Skip to main content
Monthly Archives

september 2024

Samkennd samfélags

Eftir Pistlar

Greinin birtist á visir.is 18. september 2024

Hann var kaldranalegur, mánudagsmorguninn 16. september þegar fréttir voru sagðar af langveikum dreng í hjólastól að hann hefði verið sóttur af lögreglufólki á Landspítalann og biði brottvísunar í haldi lögreglu á Keflavíkurflugvelli. Drengurinn hafði það til saka unnið að vera í röngu landi á röngum tíma.

Sama morgun var okkur sagt að tíu ára stúlka hafi fundist látin í hrauni við Krýsuvík, ekki langt frá Keflavíkurflugvelli. Faðir stúlkunnar var handtekinn, grunaður um morð.

Þrjú börn eru látin á þessu ári. Tvö þeirra á undanförnum þremur vikum. Þrjú barnamorð á borði lögreglu. Það er ekki að undra að við spyrjum hvað sé eiginlega að gerast á okkar friðsæla landi. Fleiri eru óhæfuverkin og harmleikirnir, því fullorðnu fólki hefur einnig verið ráðinn bani. Sjálfsvígin eru of tíð og sömuleiðis banaslysin.

Þegar of margir fréttatímar bera þess vitni að samkennd sé á undanhaldi í samfélaginu. Þegar við lesum, heyrum og sjáum að 12 ára langveiku hjólastólabundnu barni hafi verið ekið af spítala og út á flugvöll að nóttu til. Þegar þriðja barnið er myrt. Er þá ekki réttlætanlegt að staldra við og spyrja; hvernig sköpum við kærleiksríkara samfélag?

Sjálfsmynd okkar Íslendinga byggir að miklu leyti á því að sama hversu háir eða lágir stýrivextir eru, sama hvað gengur á úti í hinum stóra heimi, þá fara börnin okkar af stað út í daginn og þau skila sér heim á kvöldin. En þegar við upplifum að öryggi barna okkar sé ekki lengur tryggt á Íslandi, þá er enn og aftur eðlilegt að við stöldrum við.

Þegar Pisa-kannanir sýna að íslensk börn eiga erfiðara með að sýna samkennd en börn í löndum sem við kjósum að bera okkur saman við, þá er eðlilegt að við spyrjum okkur: Hvað gerðist?

Því er reglulega slengt fram að reglur megi ekki snúast um einstaka manneskjur. Þær verði að hafa hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi. Það kann vel að vera, en reglur samfélags mega heldur ekki vera ómanneskjulegar. Með lögum skal land byggja, lesum við á skildi lögreglunnar. En gleymum ekki síðari hluta setningar Njáls á Bergþórshvoli, „en með ólögum eyða.“ Lög sem heimila aðgerðir lögreglu aðfaranótt mánudags síðastliðins, eru ólög og þau eru ómanneskjuleg.

Þegar fullorðið fólk, og börn um leið, sjá ráðafólk takast á um það hvort spænskir spítalar séu ekki alveg nógu góðir fyrir drenginn, en skauta gjörsamlega framhjá því að lögregla hafi farið inn á barnaspítala í skjóli nætur og sótt þar sjúkling til brottvísunar, er eðlilegt að staldra við.

Við erum slegin yfir fréttum undanfarna daga, vikur og mánuði. Það er heilbrigðismerki. Það eitt og sér segir okkur að við erum fær um að elska og finna til. Það segir okkur að við getum fundið til samkenndar. Það að við séum slegin leggur grunninn að því að við getum unnið úr áföllunum og styrkt okkur sem kærleiksríkt og heilbrigt samfélag.

Jesús frá Nasaret sagði okkur að elska náungann. En hann lét ekki þar við sitja heldur sýndi okkur í verki hvað það raunverulega þýðir. Hann læknaði, hann rétti fólk við og reisti það upp. Hann fyrirgaf og hann huggaði. En hann reiddist líka óréttlæti og barðist fyrir réttlæti. Kærleikur og réttlæti haldast í hendur því bæði þurfa á hinu að halda.

Þegar við verðum fyrir áfalli er ákaflega mikilvægt að ræða það sem gerðist og hvernig okkur líður, að ræða tilfinningar okkar. Því skiptir öllu máli að boðið sé upp á vettvang þar sem hægt er að ræða erfiðar tilfinningar er tengjast atburðum undanfarna daga. Það eykur líkurnar á því að við getum létt á þyngslunum og smám saman risið upp sem heilli þjóð. Það eykur líkurnar á því að eitthvað gott og fallegt vaxi úr þessum tilgangslausu voðaverkum.

Í kirkjum landsins er vettvangur til samtals um erfiðar tilfinningar og reynslu. Þar er boðið upp á bænastundir, þar er hægt að koma inn og kveikja á kerti, sitja í þögn eða ræða við prest eða djákna. Það er einnig hlutverk fjölmiðla að skapa vettvang fyrir samtal og fræðslu þegar slík áföll verða og margir fjölmiðlar standa sig vel. Sorgin verður bærilegri ef við berum hana í sameiningu og samtalið hjálpar okkur að koma heilli frá erfiðri reynslu og vaxa með henni.

Börnin horfa til okkar fullorðna fólksins. Þau meta heiminn út frá ákvörðunum okkar; Ef við sýnum samkennd, tölum við börnin um samkennd og kennum þeim að hver einasta manneskja skiptir máli þá aukum við líkurnar á því að þau rækti með sér samkennd. Ef við kennum börnum okkar, að það að verja þau okkar sem geta ekki varið sig sjálf er sjálfsagður hluti þess að vera manneskjur og að tilheyra samfélagi, þokumst við nær því samfélagi sem við viljum vera og tilheyra.

Tökum utan um hvert annað og ekki síst börnin okkar og sýnum þeim hvernig við vinnum úr áföllum. Það er hlutverk okkar og skylda að ræða við börnin okkar og við megum alls ekki færa það mikilvæga dagskrárvald til samfélagsmiðla.

Ég votta öllum þeim sem nú eiga um sárt að binda vegna atburða undanfarinna vikna og mánaða mína dýpstu samúð og bið þess að við getum sameinast um að rísa upp í kærleika í samfélagi þar sem nægt rými er fyrir alla: litla langveika drengi og börn sem eiga það skilið að fá að lif

Alþingi án meðvirkini

Eftir Prédikanir

Prédikun flutt í helgistund fyrir setningu Alþingis

Það er ekki fyrir meðvirka manneskju að sitja á Alþingi.

Eitt hefur nefnilega lengi vakið athygli mína og það er að ég sé stundum sama fólkið og tekst á í ræðustól Alþingis, jafnvel á stundum virkilega harkalega, sitja svo saman sem mestu mátar í kaffiteríunni, um borð í flugvél eða að taka á því saman í ræktinni. Því segi ég að það sé ekki fyrir meðvirka manneskju að sitja á Alþingi. Það sem við, sem fylgjumst með störfum Alþingis, sjáum er fyrst og fremst það sem fer fram í þingsalnum en þó er það svo að öll alvöru vinnan, málamiðlanirnar og sættirnar fara fram fyrir luktum dyrum svo sem á nefndarfundum og það er ekki sýnt frá þeim samtölum og þeirri vinnu í sjónvarpinu.

Það krefst ákveðins þroska að geta umgengist og þótt vænt um fólk þó að það sé okkur ósammála í mörgum málum, já og jafnvel  í grundvallarmálum. Manneskjan er nefnilega svo miklu meira en skoðanir hennar, og hvað þá þær sem birtast á samfélagsmiðlum. Auk þess er það hverju okkar hollt að raða ekki einungis í kringum okkur fólki sem er sama sinnis og við um alla hluti. Þá endum við í bergmálshelli og förum á mis við það tækifæri að kynnast því góða fólki sem hefur það eitt til saka unnið að vera ósammála okkur um pólitík, eða trúmál. Vissulega er þægilegast að umgangast fólk sem er okkur sammála en grundvallarstef lýðræðisríkis er frelsi til ólíkra skoðana.

Dansinn
Lexía síðastliðins sunnudags er lesin var í kirkjum landsins er sagan af gullkálfinum og dansinn í kringum hann. Ég býst við að þið kannist flest við þessa sögu enda er hún hluti af menningu okkar eins og svo margar sögur Biblíunnar

Dansinn í kringum gullkálfinn segir sögu af fólki sem dýrkar eitthvað innantómt. Það dansar í kringum styttu því það þarfnast áþreifanlegs Guðs. Það býr til Guð úr gullinu sem það á í fórum sínum, úr skartinu.

Fólkið sem þarna um ræðir er statt í eyðimörkinni, langt frá allri siðmenningu. Það hefur verið frelsað af Guði og leitt úr ánauð í Egyptalandi. Leiða má líkum að því að gullið, skartgripir sem fólkið tók af sér, bræddi og mótaði sem nautkálf sé tákn þess oks er fylgt hafði þrældómnum í Egyptalandi sem þau voru nú laus undan.

Fólkið var þó ekki frjálsara en svo að um leið og leiðtoginn þeirra, Móse brá sér af bæ, upp á fjall til þess að hitta Guð sinn og sækja steintöflurnar með boðorðunum 10, myndaðist svo mikið tómarúm að þau bjuggu til styttu af kálfi eða nauti sem minnti á guðina sem þau höfðu dýrkað áður sem margir voru í kálfslíki. Ef til vill fólst ákveðið öryggi í nautkálfinum. Hann var kunnuglegur og táknaði styrk, hörku og árasargirni. Hann gat ráðist á ógnina. Það var ekkert mjúkt eða kærleiksríkt við kálfinn en hann var bæði sterkur, glóandi og áþreifanlegur.

Þegar kálfurinn er tilbúinn heldur fólkið veislu. Það dansar í kringum kálfinn og færir honum fórnir. Þau  þarfnast leiðtoga. Það er nýtt fyrir þeim að fylgja Guði sem það getur ekki gert sér greinagóða mynd af, Guðs sem ekki er hægt að snerta.

Sagan af gullkálfinum og dansinum í kringum hann er saga af fólki sem villist af leið skamma stund. Það beinir bænum sínum að veraldlegum auðæfum. Það leggur traust sitt á það sem ekkert gefur af sér nema birtu í augu og góða veislu eina kvöldstund.

Dansinn í kringum gullkálfinn er tákn um græðgi og þrá okkar eftir veraldlegum gæðum. Við föllum flest, ef ekki öll, fyrir gullkálfum og hrífumst með í dansinn í kringum hann.  Hann glóir svo fagurlega og það er svo gaman í návist hans að það er auðvelt að gleyma sér. Hann er stór og sterkur. Hann er sigurviss.

Gullkálfurinn er líka dæmi um það sem getur gerst þegar við missum sjónar af því sem raunverulega skiptir máli í þessu lífi. Á fæðingardeildinni hérna í Reykjavík verða til nýir Íslendingar á hverjum degi – hver einn og einasti þeirra eignalaus. Handan Öskjuhlíðarinnar er svo stærsti kirkjugarður landsins, fullur af fólki sem eitt sinni átti pening. Peningar færa okkur öryggi. Þak yfir höfuðið og matur á borðið kostar peninga. Ég geri ekki lítið úr því. Þeir eru verkfæri sem við notum í lífinu, en þeir eru ekki lífið sjálft.

Þegar við erum farin að lifa lífinu peninganna vegna, þá er farið að glitta í kálfinn. Peningur eru góður þjónn, en vondur húsbóndi, og enn verri guð.

Hver er gullkálfur (eða gullkálfar) dagsins í dag? Erum við búin að bræða skartið og smíða gullkálf enn eina ferðina sem samfélag eða hvert og eitt fyrir sig. Gullkálfarnir eru um allt, í einkalífi, stjórnun landsins, kirkjunni. Þeir skína svo skært og því auðvelt að hrífast með í dansinum. En allur gleðskapur tekur enda og ljósin kvikna.

Reglurnar og boðorðin
Góðu fréttirnar eru þær að Móse steig að lokum niður af fjallinu með steintöflurnar með boðorðunum tíu. Hann kom með boðskapinn beint frá Guði og stöðvaði dansinn. Hann kveikti ljósin og víman rann af fólkinu. Þetta hefur einnig gerst margoft með okkar gullkálfa og okkar tryllta dans. Við getum nefnilega stöðvað dansinn og séð skýrt á ný en stundum þarf til þess einhvern eins og Móse eða barnið sem sá nekt keisarans til þess að vekja okkur af vímunni.

Það kaldhæðnislega er að fyrsta boðorðið fjallar einmitt um það sem fólkið þarna hafði fyrir stafni. Í fyrsta boðorðinu erum við vöruð við því að dýrka dauða hluti sem ekkert gefa. Því er ekki að undra að Móse hafi orðið svo mikið um að hann kastaði steinplötunum í jörðina svo að þær brotnuðu.

Nýr tónn
Með boðorðunum 10 kom alveg nýr tónn. Boðrðin eru í raun mannréttindayfirlýsing. Þar eru að finna reglur sem eru jafn gildar í dag sem á tímum Móse. Þetta eru grundvallar umgengnisreglur sem eiga að gilda um allar manneskjur óháð stétt eða stöðu.

Hér hefur Alþingi mikilvægu hlutverki að gegna. Hvert samfélag þarf siðareglur, umgengnisreglur, mannréttindasáttmála til þess að beina okkur frá gullkálfinum, hinu innantóma. Það er samfélagsins alls að setja þessar reglur en þar er gott að Alþingi gangi á undan með góðu fordæmi. Siðareglur samfélagsins okkar höfum við sótt til kristinnar trúar í þúsund ár og sumar þeirra allt frá tímum Móse og eru því ekki einungis bundnar við kristni.

Ég hef tjáð mig um það nokkrum sinnum undanfarið að ég sé sátt við þann aðskilnað sem hefur átt sér stað á milli ríkis og kirkju. Ég tel það vera kirkjunni mikilvægt að vera ekki of nátengd ríkisvaldinu og ég held að það sama eigi við um ríkið. Kirkjan verður að vera sjálfstæð í sinni boðun en það þýðir ekki að kirkja og ríki eigi að vera ótengd að öllu leyti. Ríki og kirkja gegna að mörgu leiti svipuðu hlutverki í samfélaginu því bæði ríki og kirkja eiga að þjóna fólki og  vinna að velferð samfélagsins okkar, hvort með sínum hætti þó. Ríkið setur lögin með velferð okkar allra í huga. Kirkjan gætir að andlegri heilsu með sálgæslu og iðkun trúar, býður upp á ramma um stórar stundir lífsins, boðar kærleikann sem er æðri öllu og við flest köllum Guð.

Mannhelgi
Hlutverk kirkjunnar er m.a. að styðja þau er stýra landinu okkar með því að biðja fyrir ykkur. Þið fáið bænir, hlýjar og sterkar hugsanir frá þeim er koma saman til bæna í hverri viku í kirkjum landsins.

Við þurfum ekki alltaf að vera sammála og við eigum ekki endilega að vera það en við getum gengið í takt þrátt fyrir ólíkar skoðanir því hjarta okkar allra slær fyrir velferð fólksins í landinu.

Það er með kirkjuna eins og ykkur, kæra alþingisfólk, að hún er fjöldahreyfing sem samanstendur af fólki með ólíkar skoðanir og ólíka reynsluheima, fólki sem oft er ósammála. Það er allt í lagi því okkur er öllum jafn holt að búa ekki í bergmálshellum.

Þá er ákaflega mikilvægt að við getum talað í hreinskilni og varað við þegar dansinn í kringum einhvern gullkálfinn ætlar að taka yfir.

Á þessu hausti liggja stór fyrir verkefni og nú við setningu Alþingis grúfir sorg yfir landinu okkar vegna erfiðra atburða sem hafa átt sér stað á undanförnum vikum. Fjöldi fólks hefur leitað huggunar í kirkjum landsins þar sem boðið hefur verið upp á minningarstundir, bænastundir og sálgæslu.   Nú er það verkefni okkar allra að vinna að velferð barna og ungs fólks þessa lands og leggja okkar að mörkum til að skapa börnum okkar innhaldsríkt líf sem ekki fer eingöngu fram fyrir framan skjái og á samfélagsmiðlum. Við þurfum að búa börnum okkar samfélag sem ekki stýrist af tómlæti, ótta og óöryggi heldur kærleika og umhyggju. Samfélag þar sem hver einasta manneskja er metin að verðleikum, hvaðan sem hún kemur og hvert sem hún er að fara. Og þessi mannhelgi þarf að endurspegla allar ákvarðanir Alþingis og framgöngu okkar allra sem byggjum þetta land.

Kæru vinir, Guð gefi ykkur kjark, visku og styrk en þó fyrst og fremst opið hjarta og kærleika á komandi tímabili. Guð blessi ykkur öll í ykkar mikilvægu þjónustu sem varðar líf og framtíð okkar allra.

Dýrð sé Guði sem vísar veginn og elskar allar manneskjur jafnt.

 

Tengdamóðirin

Eftir Prédikanir

Prédikun flutt við biskupsvígslu í Hallgrímskirkju 2024

 

Tengdamóðirin
„Hann tók í hönd henni og reisti hana á fætur“
Hún skildi um leið hvað hafði gerst. Hún hélt sínu striki, sinnti sínu starfi. Hún sá til þess að fólkið fengi að borða og að einhver vaskaði upp. Hún gekk í verkin, þakklát fyrir að hafa öðlast nýtt líf.

Hefur einhver reist þig upp? Hefur þú verið reist/ur upp til þess að lifa með reisn, vera sú manneskja sem þér er ætlað að vera?

Sjáum þetta fyrir okkur: Jesús er nýbúinn að velja fyrstu lærisveinana og þeir eru allir nafngreindir. Hann er búinn að kenna í samkundunni og reka út illan anda og orðspor hans er farið að berast um alla Galíleu. Honum er þá boðið í mat heim til vina sinna, sem hann hafði útvalið til að gegna stöðu lærisveina. Þetta voru bræðurnir Símon og Andrés. Þegar þangað er komið er honum tjáð að tengdamóðir Símonar sé veik. Hún er með sótthita en sótthiti á þessum tíma gat þýtt að hún væri deyjandi. Jesús gengur þá til hennar tekur í hönd henni og reisir hana á fætur. Sótthitinn fer þá úr henni og hún gengur þeim fyrir beina.

Hér langar mig að staldra við. Það kann að þykja ankannalegt, séð með augum nútímafólks, að aumingja konan hafi ekki fengið að jafna sig aðeins áður en hún gekk í húsfreyjustörfin. Hvers vegna gátu Símon og Andrés ekki sjálfir séð til þess að fólkið fengi að borða auk þess sem fleira fólk var að öllum líkindum þarna til heimilis. Jafnvel harðasta tengdamóðir í bókum Guðrúnar frá Lundi hefði þegið góðan kaffibolla og svolitla hvíld áður en hún færi að taka til hendinni. Nei, hún fer beint að þjóna fólkinu til borðs.

Ég held, að það að tengdamóðirin fari beint að sinna húsfreyjustörfunum sýni okkur tvennt; Það sýnir okkur annars vegar að hún var sannarlega orðin heil heilsu (upprisin) og gat því sinnt skyldum sínum af fullum krafti. Hins vegar sýnir það okkur að hún skildi hvað hafði gerst. Hún skildi hvað það raunverulega þýddi að fylgja Jesú Kristi.

Upprisa og kærleiksþjónusta
Þegar Jesús tekur í hönd hennar og reisir hana á fætur þá er því lýst með sama gríska hugtaki og Markús guðspjallamaður notar til þess að lýsa upprisu Krists, „egeiro“. Með því er lögð áhersla á að hún sé sannarlega upprisin. Hún er risin upp til þess að vera hún sjálf eins og henni er ætlað að vera. Hún er full af lífskrafti, getur annast sínar skyldur og lifað með reisn. Ég er alls ekki viss um að hún sé endilega laus við alla krankleika sem hafa einhverntíma tíma hrjáð hana. Ég ekki viss um að við þessa upprisu hafi sjónin á vinstra auganu lagast, giktin eða mígrenið. Nei, hún er ekki upprisin til að vera ofurmanneskja heldur til þess að vera sú sem hún er og lifa verðugu lífi.

Þegar hún finnur að hún er orðin hún sjálf á ný sýnir hún að hún skilur út á hvað þetta gengur og fer að sinna sínum skyldum, sínu hlutverki. Og hér er því lýst með sögninni, „diakoneo“. Hún fer beint að annast kærleiksþjónustu. Jesús notar sjálfur hugtakið kærleiksþjónusta til að lýsa sínu hlutverki hér á jörð. Kærleiksþjónusta er mikilvægasta hlutverk hverrar kristinnar manneskju, að þjóna náunganum (koma til móts við þarfir hans) og að þjóna Guði í kærleika.

Tengdamóðirin er konan sem gengur í það sem þarf að gera til þess að þjóna náunganum og Guði. Hún er fyrsti djákninn og hún er fyrsti sanni lærisveinninn. Hún er fyrirmynd hinnar kristnu manneskju. Hennar hlutverk var að sjá til þess að fólk fengi að borða, vera góður gestgjafi og þetta hlutverk annaðist hún af kærleika. Þessi kona hefði ekki hlaupið til Jesú í vandræðagangi þegar hann var að kenna 5000 manns á fjallinu forðum og fólkið hafði ekki nóg að borða. Nei, hún hefði gengið í málið útvegað fiska og brauð og séð til þess að fólkið fengi að borða. Þessi kona vissi það sem konur á öllum tímum hafa vitað:
Eftir allar veislur þarf einhver að vaska upp.

Nafnlaus kona með stórt hlutverk
Þrátt fyrir allt sem fram er komið þá er þessi kona ekki nafngreind í Biblíunni. Hún er aðeins hluti af sögu sem er næstum því eins og innan sviga. Þessu er öfugt farið með tengdason hennar, Símon. Hann fær ekki einungis nafnið sitt nefnt í Biblíunni heldur fær hann tvö nöfn því Jesús gefur honum síðar nafnið Pétur, sem þýðir klettur. Og Símon Pétur er langt frá því að skilja hlutverk sitt á öllum stundum. Hann veit ekkert hvað hann á að gera þegar 5000 manns eru orðin svöng. Hann gerir mistök, er óöruggur í hlutverki sínu og gagnvart hinum lærisveinunum. Þegar Jesús er handtekinn afneitar hann honum þrisvar. Hann er með öðrum orðum, ósköp venjuleg manneskja eins og hver og ein okkar og skildi alls ekki alltaf út á hvað lærisveinahlutverkið gekk og þannig fólki treystir Jesús fyrir stórum hlutverkum.

Við getum þó gert ráð fyrir því að tengdamóðirin, sem aldrei er nafngreind hafi verið í hópi fylgjenda Jesú því við vitum að læsisveinahópurinn var mun stærri en þessir tólf sem eru sérstaklega valdir og nafngreindir og við vitum einnig að meðal lærisveinanna voru konur. Við vitum líka að þegar Jesús var krossfestur þá flúðu þessir nafngreindu á meðan konur úr hópnum hans stóðu álengdar og yfirgáfu hann ekki. Möguleg skýring er þó að karlmennirnir hafi verið í meiri hættu þarna en konurnar. Konur voru jú ekki pólitísk ógn við neinn, nafnlausar og réttindalausar sem þær voru. Og við vitum einnig að það voru konur sem fyrstar komu að gröfinni tómri og það voru konur sem Jesús sendi út til þess að boða upprisu hans frá dauðum.

Við skulum því ekki láta nafnleysi konunnar blekkja okkur.

Að rísa upp
„Hann tók í hönd henni og reisti hana á fætur“
Hefur þú verið reistur/reist á fætur?

Við þörfnumst öll upprisu frá einhverju. Það geta verið veikindi, ósiðir, fíkn, áföll eða hvað eina. Við sleppum ekki við einhvers konar sótthita sem hindrar okkur frá því að vera sú manneskja sem okkur er ætlað að vera. Og þegar við erum þjökuð af sótthitanum, hvort sem það eru áföllin okkar sem hafa orsakað hann eða eitthvað annað, þá getum við ekki sinnt þeirri kærleiksþjónustu að fullu sem við erum hvert og eitt kölluð til að annast á akri Guðs.

Það er ekki einungis við mannfólkið sem reglulega þörfnumst upprisu. Hið sama á við um samfélög og kirkjuna.

Saga innan sviga
Þegar ég nefndi að þessi saga væri næstum því sögð innan sviga átti ég við það að hún gerist innan veggja heimilis. Það voru ekki mörg vitni að þessari upprisu. En þrátt fyrir það breiddist sagan út og þegar kvölda tók kom allur bærinn saman við dyrnar og fjöldi fólks vildi fá lækningu.

Jesús var enginn „pr“ maður. Hann var ekki að hugsa um markaðssetningu, samskiptastefnu eða kynningarmál. Hann boðaði fagnaðarerindið og vann sín verk, oft í kyrrþey, uppi á fjöllum, inni í bæjum, í kirkjum (samkunduhúsum) og á heimilum. Hann bað fólk stundum að tala ekki um kraftaverkin en fagnaðarerindið mátti berast. Hann vissi hvað skipti máli; það var kærleiksboðskapurinn og ekkert annað. Hann vissi væntanlega einnig að það gat verið hættulegt fyrir hann að orðspor hans færi of víða því það ógnaði mörgum.

Með sama hætti á góð kristin manneskja að vinna verk sín í auðmýkt og kyrrþey og á sannarlega ekki að auglýsa góðverkin. Þau eiga að vera sjálfsögð og í nafni Guðs en ekki okkar eigin.

Við eigum að vera auðmjúk og tala ekki of mikið um það sem gengur vel eða segja frá því sem við erum að gera því annars erum við raupsöm og hreykjum okkur upp. Ekkjan gaf eyri sinn í kyrrþey á meðan ríki maðurinn barði sér á brjóst fyrir rausnarskap sinn.

Þennan boðskap hefur Þjóðkirkjan tekið alvarlega. Við höfum lagt okkur fram um að þjóna Guði og fólki vel en ekki verið að segja svo mikið frá því. Starfið í Þjóðkirkjunni er því eitt best geymda leyndarmálið á Íslandi. Við höfum ekki viljað vera að trana okkur fram heldur vinna verkin í hljóði. Og þegar við verðum fyrir aðkasti erum við áfram prúð og stillt, vinnum okkar verk og leiðréttum ekki misskilninginn.

Það er þó svo að þegar við segjum frá mikilvægu starfi kirkjunnar, kærleiksþjónustunni, sálgæslunni, þjónustunni við syrgjendur og frá öllum þeim fjölda sem sækir kirkju á gleði og sorgarstundum. Þegar við segjum frá helgihaldinu, tónlistarstarfinu og barnastarfinu þá eru við ekki að hreykja okkur sjálfum upp. Við erum ekki að berja okkur persónulega á brjóst og gera okkur breið. Við megum vera stolt af kirkjunni okkar og við eigum að vera stolt af verki Guðs. Því þá erum við stolt af því að fá að þjóna Guði í kærleika og leggja örlítið af mörkum til þess að gera heiminn betri. Þeim mun fleiri sem þekkja til kærleiksþjónustu kirkjunnar, þeim mun fleiri fá að njóta hennar og vera hluti af henni.

Upprisa frá sótthita
„Hann tók í hönd henni og reisti hana á fætur“.
Kirkjan okkar þarfnast reglulegrar upprisu.
Samfélög heims þarfnast reglulegrar upprisu.
Við, hvert og eitt þurfum reglulega á upprisu að halda því ekkert okkar kemst undan einhvers konar sótthita.

Kirkjan þarf reglulega að taka í hönd Krists og leyfa honum að reisa sig við til þess að vera sú kirkja sem hann ætlar henni að vera.

Samfélög sem ala á ótta og ráðast á saklaust fólk þurfa á upprisu að halda. Samfélög sem markvist mismuna fólki á grundvelli kyns, kynhneigðar, kynþáttar, trúar eða nokkurs annars þurfa á upprisu að halda. Samfélög sem eru að reyna að gera sitt besta þurfa reglulega á upprisu að halda.

Kirkja og samfélög eru nefnilega byggð upp af Símonum Pétrum og tengdamæðrum, nafnlausu fólki sem kann að annast kærleiksþjónustu og fólki sem gerir mistök. Kirkja og samfélög samanstanda af allskonar fólki eins og þér og mér.

En hvernig á þessi upprisa sér stað? Hvernig tekur Kristur í höndina á þér svo að þú getir risið á fætur? Hvernig getur hann reist kirkju og samfélög upp?

Það krefst hugrekkis og trausts að þiggja upprisu. Það krefst hugrekkis og sjálfsþekkingar að viðurkenna takmarkanir okkar og breiskleika og opna okkur fyrir upprisu frá þeim.

Upprisan getur átt sér stað með ýmsum hætti því Guð, hinn æðsti og mesti kærleikur vinnur á svo margbreytilegan hátt.

Guð vinnur í gegnum fólkið kringum okkur. Þegar þú mætir manneskju sem sér þig og er tilbúin til þess að rétta þér höndina og reisa þig á fætur, þá er þar mögulega Guð á ferð.

Þegar bænum þínum er svarað, þá er þar Guð á ferð.
Þegar þú finnur að þú ert borin í gegnum sótthitann, þá er Guð þar að verki.
Þegar við leggjum okkur fram um að vinna að sannri kærleiksþjónustu og gera heiminn að friðsamari og betri stað þá erum við að leggja okkar að mörkum til að reisa fólk og samfélög upp. Þá erum við hendur Guðs í heiminum.

„Hann tók í hönd henni og reisti hana á fætur“. Það hefði ekki gerst ef hún hefði ekki rétt fram höndina og þegið upprisuna.
Hún var tilbúin.
Ert þú tilbúin/n/ð.
Hann mun taka í hönd þér og reisa þig á fætur, treystu því!

Dýrð sé Guði sem reisir okkur upp frá takmörkunum okkar og læknar okkur af sótthitanum.
Amen