Skip to main content
Monthly Archives

desember 2018

Vertu eins og Guð, vertu manneskja

Eftir Prédikanir

Prédikun aðfangadags 2018

Heilaga fjölskyldan
Mig hefur lengi langað til að eignast hina heilögu fjölskyldu með hirðum, vitringum, dýrum og öllu…þ.e. styttur. Í nokkurn tíma hef ég alltaf staldrað við og skoðað vel þegar ég sé fjölskylduna með fjárhúsum og jötu til sölu einhversstaðar en ég enda aldrei á að kaupa þetta. Í fyrsta lagi finnst mér þær yfirleitt of dýrar og í öðru lagi hef ég átt erfitt með að velja. Það er bæði til svo mikið af mjög ljótum og mjög fallegum styttum. En á þessari aðventu lét ég slag standa og skellti mér á fjölskylduna. Ég sá þessar fínu styttur í verslun hér í borg sem er þekkt fyrir góð verð, þær voru nógu fallegar fyrir mig þó ekki fylgdi með fjárhús. Þarna voru þó aðalatriðin, Jesúbarnið í jötunni María, Jósef, þrír vitringar og tveir hirðar. það voru einhver áhöld um það hvort Jósef væri í hópnum og hvort hirðarnir væru einn eða tveir. Við erum reyndar sammála um að við getum alveg ákveðið sjálf hver er hvað og að einn hirðirinn er kona.

Það er eitthvað við þessa „mynd“,  af Maríu, Jósef, barninu í jötunni sem snertir okkur. Þessi mynd sem er svo jarðnesk og venjuleg en um leið svo heilög.

Í kvöld mætist hið hversdagslega, hið jarðneska sem við þekkjum svo vel, hinu heilaga og töfrar verða til.

Vertu eins og Guð, vertu manneskja
Fyrir stuttu sá ég svolítið óvenjulega „mynd“ eða sýningu með heilögu fjölskyldunni. Það var í kirkju í Þýskalandi þar sem stóð yfir brúðusýning þar sem fólk og atburðir úr kirkjusögunni og Biblíunni höfðu verið sett upp í kringum Maríu, Jósef og Jesúbarnið og í bakgrunni voru háhýsi stórborgar. Foreldrarnir með barnið voru þarna í forgrunni en þau voru komin úr fjárhúsinu og lögð á flótta með barnið, María sat á asnanum með barnið og Jósef gekk við hlið þeirra. Í kringum þau var fjölbreytt flóra fólks.

Á einum stað, ekki langt frá móður Theresu, stóð blandaður hópur fólks með kröfuspjald. Þarna voru konur í vændi, uppábúnir karlar og konur, prestar og fátækt fólk. Á kröfuspjaldinu þeirra stóð: „Vertu eins og Guð, vertu manneskja“.

Þessu orð hittu mig í hjartastað en þegar þessi setning er orðaleikur og getur einnig verið þýdd sem, Vertu eins og Guð, vertu mennsk eða sýnu mennsku.

Hvernig getum við sýnt sömu mennsku og Guð?

Manneskjan Guð
Guð gerðist manneskja í litlu barni. Þegar Guð, sem er upphafið að öllu, kærleikurinn sjálfur, ákvað að koma inn í heim mannfólksins gerðist það ekki með valdi og látum. Guð kom inn í heiminn í mesta varnarleysi sem hægt er að hugsa sér, sem lítið barn. Guð var eitt sinn fóstur í móðurkviði og Guð fæddist með sama hætti og öll börn mannfólksins, með öllum þeim áhættum sem því fylgir. Og þegar í heiminn var komið var Guð upp á umhyggju foreldra sinna og umhverfisins komið.

Guð hefði getað komið í heiminn með öðrum hætti en Guð er ekki þannig. Guð velur að treysta okkur fyrir sér. Guð velur að koma til okkar í fullkomnu varnarleysi og treysta okkur.

Það er litla barnið þarna í útihúsinu sem sýnir okkur hvernig manneskja Guð er.

Það er litla barnið þarna í útihúsinu sem sýnir okkur hvernig manneskjur Guð vill að við séum.

Við höfum öll verið í sporum litla barnsins. Við hefjum öll þetta líf í móðurkviði og við höfum öll þurft að treysta á umhyggju foreldra eða fólksins í kringum okkur og umhverfisins. Aðstæður okkar til að byrja með geta verið afar ólíkar og aðstæður Jesú í upphafi voru sannarlega ekki þær einföldustu. Foreldrar hans voru ekki gift og þau flúðu undan yfirvöldum skömmu eftir fæðingu hans. Þau voru flóttafólk um tíma. Það rættist þó ágætlega úr drengnum.

Manneskjan manneskja
Vertu eins og Guð, vertu manneskja.

Hvernig verðum við manneskjur eins og Guð eða hvernig sýnum við sömu mennsku og Guð?

Guð sýndi hina fullkomnu mennsku með því að koma til okkar sem varnarlaust barn og treysta okkur. Það fór vissulega ekki að öllu leyti vel að lokum en það hafði þó þau áhrif að nú meira en tvö þúsund árum síðar erum við enn að tala um hann.

Ég held að við þurfum að leita alla leið aftur til fæðingu barnsins, komu Guðs í heiminn til þess að finna okkar sönnu mennsku. Mennskan okkar er nefnilega fólgin í varnarleysinu. Það er þegar við sýnum það hugrekki að verða berskjölduð, að sýna hver við raunverulega erum og treysta, sem við verðum manneskjur eins og Guð.

Litla barnið í jötunni braggaðist vel þrátt fyrir erfiðar aðstæður í byrjun og varð maðurinn Jesús sem kenndi okkur meira um ástina og mennskuna en nokkur önnur manneskja hefur gert. Hann kenndi okkur að bera sanna umhyggju fyrir náunganum og sköpuninni og hann sýndi okkur með lífi sínu að þetta snýst allt um að vera sönn og ekta.

Kannski erum við mennskust þegar við tökum niður grímurnar, sýnum hver við erum og þorum að vera sönn og ekta.

Það krefst hugrekkis hjá fullorðnu fólki að sýna hver við raunverulega erum. Það sem er börnunum bæði eðlilegt og nauðsynlegt er fullorðna fólkinu oft um megn.

Myndirnar af heilögu fjölskyldunni geta verið afar fjölbreyttar því lífið er fjölbreytt. Listafólk hefur, í gegnum tíðina, túlkað þessi fyrstu jól með ólíkum hætti því fæðing Guðs í heiminn hefur ekki sömu merkingu í huga allra. Stundum er lögð ofuráhersla á hið jarðneska og hversdagslega en oft er atburðurinn upphafinn alla leið til stjarnanna. Báðar túlkanirnar og allar myndirnar þar á milli eru sannar því þessar „myndir“ eru á mörkum þessa veruleika og annars. Og þegar hið heilaga mætir hinu jarðneska, hinu hversdagslega verða til töfrar. Og þar sem himinn og jörð mætast og renna saman skiljum við að Guð elskar okkur nákvæmlega eins og við erum. Við þurfum ekki að setja upp grímur og þykjast gagnvart Guði.

Í kvöld kemur Guð til okkar í litlu barni og segir: „Ég elska þig eins og þú ert“. Í kvöld mega allar grímur falla því í kvöld erum við heilög eins og litla barnið í jötunni.
Amen.

Að hugsa of mikið – maraþon og kvíði

Eftir Prédikanir

Kvíðinn minn
Kvíði er eitthvað sem hefur fylgt mér frá því ég var barn. Þá var hugtakið ekki til nema þá í merkingunni að kvíða fyrir einhverju. Það var ekki fyrr en ég var komin yfir tvítugt og búin að eignast mitt fyrsta barn og kvíðinn fór að ágerast að ég fór að leita skýringa og hjálpar. Það var flókið. Ég fór í ýmsar rannsóknir á líkamanum því einkennin voru oft líkamleg, hraður hjartsláttur, sjóntruflanir og straumar eftir vinstra handlegg. Við vitum jú að þessi einkenni geta gefið vísbendingu um annað en kvíða. Það kom jafnvel fyrir að ég vaknaði um miðja nótt með hraðan hjartslátt og leið eins og einhver hefði tekið um hjartað á mér og væri að kreista það. Sársaukinn var nánast óbærilegur í sálinni. Allt var sorglegt og ömurlegt. Mig langaði ekki að halda áfram að vera til en mig langaði samt alls ekki að hætta því. Þegar ég hugsaði til baka voru nokkur tilvik frá barnæsku þar sem ég mundi eftir að hafa liðið svona en það vissi engin þá að það sem var að plaga mig var kvíði og stundum ofsakvíði.

Það var ekki fyrr en ég hlustaði á viðtal við konu í útvarpinu sem sagði frá svipuðum einkennum sem hún kallaði kvíða og þunglyndi að ég skildi að það var ekkert líkamlegt að mér heldur aðeins andlegt. Ég leitaði lækninga í framhaldinu og fékk hjálp.

Ég hef náð góðum tökum á kvíðanum og hann er sjaldan til mikilla vandræða lengur en hann getur þó tekið sig upp á óvæntum stundum og jafnvel þegar ég á síst von á. t.d. þegar ég hleyp í skipulögðum keppnishlaupum.

10 km og hálft maraþon
Ég byrjaði að hlaupa fyrir nokkrum árum og hef, þegar þetta er skrifað, tekið þátt í um það bil tíu slíkum hlaupum. Í fyrsta sinn sem ég hljóp 10 kílómetra í Reykjavíkurmaraþoninu gerðist þetta. Ég fór í hlaupið full eftirvæntingar og taldi mig vel geta hlaupið þetta á um það bil klukkutíma. Ég fór af stað og þetta var svo létt. Ég var full af orku og gaf í. Þegar ég var komin um það bil sex km. kemur brekka og einmitt þá hlaupa “hérarnir“, sem haupa þetta á 60 mínútum, framúr mér. Við þetta gerðist eitthvað og ég fór að efast um sjálfa mig. Ég fylltist vonleysi (þó ég reyndi af veikum mætti að hlusta á bókina sem ég var með í eyrunum og gleyma mér) og þegar ég var komin um það bil 8 kílómetra leið mér orðið svo illa að ég fór að sjá fyrir mér hvernig ég gæti farið út í kant og látið sem það væri að líða yfir mig og hætt hlaupinu. Mér leið eins og ég væri föst í endalausu hlaupi sem mig langaði ekkert til að vera í en mætti alls ekki hætta. Ég hætti þó ekki þrátt fyrir erfiðar hugsanir. Ég bara hélt áfram að hlaupa og lauk hlaupinu á 61 mínútu. Þegar ég var búin sagði ég við fólkið mitt að þetta ætlaði ég aldrei að endurtaka.

Ég stóð við það árið eftir en tveimur árum síðar tók ég aftur þátt og þá var þetta ekkert mál enda var ég bæði í góðu formi og svo hafði ég stjórn á huganum allan tímann. Eftir þetta fylltist ég eldmóði og skráði mig í hálft maraþon í útlöndum. Það ár hljóp ég þrjú hálfmaraþon. Mér gekk vel í þeim öllum og var glöð allan tímann. Enginn kvíði var að angra mig og allt gekk vel.

Þessi velgengni varð til þess að ég ákvað að láta verða af því að hlaupa heilt maraþon. Ég hugsaði sem svo að þar sem gat hlaupið hálft maraþon þá hlyti ég að geta æft fyrir heilt og klárað það. Ákvörðun var tekin og ég skráði mig í maraþon í Amsterdam. Ég æfði vel. Ég var með góða vinkonu sem hlaupafélaga og við vorum með gott fjögurra mánaða prógram sem ég fylgdi næstum því undantekningalaust. Til að byrja með hljóp ég meira en gert var ráð fyrir. Engin meiðsli voru að hrjá mig og ég jók vegalengdirnar eins og gert var ráð fyrir. Svo nálgaðist lengsta hlaupaæfingin fyrir sjálft maraþonið. Þetta voru 32 km. sem ég átti að hlaupa. Ég var stödd í útlöndum og hafði ákveðið nákvæmlega hlaupaleiðina og hlakkaði til enda var betra veður þar en hafði verið á lengstu hlaupaæfingunum á Íslandi vikurnar áður. Daginn fyrir þessa lengstu æfingu fylltist ég svo af kvefi og á sjálfan hlaupadaginn var ég komin með hita. Það fór mjög illa í mig að þurfa að sleppa þessari æfingu. Ég var búin að hlaupa 28 kílómetra tvisvar sinnum sem var lítið mál og tveimur dögum áður hafði ég hlaupið 15 kílómetra eins og ekkert væri. En ég var veik og þurfti að sleppa þessari æfingu.

Það liðu sex dagar þar til ég treysti mér til að hlaupa þessa 32 kílómetra. Það gekk sæmilega þrátt fyrir kvef og mikinn mótvind. Ég kláraði það og var ekkert sérstaklega þreytt á eftir. Eftir þetta fór ég að trappa niður æfingar og undirbúa sjálft maraþonið. Ég fór að lesa allt sem ég gat um maraþon. Las reynslusögur og kynnti mér hvernig fólk undirbjó sig. Ég skoðaði hvernig best væri að haga mataræðinu dagana fyrir hlaup og heyrði í flestum sem ég þekki sem einhvern tímann höfðu hlaupið maraþon. Ég safnaði í sarpinn og reyndi að fylgja öllum leiðbeiningum. Þegar dagurinn nálgaðist fór ég að sofa verr. Ég átti erfitt með að sofna á kvöldin og var þreytt á morgnanna og síðasta hlaupaæfingin gekk illa. Ég var þreytt og fann að öndunin var ekki í lagi.

Heilt maraþon
Svo kom hlaupadagurinn í Amsterdam. Ég dreif mig á fætur. Borðaði aðeins meiri morgunmat en venjulega, bæði hafragraut (kom með haframjölið með mér frá íslandi) og lítið rúnstykki með osti og sultu, bláber, vatn og kaffi. Við fórum með neðanjarðarlestinni á staðinn og allt gekk eins og í sögu. Svo kom að því að ég hljóp yfir startlínuna og hlaupið var hafið. Ég ákvað að hafa ekkert í eyrunum fyrstu 10 – 20 kílómetrana en var tilbúin með hlaðvarp sem var fyndið og skemmtilegt og krafðist engrar einbeitingar. Ég reyndi að hugsa um að hlaupa rólega í byrjun en ég var ekkert glöð. Þarna var fólk í skemmtilegum búningum, fólk sem talaði ólík tungumál. Merkingar á fötum gátu verið fyndnar. Þarna voru hljómsveitir og tónlistarfólk að skemmta hlaupurum á götuhornum og fólk að hvetja. En mér fannst þetta ekkert skemmtilegt. Ég hugsaði bara um hvað ég ætti langt eftir, hvort ég væri ekki örugglega að hlaupa allt of hratt eða allt of hægt og smám saman helltist yfir mig depurð. Ég fann allskonar lyktir. Ég fann steikingarlykt, reykingalykt, kannabislykt og megna svitalykt. Allt þetta pirraði mig. Á ellefta kílómetranum hitti ég hlaupavinkonu mína sem var einstaklega hress og glöð. Hún náði sér í kraft úr öllu því sem var að gerast í kringum okkur og var ekkert að hugsa um hraða eða hvort þetta yrði einhvern tíma búið. Hún fór að spjalla við mig en ég bara þagði. Ég deildi engri gleði með henni. Ég var bara þreytt (á sálinni) og var alls ekki að nenna þessu. Smám saman kom aftur þessi tilfinning, sem ég fann fyrir í fyrsta 10 km hlaupinu, um að ég væri föst þarna og kæmist aldrei í burtu. Svolítið eins og hamstur í hjóli sem aldrei hættir að snúast.

Við hlupum saman nokkra kílómetra og að lokum tók ég stóra ákvörðun. Ég ákvað, og það var ekki auðvelt, að segja henni hvernig mér liði. Að ég væri að drepast úr kvíða. Hún var þá farin að taka eftir því að ég var móðari og þögulli en venjulega, því yfirleitt er það ég sem er blaðrandi allan tímann þegar við hlaupum saman. Hún brást hárrétt við og eftir svolítið samtal um þetta bað ég hana að hlaupa með mér alla leiðina, að fylgja mér í gegnum þetta. Og það gerði hún. Hún talaði og ég þagði. Inn á milli gerði ég reyndar grín að þessri ömurlegu líðan enda er það er eina leiðin fyrir mig þegar þetta verður sem verst. Á tímabili fann ég fyrir því að öndunin varð grunn og að stutt var í oföndun. Kannski ekki að furða enda er erfitt að vera á hlaupum í kvíðakasti.

Þegar við vorum hálfnaðar var mér orðið alveg sama um tímann og fór að ganga í smá stund á nokkrra kílómetra fresti en þau sem þekkja til vita að það er vont að byrja að ganga í svona hlaupi því þá er yfirleitt stutt í næsta labb. Þrátt fyrir þessa ömurlegu líðan næstum allt hlaupið þá var líkaminn í fínu formi. Ég fann ekki fyrir neinu nema svolitlum verk í öðru hnénu sem ég hafði byrjað að finna fyrir um það bil viku fyrr. Þessi verkur ágerðist þó aldrei og háði mér ekki líkamlega, en sjálfsagt andlega.

Þetta fór aðeins að verða auðveldara eftir 32 kílómetra. Þá voru aðeins 10 kílómetrar eftir og ég var ekki lengur jafn heltekin af kvíðanum. Ég gat þó ekki glaðst yfir neinu og vonaði bara að þetta yrði einhvern tíma búið. Síðustu tveir kílómetrarnir voru ótrúlega langir en það eru þeir væntanlega hjá öllum maraþonhlaupurum. Þegar 500 metrar voru eftir gaf ég í og hljóp eins hratt og ég gat í mark enda var líkaminn alls ekki lúinn.

Mikið var ég fegin þegar þetta var búið!

Niðurstaðan og framtíðin
Það sem eftir var dagsins fór að miklu leyti í að vinna úr þessari reynslu. Ég gat ekki glaðst nógu vel yfir því að hafa hlaupið heilt maraþon og verið góðu líkamlegu standi allan tímann. Ég gat ekki glaðst nægilega yfir því að ég hafði æft vel og verið alveg tilbúin, líkamlega, í þetta hlaup. Mér fannst ég ekki nógu dugleg. Næstu klukkutímar og svo dagar fóru í að sannfæra sjálfa mig um að ég hefði víst verið dugleg, að ég hefði staðið mig vel. Ég er svo lánsöm að eiga hlaupavinkonu sem þekkir mig vel og hefur menntun, reynslu og innsæi til þess að geta hjálpað mér að vinna úr þessu. Niðurstaðan var í stórum dráttum sú að kvíðinn hafi raunverulega byrjað þegar ég veiktist daginn fyrir lengsta hlaupið þremur vikum fyrir maraþon. Þá byrjaði að öllum líkindum kvíðapúkinn minn að fá mig til að efast. Þá fór ég að hugsa of mikið.

Kvöldið eftir maraþonið tók ég ákvörðun; Ég ætla að gera þetta aftur, helst að ári. Ef ég get klárað maraþon í kvíðakasti þá hlýt ég að geta klárað það aftur án kvíða. Nú veit ég hvernig þetta er. Ég veit að ég get þetta auðveldlega en næst ætla ég að hugsa um að hætta að hugsa. Markmiðið verður bara að njóta, ekki að hugsa um tíma, reyna að taka þetta með hæfilegu kæruleysi og vera glöð yfir því að geta hlaupið.

Orð sem lifa

Eftir Prédikanir

Prédikun flutt í Grafarvogskirkju annan sunnudag í aðventu.

Syndin mín
Ég ætla að byrja á að gera játningu.
Þegar kemur að syndajátningunni í messunni þá er mín játning nær undantekningarlaust að ég hef hugsað illt um náunga minn. Stundum tala ég líka illa um fólk við mína nánustu trúnaðarvini því mér finnst gott að fá útrás einhvers staðar fyrir mínar lægstu og verstu tilfinningar. Stundum þegar ég tala illa um einhverja manneskju þá er það til þess gert að hefja sjálfa mig upp. Því stundum sækir að mér sú afleita hugsanavilla að ef eitthvað annað fólk er fullt ágætis þá geti ég ekki verið það líka. Svolítið eins og að það sé bara ákveðinn fjöldi fólks sem getur verið í lagi í einu.

Auðvitað er þetta hin mesta vitleysa og á öllum venjulegum dögum veit ég það. En svo dett ég aftur ofan í far syndarinnar og fer að hugsa illa um einhverja manneskju og jafnvel að tala svolítið leiðinlega um hana, allt vegna eigin óöryggis.

Ég kalla þetta synd.
Ég kalla þetta synd vegna þess að gríska orðið yfir synd þýðir, að missa marks. Að syndga er því að skjóta framhjá eða að takast ekki það sem upp var lagt með, að gera mistök.
Ég vil hugsa og tala vel um allt fólk en af einhverjum ástæðum tekst það ekki alltaf og því er þetta synd. Nánar