Skip to main content
Monthly Archives

október 2018

Að fyrirgefa fávitum

Eftir Prédikanir

Prédikun flutt í Kirkjuselinu í Grafarvogi 18. október 2018

Er hægt að fyrirgefa fávitum?

Er hægt að fyrirgefa ofbeldisfólki, þeim sem nauðga, þeim sem brjóta á börnum með einhverjum hætti? Getum við fyrirgefið morðingjum eða þeim sem stela og eyðileggja? Getum við fyrirgefið þeim sem svíkja okkur og eða hafa okkur fyrir rangri sök?

Eigum við að fyrirgefa þessu fólki?

Hvað með okkur sjálf? Eigum við rétt á að fá fyrirgefningu þegar við sjálf svíkjum, erum vond við fólk eða gerum mistök?

Trú á fyrirgefningunni
Ég hef tröllatrú á fyrirgefningunni og er alveg sannfærð um að hægt sé að lifa lífi þar sem grunnsýnin er sú að okkur verði fyrirgefin mistök og misgjörðir og að við getum á sama hátt fyrirgefið öðru fólki það sem því verður á. En á sama tíma er fyrirgefningin afar flókið fyrirbæri og mér hefur ekki tekist að fyrirgefa öllum og ég veit að það er fólk í þessu samfélagi sem er ósátt við mig og mun jafnvel alltaf vera það vegna þess að ég hef valdið þeim vonbrigðum.

Kristin trú gengur að miklu leyti út á fyrirgefningu. Jesús Kristur er alltaf að boða það að við eigum að fyrirgefa hvert öðru og að við eigum að geta beðist fyrirgefningar. Trúin gerir nefnilega ráð fyrir því að við séum ófullkomnar verur sem gerum mistök og að okkur takist ekki alltaf neitt sérstaklega vel upp. En hann gerir einnig ráð fyrir að við biðjumst fyrirgefningar og að til þess að okkur verði fyrirgefið þá þurfum við að iðrast og viljum bæta fyrir brot okkar eða mistök. Nánar

Að velja og vilja

Eftir Prédikanir

 

Prédikun í Grafarvogskirkju 14. september 2018

Ég segi mig úr kirkjunni
Ég segi mig bara úr Þjóðkirkjunni!
Það er ekkert að gerast í þessari kirkju. Bara nokkrar gamlar rykfallnar konur á kirkjubekkjunum á sunnudögum. Kirkjan fær háar fjárhæðir frá ríkinu á hverju ári, einu sinni var hún á móti því að samkynhneigt fólk gifti sig. Já og hún getur hún ekki einu sinni tekið á kynferðisbrotum innan kirkjunnar og hvað þá kaþólskra presta í öðrum löndum!

Mýtur og rof
Nei, vitið þið hvað. Þetta er bara alls ekki svona. Í þeim kirkjum sem ég þekki til er meira og minna fullt í messum á sunnudögum og hvorki rykfallið fólk né kirkjubekkir. Kirkjurnar eru fullar af fólki á öllum aldri alla daga vikunnar og flest kvöld. Hingað koma hressir krakkar, tónlistarunnendur, fólk sem syrgir og ástfangin pör af öllum kynjum. Í kirkjuna kemur fólk sem þráir innri frið, fyrirbænir og samfélag með öðru fólki.

Það er svo merkilegt að heyra reglulegar fréttir og fjölmiðlaumfjallanir um þessa kirkju sem fólk er alltaf að segja sig úr Það eru ekki frásagnir úr hverfiskirkjunum, söfnuðunum í hverfinu, bænum eða þorpinu. Um þá kirkju er sjaldan fjallað um í fjölmiðlum. Í þeirri kirkju eru tengsl. Þar er fólk. Þar er líf.

Að sjálfsögðu er ástæða fyrir þessum miklu viðbrögðum margra þegar kirkjan, sem stofnun, gerir eða segir eitthvað sem fólki líkar ekki. Það er ástæða fyrir því að mýtan um rykföllnu tómu kirkjurnar lifir enn og það er ástæða fyrir því að fólk segir sig úr kirkjunni um leið og biskup segir eitthvað sem fólki líkar ekki. Einhvers staðar hefur kirkjan, sem stofnun, misst ákveðin tengsl við fólkið sitt, við söfnuðinn. Nánar