Skip to main content
Flokkur

Pistlar

Aðventuheimsóknir? – Áskorun til trú- og lífsskoðunarfélaga

Eftir Pistlar

Þessi grein birtist í Fréttablaðinu á aðventunni 2015.

Þann 11. desember birtist grein eftir Halldór Auðar Svansson undir nafninu “Píratar og kirkjuheimsóknir”. Þetta var málefnaleg grein og langar okkur til þess að bregðast við henni og halda áfram að velta fyrir okkur þessu heita máli sem heimsóknir skólabarna í kirkju á aðventu eru fyrir nokkrum hópum í samfélaginu.

Til að byrja með viljum við ítreka það að staðan er þannig í dag að kirkjurnar í Reykjavík líta á þessar heimsóknir sem fræðsluheimsóknir en oft eru þetta í raun aðventuskemmtanir skólanna en ekki kirkjunnar. Áður en hópar koma í kirkjuna er haft samráð við stjórnendur um fyrirkomulagið og hlutverk prestsins er yfirleitt að leiða samkomuna og oftar en ekki að segja fallega sögu með góðum boðskap tengdum jólum. Að öðru leyti ákveða skólarnir dagskrána og stýra henni, t.d. er algengt að börn komi fram og spili á hljóðfæri, syngi o.s.frv.

Við viljum halda því fram að kirkjunnar fólk í Reykjavík vandi sig mjög við að fylgja ströngum reglum Reykjavíkurborgar sem gilda um þessar heimsóknir.

Við erum sammála Halldóri um það að ekki eigi að setja börn í þá stöðu að þurfa að útskýra trúar- eða lífsskoðanir sínar. Við lítum svo á að í dag séu þessar heimsóknir þess eðlis að ekkert barn eigi að þurfa að sitja eftir þegar farið er í slíkar heimsóknir. Ekki frekar en að barn velur hvort það hlusti á suma rithöfunda kynna bækur sínar í skólunum fyrir jólin eða ekki eða hvort börn á frístundarheimilum fari í heimsókn á Domino´s að baka pizzur.

Við erum sammála Halldóri um þá tvo möguleika sem hann telur vera raunhæfa, þ.e. annars vegar að kirkjur hætti að taka á móti heimsóknum grunnskólanna á aðventunni og bjóði sjálfar upp á aðventustundir t.d. í samvinnu við foreldrafélögin eða að opna skólastarfið alveg fyrir því að öll trú- og lífsskoðunarfélög bjóði skólabörnum í heimsókn á hátíðum tengdum sínum trúar- eða lífsskoðunum. Staðan eins og hún er í dag er óviðunandi og við upplifum að umræðan um trú og trúariðkun sé að verða eins og umræðan um kynlíf var í kringum 1950 þ.e. feimnismál og mikið gert úr því að trú hvers og eins sé hans eða hennar einkamál.

Í stefnu Reykjavíkurborgar í fræðslumálum frá árinu 2005 (það var eina formlega stefnan sem við fundum á vef Reykjavíkurborgar) kemur fram að skólinn eigi að vera í góðum tengslum við nærumhverfi sitt og að skólastarf hafi í auknum mæli færst út fyrir skólabygginguna til að stuðla enn frekar að góðum árangri og þroska nemenda. Þar kemur einnig fram að nemendur vinni verkefni úti í náttúrunni og fari í fyrirtæki og stofnanir til kynningar og starfa.

Því viljum við hér með hvetja öll trú- og lífsskoðunarfélög til þess að bjóða grunnskólabörnum í heimsókn í sínar kirkjur, moskur, hof eða samkomusali á hátíðum er tengjast þeirra trú- eða lífsskoðun og kynna börnin fyrir sínum hugmyndum eða trú. Þar með fá börn virkilega möguleika til að að kynna sér ólík trúarbrögð og lífsskoðanir. Það er nefnilega ekki nóg að segja að barnið eigi að fá að velja sjálft sína lífsskoðun þegar þar að kemur en kynna það síðan ekki fyrir öðru en því sem foreldarnir aðhyllast, enda teljum við það ekki í anda umburðarlyndis og víðsýni.

Við viljum að samfélag okkar sé opið og gefi öllu fólki rými til að tjá lífs- og trúarskoðun sína óáreitt. Við höfum ekki áhuga á að lifa í samfélagi þar sem foreldrar þurfa að láta börnin sín sitja á bókasafninu á meðan flestir bekkjarfélagarnir fara að kynna sér blót ásatrúarfólks eða jól kristinna enda sé um fræðslu að ræða sem fellur undir aðalnámsskrá. Trú og trúariðkun er órjúfanlegur hluti af lífsflórunni og þegar upp er staðið eru það foreldrarnir sem hafa ríkustu áhrifin á barnið.

Við endurtökum því hvatningu okkar og skorum á öll trú- og lífsskoðunarfélög að bjóða grunnskólabörnum í heimsókn á hátíðum og kynna fyrir þeim starfsemi sína.

Guðrún Karls Helgudóttir og Arna Ýrr Sigurðardóttir, prestar