Skip to main content

Allir okkar heimsendar

Eftir desember 8, 2019Prédikanir

Endalok jarðar, hlýnun jarðar
„Réttið úr yður og berið höfuð yðar hátt því lausnin er í nánd“

Þetta eru góð orð. Hversu upprétt/ur ert þú? Berð þú höfuðið hátt eða fær óttinn, skömmin eða bara þetta daglega amstur og stress þig til þess að beygja höfuðið og líta niður?

Á öðrum sunnudegi segir Kristur okkur að bera höfuðið hátt og rétt áður er hann búinn að segja okkur hvernig heimsendir mun líta út. Tákn munu verða á sólu og tungli og stjörnum og angist meðal mannfólksins. Þá mun líða yfir fólk af ótta og kvíða.

Já þetta er ekkert grín!

Hvað er þetta eiginlega sem við erum látin lesa svona rétt fyrir jól þegar við erum farin að undirbúa okkur fyrir fallega og góða jólahátið með fæðingu frelsarans sem miðpunkt?

Jesús lýsir þarna einhverskonar heimsendi og segir svo að þegar við sjáum þessi tákn þá getum við verið viss um að Guðs ríki sé í nánd.

Er ekki einmitt verið að boða heimsendi á hverjum degi þessa dagana? Hitastig á jarðar fer hækkandi, hafið súrnar, koltvísýringurinn sem við sleppum út er enn langt yfir öllum mörkum og þrátt fyrir að við bætum okkur mjög og náum þeim markmiðum sem við höfum sett okkur hér í vesturheimi þá munu kóralrifin úti fyrir ströndum Ástralíu samt hverfa. Heimurinn er á leiðinn að farast hægt og rólega og þrátt fyrir að stór hluti einstaklinga sé tilbúinn til að gera ýmislegt til þess að sporna við þessu þá eru þjóðir heimsins misjafnlega langt á veg komnar með að viðurkenna vandann og hvað þá að grípa til aðgerða, enda verða efnahagsleg sjónarmið oftar en ekki ofaná.

Endalok jarðar, kjarnorkuváin
Þegar ég var barn og unglingur var það yfirvofandi kjarnorkustyrjöld sem ógnaði jörðinni. Á þessum árum var það raunverulegur vandi að Rússar eða Bandaríkjamenn gætu hvenær sem er ýtt á hnapp og eytt stórum hluta jarðarinnar. Á þessum árum var ekki búið að finna upp orðið kvíða og hvað þá kjarnorkukvíða en við vorum öll dauðhrædd við að heimurinn myndi farast einn góðan veðurdag og við gátum ekkert gert í því nema að koma okkur í neðanjarðabyrgi eða að vona það besta.

Endalok jarðar, heimstyrjaldir
Þar á undan voru það heimstyrjaldirnar sem ógnuðu lífi og öryggi fólks og voru svo sannarlega nokkurs konar heimsendar. Það er erfitt fyrir okkur sem ekki höfum upplifað heimstyrjöld að setja okkur í þau spor að ókunnugt fólk sé bara til í að sprengja saklaust fólk til þess að ná yfirráðum yfir borgum og löndum. En þessi stríð eru enn veruleiki nokkurs hluta fólks í heiminum þó ekki kallist þau heimstyrjaldir.

Heimsendarnir okkar
Við mannfólkið erum stöðugt að upplifa heimsendi. Náttúruhamfarir þekkjum við vel hér á Íslandi en við mannfólkið lifum bæði heimsenda af völdum manneskjunnar og náttúrunnar og á því er nokkuð stór munur. Og svo eru það allar persónulegu heimsendarnir okkar, hjónaskilnaðirnir, dauðsföll, draumar sem deyja og að lokum heimsendinn sem bíður okkar allra. Okkar eigin dauðdagi.

Á öllum tímum hafa þessi orð Jesú, sem við heyrum á öðrum sunnudegi í aðventu, verið túlkuð á þann veg að þarna sé Jesús að tala um endalok heimsins eins og við þekkjum hann og um endurkomu sína.

Boðskapinn um endalokin heyrum við einmitt þegar við undirbúum upphafið, fæðingu frelsarans og jólin.

Ég held að þessi endalok heimsins sem Jesús talar um þarna séu eitthvað sem við þekkjum öll. Það kemur sá tími í lífi okkar allra, að heimurinn hættir að vera eins við þekkjum hann. Að gamli heimurinn líður undir lok og nýr heimur tekur við.

Þetta gerist þegar við verðum fyrir áföllum.

Þegar við þurfum að glíma við syndina, lygar, svik, afbrýðisemi, ótta og angist.

Þetta getur jafnvel gerst þegar eitthvað stórkostlegt gerist eins og það að verða ástfangin eða að eignast barn.

Við upplifum öll einhvern tíma að heimurinn eins og við þekkjum hann líði undir lok að einverju leyti eða öllu.

Ég held að þessa heimsendalýsing Jesú sé ekki spá um eitthvað sem mun gerast í framtíðinni því heimsendar eru stöðugt að eiga sér stað. Um allan heim er fólk á hverjum degi að missa lífið eins og það þekkti það. Þetta fylgir því að vera dauðlegar verur í breyskum heimi.

Við munum ávallt halda áfram að reyna að bjarga heiminum. Það hljótum við að gera. Við munum halda áfram að gera það með því að borða rétt og menga minna. Við munum reyna að bjarga heiminum með því að boða frið og elska fólk. Og við munum reyna að fækka heimsendunum með menntun og þekkingu.

Lausnin er í nánd
„Réttið úr yður og berið höfuð yðar hátt því lausnin er í nánd“

Jesús boðar ekki aðeins heimsendi heldur biður hann okkur að bera höfuðið hátt því að lausnin er í nánd.

Þessi heimsendalýsing er ekki framtíðarspá heldur lýsing á heiminum eins og hann er og eins og hann hefur alltaf verið. Þetta er lýsing á því hvernig það er að vera manneskja í þessum brotna heimi. Jesús vill ekki að heimurinn sé svona. Á aðventunni erum við einmitt minnt á að það er lausn og lausnin er Jesús Kristur eða Guð.

Nú þegar við heyrum þessar heimsendaspár erum við einmitt að undirbúa upphafið, fæðinguna og komu frelsarans. Og þar er einmitt lykilinn að finna. Um leið og við undirbúum þessar vonarríku hátíð sem jólin eru, erum við minnt á að lífið er flókið og að heimsendar eru stöðugt að eiga sér stað í lífi fólks, í lífi þínu og lífi mínu. Einmitt þess vegna þurfum við svo innilega á voninni um frelsarann að halda, voninni um frelsarann sem deilir með okkur öllum okkar heimsendum. Hann þekkir þá og hann tekur þeim alvarlega. En um leið segir hann okkur að bera höfuðið hátt því lausnin er í nánd. Í lok hvers heimsenda fæðist eitthvað nýtt. Ný von, nýtt líf og jafnvel eilíft líf.

Gleymum því ekki þegar umhverfiskvíðinn, dauðahræðslan eða sorgin yfir því sem fór úrskeiðis í lífi okkar tekur yfir, að eitthvað nýtt og gott bíður okkar handan við hornið. Nýtt líf bíður okkar.

Mögulega felst þetta nýja líf í því að ýmislegt er að gerast í umhverfismálum og fjölmennustu löndin eru jafnvel farin að taka við sér, já og forseti Bandaríkjana fær ekki að ráða öllu. Kannski felst nýja lífið í því að þú munt ná sátt þrátt fyrir að skilnaðurinn hafi verið erfiður eða að missirinn hafi nánast verið óbærilegur. Já og mögulega felst þetta nýja líf í voninni um að það sé til eilíft líf með Guði að loknu þessu lífi.

Ég trúi því

Dýrð sé Guði sem tekur öllum okkar heimsendum alvarlega, deilir þeim með okkur en boðar okkur um leið  líf sem sigrar allar aðstæður. Hið sanna líf.

Préidkun flutt í Grafarvogskirkju annan sunnudag í aðventu 2019. Lúk. 21: 25-33.