Skip to main content
Flokkur

Prédikanir

Veggur vonar – Ofbeldi og upprisa – Páskadagsprédikun í Grafarvogskirkju 2015

Eftir Prédikanir

Veggur vonar (svona í framhjáhlaupi)
Í tengslum við listasýningu um ofbeldi í dómkirkjunni í Uppsala, í Svíþjóð var settur upp “Veggur vonar”. Á þennan vegg gat fólk ritað nafn á fólki sem hafði komið því til hjálpar á erfiðum tímum. Nöfnin urðu mörg.

Hrelliklám
„Mér fannst eins og ég væri að taka valdið aftur til mín, að ég væri einhvernvegin að eignast líkamann minn upp á nýtt. Það vissu allir af þessu. Fólk talaði um þetta og þó það hafi ekki verið sagt beint við mig þá skiluðu sögurnar sér oft til mín. „Hún er náttúrulega drusla“ og „Hvaða hálfviti myndi sýna sig í gegnum vefinn?“ var meðal þess sem ég heyrði.

Þetta segir stúlka sem varð fyrir því, fjórtán ára gömul að nektarmynd af henni var dreift um netheima í óþökk hennar. Hún sagði frá þessu nú í tilefni af því að hún tók þátt í #FreeTheNipple (frelsum geirvörtuna) herferðinni og vildi með því slá vopnin úr höndum gerenda í slíkum málum.

„Ég fékk loksins að vita það; strákur sem ég þekkti hafði komið með nektarmynd af mér og var að sýna hana um allan skóla.” Þegar hann mætti í skólann þann dag varð hann var við að hvert sem hann fór var hlegið að honum. Þegar hann fékk loksins að vita hver ástæðan var fann hann fyrir undarlegum sting í hjartanu og vöktu svipbrigði hans kátínu hjá nemendum sem hlógu þeim mun meira.

Þetta segir karlmaður sem hann lýsir reynslu sinni þegar nektarmynd af honum var í dreifingu í grunnskólanum hans á tíunda áratug síðustu aldar þegar hann var þrettán ára gamall.

Báðar frásagnirnar birtust á fréttamiðlinum visir.is í liðinni viku í kjölfar #FreeTheNipple herferðinni og í tengslum við umræðu og umfjallanir um hefndarklám og þegar myndir af fólki birtast á netinu í hefndarskini eða sem hluti af einelti og ofbeldi.

Það er lang algengast að stúlkur verði fyrir þessu og því var mikilvægt að karlmaður kæmi einnig fram og segði sína sögu. Myndin af honum birtist reyndar ekki á netinu enda var það ekki orðið svo öflugt og almennt á þeim tíma sem hann varð fyrir þessu. En skömmin og sársaukinn yfir því að fólk væri að horfa á hann nakinn hefur varla verið minni fyrir því.

Það sem vakti sérstaka athygli mína við þessar sögur voru viðbrögð fólks við þeim í athugasemdakerfinu á visir.is og á facebook síðu Vísis. Það var umsjónarmaður facebooksíðu sem ber heitið “Leikmaður sem les Biblíuna” sem vakti athygli mína á þessum viðbrögðum.

Viðbrögðin við greininni um stúlkuna voru æði misjöfn, allt frá því að vera hrós til hennar fyrir hugrekki og til ásakana um að henni hafi nú bara verið nær og hvað hún héldi nú eiginlega að hún væri. Hún var kölluð “ljóska” og af nokkrum talin athyglisjúk.

Athugasemdirnar við báðar greinarnar voru bæði ritaðar af körlum og konum.

Viðbrögðin við greininni um karlmanninn voru af allt öðrum toga og eingöngu jákvæð. Hann var sagður vera með stærsta gullhjartað og vera fallegasta mannveran á þessari jörð, stórkostleg manneskja og hetja. Fólk vonaði að þeir sem hefðu gert honum þetta myndu skammast sín. Og svo var hann hvattur áfram.

Ég tel að þessi ólíku viðbrögð endurspegli því miður algeng viðhorf í samfélaginu okkar um að það sé ekki sama hvort það er karl eða kona sem verður fyrir ofbeldi. Konum er oftar sagt að leita að orsök ofbeldisins hjá sjálfum sér á meðan ofbeldi gegn körlum er öðrum að kenna en þolandanum sjálfum.

Via Dolorosa
Fyrir um það bil mánuði síðan fór ég á ljósmyndasýningu sem heitir Via Dolorosa og er eftir listakonuna Elisabeth Ohlson Wallin. Þessi sýning hefur farið á milli kirkna í Svíþjóð en ég sá hana í kirkju heilags Jóhannesar í Malmö, ásamt unglingum og leiðtogum úr Grafarvogskirkju.

Sýningin gengur út á að skoða þjáningu og ofbeldi í samtímanum út frá píslargöngu Jesú. Ofbeldið sem Wallin tekur fyrir í sýningunni er einelti.

Þessi sýning hafði mikil áhrif á mig og kom með enn eitt sjónarhorn á píslargönguna og upprisu Jesú Krists. Það sem er svo sláandi við sýninguna er hvernig listakonunni tekst líkja saman þjáningu þess er verður fyrir einelti og þeirri skelfilegu þjáningu sem átti sér stað allt frá því Jesús var dæmdur af Pontíusi Pílatusi og þar til hann var lagður í gröf.
Ofbeldið byrjar á því að einhver er valin(n) úr til þess að verða fyrir eineltinu. Það magnast eins og svipuhögg. Sá sem verður fyrir ofbeldinu þarf að bera sinn kross sjálfur eins og Jesús þurfti að gera. En stundum er hægt að fá hjálp annarra við að bera hann stutta stund. Að lokum getur ofbeldið orðið eins og að vera krossfest fyrir framan alla. Fólkið stendur fyrir framan krossinn með símana og myndavélarnar og niðurlægingin og skömmin er komin á netið um leið. Einmannaleikinn sem kemur í kjölfarið er eins og að vera staddur í myrkasta grafhýsi. Þá hafa allir yfirgefið þig því engin(n) vill smitast af þolandanum.

Þessa lýsingu, þessa píslargöngu er hægt að heimfæra upp á allt ofbeldi. Ofbeldi gegn konum, börnum og körlum.

Það er fullt af fólki í þessum heimi sem hefur þurft að líða jafn skelfilegt ofbeldi og Jesús kristur leið. Þau eru mörg sem vita hvernig það er að vera krossfest og þau eru mörg sem þekkja það að verða fyrir svipuhöggum og vera lögð í grafhýsi. Jafnvel af þeim sem þau treystu.

Þú ert svo miklu meira
En sagan endaði ekki þarna. Ljósmyndasýningunni lauk ekki þarna. Og sagan um myndbirtingarnar hér í upphafi endar ekki þarna.

Ljósmyndasýningunni lauk með upprisumynd. Myndin var af þolanda eineltisins sem verið var að tollera eins og sigurvegara. Hún hafði nefnilega sigrað þegar hún uppgötvaði að hún var svo miklu meira en ofbeldið sem hún hafði orðið fyrir. Hún var ekki ofbeldið. Hún var meira.

Þegar þú, sem hefur orðið fyrir ofbeldi og óréttlæti, áttar þig á þessu alveg inn að hjartarótum, þá hefur þú risið upp frá dauðum. Alveg eins og Jesús Kristur reis upp á páskadags morgun. Þá hefur hið góða sigrað.

Fólkið sem ég sagði frá í upphafi varð fyrir ofbeldi. Þau urðu bæði fyrir grófu einelti þar sem þau voru sýnd nakin og varnarlaus án þess að hafa valið það sjálf. En þau risu upp. Þau notuðu mismunandi aðferðir en bæði hafa áttað sig á því að þau eru svo miklu meira en þetta ofbeldi. Og jafnvel þó enn séu einhver að reyna að draga stúlkuna niður, halda skömminni hjá henni og kenna henni sjálfri um ofbeldið þá vona ég að hún láti það ekki hafa áhrif á sig. Því upprisa Jesú Krists segir henni að hún sé svo miklu meira en þetta.

Og það er þess vegna sem við komum saman hér til að halda hátíð. Við erum upprisin. Og Jesús er upprisin. Píslarsögunni lauk með sigri þolandans. Lífið sigraði dauðann.

Hið góða mun alltaf sigra hið illa að lokum. Jesús sigraði dauðann og þú sigrar ofbeldið með því að skilja að þú er meira en það. Þess vegna borðum við páskaegg í dag og drekkum súkkuðlaði með morgunmatnum.

Þess vegna lifir kristin kirkja hvað sem hver segir. Og þess vegna getum við sett upp veggi vonar og ritað nöfn þeirra sem stóðu með okkur þegar við þurftum á því að halda.
Amen.