Japanir og grímurnar
Þið hafið væntanlega tekið eftir því að margir Asíubúar (aðallega frá austur Asíu) notar oft andlitsgrímur eða svona grímur sem hylja vitin, munn og nef. Ég taldi lengi vel að ástæðan fyrir þessari notkun á grímunum væri að verja sig fyrir mengun í umhverfinu. Nú hef ég verið svo lánsöm að koma til Japan tvisvar sinnum og ferðast aðeins um landið og þá hef komist að því að nokkrar mismunandi ástæður eru fyrir því að Japanir nota þessar grímur.
Ein ástæða er vissulega mengun. Önnur ástæða er að ef fólk er kvefað og slappt þá notar það grímurnar til að smita ekki annað fólk og vill kannski að einhverju leyti verja sig fyrir smiti. Fyrst og fremst er þó verið að hugsa um að smita ekki aðra. Enn önnur ástæða er að gríman er notuð til að setja mörk, búa til eigið rými sem hver sem er fær ekki aðgang að.
Fyrir okkur sem búum í landi þar sem stærsti hlutinn er óbyggður og við þurfum aldrei að fara langa leið til þess að vera ein, er þessi notkun framandi. Japanir búa ekki við þennan lúxus þar sem húsin eru þétt, bæði í sveit og borg, íbúðirnar litlar og allsstaðar er fullt af fólki. Fólk þarf því alltaf að vera í einhverskonar samskiptum við annað fólk og kemst ekki svo auðveldlega í burtu. Margt fólk hefur því brugðið á það ráð að setja upp þessar grímur til þess að geta verið í friði. Það er erfiðara að þekkja fólk í sjón sem hylur vit sín og með grímunni getur þú búið þér til svolítið eigin rými, sem er algjörlega þitt, fyrir innan grímuna. Það er lítið og breytir kannski ekki mjög miklu en það er þitt. Og skilaboðin með grímunni eru líka skýr um að vera látin(n) í friði. Nánar
Nýlegar athugasemdir