Skip to main content

Að elska í gegnum nálarauga

Eftir október 15, 2017Prédikanir

Prédikun flutt í Kirkjuselinu í Spönd 15. október 2017

Hér er úlfaldi.
Hér er nál.
Getur þú komið úlfaldanum í gegnum nálaraugað?

Hér er þráður.
Hér er nál.
Getur þú komið þessum þræði í gegnum nálaraugað?
Já, það gekk með þráðinn en ekki úlfaldann.

Ætli það sé samt hægt að koma úlfaldanum í gegnum nálaraugað á einhvern hátt… Er til eitthvað „trix“ til sem við þekkjum ekki?

Mig langar að biðja þig að reyna að sitja eins þægilega og þú getur, með báða fæturna stöðuga á gólfinu og axlirnar afslappaðar. Ef þú vilt máttu loka augunum.

Þegar þú hugsar um sjálfa þig eða sjálfan þig, sérðu þá fyrir þér góða og fína manneskju…eða sérðu strax eitthvað fyrir þér sem þú þarft að bæta, laga? Þykir þér vænt um þig?

Ef þú hugsar nú um fólkið sem stendur þér næst, fjölskylduna þína, vini þína. Hvað sérðu fyrir þér? Finnst þér þetta fólk þurfa að bæta sig svolítið til þess að þér geti þótt vænt um þau? Þykir þér vænt um þau?

Sjálfsagt eru hugleiðingar ykkar eitthvað misjafnar en mér þykir ekki ólíklegt að þið eigið auðveldara með að láta ykkur þykja vænt um fólkið ykkar án skilyrða en um ykkur sjálf. Það er einhvern veginn þannig að við gerum yfirleitt mun meiri kröfur til okkar sjálfra en til annars fólks.

Getur verið að þú upplifir gallana þína á stærð við úlfalda en galla annars fólks á stærð við þráð sem auðvelt er að þræða í gegnum nálaraugað?

Fullkomni maðurinn
Við heyrðum áðan sögu um mann sem virðist hafa allt það sem ein manneskja þarfnast. Hann er bæði ríkur og góður. Hann vill öðrum vel. Við getum því gengið út frá því að hann hafi sterka stöðu í samfélaginu. Þessi maður kemur til Jesú því hann vill fá leiðbeiningar um hvernig hann geti gert enn betur. Hann er sannfærður um að það sem hann er að gera sé ekki nóg til þess að öðlast eilíft líf. Jesús segir honum að hann eigi að fylgja boðorðunum en maðurinn segist ávallt hafa gert það. Hann vill gera meira. Hann er viss um að þetta sé ekki nóg. Þá segir Jesús að aðeins eitt vanti upp á, að hann selji allar eigur sínar og gefi þær fátækum. Þannig eignist hann fjársjóð á himni.

Þetta þótti hinum vel gerða manni ekki góðar fréttir enda átti hann miklar eignir. Það fylgir ekki sögunni hvort hann hafi farið að ráðum Jesú eða ekki. Það er líklega ekki aðalatriðið í sögunni.
Það sem ég held að við ættum að skoða í dag er þessi þörf mannsins til þess að gera betur og viðbrögð Jesú.

Getur verið að þarna sé verið að tala um annað himnaríki en það sem tekur við að loknu þessu lífi? Kannski himnaríki sem hefst hér og nú, á þessari jörðu? Himnaríki er nefnilega ekki síður hér á jörðu alveg eins og helvíti sem getur sannarlega verið hér í þessu lífi.

Þessi maður er búinn að gera allt rétt en hann er ekki ánægður með sig. Hann vill gera betur og er alveg viss um að hann geti einhvern veginn unnið sér inn eilíft líf með því að vera fullkominn. Hann telur sig geta unnið ást Guðs með því að gera allt rétt.

Og Jesús fer með honum í þetta því hann veit sem er að það þýðir ekkert að segja við manninn að hann geti ekki unnið sér inn ást og himnaríki með góðum verkum einum saman. Hann segir ekki heldur við hann að það sé bara alls ekki hægt að vinna sér inn ást Guðs með góðum verkum. Hann segir honum því bara að halda áfram að gefa öðrum ganga svo langt að gefa allt sem hann á.

Ekki veit ég hvort maðurinn hafi séð fáránleikann í þessu. En ég er nokkuð viss um að ef hann hefur farið að ráðum Jesú og selt eigur sínar og gefið fátækum, þá hafi það samt ekki verið nóg og honum hafi áreiðanlega fundist hann þurfa að gera enn betur. Gallarnir hans hafa sjálfsagt haldið áfram að vera á stærð við úlfalda í hans eigin augum þó hann væri nánast fullkominn í augum annars fólks.

Kannski er það þess vegna sem Jesús segir að það sé auðveldara fyrir úlfalda að fara í gegnum nálarauga en auðmanni að komast inn í Guðs ríki. Maðurinn mun aldrei öðlast sátt við sjálfan sig og finna himnaríki hér á jörðu svo lengi sem hann gerir meiri kröfur til sín en allra annarra. Hann verður aldrei sáttur.

Hann þarf ekki að vinna sér inn fyrir kærleika Guðs og það þurfum við ekki heldu. Guð elskar þig og mig hvernig sem við erum og hvað sem við gerum. Guð krefst ekki ákveðinna verka til þess að við séum samþykkt.

En á sama tíma þurfum við að lifa lífi sem við erum sátt við til þess að öðlast himnaríki hér á jörðu, til þess að vera sátt við okkur sjálf og örugg í eigin skinni. Það er ekki til nein einföld aðferð til þess að öðlast þessa sátt við okkur sjálf en góð byrjun væri kannski að meta okkur sjálf út frá sama mælikvarða og við metum annað fólk. Að láta okkur þykja vænt um okkur sjálf þrátt fyrir “gallana” sem við vitum svo vel af. Við þekkjum okkur sjálf svo vel og erum svo meðvituð um okkar verstu hugsanir á meðan við þekkjum ekki þessar hugsanir hjá öðrum. Því gerum við oft á tíðum ráð fyrir því að við séum svo miklum mun verri en annað fólk.

Að elska í gegnum nálarauga
Kannski var lykillinn að himnaríki góða mannsins falinn í hjarta hans. Kannski þurfti að að sjá að hann gerði allt of miklar kröfur til sjálfs sín. Hann þurfti bara að sjá að hann var að gera alveg nóg og það sem hann vissi ekki var að Guð elskar hann hvernig sem hann er.

Eins er það með þig. Þú kemst mun nær himnaríki hér á jörðu ef þú lifir í sátt við sjálfa/n þig. Ef þú hættir að gera meiri kröfur til þín en allra annarra. Ef þú leyfir þér að þykja vænt um þig. Ég held nefnilega að kröfurnar sem þú gerir til þín geti oft verið eins og þessi úlfaldi sem aldrei kemst í gegnum nálaraugað. Það er ekki til neitt “trix” til að koma úlfaldanum í gegn.

Mig langar að biðja þig að sitja þægilega á stólnum þínum með fæturna á gólfinu og slaka á í öxlunum. Þú mátt loka augunum. Hugsaðu nú um þig. Þú ert án ef með ýmsa galla og getur gert margt betur. En þú ert líka býsna fullkomin/n. Þú ert nefnilega heilög sköpun Guðs og umvafin þeim kærleika eins og mjúkri bómull.

Guð elskar þig.

Fólkið þitt elskar þig.

Elska þú þig.

Leyfðu þér að elska þig eins og þráð sem kemst í gegnum nálaraugað þó það sé stundum erfitt, sérstaklega þegar hann er trosnaður. Hann kemst þó alltaf í gegn að lokum.

Dýrð sé Guði sem elskar ekki aðeins í gegnum nálarauga. Guði sem er kærleikurinn sem þú finnur í brjósti þínu þegar þú hleypir honum inn.
Amen.