Skip to main content
Monthly Archives

október 2024

Bjart yfir kirkjunni

Eftir Pistlar

Ávarp biskups Íslands við setningu kirkjuþings 26. október 2023

Forseti kirkjuþings, dómsmálaráðherra, vígslubiskupar, kirkjuþingsfulltrúar og góðir gestir.

Það er bjart yfir Þjóðkirkjunni.

Og það er virkilega hvetjandi að hlýða á orð forseta kirkjuþings og dómsmálaráðherra. En þessi birta er ekki sjálfgefin. Við sem erum hér þurfum að hafa fyrir því að skapa þessa birtu og viðhalda henni. Það er þannig samstarfsverkefni okkar, sem erum samankomin hér, ásamt kirkjufólki í landinu, að skapa það umhverfi í kirkjunni sem við viljum. Við gegnum, hvert og eitt mikilvægu hlutverki í þessu samhengi og því er ákaflega brýnt að á milli okkar ríki virðing og traust.

Eins og þið heyrið er ég bjartsýn og þessi bjartsýni eykst með hverjum degi á biskupsstóli.  Ég tel mig reyndar hafa góða ástæðu fyrir bjartsýni því ýmis teikn eru á lofti um bætta stöðu þjóðkirkjunnar í samfélaginu. Nýjustu tölur frá Þjóðskrá Íslands benda til viðsnúnings í skráningum í Þjóðkirkjuna en nú hafa í fyrsta sinn í mörg ár fleiri skráð sig í kirkjuna er úr. En þegar andlát eru tekin með stöndum við á sléttu. Ég er nú, ásamt framkvæmdarstjóra og samkiptastjóra með áform um að setja af stað vinnu við að rýna í skráningamál og vinna í því með kerfisbundnum hætti að fjölga í meðlimum Þjóðkirkjunnar.

Ég lít á það sem eitt af hlutverkum biskups að lyfta kirkjunni upp í samfélaginu og auka sýnileika hennar en það geri ég sannarlega ekki ein heldur með kirkjufólki um land allt, með ykkur. Til þess að sinna þessu hlutverki tel ég nauðsynlegt að biskup og starfsfólk Biskupsstofu sé í beinu og milliliðalausu sambandi við sem flest kirkjufólk vítt og breitt um landið.

Hluti af þessu er sú nýbreytni í þjónustu biskups að bjóða upp á færanlega skrifstofu með reglulegu millibili í hverjum landshluta. Fyrsta skrifstofan var á austurlandi í síðustu viku og var sú ferð ákaflega vel heppnuð. Næst á dagskrá er ferð á suðurlandið í nóvember, á norðurland í janúar og á vestfirði í maí. Það er nauðsynlegt fyrir biskup að vera í tengslum við kirkjufólk um landið og að kynnast veruleika þeirra er starfa við ólíkar aðstæður. Þá er ekki síður mikilvægt fyrir fólk um allt land að hafa eins greiðan aðgang að biskupi og mögulegt er.

Hlutverk Þjóðkirkjunnar er að biðja, boða og þjóna. Hlutverk kirkjuþings er að skapa ramma utan um þessa þjónustu og þetta hlutverk kirkjunnar. Hlutverk biskups er m.a. að skipuleggja þjónustuna, hlúa að þjónunum og gæta þess að einungis fyrirmyndarþjónusta sé veitt. Ég þarf ekki að segja ykkur hér að tímarnir breytast og fólkið með. Og þó að boðskapur Krists og kirkjunnar standist tímans tönn þá er kirkjan ekki ónæm fyrir samfélagslegum breytingum. Til þess að geta veitt fyrirmyndar þjónustu verðum við að vera vakin og sofin yfir því hvar við getum gert betur.

Biskupafundur er nú að hefja vinnu við að endurskoða og endurmeta vígða þjónustu kirkjunnar um landið allt. Það gerum við með það að leiðarljósi að veita gæðaþjónustu á sem flestum stöðum þrátt fyrir að við horfum nú fram á skort á prestum. Það er ekki til neins að loka augunum fyrir þeim vandamálum er við okkur blasa og við verðum að vera óhrædd við að horfast í augu við þau og taka á þeim. Við stöndum nú frammi fyrir prestaskorti og þeirri staðreynd að sumar stöður er erfiðara að manna en aðrar. Við verðum að sníða okkur stakk eftir vexti og nú er komið að því að huga að þjónustu kirkjunnar með skapandi hætti og jafnvel fara nýjar leiðir í þjónustunni á þeim stöðum sem erfitt hefur verið að manna. Við þurfum að öllum líkindum að grípa til aðgerða til að auka áhuga presta á embættum á vissum stöðum t.d. með hússnæðisstyrkjum og auknum stuðningi á sumarleyfistímum. Preststarfið er ekki eins um landið allt og mikilvægt er að við horfumst í augu við það og leggjum okkur fram um að hlúa að öllum þjónum kirkjunnar hvar á landi sem þeir eru. Við munum fá faglega ráðgjöf við þessa vinnu auk þess sem við vinnum þetta í góðu samtali við framkvæmdarstjóra rekstrarsviðs Biskupsstofu og fáum álit ýmissa aðila.

Í þessu ljósi tel ég einnig mikilvægt að kirkjan komi með einhverjum hætti að kynningum á námi í guðfræðideild og að við eflum kirkjuna enn frekar sem öruggan og góðan vinnustað.

Nú hefur ný starfsmannastefna Þjóðkirkjunnar verið tekin í notkun og send þeim sem eiga í ráðningasambandi við Þjóðkirkjuna. Stefnuna er hægt að nálgast á heimasíðu kirkjunnar.

Í byrjun mánaðar tókum við á leigu húsnæði við Tjarnargötu 4 þar sem móttökurými biskups verður til húsa næstu ár. Húsnæðið er ekki alveg tilbúið enn og því mun ég bjóða til móttöku í safnaðarheimili Dómkirkjunnar á mánudaginn kl. 19 og vona að þið sjáið ykkur öll fært að koma. Á næsta kirkjuþingi verður ykkur síðan öllum boðið til móttöku í þessum nýja biskupsgarði.

Í Jesaja spámanni segir:

„Minnist hvorki hins liðna
né hugleiðið það sem var.
Nú hef ég nýtt fyrir stafni,
nú þegar vottar fyrir því,
sjáið þér það ekki?Ég geri veg um eyðimörkina
og fljót í auðninni.“

(Jes. 43:18-19)

Þessi orð minna okkur á að þó að það sé ákaflega mikilvægt að líta til baka, byggja á hefðum og halda í hin góðu gildi sem komu okkur þangað sem við erum þá er ekki síður mikilvægt að vera kjörkuð og horfa til framtíðar án þess að láta fortíðina fjötra okkur. Kirkjuþingið verður að vera kjarkmikið og óhrætt þegar kemur að því að móta framtíð kirkjunnar og ekki síst treysta Guði sem gerir veg um eyðimörkina og fljót í auðninni. Kirkjufólk um land allt fylgist með kirkjuþingi því hér eru teknar ákvarðanir er varða framtíð kirkjunnar. Því er svo mikilvægt að kirkjuþing gangi á undan með góðu fordæmi er varðar samvinnu, traust og virðingu fyrir náunganum. Traust kemur ekki sjálfkrafa heldur er það er áunnið. Viðmót, ákvörðun, heiðarleiki og góð sjálfsþekking er grundvöllur góðrar samvinnu.

Ég hlakka til að taka þátt í þessu kirkjuþingi!

Að lokum við ég þakka forseta kirkjuþings, forsætisnefnd, starfsfólki kirkjuþings og Biskupsstofu fyrir undirbúning þingsins. Ég þakka ykkur kæru kirkjuþingsfulltrúar fyrir ykkar miklu vinnu við undirbúning þingmála og störf ykkar hér á þinginu. Þá vil ég þakka Kyrju fyrir dásamlegan tónlistarflutning og organistanum Erlu Rut Káradóttur.

Þá vil ég nota þetta tækifæri til þess að þakka forvera mínum frú Agnesi M Sigurðardóttur fyrir hennar dyggu og trúu þjónustu við Þjóðkirkju Íslands.

Guð blessi þetta kirkjuþing og okkur öll.

Griðastarður í 90 ár

Eftir Fréttir, Prédikanir

Prédikun flutt í Víkurkirkju í Vík í Mýrdal í tilefni af 90 ára afmæli kirkjunnar 6. október 2024.

Stórbrotin náttúra
Kæri söfnuður, innilega til hamingju með afmælið!
90 ár, og enn stendur kirkjan hér í Vík jafn tignarleg og fögur á einum glæsilegasta kirkjustað landsins. Víkurkirkja er sannarlega eitt helsta kennileiti Víkur ja, ef frá eru taldir Reynisdrangarnir, Dyrhólaey, Víkur- og Reynisfjara, Hjörleifshöfði og Mýrdalsjökull. Einmitt, hér skortir ekki tignarlega náttúru enda er Vík og Mýrdalurinn nú einn eftirsóttasti ferðamannastaður landsins. Því fylgja bæði einstök tækifæri en ekki síður áskoranir.

Í barnæsku minni hékk málverk í borðstofunni hjá afa mínum og ömmu þar sem myndefnið voru menn á opnum árabáti á leið til sjóss hér frá Víkurfjöru. Myndin er áhrifamikil því hvítflissandi öldurnar eru allt í kringum bátinn en farmurinn var ull sem væntanlega var á leið í skip. Það er augljóst á þessari mynd að það var ekki létt verk að róa frá Vík. Þetta verk hangir nú á heimili foreldra minna en ég komst að því síðar að á þessu málverki, sem er málað eftir ljósmynd, má sjá langafa minn og félaga hans en hann var formaður á báti sem ýmist flutti varning til og frá skipi sem lagði hér fyrir utan eða stundaði fiskveiðar. Það er nóg að virða þetta málverk fyrir sér stutta stund til þess að gera sér í hugarlund hversu erfitt það hefur verið að róa út héðan frá Vík enda hefur aldrei verið hér höfn og mjög brimsamt og því var ekki óalgengt að slys yrðu þegar bátarnir komu að landi. Já, og þeir voru margir sjómennirnir sem skiluðu sér ekki heim úr róðri.

Ég kom oft til Víkur sem barn og þá oftar en ekki með afa mínum og ömmu enda afi minn fæddur og alinn upp hér í Reynishverfinu. Erindi ferðanna var að heimsækja fjölskyldu og vini auk þess sem ég tel líklegt að margar haustferðirnar hafi verið í því augnamiði að sækja fýl þ.e.a.s. eftir að afi hætti að veiða hann sjálfur. Ég er sem sagt alin upp við að borða fýl.

Ég var ekki gömul er ég heyrði fyrst sagt frá Kötluógninni og sú hugsun hefur aldrei alveg vikið úr huga mér og dáist ég að því æðruleysi sem er grundvöllur þess að lifa og búa á stöðum eins og Vík þar sem ógnir náttúrunnar minna sífellt á sig – stundum á hverjum degi.

Já, Vík og nágrenni hefur alltaf staðið fyrir nokkra dramatík í mínum huga enda náttúrufegurðin svo tilkomumikil að hún lætur enga manneskju sem hingað kemur ósnortna.

Fyrir ykkur sem hér búið er þetta sjálfsagt allt saman frekar hversdagslegt þar sem þið hafið þessar perlur fyrir augunum alla daga. En það sama má ekki segja um okkur sem hingað komum sem gestir. Enda er þetta einn áhrifamesti ferðamannastaður landsins.

Allt er breytt en fólkið er eins
Það má með sanni segja að hér hafi margt breyst frá því ráðist var í að reisa hér kirkju fyrir 90 árum. En það sem ekki hefur breyst er manneskjan. Við höfum sömu þarfir og fyrir 90 árum þó að þær taki á sig aðrar birtingamyndir. Ýmislegt er manneskjunni auðveldara í dag en þá en þrátt fyrir að tæknin hafi umbreytt öllu okkar lífi erum við í grunninn eins.

Biblían sýnir okkur þetta svo ljóslega því fólkið sem þar er sagt frá er ekkert öðruvísi en við. Vissulega var það uppi á öðrum tímum og á öðrum stað í heiminum en það hafði sömu þarfir og við. Biblían fjallar í grunninn um samband manneskjunnar við Guð á ólíkum tímum og það hefur ekki breyst. Einhver sagði að það væri aðeins ein manneskja í Biblíunni sem væri í lagi, og að það væri Jesús. Það er mikið til í því en á því er líka mjög einföld skýring. Það er vegna þess að breyskleiki okkar birtist með svo skýrum hætti í tengslum okkar við almættið. Það er þegar lífið verður flókið og erfitt sem við virkilega leitum eftir tengslum við Guð.

Í guðspjalli dagsins er sagt frá því er Jesús finnur fylgjendur sína, lærisveina. Það má orða það þannig að hann sé að ráða fólk í vinnu. Hann velur þarna menn sem koma til hans um leið og hann kallar og þeir treysta honum um samstundis. En við heyrum einnig um Natanel sem er alls ekki tilbúinn til að gleypa við því að Jesús sé eitthvað merkilegur enda telur hann ólíklegt að eitthvað gott komi frá Nasaret. Ef til vill glittir hér í klassíkan hrepparíg eða skemmtilega kaldhæðni. Í það minnsta er Natanel ekki tilbúinn til þess að trúa því að Jesús sé sá sem vinir hans segja hann vera. Jesús móðgast ekkert við þessi viðbrögð enda sjálfsagt ýmsu vanur. Og hér kemur það áhugaverða, hann horfir í augu Natanels og lætur hann vita að hann sjái hann. Hann fær Natanel til þess finna að hann skipti máli. „Ég sá þig undir fíkjutrénu“, segir Jesús og sýnir honum að hann er raunverulega vakandi fyrir umhverfinu og fólkinu sem hann mættir. Að hann horfir á fólk en ekki í gegnum það.

Þarna held ég að við séum komin með lykilatriði í þessum guðspjallstexta sem gefur okkur vísbendingu um hvað það er sem skiptir máli þá … og skiptir enn máli í dag. Að Jesús horfði ekki bara á manninn heldur sá hann, hann.

Flóknir tímar
Þessa dagana er mikið rætt um stöðu samfélagsins og líðan okkar út frá hörmulegum atburðum sem hafa átt sér stað á þessu ári. Þegar Bryndís Klara var drepin óskaði fjölskyldan hennar eftir því að eitthvað gott kæmi út frá því voðaverki svo martröð þeirra yrði aldrei að martröð annarra. Við erum mörg sem höfum brugðist við þessu enda er samfélagið sem foreldrar Bryndísar kölluðu þar eftir, eitthvað sem við viljum öll.

Eins og svo oft áður finnum við svörin í Biblíunni. Ég trúi því nefnilega að í guðspjalli dagsins sé að finna sterka vísbendingu um hvernig við getum snúið samfélaginu af braut tómlætis og firringu sem of mörg okkar  upplifa í dag. Sagan af Jesú og Natanel er saga um samskipti einstaklinga. Hún er saga af persónulegum samskiptum og snertingu einstaklinga.

Það breytti lífi Natanels að Jesús sá hann. Hann fór að trúa og eignaðist þannig tilgang og merkingu. Við erum ekkert öðruvísi en Natanel. Öll þráum við að vera séð. Að einhver sjái hver við raunverulega erum.

Við erum nefnilega svo harla fín einmitt eins og við erum og það skiptir máli að við sjáum það góða, fagra og fullkomna í hvert öðru. Að við sjáum hvert annað.

Jesús sér það. Jesús sér þig og Jesús sér mig. En sjáum við hvert annað?

Lítið í kringum ykkur. Lítið á manneskjuna sem situr við hlið ykkar nú. Hvað sjáið þið? Lítið á börnin ykkar. Lítið á maka ykkar, foreldra, vini. Lítið á fólkið á undan ykkur í röðinni í Krónunni. Hvað sjáið þið?

Um þessar mundir er mikið rætt um skaðsemi snjalltækja og samfélagsmiðla og það er án efa mikið til því að við eyðum flest of miklum tíma í þessum tækjum. Og við megum ekki festast í boðhætti og tala bara um börnin í þessu samhengi. Við getum öll gert betur hér.

En gleymum þó ekki að á öllum tímum hefur eitthvað ógnað samskiptum okkar og mennsku. Börn voru líka í hættu fyrir 50 árum og 90 árum vegna alls kyns ógna, ekki aðeins í dag. Því þarf hvert samfélag að vera meðvitað um þær ógnir er steðja að unga fólkinu og mennsku okkar allra hverju sinni og vera tilbúið til þess að takast á við þau vandamál án upphrópana og fordæminga.

Fyrir 2000 árum sá Jesú Natanel og ég er sannfærð um að það virki ekki síður í dag en þá. Lykillinn er að við leggum okkur fram um að sjá hvert annað. Ekki ritstýrða glansímynd á Instagram í símanum – heldur manneskjuna sem blasir við okkur þegar við lítum upp úr símanum.

Samfélagsmiðlar eru dásamleg tæki sem geta gert heiminn minni, geta aukið á skilning okkar á ólíkum menningarheimum, geta tengt fólk og skapað vináttu. En það má ekki vera á kostnað raunverulega tengsla. Þeir mega ekki verða til þess að við glötum hinu mannlega – að við hættum að sjá hvert annað.

Griðarstaður í 90 ár
Í kirkjunni leggjum við okkur fram um að sjá hvert annað. Hér í Vík hefur þessi kirkja verið griðarstaður þeirra sem hér búa í 90 ár. Og þessi kirkja er griðarstaður í bókstaflegri merkingu því hún mun vera ein opinberra bygginga sem stendur örugg fyrir flóði vegna Kötlugoss. Kirkjan hér í Vík er því sannur griðarstaður. Í 90 ár hefur hún fært okkur öryggi. Veitt okkur skjól fyrir veðri og vindum og gefur rými til tilbeiðslu og samfélags þar sem fólk sér hvert annað.

Söfnuðurinn hér Víkurprestakalli stendur frammi fyrir ýmsum áskorunum en mannauðurinn hér er einstakur og það hefur verið gefandi að fylgjast með hvernig samfélagið hér, og kirkjan, finnur lausnir og leitar leiða til þess að takasta á við hverja áskorunina á fætur annarri. Ég veit að það gerist ekki að sjálfu sér. Úr fjarska hef ég séð vinnusemina, eljuna og drifkraftinn sem þarf til þess að halda kirkjustarfi úti og koma þaki yfir það starf. Í dag sé ég fólkið á bakvið þá vinnu. Ykkur.

Ég bið ykkur kæri söfnuður blessunar Guðs og sem biskup stend ég á meðal ykkar og hvet ykkur áfram í ykkar mikilvægu þjónustu.

Ég veit að kirkjan hér á hæðinni mun halda áfram að reynast fólki griðarstaður um ókomna tíð og vera glæsilegt tákn Víkur.

Dýrð sé Guði sem sér þig og vill að við sjáum hvert annað.
Amen.