Skip to main content

Orð sem lifa

Eftir desember 9, 2018Prédikanir

Prédikun flutt í Grafarvogskirkju annan sunnudag í aðventu.

Syndin mín
Ég ætla að byrja á að gera játningu.
Þegar kemur að syndajátningunni í messunni þá er mín játning nær undantekningarlaust að ég hef hugsað illt um náunga minn. Stundum tala ég líka illa um fólk við mína nánustu trúnaðarvini því mér finnst gott að fá útrás einhvers staðar fyrir mínar lægstu og verstu tilfinningar. Stundum þegar ég tala illa um einhverja manneskju þá er það til þess gert að hefja sjálfa mig upp. Því stundum sækir að mér sú afleita hugsanavilla að ef eitthvað annað fólk er fullt ágætis þá geti ég ekki verið það líka. Svolítið eins og að það sé bara ákveðinn fjöldi fólks sem getur verið í lagi í einu.

Auðvitað er þetta hin mesta vitleysa og á öllum venjulegum dögum veit ég það. En svo dett ég aftur ofan í far syndarinnar og fer að hugsa illa um einhverja manneskju og jafnvel að tala svolítið leiðinlega um hana, allt vegna eigin óöryggis.

Ég kalla þetta synd.
Ég kalla þetta synd vegna þess að gríska orðið yfir synd þýðir, að missa marks. Að syndga er því að skjóta framhjá eða að takast ekki það sem upp var lagt með, að gera mistök.
Ég vil hugsa og tala vel um allt fólk en af einhverjum ástæðum tekst það ekki alltaf og því er þetta synd.

Big brother
Raunveruleikaþættir hafa notið mikilla vinsælda undanfarin tuttugu ár, þó þeir hafi ekki gengið jafn vel á okkar litla landi en dæmi um slíkan þátt er Stóri bróðir eða Big brother. Þessir þættir njóta mikilla vinsælda t.d. í Bretlandi, Bandaríkjunum og Svíþjóð en þeir ganga út á að fá hóp fólks til þess að búa saman í húsi í ákveðinn tíma og taka það upp allan sólarhringinn. Þetta er oft byggt upp þannig að á nóttinni og stóran hluta dags er bein útsending frá húsinu en á kvöldin eru sýndar valdar klippur af þvi´sem gerðist á liðnum sólarhringi. Þarna er valið saman mjög ólíkt fólk, karlar og konur en gjarnan fólk sem er tilbúið að ganga nokkuð langt fyrir frægðina. Til að byrja með er fólk yfirleitt afar meðvitað um að verið sé að taka það upp en þegar á líður er eins og myndavélarnar hættu að skipta máli. Einu sinni í viku geta áhorfendur svo kosið hvaða fólk á að yfirgefa húsið þannig að í lokin stendur uppi einn sigurvegari. Þetta verður til þess að þau sem opna sig mest eða eru tilbúin að ganga langt fyrir framan upptökuvélarnar fá yfirleitt að vera lengst í húsinu og eiga því möguleika á að vinna og verða svolitlar „stjörnur“. Að horfa á þessa þætti var svolítið eins og að horfa á líf fólks í gegnum skráargat, eitthvað sem yfirleitt er ekki í boði. Enda hafa þessir þættir, og aðrir sambærilegir, notið óhemju vinsælda.

Kardashian systurnar eru annað dæmi um raunveruleikaþætti þar sem hægt er að fylgjast með lífi fólks í gegnum myndavélar. En þrátt fyrir að það sé nokkuð rækilega sviðsett þá fær fólk á tilfinninguna að það sé að fylgjast með dæmigerður frægu fólki í Hollywood.

Leyniherbergin okkar
Í liðinni viku fengum við Íslendingar að horfa í gegnum skráargat þegar sex alþingismenn fóru á krána og fengu sér bjór á meðan verið var að ræða fjárlögin á alþingi. Þið vitið áreiðanlega öll hvað ég er að tala um, en þarna var tekið upp samtal sem enginn þátttakenda var meðvitaður um að verið væri að taka upp. Þau töldu sig, þarna á þessum opinbera pöbb rétt hjá Alþingi Íslendinga, geta talað frjálslega og tjáð sig óvarlega við samstarfsfólk sitt. Þett fór þó þannig að samtalið var tekið upp og í ljós kom að þarna var boðið upp á nokkra klukkutíma samtal um kvenfyrirlitningu, mannfyrirlitningu og ofbeldisumræðu af verstu sort. Tungutakið sem þarna var notað var með þeim hætti að stórum hluta þjóðarinnar hefur blöskrað. Það versta af öllu var að þau sem þetta létu út úr sér eru þjóðkjörnir fulltrúar á Alþingi Íslendinga.

Ég skil mæta vel að þeim hafi brugðið og ekki vitað, til að byrja með, hvernig þau ættu að bregðast við. Þarna var tekið upp og birt fyrir alþjóð upptaka af þeirra allra óhreinasta þvotti. Því, sem þau myndu aldrei hengja út á snúrur fyrir augum almennings.

Innra með okkur öllum eru að finna herbergi sem eru full af drasli. Herbergi sem eru dimm og ljót, þar sem okkar verstu og ljótustu hugsanir eru geymdar. Þessi herbergi opnum við fæst nema þá helst til þess að hleypa okkur sjálfum inn svolitla stund. Ef við bjóðum einhverri manneskju þangað inn þá er þar eingöngu um að ræða einhverja sem við berum fullt traust til.

Það sem gerðist þarna á Klausturbarnum var að þessi leyniherbergi sexmenningna voru opnuð upp á gátt fyrir alþjóð. Reyndar höfðu þau sjálf opnað þessi herbergi kæruleysislega fyrir hver öðru. Mögulega var það gert í ölvímu en það skiptir engu máli. Ölvíma eða áfengisneysla getur aldrei verið afsökun fyrir hegðun okkar þó það geti mögulega verið skýring.

Ég skil vel að sexmenningunum líði illa. Eða réttara sagt ég tel eðlilegt að þeim líði illa því þau brutu þarna all svakalega á samstarfsfólki sínu og þá sérstaklega á konum þegar þau opnuðu óhreinu herbergin sín upp á gátt.

Í þessu máli má segja að við höfum fengið að horfa í gegnum skráargat, svolítið eins og í Big brother. Munurinn er þó sá að í raunveruleikaþáttunum veit fólk að verið var að taka þau upp en það vissi fólkið á barnum ekki.

Orð sem lifa
Voru þetta aðeins ógætileg orð sem sögð voru í ölvímu og höfðu enga merkingu? Eða voru þessi orð sögð í ógáti og ölvímu en í fullri alvöru?

„Himinn og jörð munu líða undir lok en orð mín munu aldrei undir lok líða“ segir Jesús í guðspjalli dagsins. Segja má að þarna séu ákveðnar heimsslita hugmyndir á ferð og Jesús ítrekar mátt orðs Guðs. Orðið sem er svo miklu sterkara en nokkuð sem mannlegt er, það lifir allt veraldlegt og er æðra öllu. Það er líka æðra orðum okkar mannfólksins. Það er upphafið og endirinn.

Í þessari viku þar sem orð hafa verið svo mikið til umræðu er þó mikilvægt að minna á að það er ekki aðeins orð Guðs sem lifir heldur gera okkar orð það líka. Þau lifa bara á annan hátt. Þau lifa kannski ekki alltaf vegna þess að þau séu svo stórkostleg (þó þau geti í einhverjum tilvikum verið það) heldur lifa þau vegna þess að þau skipta máli. Þau sitja eftir hjá þeim er á hlýðir. Þau lifa þegar þau eru sett á prent og er þau ferðast um netheima. Þau lifa þegar þau nást á upptökum. Og á okkar tímum festist næstum allt sem við gerum og segjum á myndum eða upptökum og því eigum ávallt að gera ráð fyrir því að orð okkar og athafnir hafi afleiðingar.

Því skiptir það máli í öllum okkar samskiptum og hvar sem við erum að við gerum ráð fyrir því að orð okkar eða atferli skipti máli. Ekki aðeins vegna möguleika á upptöku heldur vegna þess að það sem við segjum og hvernig við komum fram skiptir máli og hefur áhrif á fólk. Alltaf.

Það skiptir máli hvað þjóðkjörin manneskja segir hvort sem hún er á bar með samstarfsfólki, í góðra vina hópi, í vinnunni eða með fjölskyldunni sinni. Það sama á við kennara. Það sama á við um presta. Það sama á við um allar manneskjur hvar sem þær starfa og þó þær starfi ekki utan heimilis. Orð okkar og athafnir skipta máli. Alltaf. Ég tel þó augljóst að fólk sem gegnir áhrifastöðum í samfélaginu þurfi að vera sérstaklega gætið þegar það talar og því beri að vanda framkomu sína í hvívetna.

Við höfum misjafnlega mikinn siðferðislegan styrk til að bera til þess að geta beðist fyrirgefningar þegar draslið fer að flæða út úr ruslakompunum okkar og verður að illu umtali og jafnvel ofbeldi. Það reynist ekki öllum auðvelt að biðjast fyrirgefningar og hvað þá að taka afleiðingum orða sinna. En það er þó það sem okkur ber að gera. Þegar okkar verður á er eina lausnin að biðjast einlæglegrar fyrirgefningar, taka ábyrgð og gera yfirbót. Mörgum reynist þetta erfitt en ég fullyrði að alþingismanneskja sem biðst fyrirgefningar þegar henni verður á og tekur ábyrgð á orðum sínum og gjörðum með því að segja af sér á mun frekar eiga afturkvæmt í stjórnmál og getur unnið traust á ný en sú sem ekki tekur ábyrgð. Þetta er þó ekki auðvelt og það krefst mikils styrks og þroska.

Besta leiðin er þó sú að reyna að taka til í ruslakompunum okkar, leyniherbergjunum reglulega svo að draslið flæði ekki óvart út við ópheppilegar aðsæður. Það getur verið gott að far í gegnum draslið og henda því sem er úrelt og fara yfir það sem meiðir okkur og særir. Ég mæli líka með því að nýta syndajátninguna í messunni til þess að biðjast fyrirgefningar á því sem okkur mistekst með, þegar við „missum marks“. Ég er nefnilega sannfærð um að flest okkar vilja ekki tala illa um annað fólk. Ég er viss um að flest viljum við ekki beita fólk ofbeldi með orðum eða gjörðum og að flest skiljum við að við verðum ekkert stærri sjálf þó við gerum minna úr öðru fólki.

Dýrð sé Guði sem gaf okkur hið lifandi Orð sem er Jesús Kristur. Dýrð sé Guði sem gefur okkur náungakærleikann og styrkinn til þess að geta litið í eigin barm og horfst í augu við breyskleika okkar.
Amen.