
Prédikun flutt á prestastefnu í Seltjarnarneskirkju 1. sunnudag í páskum 2025
Efinn þinn
Hvað gerir þú við efann þinn? Tekurðu honum alvarlega og gefur honum rými, deilir honum jafnvel með einhverjum sem þú treystir og skoðar hann frá öllum hliðum? Eða lokar þú hann ofan í skúffu og læsir jafnvel á eftir vegna þess að hann er of óþægilegur? Ja, eða finnur þú ef til vill aldrei til efa.
Hvernig bregst þú við efa annarra? Þeirra sem leita til þín sem prests, djákna, vinar…?
Það gladdi mig mjög að sálmurinn sem við syngjum hér á eftir, „Á, handlegg minn er húðflúraður efinn“ eftir Sigurbjörgu Þrastardóttur og Atla Heimi, fór inn í nýútkomna sálmabók Þjóðkirkjunnar. Það er nefnilega mikilvægt að allar víddir sambands manneskjunnar og Guðdómsins fái rými í sálmasöng. Í þessum sálmi tekst skynsemin, lífsreynslan á við vonina um að eitthvað æðra sé til. Eitthvað sem leiðir okkur um leiðarkerfi lífsins. Glíma sem flest okkar þekkja.
Fyrir nokkru ræddi ég trú og efa við tvo unga karlmenn sem virtust óhræddari við efann en trúna. Eitt af því sem aftraði þeim frá því að taka skrefið í átt til trúar var skynsemin sem gaf þeim ekki leyfi til þess að trúa á „karlinn í himninum“ eins og þeir orðuðu það. Þessir ungu menn hafa báðir valið að nefna börnin sín, ekki vegna þess að þeir séu á móti trú, kristni eða skírninni heldur einfaldlega vegna þess að þeim fannst skírnin svo stórt skref auk þess sem vinirnir voru flestir með nafnaveislur í stað þessa að láta skíra börnin sín. Þeir töldu sig einfaldlega ekki nógu trúaða. Það sem þeir þó áttu sameiginlegt var gríðarlegur áhugi á trúnni og löngun til að velta henni fyrir sér og ræða hana við einhvern sem trúir. Mér þykir líklegt að töluvert mikið af ungu fólki sé á svipuðum stað og þessir tveir ungu menn þegar kemur að trú og tilvistarspurningum sem hefur áhrif á val þeirra þegar kemur að stóru stundunum í lífinu.
Efi Tómasar
Af einhverjum ástæðum var Tómas ekki viðstaddur þegar Jesús birtist óttaslegnum lærisveinum sínum þar sem þeir höfðu læst að sér af ótta við yfirvöld. Ekki er fráleitt að álykta að Tómas hafi verið illa haldinn af „FOMO“, sem útleggst á ensku sem „fear of missing out“ eða „ótti við af missa af“. Hann var sá eini sem ekki var með og varð að gera sér að góðu sögur hinna. Í það minnsta var hann ekki tilbúinn til að láta sér nægja lýsingar vina sinna á fundinum með frelsaranum.
Hann vildi meira.
Hann vildi fá að vera með.
Hann vildi fá að hitta Jesú eins og hin.
Nú er alls ekkert víst að Tómas hafi verið einhver sérstakur efasemdamaður yfirleitt, þó að þessi frásögn, sem við heyrðum í guðspjalli gærdagsins, gefi honum þann stimpil. Hann vildi aðeins fá að upplifa það sama og hópurinn sem var viðstaddur þegar Jesús birtist þeim.
Reyndar má vel halda því fram að það hafi verið ákveðið heilbrigðismerki að efast um upprisuna enda um afar óvenjulegt og ótrúlegt fyrirbæri að ræða. Það gerðu og lærisveinarnir allir með tölu þegar konurnar færðu þeim fréttirnar fyrst. Þeir trúðu þegar þeir sáu.
Og nú kemur það áhugaverðasta, Jesús kemur og birtist þeim aftur þegar Tómas er með þeim og sýnir honum það sem hann þarfnast til þess að trúa. Jesús mætti Tómasi þar sem hann var staddur, í efanum og óörygginu.
Þar velur Jesús að koma til hans og veita honum það sem hann þarfnast. Þarna sýnir Jesús að það er í lagi að efast. Þrátt fyrir að það sé sælt að trúa án þess að hafa fengið að koma við sárin þá er hann tilbúinn til að koma til móts við þann sem þarfnast meira.
Að mætast
Á sama hátt mætir Jesús þér sem efast. Hann kemur til þín og er með þér í efanum. Þú þarft ekki að eiga stöðuga og sterka trú til þess að eiga skjól hjá Guði. Þetta er engin keppni um það hver trúir mest og best enda hvetur efinn til gagnrýni, áframhaldandi rannsóknar og meiri prófana.
Efi er því nauðsynlegur í samfélagi fólks…líka í trúarsamfélagi. Efi er ein leið til aukins þroska og dýpri þekkingar.
Og nú langar mig að beina sjónum okkar að viðbrögðum Jesú við efanum. Hvernig getum við byggt á þeim viðbrögðum í þjónustu okkar í Þjóðkirkjunni. Ef Jesús hefur fyrir því að mæta manneskju mitt í efanum hversu mikilvægt er þá ekki að við, þjónar Guðs mætum fólki þar sem það er statt.
Hlutverk Þjóðkirkjunnar er að biðja, boða og þjóna og er við mætum fólki, hvort sem er í helgihaldi, kirkjustarfi eða í sálgæslu þá er hlutverk okkar fyrst og fremst að mæta fólki þar sem það er statt. Því er nauðsynlegt að tala tungumál sem fólk skilur, bjóða upp á helgihald þar sem fólk upplifir sig velkomið og mæta fólki í sálgæslunni þar sem fólk er, hvort sem það er í trú eða efa.
Jesús veit hvers þú þarfnast og mætir þér þar. Á sama hátt er það hlutverk kirkjunnar þjóna að mæta fólki með það sem það þarfnast. Ég heyri stundum sagt að kirkjan eigi ekki að elta nútímann, ekki fylgja tískustraumum eingöngu til þess að ná til fólks. Hlutverk kirkjunnar er reyndar fyrst og fremst að ná til fólks. Ef kirkjan nær ekki fram með boðskap sinn þá er hún ekki að uppfylla hlutverk sitt. Þá getur hún ekki, boðað eða þjónað. Af þessum sökum er brýnt að ný og uppfærð Handbók komi út sem fyrst þar sem tungumál hennar mun verða aðgengilegra öllum. En eitt af markmiðunum með nýrri Handbók er einmitt að vera aðgengileg, á tungumáli sem flestir Íslendingar eiga að geta skilið og um leið virða okkar dýrmætu hefðir og arfleifðina sem tengir okkur við aðrar kristnar kirkjur í heiminum.
Það er orðið harla brýnt að út komi Handbók sem samræmir helgihald Þjóðkirkjunnar á ný. Við munum ekki öll fá óskir okkar uppfylltar þegar kemur að Handbókinni en vonandi tekst okkur þó, með vinnu hennar að gera kirkjuna enn aðgengilegri og um leið skapa einingu í helgihaldinu okkar.
Já, það er ekki aðeins mikilvægt heldur hreinlega nauðsynlegt kirkju sem tekur hlutverk sitt alvarlega að mæta fólki þar sem það er statt. Að sjálfsögðu getum við ekki hlaupið eftir öllu enda gerði Jesús það sannarlega ekki þrátt fyrir að hann mæti fólki þar sem það var. Við kirkjunnar þjónar verðum einnig að setja mörk í þjónustunni. Við endumst ekki heila starfsævi sem prestar, djáknar eða biskupar ef við setjum ekki sjálfum okkur og öðrum mörk.
Þrátt fyrir það ber okkur að koma til móts við fólk eins og mögulegt er innan heilbrigðra marka. Því eigum við að fagna því ef til okkar leitar fólk sem efast eða trúir ekki. Við eigum ekki, frekar en Kristur, að setja trú sem skilyrði fyrir þjónustu. Það getur mögulega þýtt að við þurfum að taka tillit til fólks þegar kemur að orðalagi í athöfnum og það er sjálfsagt að koma til móts við það svo lengi sem athöfnin heldur sínum kristnu einkennum. Tómas játaði upprisinn Jesú frá Nasaret sem Drottinn sinn og Guð eftir að Jesús hafði tekið efa hans alvarlega, sýnt honum sárin.
Ég held að við, sem þjónar kirkjunnar, og almennt sem kristnar manneskjur, getum gert mörgu ungu fólki gagn með því að deila í einlægni okkar eigin trú og mæta því þannig hvort sem er í efanum eða trúnni. Jesús sýndi Tómasi jú, sárin.
Efinn þinn
Já, hvernig bregst þú við þínum eigin efa? Viðrar þú hann, tekur honum alvarlega og deilir honum jafnvel með öðrum eða skammast þú þín fyrir hann og vilt ekki af honum vita? Ja, eða efast þú ef til vill aldrei?
Ekki skammaði Jesús Tómas fyrir efann. Nei hann tók mark á honum enda var hann nauðsynlegur.. Ef til vill er besta ráðið að finna í sálminum um efann sem við syngjum hér á eftir, að þiggja lausn, sjónauka og sverð þrátt fyrir að efinn sé húðflúraður á handlegg þinn.
Dýrð sé Guði sem réttir þér lófann, tekur þéttingsfast í hönd þína og mætir þér í augnhæð hvar sem þú ert í trú og efa.
Amen.
Nýlegar athugasemdir