Skip to main content

Að velja og vilja

Eftir október 14, 2018Prédikanir

 

Prédikun í Grafarvogskirkju 14. september 2018

Ég segi mig úr kirkjunni
Ég segi mig bara úr Þjóðkirkjunni!
Það er ekkert að gerast í þessari kirkju. Bara nokkrar gamlar rykfallnar konur á kirkjubekkjunum á sunnudögum. Kirkjan fær háar fjárhæðir frá ríkinu á hverju ári, einu sinni var hún á móti því að samkynhneigt fólk gifti sig. Já og hún getur hún ekki einu sinni tekið á kynferðisbrotum innan kirkjunnar og hvað þá kaþólskra presta í öðrum löndum!

Mýtur og rof
Nei, vitið þið hvað. Þetta er bara alls ekki svona. Í þeim kirkjum sem ég þekki til er meira og minna fullt í messum á sunnudögum og hvorki rykfallið fólk né kirkjubekkir. Kirkjurnar eru fullar af fólki á öllum aldri alla daga vikunnar og flest kvöld. Hingað koma hressir krakkar, tónlistarunnendur, fólk sem syrgir og ástfangin pör af öllum kynjum. Í kirkjuna kemur fólk sem þráir innri frið, fyrirbænir og samfélag með öðru fólki.

Það er svo merkilegt að heyra reglulegar fréttir og fjölmiðlaumfjallanir um þessa kirkju sem fólk er alltaf að segja sig úr Það eru ekki frásagnir úr hverfiskirkjunum, söfnuðunum í hverfinu, bænum eða þorpinu. Um þá kirkju er sjaldan fjallað um í fjölmiðlum. Í þeirri kirkju eru tengsl. Þar er fólk. Þar er líf.

Að sjálfsögðu er ástæða fyrir þessum miklu viðbrögðum margra þegar kirkjan, sem stofnun, gerir eða segir eitthvað sem fólki líkar ekki. Það er ástæða fyrir því að mýtan um rykföllnu tómu kirkjurnar lifir enn og það er ástæða fyrir því að fólk segir sig úr kirkjunni um leið og biskup segir eitthvað sem fólki líkar ekki. Einhvers staðar hefur kirkjan, sem stofnun, misst ákveðin tengsl við fólkið sitt, við söfnuðinn.

Kannski er kirkjan, sem stofnun, að nokkru leyti á svipuðum stað og konungurinn sem bauð til veislu og gestirnir vildu ekki koma. Kannski hefur staða kirkjunnar breyst vegna þess að hún er of nátengd ríkinu og því er kominn hópur sem ekki vill spyrða sig við kirkju sem hefur hallað sér of mikið að elítunni og viljað telja sig til forréttindahóps samfélagsins.

Nánast öll opinber umræða um kirkjuna undanfarin ár hefur snúist um peninga og mistök en á sama tíma eru kirkjurnar í hverfunum fullar af fólki sem þykir vænt um kirkjuna sína. Fólki sem mætir á kóræfingar, í djúpslökun, sorgarhópa, barnastarf og svo endalaust margt annað. Það er nefnilega þannig með trúna að þó svo að kirkjunni mistakist og eitthvað fyrirkomulag úreltist þá hættir fólk ekki að trúa. Í trúnni heldur fólk áfram að finna grundvöll til þess að hittast og iðka trú í samfélagi og iðka líf sem kristin manneskja.

Konungurinn í guðspjalli dagsins reyndi þetta á eigin skinni þegar fólkið sem hann bauð til veislunnar mætti ekki. Hann gerði hlutina einfaldlega eins og hann hafði alltaf gert þá. En allt í einu hafði eitthvað breyst. Það hafði orðið rof milli hans og fólksins sem hann taldi að væri sitt fólk.

Hvað gerir kirkjustofnunin til að breyta þessu? Hvað gerir hún til þess að staðna ekki líkt og konungurinn sem við heyrðum um í guðspjalli dagsins.  Jú, ég hef fulla trú á að hún muni gera ýmislegt og sé jafnvel byrjuð á því. Eitt af brýnu verkefnunum er að semja við ríkið um bestu leiðina til að skilja hana enn frekar frá ríkinu. Það er vont fyrir kirkjuna að vera of háða ríkinu og þrátt fyrir að þessi nánu tengsl eigi sér ríkar ástæður og þrátt fyrir að aðskilnaðurinn sé þegar nokkuð mikill miðað við það sem áður var, þá þarf hann að verða meiri og það er vilji flestra innan kirkjunnar eftir því sem ég best veit. Næstu stóru verkefni kirkju og ríkis verða því að finna lausn á þessum málum þannig að við getum farið að tala um það sem skiptir máli þegar kirkju og trú ber á góma. Þannig að sú umræða hætti að snúast um upphrópanir sem oft eiga ekki við rök að styðjast og að hún hætti alveg að snúast um peninga. Þetta er vel gerlegt og vilji flestra er til staðar en þetta gerist ekki á einni nóttu. Því miður.

Kirkjan í hverfinu
Það sem er þó mikilvægast er að kirkjan í hverfinu virkar og það er hún sem skiptir mestu máli. Það er þar sem trúin fær næringu og umhverfi til vaxtar. Það er þar sem fólk fær næringu fyrir sálina sem gefur því kraft til að halda áfram í sínu hversdagslífi. Kraft og kærleika til þess að elska náungann.

Það er nefnilega þannig að fólk hættir ekkert að trúa. Fólk hættir ekkert að sækja í samfélag þeirra sem iðka trú.

Brúðkaupsklæði og kröfur
Þegar konungurinn hafði boðið þeim, sem höfðu áhuga á að mæta í brúðkaup sonar hans, í veisluna fínu kom í ljós að einn gesturinn var ekki í brúðkaupsklæðum. Þegar konungurinn sá það spurði hann manninn hvers vegna hann væri ekki í þessum klæðum. Maðurinn gat engu svarað og við það reiddist konungurinn svo mjög að hann lét kasta honum í ystu myrkur. Hvað var það sem gerði konunginn svo reiðann? Var hann svo hégómafullur að hann reiddist þeim sem ekki uppfyllti „dresskódann“? Eða var hann með svo lélega sjálfsmynd að hann leit á það sem móðgun að ein manneskja kom ekki klæddi eins og vera bar?

Til þess að skilja þessi viðbrögð og reyna að nálgast einhverja túlkun á þeim þá þurfum við að átta okkur á því að í fínum brúðkaupsveislum fyrir botni Miðjarðarhafs á þessum tíma var gestum ávallt útveguð brúðkaupsklæði. Klæðin stóðu öllum gestum til boða og það var álitin lágmarks kurteisi að klæðast þessum klæðum þegar þér var boðið í brúðkaup.

Efnahagur eða skortur á leiðbeiningum gat því ekki verið ástæða þess að þessi gestur var ekki klæddur eins og vera bar. Ástæðan var einungis sú að gesturinn vildi vera með í partýinu en þó ekki taka þátt nema að hluta. Hann vildi ekki leggja það á sig að sýna gestgjöfunum virðingu.

Og þarna eru skilaboðin til okkar í dag svo kristaltær. Þú ert velkomin/n að taka þátt í veislunni, að vera með í hverju því sem kirkjan hefur upp á að bjóða. En til þín er þó gerð ein krafa. Þessi krafa er ekki flókin, hún krefst ekki svo mikils af okkur en um leið er hún svo mikilvæg að hún getur snúist um líf og dauða. Hún er svo alvarleg að Jesús Kristur var tekinn af lífi hennar vegna. Þessi krafa er að þú veljir, að þú viljir elska Guð og elska náungann. Að þú viljir trúa á Guð og elska náungann.

Sá sem ekki klæddist brúðkaupsklæðunum vildi vera með í veislunni en hann var ekki tilbúinn til að taka þátt að öllu leyti. Hann vildi ekki trúa á Guð og elska náungann. Þetta eru skilyrðin. Þau eru ekki stíf og þau eru ekki flókin ef þú vilt ekki vera með þá er betra að afþakka boðið. Ef þú vilt vera með þá er nóg að velja og vilja. Guð gerir ekki kröfu um að okkur takist þetta í fyrstu tilraun heldur þurfum við að biðja um hjálp á hverjum degi til þess að okkur takist að klæðast brúðkaupsklæðunum Við þurfum jafnvel að biðja um hjálp oft á dag til þess að það takist. Trúin, traustið og elskan er ekkert sem kemur af sjálfu sér en Guð er tilbúin/n að veita okkur þetta allt ef við erum tilbúin til þess að þiggja, ef við bara opnum okkur.

Ég vil tilheyra kirkjunni
Vitið þið hvað? Ég ætla ekki að segja mig úr Þjóðkirkjunni. Ég vil tilheyra henni því hún er ekki félagsskapur fólks sem er fullkomið. Í kirkjunni gengur svo vel þó oft verði okkur á mistök. Þannig er það bara að vera manneskja. Það sem skiptir máli er að við reynum ávalt að gera okkar besta. Við þurfum bara að vilja. Kirkjan þarf reglulega að breytast, bæði innra starf kirkjunnar og ytri umgjörð hennar. Og hún getur það vel.

Veislan sem kirkjan býður til er býsna góð og hún verður haldin hvort sem þau sem áður mættu munu halda áfram að mæta eða ekki. Kirkjan er nefnilega ekki eins og vínylplatan eða geisladiskurinn sem verður úreltur. Heldur er hún eins og tónlistin sem heldur áfram að vera til hvort sem hún kemur út á vínyl, geisladiski, spotify eða er flutt lifandi heima í stofu. Trúin deyr ekki. Kirkjusamfélagið deyr ekki en það breytist og þróast eins og annað í heiminum.

Ég ætla EKKI að segja mig úr Þjóðkirkjunni. Ég vil tilheyra þessu góða samfélagi þar sem fólk er stöðugt að vanda sig við að gera hlutina betur og þar sem ólík sjónarmið fá rými. Ég vil tilheyra kirkju þar sem boðið er í góðar veislur, þar sem okkur standa brúðkaupsklæði til boða og þar sem veislugestir spanna allt litróf mannlegs samfélags. Ég vil tilheyra kirkju sem ég get sótt til í gleði og sorg, fengið andlega dýpt og innri frið. Ég vil tilheyra kirkjunni minni og þjóna henni.
Amen.

 

Guðspjall dagsins 20. sunnudagur eftirGuðspjall:

Matt 22.1-14
Þá tók Jesús enn að segja þeim dæmisögu: „Líkt er um himnaríki og konung einn sem gerði brúðkaup sonar síns. Hann sendi þjóna sína að kalla boðsgestina til brúðkaupsins en þeir vildu ekki koma. Aftur sendi hann aðra þjóna og mælti: Segið boðsgestunum: Veislu mína hef ég búið, uxum mínum og alifé er slátrað og allt er tilbúið, komið í brúðkaupið. En boðsgestirnir skeyttu því ekki. Einn fór á akur sinn, annar til kaupskapar síns en hinir tóku þjóna hans, misþyrmdu þeim og drápu.
Konungur reiddist, sendi út her sinn og lét tortíma morðingjum þessum og brenna borg þeirra. Síðan segir hann við þjóna sína: Brúðkaupsveislan er tilbúin en boðsgestirnir voru ekki verðugir. Farið því út á stræti og torg og bjóðið í brúðkaupið hverjum þeim sem þið finnið. Þjónarnir fóru út á vegina og söfnuðu öllum, sem þeir fundu, vondum og góðum, svo að brúðkaupssalurinn varð alskipaður gestum.
Konungur gekk þá inn að sjá gestina og leit þar mann sem var ekki búinn brúðkaupsklæðum. Hann segir við hann: Vinur, hvernig ert þú hingað kominn og ert ekki í brúðkaupsklæðum? Maðurinn gat engu svarað. Konungur sagði þá við þjóna sína: Bindið hann á höndum og fótum og varpið honum í ystu myrkur. Þar verður grátur og gnístran tanna. Því að margir eru kallaðir en fáir útvaldir.“