

Þessi skref gera ekki ráð fyrir fyrirgefningarbeiðninni fyrr en seint í ferlinu eða í næst síðasta skrefinu. Þú þarft  fyrst að viðurkenna brotið, vinna í þér og bæta fyrir það áður en þú biður um fyrirgefningu. Það er síðan undir þolandanum komið hvort hún/hann getur fyrirgefið.

Að eiga afturkvæmt
Flest getum við átt afturkvæmt eftir að hafa meitt, sært, móðgað eða jafnvel brotið illilega á annarri manneskju. Það getur þó ekki gerst fyrr en við höfum sýnt að við virkilega skiljum í hverju brotið/mistökin fólust, að við skiljum að þau særðu eða meiddu.

Ég held jafnvel að hægt sé, í einhverjum tilfellum, að fyrirgefa alvarlegt ofbeldi t.d. innan fjölskyldu. Það getur þó aldrei orðið nema þolandinn finni sannarlega að sá/sú sem braut á henni/honum skilji hversu alvarlegt brotið var og sé tilbúin/n til að vinna í sér, bæta fyrir það og breyta ekki eins aftur.

Þegar Jesús segir að við eigum að fyrirgefa sjötíu sinnum sjö þá á hann ekki við að við eigum að fyrirgefa öllum allt alltaf. Hann á við að við eigum að lifa í fyrirgefningunni, við eigum að reyna af öllum mætti að vinna þannig úr allri reynslu að við séum opin fyrir því að fyrirgefa. Að þegar við brjótum á, særum eða meiðum þá getum við sjálf gert ráð fyrir fyrirgefningu þegar við skiljum í hverju brot okkar felst og iðrumst af öllu hjarta og erum tilbúin til að breyta okkur um leið og við virðum ákvörðun þolandans um það hvort hann/hún geti fyrirgefið okkur.    

Því einlægari sem iðrun okkar er og því tilbúnari sem við erum til að vinna í okkur sjálfum svo að þetta gerist ekki aftur og reynum að bæta fyrir brot okkar á forsendum þolandans því líklegra er að við eigum afturkvæmt í sama samfélagshóp á ný. Jafnvel þó að fyrirgefning geti ekki átt sér stað, þá getum við lifað hlið við hlið án þess að trufla líf hvors annars.

Til eru þau brot sem eru svo alvarleg að það er ekki möguleiki að fyrirgefa þrátt fyrir að sönn og innileg iðrun og yfirbót hafi átt sér stað. Sumir hlutir eru svo alvarlegir að aðeins Guð getur fyrirgefið þá. En ég trúi því að Guð geti fyrirgefið allt. Nákvæmlega allt, ef við iðrumst sannarlega og biðjum um það af einlægu hjarta. Því Guð veit hver þú ert. Guð veit að þú ert ekki mistökin þín, þú ert ekki brot þitt.

Dýrð sé Guði sem elskar okkur með öllum okkar breiskleikum og er tilbúið að fyrirgefa okkur öll okkar brot jafnvel þegar það er náunga okkar um megn.

Amen.

Hvar eru svanirnir?

Eftir Prédikanir

Áhyggjur

Ég er nokkuð viss um að hver einasti hjúkrunarfræðingur og hver einasti læknir gæti hugsað sé að hafa þann mátt að geta læknað alla krankleika, að geta gert kraftaverk. Að geta læknað jafnt króníska sjúkdóma sem umgangspestir, jafnt andlega sjúkdóma sem líkamlega. Og nú helst af öllu, Covid sjúkdóminn sem kórónaveiran veldur.

Vinur minn sagði við mig um daginn, þegar við vorum að ræða stöðuna í samfélaginu: „Hvar eru svanirnir í fréttunum? Þessir sem voru oft sýndir í lok fréttatíma á Rúv? Nú eru bara neikvæðar fréttir, endalaust verið að tala um Covid og sýna frá einhverju sem við þurfum að hafa áhyggjur af. Og þess á milli eru viðtöl við fólk sem hefur lent í erfiðri lífsreynslu“ sagði hann.

Vinkona mín hringdi í mig í vikunni. „Hún er nýkomin úr aðgerð og þarf því að halda sig enn meira til hlés en annars. Hún sagði: „Þetta er svo hundleiðinlegt! Ég fæ ekki að hitta börnin mín og barnabörn. Það er alltaf einhver í sóttkví eða einhver komin/n með covid. Ég fór niður í bæ um daginn til að fá svolitla tilbreytingu. Það var falllegt verður, hlýtt og ég fann ég að mig langaði í ís, en ég þorði bara ekki að fara í ísbúðina þó ég væri með grímu.“

Önnur vinkona mín sagði við mig um daginn að hún hefði engar áhyggjur og að henni liði bara ágætlega. Fjölskyldan er reyndar með minni innkomu núna en fyrir faraldurinn og það gæti verið að þau yrðu að draga saman á einhverjum sviðum en hún kveið því ekki. Hún sagðist svo oft hafa þurft að takast á við forsendubreytingar að hún gæti alveg gert það eina ferðina enn svo lengi sem fólkið hennar væri frískt.

Ég hitti kunningja minn sem er listamaður úti í búð í vikunni. Hann sagðist hafa þurft að herða sultarólina all verulega undanfarið. Hann hafði brugðið á það ráð að selja bílinn sinn og sagðist vera komin í megrun.

Það fyrsta sem ég geri á morgnanna þessa dagana er að lesa fréttirnar og ná mér í nýjustu Covid upplýsingarnar. Ég skoða allar fréttaveitur reglulega yfir daginn til að kanna hvort staðan sé eitthvað að lagast og hvað sé nú nýjast í kórónufréttum.

Ég  hef átt mörg samtöl við fólk sem hefur áhyggjur og ég veit að þú hefur átt þau líka. Við erum flest áhyggjufull að einhverju leyti þó það komi fram með ólíkum hætti, enda erum vð að lifa erfiða tíma. Og þegar áhyggjurnar verða miklar þá vilja sum okkar gera eitthvað skemmtilegt til þess að gleyma þessu stund á meðan önnur geta ekki annað en fylgst með öllum fréttum, eru alltaf með nýjustu tölur á hreinu og vita upp á hár hvað er að gerast.

Og svo eru þau sem lifa og hrærast í sjúkdómnum miðjum, þau sem sjálf veikjast eða einhver náin/n þeim og heilbrigðisstarfsfólkið okkar. Starfsfólk Landspítalans og annarra spítalal, starfsfólk á Heilsugæslustöðvum um allt land, á Hjúkrunarheimilum og fleiri stöðum þar sem veikt fólk og viðkvæmir hópar fá lækningu, umönnun og líkn. Þau fá enga pásu. Þau eru alltaf í kófinu miðju.

Ekki fyrst

Við erum ekki fyrsta fólkið í veröldinni sem upplifir erfiða tíma. Biblían er full af sögum af fólki sem upplifir erfiðleika og Jesús talar um að erfiðleikar séu hluti af lífinu hér á jörð. Og ef við höldum okkur bara við kynslóðirnar á undan okkur þá hafa þær upplifað, kreppu, smitsjúkdóma, heimsstyrjaldir og svo ótal margt fleira, svo ekki sé talað um alla persónulegu kreppurnar og áfölllin.

Í dag erum við ekki aðeins að upplifa það að veiran geti smitað okkur og jafnvel dregið einhver okkar til dauða heldur erum við að finna fyrir fleiri afleiðingum faraldursins. Fólk er að missa vinnuna. Heilu starfsstéttirnar sjá fram á algjört atvinnuleysi og tekjumissi. Það verður til þess að fátækt eykst ef ekkert er að gert. Heimilisofbeldi er að fara upp úr öllu valdi og kvíði og þunglyndi með öllum þeim alvarlegu afleiðingum sem því fylgir mun hafa áhrif á samfélagið áfram í nokkurn tíma eftir að við höfum ráðið niðurlögum veirunnar.

Að njóta líðandi stundar

Þegar kórónaveirufaraldurinn hófst var ég stödd í Ástralíu. Landinu lokaði upp úr miðjum mars eða fljótlega eftir að fyrstu smitin greindust þar. Ástralía var og er enn lokuð, landamæri milli fylkja lokuðu auk þess sem tveggja manna samkomubann ríkti í tvo mánuði eða þar til það hækkaði upp í það að 10 manns máttu koma saman. Þetta var ekki auðvelt því við þekktum lítið af fólki og máttum ekki hitta þau fáu sem við þekktum. Allt sem við gátum gert byggði á því að eitthvað væri opið. En það var allt lokað. Ég brást við þessu með þeim hætti að ég hélt í þá von að brátt myndi þetta lagast. Að gestirnir sem áttu að koma í maí myndu nú áreiðanlega komast til okkar. Þá væri þetta búið. Þegar ljóst var að það myndi ekki ganga eftir taldi ég mér trú um að þau sem áttu að koma í byrjun júní gætu þó alla vega komið. En þau fengu ekki heldur að koma. Að lokum fórum við heim. Ég er nokkuð viss um að mörg ykkar kannast við að hafa  lengi haldið í þá von að viðburðirnir sem áttu að vera eftir mánuð eða tvo yrðu að veruleika. Að hjónavígslan, afmælið, tónleikarnir eða leiksýningin sem átti að vera eftir nokkrar vikur fengi að standa. Við sem hugsuðum þannig urðum sífellt fyrir vonbrigðum.

Því er nú ráð að sækja í reynslu þeirra sem hafa lifað erfiða tíma á undan okkur. Til þeirra sem hafa reynslu af íþyngjandi og langvarandi erfiðleikum.

Það sem flestum, sem hafa lifað af virkilega erfiða tíma, ber saman um er að til þess að lifa erfiðleikana af er best að geta búið sér til veruleika sem felur í sér einhvers konar lífsgæði hér og nú. Að geta notið einmitt þessarar stundar í stað þess að bíða sífellt eftir að hlutirnir lagist. Þetta er niðurstaða margra sem hafa lifað af vist í fangabúðum Nasista, fanga sem hafa verið dæmdir þrátt fyrir sakleysi og fólks sem hefur búið við stríðsástand í lengri tíma. Þau vilja mörg meina að það að bíða alltaf eftir því að þetta lagist eftir tvær vikur eða tvo mánuði og verða svo sífellt fyrir vonbrigðum geri lífið erfiðara en ef við búum okkur til veruleika sem við getum notið á einhvern hátt einmitt hér og nú.

Það sem svo mörgum kemur saman um, er að það er hægt að búa til dásamlega góðan hversdagsleika og njóta hans einmitt í dag þrátt fyrir áhyggjur af sjúkdómum, atvinnuleysi eða jafnvel ótta um að vera tekin af lífi. Þannig er til mikið af frásögum folks sem lenti í fangabúðum Nasista í seinni heimstyrjöldinni og tókst jafnvel að njóta einhverskonar fegurðar mitt í erfiðleikunum, þó ekki væri fyrir annað en að sjá lítið blóm vaxa og blómstra í moldinni fyrir utan gluggann, að geta notið þeirrar fegurðar þrátt fyrir allt.

Lúther orðaði þetta með þeim hætti, þegar hann eitt sinn var spurður hvað hann myndi gera ef hann vissi að heimurinn myndi farast á morgun, að hann myndi gróðursetja eplatré. Er til meiri von og lífsvilji en að gróðursetja tré þegar þú veist að heimurinn mun farast á morgun?

Að rísa upp

Sagt er frá því í guðspjalli dagsins að Jesús hafi tekið einhverja byrði af lamaða manninum, þannig að hann gat staðið upp á ný. Þessi byrði er kölluð synd en hugtakið synd merkir m.a. það að missa marks eða að mistakast. Hann tók mistökin, sektarakenndina og skömmina frá manninum. Ég er alveg sannfærð um að Guð, sem er hinn æðsti og mesti kærleikur, ástin sem umlykur okkur á bak og brjóst, er tilbúið til þess að taka áhyggjurnar frá okkur. Ef við treystum Guði til þess að lyfta kvíðanum, áhyggjunum og óttanum af brjósti okkar svo að við getum staðið bein í baki og notið líðandi stundar þá held ég að margt geti breyst til batnaðar. Þá getum við átt auðveldara með að njóta líðandi stundar þrátt fyrir að lífið sé flókið um þessar mundir.

Ef til vill tekur Guð þessa byrði frá okkur þegar við ákveðum með sjálfum okkur að njóta einmitt þessa dags hvernig sem hann verður. Kannski tekur Guð byrðina frá okkur þegar við tölum við manneskju sem er tilbúin til að hlusta á áhyggjunnar okkar eða þegar hún fær okkur til að gleyma kvíðanum um stund og njóta þess að vera til einmitt nú. Því að hverjum degi nægir sín þjáning. Það er óþarfi að byrja á áhyggjum morgundagsins strax í dag.

Ég nefndi í upphafi að ég væri nokkuð viss um að heilbrigðisstarfsfólk gæti vel hugsað sér að geta gert kraftaverk og læknað alla sjúkdóma og þá ekki síst Covid-19 sjúkdóminn. Heilbrigðisstarfsfólk getur reyndar læknað stóran hluta sjúkdóma og meira að segja Covid-19 í flestum tilvikum þó þau geti ekki komið í veg fyrir að við smitumst. Heilbrigðisstarfsfólk vinnur nefnilega kraftaverk á hverjum degi. Þau vinna kraftverk með því að lækna, líkna og gefa fólki von. Þau vinna kraftaverk með því að vera til staðar fyrir þau sem eru veik, með því að hlusta. Þau gera kraftaverk með því að hjálpa fólki við að bera byrðar þeirra og með því að hafa kjark til þess að ganga inn í hvaða aðstæður sem er, líka þær allra erfiðustu. Og margt heilbrigðisstarfsfólk um allan heim hefur hætt lífi sínu fyrir þau sem eru veik, óttaslegin og hrædd.

Vinur minn saknar svananna í lok fréttatímans. Vonandi koma þeir aftur fljótlega en þangað til þurfum við að finna okkar eigin svani, okkar eigin góðu stundir í hversdagsleikanum.

Prédikun flutt í Grafarvogskirkju á degi heilbrigðisþjónustunnar 18.10.2020

Eins og við erum

Eftir Prédikanir

Prédikun í Grafarvogskirkju 26. júlí 2020. Sjöundi sunnudagur eftir þrenningarhátíð.

Matur og við
Öll eigum við í einhverjum tengslum við mat, ýmist góðum, vondum eða bara ósköp venjulegum.

Eittt af því flókna við samband okkar við mat nú til dags er að við höfum, flest sem búum í þessum hluta heimsins, nægan aðgang að honum. En þau sem eiga varla til hnífs og skeiðar eiga frekar fyrir lélegum mat en næringarríkum og hollum. Í stórum hluta okkar heims er hollur matur nefnilega dýrari en óhollur. Þannig er hægt að næra heila fjölskylu mun auðveldar á ódýrum mat frá þekktum skyndibitakeðjum en að kaupa ávexti grænmeti og annan næringaríkan og hollan mat.

Mörg okkar eiga í flóknu sambandi við mat þar sem við notum mat sem umbun eða refsingu, borðum þegar okkur líður illa eða vel eða sveltum okkur þegar okkur líður illa eða vel. Mörg okkar eru stöðugt á einhverjum kúrum, teljum hitaeiningar, sveltum okkar eða borðum alltaf of mikið. Átröskun eru geðrænir erfiðleikar sem okkur ber að taka alvarlega því þær geta orðið lífshættulegar hvort sem við borðum of lítið eða of mikið eða borðum í lotum og köstum upp.

Oft tengist samband okkar við mat hugmyndum okkar um útlit, þessum humyndum um að við eigum helst öll að vera mjó og að það sé merki um agaleysi að vera feit. Og hugmyndin um að grannt fólk sé heilbrigt og að fólk með aukakíló sé óheilbrigt lifir því miður enn góðu lífi þrátt fyrir að þetta sé fyrst og fremst byggt á fordómum og óheilbrigðum hugmyndum samfélagsins um hvað sé heilbrigt og hvað ekki.

Það er nefnilega alls ekki víst að holdafar okkar segi nokkuð til um heilsuna. Þétt fólk getur verið mjög heilbrigt, hlaupið, klifið fjöll, lyft lóðum ja og ræktað andlega lífið með bæn og íhugun svo eitthvað sé nefnt. Grannt fólk getur allt eins verið í lélegu líkamlegu formi, átt erfitt með alla hreyfingu, verið veikburða með lélegt úthald og jafnvel liðið af stöðugu hungri. Já, og svo er líka til grannt fólk sem borðar mikið og æfir líkama og anda en þyngist ekkert fyrir því og þétt fólk sem borðar hóflega, hugsar vel um bæði líkama og sál en grennist þó ekki.

Við erum nefnilega ólík og við eigum að vera það.

Kraftaverk að standa ekki á sama
Biblían er full af sögum er tengjast mat og til eru margar frásögur af Jesú að matast með fólki. Hann býður fólki í mat og fer í mat til annarra. Hann fatsar og „festar“. Já, og hann hvetur okkur til þess að koma saman og borða í sínu nafni í altarisgöngunni. Í guðspjalli dagsins vill hann sjá til þess að fólkið sem hafði komið til að hlýða á hann fari ekki svangt heim. Fólkið hafði verið þarna í þrjá daga án þess að matast og hann var hræddur um að sum þeirra myndu örmagnast á leiðinni heim ef þau fengju ekki næringu áður en þau legðu í hann. Sum þeirra höfðu komið langt að.

Þegar hér er komið sögu þarf næstum því að fara að ræða hvort þarna hafi átt sér stað kraftaverk eða ekki, þegar sjö

brauð og nokkrir fiskar dugðu fyrir fjögurþúsund karla og annan eins fjölda af konum og börnum. Þessi saga, sem er til í einhverri útgáfu í öllum guðspjöllunum fjórum, hlýtur að hafa ratað inn í Biblíuna í fjórum útgáfum vegna þess að hún skipti miklu máli. Ég er þó nokkuð viss að þessi saga er ekki hér í fjórriti vegna þess að Jesú tókst að galdra fram mat handa fjölda manns með kraftaverki. Ég held að þessi saga sé ekki aðeins mikilvæg vegna þess að þetta gerðist heldur sé ástæðan fyrir því að þetta átti sér stað aðalatriði.

Ræðumaðurinn var búinn að tala. Ráðstefnunni var lokið en fólkið var svangt. Jesús hefði vel getað valið að láta sig það engu varða og drifið sig heim. Lærisveinar Jesú hefðu getað gert slíkt hið sama. En í stað þess að láta fólkið eiga sig þá fer Jesús að standa í því að útvega þeim mat. Hann fær vini sína með sér í verkfnið og hvernig sem þeir fara að því, þá tekst þeim að útvega nægan mat og fæða allt fólkið. Jesús er sá sem hvetur lærisveinana til þess að gera eitthvað í málinu því hann lætur sig ekki eingöngu varða hinn andlega boðskap, hina andlegu líðan heldur vill hann að fólk fái næringu og að því líði vel líkamlega.

Verkin tala
Jesús gekk ekki aðeins um og prédikaði með orðum heldur lét hann ekki síður verkin tala. Hann var ekki aðeins á andlega sviðinu heldur lét hann sig varða líðan fólks og afkomu. Þessi framganga Jesú Krist sýnir okkur að Guð lætur sig varða allt er viðkemur lífi okkar og líðan. Guð er ekki aðeins að hugsa um hvort þú sért nógu trúuð eða trúaður, hvort þú farir oft í kirkju eða hvort þú munir eftir bænum þínum. Guð vill að þú sért farsæl manneskja. Guð vill að þér líði vel, líkamlega og andlega.

Ef til vill er Guð því hvatinn á bakvið þörf okkar og löngun til þess að koma náunganum til hjálpar, svona eins og þegar Jesús hvatti lærisveinana til að útvega fólkinu brauð þegar það var svangt. Í það minnsta ber okkur, hverju og einu, að útvega náunga okkar brauð, sé það nokkur möguleiki. En þetta brauð þarf ekki að vera raunverulegt brauð. Það þarf ekki einu sinni að vera matur. Það getur verið hvað eina sem náungi okkar þarfnast. Og jafnvel þegar það virðist ekki möguleiki að koma náunga okkar til hjálpar þá ættum við samt að reyna. Lærisveinarnir áttu aðeins sjö brauð og nokkra fiska en einhvern vegin dugði þetta samt. Á sama hátt er ekki ólíklegt að hjálpargögnin okkar muni margfaldast ef við höfum fyrir því að reyna að koma fólki til hjálpar.

Jesús spáði mikið í mat alveg eins og við gerum flest enda þörfnumst við öll matar til þess að lifa af. Ekki veit ég í hvers konar sambandi hann átti við mat. Ef til vill snérist það um að fá rétt svo nóg til að lifa af eða kannski elskaði hann stórar og miklar máltíðir og vissi ekkert betra en að vera boðin í mat. Eitt er víst; Alveg sama hvernig samband okkar er við mat og tengsl okkar líkama okkar þá er Guði ekki sama. Guð vill okkar besta og Guð veit hvernig það er að vera þú. Guð vill að þú sért stolt/ur af líkama þínum sem ber þig alla daga, hvernig sem hann lítur út. Það ert þú sem ákveður hvað er fallegt en ekki tískuframleiðendur. Á sama hátt og Jesús hvatti lærisveina sína til að koma fólkinu til hjálpar í stað þess að borða allt sjálfir, hvetur Guð okkur til þess að koma hvert öðru til hjálpar, að vera til staðar fyrir náungann.

Dýrð sé Guði sem mettar og vill að við eigum nóg af því sem við þörfnumst og fær okkur til að finna fyrir löngun til þess að koma náunganum til hjálpar.

Ekki í stíl

Eftir Prédikanir

Prédikun flutt í Grafarvogskirkju á aðfangadag 2019

Ég sá fyrir nokkru mynd í innréttingablaði af fallega skreyttu jólatré. Það var stílhreint, skreytt með smart kúlum í einum lit og hvítri ljósaseríu. En það var eitt smáatriði sem breytti heildarmyndinni. Ein kúlan var í öðrum lit og allt öðruvísi en hinar. Hún leit út fyrir að vera jafnvel heimagerð.

Ég get ímyndað mér að fólk skiptist gróflega í tvennt í áliti sínu á þessu jólatré. Annað hvort þykir okkur þessi eina kúla fullkomna tréð, kannski með því að ýta undir hvað allt hitt er einsleitt. Eða að okkur finnst þetta óþægilegt, að ein kúlan skeri sig svona úr og eyðileggi heildarsvipinn.

Ég sé fyrir mér hvernig fólkið, sem átti tréð, vildi hafa heimilið sitt flott og fínt og þá átti að sjálfsögðu hið sama við um jólatréð. En svo kemur barnið þeirra heim úr leikskólanum með jólakúluna sem það föndraði alveg sjálft. Hún er svo falleg, á sinn hátt. En hún passar ekki á tréð. Hún brýtur upp stílinn, svona eins og börn gera gjarnan. En hvað geta þau gert? Auðvitað hengja þau kúluna á tréð. Og þau hengja kúluna á tréð á hverju ári upp frá þessu.

Ert þú með svona kúlu á þínu tré? Jafnvel margar? Þykir þér erfitt að hengja þær á tréð og brjóta stílinn eða eru þetta kannski uppáhaldskúlurnar  og jólatréð hvort sem er skreytt í öllum mögulegum litum? Ég held að þessi eina kúla hafi orðið uppáhaldskúla fólksins sem átti stílhreina jólatréð. Ég held að hún hafi orðið uppáhaldskúlan vegna þess að litlar hendur bjuggu hana til og gáfu hana af hreinum kærleika og stolti til foreldra sinna.

Ef þú ert svo heppin/n að einhver manneskja hefur fyrir því að búa til skraut á jólatrréð fyrir þig, þó það sé búið til í skólanum eða leikskólanum, þá ert þú elskuð manneskja.

Þetta er þó að sjálfsögðu ekki eini mælikvarðinn á ást en hann er þó stór og skiptir máli. Þú neitar ekki jólakúlu, sem búin er til af svo miklum kærleika, stað á jólatrénu.

Jesúbarnið

Þegar Guð kom í heiminn sem manneskja þá var það sem lítið barn og ekki nóg með það heldur fæddist Guð í heiminn sem manneskja við afar óöruggar aðstæður. Það var lítið sem ekkert búið að undirbúa fæðinguna. Foreldrarnir neyddust til að fara í ferðalag með einn asna sem fararskjóta til þess að láta skattskrifa sig í heimabyggð Jósefs einmitt þegar María var við það að fara að eiga. En þau gátu ekki mótmælt þessari ákvörðun Ágústusar keisara því bæði hann og Heródes konungur höfu svipaða stöðu í hugum fólks og Hitler og Mússólíni höfðu á sínum tíma. Fólk hlýddi því sem þeir fyrirskipuðu.

Hversu trúverðugt fyrirbæri er Guð sem birtist heiminum sem ósjálfbjarga barn sem þarf á okkur að halda til að lifa af? Á ekki Guð að birtast okkur með pomp og prakt, flugeldum og krýningum?

Þessi saga, sem við segjum hver jól, af frelsaranum sem kom í heiminn til þess að sýna okkur hvernig Guð raunverulega er, er svo hversdagsleg og svo laus við upphefð að það er varla hægt annað en að trúa henni, hvort sem við túlkum hana bókstaflega eða ekki. Hún er svo venjuleg í einfaldleika sínum að hún gefur ekkert rými fyrir hroka eða rembu.

Fyrir mér er sagan af Guði, sem fæðist í heiminn sem lítið barn, saga um ást. Þessi saga er ekki af Guði sem birtist okkur með látum heldur af Guði sem kemur inn í allar okkar aðstæður með svo lágstemmdum hætti að við tökum varla eftir því. Guð sem kemur til okkar með þessum hætti og gefur okkur val um að þiggja mátt sinn eða að láta vera, getur ekki verið neitt annað en kærleikur.

Jólakúlan Guð

Guð kom í heiminn eins og jólakúlan sem er öðruvísi en allar hinar vegna þess að hún er búin til úr ódýrum efnum og við ómerkilegar aðstæður en er svo full af kærleika.

Og eins og jólakúlan sem fékk að hanga á trénu hjá fólkinu, sem var svo smart að jólatéð var skreytt með einum lit, fær Guð aðeins að hanga á okkar tré ef við viljum það. Við getum valið að hafa allt í stíl, flott og fínt og í réttu litum, fylgja tískustraumum dagsins, jafnvel í trúar- og lífsskoðunum og sleppa Guði af trénu okkar.

Við getum líka valið að leyfa þessari kúlu sem er öðruvísi en allar hinar að vera hluti af lífi okkar. Að hleypa þessum kærleika inn og gefa honum stað í hjarta okkar.

Guð er eins og þessi kúla sem litla barnið föndraði og var ekki stíl til að byrja með en varð síðar metin af mörgum vegna kærleikans sem barnið lagði í kúluna.

Jólakúlan ég

Ef Guð er með jólatré þá erum við, hvert og eitt, eins og þessi kúla sem barnið bjó til. Munurinn er þó sá að á þessu tré eru engar kúlur í stíl. Þær eru allar ólíkar og allar búnar til af meiri ást og kærleika en við getum nokkurntíma gert okkur í hugarlund að til sé. Þannig er hver einasta manneskja einstök og þess vegna ber okkur að líta þannig á allt fólk, sem einstaka og elskaða sköpun Guðs. Og einmitt þess vegna á að vera pláss fyrir allar manneskjur í veröldinni, hvar sem við fæðumst og hver sem við erum. Og þess vegna eigum við að hjálpast að og búa til rými fyrir hverja einustu manneskju á jörðinni okkar svo við fáum öll að njóta okkar á litríku tré Guðs.

Við getum velt því fyrir okkur þessi jól hvort það sé pláss fyrir Guð á okkar tré um leið og við minnum okkur á að við erum ekki sköpuð öll í stíl, að saman erum við hluti af litríkum heimi þar sem við eigum öll að fá pláss.

Dýrð sé Guði sem er ekki stíl og elskar okkur eins og við erum.

Guð gefi þér gleðilega jólahátíð.

Allir okkar heimsendar

Eftir Prédikanir

Endalok jarðar, hlýnun jarðar
„Réttið úr yður og berið höfuð yðar hátt því lausnin er í nánd“

Þetta eru góð orð. Hversu upprétt/ur ert þú? Berð þú höfuðið hátt eða fær óttinn, skömmin eða bara þetta daglega amstur og stress þig til þess að beygja höfuðið og líta niður?

Á öðrum sunnudegi segir Kristur okkur að bera höfuðið hátt og rétt áður er hann búinn að segja okkur hvernig heimsendir mun líta út. Tákn munu verða á sólu og tungli og stjörnum og angist meðal mannfólksins. Þá mun líða yfir fólk af ótta og kvíða.

Já þetta er ekkert grín!

Hvað er þetta eiginlega sem við erum látin lesa svona rétt fyrir jól þegar við erum farin að undirbúa okkur fyrir fallega og góða jólahátið með fæðingu frelsarans sem miðpunkt?

Jesús lýsir þarna einhverskonar heimsendi og segir svo að þegar við sjáum þessi tákn þá getum við verið viss um að Guðs ríki sé í nánd.

Er ekki einmitt verið að boða heimsendi á hverjum degi þessa dagana? Hitastig á jarðar fer hækkandi, hafið súrnar, koltvísýringurinn sem við sleppum út er enn langt yfir öllum mörkum og þrátt fyrir að við bætum okkur mjög og náum þeim markmiðum sem við höfum sett okkur hér í vesturheimi þá munu kóralrifin úti fyrir ströndum Ástralíu samt hverfa. Heimurinn er á leiðinn að farast hægt og rólega og þrátt fyrir að stór hluti einstaklinga sé tilbúinn til að gera ýmislegt til þess að sporna við þessu þá eru þjóðir heimsins misjafnlega langt á veg komnar með að viðurkenna vandann og hvað þá að grípa til aðgerða, enda verða efnahagsleg sjónarmið oftar en ekki ofaná.

Endalok jarðar, kjarnorkuváin
Þegar ég var barn og unglingur var það yfirvofandi kjarnorkustyrjöld sem ógnaði jörðinni. Á þessum árum var það raunverulegur vandi að Rússar eða Bandaríkjamenn gætu hvenær sem er ýtt á hnapp og eytt stórum hluta jarðarinnar. Á þessum árum var ekki búið að finna upp orðið kvíða og hvað þá kjarnorkukvíða en við vorum öll dauðhrædd við að heimurinn myndi farast einn góðan veðurdag og við gátum ekkert gert í því nema að koma okkur í neðanjarðabyrgi eða að vona það besta.

Endalok jarðar, heimstyrjaldir
Þar á undan voru það heimstyrjaldirnar sem ógnuðu lífi og öryggi fólks og voru svo sannarlega nokkurs konar heimsendar. Það er erfitt fyrir okkur sem ekki höfum upplifað heimstyrjöld að setja okkur í þau spor að ókunnugt fólk sé bara til í að sprengja saklaust fólk til þess að ná yfirráðum yfir borgum og löndum. En þessi stríð eru enn veruleiki nokkurs hluta fólks í heiminum þó ekki kallist þau heimstyrjaldir.

Heimsendarnir okkar
Við mannfólkið erum stöðugt að upplifa heimsendi. Náttúruhamfarir þekkjum við vel hér á Íslandi en við mannfólkið lifum bæði heimsenda af völdum manneskjunnar og náttúrunnar og á því er nokkuð stór munur. Og svo eru það allar persónulegu heimsendarnir okkar, hjónaskilnaðirnir, dauðsföll, draumar sem deyja og að lokum heimsendinn sem bíður okkar allra. Okkar eigin dauðdagi.

Á öllum tímum hafa þessi orð Jesú, sem við heyrum á öðrum sunnudegi í aðventu, verið túlkuð á þann veg að þarna sé Jesús að tala um endalok heimsins eins og við þekkjum hann og um endurkomu sína.

Boðskapinn um endalokin heyrum við einmitt þegar við undirbúum upphafið, fæðingu frelsarans og jólin.

Ég held að þessi endalok heimsins sem Jesús talar um þarna séu eitthvað sem við þekkjum öll. Það kemur sá tími í lífi okkar allra, að heimurinn hættir að vera eins við þekkjum hann. Að gamli heimurinn líður undir lok og nýr heimur tekur við.

Þetta gerist þegar við verðum fyrir áföllum.

Þegar við þurfum að glíma við syndina, lygar, svik, afbrýðisemi, ótta og angist.

Þetta getur jafnvel gerst þegar eitthvað stórkostlegt gerist eins og það að verða ástfangin eða að eignast barn.

Við upplifum öll einhvern tíma að heimurinn eins og við þekkjum hann líði undir lok að einverju leyti eða öllu.

Ég held að þessa heimsendalýsing Jesú sé ekki spá um eitthvað sem mun gerast í framtíðinni því heimsendar eru stöðugt að eiga sér stað. Um allan heim er fólk á hverjum degi að missa lífið eins og það þekkti það. Þetta fylgir því að vera dauðlegar verur í breyskum heimi.

Við munum ávallt halda áfram að reyna að bjarga heiminum. Það hljótum við að gera. Við munum halda áfram að gera það með því að borða rétt og menga minna. Við munum reyna að bjarga heiminum með því að boða frið og elska fólk. Og við munum reyna að fækka heimsendunum með menntun og þekkingu.

Lausnin er í nánd
„Réttið úr yður og berið höfuð yðar hátt því lausnin er í nánd“

Jesús boðar ekki aðeins heimsendi heldur biður hann okkur að bera höfuðið hátt því að lausnin er í nánd.

Þessi heimsendalýsing er ekki framtíðarspá heldur lýsing á heiminum eins og hann er og eins og hann hefur alltaf verið. Þetta er lýsing á því hvernig það er að vera manneskja í þessum brotna heimi. Jesús vill ekki að heimurinn sé svona. Á aðventunni erum við einmitt minnt á að það er lausn og lausnin er Jesús Kristur eða Guð.

Nú þegar við heyrum þessar heimsendaspár erum við einmitt að undirbúa upphafið, fæðinguna og komu frelsarans. Og þar er einmitt lykilinn að finna. Um leið og við undirbúum þessar vonarríku hátíð sem jólin eru, erum við minnt á að lífið er flókið og að heimsendar eru stöðugt að eiga sér stað í lífi fólks, í lífi þínu og lífi mínu. Einmitt þess vegna þurfum við svo innilega á voninni um frelsarann að halda, voninni um frelsarann sem deilir með okkur öllum okkar heimsendum. Hann þekkir þá og hann tekur þeim alvarlega. En um leið segir hann okkur að bera höfuðið hátt því lausnin er í nánd. Í lok hvers heimsenda fæðist eitthvað nýtt. Ný von, nýtt líf og jafnvel eilíft líf.

Gleymum því ekki þegar umhverfiskvíðinn, dauðahræðslan eða sorgin yfir því sem fór úrskeiðis í lífi okkar tekur yfir, að eitthvað nýtt og gott bíður okkar handan við hornið. Nýtt líf bíður okkar.

Mögulega felst þetta nýja líf í því að ýmislegt er að gerast í umhverfismálum og fjölmennustu löndin eru jafnvel farin að taka við sér, já og forseti Bandaríkjana fær ekki að ráða öllu. Kannski felst nýja lífið í því að þú munt ná sátt þrátt fyrir að skilnaðurinn hafi verið erfiður eða að missirinn hafi nánast verið óbærilegur. Já og mögulega felst þetta nýja líf í voninni um að það sé til eilíft líf með Guði að loknu þessu lífi.

Ég trúi því

Dýrð sé Guði sem tekur öllum okkar heimsendum alvarlega, deilir þeim með okkur en boðar okkur um leið  líf sem sigrar allar aðstæður. Hið sanna líf.

Préidkun flutt í Grafarvogskirkju annan sunnudag í aðventu 2019. Lúk. 21: 25-33.

Þórunn og sálin hans Jóns

Eftir Prédikanir

Himnaríki
Í þjóðsögunni „Sálin hans Jóns míns“ segir frá konunni hans Jóns og baráttu hennar við að koma honum Jóni sínum inn fyrir gullna hliðið, inn í himnaríki. Takið eftir því að kona Jóns ber ekkert nafn í sögunni heldur er hún aðeins kennd við mann sinn, eins og nokkuð er um enn í dag þegar kemur að fréttaflutningi. Ég legg því til að við köllum hana Þórunni. Það er svo óeðlilegt að kona sé ekki með eigið nafn, hún sem er aðalpersónan í sögunni.

En þannig var að Jón var ekkert sérstaklega góður maður. Hann var heldur ódæll, illa þokkaður og þar að auki latur og illa ónýtur á heimili sínu. En þrátt fyrir það unni Þórunn honum Jóni sínum heitt. Þegar hann er við það að gefa upp öndina fer Þórunn að hugsa um það sem tekur við að þessu lífi loknu og áttar sig á því að Jón muni aldrei komast inn í himnaríki eins og hann hagaði sér í þessu lífi.  Hún tekur þá á það ráð að setja skjóðu fyrir vit hans, um leið og hann gefur upp öndina, og fanga þannig sálina þegar hún yfirgefur líkamann. Hún bindur þá vel fyrir og heldur beint að hliðum himnaríkis til þess að koma honum Jóni sínum á framfæri. Þarna við hliðið hittir hún fyrir bæði heilagan Pétur, heilagan Pál auk Maríu móður Jesú og ekkert þeirra vill hleypa honum Jóni inn þrátt fyrir að Þórunn geri sitt besta til þess að sýna þeim fram á að sjálf hafi þau ekki verið mikið skárri en Jón hennar á meðan þau gengu um á þessari jörð. Að lokum kemur Jesús sjálfur til dyra og jafnvel hann vill ekki hleypa Jóni inn. En rétt áður en hliðið lokast tekst Þórunni að kasta skjóðunni með sálinni hans Jóns inn fyrir hliðið og við það léttir henni mikið. Henni tókst, þrátt fyrir allt, að koma honum Jóni sínum inn í himnaríki.

Til er flökkusaga sem er á þá leið að lykla Pétur hafi tekið hlutverk sitt við hliðið afar alvarlega og aðeins hleypt þeim inn í himnaríki sem áttu það sannarlega skilið. Síðan skilur hann ekkert í því hversu hratt fjölgar í himnaríki þrátt fyrir alla hans fyrirvara og takmarkanir. Það er bókstaflega allt að fyllast af fólki. Að lokum sér hann að það getur ekki verið allt með felldu og hann fer og kannar málið. Þá kemur í ljós að á meðan hann hleypir aðeins þeim inn sem hafa lifað sem næst fullkomnu lífi, þá hefur Jesús hleypt öllum hinum inn um hliðardyrnar.

Að dæma
Mikið er ég fegin að þurfa ekki að dæma í öllu því sem upp kemur í samélaginu.   Sem betur fer er það ekki ég sem þarf að dæma í Samherjamálinu og ég þakka Guði fyrir að það var ekki ég sem þurfti að dæma í Klaustursmálinu í fyrra. Öll þessi hneykslismál sem ég hef svo sannarlega skoðun á eru þó, sem betur fer, ekki á mínu valdi að dæma í. Ég má svo sannarlega hafa skoðun á þessum málum og öðrum sem komist hafa í hámæli en það er ekki mitt að fella endanlega dóma. Ég ætla þó að segja strax, svo það sé alveg á hreinu, að ég tel bæði þessi mál hafa verið þeim sem að þeim stóðu til háborinnar skammar og að við fyrstu sín hafa afleiðingar þessarar hegðunnar ekki verið í neinu hlutfalli við alvarleika þessara mála.

Ætli ég verði ekki bara að viðurkenna að stundum væri ég kannski alveg til í að vera dómari, svona þegar mér finnst ekkert vera að gerast í spillingarmálum og óréttlætið öskrar á okkur.

Þó er það svo að dómarar dæma ekki eftir hentisemi heldur eftir lögum og reglum og verða að rökstyðja dóma sína vel. Okkur getur stundum virst sem dómarar láti skoðanir og tilfinningar hafa áhrif á dóma sína en hvað sem okkur kann að finnast þá þurfa þeir í það minnsta að rökstyðja sína dóma og lengi er hægt áfrýja dómum ef við erum ekki sátt.

Réttlátir dómar?
Getum við teyst því að allt sem upp kemur í okkar brotna heimi verði dæmt á réttlátan hátt, þannig að allir skúrkar fái makleg málagjöld og þau sem eru raunverulega saklaus verði sýknuð? Eða viljum við kannski að okkar persónulegu skoðanir, tilfinningar, hefnigirni, öfundsýki og almenn hneykslan fái að hafa svolítil áhrif á dómana?

Við vitum að dómarar eru ekki óskeikulir og allir dómar því ekki hundrað prósent réttlátir. Gott dæmi um það er Guðmundar og Geirfinnsmálið. Við vitum líka að þrátt fyrir að flestum okkar finnst eitthvað um flesta hluti þá er það ekki endilega réttlátt og óskeikult mat. Svo eru það öll málin sem aldrei er dæmt í m.a. vegna þess að um valdamikið fólk er að ræða. Það stefnir allt í að Samherjamálið fari á þann veg.

En er þá til eitthvað sem heitir réttlátur dómur?

Ég sagði áðan að ég væri fegin því að þurfa ekki að dæma í málum og ástæðan er sú að þegar upp er staðið þá er dómur Guðs eini dómurinn sem ég treysti að sé fullkomlega réttlátur. Ég treysti dómi Guðs því Guð er það eina sem hefur allar forsendur sem þarf til þess að geta dæmt. Við getum ekki platað Guð með því að reyna að fegra okkur og við þurfum ekki að gera það. Guð veit hvers vegna við erum eins og við erum, hvers vegna við breytum eins og við breytum. Guð þekkir leyndarmálin okkar sem betur fer.  

Ég segi “sem betur fer” vegna þess að þrátt fyrir að okkur þyki leyndarmálin okkar oft skammarleg og neyðarleg þá er ég alveg viss um að þau eru langt því frá jafn skammarleg og við sjálf upplifum þau. Því þegar ljós Guðs lýsir á okkur og allt okkar líf birtist, leyndarmálin, angistin, erfiðleikarnir, vonbrigðin, gleðin og sigrarnir þá verður ljóst hvers vegna við breyttum eins og við breyttum. Þá sjáum við skýringuna á því hvers vegna við erum eins og við erum.

Öll eigum við leyndarmál sem við upplifum að þoli ekki dagsljósið. Öll höfum verið gert og hugsað eitthvað sem við skömmumst okkar fyrir og viljum ekki deila með neinni manneskju. Sum okkar hafa jafnvel gert hræðilega hluti. En ég er líka nokkuð viss um að þegar við síðan deilum þessum hlutum, þá kemur í ljós að þeir er alls ekki eins slæmir eða skammarlegir og við töldum. En ef þeir eru það þá þurfum við að vera manneskjur til að taka afleiðingum þess sem við gerðum og til þess að geta átt möguleika á fyrirgefningu. Þegar við höfum gert það þá eigum við sama möguleika og allt annað fólk frammi fyrir dómi Guðs.

Himnaríki
Þórunn, konan hans Jóns var góð kona og sagan um sálina hans Jóns míns sýnir okkur að jafnvel hinn versti skúrkur getur átt einhverja manneskju sem elskar hann/hana og er tilbúin að hjálpa honum. Kannski er þetta dæmi um meðvirkni út yfir gröf og dauða. Kannski er það bara hjartahlýja og skilningur á því að við erum öll ófullkomin, jafnvel postularnir og María mey. Og sagan um Jesú sem hleypti öllum inn um hliðardyrnar minnir okkur á að Guð þekkir okkur betur en við sjálf og sér svo margt miklu betra í okkur en við gerum sjálf. Guð sér okkur nefnilega eins og við erum og sú mynd er yfirleitt svo miklu skýrari og bjartari en sú sem við sjáum.

Guð sér ástæðurnar fyrir því að við erum eins og við erum.

Þegar kemur að dómum þá trúi ég því að við þurfum ekki að óttast dóm Guðs. Við þurfum miklu fremur að óttast dóma okkar sjálfra og samferðafólks okkar. Þannig erum það við sjálf og samferðafólk okkar sem getum dæmt okkur til helvítis, ekki Guð.

Ef Guð elskar okkur eins og við erum, með öllum okkar mistökum og göllum og öllum okkar afrekum og kostum þá ættum við einnig að elska okkur sjálf.

Við þurfum því ekki að óttast dóm Guðs, sem ávallt sér það besta í okkur en látum vera að bera fullt traust til dóma okkar sjálfra. Og reynum að muna það, þegar við dæmum annað fólk, að við þekkjum ekki alla söguna, við þekkjum ekki ástæðurnar fyrir athöfnum annarra og jafnvel oft ekki okkar sjálfra.

Dýrð sé Guð sem ávallt sér okkur mildum og réttlátum augum og  dæmir aðeins af meiri elsku en við munum nokkurntíma þekkja.

Að lifa með okkur sjálfum

Eftir Prédikanir

Að lifa með okkur sjálfum
Er ekki gott þegar allir hlutir eru á sínum stað? Þegar fólk er bara eins og venjulega og ekkert óvænt gerist? Jú það er best því þegar hlutirnir í kringum okkar breytast, þegar börnin verða fullorðin og fara að slíta sig frá foreldrunum, þegar vinkonan sem alltaf er til í að fara eitthvað með þér er allt í einu komin með kærasta og síðan fjölskyldu og vill bara vera heima, þegar þétti vinurinn breytir um lífsstíl og fer í ræktina og þegar vinkonan sem alltaf hefur sagt já fer að segja nei, þá þurfum við að breyta svo mörgu líka. Þá getur stundum verið svo erfitt að gleðjast með þeim sem tekst að breyta lífi sínu til betri vegar og fer allt í einu að ganga betur, sérstaklega þegar við upplifum að við verðum eftir. Þegar við fylgjum ekki með í breytingunum.

Eða er það kannski bara erfitt ef við erum ekki sátt við okkur sjálf og vitum að við þurfum að breyta einhverju en höfum ekki orkuna til þess?

Nú er verið að sýna þætti á Netflix sem heita „Living with yourself“ eða „Að búa með sjálfri/sjálfum þér“. Þessir þættir fjalla um Miles, mann sem er almennt ósáttur við líf sitt. Hann er þreyttur og orkulaus, gengur ekki nógu vel í vinnunni, er dapur og nennir ekki að leggja neitt á sig í hjónabandinu og er bara almennt búinn á því.

Einn daginn tekur hann eftir því að vinnufélagi hans, sem hafði verið álíka óspennandi og hann sjálfur, er gjörbreyttur. Hann er kraftmikill, hugmyndaríkur og almennt frábær. Hann spyr vinnufélagan hvað hafi gerst og hann segir honum frá heilsulind þar sem hann getur farið í stutta DNA meðferð og komið út sem nýr maður.

Miles ákveður að reyna þetta líka. Þegar þangað er komið er honum sagt að DNA:ið hans sé notað til að búa til útgáfu af honum sjálfum. Það sem hann veit ekki er að það er verið að klóna hann. Búa til nýja og miklu betri útgáfu af honum, mann sem lítur út eins og hann (bara aðeins flottari) og býr yfir hans minningum. En auðvitað fer eitthvað úrskeiðis. Nýji Miles gengur út af stofunni hress og flottur, meira að segja með betri sjón en áður en gamli Miles vaknar í gröf úti í skógi. Það átti sem sagt að drepa gamla Miles og grafa úti í skógi og láta nýja Miles taka yfir lífið hans. En gamli Miles vaknar og allt í einu eru komnar tvær útgáfur af honum.

Ég ætla ekki að segja frá allri atburðarrásinni en við getum reynt að ímynda okkur hvernig það er að lifa með betri útgáfu af okkur sjálfum.

Það sem hann dreymdi um var að fá einfalt „fix“. Hann vildi breytast án þess að þurfa að hafa fyrir því. Hann heldur að hann sé kominn með lausnina og hún kostar enga vinnu aðeins pening. En svo kemur í ljós að það var engin þess háttar leið í boð því að til þess að klónið hans, betri útgáfan fengi að lifa lífinu hans þurfti hann að deyja. Þegar upp er staðið var engin einföld og fljótleg leið til þess að bæta sig. Hann þurfti að hafa fyrir því sjálfur.

Að taka þátt í kraftaverkinu
Við erum á kraftaverkatímabilinu í kirkjuárinu og heyrðum enn eina kraftaverkasöguna lesna hér dag. Jesús læknar blindan mann.

Þetta gerist, samkvæmt þessari frásögn,  með einhverskonar kraftaverki þar sem munnvatn og leðja koma við sögu. Þegar Jesús læknar hann byrjar hann á því að skyrpa á jörðina og gera leðju úr munnvatninu og strjúka henni á augu hans. Að því búnu segir hann honum að fara að ákveðinni lind sem heitir Sílóam og þvo sér. Hann gerir það og fær sjónina.

Það er margt athyglisvert við þessa sögu og eitt af því er að Jesús snertir hann ekki bara og segir að nú sé hann læknaður. Hann er með alls kyns kúnstir og lætur síðan manninn taka við og ljúka lækningunni sjálfur. Hann, blindur maðurinn, þarf að ganga að vatninu og þvo sér.

Hvað ætli hefði gerst ef hann hefði ekki farið að ánni og þvegið sér? Ætli hann hefði ekki læknast? Ef hann hefði ekki nennt að sinna sínum hluta af vinnunni og viljað að þetta gerðist bara af sjálfu sér, hefði þá kannski ekkert breyst?

 Ég held að í dag vilji Guð segja okkur að við þurfum sjálf að taka þátt í kraftaverkunum í lífi okkar. Að ef við viljum að eitthvað breytist þá er Guð tilbúið að hjálpa okkur en við þurfum að vinna vinnuna. Guð gefur okkur forsendurnar en það er okkar að gera það besta úr þeim.

Viðbrögðin
Þessi maður fylgir orðum Jesú og vinnur vinnuna. Hann fer og þvær sér og hann breytist. Hann er ekki lengur blindi maðurinn, þessi sem alltaf situr á sama stað og betlar. Hann er breyttur og getur nú tekið fullan þátt í samfélaginu þar sem hann hefur hingað til þurft að láta sér nægja að sita úti á jaðrinum. Og þetta þykir fólkinu í kringum hann afar óþægilegt. Fólk fer að efast um hvernig þetta gerðist og hann þarf stöðugt að vera að endurtaka söguna. Fólk vill vita hver gerði þetta, hvernig það gerðist og hvar Jesús sé núna. Foreldrar hans eru meira að segja kallaðir til og spurðir út úr. Hann sem hingað til hafði verið blindi betlarinn var nú orðinn annar og fólkið í kringum hann þurfti að breyta viðhorfi sínu til hans. Það þurfti að umgangast hann á annan hátt, það þurfti sjálft að breytast því allt var ekki lengur eins og það hafði alltaf verið. 

Að lifa með okkur sjálfum
Sannleikurinn er sá að þrátt fyrir að við breytumst, þroskumst og virðumst vera orðnar nýjar manneskjur, þá erum samt alltaf þau sömu. Við verðum aldrei nýjar manneskjur sama hvað gerist því það er aðeins til ein útgáfa af okkur. Þess vegna þurfum við ekki að óttast þó fólkið í kringum okkur þroskist eða breyti einhverju í lífi sínu og fái þannig önnur hlutverk í okkar lífi. Þau eru enn hin sömu. Og með sama hætti getum ekki búist við því að við verðum aðrar manneskjur þó við tökum okkur á og breytum einhverju til batnaðar. Við sitjum alltaf uppi með okkur sjálf eins gamli Miles sem vaknaði upp í skóginum. Blindi maðurinn var áfram hann sjálfur. Það sem breyttist var að Jesús hafði hjálpað honum og komið honum af stað með að breyta því sem þurfti að breytast.

Með sama hætti gefur Guð okkur öllum það sem við þörfnumst til þess að við getum haldið áfram með kraftaverkin í okkar lífi. Þessi kraftaverk þurfa ekki að vera stór eða merkileg en það er miklvægt að vita að þegar við þurfum að breyta einhverju þá getum við það því Guð hjálpar okkur að hefja vinnuna með því að gefa okkur forsendurnar.

Vissulega er margt í okkar lífi sem er ekki á okkar valdi og við þurfum að hafa vit til þess að greina þar á milli en það getur verið á okkar valdi hvernig við bregðumst við lífinu og því sem við ráðum ekki við. En það er líka svo margt sem við höfum vald yfir og ef við treystum því að Guð gefi okkur forsendurnar og við reynum að hlusta á leiðsögn og vilja Guðs þá getum við þroskast, lært og reynt að bæta okkur í því sem við getum, og orðið enn betri manneskjur.

Dýrð sé Guði sem hjálpar okkur að vinna kraftaverk í okkar eigin lífi.

Prédikun flutt í Grafarvogskirkju 27. október, 19. sunnudag eftir þrenningarhátíð. Jóh. 9: 1-11.

Síðasta hálmstráið

Eftir Prédikanir

Siðasta hálmstráið

Sögur

Prédikun flutt í Kirkjuselinu í Garafarvogi 13. október 2019. Guðspjall Mark. 9: 17-29.

1
Það voru eitt sinn foreldrar sem áttu yndislega fallegan og vel gerðan dreng. Þegar drengurinn nálgast unglingárinn kemur í ljós að hann er haldinn alvarlegri flogaveiki. Þetta byrjar vægt, bara einstaka flog og oft virðist sem þetta sé að lagast en einmitt þá kemur oftar en ekki bakslag og þetta versnar. Þannig líða árin og að lokum er staðan orðin þannig að foreldrarnir eru algjörlega ráðþrota. Drengurinn hafði margoft verið nær dauða en lífi, bæði vegna flogana en líka vegna þess að hann datt oft illa þegar flogin komu og var þá oft hætt kominn. Foreldrarnir höðu leitað til færustu lækna. Drengurinn hafði fengið öll bestu lyfin en þau voru líka farin að hafa áhrif á persónuleikan hans. Pabbi hans og mamma höfðu reynt allt og voru hrædd um að einn daginn myndi hann einfaldlega deyja úr þessum sjúkdómi. Þau höfðu engu að tapa og voru tilbúin að reyna allt, líka eitthvað yfirnáttúrulegt. Þau höfu heyrt að Jesús væri að lækna fólk og að hann hefði alveg sérstakan mátt. Þau höfðu talað við lærisveinana hans en þeim hafði ekki tekist að lækna hann. Þau voru því frekar efins þegar þau fóru á fund Jesú og lögðu drenginn fram fyrir hann. Og viti menn! Jesús læknaði drenginn! Honum batnaði! Floginn eða illi andinn, eða hvað það nú var sem var að hrjá hann, fór út úr honum og hann varð heill. Þetta tók á. Jesús skammaði lærisveinana. Hann skammaði fólkið sem var þarna en hann læknaði barnið þeirra og sagði að lokum að þetta hefði verið óvenju erfitt viðfangsefni. Að ekkert nema bænin hefði virkað að lokum, þegar búið var að reyna allt annað.

2
Það voru eitt sinn foreldrar sem áttu góða og gáfaða dóttur. Henni gekk bæði vel í íþróttum og í námi. Hún varð fljótt framarlega í frjálsum íþróttum. Hún fékk háar einkunnir. Þegar hún komst á unglingsárin gekk allt vel til að byrja með. Hún fékk áfram góðar einkunnir og þurfti lítið að hafa fyrir skólanum. Hún eignaðist kærasta og var vinsæl meðal vinanna í skólaum og félagsmiðstöðinni. En að því kom að henni hætti að ganga jafnvel í íþróttunum, kannski þegar hún var um það bil fjórtán ára og að lokum hætti hún í frjálsum. Það fór að vera svo gaman að vera með vinunum á kvöldin. Þau fóru að prófa að drekka og hún var löngu byrjuð að veipa. Hún prófaði kannabis og fannst það gott. Smám saman færðust mörkin hennar þegar kom að áfengi og ýmsum efnum. Hún fór að nota þau stundum á daginn líka og þá fór mætingin í skólan að verða slakari. Auðvitað sáu foreldrarnir hvað var að gerast, eða svona næstum því alla vega, en það var alveg sama hvað þau reyndu. Það breytti engu. Hún fór í menntaskóla en eftir að hafa hangið þar inni í þrjú ár datt hún endanlega út. Þá var hún farin að reykja kannabis daglega og taka önnur efni. Áfengi notaði hún bara með. Vinahópurinn breyttist og hún fór að hverfa að heiman, stundum í marga daga í senn. Mamma hennar og pabbi reyndu allt. Þau töluðu við skólann, við félagsmálayfirvöld, við lögregluna. Þau útveguðu henni pláss í meðferð nokkrum sinnum, fóru með hana til geðlæknis, prests og sálfræðings. Þau töluðu við vinina og þau leituðu sér hjálpar sjálf. Þau lokuðu á hana. Þau opnuðu á hana. Þau skömmuðu hana og þau héltu utanum hana og elskuðu hana. Að lokum dugði ekkert annað en að falla á kné og biðja til Guðs. En hjálpin þeirra kom aldrei. Litla barnið þeirra dó áður en hún varð 23 ára úr of stórum skammti.

3
Það var eitt sinn kona sem hafði verið hraust alla sína ævi. Hún hafði bara fengið pestir einstaka sinnum, svona eins og við öll, en varla meira en það. Hún lifði heilbrigðu lífi, hafði reyndar reykt á frá því húm var um átján ára og til rúmlega þrítugs en að öðru leyti hafði hún hugsað vel um sig. Hún hreyfði sig reglulega, gekk á fjöll og fór í ræktina. Hún borðaði þokkalega holt eða í það minnsta ekkert sérstaklega óholt. Hún átti góða fjölskyldu og lífið lék við hana. Þegar hún er orðin 45 ára fer hún að finna að það er eitthvað sem er ekki eins og það á að vera og eftir nokkuð margar og ítarlegar rannsóknir fær hún það staðfest að hún er með krabbamein í brjósti. Þessar fréttir urðu henni nokkuð mikið áfall þrátt fyrir að hún vissi vel að líkurnar á þessu krabbemeini hjá konum væru þó nokkrar. Hún vissi líka að líkur á lækningu væru yfirleitt nokkuð góðar en þetta fór samt verulega illa í hana. Allt hafði gengið svo vel þar til kom að þessu að hún vissi eiginlega ekki hvernig hún ætti að vinna með þetta. Auk þess kom í ljós að meinið var komið vel á veg þegar það greindist og ekki hægt að skera það nema að hægt væri að minnka það fyrst. Hún fór strax í meðferðir og gerði allt sem læknarnir mæltu með og það gekk ágætlega. Hún fékk góða hálp bæði frá fjölskyldu og vinum og fagfólki. Vinur hennar sem var í tengslum við kirkjuna setti nafnið hennar á bænalista þar þannig að fjöldi fólks bað fyrir henni í hverri viku. Það kom meira að segja fyrir að hún prófaði að biðja til Guðs þó hún væri ekki í mikilli æfingu, enda hafði hún aldrei þurft á slíkri hjálp að halda áður. Hún bað þess að Guð tæki meinið frá henni, að hún yrði frísk. Og það kom að því að meðferðirnar höfðu tilskilin áhrif. Í dag eru átta ár frá því henni var tilkynnt að hún væri orðin full frísk á ný.

4
Það var eitt sinn maður sem hafði lifað viðburðaríku og góðu lífi. Það hafði svo sem ekki verið án áfalla. Barnæskan hafði ekki verið áfallalaus. Móðir hans var honum ekki alltaf góð en hann hafði komist í gegnum þetta án alvarlegra meina. Hann og fyrrverandi konan hans höfðu skilið eftir frekar erfitt hjónaband en hann átti fimm góð börn sem hann var svo óendanlega stoltur af. Barnabörnin voru líka orðin fjölmörg. Hann hafði gifst á ný og það hjónaband var farsælt og gott. Þau ferðuðust mikið og nutu þess að vera saman og með fjölskyldunni sinni stóru. Hann hafði alltaf unnið mikið en gat þó einnig notið þess vel að vera í fríi með konunni sinni sem honum þótti svo undur vænt um. Þegar hann er kominn á eftirlaun og er rétt að vera 74 ára kemur í ljós að hann er með krabbamein í brisi. Þegar honum er tilkynnt hvers kyns er verður honum ljóst að þetta verkefni verði ekki auðvelt. Hann skildi það strax á lækninum að þetta væri erfitt viðureignar og fékk það staðfest þegar hann fór heim og googlaði. Þetta voru ekki auðveldar fréttir enda hafði hann þegar misst bæði vini og fjölskyldumeðlimi úr krabbameini. Þau ræddu þetta út frá öllum hliðum, hjónin og hann var alveg viss um að hann vildi reyna meðferð þó líkurna væru ekki ýkja miklar. Hann ákvað strax að hann myndi ekki gefast upp heldur reyna að sigra. Hann langaði bara alls ekki að deyja strax. Þegar eftir fyrstu meðferð kom í ljós að árangurinn var lítill sem enginn. Honum var boðin önnur, ólík meðferð sem hann þáði eftir samtöl við konuna sína, vini og lækna. Hann vissi vel að líkurnar væru ekki góðar en nú var hann að hugsa um að lengja tímann með fólkinu sínu eins og hægt væri. Meðferðin gekk ekki vel og smám saman dró af honum. En hann langaði ekki til að deyja. Hann bað til Guðs. Hann bað af öllu hjarta. Til að byrja með bað hann Guð um að hann yrði frískur en smám saman þróuðust bænirnar yfir í það hann fengi aðeins lengri tíma og hann bað fyrir konunni sinni, sem hann elskaði svo, og fyrir börnunum sínum og barnabörnunum. Að lokum þakkaði hann fyrir allt. Hann lést sjö mánuðum eftir að hann greindist.

Síðasta hálmstráið
Sögurnar gætu allar verið sannar og þær eru það allar að einhverju leyti enda eru þær samdar út frá sögum fólks sem ég hef gengið með í gegnum sína erfiðleika. Þær eru um fólk sem trúir heitt og um fólk sem hefur lítið velt trúnni fyrir sér. Þær eru um fólk sem á vini og fjölskyldu sem trúa en líka um fólk sem kemur úr umhverfi sem ekki einkennist af trú. Það sem fólkið á þó allt sameiginlegt er að það hefur komið sá tími í þeirra lífi að þau hafa ekki átt neina aðra von eftir en Guð.

Fyrsta sagan, um drenginn sem fékk lækningu við flogaveiki er tilbrigði við sögu dagsins í Markúsarguðspjalli. Í guðspjallinu er reyndar talað um að drengurinn hafi verið haldinn illum anda en samvkæmt lýsingunum á ástandi drengsins virðist nokkuð ljóst að þarna var um flogaveikt barn að ræða.

Í þessari sögu er sagt frá foreldrum, eða föður, sem er tilbúinn að ganga ansi langt til þess að leita drengnum lækningar. Hann er búinn að reyna allt og aðeins Jesús er eftir. Ég held að við getum öll sett okkur í þau spor að ef barnið okkar eða einhver sem við elskum framar öllu verður veik og enga lækningu er að finna, þá erum við tilbúin til þess að reyna allt. Oft er Guð þá síðasta hálmstráið, þegar allt annað þrýtur. Hjá mörgum okkar er Guð vissulega með frá byrjun en það sem þessar sögur eiga allar sameiginlegt er að þegar öll önnur ráð þrýtur, þegar læknavísindin geta ekki hjálpað lengur er ekkert annað eftir en Guð og vonin um kraftaverk. Og þegar við erum komin á þann stað held ég að við séum flest, ef ekki öll, tilbúin til þess að vonast eftir kraftaverki þó við myndum aldrei trúa á slíkt undir venjulegum kringumstæðum.

Í sögunni í Markúsarguðspjalli á kraftaverk sér stað eða í það minnsta læknast drengurinn. Og stundum er það þannig að fólk læknast jafnvel þegar ekki leit út fyrir að nokkur von væri eftir. Kannski er það kraftaverk. En það er þó svo sannarlega ekki alltaf þannig. Margar sögur enda ekki vel, alveg sama hversu heit trú okkar er eða hversu sterk von okkar og ósk er um kraftaverk.

Ég veit ekki hvers vegna sumar sögur enda vel og aðrar ekki.

Ég vildi óska þess að allar sögur enduðu vel og ég býst við að þú gerir það líka.

Guð er með í öllum sögum
Ég hef gengið með fólki í gegnum margvíslegar raunir og mikla erfiðleika. Sumar sögur hafa farið vel en aðrar ekki. Það sem ég er þó alveg sannfærð um er að Guð er jafn mikið með okkur þegar sögurnar enda illa og þegar þær fara vel. Endirinn á sögunum byggir ekki á trú okkar. Trú pabbans bjargaði ekki drengnum með flogaveikina. Stúlkan sem lést úr of stórum skammti dó ekki vegna þess að foreldrar hennar trúðu ekki nóg.

Ég á erfitt með trúa því að Guð stjórni lífi og dauða en ég trúi því að Guð sé með okkur bæði þegar lífið er gott og allt fer vel og þegar lífið verður erfitt og jafnvel óbærilegt.

Ekkert okkar fer í gegnum heila ævi án áfalla. Það er óvenjulegt að manneskja fari í gegnum heila ævi og eigi aðeins sögur sem enda vel. Eins er það óvenjulegt og varla til að manneskja eigi aðeins sögur sem fara illa.

Þrátt fyrir að ég eigi ekki auðvelt með að trúa á kraftaverk, þó ekki sé nema vegna þess að þau virðast of tilviljanakennd, þá er ég alveg sannfærð um mátt bænarinnar. Ég veit að bænin hjálpar því ég hef ítrekað orðið vitni af því og upplifað það sjálf. Svarið við bænunum okkar er ekki alltaf eins og við vildum en bæn til æðri máttar sem beðin er Jesú nafni hefur áhrif. Fólk læknast ekki alltaf en þá getur bænasvarið verið faðmlagið, handtakið og hlýju orðin sem samferðafólkið okkar veitir okkur.

Bænin róar hugann og gefur von. Hún veitir okkur kraft og frið í hjarta og hún flytur jafnvel fjöll.

Öll munum við lifa góðar sögur og slæmar. Við munum flest einhvern tíma finna okkur á stað þar sem við eigum engin úrræði eftir önnur en bænina og stundum dugir hún ekki til. Það sem við getum öll gert er að sýna það hugrekki að dvelja með náunga okkar líka í sögunum sem enda ekki vel. Það getur verið bænasvar þegar allt annað þrýtur.

Dýrð sé Guði sem bæði er með okkur í hinu góða og þegar sögurnar okkar enda ekki vel.