Skip to main content
Monthly Archives

apríl 2019

Nusrat, bruninn og upprisa jarðar

Eftir Prédikanir

Prédikun flutt í Grafarvogskirkju á páskadagsmorgun 2019

Nusrat
Á þessum páskadagsmorgni langar mig að segja ykkur frá Nusrat Jahan Rafi, 19 ára stúlku frá Bangladesh. Nusrat varð fyrir kynferðislegri áreitni af hendi skólastjóra. Hún var múslimi, fjölskyldan hennar var íhaldssöm og hún var nemandi í ströngum og íhaldssömum skóla. Það hefur alvarlegar afleiðingar fyrir stúlku í hennar stöðu í Bangladesh að segja frá kynferðislegri áreitni. En þolendur kynferðislegrar áreitni eru gjarnan dæmdir af samfélaginu og fjölskyldunni og verða fyrir árásum, bæði á samfélagsmiðlum en einnig verða þau fyrir líkamlegu ofbeldi. Nusrat sagði ekki aðeins frá áreitninni heldur fór hún, með stuðningi fjölskyldu sinnar, til lögreglunnar og kærði skólastjórann og hún varð fyrir öllu ofantöldu.

Þegar hún fór og kærði var þar viðstaddur lögreglumaður sem tók upp allt sem hún sagði og deildi því síðan á samfélagsmiðlum. 27. mars síðastliðinn, eftir að hún hafði lagt fram kæru og skólastjórinn var handtekinn. Eftir það versnaði staða Nusrat enn frekar. Fólk mótmælti og hún varð fyrir stöðugu áreiti. 6. apríl síðastliðinn fór hún í skólann til þess að taka lokaprófin. Bróðir hennar fylgdi henni en hann réð ekki við neitt. Henni var ekki hleypt inn í skólann til þess að taka prófin heldur var farið með hana upp á þak þar sem var kveikt í henni. Hún lést ekki samstundis en hún hlaut alvarleg brunasár á 80% líkamans. Hún var þó með meðvitund nógu lengi til þess að geta borið kennsl á nokkra af árásarmönnunum. Hún lést 10. spríl síðastliðinn af sárum sínum.

Mörg þúsund manns komu í jarðarförina hennar Nusrat og lögreglan hefur nú handtekið 15 manneskjur sem eru grunaðar um að hafa tekið þátt í að taka hana af lífi. Lögreglumaðurinn sem tók upp myndbandið af henni og dreifði á samfélagsmiðlum hefur verið færður til í starfi (hvað sem það þýðir) og forætisráðherra landsins hefur hitt fjölskylduna hennar og heitið þeim að hverjum þeim sem tóku þátt í þessu verði refsað.

Það sem þó skiptir mestu máli er að nú er fólk farið að mótmæla harðlega hvernig komið er fram við konur í landinu og réttindabarátta kvenna er komin á dagskrá.

En fyrst þurfti Nusrat að deyja!

Saga Nusrat er saga margra kvenna og hún er líka saga margs fólk sem hefur þurft að deyja fyrir málstað sinn.

Getur verið að til þess að upprisa geti orðið þurfi fyrst eitthvað eða einhver að deyja?

Það er oft eins og við getum ekki risið almennilega upp fyrr en eyðileggingin er orðin algjör og við höfum þegar reynt hversu langt við getum gengið í því að skemma og eyðileggja og drepa, oft með hirðuleysi og áhugaleysi.

Notre Dame
Dæmi um þetta sáum við þegar Notre Dame varð eldi að bráð í vikunni sem leið. Það gerðist eitthvað stórbrotið með þessum bruna. Frakkar, Evrópa og fjöldi landa heimsins vöknuðu upp og virtust átta sig á hvað þessi kirkja, sem byrjað var að reisa þegar á 12. öld, var mikilvæg. Henni hefur verið lýst sem hjarta Parísar, Frakklands og Evrópu allrar enda var ekki aðeins byggingin einstök heldur varðveitti hún ómetanlega listmuni og sögulega gripi og hún var hús tilbeiðslu og andlegrar næringar. Sem betur fer tókst að bjarga stærstum hluta verðmæta kirkjunnar og hún stendur enn, þrátt fyrir að stór hluti hennar sé horfinn.

Við atburði sem þessa er eðlilegt að við leitum að táknum. Þegar þessi merka dómkirkja Parísar brann var af nógu að taka. Helsta bænhús kristinnnar í Frakklandi brennur í upphafi kyrruviku, eyðileggingin er mikil en þó stendur byggingin enn uppi, krossinn og altarið standa óhreifð eftir hamfarirnar. Það er ekki óeðliegt að kristið fólk og þau sem eru trúuð eða hafa áhuga á andlegum málum yfirleitt velti þessum táknum fyrir sér.

Það leið ekki langur tími frá því alvarleiki brunans varð ljós þar til forseti Frakklands hafði heitið Frökkum, og heimsbyggðinni allri, að kirkjan yrði endurreist. Hann vildi hugga.

Það leið heldur ekki á löngu áður en ríkasta fólk Frakklands hafði heitið mörg hundruðum milljónun evra til uppbyggingar á kirkjunni. Og peningarnir héldu áfram að streyma inn. Nú hefur frakklandsforseti lofað því að þessi 850 ára gamla kirkja verði endurbyggð á fimm árum og að hún verði enn fegurri en áður.

Þurfti Notre Dame að brenna til þess að fólk uppgötvaði hversu miklu máli hún skipti? Þurfti kirkja að brenna til þess að fólk finndi að það þyrfti á þessu tilbeiðsluskjóli að halda?

Jörðin
Í vikunni mátti sjá fyrirsögn í fjölmiðlum um að Greta hafi barist við grátinn. Hér var að sjálfsögðu átt við Gretu Thunberg frá Svíþjóð en hún hefur að undanförnu farið fyrir baráttu ungs fólks fyrir umhverfismálum. Reyndar er það einfaldlega þannig að Greta, sem er aðeins sextán ára gömul, er nú fyrirmynd og leiðtogi bæði ungs fólks og okkar sem eldri erum í baráttunni fyrir jörðinni okkar. Þessi unga kona hefur fengið fólk um allan heim til þess að snúa við blaðinu og láta sig umhverfismálin varða enda kemur hún vel til skila þeim skilaboðum að hér er um að ræða baráttu upp á líf og dauða, að ef við gerum ekki eitthvað sem skiptir sköpum núna, þá munu afkomendur okkar ekki lifa af. Þessi fyrirsögn um að Gréta hafi barist við grátinn var hálf undarleg því það sem skipti máli í þessari frétt var það sem Gréta sagði en ekki það að hún hafi verið við það að beygja af.

Í fréttinni bar Gréta elds­voðann í Notre Dame-dóm­kirkj­unni sam­an við neyðarástandið í lofts­lags­mál­um. Hún sagði um­heim­inn hafa horft skelf­ingu lost­inn á það þegar kirkj­an brann og að það væri skilj­an­legt því sum­ar bygg­ing­ar væru meira en bara bygg­ing­ar. En Notre Dame verður end­ur­byggð og vonandi eru stoðir henn­ar sterk­ar. Og hún sagðist vona að stoðir jarðarinnar okk­ar væru jafn­vel enn sterk­ari, en að hún óttaðist að þær væru það ekki.

Greta er ekkert of bjartsýn á framtíð jarðarinnar enda hefur komið í ljós að samkvæmt rannsóknum sem gerðar hafa verið á vegum Sameinuðu þjóðanna að teg­und­ir dýra séu að deyja út hraðar en áður var talið, að mik­il jarðvegs- og skógareyðing eigi sér stað auk loft­meng­unnar og súrn­un hafs­ins. Já, og það er nóg að horfa á þættina „Hvað gerum við“ sem hafa verið sýndir á RUV að undanförnu til þess að átta sig á að við stöndum frammi fyrir alvarlegum vanda sem okkur ber að taka alvarlega.

Getur verið að við þurfum að eyða jörðinni okkar nær algjörlega til þess að við áttum okkur og reisum hana við á ný?

Jesús
Þegar Jesús var ofsóttur og síðar krossfestur, var illskan, óttinn og reiðin við völd. En eitt af því sem er mikilvægt að við áttum okkur á þegar kemur að ofbeldinu og ofsóknunum gegn Jesú er að hann varð aldrei fórnarlamb því hann var ekki „passívur“. Hann sagði lítið og hann mótmælti aldrei með látum, en hann mótmælti.. Hann hnikaði aldrei frá því sem var satt og rétt, sama hvernig komið var fram við hann. Hann var hinn sanni friðsami mótmælandi.

En mótmæli hans fóru á þann veg að valdhafarnir þoldu þetta ekki og gengu alla leið. Hann var ógn við valdaöflin vegna þess að hann hlýddi þeim ekki.

Upprisa Jesú átti sér stað á tveimur sviðum. Annarsvegar hin jarðneska upprisa sem fólst í því að hann sigraði með því að gefa sig aldrei, með því að falla aldrei í þá freistni að þóknast valdhöfnum heldur halda sig við sannleikann. Og þannig má segja að valdaöflin hafi tapað því þau leystu ekkert með krossfestingunni annað en að þau urðu álitin níðingar sem réðust á, og tóku lífið af friðsamri og valdalausri manneskju. Hins vegar höfum við upprisuna sem við kristið fólk trúum að hafi breytt öllu. Upprisuna þar sem Guð sigraði dauðann.

Eyðilegging og upprisa
Hörmulegt morð á konu í Bangladesh þurti til þess að vekja fólk til meðvitundar um stöðu kenna og kynferðisofbeldi þar í landi og það á við um fjölda annarra landa og samfélaga.

Bruna Notre Dame þurfti til þess að fólk skildi hversu miklu máli þessi kirkja skipti fyrir trúarlíf, menningu og sögu Frakklands og jafnvel Evrópu allrar.

Þurfum við að eyða jörðinni okkar nær algjörlega til þess að skilja að hún er lífæðin okkar, til þess að skilja að ef við eyðum jörðinni alveg þá þurrkum við út lífsmöguleika okkar um leið?

Kannski þurfti að taka Jesú af lífi til þess að upprisan gæti orðið. Kannski var grimmdin og ömurleikinn forsenda upprisunnar.

Getur verið að við verðum að sjá algjöra eyðileggingu, kanna hversu langt við getum gengið til þess að sjá að okkur og rísa upp?  

Oft er það þannig að sumir hlutir þurfa að deyja til þess að eitthvað nýtt geti vaxið, til þess að breytingar geti átt sér stað. Kannski þarf gömul kirkja að brenna til þess að ný lifandi kirkja geti vaxið. En við eigum ekki að þurfa að eyða lífi til þess að hugarfarsbreyting geti orðið og við eigum ekki að þurfa að eyða jörðinni okkar til þess að við skiljum hversu mikilvæg hún er.

Á páskadegi fögnum við af öllu hjarta, því lífið sigraði dauðann. Kærleikurinn sigraði illskuna. Guð hefur gefið okkur von um að við getum risið upp á öllum sviðum. Þessi trú ætti að vera okkar mesti hvati til þess að taka höndum saman og gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að hlúa að jörðinni okkar, lífæðinni og öllu þvi sem á henni lifir.

Við megum ekki láta eyðileggingu og vanrækslu ganga það langt að upprisa jarðar og þar með alls lífs á jörðu komi oft seint.

Dýrð sé Guði sem sigraði dauðann og getur hjálpað okkur að rísa upp án þess að þurfa að eyðileggja allt fyrst.
Amen.

Tuðrararnir

Eftir Prédikanir

Bechdel-prófið
Ég veit ekki hvort einhver ykkar hafa heyrt um Bechdel-prófið. Þetta próf birtist fyrst í 1985 í sögunni „The Rule“ í teiknimyndasögunni Dykes to Watch Out for eftir Alison Bechdel. En prófið er notað sem mælikvarði á sýnileika kvenna í kvikmyndum. Til þess að kvikmynd standist þetta próf þarf þrennt að vera til staðar:

  1. Það þurfa að vera tvær konur eða fleiri í myndinni og vera nafngreindar.
  2. Þær þurfa að tala við hvor aðra.
  3. Þær þurfa að tala um eitthvað annað en karlmenn.

Þetta próf fjallar ekki um það hvort myndin sé feminísk eða hvort hún sé góð heldur aðeins um sýnileika kvenna í henni. Ég hvet þig til að nota prófið á næstu bíómynd sem þú sérð  eins sjálfsögð og þessi atriði eru þá er er ótrúlegt hversu fáar kvikmyndir standast prófið.

Hvað ætli gerist ef við notum Bechdel-prófið á Biblíuna? Ég hef svo sem ekki farið í gegnum alla Biblíuna með prófið en miðað við að hafa þó lesið hana alla og ýmislegt í henni oftar en einu sinni þá er ég nokkuð viss um að það er næstum engin frásaga sem stenst prófið þar, ef nokkur. Markúsarguðspjall í heild sinni nær ekki þessu prófi en þar er einmitt frásögu dagsins að finna. Í þessu guðspjalli er aðeins ein kona sem ávarpar Jesú en flestar eru þær hljóðar og fáar hafa nafn.

Kona dagsins
Kona dagsins er konan sem hellti dýru smyrslunum yfir höfuð Jesú við afar lítinn fögnuð viðstaddra. Kona dagsins er þögul. Hún gengur að Jesú, sem er staddur í matarboði, og hellir yfir hann sínum fínustu og bestu smyrslum.

Hún segir ekkert.

Hún kom í boðið, braut buðkinn (baukinn eða kerið) og hellti yfir Jesú. Þetta var allt sem hún gerði.

En fólkið varð reitt.

Það kemur ekki fram hvaða fólk þetta var þarna í boðinu en það er talað um það sem „nokkra“ og þá er væntanlega átt við nokkra menn og hluta af gestunum. Kannski voru þetta lærisveinar Jesú eða hluti þeirra. Þetta voru í það minnsta boðsgestir í veislunni og það má leiða líkum að því að þetta hafi að mestu- eða öllu leyti verið karlmenn.

Skiptir það þó einhverju máli að þetta hafi að mestu leyti verið karlmenn og aðeins ein kona sem hvorki hafði nafn né sagði orð? Skiptir einhverju máli að Jesús tók málstað konunnar og sagði að hennar yrði minnst um aldur og ævi og að hún hefði í raun veirið að smyrja hann hinnstu smurningu fyrir dauða hans?

Getur verið að þetta sé svo einfalt að þarna séu bara karlar í karlaheimi sem þoli ekki að einhver kona komi inn og sé að trufla samkomuna þeirra?

Já, ég held að þetta skipti allt máli. Kyn fólks í textum og myndum, sem ekki eru nálægt því að standast Bechdel-prófið, skiptir máli því hér er yfirleitt um að ræða sögur sem sagðar eru af körlum og fjalla í raun og veru um karlmenn og heim þeirra. En ég held að auk þessa segi þess saga okkur ýmislegt annað.

Tuðarar
Gestirnir láta þessa þöglu konu, sem ryðst inn í þeirra örugga heim og gefur Jesú það dýrmætasta sem hún á, fara í taugarnar á sér. Gestirnir í sögunni eru leiðinda tuðarar.

En hvenær verðum við tuðarar? Er það ekki þegar okkur er ógnað, þegar við áttum ekki hugmyndina sjálf? Er það kannski þegar einhver ómerkileg kona eða jafnvel stelpa þykist vera eitthvað merkilegri en við?

Við förum að tuða þegar einhver kemur með nýja hugmynd og framkvæmir eitthvað óvenjulegt. Við tuðum þegar einhver, sem á bara að halda sig á sínum stað úti í horni, fer að taka pláss. Við verðum tuðarar þegar einhver fær athyglina fyrir að segja þetta sem við vissum alveg og virðist vera betri eða merkilegri manneskja en við fyrir vikið.

Við getum öll verið tuðarar þó við viljum það ekki.

Ég er alls ekki viss um að allir gestirnir sem pirruðu sig á konunni hafi verið vondir menn. Það er ekki einu sinni víst að þeir hafi verið neitt sérstaklega leiðinlegir. En þeir áttu erfitt með það sem konan gerði. Hún kom þarna inn þögul, gaf Jesú það besta sem hún átti og svo varði Jesú hana. Hann sem var þeirra leiðtogi og vinur. Ekki hennar!

Það sem tuðararnir gera í þessum aðstæðum er að þeir fara að keppast við að finna góð rök gegn því sem konan gerði, rök sem halda. Og það besta sem þeir finna er að smyrslin séu svo dýr að það hefði verið miklu gáfulegra fyrir hana að selja þau og gefa fátækum andvirðið. Hún hefði verið miklu betri manneskja ef hún hefði gert það. Fjárhagsrökin eru svo sterk.

Við sjáum þetta allt í kringum okkur í dag. Þegar einhver vilja hjálpa flóttafólki og hælisleitendum þá eru gjarnan notuð þau rök, af þeim sem eru á móti, að betra sé að nota peninga og krafta í að hjálpa fyrst Íslendingum sem þurfa hjálp en svo sé hægt að nota afganginn í útlendingana. Þegar kirkjan fær sínar lögbundnu greiðslur frá ríkinu af kirkjujörðunum sem ríkið tók yfir þá heyrast alltaf raddir frá þeim sem ekki vilja þjóðkirkju að betra væri að setja peningana í Landhelgisgæsluna eða Landspítalann. Eins og að þessir peningar færu einmitt þangað ef kirkjan væri þurrkuð út. Svona mætti lengi telja. Þegar við verðum hrædd, okkur sjálfum eða hugmyndum okkar er ógnað, já eða bara þegar við áttum ekki hugmyndina sjálf eða erum á móti þá grípum við gjarnan til raka sem þessa.

Tuðararnir þurfa ekki endilega að vera einhverjir leiðinda karlar sem vilja að konur sitji úti í horni og séu ekkert að vilja upp á dekk. Tuðararnir geta verið við öll þegar við verðum óörugg og óttaslegin. Þá getum við öll orðið fúl/l á móti.

Bechdel, konan og tuðararnir
Við heyrðum í dag um konu sem sagði ekkert en gerði margt. Hennar er minnst enn í dag vegna sinna góðu verka, vegna þess að hún smurði Jesú hinstu smurningar. Hún þurfti ekki að segja orð til þess að komast á blöð sögunnar, til þess að um hana yrði prédikað. Þessi kona er hver einasta hugrakka manneskja sem stendur upp fyrir því sem hún trúir á og er henni kært. Og það þarf ekki alltaf að snúast um eitthvað stórkostlegt. En þegar þú ert þessi manneskja (hvort sem þú ert kona eða karl) þá máttu alltaf gera ráð fyrir að mæta tuðurunum. En vertu viss, þeir hafa ekki áhrif til lengdar. Ekki einu sinni þó þeir reyni að telja fólki trú um að peningarnir eigi frekar að fara í eitthvað annað og vinsælla. Eitthvað sem þeir trúa á.

Ég er nokkuð viss um að við förum öll einhvern tíma í hlutverk tuðarana því lífið er hvorki svart né hvítt. Við erum aldrei aðeins í hlutverki góðu manneskjunnar eða þeirrar vondu. Við erum þær báðar.

Guðspjall dagsins kolfellur á Bechdel-prófinu. Þarna er aðeins ein kona og hún talar ekki við neina aðra manneskju og hvað þá við aðra konu. Það segir okkur að sá sem ritaði guðspjallið hafði ekki mikinn áhuga á orðum eða nöfnum kvenna, í það minnsta ekki í þessu samhengi. Það sama á við um kvikmyndir sem falla á prófinu. Kannski er gott að heimfæra Bechdel-prófið á líf okkar og samfélag. En það er mikið að í samfélagi sem fellur á þessu einfalda prófi. Ég myndi ekki segja að við sem samfélag föllum á prófinu og við erum alltaf að reyna að bæta okkur.

Hér lifa konur og karlar sem tala við hvert annað um svo ótal margt annað en karla. Hér lifa manneskjur sem eru bæði tuðarar og sem fylgja trú sinni og hugsjón. Og mitt í þessu öllu er Jesús sem stendur með konunni sem þorir að fylgja honum þó tuðararnir fari af stað. Og mitt í þessu öllu er Jesús sem sest til borðs með tuðurnum því þeir erum við öll.
Amen.

María hvað?

Eftir Prédikanir

Meyjan Jane
Á Netflix er að finna þáttaröð sem heitir „Jane the Virgin“. Þesir þættir eru Amerískir en koma upphaflega frá Venesúela og fjalla um hina 23 ára Jane sem hefur ávalt passað vel upp á meydóminn sinn. Móðir hennar og amma hafa báðar hrætt hana á því að ef hún gengi alla leið með manni áður en hún gifti sig þá geti farið fyrir henni eins og móður hennar. En móðir hennar var afar ung þegar hún átti Jane og var aldrei í sambandi við föður hennar.

Jane tók fullt mark á móður sinni og ömmu, enda eru þær hennar helstu fyrirmyndir. Síðan gerist það, þegar Jane fer á sjúkrahúsið í reglubundna skoðun, að læknirinn ruglast á henni og annarri konu sem á að koma í tæknifrjóvgun. Hún gefur Jane sæðið sem hin konan á að fá sem leiðir til þess að Jane verður barnshafandi án þess að hafa misst meydóminn.

Um svipað leyti fer Jane að kenna í kaþólskum skóla. Smá saman breiðist fréttin um óléttu meyjuna út og ung pör fara að koma til Jane og trúa henni fyrir því að þau erfitt með að eignast barn og biðja síðan um að fá að faðma hana. Hún leyfir þeim það en er hálf undrandi á þessum beiðnum. Eftir svolítinn tíma kemst hún að því að nunnurnar sem reka skólann hafa látið búa til lítinn pening með mynd af henni óléttri og látið það berast út að hún hafi orðið barnshafandi með svipuðum hætti og María mey, með kraftaverki og að fólk sem komist í snertingu við hana geti orðið frjósamt. En til þess að fá að faðma Jane þarf að greiða nunnunum ríflega fyrir.

Þessir þættir eru gerðir af miklum húmor og er jafnflókinn og besta sápuópera en skírskotunin til kristindómsins er augljós enda á þetta sér stað í kaþólsku umhverfi þar sem María guðsmóðir á ríkan sess.

Meyfæðingin í Svíþjóð
Fyrir nokkrum árum sagði þávarandi erkibiskup Sænsku kirkjunnar að hann liti á meyfæðinguna sem ljóðræna og táknræna lýsingu á því hvernig Guð kom í heiminn sem manneskja. Hann hafði sem sagt nokkrar efasemdir um það að trúa á meyfæðinguna með bókstaflegum hætti. Þessa túlkun hefur auk þess núverandi erkibiskup tekið undir. Þessu mótmæltu nokkrir trúarhópar harðlega, auk presta og fólks innan Sænsku kirkjunnar, um leið og stór hópur fagnaði þessum ummælum og tók undir þau. Þeir sem mótmæltu einna harðast voru kaþólskur prestur og forstöðumaður hvítasunnusafnaðar í landinu. Þeir sameinuðust í greinaskrifum gegn þessum hugmyndum erkibiskupsins. Þeir, sem áður höfðu verið ósammála um all flest, sameinuðust þarna í þeirri ákveðnu skoðun að María hefði verið hrein mey og aldrei verið við karlmann kennd þegar hún varð þunguð. Kaþólski presturinn hélt þó á lofi kenningum Kaþólsku kirkjunnar sem segja að María hefði ekki verið fædd sem venjuleg manneskja heldur hefði hún fæðst án syndar og verið syndlaus alla ævi. Auk þess taldi hann Maríu hafa fætt Jesú án þjáningar og að hún hefði ekki dáið eins og annað fólk hefður hefði hún verið uppnumin til himna. Hvítasunnupresturinn tók ekki undir nokkuð af þessu þó hann héldi í þá trú að María hefði sannarlega verið hrein mey þegar hún varð þunguð.

Meyja eða móðir?
Og hvað segjum við við þessu öllu saman?

Hugmyndirnar sem koma fram í Jane the virgin lýsa því að það sé vel hægt að verða ólétt og eignast barn í dag án þess að hafa nokkurntíma stundað kynlíf.

Það er hægt í dag.

Það var ekki hægt fyrir meira en 2000 árum.

Gat María virkilega hafa orðið ólétt án þess að fara í tæknifrjóvgun? Var þetta kraftaverk? Eða er þetta helgisaga eins og þær sem löngum hafa verið sagðar til þess að leggja áherslu á að hér hafi verið um getnað og fæðingu stórmennis að ræða?

Í játningum kirkjunnar okkar kemur fram að Jesús sé fæddur af meyju, þ.e. konu sem varð barnshafandi án þess að hefðbundinn getnaður hafi átt sér stað. Þessi játning er sameiningartákn kristinna kirkna í heiminum. En þrátt fyrir það er fullt frelsi innan okkar kirkju að líta á meyfæðinguna með táknrænum hætti og sjá fyrir sér að Jesús hafi verið getinn með sama hætti og aðrar manneskjur og að hann hafi ekki verið neitt minni Guð fyrir því. Ef  Guð getur látið konu verða barnshafandi án þess að hafa verið með karlmanni þá hlýtur Guð einn að vera fær um að láta konu sem verður barnshafandi á venjubundinn hátt, fæða frelsara heimsins.

Þú hefur frelsi til að trúa því að María hafi verið meyja eins og sagt er í Biblíunni.

Þú hefur frelsi til að trúa því að hún hafi orðið ólétt af Jesú með hefðbundnum hætti.

En þú hefur ekki frelsi til að trúa því að það hafi gerst með tæknifrjóvgun. Sú tækni var ekki til þá.

Hverju sem þú trúir um þetta þá dregur það ekkert úr áhrifum Maríu móður Guðs. Ungu konunnar sem var treyst fyrir stóru hlutverki og ætti að hafa svo miklu stærri sess í kirkjunni okkar en hún hefur í dag.

María er mikilvæg fyrirmynd í kirkju sem er að mörgu leyti karllæg. Hún er ekki fyrirmynd vegna hreinleika, flekkleysis eða fullkomnunar. Hún er fyrirmynd vegna þess að hún var hugrakkur töffari sem sagði JÁ við verkefni sem setti allt líf hennar á hvolf.

Hún er ekki fyrirmynd vegna þess að hún fæddi barn án sársauka heldur vegna þess að hún fæddi barnið með sama hætti og konur hafa  gert alla tíð gert. Kannski fékk hún grindargliðnun og morgunógleði. Kannski fylltist hún af bjúg og fékk í bakið. Og það eru einmitt þessir hlutir sem gera hana að mikilvægri fyrirmynd fyrir hinn kristna heim. María er fyrirmynd vegna þess að hún var venjuleg manneskja sem var trúað fyrir stóru hlutverki.

Listaverkið Móðirin eftir Kristínu Gunnlaugsdóttur sem nú hangir í Grafarvogskirkju getur að vissu leyti  verið vísun í Maríu móður Guðs. Konuna sem er heilög vegna þess að hún fæddi Jesú Krist inn í þennan heim. Konuna sem er heilög vegna þess hversu mennsk hún var. Hægt er að sjá þetta verk sem kvensköp, þetta líffæri sem svo oft hefur verið tengt skömm og ljótleika en sem um leið hefur gefið næstum öllu mannkyni líf og ætti því miklu fremur að vera heilagt og upphafið. Gullþræðirnir í verkinu sem teygja sig til himins minna okkur á þræðina milli hins jarðneska og hins himneska og minna okkur á að þetta er tengt órofa böndum. Þetta verk er tilraun til afbælingar og í þessu verki mætast allar konur.

Guð fól Maríu stærsta hlutverk sem hægt er að hugsa sér.Á boðunardegi Maríu langar mig til að þú vitir að Guð felur þér stórt hlutverk. Þín bíður stórt hlutverk og mögulega hefur þér verið falið það nú þegar. Það er þó ekkert víst að þér finnist nokkuð til þess koma því mælikvarði okkar og Guðs er ekki alltaf sá sami. Við getum ekki öll fætt frelsara heimsins en við getum öll valdið stórum hlutverkum sem Guð trúir okkur fyrir, karlar sem konur. Það getur vel verið að þú munir aldrei komast að því hvert þitt stóra hlutverk, eða verkefni, var því það gagnaðist annarri manneskju sem aldrei lét þig vita hvað þú skiptir hana miklu máli. En ég er sannfærð um að Guð treysti þér fyrir mikilvægu hlutverki.

Trúir þú því?

Ég trúi því.

Prédikun flutt í Kirkjuselinu í Grafarvogi á boðunardegi Maríu 2019