Prédikun flutt í Kirkjuselinu í Spönd 15. október 2017
Hér er úlfaldi.
Hér er nál.
Getur þú komið úlfaldanum í gegnum nálaraugað?
Hér er þráður.
Hér er nál.
Getur þú komið þessum þræði í gegnum nálaraugað?
Já, það gekk með þráðinn en ekki úlfaldann.
Ætli það sé samt hægt að koma úlfaldanum í gegnum nálaraugað á einhvern hátt… Er til eitthvað „trix“ til sem við þekkjum ekki?
Mig langar að biðja þig að reyna að sitja eins þægilega og þú getur, með báða fæturna stöðuga á gólfinu og axlirnar afslappaðar. Ef þú vilt máttu loka augunum.
Þegar þú hugsar um sjálfa þig eða sjálfan þig, sérðu þá fyrir þér góða og fína manneskju…eða sérðu strax eitthvað fyrir þér sem þú þarft að bæta, laga? Þykir þér vænt um þig?
Ef þú hugsar nú um fólkið sem stendur þér næst, fjölskylduna þína, vini þína. Hvað sérðu fyrir þér? Finnst þér þetta fólk þurfa að bæta sig svolítið til þess að þér geti þótt vænt um þau? Þykir þér vænt um þau?
Sjálfsagt eru hugleiðingar ykkar eitthvað misjafnar en mér þykir ekki ólíklegt að þið eigið auðveldara með að láta ykkur þykja vænt um fólkið ykkar án skilyrða en um ykkur sjálf. Það er einhvern veginn þannig að við gerum yfirleitt mun meiri kröfur til okkar sjálfra en til annars fólks.
Getur verið að þú upplifir gallana þína á stærð við úlfalda en galla annars fólks á stærð við þráð sem auðvelt er að þræða í gegnum nálaraugað?
Þá Sjáum þetta fyrir okkur:
Maður fer inn í erfiðar aðstæður þar sem veikt fólk liggur um allt og vonleysi ríkir. Þarna er fólk sem hefur verið veikt í fjölda ára og ekki fengið neina hjálp. Sum eru búin að vera veik svo lengi að þau gera sér ekki nokkrar vonir um að ná heilsu á ný. Maðurinn sem kemur inn í aðstæðurnar byrjar ekki á að koma öllum til hjálpar og redda málunum. Nei, hann gengur til veikasta mannsins, sem liggur þarna og hefur verið veikur í 38 ár, og spyr hann hvort hann vilji verða heill. Okkur kann að virðast þetta vera óþörf spurning. Hver vill ekki hjálp eftir 38 ára veikindi?
Maðurinn svarar kannski svolítið út í hött en hann fær lækningu. Hann fær kraftinn til að standa upp og koma sér út úr aðstæðunum sem höfðu lamað þrek hans í næstum 40 ár. Kannski var það spurningin: “Viltu verða heill” sem gaf honum kraftinn. Kannski kom loksins einhver fram við hann eins og hann hefði val. Mögulega fólst í þessari spurningu val um það hvers konar hjálp hann þurfti. Kannski var þetta í fyrsta sinn sem einhver spurði hann hvað hann sjálfur vildi.
Sá sem spurði hvort hann vildi verða heill og hjálpaði honum að koma sér út úr þessum veiku aðstæðum vat Jesús frá Nasaret. Hann hefði svo vel getað komið þarna inn með hroka og veitt þá hjálp sem honum sjálfum fannst þurfa án þess að spyrja hvað hann vildi og hvers hann þarfnaðist. Ja, eða bara gert ekki neitt.
Hælið Árið sem ég varð tvítug bauðst mér sumarvinna á Kópavogshæli sem síðar varð að hlutavinnu með skóla. Ég er alin upp í Kópavogi og fjöldinn allur af Kópavogsbúum af minni kynslóð fékk vinnu á Kópavogshæli. Mér líkaði strax vel í vinnunni og þarna kynntist ég góðu fólki sem gaman var að vinna með. En þegar á fyrsta degi varð mér þó ljóst að ég var komin í ákaflega erfitt starf. Ég var á einni af erfiðustu deildunum þar sem heimilisfólk átti margt hvert við mikla hegðunarörðuleika að stríða. Ég varð strax vöruð við því að þessi einstaklingur gæti lamið mig og að annar gæti rifið í hárið á mér og að enn annar gæti bitið mig. Mér leist nú ekki meira en svo á þetta en þar sem ég læt nú ekki hræða mig auðveldlega og gefst helst ekki upp á þeim verkefnum sem ég tek að mér, þá hélt ég áfram.
Ég vandist þessu starfi þó nokkuð fljótt. Ég þurfi stundum að fara upp á slysó vegna áverka sem ég fékk eftir að heimilisfólk hafði ráðist á mig en að öðru leyti gekk vel. Mér líkaði vel við heimilisfólkið og fór smám saman að þykja undurvænt um mörg þeirra.
Ég starfaði í tæp þrjú á Kópavogshæli og var allan tímann á sömu deildinni þar sem eingöngu fullorðið fólk var vistað. Ég tók gjarnan aukavaktir því þær voru ágætlega borgaðar og svo vantaði alltaf fólk. Þessi ár, sem ég var þarna, hafði augljóslega margt batnað frá því sem áður var. Ég heyrði sögur af göllum sem voru reimaðir að aftan og saumað fyrir hendurnar. Ég heyrði sögur af spennitreyjum, fólki sem var læst inni í herbergi og bundið niður í rúmin. En ég sá líka að oft var ekki komið fram við heimilisfólkið af mikilli nærgætni eða reisn. Það var mikil mannekla þarna og nánast hver sem er gat fengið vinnu. Starfsfólk þurfti ekki að gefa leyfi fyrir því að farið væri yfir sakaskrá eða önnur öryggisatriði sem kröfur eru gerðar um í dag hjá flestum þeim er vinna með fólk og þá sérstaklega börn. Nánar
Að vera ósammála Í vikunni sem leið var loks mynduð ríkisstjórn en það tók víst meira en 70 daga fyrir flokkana að koma sér nægilega mikið saman um stefnu mála til þess að hægt væri að mynda stjórn. Nú eru þið kannski hrædd um að ég ætli að fara að tala um stjórnmál og jafnvel hafa skoðun á ríkisstjórninni. En verið óhrædd. Það mun ég ekki gera. Mig langar frekar að tala um hvað við gerum við tilfinningar okkar þegar við erum ósammála fólki. Þegar okkur finnst fólk hafa rangar og ómögulegar skoðanir. Nánar
Fæðing á Landspítalanum Um jólahátíðina fyrir nokkrum árum fékk ég þann mikla heiður að vera viðstödd fæðingu frænda míns. Ég hafði sjálf gengið í gegnum fæðingar og taldi mig því vel undirbúna til þess að vera til staðar fyrir móðurina. Svo þegar kom að fæðingunni var þetta ekki alveg eins og ég hafði búist við. Ég taldi að þar sem ég hafði sjálf fætt börn þá færi ég létt með að styðja aðra konu gegnum fæðingu. En þetta var býsna erfitt og um leið eitt það fallegasta og merkilegasta sem ég hef nokkurn tíma upplifað. Það erfiða var að ég gat svo lítið gert. Ég gat ekki tekið sársaukann frá móðurinni eða hjálpað henni við vinnuna. Vinnan var öll hennar og ég gat aðeins kvatt hana til dáða. En stundin, þegar ég horfði á barnið koma í heiminn, var töfrum fyllt. Að sjá manneskju líta dagsins ljós í fyrsta sinn, svo varnarlausa og viðkvæma getur ekki verið neitt minna en kraftaverk. Og þar sem ég stóð og horfði á ljósmóðurina taka á móti barninu og lyfta því upp varð ég eitt augnablik logandi hrædd um að það væri ekki allt í lagi með barnið. Léttirinn var því mikill þegar þegar drengurinn byrjaði að gráta og var lagður í fang móður sinnar.
Áður en ég dey
Ef þú ættir aðeins eftir að lifa í átta mánuði og værir við þokkalega heilsu, líkamlega og andlega, hvernig myndir þú verja þessum mánuðum?
Myndir þú gera allt þetta skemmtilega sem þú ert alltaf að fresta eða hefur ekki haft kjark í að framkvæma? Myndir þú sættast við þau sem þú hefur sært eða ert ósátt(ur) við? Myndir þú eyða meiri tíma með fjölskyldunni þinni og vinum. Myndir þú kannski ekki breyta neinu, heldur lifa þínu lífi eins og þú hefur gert hingað til?
Ég rakst á sjónvarpsþátt um daginn sem fjallar um unga konu sem verður hrifin af manni sem sjarmerar hana upp úr skónum. Hann lifir svo spennandi og áhugaverðu lífi. Hann er alltaf að gera eitthvað skemmtilegt og sniðugt. Fljótlega kemst hún að því að hann er búinn að reikna það út að heimurinn muni farast eftir rúmlega átta mánuði þegar lofsteinn mun granda jörðinni. Hann er búinn að búa til langan lista með öllu því sem hann vill koma í verk áður en hann deyr. Nánar
Lúther pönkari Hugsið ykkur ef ég færi nú hérna út fyrir og myndi negla á útudyrahurðina hér í kirkjunni allt sem mér finnst vera óréttlátt og vont í kirkjunni. Eða kannski allt sem mér finnst vera óréttlátt á Íslandi, sem er alveg þó nokkuð. Ég hefði t.d. getað gert það fyrir kosningar.
Þú gætir líka gert þetta. Þú gætir t.d. farið og neglt upp á útidyrnar í skólanum þínum allt sem þú villt breyta vegna þess að þér finnst það vera ranglátt.
Haldið þið að þetta myndi vekja athygli?
Væri kannski sniðugra að skrifa facebookfærslu eða henda í nokkur tweet? Eða mögulega að skrifa pistil og setja á heimasíðu eða láta birta grein í blöðunum? Hvað með leikna auglýsingu í sjónvarpinu?
Í dag eru margar leiðir til þess að tjá skoðun sína, í það minnsta í okkar heimshluta þar sem málfrelsi ríkir. Og við sem kusum í gær vorum einmitt að segja skoðun okkar á því hvernig við viljum að samfélagið okkar sé og hvaða fólk við viljum að stjórni því fyrir okkur næstu árin. Reyndar getum við ekki kosið nákvæmlega það fólk og þær stefnur sem við vlijum í öllum málum en við getum kosið flokka sem eru búin að setja sér stefnu sem kemst næst því sem við viljum og svo er bara að vona að þetta gangi upp.
Ímyndið ykkur hinn fullkomna heim. Þetta er heimur þar sem allt fólk er gott því þangað komast aðeins þau allra bestu. Þau sem hafa helgað líf sitt því að gera öðrum gott og að bæta heiminn. Þennan heim er að finna í sjónvarpsþáttum sem heita “The good place” eða “Góði staðurinn”. Þetta er staðurinn sem góða fólkið fer á þegar það deyr en það er búið að útbúa hina fullkomnu reikniformúlu þar sem allt það góða sem það gerði í lífinu og allt það vonda er tekið saman og fundið út hvaða fólk var best. Þetta fólk er svo gott að það er rétt svo að móðir Theresa komist þarna inn.
Þarna er alltaf gott veður, maturinn fullkominn þ.e. uppáhaldsmatur hvers og eins. Allir íbúarnir búa á drauma heimilinum sínum og hver og einn fær að búa með sínum fullkomna sálufélaga. Þetta gæti ekki verið betra.
Allt er fallegt, gott og fullkomið þar til Eleanor kemur inn í heiminn fyrir mistök. Hún er nefnilega ekkert sérstaklega góð. Hún hafði engan metnað á meðan hún lifði annan en að hafa það sem þægilegast, þurfa að gera sem minnst og var alveg sama þó það væri bæði á kostnað annars fólks og henni var nákvæmlega sama um umhverfið. Hún laug. Hún stal. Hún svindlaði og hún var almennt frekar siðferðislega veiklundð manneskja. Og sálufélaginn hennar er siðfræðiprófessor sem aldrei hefur getað annað en sagt satt. Henni tekst að sjálfsögðu að fá hann til að lofa að segja engum frá því að hún eigi ekki heima þarna og hann fer að kenna henni hvernig hún geti orðið betri manneskja.
Smám saman fara að koma sprungur í þennan fullkomna heim þar sem fólk er ekki einu sinni fært um að blóta því það er svo gott. Og allt er það vegna þess að ein ófullkomin manneskja er komin í heiminn.
“Þú ert læknaður stattu upp og gakk” eða “vertu hughraustur. Þér er fyrirgefið”?
Ég held að fyrir okkur sé miklu minna mál að segja “þér er fyrirgefið”. Við vitum að það er gott að fyrirgefa, að það er bæði sjálfsagt og fallegt að reyna. Fyrir okkur er mun undarlegra og ótrúlegra að einhver segi: “Þú ert læknaður stattu upp og gakk”. Þar er svo augljóslega verið að tala um eitthvað yfirnáttúrulegt og skrítið. Kraftaverk. En að segja bara þér er fyrirgefið….Hvað er svona merkilegt við það?
Í því samhengi sem sagan gerist í var þó miklu eldfimara að segja að manninum væri fyrirgefið en að framkvæma einhver undur og stórmerki. Það gerðust hvort eð er oft svo undarlegir hlutir sem erfitt var að útskýra og fólk var opið fyrir því. Prédikarar voru á rölti um allt að lækna fólk og boða sína trú og Jesús var bara einn þeirra. En þegar hann segir að manninum sé fyrirgefið, og læknar hann þar með, þá fór hann yfir strikið! Með því var Jesús að fara inn á hættulegt svæði og gera sig guðlegan því aðeins Guð gat fyrirgefið og það var ekkert gert svona í einum grænum.
Þannig var nefnilega algeng trú hjá Gyðingum á þessum tíma (og er að einhverju leyti enn í dag) að orsök veikinda væri refsing Guðs fyrir brot og syndir.
Undir það getum við ekki tekið…eða hvað?
Var Jesús kannski að segja okkur eitthvað miklu merkilegra en að Guð fyrirgefi syndir með þessum gjörningi sínum? Var Jesús, sem er birtingarmynd Guðs hér á jörðu, kannski að segja okkur eitthvað enn mikilvægara sem skiptir sköpum fyrir okkur í dag? Nánar
Kraftaverkasögur Það kemur fyrir að fólk segir mér sögur af kraftaverkum. Ég heyrði eina um daginn af manni sem bjargaðist á óútskýranlegan hátt þegar hann var við það að sofna undir stýri. Ég hef heyrt sögur af fólki sem hefur bjargast úr sjávarháska á ótrúlegan hátt. Ég hef líka séð kraftaverk gerast. Ég hef orðið vitni að því að fólk hefur bjargast, eða komist út úr erfiðum aðstæðum í lífi sínu. Ég hef orðið vitni að svo stórkostlegum hugarfars- og viðhorfsbreytingum, hjá fólki sem var búið að missa lífsviljann og lifði lífi sem skaðaði bæði það sjálft og fólkið í umhverfinu, að það er vel hægt að tala um kraftaverk.
Sumar kraftaverkasögur Biblíunnar eru erfiðari en aðrar. Sögur af því þegar Jesús reisir fólk frá dauðum eru erfiðastar af þeim öllum. Ástæðan er sú að þær vekja von um að ef þetta er satt allt saman þá ætti það alveg eins að geta gerst í dag. Þær kalla síðan fram vonbrigði yfir því að það er engin(n) að reisa við fólk í dag. Eða hvað?
Ég held að, hvort sem það er raunhæft eða ekki, þá komi sú stund eða þær stundir í lífi okkar allra að við vonumst eftir kraftaverki. Ég hef vonast eftir kraftaverki. Ég hef óskað og beðið Guð um að láta fréttirnar sem fékk, ekki vera sannar. Snúa tímanum til baka og breyta öllu. Gera allt gott á ný.
En það gerðist ekki.
Ekki bókstafstrú Ég er ekki bókstafstrúar. Það er að segja, ég trúi ekki á allt sem stendur í Biblíunni á bókstaflegan hátt. En ég upplifi oft í samfélaginu í dag að sum þeirra sem ekki trúa, vilji gera mig og allt kristið fólk að bókstafstrúarfólki. Að prestum Þjóðkirkjunnar er gerð upp einhver barnaleg trú sem fæst okkar kannast nokkuð við. Þannig trúi ég ekki á sköpunarsögurnar í Gamla testamentinu sem sagnfræðilega réttar. Ég lít ekki á orð Páls postula sem lög sem mér beri að fara eftir því hann var manneskja síns tíma og undir áhrifum samfélagsins, sem hann var hluti af, með öllum þess takmörkunum og kostum. Ég sé Jesú fyrir mér sem birtingarmynd Guðs á jörðu. Þ.e. að Jesús hafi komið til að sýna okkur hvernig Guð er. Og bara svo það sé á hreinu þá er Guð ekki manneskja í mínum huga og ekki einu sinni eins og manneskja. Guð er sannarleg ekki hvítur miðaldra karl né heldur afrísk ung kona. Guð er allt í kringum okkur. Guð er kærleikurinn og ástin í okkur og allt í kringum okkur. Guð er það sem fær okkur til að vilja gera vel. Það sem kallar fram meðlíðan með öðrum og aðrar fallegar og góðar tilfinningar. Um leið er Guð eitthvað persónulegt sem ég get leitað til, eitthvað sem gengur á undan mér og á eftir mér og vill mér aðeins vel.
Kraftaverkasögur Aftur að erfiðum kraftaverkum. Ef ég trúi ekki á Biblíuna bókstaflega en trúi því að Jesús sýni okkur hvernig Guð er hvernig er þá hægt að skilja söguna af því þegar Jesús gaf dánum syni ekkjunnar frá Nain, líf?
Í frásögunni segir að Jesús hafi kennt í brjóst um ekkjuna, að aðstæður hennar hafi náð inn í hjarta hans og snert það. Hann fann til samúðar með manneskju í ömurlegum og sorglegum aðstæðum. Þessi kona var búin að missa sitt eina barn og manninn sinn. Og auk þess hafði hún misst alla möguleika á framfærslu það sem eftir var ævinnar. Konur höfðu, á þessum stað og tíma, enga möguleika á að framfleyta sér sjálfar og segja má að börnin hafi verið nokkurskonar ellilífeyrir foreldra sinna. Þ.e. þeim bar skylda til að sjá fyrir foreldrum sínum í ellinni. Nú var enginn eftir til þess að sjá fyrir henni.
Sorg hennar var því margföld.
Sorg hennar fyllti hjarta Jesú og hann tók til sinna ráða.
Það getur vel verið að þessi saga hafi einmitt gerst svona. Kannski er hún stórlega ýkt og sögð til þess að gegna því hluverki að sýna fram á að Jesú hafi ekki bara verið venjuleg manneskja.
Heldur eitthvað meira.
Kannski Guð.
Það sem ég tel að skipti máli í þessari sögu er ekki hvort hún sé sagnfræðilega rétt og hvort hún hafi gerst nákvæmlega svona, heldur hvað hún segir okkur um Guð.
Hvernig er Guð út frá þessari sögu?
Þessi saga lofar okkur ekki kraftaverkum en hún sýnir okkur að Guð finnur til með okkur þegar við líðum.
Alltaf.
Hún sýnir okkur að þegar við erum í ömurlegum og sorglegum aðstæðum þá finnur Guð til með okkur því Guð vill okkur vel.
Alltaf.
Þessi saga lofar okkur ekki kraftaverki en kannski fær hún okkur til þess að vilja gera kraftaverk. Kannski gefur hún okkur viljann til þess að sjá kraftaverkin í kringum okkur. Kraftaverk er nefnilega ekki aðeins eitthvað yfirnáttúrulegt sem við getum ekki útskýrt. Kraftaverk getur líka verið það þegar við komum hvert öðru á óvart með elskusemi og kærleika sem við eigum ekki von á. Þegar við komum hvert öðru til hjálpar og þegar aðstæður náungans koma við hjarta okkar og fá okkur til þess að vilja vinna kraftaverk. Eins og Jesús gerði.
Þessi saga segir okkur að Guð vilji okkur vel og að vilji Guðs sé að í lífi okkar verði kraftaverk að einhverjum toga. Og ég er sannfærð um að kraftaverk séu að eiga sér stað allt í kringum okkur.
Að sum kraftaverk framkvæmum við sjálf með vilja okkar, styrk og dugnaði.
Að sum kraftaverk verði vegna elskusemi náungans.
Að sum kraftaverk verði vegna þess að kraftur Guðs er svo magnaður að þegar við finnum hann og viljum nýta okkur hann til góðs þá á sér stað kraftaverk.
Það er nefnilega hægt að reisa fólk upp og breyta aðstæðum fólks á margan máta.
Amen
Nýlegar athugasemdir