Skip to main content
Flokkur

Prédikanir

Veislur, vín og mömmur

Eftir Prédikanir

Veislur
Nú þegar jólahátíðinni er nýlokið er vel við hæfi að ræða aðeins um veislur.

Hefur þú gaman að veislum? Ekki veit ég hvort þér finnist við hæfi að bjóða upp á margar sortir í veislum eins og henni Hnallþóru í bók Halldórs Laxness, Kristnihald undir jökli og býður gestum aldrei færri en 17 sortir eða hvort þú hafir kannski engan áhuga á veislum. Mögulega ert þú mest fyrir matarveislur, eða skemmtir þér best í brúðkaupsveislum. Kannski viltu frekar vera með fáum og nánum vinun og ert lítið fyrir margmenni. Kannski veistu ekkert skemmtilegra en að halda veislu og bjóða heim eða mögulega veistu ekkert verra en mannamót og kvíðir þeim mjög. Við höfum örugglega mörg hver fengið nóg af veislum og samkomum í bili, eftir jól og áramót enda er hversdagsleikinn iðulega jafn velkominn eftir hátíðarnar og hátíðir eru eftir langdreginn hversdagsleikann.

Við heyrðum áðan um veislu þar sem vínið kláraðist áður en gestirnir höfðu fengið nóg. Þetta var brúðkaupsveisla þar sem Jesús var staddur ásamt móður sinni og mögulega fleiri fjölskyldumeðlimum. Þegar vínið klárast kallar móðir Jesú á hann og biður hann að bjarga málunum. Nánar

Hingað og ekki lengra

Eftir Prédikanir

Konfektkassi
Gjörið svo vel og fáið ykkur nammi!
Fékkstu uppáhaldsmolann þinn? Eða fékkstu kannski eitthvað sem þér finnst alls ekki gott? Nú veit ég ekki í hvernig tengslum þú ert við súkkulaði en mig langar að gefa þér þennan mola og rifja upp orð Forest Gump, úr kvikmynd með sama nafni, þegar hann sagði: “Móðir mín sagði alltaf, lífið er eins og konfektkassi. Þú veist aldrei hvað þú færð”.

Hvernig konfekt-manneskja ert þú? Klárar þú t.d. alltaf efri hæðina á konfektkassanum áður en þú byrjar á þeirri neðri, eða færðu þér bara það sem þig langar í og flakkar jafnvel um á milli hæða? Byrjarðu kannski á neðri hæðinni og felur efri hæðina og borðar hana seinna? Aflarðu þér upplýsinga um innihaldið í öllum molunum áður en þú velur þér einn? Klárarðu molann þótt hann sé vondur eða hendirðu honum? Já, það eru til ýmsar leiðir til að borða konfekt þó það sé langt frá því að vera hollt þá er það svolítið hátíðlegra nammi en annað og fylgir hátíðunum hjá mörgum okkar.

En er lífið virkilega eins og konfektkassi eins og mamma hans Forest Gump sagði? Lendum við bara á einhverjum molum og þurfum að haga okkur samkvæmt þeim? Veljum við þá ekki sjálf? Nánar

Hefðir og heilagleiki

Eftir Prédikanir

Jól æskunnar
Þegar ég var að alast upp höfðu foreldrar mínir mikið fyrir því að búa fjölskyldunni allri gleðilega jólahátíð. Það var gert með þrifum og bakstri, sem var misjafnlega skemmtilegt, en það var líka gert með því að fara með okkur í leikhús og á tónleika, styðja komu jólasveinanna og með því að halda í alls kyns hefðir. Jólakortin átti að opna á aðfangadagskvöld eftir að pakkarnir höfðu verið opnaðir og þá var gott að gæða sér á jólakonfektinu sem pappi bjó til með okkur systkinunum á aðventunni.

Ég er þakklát fyrir þessar minningar því jólin í minni barnæsku snerust um fjölskylduna og upplifunin af því að jólin væru heilög var mjög sterk. Þegar ég varð fullorðin og eignaðist börn reyndi ég að skapa góðar hefðir og nýtti mér sumt úr barnæskunni um leið og við bjuggum til nýja siði.

Ég velti því oft fyrir mér þegar nær dregur jólum, hvað það er sem gerir jólin heilög. Hvað það er sem kallar fram þessa einstöku tilfinningu um að á þessari hátíð eigi allt að vera svolítið betra, fallegra og einstakara en annars?

Sænsk jól
Ég var búsett í Svíþjóð í nokkur ár og þar voru jólasiðirnir töluvert aðrir og fyrir mér voru margar venjur þar í landi langt frá því að vera til þess gerðar að skapa heilagleika. Þar hittist stórfjölskyldan gjarnan á aðfangadag eftir hádegi, horfir á Disney þætti í sjónvarpinu og heldur síðan mikla matarveislu þar sem boðið er upp á fjölbreyttan mat á hlaðborði. Maturinn samanstendur m.a. af jólaskinku, pylsum, síld ofl. Snapsar eru oftar en ekki hluti af borðhaldinu og síðan eru gjafirnar opnaðar ýmist fyrir eða eftir matinn. Oftar en ekki er það jólasveinninn sjálfur sem kemur með pakkana. Þar hringja jólin ekki inn á ákveðnum tímapunkti eins og hér á landi. Nánar

orð eða Orð – Dagur Orðsins í Grafarvogskirkju

Eftir Prédikanir

Jólabókaflóð
Við eigum mörg hugtök í íslensku sem ég er ekki viss um að sé til í nokkru öðru tungumáli og eitt þeirra er mér hugleikið þessa dagana. Það er hugtakið “jólabókaflóð”. Í þessu orði felst svo dásamleg myndlíking sem ég held að við tengjum öll við á einhvern hátt. Kannski sjáum við bækurnar fyrir okkur flæða yfir landið eins og snjóinn. Kannski sjáum við þær flæða undan jólatrénu eða út úr bókabúðunum.

Svo lengi sem ég man eftir mér hef ég óskað mér bóka í jólagjöf og ég man ekki eftir bókalausum jólum fram að þessu. Ég er reyndar farin að hlusta mikið á hljóðbækur því sú iðja gerir mörg hversdagsverkin innihaldsríkari. En fyrir jólin drekk ég í mig bókatíðindin af mikill ákvefð og vel mér bækurnar sem mig langar mest að lesa. Og fátt þykir mér jólalegra en að fara á upplestur úr nýjum íslenskum bókum á aðventunni. Mér þykir líklegt að mikið af Íslendingum tengi við þetta.

Það er oft sagt að við séum bókaþjóð og reglulega heyrum við í fjölmiðlum að fólk hafi áhyggjur af því að við lesum minna og að læsi barna hafi minnkað, að of mörg börn geti ekki lesið sér til gagns. Ég held að það sé gott að við höfum þessar áhyggjur, að við látum okkur þetta varða. Því þrátt fyrir að börnin verði læs á margt annað, sem einnig er afar gagnlegt í heimi tölvuleikja og internets, þá opnast okkur nýr heimur þegar við getum farið á vit ævintýra og annarra vídd með hjálp góðrar bókar, þar sem við þurfum að nýta okkar eigin ímyndunarafl. Nánar

(Lof)orðin og systir bræðranna

Eftir Prédikanir

Prédikun 29. okt 2017

Orð frambjóðenda
Á föstudagskvöldið horfði ég á síðustu leiðtogaumræðurnar í sjónvarpinu fyrir kosningar og þar heyrði ég orð. Ég heyrði mikið af orðum. Mörg voru harkaleg og ókurteis. Flest voru hávær því það virtist eina leiðin til að ná í gegn. Mörg fjölluðu um framtíðarsýn flokkana en mörg fjölluðu líka um mistök og vonda sýn hinna flokkana. Mörg voru loforð eða viljayfirlýsingar flokka um það sem þau vilja gera að loknum kosningum.

Orð hafa dunið á okkur undanfarin mánuð af miklum krafti. Tökum við mark á þeim?

Hvernig er með verkin? Verða þau í samræmi við loforðin?

Orðin þín
Hvernig notar þú orðin þín? Eru þau stirð og fá eða eru þau mörg úti um allt? Áttu til mikið af fallegum orðum eða notarðu oft ljót orð? Áttu auðvelt með að koma orðunum þínum frá þér eða sitja þau föst. Nánar

Að elska í gegnum nálarauga

Eftir Prédikanir

Prédikun flutt í Kirkjuselinu í Spönd 15. október 2017

Hér er úlfaldi.
Hér er nál.
Getur þú komið úlfaldanum í gegnum nálaraugað?

Hér er þráður.
Hér er nál.
Getur þú komið þessum þræði í gegnum nálaraugað?
Já, það gekk með þráðinn en ekki úlfaldann.

Ætli það sé samt hægt að koma úlfaldanum í gegnum nálaraugað á einhvern hátt… Er til eitthvað „trix“ til sem við þekkjum ekki?

Mig langar að biðja þig að reyna að sitja eins þægilega og þú getur, með báða fæturna stöðuga á gólfinu og axlirnar afslappaðar. Ef þú vilt máttu loka augunum.

Þegar þú hugsar um sjálfa þig eða sjálfan þig, sérðu þá fyrir þér góða og fína manneskju…eða sérðu strax eitthvað fyrir þér sem þú þarft að bæta, laga? Þykir þér vænt um þig?

Ef þú hugsar nú um fólkið sem stendur þér næst, fjölskylduna þína, vini þína. Hvað sérðu fyrir þér? Finnst þér þetta fólk þurfa að bæta sig svolítið til þess að þér geti þótt vænt um þau? Þykir þér vænt um þau?

Sjálfsagt eru hugleiðingar ykkar eitthvað misjafnar en mér þykir ekki ólíklegt að þið eigið auðveldara með að láta ykkur þykja vænt um fólkið ykkar án skilyrða en um ykkur sjálf. Það er einhvern veginn þannig að við gerum yfirleitt mun meiri kröfur til okkar sjálfra en til annars fólks.

Getur verið að þú upplifir gallana þína á stærð við úlfalda en galla annars fólks á stærð við þráð sem auðvelt er að þræða í gegnum nálaraugað?

Nánar

Þegar neyðin verður pólitísk

Eftir Prédikanir

Þá
Sjáum þetta fyrir okkur:
Maður fer inn í erfiðar aðstæður þar sem veikt fólk liggur um allt og vonleysi ríkir. Þarna er fólk sem hefur verið veikt í fjölda ára og ekki fengið neina hjálp. Sum eru búin að vera veik svo lengi að þau gera sér ekki nokkrar vonir um að ná heilsu á ný. Maðurinn sem kemur inn í aðstæðurnar byrjar ekki á að koma öllum til hjálpar og redda málunum. Nei, hann gengur til veikasta mannsins, sem liggur þarna og hefur verið veikur í 38 ár, og spyr hann hvort hann vilji verða heill. Okkur kann að virðast þetta vera óþörf spurning. Hver vill ekki hjálp eftir 38 ára veikindi?

Maðurinn svarar kannski svolítið út í hött en hann fær lækningu. Hann fær kraftinn til að standa upp og koma sér út úr aðstæðunum sem höfðu lamað þrek hans í næstum 40 ár. Kannski var það spurningin: “Viltu verða heill” sem gaf honum kraftinn. Kannski kom loksins einhver fram við hann eins og hann hefði val. Mögulega fólst í þessari spurningu val um það hvers konar hjálp hann þurfti. Kannski var þetta í fyrsta sinn sem einhver spurði hann hvað hann sjálfur vildi.

Sá sem spurði hvort hann vildi verða heill og hjálpaði honum að koma sér út úr þessum veiku aðstæðum vat Jesús frá Nasaret. Hann hefði svo vel getað komið þarna inn með hroka og veitt þá hjálp sem honum sjálfum fannst þurfa án þess að spyrja hvað hann vildi og hvers hann þarfnaðist. Ja, eða bara gert ekki neitt.

Nánar

Talenturnar á Kópavogshæli

Eftir Prédikanir

Hælið
Árið sem ég varð tvítug bauðst mér sumarvinna á Kópavogshæli sem síðar varð að hlutavinnu með skóla. Ég er alin upp í Kópavogi og fjöldinn allur af Kópavogsbúum af minni kynslóð fékk vinnu á Kópavogshæli. Mér líkaði strax vel í vinnunni og þarna kynntist ég góðu fólki sem gaman var að vinna með. En þegar á fyrsta degi varð mér þó ljóst að ég var komin í ákaflega erfitt starf. Ég var á einni af erfiðustu deildunum þar sem heimilisfólk átti margt hvert við mikla hegðunarörðuleika að stríða. Ég varð strax vöruð við því að þessi einstaklingur gæti lamið mig og að annar gæti rifið í hárið á mér og að enn annar gæti bitið mig. Mér leist nú ekki meira en svo á þetta en þar sem ég læt nú ekki hræða mig auðveldlega og gefst helst ekki upp á þeim verkefnum sem ég tek að mér, þá hélt ég áfram.

Ég vandist þessu starfi þó nokkuð fljótt. Ég þurfi stundum að fara upp á slysó vegna áverka sem ég fékk eftir að heimilisfólk hafði ráðist á mig en að öðru leyti gekk vel. Mér líkaði vel við heimilisfólkið og fór smám saman að þykja undurvænt um mörg þeirra.

Ég starfaði í tæp þrjú á Kópavogshæli og var allan tímann á sömu deildinni þar sem eingöngu fullorðið fólk var vistað. Ég tók gjarnan aukavaktir því þær voru ágætlega borgaðar og svo vantaði alltaf fólk. Þessi ár, sem ég var þarna, hafði augljóslega margt batnað frá því sem áður var. Ég heyrði sögur af göllum sem voru reimaðir að aftan og saumað fyrir hendurnar. Ég heyrði sögur af spennitreyjum, fólki sem var læst inni í herbergi og bundið niður í rúmin. En ég sá líka að oft var ekki komið fram við heimilisfólkið af mikilli nærgætni eða reisn. Það var mikil mannekla þarna og nánast hver sem er gat fengið vinnu. Starfsfólk þurfti ekki að gefa leyfi fyrir því að farið væri yfir sakaskrá eða önnur öryggisatriði sem kröfur eru gerðar um í dag hjá flestum þeim er vinna með fólk og þá sérstaklega börn. Nánar

Að umgangast óþolandi fólk

Eftir Prédikanir

Að vera ósammála
Í vikunni sem leið var loks mynduð ríkisstjórn en það tók víst meira en 70 daga fyrir flokkana að koma sér nægilega mikið saman um stefnu mála til þess að hægt væri að mynda stjórn. Nú eru þið kannski hrædd um að ég ætli að fara að tala um stjórnmál og jafnvel hafa skoðun á ríkisstjórninni. En verið óhrædd. Það mun ég ekki gera. Mig langar frekar að tala um hvað við gerum við tilfinningar okkar þegar við erum ósammála fólki. Þegar okkur finnst fólk hafa rangar og ómögulegar skoðanir. Nánar

Hin raddlausu

Eftir Prédikanir


Fæðing á Landspítalanum
Um jólahátíðina fyrir nokkrum árum fékk ég þann mikla heiður að vera viðstödd fæðingu frænda míns. Ég hafði sjálf gengið í gegnum fæðingar og taldi mig því vel undirbúna til þess að vera til staðar fyrir móðurina. Svo þegar kom að fæðingunni var þetta ekki alveg eins og ég hafði búist við. Ég taldi að þar sem ég hafði sjálf fætt börn þá færi ég létt með að styðja aðra konu gegnum fæðingu. En þetta var býsna erfitt og um leið eitt það fallegasta og merkilegasta sem ég hef nokkurn tíma upplifað. Það erfiða var að ég gat svo lítið gert. Ég gat ekki tekið sársaukann frá móðurinni eða hjálpað henni við vinnuna. Vinnan var öll hennar og ég gat aðeins kvatt hana til dáða. En stundin, þegar ég horfði á barnið koma í heiminn, var töfrum fyllt. Að sjá manneskju líta dagsins ljós í fyrsta sinn, svo varnarlausa og viðkvæma getur ekki verið neitt minna en kraftaverk. Og þar sem ég stóð og horfði á ljósmóðurina taka á móti barninu og lyfta því upp varð ég eitt augnablik logandi hrædd um að það væri ekki allt í lagi með barnið. Léttirinn var því mikill þegar þegar drengurinn byrjaði að gráta og var lagður í fang móður sinnar.

Þetta var ekkert minna en kraftaverk.

Nánar