Skip to main content

Hvar eru svanirnir?

Eftir október 18, 2020Prédikanir

Áhyggjur

Ég er nokkuð viss um að hver einasti hjúkrunarfræðingur og hver einasti læknir gæti hugsað sé að hafa þann mátt að geta læknað alla krankleika, að geta gert kraftaverk. Að geta læknað jafnt króníska sjúkdóma sem umgangspestir, jafnt andlega sjúkdóma sem líkamlega. Og nú helst af öllu, Covid sjúkdóminn sem kórónaveiran veldur.

Vinur minn sagði við mig um daginn, þegar við vorum að ræða stöðuna í samfélaginu: „Hvar eru svanirnir í fréttunum? Þessir sem voru oft sýndir í lok fréttatíma á Rúv? Nú eru bara neikvæðar fréttir, endalaust verið að tala um Covid og sýna frá einhverju sem við þurfum að hafa áhyggjur af. Og þess á milli eru viðtöl við fólk sem hefur lent í erfiðri lífsreynslu“ sagði hann.

Vinkona mín hringdi í mig í vikunni. „Hún er nýkomin úr aðgerð og þarf því að halda sig enn meira til hlés en annars. Hún sagði: „Þetta er svo hundleiðinlegt! Ég fæ ekki að hitta börnin mín og barnabörn. Það er alltaf einhver í sóttkví eða einhver komin/n með covid. Ég fór niður í bæ um daginn til að fá svolitla tilbreytingu. Það var falllegt verður, hlýtt og ég fann ég að mig langaði í ís, en ég þorði bara ekki að fara í ísbúðina þó ég væri með grímu.“

Önnur vinkona mín sagði við mig um daginn að hún hefði engar áhyggjur og að henni liði bara ágætlega. Fjölskyldan er reyndar með minni innkomu núna en fyrir faraldurinn og það gæti verið að þau yrðu að draga saman á einhverjum sviðum en hún kveið því ekki. Hún sagðist svo oft hafa þurft að takast á við forsendubreytingar að hún gæti alveg gert það eina ferðina enn svo lengi sem fólkið hennar væri frískt.

Ég hitti kunningja minn sem er listamaður úti í búð í vikunni. Hann sagðist hafa þurft að herða sultarólina all verulega undanfarið. Hann hafði brugðið á það ráð að selja bílinn sinn og sagðist vera komin í megrun.

Það fyrsta sem ég geri á morgnanna þessa dagana er að lesa fréttirnar og ná mér í nýjustu Covid upplýsingarnar. Ég skoða allar fréttaveitur reglulega yfir daginn til að kanna hvort staðan sé eitthvað að lagast og hvað sé nú nýjast í kórónufréttum.

Ég  hef átt mörg samtöl við fólk sem hefur áhyggjur og ég veit að þú hefur átt þau líka. Við erum flest áhyggjufull að einhverju leyti þó það komi fram með ólíkum hætti, enda erum vð að lifa erfiða tíma. Og þegar áhyggjurnar verða miklar þá vilja sum okkar gera eitthvað skemmtilegt til þess að gleyma þessu stund á meðan önnur geta ekki annað en fylgst með öllum fréttum, eru alltaf með nýjustu tölur á hreinu og vita upp á hár hvað er að gerast.

Og svo eru þau sem lifa og hrærast í sjúkdómnum miðjum, þau sem sjálf veikjast eða einhver náin/n þeim og heilbrigðisstarfsfólkið okkar. Starfsfólk Landspítalans og annarra spítalal, starfsfólk á Heilsugæslustöðvum um allt land, á Hjúkrunarheimilum og fleiri stöðum þar sem veikt fólk og viðkvæmir hópar fá lækningu, umönnun og líkn. Þau fá enga pásu. Þau eru alltaf í kófinu miðju.

Ekki fyrst

Við erum ekki fyrsta fólkið í veröldinni sem upplifir erfiða tíma. Biblían er full af sögum af fólki sem upplifir erfiðleika og Jesús talar um að erfiðleikar séu hluti af lífinu hér á jörð. Og ef við höldum okkur bara við kynslóðirnar á undan okkur þá hafa þær upplifað, kreppu, smitsjúkdóma, heimsstyrjaldir og svo ótal margt fleira, svo ekki sé talað um alla persónulegu kreppurnar og áfölllin.

Í dag erum við ekki aðeins að upplifa það að veiran geti smitað okkur og jafnvel dregið einhver okkar til dauða heldur erum við að finna fyrir fleiri afleiðingum faraldursins. Fólk er að missa vinnuna. Heilu starfsstéttirnar sjá fram á algjört atvinnuleysi og tekjumissi. Það verður til þess að fátækt eykst ef ekkert er að gert. Heimilisofbeldi er að fara upp úr öllu valdi og kvíði og þunglyndi með öllum þeim alvarlegu afleiðingum sem því fylgir mun hafa áhrif á samfélagið áfram í nokkurn tíma eftir að við höfum ráðið niðurlögum veirunnar.

Að njóta líðandi stundar

Þegar kórónaveirufaraldurinn hófst var ég stödd í Ástralíu. Landinu lokaði upp úr miðjum mars eða fljótlega eftir að fyrstu smitin greindust þar. Ástralía var og er enn lokuð, landamæri milli fylkja lokuðu auk þess sem tveggja manna samkomubann ríkti í tvo mánuði eða þar til það hækkaði upp í það að 10 manns máttu koma saman. Þetta var ekki auðvelt því við þekktum lítið af fólki og máttum ekki hitta þau fáu sem við þekktum. Allt sem við gátum gert byggði á því að eitthvað væri opið. En það var allt lokað. Ég brást við þessu með þeim hætti að ég hélt í þá von að brátt myndi þetta lagast. Að gestirnir sem áttu að koma í maí myndu nú áreiðanlega komast til okkar. Þá væri þetta búið. Þegar ljóst var að það myndi ekki ganga eftir taldi ég mér trú um að þau sem áttu að koma í byrjun júní gætu þó alla vega komið. En þau fengu ekki heldur að koma. Að lokum fórum við heim. Ég er nokkuð viss um að mörg ykkar kannast við að hafa  lengi haldið í þá von að viðburðirnir sem áttu að vera eftir mánuð eða tvo yrðu að veruleika. Að hjónavígslan, afmælið, tónleikarnir eða leiksýningin sem átti að vera eftir nokkrar vikur fengi að standa. Við sem hugsuðum þannig urðum sífellt fyrir vonbrigðum.

Því er nú ráð að sækja í reynslu þeirra sem hafa lifað erfiða tíma á undan okkur. Til þeirra sem hafa reynslu af íþyngjandi og langvarandi erfiðleikum.

Það sem flestum, sem hafa lifað af virkilega erfiða tíma, ber saman um er að til þess að lifa erfiðleikana af er best að geta búið sér til veruleika sem felur í sér einhvers konar lífsgæði hér og nú. Að geta notið einmitt þessarar stundar í stað þess að bíða sífellt eftir að hlutirnir lagist. Þetta er niðurstaða margra sem hafa lifað af vist í fangabúðum Nasista, fanga sem hafa verið dæmdir þrátt fyrir sakleysi og fólks sem hefur búið við stríðsástand í lengri tíma. Þau vilja mörg meina að það að bíða alltaf eftir því að þetta lagist eftir tvær vikur eða tvo mánuði og verða svo sífellt fyrir vonbrigðum geri lífið erfiðara en ef við búum okkur til veruleika sem við getum notið á einhvern hátt einmitt hér og nú.

Það sem svo mörgum kemur saman um, er að það er hægt að búa til dásamlega góðan hversdagsleika og njóta hans einmitt í dag þrátt fyrir áhyggjur af sjúkdómum, atvinnuleysi eða jafnvel ótta um að vera tekin af lífi. Þannig er til mikið af frásögum folks sem lenti í fangabúðum Nasista í seinni heimstyrjöldinni og tókst jafnvel að njóta einhverskonar fegurðar mitt í erfiðleikunum, þó ekki væri fyrir annað en að sjá lítið blóm vaxa og blómstra í moldinni fyrir utan gluggann, að geta notið þeirrar fegurðar þrátt fyrir allt.

Lúther orðaði þetta með þeim hætti, þegar hann eitt sinn var spurður hvað hann myndi gera ef hann vissi að heimurinn myndi farast á morgun, að hann myndi gróðursetja eplatré. Er til meiri von og lífsvilji en að gróðursetja tré þegar þú veist að heimurinn mun farast á morgun?

Að rísa upp

Sagt er frá því í guðspjalli dagsins að Jesús hafi tekið einhverja byrði af lamaða manninum, þannig að hann gat staðið upp á ný. Þessi byrði er kölluð synd en hugtakið synd merkir m.a. það að missa marks eða að mistakast. Hann tók mistökin, sektarakenndina og skömmina frá manninum. Ég er alveg sannfærð um að Guð, sem er hinn æðsti og mesti kærleikur, ástin sem umlykur okkur á bak og brjóst, er tilbúið til þess að taka áhyggjurnar frá okkur. Ef við treystum Guði til þess að lyfta kvíðanum, áhyggjunum og óttanum af brjósti okkar svo að við getum staðið bein í baki og notið líðandi stundar þá held ég að margt geti breyst til batnaðar. Þá getum við átt auðveldara með að njóta líðandi stundar þrátt fyrir að lífið sé flókið um þessar mundir.

Ef til vill tekur Guð þessa byrði frá okkur þegar við ákveðum með sjálfum okkur að njóta einmitt þessa dags hvernig sem hann verður. Kannski tekur Guð byrðina frá okkur þegar við tölum við manneskju sem er tilbúin til að hlusta á áhyggjunnar okkar eða þegar hún fær okkur til að gleyma kvíðanum um stund og njóta þess að vera til einmitt nú. Því að hverjum degi nægir sín þjáning. Það er óþarfi að byrja á áhyggjum morgundagsins strax í dag.

Ég nefndi í upphafi að ég væri nokkuð viss um að heilbrigðisstarfsfólk gæti vel hugsað sér að geta gert kraftaverk og læknað alla sjúkdóma og þá ekki síst Covid-19 sjúkdóminn. Heilbrigðisstarfsfólk getur reyndar læknað stóran hluta sjúkdóma og meira að segja Covid-19 í flestum tilvikum þó þau geti ekki komið í veg fyrir að við smitumst. Heilbrigðisstarfsfólk vinnur nefnilega kraftaverk á hverjum degi. Þau vinna kraftverk með því að lækna, líkna og gefa fólki von. Þau vinna kraftaverk með því að vera til staðar fyrir þau sem eru veik, með því að hlusta. Þau gera kraftaverk með því að hjálpa fólki við að bera byrðar þeirra og með því að hafa kjark til þess að ganga inn í hvaða aðstæður sem er, líka þær allra erfiðustu. Og margt heilbrigðisstarfsfólk um allan heim hefur hætt lífi sínu fyrir þau sem eru veik, óttaslegin og hrædd.

Vinur minn saknar svananna í lok fréttatímans. Vonandi koma þeir aftur fljótlega en þangað til þurfum við að finna okkar eigin svani, okkar eigin góðu stundir í hversdagsleikanum.

Prédikun flutt í Grafarvogskirkju á degi heilbrigðisþjónustunnar 18.10.2020